Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2014


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás
  • Hótanir
  • Skilorð


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 26. mars 2015.

Nr. 274/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Bruno Ivan de Jesus Pereira

(Kristján Stefánsson hrl.)

Brot gegn valdsstjórninni. Líkamsárás. Hótanir. Skilorð.

X var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, sbr. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa þegar lögregla hugðist handtaka hann vegna gruns um ölvunarakstur veitt mótspyrnu við handtökuna og slegið með krepptum hnefa í andlit á lögreglumanni og í kjölfarið hótað honum og öðrum lögreglumanni lífláti. Við ákvörðun refsingar var X gerður hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, og var refsing hans að virtu ákvæði 3. mgr. 106. gr. sömu laga ákveðin skilorðsbundið fangelsi í þrjá mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 398.001 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2014.

Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 14. janúar 2014 á hendur ákærða, Bruno Ivan de Jesus Pereira, kt. [...], [...], [...]. Málið var dómtekið 26. mars 2014.       

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir „brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 6. janúar 2013, utandyra við Æsufell 6 í Reykjavík, er lögregla hugðist handtaka ákærða vegna gruns um ölvunarakstur, veitt mótspyrnu við handtökuna og slegið með krepptum hnefa í andlitið á lögreglumanninum A, með þeim afleiðingum að A hlaut bólgu yfir vinstra kinnbeini, og í kjölfarið hótað honum og lögreglumanninum B lífláti.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

I.

Tildrög málsins eru þau, samkvæmt skýrslu A lögreglumanns, að framangreindir lögreglumenn hefðu aðfaranótt sunnudagsins 6. janúar 2013 veitt ökumanni bifreiðarinnar [...] athygli sem síðar kom í ljós að var ákærði. Þeir hafi gefið ákærða merki með forgangsljóskösturum um að stöðva bifreiðina, sem ákærði sinnti ekki. Eftir nokkurn eltingarleik hefðu þeir loks náð að stöðva bifreið ákærða. Þegar þeir hefðu komið upp að bifreið ákærða hefðu þeir orðið varir við áfengislykt og var þá ákærði beðinn um að koma yfir í lögreglubifreiðina. Eftir að ákærði hafði blásið í áfengismæli sem sýndi að ákærði væri undir áhrifum var ákveðið að handtaka ákærða grunaðan um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Við handtökuna hafi komið í ljós að ákærði gat með takmörkuðum hætti tjáð sig á íslensku en virtist skilja það sem sagt var við hann. Lögreglan hafi þá boðið ákærða að kynna honum réttarstöðu sína á ensku og að sögn lögreglu æstist ákærði við það. Síðan segir í skýrslunni: „Spurði ég hann aftur hvort vildi fá réttarstöðu sína kynnta á enskri tungu og aftur sagði Bruno “Mér er drullu sama“ en í það skipti sagði Bruno það hvasst og var orðinn æstur. Því næst fór Bruno með höndina í hægri buxnavasa og tók upp farsíma. Bentum við báðir á farsímann og sögðum Bruno að hann mætti ekki vera í farsímanum. Við það varð Bruno mjög æstur og ógnandi. Sló Bruno í hönd mína hallaði sér örlítið í áttina til mín. Ætlaði ég þá að halda Bruno við hurðina, þangað til hægt væri að setja hann í handjárn en þegar ég nálgaðist hann kom Bruno á móti mér og þurfti ég því að grípa utan um hann og halda þangað til að B gæti komið mér til aðstoðar. B kom svo og opnaði hurðina þar sem Bruno sat og reyndum við að koma honum út úr lögreglubifreiðinni og í lögreglutök. Bruno ríghélt í hurðarfals lögreglubifreiðarinnar þannig erfitt reyndist að ná honum út úr bifreiðinni. Loks náðum við þó að losa tak Bruno. Upp úr þessu hófust mikil átök, gáfum Bruno ítrekaðar skipanir að róa sig og leggjast á magann en Bruno gaf okkur ekkert eftir. Bruno reyndi eins og hann gat að sparka og kýla okkur á meðan þessum átökum stóð. Duttum við allir þrír svo í jörðina þar sem átökin héldu áfram. Litlu mátti muna að Bruno næði að sparka í andlit B. Bruno lá á bakinu en ég hallaði mér fram til þess að reyna halda honum niðri. Náði Bruno að kýla mig með krepptum hnefa með hægri hönd í vinstri hlið á andliti mínu. Fann ég vel fyrir þessu höggi. Bruno reif þá í tækjabelti mitt og skotvesti. Við það skemmdist hljóðnemi á Tetra stöð minni. Óskuðum við eftir aðstoð á forgangi 2 og kom stuttu síðar. Á meðan beðið var eftir aðstoð hótaði Bruno okkur nokkrum sinnum. Sagði Bruno ætla að finna og drepa okkur. Ekki fyrr en áhöfn [...] kom á vettvang náðist að færa Bruno í handjárn og bensla hann á fótum. Þegar verið var að færa Bruno í lögreglubifreið [...] reyndi hann ítrekað að sparka í lögreglumenn en án árangurs. Upplifðum við að báðir að Bruno ætlaði sér að meiða okkur.“     

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 6. janúar 2013. Hann neitaði því að hafa sparkað í eða til lögreglumannanna og að hafa haft í hótunum við þá. Ákærði sagði að þetta væri rangt hjá lögreglunni, þvert á móti hefðu lögreglumennirnir beitt hann ofbeldi. 

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð dags 10. apríl 2013 frá C sérfræðingi á slysa- og bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi. Þar kemur fram að við skoðun hafi A verið með væga bólgu yfir kinnbeini vinstra megin. Húð hafi verið heil og ekki að sjá mar. Engin teljandi eymsli hafi verið yfir andlitsbeinum né nokkur aflögun. Önnur áverkamerki hafi ekki fundist við skoðun. Kom fram að áverkinn samrýmdist vel lýsingu á áverkaferli.

II.

Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi og kom fram hjá honum að hann hefði verið að keyra heim til sín og verið ölvaður. Lögregla hefði stöðvað hann og farið með hann inn í lögreglubifreiðina, þar sem þeir hefðu tekið af honum bíllyklana. Hann hafi ætlað að hringja í barnsmóður sína og láta hana vita en lögreglan hefði þá viljað taka af honum símann. Hann hefði neitað því og ekki viljað afhenda símann. Hefðu þeir farið með hann út úr bifreiðinni og tekið hann tökum. Hann hefði brugðist við og varið sig því handtakan hafi verið harkaleg. Sagðist ákærði hafa reynt að snúa sér þegar þeir sneru hann niður, í þeim tilgangi að losa sig. Sagðist hann ekki hafa slegið eða sparkað og þvertók fyrir að hafa haft í nokkrum hótunum við lögreglumenn. Aðspurður sagðist hann hafa verið mjög rólegur en lögreglan hefði öskrað á hann og kallað hann nöfnum. Aðspurður neitaði hann að hafa kallað lögreglumenn nöfnum, en hann hafi öskrað og kallað á kærustuna sína. Hann hafi talað á sínu eigin tungumáli þar sem hann hefði verið reiður og ekki getað talað íslensku. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vita hvernig lögreglumaður hefði fengið umrædda áverka, hann hefði ekki ráðist á lögregluna né kýlt, en að hann gæti hafa slegið lögreglumanninn er hann var að reyna að losa sig.

III.

Vitnið A lögreglumaður lýsti atburðum þannig fyrir dómi að umrædda nótt hefði það ásamt starfsfélaga séð ákærða aka bifreið eftir [...], er þeir ákváðu að stöðva hann til að kanna ástand hans. Ákærði hafi ekki stöðvað þegar í stað en síðan lagt bifreiðinni og þeir gengið til hans. Ákærði hefði borið þess merki að vera undir áhrifum áfengis og hugsanlega kannabisefna. Hann hefði gengið með þeim að lögreglubifreiðinni og verið þá rólegur og kurteis. Í lögreglubifreiðinni hefði ákærði verið beðinn um að blása í áfengismæli og svo tilkynnt að hann væri handtekinn fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hefði vitnið spurt ákærða hvort hann skildi alveg þegar honum voru lesin réttindi sín á íslensku og boðið honum að þau yrðu lesin á ensku. Hefði ákærði þá orðið pirraður og sagt að honum væri ,,drullusama“. Hefði ákærði þá tekið upp farsíma sem þeir vildu ekki að hann væri með. Er vitnið tjáði ákærða það, hefði ákærði slegið í hönd vitnisins. Vitnið sagðist hafa reynt að tryggja ákærða á meðan félagi þess hafi verið að fara kringum bifreiðina til að koma því til aðstoðar við að koma ákærða í handjárn. Það hefði gengið brösuglega og vitnið hefði endað á því að grípa utan um ákærða og halda honum upp að sér, þar til aðstoð hafi borist. Vitnið lýsti því að ákærði hefði gripið í hurðarfalsið á bifreiðinni og ríghaldið sér og hefði þurft átök til að losa hann. Er þeir hafi verið komnir með ákærða út úr bifreiðinni hefði ákærði reynt að sparka og kýla. Lýsti vitnið því að þar sem hálka hefði verið úti hafi gengið illa að ná ákærða í lögreglutök og endað með því að þeir hefðu reynt að snúa hann niður en síðan dottið allir þrír í jörðina. Hefði ákærði endað á bakinu og lögreglumennirnir hvor sínum megin við hann. Er þeir hafi verið að reyna að ná honum í tök hafi það ekki tekist og hafi ákærði reynt að sparka í þá og berjast við þá. Vitnið lýsti því að þá hafi ákærði slegið hann með hnefa í andlitið. Vitnið sagðist hafa upplifað það þannig að ákærði hafi verið að nota allar leiðir til að losna ásamt því að reyna að meiða lögreglumennina. Vitnið lýsti því aðspurt að ákærði hefði ekki átt erfitt með andardrátt, hann hefði öskrað og kallað bæði á íslensku og tungumáli sem vitnið skildi ekki. Hefði ákærði hótað lögreglumönnunum lífláti. Vitnið sagðist hafa tekið hótanir ákærða alvarlega miðað við þá miklu heift og reiði sem hann hefði sýnt af sér. Aðspurt sagðist vitnið ekki hafa tekið eftir því hvort einhverjir hefðu orðið vitni að atburðinum. Aðspurt lýsti vitnið högginu sem þéttingsföstu. Aðspurt sagði vitnið að lögreglumenn hefðu ekki kallað ákærða nöfnum en þeir hafi öskrað á ákærða er hann hafi sýnt þeim mótþróa. Aðspurt lýsti vitnið áverkum sínum þannig að um hafi verið að ræða roða og bólgu. Aðspurt um handtöku manns inni í bifreið lýsti vitnið því að markmiðið væri að klemma viðkomandi upp við bílhurð en það hefði ekki gengið í umrætt sinn. Aðspurt um þá aðferð að það hafi gripið um andlit og háls ákærða við handtökuna, sagði vitnið að það hafi orðið að grípa til valdbeitingar þar sem ákærði hafi slegið það í handlegginn og það hafi talið mikilvægt að tryggja öryggi sitt. Aðspurt um hvort einhver hafi komið á vettvang sagði vitnið að kona ákærða hefði komið að bifreiðinni en ekki hefði verið tekin skýrsla af henni. Aðspurt sagðist vitnið hafa unnið frumskýrslu en ekki komið að frekari rannsókn málsins. Aðspurt um það hvort hótun ákærða hefði vakið hjá því ótta sagðist vitnið ekki muna það nákvæmlega, það væri ekki hrætt við ákærða í dag. Aðspurt um handtöku einstaklings inni í bifreið sagði vitnið að mikilvægt væri að tryggja eigið öryggi og að það hefði upplifað ástandið í bifreiðinni þannig að þurft hefði að koma ákærða í handjárn.

Vitnið B lögreglumaður greindi frá því fyrir dómi að lögregla hefði verið við eftirlit er þeir hafi orðið varir við bifreið er ákærði ók. Hefðu þeir stöðvað bifreiðina og fundið áfengis- og kannabislykt úr bifreiðinni er þeir ræddu við ákærða. Hafi ákærði verið beðinn um að koma yfir í lögreglubifreiðina þar sem hann, ásamt öðrum lögreglumanni, settist í aftursætið. Hefði ákærði þar blásið í áfengismæli og mælst yfir mörkum og því hafi þeir orðið að handtaka hann. Er lögregla hafi kynnt ákærða að hann væri handtekinn, hefði hann tekið upp síma sem lögregla bannaði honum að gera. Hefði ákærði þá slegið til félaga vitnisins og hafi upp úr því hafist átök er þeir reyndu að koma ákærða út úr bifreiðinni til að koma honum í handjárn. Hafi átökin haldið áfram fyrir utan bifreiðina og þar hefði ákærði kýlt félaga vitnisins og gert tilraun til að sparka í andlit vitnisins. Hefðu þeir óskað eftir aðstoð sem hafi komið fljótlega á staðinn og þá hefði náðst að setja ákærða í járn og flytja í lögreglubifreið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð þegar ákærði sló í andlit lögreglumannsins. Aðspurt sagðist vitnið telja að þau tök sem við voru höfð inni í lögreglubifreiðinni hefðu verið eðlileg og nauðsynleg, hefði vitnið talið líklegt að ákærði myndi skalla þá. Aðspurt sagði vitnið að ákærði hefði hótað þeim og fjölskyldum þeirra lífláti. Aðspurt kvaðst vitnið telja það ólíklegt að þau högg sem ákærði hefði veitt og reynt að veita þeim hafi eingöngu verið tilraun til að losna, og að enginn vafi væri á því að hann hefði reynt að slá til þeirra og sparka. Aðspurt lýsti vitnið roða á andliti félaga síns, á kinn og umhverfis auga og taldi að þeir hefðu farið á slysadeild mjög fljótlega eftir atburðinn. Aðspurt lýsti vitnið því að ákærði hefði verið rólegur til að byrja með, vitnið teldi að handtakan hefði verið með eðlilegum hætti og meðalhófs verið gætt. Aðspurt sagði vitnið að erfitt væri að athafna sig í aftursæti bifreiðar og þau tök sem notuð voru hafi verið nauðsynleg. Aðspurt sagði vitnið að hótun ákærða hefði verið tekin alvarlega þar sem hann hefði þá þegar veist að lögreglumanni.

Vitnið D, sem er barnsmóðir ákærða, gaf skýrslu fyrir dómi. Lýsti það atburðinum á þann hátt að það hefði heyrt ákærða kalla nafn sitt. Hafi vitnið þá farið út á svalir og séð að tveir lögreglumenn hafi haldið ákærða á jörðinni. Sagðist vitnið hafa horft á það sem fram fór í u.þ.b. fimm mínútur áður en hún fór niður og hefði annar lögreglubíll þá verið kominn á vettvang. Aðspurt sagði vitnið að það væri ljóskastari á húsinu og því hafi það séð vel það sem fram fór. Vitnið hefði verið á 5. hæð og ljóskastari væri á efstu hæð hússins, sem er 8. hæð. Hefði ákærði verið æstur og reynt að losna, hann hefði legið á bakinu og hvorki slegið eða sparka, né gert sig líklegan til að kýla lögreglumenn. Ákærði hefði mest verið að reyna að ýta lögreglumönnum af sér. Vitnið taldi aðgerðir lögreglu harkalegar og það hefði ekki orðið vart við neinar hótanir í garð lögreglumanna af hendi ákærða. Vitnið sagðist hafa gefið sig fram við lögreglu á vettvangi og að lögregla hefði ekki tekið neina skýrslu af því í málinu. Aðspurt sagðist vitnið ekki hafa heyrt ákærða kalla neitt nema nafnið þess. Aðspurt sagðist vitnið ekki vera fullvisst um að fimm mínútur hafi liðið meðan það var á svölunum.

Vitnið C, sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landsspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, gaf símaskýrslu fyrir dómi. Vitnið staðfesti að hafa gefið út það vottorð sem fyrir liggur í málinu og skoðað sjúklinginn sjálfur. Aðspurt sagðist vitnið muna eftir því að hafa skoðað umrædda áverka og að útlit þeirra samrýmdist því að þeir hefðu komið við högg á andlitið. Aðspurt sagði vitnið að erfitt væri að segja til um það nákvæmlega hversu gamlir áverkar væru við skoðun. Aðspurt sagði vitnið að það teldi ólíklegt að svona áverki kæmi við létt högg, eins og ef hönd væri sveiflað í andlitið.

IV.

Ákærði hefur staðfastlega neitað fyrir dómi að hafa haft í hótunum við lögreglumenn og að hafa kýlt lögreglumann.

Með framburði vitna og myndskeiði úr Eye-Witness-búnaði lögreglubifreiðarinnar sem liggur frammi í málinu telst sannað að ákærði veitti mikið viðnám og sló til lögreglumanns þegar lögreglumenn reyndu að taka farsíma af ákærða. Vitnisburður D getur ekki varpað ljósi á málið, þar sem fram kom í skýrslu hennar fyrir dómi, að hún hefði þurft að fara af fimmtu hæð hússins og niður á bílastæði er átökin áttu sér stað. Samkvæmt framangreindu myndskeiði liðu einungis tvær mínútur frá því að ákærði var kominn út úr bílnum þar til lögreglu barst liðsauki. Vitnið gat ekki sagt til um hvað gerðist á meðan hún var að fara á milli hæða. Aftur á móti kom fram í vitnisburði hennar að ákærði hefði verið æstur og reynt að losa sig frá lögreglu. Ber þeim vitnisburði saman við vitnisburð lögreglumannanna um það að ákærði hafi slegist um fyrir utan lögreglubifreiðina. Af framburði vitnanna og myndskeiðinu verður ráðið með vissu að ákærði beitti ýtrustu kröftum þegar hann reyndi að koma í veg fyrir handtöku og flaugst á við lögreglumenn. Ákærða mátti vera ljóst að slys gat hlotist af mótþróa hans við handtökuna, en hann barðist um engu að síður. Einnig kemur fram í vitnisburði læknisins C  að hann teldi ólíklegt að áverki á lögreglumanni gæti komið við létt högg, eins og ef hendi væri sveiflað í andlitið. Telst því sannað að ákærði hafi slegið lögreglumanninn A í andlitið og með því brotið gegn valdstjórninni, eins og því er lýst í ákæru og þeim refsiákvæðum sem tilfærð eru þar.

Fyrir dómi hafa lögreglumennirnir borið einum rómi að ákærði hafi hótað þeim og fjölskyldum þeirra lífláti er átökin áttu sér stað utan við lögreglubifreiðina. Með þessum samhljóða vitnisburðum er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru en það brot varðar jafnframt við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði 3. maí 2011 dæmdur til greiðslu sektar fyrir líkamsárás. Þá gekkst ákærði undir tvær lögreglustjórasáttir 7. maí 2013 fyrir brot gegn umferðarlögum. Var refsing ákveðin 260.000 króna sekt auk þess sem ákærði var sviptur ökurétti í eitt ár. Brot ákærða nú var framið áður en ákærði gekkst undir viðurlög samkvæmt umræddum sektargerðum og verður honum því gerður hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu og þegar litið er til þess að ákærði hefur áður verið sakfelldur fyrir líkamsárás, sbr. 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar, bundið almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem þykja hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.

Guðfinnur Stefánsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Bruno Ivan de Jesus Pereira, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 199.650 krónur í sakarkostnað, þar með talin þóknun verjanda ákærða, Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur.