Hæstiréttur íslands
Mál nr. 50/2005
Lykilorð
- Skuldajöfnuður
- Gjaldþrotaskipti
- Ábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 16. júní 2005. |
|
Nr. 50/2005. |
Bú Burnham International á Íslandi hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn Guðmundi Franklín Jónssyni (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Skuldajöfnuður. Gjaldþrotaskipti. Ábyrgð.
Aðilar deildu um rétt G til að greiða kröfu bús B hf. með skuldajöfnuði við kröfu, sem G lýsti í búið og stafaði af sjálfskuldarábyrgð G á skuld búsins samkvæmt skuldabréfi útgefnu í janúar 2000. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt 101 gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. mætti skuldajafna skilyrtri kröfu við kröfu þrotabús, þegar skilyrðið væri uppfyllt. Ljóst væri að skilyrðið fyrir kröfu G á hendur búinu væri að ábyrgðarskuldin hefði fallið á hann. Fyrir lægi að skiptastjóri búsins hefði samþykkt kröfu G á hendur búinu sem almenna kröfu í mars 2002. Yrði því ekki talið að G hefði verið nauðsynlegt að færa fram í málinu sérstök sönnunargögn um að skilyrði fyrri kröfu hans væru fram komin, þar sem búið taldist með samþykki sínu hafa fallist á að svo væri. Var héraðsdómur þar sem fallist var á skuldajöfnuð því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 20.299.651 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu deila aðilar um rétt stefnda til að greiða kröfu áfrýjanda með skuldajöfnuði við kröfu, sem stefndi lýsti í bú áfrýjanda og stafar af sjálfskuldarábyrgð stefnda á skuld áfrýjanda samkvæmt skuldabréfi útgefnu 4. janúar 2000. Málsástæðum áfrýjanda er lýst í hinum áfrýjaða dómi, meðal annars þeirri að stefnda hafi verið óheimilt að lögum að stofna til skuldar sinnar við áfrýjanda. Í héraði byggði hann sjónarmið sín um þetta á 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og var þeim hafnað með vísan til 7. mgr. greinarinnar. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi ennfremur vísað til löggjafar sem á undanförnum árum hefur gilt hér á landi um starfsemi viðskiptabanka og annarra fjármálafyrirtækja auk þess sem hann telur að forsaga 7. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 styðji málflutning sinn um þetta efni. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að þessar röksemdir fái neinu breytt um niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að því er þetta snertir.
Samkvæmt 101. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. má skuldajafna skilyrtri kröfu við kröfu þrotabús, þegar skilyrðið er uppfyllt. Ljóst er að skilyrði fyrir kröfu stefnda á hendur áfrýjanda er að ábyrgðarskuldin hafi fallið á hann. Hefur stefndi haldið því fram, að skilyrðið hafi komið strax fram við upphaf skipta á búi áfrýjanda. Kveðst hann raunar síðar hafa orðið að standa straum af kröfunni sem ábyrgðin átti að tryggja, án þess þó að gera í málinu nánari grein fyrir atvikum að því. Fyrir liggur að skiptastjóri áfrýjanda samþykkti kröfu stefnda á hendur búinu sem almenna kröfu 13. mars 2002. Verður því ekki talið að stefnda hafi verið nauðsynlegt að færa fram í málinu sérstök sönnunargögn um að skilyrði fyrir kröfu hans væru fram komin, þar sem áfrýjandi telst með samþykki sínu hafa fallist á að svo væri.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, bú Burnham International á Íslandi hf., greiði stefnda, Guðmundi Franklín Jónssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2004.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 10. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Búi Burnham á Íslandi hf., kt. 550191-1729, Lágmúla 7, Reykjavík, með stefnu þingfestri 25. marz 2003 á hendur Guðmundi Franklín Jónssyni, kt. 311063-6429, Bergstaðastræti 84, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu á kr. 20.299.651, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 27.11. 2001 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, og að sjálfskuldarábyrgð hans vegna Burnham við Jón I. Júlíusson, kt. 230125-3099, að upphæð kr. 26.740.179, verði skuldajafnað við skuld stefnda gagnvart stefnanda, að fjárhæð kr. 20.299.651. Þá er þess krafizt, að stefnandi greiði málskostnað að mati dómsins.
II.
Málavextir:
Burnham á Íslandi hf. var svipt starfsleyfi þann 27.11. 2001 og var félagið í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt l. nr. 21/1991. Sigurmar K. Albertsson hrl. var skipaður skiptastjóri.
Í ljós kom, að útistandandi skuld stefnda, sem er fyrrum stjórnarformaður félagsins, við félagið, kr. 20.299.651, og er sú skuld óumdeild.
Stefndi hafði gengist undir sjálfskuldarábyrgð vegna skuldabréfs, sem félagið gaf út til handa Jóni I. Júlíussyni, dags. 04.01. 2000. Lýsti stefndi kröfu í búið á kröfulýsingarfresti vegna þessarar óinnleystu ábyrgðarskuldar við Jón Júlíusson, að fjárhæð kr. 26.740.179, með áskilnaði um að skuldajafna kröfunni á móti kröfum búsins á hendur stefnda. Krafan var samþykkt sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, en kröfu um skuldajöfnuð var hafnað af skiptastjóra.
Samkvæmt kröfulýsingaskrá lýsti Jón Júlíusson kröfunni í búið og var hún samþykkt sem almenn krafa.
Stendur ágreiningur aðila um, hvort stefnda sé heimill skuldajöfnuður.
Stefnandi kveður vera hluta málavaxta, að Jón Júlíusson og fyrirtæki hans, Saxhóll hf., hafi verið stórir hluthafar í Burnham á Íslandi hf., og sonur Jóns, Einar, hafi verið varamaður stjórnar félagsins 1998 en kosinn aðalmaður á stjórnarfundi 19. apríl 2000 og hafi setið sem aðalmaður stjórnar til 11.04. 2001. Stefndi hafi auk þess verið til langs tíma í nánum tengslum við þá feðga, bæði í viðskiptum og félagslega. Þá hafi stefndi staðið í skuld við Lífeyrissjóð Austurlands upp á rúmar 100 milljónir. Af skjölum málsins sjáist, að lögmaður sjóðsins hafi ítrekað reynt að tryggja kröfur hans, en mjög erfiðlega hafi gengið í þeim efnum, og skömmu eftir að kyrrsetning var gerð í einu þekktu eign stefnda, þ.e. eignarhluta hans í Bergstaðastræti 84, Reykjavík, hafi verið gert fjárnám í kjölfar greiðsluáskorunar Jóns Júlíussonar í Bergstaðastræti 84, Reykjavík. Virðist sú innheimta hafa gengið snurðulaust og auðveldlega fyrir sig og á allt annan hátt en innheimta Lífeyrissjóðs Austurlands. Haldi stefnandi því fram, með vísan til framansagðs, að með undirritun sinni á skjal nr. 6 hafi stefndi verið að undirbúa að forða eignum sínum undan væntanlegum kröfum Lífeyrissjóðsins og jafnvel stefnanda, og allur aðdragandi skuldbindingarinnar á dskj. nr. 6 og eftirmálar, sýni, að um hreinan málamyndagerning hafi verið að ræða.
Stefndi kveður skuldabréfið hafa gjaldfallið, þegar Burnham var tekið til gjaldþrotaskipta í kjölfar sviptingar starfsleyfisins, en það hafi verið í skilum fram að þeim tíma. Í kjölfar þessa, eða þann 21.12. 2001, hafi stefnda verið birt greiðsluáskorun og fjárnám gert í eignarhluta hans í Bergstaðastræti 84. Fyrir dyrum standi sala á fasteigninni Bergstaðastræti 84, til þess að stefndi geti staðið skil á ábyrgðarskuldbindingu sinni.
Því sé harðlega mótmælt, sem fram komi í stefnu, að það sé hluti málavaxta, að Jón I. Júlíusson hafi verið stór hluthafi, og sonur hans, Einar, hafi setið í stjórn Burnham á Íslandi hf. Enginn vafi leiki á því, að Jón I. Júlíusson hafi veitt fyrirtækinu þá fyrirgreiðslu, sem um sé rætt. Engin rök lúti að því, að stefndi eigi að vera verr staddur en aðrir vegna þessa. Jón hafi kosið að hafa tryggingu fyrir lánveitingu sinni, sem í þessu tilviki hafi falizt í sjálfskuldarábyrgð stefnda. Því sé ekki mótmælt, að leiðir stefnda og Jóns I. Júlíussonar hafi legið saman í viðskiptum. Það geti vart talizt óeðlilegt, að menn, sem stundi viðskipti, leiði saman hesta sína stöku sinnum. Það geti ekki talizt tortryggilegt, að stefndi hafi gengizt í sjálfskuldarábyrgð vegna þess eins, að hann og Jón I. Júlíusson hafi átt viðskipti áður. Þvert á móti megi ætla, að það hafi verið skilyrði fyrir lánveitingu af hálfu Jóns, að einhverjar tryggingaráðstafanir yrðu gerðar til að tryggja kröfu hans. Hafi hún falizt í sjálfskuldarábyrgð stefnda.
Í stefnu sé vísað til skuldar stefnda við Lífeyrissjóð Austurlands og erfiðleika þeirra við að tryggja kröfur sínar. Jafnframt sé vísað til þess, hversu auðveldlega Jóni I. Júlíussyni hafi gengið að tryggja kröfu sína með birtingu greiðsluáskorunar og fjárnáms í kjölfarið. Stefnandi dragi þá ályktun af þessu, að undirritun stefnda á sjálfskuldarábyrgð hafi einungis verið til málamynda og til þess gerð að forða eignum sínum undan væntanlegum kröfum Lífeyrissjóðsins og stefnanda. Þessu sé harðlega mótmælt. Engin ályktun verði dregin af því, hvernig öðrum kröfuhöfum hafi gengið að innheimta kröfur sínar á hendur stefnda. Einnig sé það staðreynd, að undirritun stefnda á sjálfskuldarábyrgð hafi farið fram þann 04.01. 2000 í votta viðurvist. Það líði um það bil 23 mánuðir frá undirritun, þar til skuldabréfið gjaldfalli, þegar Burnham var svipt starfsleyfi, en það hafi verið í skilum fram að þeim tíma. Þessi langi tími gefi vart tilefni til að ætla, að undirritunin hafi verið gerð til málamynda.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir á því, að skuld stefnda við stefnanda sé óumþrætt með tilliti til fjárhæða, og beri honum að standa skil á henni. Lántaka stefnda hjá félagi, þar sem hann starfi sem stjórnarformaður, sé óheimil samkvæmt lögum, og þegar af þeirri ástæðu komi reglur um skuldajöfnuð ekki til álita. Allar aðstæður við ábyrgð stefnda á dskj. nr. 6 séu tortryggilegar, en þetta muni vera í eina skipti, sem stefndi hafi gengizt í persónulega ábyrgð fyrir Burnham á Íslandi hf. Jafnvel sé ekki víst, að ábyrgð sé veitt á sama tíma og skuldaskjalið sé dagsett. Vísað sé til þess, sem áður segi um tengsl stefnda við eiganda bréfsins og vísað til dskj. nr. 8 og 10, sem séu veðbókarvottorð og greiðsluáskorun. Megi því leiða að því sterkar líkur, að tilgangur sjálfskuldarábyrgðar stefnda hafi verið sá að tryggja eignarhlut sinn í Bergstaðastræti 84, áður en kröfuhafi 6. veðréttar fengi aðfararhæfan dóm, og ábyrgðaryfirlýsing stefnda sé málamyndagerningur. Einnig sé vísað til 100. gr. l. nr. 21/1991, en ljóst megi vera, að stjórnarformaður Burnham á Íslandi hf. hafi mátt vita, að hverju hafi stefnt með rekstur félagsins.
Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, sbr. 6. kafla l. nr. 50/2000, sbr. l. nr. 2/1995, sbr. 104. gr., sbr. 2. gr. l. nr. 133/2001 og l. nr. 21/1991, sbr. 100. gr. laganna.
Í dskj. nr. 15 sé ráðagerð um að reka ágreiningsmál þetta eftir reglum l. nr. 21/1991, en horfið hafi verið frá því, þar sem heppilegra hafi þótt að reka málið eftir reglum l. nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda:
Stefndi kveðst byggja kröfu sína um skuldajöfnuð á almennum reglum kröfuréttar, 100. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 28. gr. l. nr. 91/1991. Mótmælt sé þeim fullyrðingum, að skuldajöfnuður komi ekki til greina vegna þess að lántaka stefnda hjá Burnham hafi verið óheimil, þar sem hann hafi verið stjórnarformaður félagsins. Lántaka stefnda hafi ekki verið óheimil samkvæmt l. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga, sbr. lokamálslið 1. mgr. 104. gr. laganna, en þar segi, að málsgreinin taki ekki til venjulegra viðskiptalána. Lántaka stefnda hjá Burnham hafi verið á viðskiptareikningi (sbr. dskj. nr. 3) og falli því undir lokamálslið málsgreinarinnar. Í 7. mgr. 104. gr. segi, að 1. og 2. mgr. verði ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir. Burnham á Íslandi hf. hafi óumdeilanlega verið fjármálastofnun og falli því undir undantekningarákvæði málsgreinarinnar.
Því sé mótmælt, að allar aðstæður varðandi ábyrgð stefnda séu tortryggilegar og ekki verði séð, að fjöldi persónulegra ábyrgða stefnda fyrir Burnham gefi einhverja vísbendingu þar um. Það skuli ítrekað, að stefndi hafi gengizt undir ábyrgð sína þann 04.01. 2000, og hugleiðingum stefnanda um, að ábyrgðin hafi ekki verið veitt á sama tíma og skuldabréfið sé dagsett, sé harðlega mótmælt sem ósönnum. Tengsl stefnda og eiganda skuldabréfsins séu ekki slík, að tortryggilegt þyki. Kenningar stefnanda þess efnis, að tilgangur sjálfskuldarábyrgðar stefnda hafi verið sá að tryggja eignarhlut sinn í Bergstaðastræti 84, séu fjarstæðukenndar. Það verði að skoðast í því ljósi, að eigandi skuldabréfsins hafi farið út í harðar innheimtuaðgerðir gagnvart stefnda og til standi að selja Bergstaðastræti 84, sem áður sé getið.
Útgáfa skuldabréfsins, sem stefndi sé í sjálfskuldarábyrgð fyrir, hafi verið liður í frekari útrás og eflingu Burnham á Íslandi. Rekstur fyrirtækisins í byrjun árs 2000 hafi gengið vel, enda mikill uppgangur á fjármálamörkuðum, bæði hér á landi og utan. Stefndi hafi ekki með nokkru móti getað séð fyrir, á þeim tíma, sem hann gekkst undir ábyrgðarskuldbindingu sína, þá miklu erfiðleika, sem hafi átt eftir að steðja að Burnham, sem og mörgum öðrum fyrirtækjum í sama starfsgeira. Vegna þessa verði ekki talið, að huglæg skilyrði 100. gr. 1. nr. 21/1991, séu ekki uppfyllt, enda miðist grandleysi stefnda við það tímamark, er krafa hans stofnaðist, þ.e. þann 4. janúar 2000. Enda teljist endurgreiðslukrafa stofnuð um leið og upphafleg skuldbinding, þ.e. í þessu tilviki, þegar skuldabréfið sé gefið út. Stefndi hafi verið í góðri trú, þegar hann gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir Burnham, þar sem bjartsýni hafi ríkt um áframhaldandi uppvöxt og velgengni fyrirtækisins. Ekki verði séð, að stjórnarformennska stefnda í félaginu hafi átt að breyta nokkru þar um, nema síður sé.
Varðandi kröfu sína um málskostnað vísi stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Krafa stefnanda á hendur stefnda er í sjálfu sér óumdeild, en sýknukrafa stefnda er á því reist, að hann eigi kröfu á hendur stefnanda til skuldajöfnuðar.
Af hálfu stefnanda er á því byggt, að krafan sé ekki hæf til skuldajöfnuðar, þar sem lántaka stefnda sem stjórnarmanns hjá fyrirtækinu sé óheimil að lögum og sé skuldajöfnuður því óheimill. Vísar stefnandi í því sambandi til 104. gr. l. nr. 2/1995 um hlutafélög.
Í 1. mgr. tilvitnaðra laga um hlutafélög segir svo: “Hlutafélagi er hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. ... Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til venjulegra viðskiptalána.” Í 7. mgr. sömu greinar segir enn fremur: “Ákvæðum 1. og 2. mgr. verður ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir.”
Gögn málsins bera ekki með sér, hvers konar fyrirtæki Burnham á Íslandi var, en fullyrðingu í greinargerð stefnda um, að fyrirtækið hafi verið fjármálastofnun hefur ekki sætt andmælum. Með vísan til þess, er fallizt á með stefnda, að tilvitnað lagaákvæði í 1. mgr. 104. gr. l. nr. 2/1995 eigi ekki við um Burnham á Íslandi.
Stefnandi byggir enn fremur á því, að aðstæður við ábyrgðaryfirlýsingu stefnda hafi verið tortryggilegar og yfirlýsingin hafi verið málamyndagerningur.
Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á, gegn andmælum stefnda, að um málamyndagerning hafi verið að ræða. Þá er ósannað með öllu, að dagsetning yfirlýsingarinnar sé fölsuð eða röng.
Þá byggir stefnandi á því, að skuldajöfnuður komi ekki til álita með vísan til 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, þar sem stefndi hafi vitað eða mátt vita að hverju stefndi með reksturinn.
1. mgr. 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga hljóðar svo: “Hver sá, sem skuldar þrotabúinu, getur dregið það frá sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið, ef lánardrottinn hefur eignazt kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita, að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.”
Samkvæmt dagsetningu ábyrgðarskuldbindingarinnar, sem ekki hefur verið hrakin, var ábyrgðin gefin 4. janúar 2000. Frestdagur var 27. nóvember, en þá var fyrirtækið svipt starfsleyfi, eða tæpum tveimur árum eftir dagsetningu ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Enginn reki hefur verið gerður að því af hálfu stefnanda að staðreyna þær fullyrðingar, að stefndi hafi vitað eða mátt vita í janúar 2000, að þrotabúið hafi á þeim tíma ekki átt fyrir skuldum.
Það liggur fyrir, að stefndi hefur lýst kröfu sinni í þrotabúið og hefur krafan verið samþykkt sem almenn krafa.
Fallast má á með stefnda, að hann hafi í raun eignazt kröfuna, þegar yfirlýsingin var gefin, enda þótt krafan hafi fyrst orðið virk við greiðsluþrot búsins.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 100. gr. l. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ber að taka til greina kröfu stefnda um skuldajöfnuð.
Krafa stefnanda á hendur stefnda ber dráttarvexti eins og krafizt er frá 27. nóvember 2001 til 18. febrúar 2002, en þann dag var kröfu stefnda lýst í búið og skuldajafnaðar krafizt. Telst hún því hafa verið bær til skuldajafnaðar þann dag. Með því að skuldajafnaðarkrafan var hærri en krafa stefnanda, þegar kröfurnar mættust, ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 200.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Guðmundur Franklín Jónsson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Bús Burnham á Íslandi hf.
Stefnandi greiði stefnda kr. 200.000 í málskostnað.