Hæstiréttur íslands
Mál nr. 548/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. júlí 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. ágúst 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness [...] var varnaraðili sakfelldur meðal annars fyrir að hafa tvívegis á árinu 2014 ráðist á brotaþola og valdið henni líkamsáverkum. Voru brot varnaraðila talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og honum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað í þrjú ár frá uppkvaðningu dómsins að telja og skyldi hún niður falla héldi varnaraðili almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Fram er kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með háttsemi þeirri sem hann er sakaður um og varðar fangelsisrefsingu rofið í verulegum atriðum þau skilyrði sem honum voru sett með dóminum. Samkvæmt þessu og með vísan til c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. júlí 2016
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. ágúst 2016, kl. 16:00.
Kröfuna byggir lögreglustjóri á c-lið 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð með kröfunni segir að kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá því sunnudaginn 24. júlí sl. sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þar um í málinu nr. R-[...], sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í málinu nr. [...]. Héraðsdómur Reykjaness hafi talið bæði skilyrði a- og c- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 uppfyllt, en í dómi Hæstaréttar sé ekki tekin bein afstaða til c-liðar, heldur er látið nægja að vísa til a-liðar til rökstuðnings á staðfestingu hins kærða úrskurðar.
Um málavexti segir að snemma í morgun hafi lögreglu borist tilkynning frá neyðarlínu um ætlað kynferðisbrot í íbúð að [...] í [...]. Á vettvangi hafi lögregla hitt fyrir brotaþola, A sem hafi vísað á kærða, X, þar sem hann hafi legið í sófa í stofu. Hafi komið fram hjá brotþola að kærði hefði beitt hana miklu ofbeldi um nóttina. Hafi brotþoli og kærði bæði verið með sýnilega áverka og á vettvangi hafi verið greinilega ummerki um átök. Hafi kærði verið handtekinn en brotþoli verið flutt á neyðarmóttöku Landsspítalans. Kærði sé fyrrum sambýlismaður brotþola og eigi þau tvö börn saman.
Á vettvangi og síðar við skýrslutökur á lögreglustöð hafi brotþoli lýst atburðum svo að um kl. 5:00 í nótt hafi kærði komið óumbeðinn að heimili hennar ásamt félaga sínum sem brotþoli hafi ekki vitað deili á. Brotþoli hafi verið komin á náttföt og hafi sagst ætla í rúmið. Skömmu síðar hafi kærði og félagi hans komið inn í herbergi og upp í rúm til hennar. Hafi þeir verið á nærbuxunum einum fata. Hafi kærði beðið um að brotþoli svæfi hjá þeim báðum en því hafi brotþoli neitað og sagt þeim að fara sem þeir hafi gert. Skömmu síðar hafi kærði komið aftur og þá beðið um gistingu sem brotaþoli hafi leyft en kærði hafi átt að gista í sófanum. Hann hafi síðar komið inn í svefnherbergi hennar og viljað hafa samfarir en hún hafi tjáð honum að það væri ekki í boði. Í framhaldi hafi kærði veist að brotþola og haft við hana samfarir án hennar vilja. Taldi brotaþoli atlögu kærða hafa staðið í yfir tvo klukkutíma en á þessum tíma hafi kærði ítrekað nauðgað brotþola, barið hana og hótað henni. Hafi hann þannig haft við hana samfarir um munn, í leggöng og í endaþarm. Hafi brotþoli lýst því að kærði hafi hótað henni með hníf og meðal annars borið hníf að hálsi hennar á meðan hann hafi haft samfarir við hana. Hafi hún hlotið skurð á höku eftir hnífinn. Þá hafi brotþoli sagt að sér væri svo heitt en kærði hafi meinað henni að opna glugga en leyft henni að fara í sturtu. Hann hafi svo nauðgað henni í sturtunni og skellt henni á vegg þar. Brotþoli hafi jafnframt lýst því að hún hefði á einhverjum tímapunkti í atburðarrásinni reynt að komast að útidyrahurð til að kalla á hjálp en kærði hafi náð henni, haldið henni niðri og tekið hana kverktaki þar til hún hafi misst meðvitund. Einnig hafi komið fram hjá brotþola að kærði hafi ítrekað hótað henni lífláti og jafnvel talað um að taka eigið líf um leið. Kveðst brotþoli hafa óttast mjög um líf sitt og talið að kærði ætlaði sér virkilega að drepa hana. Kvaðst brotþoli hafa reynt að ná til kærða með því að ræða við hann um börn þeirra en hún hafi ekkert náð til hans, hann hafi virst brjálaður. Kærði hafi á einum tímapunkti brotnað niður og farið að gráta og boðið henni að hringja á lögreglu. Hafi hann rétt henni síma sinn til þess en tekið hann aftur þegar brotaþoli hafi reynt að hringja. Þá hafi hann veitt sjálfum sér áverka á háls með hnífnum. Eftir þetta hafi ekki verið meira ofbeldi en brotaþoli hafi þó verið of hrædd til að reyna að komast burtu. Brotþoli kvaðst að lokum hafa komist í símann sinn og sent skilboð í 112 og beðið um hjálp. Þegar ekkert hafi gerst hafi hún sent vinkonu sinni skilboð með Snapchat en sú hafi þá hringt í neyðarlínuna.
Þá segir í greinargerðinni að samkvæmt skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem gerð hafi verið á Landspítalanum fyrr í dag, séu áverkar á brotaþola í samræmi við frásögn hennar af atburðum. Sé niðurstaða læknis sú að brotþoli sé með útbreidd verksummerki um ofbeldi um allan líkama. Meðal annars skurð vinstra megin á höku sem hafi þurft að sauma og talsvert hafi blætt úr, eymsli og bólgu á báðum kinnbeinum, talsverðar blæðingar um slímhúð beggja augna og mikinn roða og rispur framanvert á hálsi. Um allan líkamann séu roðablettir og línur, mar og rispur ásamt þreifieymslum víða. Þá séu sár á báðum olnbogum og báðum hnjám. Í skýrslunni segir að þessir áverkar komi heim og saman við mikið ofbeldi og áverki á hálsi passi við þá sögu að brotþoli hafi verið tekin hálstaki svo að legið hafi við kyrkingu. Þetta styðji einnig blæðingar undir slímhúð beggja augna. Þá hafi brotþoli kvartað undan því að hún heyrði minna með vinstra eyra en í síðari skoðun á bráðamóttöku hafi komið í ljós að hún var með sprungna hljóðhimnu. Þá hafi jafnframt komið fram í niðurstöðu læknis að við skoðun á kynfærum hefðu komið fram áverkar á kynfærum, þ.e. sprungur í húð á svæði frá endaþarmi og alveg fram í spöng, sem ekki kæmu við venjulegt kynlíf. Við skoðun lögreglu á vettvangi hafi mátt sjá blóðslettur víða um íbúð brotþola. Meðal annars blóð á gólfi inngangs. Þá hafi fundist hnífur með blóði í vaski baðherbergis.
Við skoðun lögreglu á vettvangi hafi mátt sjá blóðslettur víða um íbúð brotþola, m.a. í forstofu, á gangi við barnaherbergi, stofu og svefnherbergi. Blóð hafi einnig fundist við sófa en kærði hafi setið þar þegar lögregla kom að. Þá hafi fundist hnífur með blóði í vaski baðherbergis. Muni hnífurinn vera nokkuð beittur. Inni á baðherbergi hafi allt verið á floti og augljóst að sturtan hafði verið í gangi. Í sturtuklefanum hafi fundist hár á vegg, síð hár. Var það mat rannsóknarlögreglumanns á vettvangi að þessi hár væru nýkomin á vegginn því þau hefðu skolast niður næst þegar skrúfað væri frá vatninu. Á gólfi í svefnherbergi hafi fundist töluvert af hári.
Ennfremur segir að kærði neiti sök. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst hann hafa komið á heimili brotaþola ásamt félaga sínum B. Þeir hafi lagst í rúmið hjá brotaþola en það hafi einungis verið í gríni. Eftir smá stund hafi B farið en brotaþoli hafi samþykkt að leyfa honum að gista. Þau hafi verið að kúra og kyssast og svo hafi þau byrjað að hafa samfarir. Kærði sagði brotaþola vilja hafa samfarir harkalegar og biðji hann um að slá sig utan undir og rífa í hárið sér og líka taka utan um hálsinn á sér. Sagðist kærði halda utan um hálsinn á henni í stutta stund í hvert skipti sem hann geri það. Hann hafi ekki haldið þannig að væri óþægilegt, þannig að hún væri að fara missa andann, þetta hafi bara verið í örfáar sekúndur. Samfarirnar hafi staðið yfir í um 15 til 20 mínútur, eftir það hafi þau farið í sturtu. Eftir það hafi kærði fengið Snapchat skilaboð frá stelpu sem brotaþoli hafi séð. Við það hafi brotþoli misst stjórn á skapi sínu, sótt hníf og hótað kærða. Hafi hún veitt honum áverka á hálsi. Hann hafi verið undrandi og spurt hana hvað hún væri að hugsa. Þá hafi hún sýnt honum fram á að þetta væri ekki hættulegur hnífur og hafi hún við það óvart veitt sjálfri sér áverka á höku. Um áverka að öðru leyti kvaðst hann vita til þess að hún hafi lent í slagsmálum niðri í bæ á síðasta fylleríinu sínu. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð áverka á brotaþola umrætt sinn. Neitaði hann því aðspurður að hafa skorið hár af brotaþola. Aðspurður um hár sem fannst á vettvangi lýsti hann því að brotaþoli færi mikið úr hárum. Kærði hafi aftur verið yfirheyrður þann 27. júlí sl. Ítarlega spurður um áverka á brotaþola hafi kærði kannast við að blæðing undir slímhúð auga og roði á hálsi gætu verið áverkar eftir kynlíf þeirra. Varðandi áverka að öðru leyti kvaðst hann ýmist ekki vita hvernig þeir væru tilkomnir eða taldi hana hafa veitt sér þá sjálf eða meitt sig við ýmis tækifæri.
Í upplýsingaskýrslu um samtal lögreglu við C sé haft eftir henni að hún hafi verið í facebooksamskiptum við brotaþola um kl. hálf sex á sunnudagsmorgninum þann 24. júlí sl. Samskiptin liggja fyrir í gögnum málsins. Síðar hafi hún fengið skilaboð frá brotaþola um að hringja í lögreglu. Einnig hafi hún fengið snapchat frá brotaþola um að hringja strax í lögreglu vegna nauðgunar og tilraunar til manndráps. C kvaðst þá strax hafa hringt í lögreglu. B hafi því í skýrslutöku hjá lögreglu að kærði hafi hringt í brotaþola og spurt hvort þeir gætu komið heim til hennar. Hann hafi ekki heyrt svar hennar en kærði tjáð honum að hún hefði svarað játandi. Einnig hafi kærði sagt honum að þeir myndu báðir fá að ríða henni því hún væri til í allt og væri svo gröð. Er þeir hafi komið að heimili hennar hafi þau farið öll upp í rúm. Brotaþoli og kærði hafi farið að kyssast og kærði suðað í henni um að þau myndu öll fara í „threesome“ þar sem hann ætti afmæli. Lýsti B því í skýrslutökunni að hann hafi áttað sig á því að það væri alls ekki að fara gerast. Þau hafi svo farið fram í stofu, brotaþoli hafi kysst kærða í sófanum en svo staðið upp og sagt þeim að fara í burtu. Hafi B skynjað það að hann og kærði væru ekki lengur velkomnir þarna. Hafi þeir farið út. Frammi á stigagangi hafi kærði rétt honum bíllykla sína og sagt honum að fara. Kærði hafi svo sjálfur farið inn í íbúðina. B lýsti því aðspurður að hann hafi ekki séð neina áverka á brotaþola er þau lögðust upp í rúm. Aðspurður lýsti hann því að þeir kærði hafi verið að skemmta sér aðfaranótt sunnudagsins 24. júlí sl., en verið komnir heim til hans um kl. 05:30. Taldi hann að þeir hafi verið heima hjá honum í u.þ.b. hálftíma en síðan farið heim til brotaþola.
Þá segir að kærði hafi neitað sök í yfirheyrslum hjá lögreglu, en kannist við að hafa haft kynmök við brotaþola með hennar samþykki og að kynlíf þeirra sé harkalegt að hennar beiðni. Í fyrri yfirheyrslu hjá lögreglu hafi hann kannast við að hafa tekið um háls brotaþola, hún hafi viljað það, en það varað stutta stund. Þetta hafi ekki valdið óþægindum þannig að hún væri að fara að missa andann.
Að mati lögreglu stangast framburður kærða í verulegum atriðum við önnur gögn málsins. Framburður brotaþola hjá lögreglu sé í öllum meginatriðum í samræmi við það sem haft er eftir henni í skýrslu læknis á neyðarmóttöku um réttarlæknisfræðilega skoðun. Í vottorðinu komi fram að hún sé með útbreidd verksummerki um ofbeldi um allan líkama sem sé í samræmi við frásögn hennar af atburðum, að áverkar hennar komi heim og saman við mikið ofbeldi. Áverkar á andliti, m.a. 4 cm stór skurður á höku, komi heim og saman við átök og að hnífur hafi komið við sögu. Áverki á hálsi passi við þá sögu að brotþoli hafi verið tekin hálstaki svo að legið hafi við kyrkingu. Þetta styðji einnig blæðingar undir slímhúð beggja augna. Þá hafi verið áverkar á kynfærum sem komi ekki við venjulegt kynlíf. Sé tekið fram að brotaþoli hafi greinilega verið í losti. Hún hafi tjáð þeim að hún hafi dottið út. Einnig sé að finna í gögnum málsins facebook skilaboð frá brotaþola til vinkonu sinnar, C, þar sem hún biðji hana kl. 07:48 um að hringja strax í lögreglu, X hafi nauðgað henni og reynt að drepa hana, hann væri að sofna í sófanum að hún telji, en hún þori ekki að hlaupa út í bíl af ótta við að hann elti hana. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi kærði verið í sófanum. Á vettvangi hafi verið ummerki um átök, blóðslettur um íbúðina og blóðugur hnífur í vaski inni á baði. Samkvæmt framburði vitnisins B hafi ekki verið sjáanlegir áverkar á brotaþola er hann hafi yfirgefið íbúðina fyrr um morguninn. Þá hafi B lýst því að brotaþoli hafi vísað honum og kærða út úr íbúðinni, þeir farið út, en kærði farið aftur inn. Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins þyki vera, að mati lögreglu, sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um verknað sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, þ.e. brot gagnvart 1. mgr. 194. gr., 211. gr., sbr. 20. gr., 2. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varðandi skilyrðið um sterkan grun vísar lögreglustjóri til dóms Hæstaréttar í málinu nr. [...]. Þá sé verknaðurinn, að mati lögreglustjóra, þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sé einnig talið að til þess verði að líta að kærði hafi hlotið þann [...] fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir tvær líkamsárásir gagnvart brotaþola, sjá til hliðsjónar varðandi þetta mat dóm Hæstaréttar í málinu nr. [...].
Segir í greinargerðinni að lögregla telji jafnframt fyrir hendi rökstuddan grun um að kærði hafi rofið í verulegum atriði skilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómi en samkvæmt upplýsingum úr málaskrá lögreglu sé kærði á skilorði vegna dóms sem hann hafi hlotið í Héraðsdómi Reykjaness í [...] í málinu S-[...] vegna tveggja líkamsárása gegn sama brotaþola og í máli þessu. Sé í þessu sambandi vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. [...] . Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verið hafnað, til vara að honum verði gert að halda sig á ákveðnu svæði og til þrautavara að henni verði markaður skemmri tími.
Eins og rakið er að framan ber mikið í milli í málavaxtalýsingu aðila. Með vísan til alls framanritaðs er fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá liggur fyrir, verði kæri fundinn sekur, að hann hafi rofið skilorð dóms nr. S-[...] eins og að framan er rakið en samkvæmt þeim dómi hlaut kærði fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm til þriggja ára fyrir líkamsárás gegn sama brotaþola. Eins og máli þessu er háttað telur dómurinn skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála uppfyllt.
Er fallist á kröfu lögreglustjóra um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi eins og í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 26. ágúst nk. kl. 16:00.