Hæstiréttur íslands
Mál nr. 245/2006
Lykilorð
- Verksamningur
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 30. nóvember 2006. |
|
Nr. 245/2006. |
Suðurbær ehf. (Hilmar Magnússon hrl.) gegn Byggingafélaginu M-þremur ehf. og Rúmmetra ehf. (Sigurður R. Arnalds hrl.) og gagnsök |
Verksamningur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
S tók að sér með verksamningi 19. mars 2004 vinnu við byggingu fjölbýlishúss fyrir B. Á vormánuðum 2004 seldu eigendur B allt hlutafé sitt í félaginu til R. Um svipað leyti tilkynnti R, S um að verkið skyldi stöðvað. S krafði B og R um greiðslu á 2.500.000 krónum. Óljóst var hvort að S reisti kröfu sína á greiðslu fyrir verkið eins og það stóð á þeim tíma sem hann hvarf frá því, auk skaðabótakröfu vegna riftunar, eða einvörðungu því að B og R hafi með sérstökum samningi og einhliða loforði skuldbundið sig til greiðslu á ósundurliðaðri fjárhæð 2.500.000 krónur. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að málatilbúnaður S sé knappur og misvísandi og stefna í héraði sé í andstöðu við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna þessa annmarka S á reifun málsins og röksemdum, var ófært að taka efnislega afstöðu til krafna hans og varð því ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2006. Hann krefst þess að gagnáfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér óskipt 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. ágúst 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 3. júlí 2006. Þeir krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða þeim 1.164.943 krónur í málskostnað í héraði. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Að undangengnu útboði tók aðaláfrýjandi að sér með verksamningi 19. mars 2004 fyrir gagnáfrýjandann M-þrjá ehf., er þá hét Byggingafélagið Viðar ehf., að slá upp, einangra, járna og steypa sökkla og botnplötu fyrir fjöleignarhús á lóðinni Álfkonuhvarfi 33-37, Kópavogi. Greiða skyldi samtals 6.000.000 krónur fyrir verkið og fyrsta greiðsla, 1.000.000 krónur, fara fram 26. mars 2004 eða viku eftir að verk átti að hefjast. Eftir það skyldu greiðslur inntar af hendi í samræmi við framgang verksins samkvæmt framlögðum reikningum, nákvæmlega sundurliðuðum með tilliti til verkliða og framvindu verks. Aðaláfrýjandi gaf út reikning 26. mars 2004 að fjárhæð 1.000.000 krónur sem var greiddur 29. þess mánaðar. Þá gaf hann út sundurliðaðan reikning 19. apríl 2004 að fjárhæð 2.222.500 krónur. Fylgdu þeim reikningi ýmis gögn í samræmi við verksamning og mun hann hafa verið greiddur í tvennu lagi 11. og 25. maí 2004. Í lok apríl eða byrjun maí það ár seldu eigendur gagnáfrýjandans M-þriggja ehf. allt hlutafé sitt í félaginu til hins gagnáfrýjandans. Um svipað leyti kom Hermann Hinriksson framkvæmdastjóri gagnáfrýjandans Rúmmetra ehf., en hann mun einnig vera núverandi framkvæmdastjóri hins gagnáfrýjandans, á verkstað og tilkynnti Ómari Rafnssyni fyrirsvarmanni aðaláfrýjanda að verkið skyldi stöðvað þar sem til stæði að reisa annars konar fjöleignarhús á lóðinni en áður hafði verið gert ráð fyrir. Í kjölfarið munu hafa farið fram óformlegar viðræður milli Ómars annars vegar og tveggja af fyrri eigendum gagnáfrýjandans M-þriggja ehf. hins vegar, sem og áðurnefnds Hermanns. Kveður aðaláfrýjandi að samkomulag hafi náðst milli hans og fyrri eigenda gagnáfrýjandans M-þriggja ehf. um að honum skyldu greiddar 2.500.000 krónur sem lokagreiðsla vegna verksins. Í samræmi við það hafi hann gert nýjan lokareikning með þessari fjárhæð í stað annars nokkuð hærri reiknings sem hann áður hefði sent verkkaupa. Var sá reikningur lagður fyrir Hæstarétt.
II.
Í stefnu í héraði segir svo: „Málsatvik og málsástæður: Krafa stefnanda á hendur stefnda, Byggingarfélaginu Viðari ehf. er byggð á reikningi vegna verks stefnanda við Álfkonuhvarf 33-37, en um lokauppgjör var að ræða. Rúmmeter ehf. keypti stefnda, Bygg.fél. Viðar ehf. og liggur fyrir yfirlýsing frá fyrrverandi eigendum þess að samkomulag hafi verið gert þess efnis að kaupandi, þ.e. Rúmmeter ehf. tæki yfir og greiddi umræddan verkkostnað. Er krafa stefnanda á hendur stefnda, Rúmmeter ehf. byggð á því að stefndi, Rúmmeter ehf. hafi ábyrgst gagnvart verkkaupa greiðslu reikningsins.“ Því næst er einungis tilgreindur útgáfudagur, gjalddagi, númer og fjárhæð reikningsins sem ekki hafi fengist greiddur þrátt fyrir innheimtutilraunir, en fjárhæð kröfunnar er ekki sundurliðuð.
Til stuðnings kröfum sínum hefur aðaláfrýjandi meðal annars vísað til skriflegrar yfirlýsingar tveggja af fyrri eigendum gagnáfrýjandans M-þriggja ehf. sem rakin er í héraðsdómi. Jafnframt vísar aðaláfrýjandi til verksamnings aðila, útboðsgagna og ákvæða ÍST 30 um kröfur vegna unninna verka, vanefnda og riftunar samnings af hálfu verkkaupa. Í greinargerð í héraði kröfðust gagnáfrýjendur sýknu á þeim grundvelli að þeir hefðu ekki tekið á sig ofangreinda skuldbindingu að fjárhæð 2.500.000 krónur og töldu ágreininginn snúast um hvernig lokauppgjöri skyldi háttað og sé krafa aðaláfrýjanda „fullkomlega vanreifuð og órökstudd.“ Einnig sé þeim „ómögulegt að átta sig á því hvernig sú fjárhæð er saman sett og hverjar forsendur lágu til grundvallar meintu lokauppgjöri sem krafa stefnanda byggir alfarið á.“ Þá kröfðust gagnáfrýjendur sýknu eða lækkunar á kröfu aðaláfrýjanda vegna tafa og galla á umræddu verki. Jafnframt þessu kröfðust þeir „til öryggis“ að krafa aðaláfrýjanda yrði lækkuð verulega á þeim grunni að hann hefði með reikningi sínum innheimt „til mikilla muna of mikla vinnu miðað við umfang og eðli verka“ hans. Að beiðni gagnáfrýjenda var dómkvaddur maður til að meta hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem aðaláfrýjandi hafði innt af hendi og hæfilegt endurgjald vegna aðstöðu sem aðaláfrýjandi hafi veitt gagnáfrýjendum á verkstað. Upphaflega hafði verið óskað eftir að metnir yrðu gallar á verki, en síðar var fallið frá þeirri beiðni og þá einnig kröfu um sýknu eða afslátt vegna þessa. Matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að aðaláfrýjandi hefði lokið 58,8% af samningsverki og hefði auk þess unnið tiltekin aukaverk. Samkvæmt matinu nam verk aðaláfrýjanda hærri fjárhæð en honum hefur verið greidd. Fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda gaf skýrslu fyrir dómi og kvað umræddan samning um lokauppgjör vera vegna tilgreindra verkliða og aukaverka sem þegar hefði verið lokið við samkvæmt verksamningi, auk 150.000 króna vegna tjóns sem aðaláfrýjandi hafi orðið fyrir við það að þurfa að hverfa frá verki.
Málatilbúnaður aðaláfrýjanda er knappur og misvísandi og er stefna í héraði í andstöðu við ákvæði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er óljóst hvort hann reisir kröfu sína á greiðslu fyrir verkið eins og það stóð á þeim tíma sem hann hvarf frá því, auk skaðabóta vegna riftunar, eða einvörðungu á því að gagnáfrýjendur hafi með sérstökum samningi og einhliða loforði skuldbundið sig til greiðslu á ósundurliðaðri fjárhæð, 2.500.000 krónur. Vegna þessa annmarka á reifun málsins og röksemdum aðaláfrýjanda er ófært að taka efnislega afstöðu til krafna hans og verður ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Aðaláfrýjandi, Suðurbær ehf., greiði gagnáfrýjendum, Byggingafélaginu M-þremur ehf. og Rúmmetra ehf., samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2006.
Mál þetta höfðaði Suðurbær ehf., kt. 570200-3050, Tómasarhaga 26, Reykjavík, með stefnu birtri 8. september 2004 á hendur Byggingafélaginu Viðari ehf., kt. 431203-2430, Bæjarlind 14-16, Kópavogi, og Rúmmeter ehf., kt. 500501-2350, Bíldshöfða 12, Reykjavík. Málið var dómtekið 26. janúar sl.
Stefnandi krefst greiðslu á 2.500.000 krónum með dráttarvöxtum frá 10. ágúst 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu. Til vara krefjast þeir lækkunar á kröfum stefnanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar.
Í stefnu er vísað til reiknings er stefnandi hafi gefið út vegna verks er hann hafi unnið að Álfkonuhvarfi 33-37 í Kópavogi. Virðist byggt á því að verk hafi verið unnið fyrir stefnda Byggingafélagið Viðar. Þá segir að samkomulag hafi verið gert um að stefndi Rúmmeter tæki yfir og greiddi þennan reikning. Kveðst stefndi byggja á því að stefndi Rúmmeter hafi ábyrgst gagnvart verkkaupa greiðslu reikningsins.
Um er að ræða reikning dagsettan 10. ágúst 2004 með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 2.500.000 krónur.
Í greinargerð stefnda er því lýst að með verksamningi 19. mars 2004 hafi stefnandi tekið að sér tiltekið verk við umrætt fjölbýlishús sem verktaki fyrir stefnda Byggingafélagið Viðar. Hafi hann átt að slá upp, einangra, járnabinda og steypa sökkla og botnplötu á lóðinni. Stuttu síðar hafi nýir aðilar komið að stjórn þessa stefnda, en ný stjórn hafi verið kosin 27. apríl 2004, en þá hafði stefndi Rúmmeter keypt allt hlutafé í félaginu.
Ómar Rafnsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði að eitt sinn er þeir voru við vinnu hafi Hermann Hinriksson komið til þeirra og sagst vera búinn að kaupa Byggingafélagið Viðar. Fyrri eigendur hafi þá sagt sér að það væri ekki frágengið og að þeir ætluðu ekki að stöðva verkið. Hafi þeir beðið hann að halda áfram. Nokkru síðar hafi hann síðan hætt samkvæmt beiðni.
Ómar sagði að verkinu hefði ekki verið lokið. Hann hefði eftir stöðvunina sest niður með þeim Arnóri Heiðari Arnórssyni og Emil Emilssyni. Þeir hefðu verið sínir viðsemjendur. Það hafi tekið þá tvær til þrjár vikur að komast að því hve mikið var eftir. Lokið hefði verið ákveðinni vinnu við sökklagerð. Þeir hafi áætlað hversu mikið af verkinu hefði verið eftir og samið um að hann fengi greiddar 2.500.000 krónur. Rúmmeter ehf. hafi átt að greiða þessa fjárhæð, hann hafi strax sent þeim reikning.
Ómar kvaðst eftir þetta hafa farið á fund með Hermanni Hinrikssyni, en hann hafi ekki verið tilbúinn að borga. Hermann hafi viljað semja um fjárhæðina en Ómar kvaðst ekki hafa verið tilbúinn til þess.
Hermann Hinriksson, fyrirsvarsmaður beggja stefndu, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði að um morguninn 27. apríl 2004 hefði verið skrifað undir samning um kaup Rúmmeters á Byggingafélaginu Viðari. Hann kvaðst hafa ætlað að láta breyta teikningum að umræddu húsi og því stöðvað vinnu við það. Hann hafi boðið stefnanda verk annars staðar þar til hægt væri að klára verkið. Það hafi ekki verið þegið. Stefnandi hafi sagt að hann hefði næg verkefni og hætt.
Hann sagði að við kaupin á fyrirtækinu hefði verið talað um verksamninginn við stefnanda. Settar hefðu verið inn í samninginn áætlanir um skuldir við ýmsa undirverktaka og birgja. Talan 2.500.000 hefði verið áætlun á skuld við stefnanda. Hermann sagði að sér hefði verið ætlað að komast að því hvar verkið væri á vegi statt. Þá hefði sér ekki verið sagt frá því að samið hefði verið um greiðslu fyrir aukaverk. Hermann ítrekaði að stefndi Rúmmeter hefði aldrei lofað að greiða 2.500.000 krónur til stefnanda. Fyrri eigendur hefðu ekki sagt að þeir væru búnir að semja við stefnanda.
Tveir af fyrri eigendum stefnda Byggingafélagsins Viðars, Emil Emilsson og Arnór Heiðar Arnórsson, gáfu skýrslur fyrir dómi.
Emil Emilsson sagði að salan á fyrirtækinu hefði gengið hratt fyrir sig. Við söluna hefði verið áætluð verkstaða hjá stefnanda og metin ákveðin fjárhæð til að ljúka uppgjöri til stefnanda. Þeir hafi ekki haft neina aðstöðu til að sannreyna verkstöðuna þá. Þá staðfesti Emil að samið hefði verið um 400.000 króna aukagreiðslu til Suðurbæjar vegna þess að púðar undir sökklum höfðu reynst of lágir. Hann sagði hins vegar að það hefði ekki verið búið að semja um lokauppgjör við stefnanda.
Arnór Heiðar Arnórsson sagði að gert hefði verið ráð fyrir að halda eftir ákveðnum greiðslum til að mæta því sem ætti eftir að greiða. Verkið hafði ekki verið tekið út og þess vegna hefði talan sem sett var í samninginn verið áætluð. Hefði skuldin reynst önnur hefði það getað haft áhrif á kaupverðið. Þá hefði ekki verið ákveðið neitt um verklok eða að stefnandi færi frá verkinu. Hann kvaðst ekki hafa samið um lokagreiðslu við stefnanda.
Að beiðni stefnda var Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur dómkvaddur til að meta unnin verk og útlagðan kostnað stefnanda fyrir stefnda Byggingafélagið Viðar. Matsmaður taldi unnt að áætla að stefnandi hefði unnið svo mikið af samningsverkinu að réttmæt þóknun til hans næmi 3.617.743 krónum. Þá ætti hann að fá greiddar 172.500 krónur fyrir gerð sökkulskauta og 123.600 krónur vegna aðstöðu á verkstað.
Matsmaður staðfesti matsgerð sína fyrir dómi.
Loks gáfu skýrslur fyrir dómi Tryggvi Jakobsson og Skúli Finnbogason, sem höfðu sem starfsmenn TV tækniþjónustu mælt flatarmál mótaflata í sökklum að beiðni stefnanda.
Málsástæður stefnanda.
Í stefnu er málavöxtum ekki lýst. Þar kveðst stefnandi byggja kröfur á hendur stefnda Byggingafélaginu Viðari á reikningi vegna verksins við Álfkonuhvarf, um lokauppgjör sé að ræða.
Gagnvart stefnda Rúmmeter segir í stefnu að samkomulag hafi verið gert þess efnis að þessi stefndi tæki yfir og greiddi þennan kostnað. Kveðst stefnandi byggja á því að þessi stefndi hafi ábyrgst greiðslu reikningsins gagnvart meðstefnda.
Við fyrirtöku málsins 2. mars 2005 skoraði stefnandi á stefndu að leggja fram gögn um kaup stefnda Rúmmeters á meðstefnda. Stefndi lagði ekki fram kaupsamning og hélt stefnandi því fram við aðalmeðferð að því bæri að leggja til grundvallar að fullyrðing sín um greiðsluloforð væri rétt.
Vísað er til meginreglu samninga- og kröfuréttarins um loforð og efndir fjárskuldbindinga.
Málsástæður stefnda Rúmmeters ehf.
Þessi stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki óskað eftir vinnu stefnanda og ekki tekið að sér greiðslu á 2.500.000 krónum til stefnanda. Því beri að sýkna sig af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991. Jafnframt vísar þessi stefndi til allra málsástæðna meðstefnda, Byggingafélagsins Viðars.
Málsástæður stefnda Byggingafélagsins Viðars.
Stefndi byggir á því að aldrei hafi farið fram neitt lokauppgjör á milli aðila, ágreiningur þeirra snúist um það hvernig slíku uppgjöri skuli háttað. Ósannað sé að stefndi hafi samþykkt að greiða stefnanda 2.500.000 krónur. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu sinni.
Þá telur stefndi fráleitt að stefnandi eigi svo háa kröfu. Þessi fjárhæð sé vanreifuð og órökstudd.
Varakröfu kveðst stefndi setja fram til öryggis. Með reikningi stefnanda sé innheimt allt of há fjárhæð miðað við umfang og eðli verka stefnanda. Krafan sé ósanngjörn, ósundurliðuð, órökstudd og vanreifuð. Engin sundurliðun fylgi umræddum reikningi. Stefndi vísar hér til áðurnefndrar matsgerðar.
Stefndi segir að hann hafi greitt samtals 3.100.000 krónur til stefnanda vegna verksins. Þá hafi hann ekki séð þann reikning sem stefnt er út af fyrr en hann var lagður fram við þingfestingu málsins.
Upphafsdegi dráttarvaxtareiknings er mótmælt. Þá skuli ekki dæma fyrr en frá dómsuppsögudegi vegna þess að verulega skorti á að kröfur stefnanda séu studdar fullnægjandi rökum og gögnum.
Stefndi vísar til reglna kröfu- og verktakaréttar um sönnun og skýran málatilbúnað, svo og almennra reglna um skuldbindingargildi loforða og efndir fjárskuldbindinga. Þá er vísað til ÍST 30.
Forsendur og niðurstaða.
Stefnandi fullyrðir að samið hafi verið um ákveðna lokagreiðslu. Hann hafi samið um hana við fyrri eigendur stefnda Byggingafélagsins Viðars. Þessi fullyrðing hans fær ekki stoð í skýrslum þeirra Emils Emilssonar og Arnórs Heiðars Arnórssonar, sem stefnandi kveðst hafa samið við. Þá benda fullyrðingar forsvarsmannsins til þess að hann telji sig hafa samið við þá Emil og Arnór eftir að þeir höfðu selt hluti sína í stefnda. Er því ósannað að náðst hafi bindandi samkomulag um lokauppgjör með greiðslu á 2.500.000 krónum. Taka verður fram í þessu sambandi að við sönnunarmat er ekki unnt að byggja á skriflegum frásögnum aðila, sem síðar koma sem vitni fyrir dóm.
Í framburðum þeirra sem komu að kaupum stefnda Rúmmeters á stefnda Byggingafélaginu Viðari kemur fram að áætlað hafi verið hversu mikið þyrfti að greiða til stefnda vegna þess sem hann hefði þegar unnið. Fullyrðingar stefnanda um annað eru ekki studdar neinum gögnum og breytir því ekki neinu þó stefndu hafi hunsað áskorun um framlagningu tiltekinna gagna. Er ósannað að stefndi Rúmmeter hafi skuldbundið sig á einhvern hátt gagnvart stefnanda.
Í stefnu málsins hefur stefnandi lagt grundvöll að málsmeðferð. Þar er ekki vísað til annars en samkomulags um að greidd skyldi tiltekin fjárhæð til lokauppgjörs. Við ítarlega sönnunarfærslu af hálfu stefndu hefur komið fram að óunnið var allflókið uppgjör milli aðila. Þarf þar að ákvarða hversu mikið hafði verið unnið af verkinu og hvort samið hafi verið um tilteknar aukagreiðslur og aukaverk. Um þessi atriði hafa komið fram nokkrar vísbendingar í skjölum og skýrslum vitna. En þar sem ekki var lagður eðlilegur grunnur að umfjöllun um ágreiningsefni þessi með málavaxtalýsingu í stefnu er ekki unnt að dæma um annað en það sem fram kemur í stefnunni. Þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að fullyrðingar þær sem stefnandi byggir þar á séu ósannaðar, verður að sýkna stefndu af kröfum hans.
Með hliðsjón af framansögðu og atvikum málsins er rétt að stefnandi greiði hluta af málskostnaði stefndu, 200.000 krónur til hvors þeirra.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndu, Byggingafélagið Viðar hf. og Rúmmeter ehf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Suðurbæjar ehf.
Stefnandi greiði hvorum stefnda 200.000 krónur í málskostnað.