Hæstiréttur íslands

Mál nr. 82/2007


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Skilorð


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2007

Nr. 82/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Vali Sigurðssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Skilorð.

V var ákærður fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Hann játaði brot sín. Var um að ræða fyrsta ölvunarakstursbrot V. Í dómi Hæstaréttar segir að þegar svo hátti til sé refsing við slíku broti venjulega fésektir. Þótti því mega dæma V sérstaklega fyrir brotið en láta skilorð sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Suðurlands 9. ágúst 2006 haldast, sbr. 60. gr. alm.hgl. Var V gert að greiða 70.000 króna sekt til ríkissjóðs.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 28. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Vínandamagn í blóði hans var 0,95‰. Ákærði játaði brotið og var farið með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Sakarferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi. Í þessu máli er ákærði í fyrsta sinn fundinn sekur um ölvunarakstur og varðar brotið við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þegar svo háttar til er refsing við slíku broti venjulega fésektir. Að þessu gættu þykir mega dæma sérstaklega fyrir þetta brot ákærða en láta skilorð samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands 9. ágúst 2006 haldast, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing ákærða verður því ákveðin 70.000 króna sekt til ríkissjóðs sem honum ber að greiða innan fjögurra vikna en sæta ella fangelsi í sex daga.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað verða staðfest. Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 skal áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Valur Sigurðsson, greiði 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í sex daga.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað eru staðfest.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 19. desember 2006.

Mál þetta, sem þingfest var þann 6. desember sl. er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 3. nóvember 2006 á hendur Val Sigurðssyni, kt. 311281-4889, til dvalar að Norðurbyggð 4, Þorlákshöfn,

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 12. ágúst 2006, ekið bifreiðinni MY-528 undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,95‰)   norður Þorlákshafnarveg áleiðis til Hveragerðis uns lögregla stöðvaði akstur ákærða á móts við Núpa í Ölfusi.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 44, 1993, lög nr. 57, 1997, lög nr. 23, 1998, lög nr. 132, 2003 og lög nr. 84, 2004.“

Ákærði sem kom fyrir dóminn þann 6. desember sl., játaði brot sín fyrir dóminum. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín en þau eru í ákæru rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. 

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. 

Samkvæmt sakarvottorði ákærða hefur hann tvisvar gert lögreglustjórasáttir vegna umferðarlagabrots og gripdeild. Á árunum 2001 til 2006 hefur ákærði verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir umferðarlagabrot, skjalafals, nytjastuld, þjófnað, ýmis brot er varða fjárréttindi, líkamsárás, rán, flóttatilraun og fíkniefnabrot. Þann 9. ágúst 2006 var ákærði dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands í 12 mánaða fangelsi og þar af 9 mánuði skilorðsbundna til þriggja ára fyrir brot gegn 244., 1. mgr. 259., 1. mgr. 157, 2. mgr. sbr. 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 4. gr. sbr. 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004. Var sá dómur hegningarauki við dóm Héraðsdóm Reykjavíkur uppkveðnum 26. janúar 2006.

Brot það sem ákært er fyrir nú er framið þremur dögum eftir uppkvaðningu síðasta dóms. Er það vísbending um einbeittan brotavilja ákærða og svo virðist að skilorðsbinding refsidóma hafi litla þýðingu fyrir ákærða. Með broti þessi sem sakfellt hefur verið fyrir hefur ákærði rofið skilorð og ber að dæma dóm þann upp með vísan til 60. gr. sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga.

Að þessu virtu og með vísan til langs sakarferils ákærða þykir refsing hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsinguna.            

Ákærði skal sviptur ökurétti í átta mánuði frá birtingu dóms að telja.

Með vísan til 165. gr. sbr. 164. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað sem er vegna alkóhólrannsóknar kr. 23.892.- og þóknun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 62.250.- krónur auk 8.220.- króna vegna aksturs hans. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði Valur Sigurðsson sæti fangelsi í tólf mánuði.

Ákærði skal sviptur ökurétti í átta mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað 88.137.- krónur.