Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Vörumerki


Föstudaginn 24

 

Föstudaginn 24. júní 2005.

Nr. 259/2005.

Myllan-Brauð hf.

(Ragnar H. Hall  hrl.)

gegn

Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co ehf.

(Árni Pálsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann. Vörumerki.

B hafði um árabil framleitt og selt vöru sem bar heitið „Heimilisbrauð“ með framleiðsluaðferð M og með heimild í samningi við það félag. Samkvæmt samningnum skuldbatt B sig meðal annars til að framleiða ekki vöruna „Heimilisbrauð“ eftir að samningi aðila yrði rift eða sagt upp. Í kjölfar þess að samningssambandi aðila lauk hóf B framleiðslu brauðtegundar með framangreindu heiti. Var með vísan til samningsins fallist á kröfu M um að lagt yrði lögbann á framleiðslu og sölu B á vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ væri notað sem nafn eða auðkenni.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. maí 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 29. mars 2005 um að synja beiðni sóknaraðila um að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili framleiði og selji vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn á Akureyri að leggja lögbann við umræddum athöfnum varnaraðila gegn tryggingu sem ákveðin kunni að verða. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fyrir liggur í máli þessu að varnaraðili muni á árunum 1995 til 1996 hafa framleitt vöru með heitinu „Heimilisbrauð“. Í upphafi árs 1997 gerðu aðilar með sér samning um framleiðslu og dreifingu á vöru með sama heiti, en sóknaraðili kveðst hafa hafið framleiðslu og sölu á þeirri vöru á miðju ári 1996. Í þeim samningi var kveðið á um heimild varnaraðila, þar nefndur kaupandi, til að framleiða samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð sóknaraðila, þar nefndur seljandi, og selja undir sama vöruheiti vöruna „Heimilisbrauð“ á nánar tilgreindu markaðssvæði. Greiddi varnaraðli fyrir afnotin með sérstöku álagi ofan á kaupverð umbúða utan um vöruna, sem sóknaraðili seldi honum, en samkvæmt samningnum bar sóknaraðila að láta framleiða umbúðirnar í samráði við varnaraðila. Sýnishorn umbúða þeirra sem sóknaraðili kveðst sjálfur hafa notað utan um vöruna og þeirra umbúða sem hann seldi varnaraðila samkvæmt samningnum liggja fyrir í málinu og bera þær síðarnefndu áletrun um að varan sé framleidd af varnaraðila með heimild sóknaraðila. Einnig er á þeim að finna merki varnaraðila en að öðru leyti virðast umbúðirnar eins. Var samningur aðila í gildi allt frá janúar 1997 til fyrri hluta árs 2005 þegar samkomulag varð með aðilum um uppsögn hans. Í 6. gr. samningsins sagði meðal annars: „Verði samningnum rift eða sagt upp skuldbindur kaupandi sig til þess að framleiða ekki vöruna Heimilisbrauð.“ Óumdeilt er í málinu að eftir lok samningsins hóf varnaraðili framleiðslu á brauðtegund með heitinu „Heimilisbrauð” og freistar sóknaraðili þess í málinu að fá lagt lögbann við þeirri háttsemi varnaraðila.

Ekki verður fallist á með varnaraðila að sóknaraðili hafi látið hjá líða við meðferð málsins hjá sýslumanni að reisa kröfu sína um lögbann á umræddum samningi aðila, en sóknaraðili kveðst leiða rétt sinn af samningnum og skírskotar jafnframt sérstaklega til 6. gr. hans í lögbannsbeiðni.

Vara sú sem varnaraðili framleiddi um árabil með leyfi sóknaraðila bar heitið „Heimilisbrauð“. Með samningi aðila var varan skilgreind og henni gefið framangreint heiti og jafnframt skýrt tekið fram að við lok samnings væri varnaraðila óheimilt að framleiða vöruna. Verður að draga þá ályktun að varan „Heimilisbrauð“ hafi öðlast sess á markaði sem ein af framleiðsluvörum sóknaraðila og geti varnaraðili ekki hafa öðlast rétt til hennar á neinn hátt á samningstímanum. Af framansögðu verður einnig að telja að sóknaraðila hafi tekist að gera það nægilega sennilegt að réttur varnaraðila til að nota heitið „Heimilisbrauð“ á framleiðsluvöru sína hafi að líkindum fallið niður vegna samningsins. Eins og samningssambandi aðila var háttað verður ekki fallist á með varnaraðila að heiti þetta sé of almennt til að geta talist sérgreinandi fyrir vöruna og getur ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki ekki staðið í vegi þeirri niðurstöðu. Samkvæmt framanrituðu kann notkun varnaraðila á margnefndu heiti á framleiðsluvöru sinni eitt og sér að fela í sér brot á samningsskuldbindingu gagnvart sóknaraðila.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar þykir sóknaraðili hafa gert það nægilega sennilegt að háttsemi varnaraðila raski lögvörðum rétti hans samkvæmt framangreindum samningi aðila þannig að réttindi hans muni verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þar sem öðrum skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 telst fullnægt verður hinum kærða úrskurði hrundið og lagt fyrir sýslumanninn á Akureyri að leggja á varnaraðila lögbann í samræmi við kröfur sóknaraðila gegn tryggingu í samræmi við 1. mgr. 30. gr. laga nr. 31/1990, eins og nánar greinir í dómsorði, enda hefur ekki verið sýnt fram á að ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna eigi við í málinu.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 29. mars 2005 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila, Myllunnar-Brauðs hf., um lögbann á hendur varnaraðila, Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co ehf. Lagt er fyrir sýslumann, gegn tryggingu sem hann metur nægilega úr hendi sóknaraðila, að leggja lögbann við því að varnaraðili framleiði og selji vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 27. maí 2005.

Mál þetta varðar beiðni um úrlausn ágreinings varðandi þá ákvörðun sýslumannsins á Akureyri frá 29. mars sl., um að synja kröfu sóknaraðila um lögbannsgerð og barst héraðsdómi þann 5. apríl 2005, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 31/1990.  Var málið þingfest þann 26. apríl s.l. og tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning aðila þann 11. maí s.á.  Sóknaraðili er Kolbeinn Kristinsson f.h. Myllunnar-Brauð hf. kt. 460963-0289, Skeifunni 19 Reykjavík.  Varnaraðili er Kjartan Snorrason f.h. Brauðgerðar Kr. Jónssonar og Co. ehf., kt. 480169-0859, Hrísalundi 3, Akureyri.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun Sýslumannsins á Akureyri frá 29. mars sl. um að synja fram kominni beiðni sóknaraðila um lögbann við því að varnaraðili framleiði og selji vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni verði felld úr gildi og að héraðsdómari leggi fyrir sýslumanninn á Akureyri að leggja á hið umbeðna lögbann í samræmi við kröfur gerðarbeiðanda.  Þá er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, frá 29. mars s.l. verði staðfest.  Þá er gerð krafa um að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Málsatvik.

Málavextir eru þeir að varnaraðili hóf framleiðslu og sölu á svonefndu „Heimilisbrauði“ um mitt ár 1995 og lét gera sérstakar umbúðir utan um brauðin hjá Plastprent hf.  Frá miðju ári 1995 og fram til janúar 1997 framleiddi og seldi varnaraðili vöruna „Heimilisbrauð“.  Í desember 1996 leiddu viðræður sóknaraðila og varnaraðila til þess að gerður var skriflegur samningur þeirra frá 22. janúar 1997 um að þeir myndu framleiða brauð eftir sömu uppskrift og skyldi það selt um land allt í sömu umbúðum sem „Heimilisbrauð“, en samningurinn ber yfirskriftina „samningur um framleiðsluleyfi“.

Kemur fram í samningunum að aðilar hafi gert samkomulag um leyfi varnaraðila til að framleiða brauð samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð sóknaraðila og skyldi vara beggja seld undir sama nafni sem „Heimilisbrauð“.  Í 1. gr. samningsins kemur fram að seljandi láti kaupanda í té uppskrift og vinnsluaðferð vörunnar en kaupandi skuldbindi sig til þess að framleiða vöruna samkvæmt uppskriftinni og vinnsluaðferðinni.  Í 4. gr. kemur fram að varnaraðili skuldbatt sig til að greiða sóknaraðila ákveðið gjald fyrir sölu á hverju eintaki af vörunni.  Í 6. gr. segir loks að samningurinn gildi til 31. desember 1997 og enn fremur að verði samningnum rift eða honum sagt upp, skuldbindi kaupandi sig til þess að framleiða ekki vöruna „Heimilisbrauð“.

Liggur fyrir að í lok febrúar eða í byrjun mars sl. hafi ofangreindu samningssambandi aðila lokið.  Varnaraðili hafi þá látið hanna nýjar umbúðir og hafið að framleiða brauð eftir uppskrift sem hann hafi notað árin 1995 og 1996, með breytingum og eru þau brauð eftir sem áður seld undir heitinu „Heimilisbrauð“.  Lögbannskrafa sóknaraðila lýtur að því að stöðva sölu varnaraðila á þeirri vöru þar sem sóknaraðili eigi nú einn einkarétt á vöruheitinu „Heimilisbrauð“, sbr. og með vísan til fyrrgreinds samnings á milli aðila frá 22. janúar 1997.

Málsástæður og lagarök af hálfu sóknaraðila.

Af hálfu sóknaraðila kemur fram að höfnun sýslumanns væri studd þeim rökum að varnaraðili hafi lagt fram gögn um að hann hafi verið byrjaður að nota umbúðir með áletruninni „Heimilisbrauð“ þegar á árinu 1995, en samningur aðila í málinu sé frá 1997.  Þar sem varnaraðili hafi verið byrjaður að nota umbúðir með orðinu „Heimilisbrauð“ þegar árið 1995, hafi sýslumaður talið að varnaraðili hafi fært fyrir því rök að líklegt væri að krafa sóknaraðila fengi ekki staðist.  Væri þeim rökum sýslumanns hafnað, þar sem engu máli skipti fyrir niðurstöðu málsins hvort varnaraðili hafi áður notað vöruheitið „Heimilisbrauð“ fyrir framleiðsluvöru sína.

Í 6. gr. í framlögðum samningi aðila um framleiðsluleyfi frá 22. janúar 1997, sem hafi verið í gildi til 4. mars 2005, þá hann féll niður með samkomulagi aðila og að ósk varnaraðila, komi fram að yrði samningi rift eða sagt upp, skuldbindi kaupandi sig til þess að framleiða ekki vöruna „Heimilisbrauð“.  Sé það ótvírætt brot af hálfu varnaraðila gegn þessari samningsskuldbindingu  þegar hann byrji, strax eftir uppsögn sína á samningnum, framleiðslu á brauði undir nafninu „Heimilisbrauð“.  Skipti þá ekki máli þótt hann kunni að hafa framleitt brauð undir því nafni áður en að samningur aðila hafi verið gerður árið 1997.  Þá skipti heldur ekki máli þótt varnaraðili noti nú aðra uppskrift við gerð heimilisbrauðs en hann hafi notað á meðan á samstarfi aðila stóð.  Slíkt sé til þess fallið að skaða sóknaraðila enn frekar, þar sem umrædd vörutegund sé ekki lengur eins á bragðið hjá báðum aðilum þótt þeir noti sama heiti.  Málsaðilar keppi á markaði og ruglingshætta hafi skapast vegna samningsbrots varnaraðila.  Vöruheitið „Heimilisbrauð“ hafi orðið þekktara og öðlast meiri markaðsfestu á meðan á samstarfinu stóð.  Um það hafi verið samið á milli aðila að þegar samstarfinu lyki myndi einungis sóknaraðili hafa rétt til að nota vöruheitið en varnaraðili hafi lofað að láta af notkun.

Af hálfu sóknaraðila er mótmælt þeirri staðhæfingu varnaraðila að samningsskuldbinding hans samkvæmt 6. gr. samkomulagsins nái einungis til þess að framleiða ekki lengur „Heimilisbrauð“ samkvæmt uppskrift sóknaraðila, en taki ekki til notkunar nafnsins „Heimilisbrauð“ almennt.  Augljóst sé að vilji samningsaðila hafi staðið til þess að taka af öll tvímæli um hvor mætti áfram framleiða vöru undir þessu vöruheiti kæmi til þess að upp úr samstarfi aðila slitnaði.

Til þess er vísað að varnaraðili haldi því fram að heitið „Heimilisbrauð“ sé ekki nægilegt sérkenni á vörunni í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 13. gr. l. nr. 45/1997 um vörumerki og nefni hann nokkur dæmi sem hann telji að ekki fengjust skráð vegna ákvæðisins, svo sem samlokubrauð, krakkabrauð eða fjölskyldubrauð.  Þessum skilningi á túlkun lagaákvæðisins sé mótmælt.  Í 2. málslið 1. mgr. 13. gr. l. nr. 45/1997 um vörumerki komi fram að merki, sem eingöngu eða aðeins með smávægilegum breytingum eða viðbótum gefi til kynna m.a. tegund vörunnar, ástand, magn, notkun, verð, uppruna eða hvenær varan er framleidd, skuli ekki telja nægilegt sérkenni.  Vöruheitið „Heimilisbrauð“ eigi ekki við neitt af því sem upptalningin í ákvæðinu taki til.  Sé með því verið að segja að t.d. lýsandi heiti eins og hvítlauksbrauð, kúmenbrauð, heilhveitibrauð og þriggja-kornabrauð geti fallið undir 2. málslið 1. mgr. 13. gr. laga um vörumerki.  Þá væri einnig á það bent að ef svo ólíklega færi að orðið „Heimilisbrauð“ yrði talið lýsandi í skilningi ofangreinds ákvæðis, þá væri augljóst að það hefði öðlast sérkenni með áralangri notkun í skilningi 2. mgr. 13. gr. l. nr. 45/1997 um vörumerki.

Málsástæður og lagarök af hálfu varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila kemur fram að svo virðist sem sóknaraðili byggi lögbannskröfu nú aðallega á samningi aðila frá 22. janúar 1997, en lögbannsbeiðni hafi einungis byggst á því að sóknaraðili ætti vörumerkjarétt samkvæmt lögum nr. 45/1997 á heitinu „Heimilisbrauð“.  Varnaraðili mótmæli því að þessi nýja málsástæða fái að komast að, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989, sbr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili hafi frá miðju ári 1995 framleitt og selt „Heimilisbrauð“ og feli samningur aðila frá 22. janúar 1997 ekki í sér að hann afsali sér rétti til að nota það heiti.  Varnaraðili hafi ekki samið um notkun á vörumerki eða um framsal á heitinu „Heimilisbrauð“ til sóknaraðila og stafi misskilningur af því að aðrir en núverandi fyrirsvarsmenn sóknaraðila hafi komið að samningagerð.  Þvert á móti hafi aðeins verið um að ræða samning um framleiðsluleyfi eins og tilgreint sé í heiti samkomulagsins og fjalli aðeins um að varnaraðili fái heimild til að framleiða brauð eftir uppskrift og vinnsluleyfi sóknaraðila, en vara beggja skyldi seld undir sama heiti eða sem „Heimilisbrauð“.

Komi fram í 4. gr. samningsins að varnaraðili greiði gjald fyrir framleiðsluleyfið, en 6. gr. samningsins hafi varnaraðili skilið svo að uppsögn eða riftun samnings feli aðeins í sér að hann hafi þá ekki lengur mátt nota uppskrift sóknaraðila að „Heimilisbrauði“.  Sá skilningur sóknaraðila að varnaraðili hafi eftirleiðis ekki mátt selja vöru sína sem „Heimilisbrauð“ hafi hins vegar enga stoð í samningi þeirra.  Samningurinn fjalli aðeins um rétt varnaraðila til að nýta sér uppskrift og framleiðsluaðferð sóknaraðila við framleiðslu á „Heimilisbrauði“ gegn gjaldi, en fjalli ekki um rétt aðila til að nota heitið „Heimilisbrauð“ við framleiðslu almennt.  Hafi sóknaraðili ekki átt fyrir einkarétt yfir vörumerkinu „Heimilisbrauð“ sem hann hafi getað veitt varnaraðila heimild til að nota.  Varnaraðili hafi notað heitið „Heimilisbrauð“ fyrir gerð samningsins, en ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili hafi notað það heiti fyrir það tímamark.

Til að öðlast vörumerkjarétt sbr. 3. gr. laga nr. 45/1997 verði að skrá vörumerki eða sýna fram á notkun á því.  Með notkun sé átt við að sá sem haldi fram vörumerkjarétti verði að sýna fram á að hann hafi einn notað vörumerkið um nokkurn tíma á vöru eða þjónustu.  Merkið verði þannig að hafa öðlast markaðsfestu fyrir notkun einungis þess aðila sem haldi því fram að hann hafi þannig öðlast vörumerkjarétt yfir því.  Sóknaraðili hafi ekki látið skrá heitið “Heimilisbrauð” sem vörumerki og verði því að sýna fram á notkun samkvæmt framansögðu.  Hann hafi ekki sýnt fram á notkun á heitinu „Heimilisbrauð“ í þeirri merkingu sem í það hugtak er lögð í 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 45/1997 og til II. kafla sömu laga og enn fremur til þess að „Heimilisbrauð“ fengist ekki skráð sem vörumerki þar sem það uppfylli ekki skilyrði 2. ml. 13. gr. laga nr. 45/1997, varðandi sérkenni, en orðið „Heimilisbrauð“ væri ekki til þess fallið að greina vöru og þjónustu frá vöru og þjónustu annarra eins og hér standi á.  Vörumerkjaréttur sé einkaréttur og því ekki eðlilegt að einn aðili fái skráð lýsandi vörumerki sem útiloki aðra frá því að nota orð sem séu lýsandi fyrir vörur þeirra.  Ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 breyti engu um þar sem notkun sóknaraðila liggi ekki fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé það skilyrði fyrir lögbanni að gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfn muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans en sóknaraðili hafi ekki uppfyllt það skilyrði.  Hann hafi ekki sýnt fram á að hann eigi einn lögvarinn rétt til að nota heitið „Heimilisbrauð“ á framleiðsluvörur sínar svo að skilyrði til að leggja á lögbann í samræmi við kröfur hans sé ekki fyrir hendi.

Niðurstaða.

Ágreiningsmáli þessu er vísað til úrlausnar héraðsdóms í skjóli V. kafla laga nr. 31/1990.  Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. þeirra laga verður lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn geri gerðarbeiðandi það sennilegt að athöfnin brjóti gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann að bíða dóms um þau.  Þá segir í 41. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki að unnt sé að krefjast lögbanns við athöfn sem þegar er hafin eða er sannanlega yfirvofandi og brýtur eða mun brjóta gegn vörumerkjarétti.

Í þessu máli er deilt um þá ákvörðun sýslumannsins á Akureyri að synja um kröfu sóknaraðila um lögbannsgerð svo sem sýslumaður ákvað í fyrirtöku þann 29. mars s.l.  Ber að líta til þess að dómsúrlausn á þessu stigi málsmeðferðar stendur ekki til þess að leysa úr efnislegum rétti málsaðila, heldur skal hér aðeins tekin afstaða til þeirra atriða sem varða skilyrði fyrir framkvæmd þeirrar lögbannsgerðar sem hér var synjað um.

Málavextir liggja fyrir í megindráttum.  Í endurriti úr gerðabók sýslumanns varðandi fyrirtökuna 29. mars s.l. kemur fram, að gerðarþoli hafi lagt fram gögn um að hann hafi verið byrjaður að nota umbúðir með áletruninni „Heimilisbrauð“ þegar á árinu 1995, en að samningur aðila í málinu sé frá árinu 1997.  Vísar sýslumaður til þess að varnaraðili hafi verið byrjaður að nota umbúðir þar sem orðið “Heimilisbrauð” hafi verið notað sem auðkenni, þegar á árinu 1995 og yrði því að telja að hann hafi fært fyrir því rök, að verulega líklegt væri að krafa sóknaraðila fengi ekki staðist að lögum.  Hafnar sýslumaður því lögbannskröfu með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Sóknaraðili byggir kröfu um lögbann á því að hann hafi áunnið sér vörumerkjarétt yfir vöruheitinu „Heimilisbrauð“ auk þess sem að 6. gr. samnings aðila um framleiðsluleyfi frá 22. janúar 1997 fyrirbyggi rétt varnaraðila til að kalla framleiðslu sína „Heimilisbrauð“. Telur sóknaraðili að sú ruglingshætta sem stafi af óheimilli notkun varnaraðila á merkinu „Heimilisbrauð“ sé til þess fallin að valda honum skaða og beri því að leggja við henni lögbann.

Ekki verður fallist á með varnaraðila að framlagður samningur málsaðila frá 22. janúar 1997 geti ekki komið til skoðunar við úrlausn málsins hér fyrir hér dómi.  Ágreiningur aðila snýst einkum um túlkun á 6. gr. samningsins, en þar segir orðrétt:

„Samningur þessi gildir til 31/12, 1997.  Verði honum ekki sagt upp fyrir 31/10 hvers árs, framlengist hann sjálfkrafa um eitt ár.  Gerist kaupandi brotlegur samkvæmt samningi þessum getur seljandi tafarlaust rift samningi þessum.  Verði samningnum rift eða sagt upp skuldbindur kaupandi sig til þess að framleiða ekki vöruna Heimilisbrauð.“

Sé litið til ákvæða samningsins þá ber þau það með sér að varnaraðili megi ekki selja það sem samningurinn kallar „Heimilisbrauð“ ef samningnum er sagt upp eða rift, svo sem fyrir liggur.  Samningurinn ber heitið „Samningur um framleiðsluleyfi“.  Segir í aðfaraorðum hans að seljandi og kaupandi geri með sér samning um leyfi kaupanda til þess að framleiða samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð seljanda og selja undir sama vöruheiti vöruna „Heimilisbrauð“.  Fjallar í 1. gr. samningsins um skyldu sóknaraðila til að láta varnaraðila í té uppskrift og vinnsluaðferð og í 4. gr. samningsins er fjallað um það gjald sem varnaraðila beri að greiða sóknaraðila fyrir sölu á umræddri vöru.

Í málinu liggur fyrir að varnaraðili hefur framleitt „Heimisbrauð“ allt frá árinu 1995.  Hefur varnaraðili staðfastlega haldið því fram að ofangreindur samningur aðila hafi ekki fjallað um framsal eða viðurkenningu á vörumerki heldur aðeins um framleiðsluleyfi á tiltekinni gerð brauða.  Málsaðila greinir því á um hvaða merkingu beri að leggja í hugtakið „Heimilisbrauð“ í ofangreindum samningi.

Telja verður að sóknaraðila beri að sýna fram á að stofnast hafi til vörumerkjaréttar honum til handa fyrir notkun á merkinu „Heimilisbrauð“, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997, eins og hann heldur hér fram.  Þar sem fyrir liggur að varnaraðili hefur framleitt og selt brauð með umræddu heiti samfellt frá árinu 1995 telst ekki sýnt að sóknaraðili geti í ljósi þess sem liggur fyrir í þessu máli sannað slíkan einhliða rétt sinn, en ekki þarf að taka afstöðu til skilyrða fyrir skráningu vörumerkja almennt við svo búið.

Varðandi túlkun á samningi aðila frá 22. janúar 1997 um framleiðsluleyfi, þá verður að fallast á það með varnaraðila að ekki sé unnt að leggja þar aðra merkingu í hugtakið „Heimilisbrauð“ en ákvæði samningsins í heild beri með sér og benda til þess að aðeins kunni að vera átt þar við þá tilteknu framleiðslu sem samningurinn fjallar um.  Hefur sóknaraðili ekki fært fram haldbær rök fyrir þeirri túlkun á hugtakinu „Heimilisbrauð“ í samningunum sem hann styðst við.  Verður hann að bera halla af því að samningurinn í heild sinni ber það ekki sérstaklega með sér að verið sé að fjalla um rétt til vörumerkis.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 eru sett þau skilyrði fyrir lögbanni að sóknaraðili þurfi að sanna nægilega þann lögvarða rétt sem hann byggir á sem og að yfirstandandi athöfn kunni að brjóta gegn þeim lögvarða rétti hans. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að sóknaraðila hefur við svo búið ekki lánast að gera það nægilega sennilegt að notkun varnaraðila á heitinu „Heimilisbrauð“ brjóti gegn lögvörðum rétti hans þannig að hann fái hér lagt lögbann við þeirri notkun.

Verður niðurstaða málsins eins og það liggur hér fyrir því sú, að hafna verður kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun Sýslumannsins á Akureyri frá 29. mars sl. um að synja fram kominni beiðni hans um lögbann við því að varnaraðili framleiði og selji vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni.

Með vísan til framangreindra lykta þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila í málskostnað kr. 100.000,-.

Úrskurðinn kvað upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu sóknaraðila, Myllunnar-Brauðs hf. um lögbann er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila í málskostnað kr. 100.000,-.