Hæstiréttur íslands
Mál nr. 470/1999
Lykilorð
- Verksamningur
- Geymslufé
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 13. apríl 2000. |
|
Nr. 470/1999. |
Magnús og Steingrímur ehf. (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn húsfélaginu Vesturbergi 78, Reykjavík (Magnús Guðlaugsson hrl.)
|
Verksamningur. Geymslufé. Fyrning.
Félagið M, sem unnið hafði að viðgerðum á húsinu V, krafði húsfélag V um geymslufé, sem félagið hafði haldið eftir af verklaunum, sem það innti af hendi vegna verksamnings aðilanna í apríl 1993. Í verksamningnum var vísað til útboðslýsingar frá mars 1993, en samkvæmt henni átti húsfélagið að halda eftir geymslufé, 5% af hverjum reikningi sem tryggingu, sem félli í gjalddaga þegar lokaúttekt á verkinu hefði farið fram eftir verklok. Talið var að verklok hefðu verið síðla árs 1993 og að miða ætti upphaf fyrningarfrests kröfunnar við 5. október 1993. Á grundvelli 1. tl. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 var fyrningartími kröfunnar talinn fjögur ár frá þeim degi sem krafan varð gjaldkræf. M hóf innheimtu kröfunnar í febrúar 1998 og var talið að krafan hefði þá verið fyrnd. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna húsfélagið V af kröfum M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 1999 og krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 757.108 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. mars 1994 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
Eins og kemur fram í héraðsdómi snýst mál þetta um kröfu áfrýjanda um geymslufé, sem stefndi hélt eftir af verklaunum, er hann innti af hendi vegna verksamnings aðilanna í apríl 1993 um viðgerðir, málun og endurnýjun þakklæðningar að Vesturbergi 78. Í verksamningnum var vísað til útboðslýsingar frá mars 1993, sem unnin var af verkfræðistofunni Línuhönnun hf. Samkvæmt henni átti stefndi að halda eftir geymslufé, 5% af hverjum reikningi, sem tryggingu. Félli hún í gjalddaga þegar lokaúttekt hefði farið fram og verkinu væri að fullu lokið.
Í stefnu kvað áfrýjandi verklok hafa orðið 5. október 1993 og taldi hann gjalddaga kröfunnar vera þann dag. Stefndi vísar hins vegar til fundargerðar frá 21. desember 1993, þar sem segir að samkvæmt stöðuúttekt á verkinu hafi því lokið 23. nóvember það ár, að undanskilinni fínhreinsun á lóð. Ekki hefur komið fram að áfrýjandi hafi síðar beðið um úttekt. Fyrir Hæstarétti hefur hann byggt á því að lokaúttekt hafi enn ekki farið fram til fullnustu og verklok þar með ekki orðið. Stefndi hefur mótmælt þessari málsástæðu sem of seint fram kominni.
Þegar litið er til málflutnings beggja aðila í héraði verður við það að miða að eiginleg verklok hafi orðið síðla árs 1993 og er ekki unnt að byggja á nýrri málsástæðu áfrýjanda um þetta gegn mótmælum stefnda. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að miða beri við 5. október 1993 sem upphaf fyrningarfrests kröfunnar.
Ljóst er að stefndi taldi sér heimilt að halda eftir umræddu geymslufé þar sem ýmsum frágangi væri ólokið af hálfu áfrýjanda, verkið hafi tafist og væri hugsanlega gallað. Þrátt fyrir að áfrýjandi byggði málssókn sína í héraði á því að gjalddagi kröfunnar hafi verið 5. október 1993 hófst hann ekki handa um hana fyrr en með birtingu stefnu 28. febrúar 1998. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að krafan hafi þá verið fyrnd.
Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur. Rétt þykir að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.
Áfrýjandi, Magnús og Steingrímur ehf., greiði stefnda, húsfélaginu Vesturbergi 78, Reykjavík, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 1999.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 21. þ. m. var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 27. febrúar 1998. Málið var þingfest 5. mars 1998.
Stefnandi er Magnús og Steingrímur ehf., kt. 650275-0129, Sogavegi 190, Reykjavík.
Stefndi er Húsfélagið Vesturbergi 78, Reykjavík, kt. 430481-1349.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 757.108 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 5. október 1993, til greiðsludags, þannig að dráttarvextir taki breytingum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, auk málskostnaðar að mati réttarins
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að húsfélagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar, ásamt virðisaukaskatti, að mati dómsins.
Dómarinn fór á vettvang að Vesturbergi 78 í kjölfar skýrslugjafa fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og með honum lögmenn málsaðila.
II
Óumdeild málsatvik
Með verksamningi sem gerður var í apríl 1993 tók stefnandi að sér fyrir stefnda viðgerðir og málun utanhúss, ásamt endurnýjun á þakklæðningu á fjölbýlishúsinu að Vesturbergi 78. Verkið var unnið undir eftirliti verkfræðistofunnar Línuhönnunar hf. og greiddi stefndi kostnað við það. Áður hafði stefndi falið öðrum aðila að hreinsa málningu af húsinu með háþrýstiþvotti. Samkvæmt verksamningi aðila var stefnda heimilt að halda eftir af fjárhæð hvers reiknings stefnanda vegna verksins svokölluðu geymslufé sem nam 5% af farmvísaðri reikningsfjárhæð. Geymslufé þetta var trygging stefnda vegna hugsanlegra vanefnda stefnanda. Geymsluféð skyldi afhent stefnanda eftir að lokaúttekt hefði farið fram á verkinu.
Samkvæmt upphaflegum verksamningi skyldi verkinu lokið fyrir 15. ágúst 1993 og dagsektir ákveðnar 15.000 krónur á dag. Vegna ýmissa aukaverka og tafa var verktími framlengdur, fyrst til 15. september og síðan til 11. október 1993. Úttektir fóru fram á verkinu 17. september, 5. október og 15. október 1993 og voru gerðar ýmsar athugasemdir við verkið. Stefndi heldur því fram að lokaúttekt hafi síðan farið fram 23. nóvember 1993. Aðila greinir á um hvenær verkinu hafi í raun verið lokið.
Fljótlega eftir að verkinu lauk taldi stefndi að fram væru komnir gallar á því og aflaði matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Matsgerðin lá fyrir í apríl 1995. Matsmenn töldu að málning sú sem Línuhönnun hf. útvegaði til verksins og stefndi lagði til, hefði verið haldin göllum og vinnubrögðum stefnanda við málun hefði í nokkrum atriðum verið áfátt. Kostnað við úrbætur mátu matsmenn samtals 6.189.585 krónur, þar af virðisaukaskatt af vinnu 801.458 krónur.
Stefndi fékk síðan Gunnar Karlsson byggingartæknifræðing til að stilla upp uppgjöri við stefnanda vegna annarra þátta en kröfu vegna meintra galla á verki. Í tillögu Gunnars að uppgjöri kemur fram að geymslufé nemi 753.851 krónu en frá þeirri fjárhæð dragist ófrágengnir verkþættir sem hann telur nema 120.000 krónum og dagsektir í 43 daga sem nemi 645.000 krónum og því skuldi stefnandi stefnda 11.149 krónur vegna verksins.
Í bréfi lögmanns stefnda til stefnanda frá 19. febrúar 1996 voru settar fram skaðabótakröfur, m.a. á grundvelli matsgerðarinnar. Í bréfinu var auk þess vísað til niðurstöðu fyrrnefndar tillögu Gunnars Karlssonar að uppgjöri, en hún fylgdi bréfinu.
Stefndi höfðaði skaðabótamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnanda þessa máls og Línuhönnun ehf. með stefnu birtri 6. mars 1996. Í málinu krafði stefndi stefnanda og Línuhönnun ehf. óskipt um greiðslu á skaðabótum að fjárhæð 6.514.798 krónur, en það var niðurstaða matsgerðarinnar að frádregnum virðisaukaskatti af vinnu, en að viðbættum 1.094.349 króna verkfræði- og eftirlitskostnaði vegna endurbóta og 32.323 króna kostnaði vegna rannsókna og skýrslugerðar. Ekki var í stefnu vikið að geymslufé eða uppgjöri dagsekta og óunninna verka. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 6. september 1996.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að lokaúttekt á verkinu hafi farið fram 5. október 1993. Þá hafi verið gerðar ýmsar smávægilegar athugasemdir við verkið af fulltrúa stefnda og hafi verið úr þeim bætt. Ennfremur hafi verið gerðar athugasemdir vegna meints galla sem rekja hafi mátt til gæða málningar sem notuð hafi verið við verkið. Sú athugasemd hafi verið stefnanda óviðkomandi, þar sem stefndi hafi sjálfur lagt málningu til verksins. Síðar hafi komið í ljós að geymslutími málningarinnar hafi verið runninn út. Þá hafi stefnandi engar upplýsingar fengið um eiginleika málningarinnar eða leiðbeiningar um notkun, þótt gengið hafi verið eftir því, fyrr en stefnandi aflaði sér slíkra upplýsinga frá framleiðanda. Stefnandi telur að túlka beri niðurstöðu dómkvaddra matsmanna á þann veg að hugsanlega galla á verkinu megi rekja til ófullnægjandi gæða málningarinnar.
Stefnandi kveðst að fullu hafa staðið við efni samnings aðila, en stefndi vanefnt samninginn með því að greiða ekki eftir lokaúttekt það geymslufé sem hann hafði haldið eftir.
Um fyrningu kröfunnar
Stefnandi byggir á því að fyrningarfrestur kröfunnar hafi verið rofinn af hálfu stefnda með bréfi sem lögmaður stefnda sendi stefnanda 19. febrúar 1996. Í bréfi þessu hafi krafa stefnanda um geymslufé verið viðurkennd þar sem vísað hafi verið til og byggt á tillögu Gunnars Karlssonar að uppgjöri. Í þeirri uppgjörstillögu komi fram skýr viðurkenning á því að stefnandi eigi kröfu á stefnda vegna geymslufjár að fjárhæð 753.851 króna. Af 6. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 leiði að þá hafi stofnast nýr fyrningarfrestur sem í þessu tilviki sé fjögur ár. Krafan hafi því verið ófyrnd þegar stefna hafi verið birt fyrir stefnda 27. febrúar 1998.
Um gagnkröfur stefnda
Stefnandi hafnar öllum gagnkröfum stefnda. Hann kveður verkið hafa dregist af ástæðum sem eingöngu hafi verið á ábyrgð stefnda. Stefnandi hafi fallist á að framkvæma ýmis aukaverk fyrir einstaka íbúa hússins, eins og td. skipti á gleri í gluggum. Slíkar beiðnir hafi oftar en ekki borist á síðustu stundu og tafið eðlilega framvindu verksins. Múrviðgerðir hafi verið mun umfangsmeiri en gert hafi verið ráð fyrir og vinna við málun 25% umfram áætlanir. Stefndi hafi útvegað málningu til verksins en í lok verks hafi málningin verið á þrotum en stefndi verið að tína til eina og eina fötu og hafi það tafið verkið. Verkinu hafi að mestu verið lokið fyrir úttektina 17. september 1993 en þá hafi verið tínd til ýmis smáatriði sem þurfti að lagfæra. Stefnandi hafi þegar bætt úr þeim atriðum en við úttekt 5. október hafi stefndi komið fram með ný aðfinnsluatriði og hafi þar verið um algeran sparðatíning að ræða. Úr flestum þessara atriða hafi þó verið bætt. Stefnandi telur að aðfinnslur hafi snúist um smáatriði og að verkinu hafi í raun verið lokið.
Stefnandi mótmælir því sem ósönnuðu að hann hafi ekki lokið verkinu og hafnar kröfu vegna ólokinna verka að fjárhæð 120.000 krónur. Þá telur stefnanda að hann hafi ekki krafist endurgjalds fyrir nein verk sem hann hafi ekki lokið við.
Stefnandi telur að niðurstaða matsgerðar geti ekki verið grundvöllur undir skaðabótakröfu á hendur honum. Orsakir flögnunar og annars þess sem matsmenn telji áfátt við verkið megi rekja til gallaðrar og útrunninnar málningar sem stefndi hafi sjálfur lagt til. Stefnandi hafi ekki fengið upplýsingar um endingartíma málningarinnar, eiginleika eða meðhöndlun. Þá hafi annar aðili en stefnandi séð um háþrýstiþvott á húsinu. Stefnandi hafi varað við að steypa í svalagólfum væri blaut og líklegt væri að málning myndi flagna af ef svalaloftin væru máluð strax en fengið fyrirmæli um að ljúka við málningu svalanna. Þá hafi stefnandi bent á að skipta þyrfti um járn á gluggum þar sem þau voru farin að ryðga og málun þeirra myndi ekki gefa nægjanlega góðan árangur. Flestir íbúðareigendur hafi endurnýjað járnin með ryðfríu efni. Þar sem ekki hafi verið skipt um járn hafi þau verið pússuð upp og ryðvarin fyrir málningu. Ekki megi vænta betri árangurs af slíku verki og því sjáist nú ryð í gegn á þessum gluggum.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að vel hafi tekist til við málningu hússins og ástand þess nú sex árum síðar beri vitni um það.
Um lagarök vísar stefnandi m. a. til almennra reglna kröfuréttar, samningalaga nr. 7/1936 og laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991. Ennfremur vísar stefnandi til IST 30.
IV
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er því haldið fram að verulegar tafir hafi orðið á verkinu af hálfu stefnanda og hafi hann aldrei lokið við fullnaðarfrágang verksins. Stefndi hafi framlengt verktímann oftar en einu sinni en endanlegur skilatími verið ákveðinn 11. október 1993. Stefndi telur verkinu ekki hafa verið lokið með lokaúttekt 5. október 1993 heldur hafi sú úttekt verið áfangaúttekt. Hið rétta sé að forúttekt á verkinu hafi farið fram 15. nóvember 1993 og þá komið í ljós að talsvert væri ógert. Verkinu hafi verið lokið 23. nóvember 1993, að undanskilinni fínhreinsun á lóð og málningarfrágangi neðst á veggjum, eins og fram komi í fundargerð Línuhönnunar ehf. frá verkfundi 21. desember 1993. Stefndi hafi krafist umsaminna dagsekta vegna dráttar á verkinu. Miðað við veittar framlengingar hafi tafir á verkinu reynst nema 43 dögum þ. e. frá 11. október til 23. nóvember þegar verkinu hafi verið skilað.
Uppgjörsstaða verksins við verklok verið tekin saman af Gunnari Karlssyni, byggingartæknifræðingi. Uppgjörsniðurstaða verksins, að frátöldum göllum í verkinu, hafi verið sú að stefnandi skuldaði stefnda 11.149 krónur. Kröfur um dagsektir og kostnað við frágang verksins hafi stefndi gert þegar á verktímanum og við verklok.
Grunur hafi fljótlega komið fram um að á verkinu væru miklir gallar, m. a. hafi málning strax byrjað að flagna af svalaloftum. Dómkvaddir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að efni sem notað hafi verið til málningar hafi verið gallað. Stefndi túlki niðurstöðu dómkvaddra matsmanna einnig á þann veg að vinnubrögð stefnanda hafi ekki verið fullnægjandi, einkum hvað varðar málun á gluggum og vatnsbrettum. Í kostnaðarmati í matsgerð séu þessir liðir metnir á 978.900 krónur sem sé einn þáttur í gagnkröfunni. Stefndi heldur því fram að stefnandi beri fulla ábyrgð á þeim göllum sem greint sé frá í framlagðri matsgerð.
Línuhönnun hf., sem séð hafi um eftirlit með verkinu, hafi óskað eftir yfirmati í matsmálinu nr. M- 14/1996 og liggi niðurstöður þess fyrir. Línuhönnun hf. hafi hins vegar ekki reynst fáanlegt að láta aðilum þessa máls í té niðurstöður yfirmatsins.
Um fyrningu
Krafist er sýknu með þeim rökum að krafa stefnanda sé fyrnd. Krafa sem þessi fyrnist á fjórum árum samkvæmt ákvæðum 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Krafan sé byggð á framlögðum reikningum og sé síðasti reikningurinn dagsettur 21. september 1993. Í stefnu sé á því byggt að gjalddagi kröfunnar sé 5. október 1993 og krafist dráttarvaxta frá þeim degi. Samkvæmt því hafi fyrningarfrestur kröfunnar verið á enda 5. október 1997. Birtingardagur stefnu hafi verið í febrúar 1998 og því vafalaust að krafa stefnanda hafi verið fyrnd við birtingu stefnu. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á sýknukröfu stefnda.
Stefndi telur að í bréfi lögmanns stefnda frá 19. febrúar 1996 ekki hafi falist viðurkenning á skuld í skilningi 6. gr. fyrningarlaga, þvert á móti hafi þar verið gerð krafa á hendur stefnanda. Frá upphafi hafi verið óumdeilt að 5% af endurgjaldi fyrir verkið hafi verið haldið eftir sem geymslufé og þess sé eðlilega getið í tillögu Gunnars Karlssonar að uppgjöri verksins. Tilvísun í þessa uppgjörstillögu í bréfi lögmanns stefnda geti því ekki með nokkru móti rofið fyrningarfrest á kröfu stefnanda.
Um skuldajafnaðarkröfur
Stefndi kveðst eiga gagnkröfur sem nægi að fullu til skuldajafnaðar á móti kröfum stefnanda og ríflega það. Skaðabótakröfur stefnda á hendur stefnanda samkvæmt framlagðri matsgerð, sem ekki hafi verið hnekkt, nemi 6.198.585 krónum, auk 645.000 króna kröfu vegna dagsekta og 120.000 króna kröfu vegna ólokinna verkþátta. Alls nemi gagnkröfur stefnda 6.963.585 krónum, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 9. júní 1995 og er þess krafist að þær komi til skuldajafnaðar við stefnukröfur í málinu ef á þær verður fallist að öllu leyti eða að hluta.
Varakröfu sína styður stefndi þeirri málsástæðu að teljist greiðsluskylda hvíla á honum og gagnkröfur hans verði ekki teknar til greina, svo nægi til sýknu, geti krafa stefnanda ekki borið vexti fyrr en þá í fyrsta lagi frá þingfestingardegi málsins. Tómlæti stefnanda við innheimtu kröfunnar eigi ekki að veita honum rétt til þeirrar vaxtatöku sem krafist sé í stefnu. Þá fyrnist krafa stefnanda til vaxta á fjórum árum hvað sem öðru líði.
Um lagarök vísar stefndi m. a. til laga nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda. Þá vísar stefndi til almennra meginreglna íslensks réttar á sviði kauparéttar, með eða án lögjöfnunar, auk meginreglna kröfu- og samningaréttar. Þá er vísað til meginreglna laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 með lögjöfnun.
V
Niðurstaða
Samkvæmt 1. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 er fyrningartími kröfu þeirrar sem stefnandi hefur uppi í máli þessu fjögur ár. Fyrningarfrestur slíkrar kröfu telst frá þeim degi sem krafan varð gjaldkræf, samanber 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Í upphafi 6. gr. fyrningarlaga er kveðið á um það að ef skuldunautur viðurkenni skuld sína við kröfueiganda, annaðhvort með berum orðum eða á annan hátt, eftir þann tíma er fyrningarfrest hefði ella átt að telja frá, hefjist nýr fyrningarfrestur frá þeim degi, er viðurkenningin átti sér stað. Sem dæmi um viðurkenningu kröfu er tekið loforð um borgun eða greiðsla vaxta.
Grunnrök að baki fyrningarreglum eru m.a. þau að ekki sé rétt að skuldari megi búast við því nema í tiltekinn tíma að þurfa að svara til kröfu, enda er honum erfiðara að færa sönnun gegn kröfunni því lengra sem líður frá því að hún varð gjaldkræf. Með hliðsjón af þessum grunnrökum verður að gera nokkuð strangar kröfur til skýrleika viðurkenningar skuldar í skilningi 6. gr. fyrningarlaga. Til þess að skuldari teljist hafa rofið fyrningu verður hann því ekki aðeins að hafa viðurkennt skuld sína gagnvart kröfuhafa heldur megi einnig jafna viljayfirlýsingu hans eða athöfnum við loforð um greiðslu skuldarinnar.
Málsaðilar eru sammála um tilurð kröfu stefnanda. Þá eru þeir sammála um að þau 5% sem stefndi hélt eftir af fjárhæð hvers reiknings til tryggingar hugsanlegum vanefndum stefnanda hafi verið gjaldkræf að lokinni úttekt á verkinu í verklok.
Í gögnum málsins er að finna upplýsingar um þrjár úttektir á verkinu. Fyrsta úttektin fór fram 17. september 1993 og var hún aðeins nefnd úttekt. Útbúinn var listi yfir þau atriði sem bæta þurfti úr. Fulltrúar verkkaupa fóru aftur yfir verkið 5. október 1993 og var þá útbúinn listi yfir atriði sem ekki voru á úttektarlista frá 17. september. Svokölluð forúttekt fór fram 15. nóvember og voru þá listuð upp atriði sem komu fram við þá úttekt. Í fundargerð frá verkfundi 21. desember 1993 var bókað eftir fulltrúa verkkaupa að samkvæmt stöðuúttekt hafi því verið lokið 23. nóvember 1993, að undanskilinni fínhreinsun á lóð sem hafi verið lokið 30. nóvember. Þær úttektir og fundargerðir sem liggja frammi í málinu eru unnar af Línuhönnun ehf. en hafa ekki verið undirritaðar af fulltrúum málsaðila. Af hálfu stefnda er á því byggt að verklok hafi ekki verið fyrr en 23. nóvember 1993.
Stefnandi byggir á því að krafa hans hafi stofnast 5. október 1993 þegar úttekt hafi farið fram á verkinu og krefst hann dráttarvaxta frá þeim degi. Með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda markar sú dagsetning, hvað sem öðru líður, upphaf fyrningarfrests.
Stefnandi byggir á því að fyrningarfrestur kröfunnar hafi verið rofinn af hálfu stefnda með bréfi sem lögmaður stefnda sendi stefnanda 19. febrúar 1996. Í bréfi þessu hafi krafa stefnanda um geymslufé verið viðurkennd. Af 6. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 leiði að þá hafi stofnast nýr fjögurra ára fyrningarfrestur. Krafan hafi því verið ófyrnd þegar stefna hafi verið birt fyrir stefnda 27. febrúar 1998.
Í umræddu bréfi lögmanns stefnanda er sett fram skaðabótakrafa að fjárhæð samtals 7.510.547 krónur vegna kostnaðar við úrbætur á meintum göllum. Síðar í bréfinu segir svo:
"Frá uppgjöri verksins milli yðar og umbj.m. hefur ekki verið gengið af hálfu Línuhönnunar hf. eins og til stóð skv. samningi. Umbj.m. hafa því fengið það verk unnið og liggur fyrir tillaga Gunnars Karlssonar, tæknifræðings um það uppgjör og munu umbj.m. byggja á þeirri niðurstöðu en áskilja sér allan rétt í því sambandi þar til niðurstaða færst í málinu í heild. Er samantekt þessi látin fylgja hjálögð. Niðurstaðan er sú, að teknu tilliti til þess sem ólokið er af verkinu og tafabóta, að skuld yðar við umbj.m. vegna uppgjörs á verkinu er kr. 11.149 auk þeirra krafna sem gerðar hafa verið vegna framangreindra meintra galla í verkinu og raktar eru hér að framan."
Tilvitnuð tillaga Gunnars Karlssonar að uppgjöri var unnin að frumkvæði stefnda og er dagsett 10. október 1995. Í tillögunni metur hann ófrágengna verkþætti á 120.000 krónur og dagsektir á 645.000 krónur. Frá þessum fjárhæðum dregur hann geymslufé að fjárhæð 753.851 krónu og kemst að þeirri niðurstöðu að stefnandi skuldi stefnda 11.149 krónur vegna verksins, óháð gæðum þess.
Tilvist geymslufjárins var frá upphafi óumdeild en greiðslu hins vegar hafnað af hálfu stefnda á þeim grundvelli að húsfélagið ætti gagnkröfur. Líta má á tilvísun í tillögu um uppgjör í bréfi lögmannsins sem tillögu að skuldajöfnuði. Í bréfi lögmanns stefnanda kemur fram að byggt sé á uppgjörstillögunni með fyrirvara um heildarlausn málsins. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið fallist á kröfur vegna óunninna verkþátta eða um dagsektir og skuldajöfnuður hefur ekki komist á. Með hliðsjón af því meginmarkmiði bréfs lögmannsins að krefja stefnanda um skaðabætur og skuld vegna uppgjörs og með hliðsjón af fyrirvara um heildaruppgjör, þykir viljayfirlýsing stefnanda ekki hafa verið svo skýr og afdráttarlaus að stefnandi hafi mátt líta á bréfið sem viðurkenningu stefnda á skuld við hann og því síður sem loforð um greiðslu. Samkvæmt því verður ekki litið á bréf lögmanns stefnda frá 19. febrúar 1996 sem viðurkenningu á skuld í skilningi 6. gr. fyrningarlaga sem leitt gat til þess að nýr fyrningarfrestur kröfunnar tæki að líða.
Samkvæmt því var krafa stefnanda fyrnd þegar stefna var birt í máli þessu 27. febrúar 1998. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þar sem stefnandi hefur ekki gagnstefnt vegna krafna þeirra sem hann setur fram sem gagnkröfur í greinargerð sinni verður ekki um þær fjallað.
Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Brynjólfur Eyvindsson hdl. flutti málið af hálfu stefnanda en Þorvaldur Jóhannesson hdl. af hálfu stefnda.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Húsfélagið Vesturbergi 78, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Magnúsar og Steingríms ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.