Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2007
Lykilorð
- Sveitarfélög
- Grunnskóli
- Börn
- Miskabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 13. desember 2007. |
|
Nr. 169/2007. |
Halla Ómarsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Seltjarnarneskaupstað (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Sveitarfélög. Grunnskólar. Börn. Miskabætur. Gjafsókn.
H, sem fædd var 1985 og var fötluð af völdum tilgreinds sjúkdóms og var þroskaheft, flogaveik og með einkenni einhverfu, hóf árið 1991 nám í skólanum M í sveitarfélaginu S. Stundaði hún nám í þeim skóla og síðar skólanum V í sama sveitarfélagi fram til ársins 2000. Í máli þessu krafði H sveitarfélagið S um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Lýsti hún ýmsum atvikum í samskiptum við skólayfirvöld S frá 1995 til 2000 og taldi að í allri þargreindri framgöngu þeirra hefði falist alvarlegt viðvarandi einelti og ólögmæt meingerð í sinn garð. Einkum vísaði hún í þeim efnum til tímabundinnar brottvísunar úr skólanum V snemma árs 2000, synjunar skólans um að veita henni skólavist í ágúst sama ár og tilkynningar skólaskrifstofu S í október það ár um að skólinn gæti ekki veitt henni viðtöku. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að gögn málsins sýndu að um langt skeið hefði ríkt grundvallarágreiningur milli stjórnenda grunnskóla S og sérfræðinga á þeirra vegum annars vegar og foreldra H hins vegar um tilhögun kennslu hennar. Skólayfirvöld töldu ekki unnt að veita H kennslu við hæfi í heimaskóla sökum mikillar fötlunar hennar og að hag hennar væri betur borgið í sérskóla. Foreldrar H töldu hins vegar að hvað sem þessu mati liði ætti hún ótvíræðan rétt á að stunda nám í almennum grunnskóla og gætu þau ein sem forráðamenn hennar tekið ákvörðun um hvort sótt yrði um vist í sérskóla. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þrátt fyrir meginregluna í 3. mgr. 37. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla um að nám fatlaðra nemanda fari fram í heimaskóla væri ljóst af athugasemdum með frumvarpi til grunnskólalaga að fötlun nemanda kynni að vera slík að hann gæti ekki stundað nám í almennum grunnskóla. Mat á því hvort barn fengi notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla ætti samkvæmt fyrrgreindu ákvæði bæði undir foreldra þess og kennara og aðra sérfræðinga. Það fælist í forsjárskyldum foreldra sbr. nú 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ráða persónulegum högum þess og því væri það á þeirra valdi og ábyrgð að sækja um skólavist fyrir barn í sérskóla á sama hátt og það væri almennt á valdi þeirra og ábyrgð að innrita barn í skóla, sbr. 6. gr. laga nr. 66/1995. Þessum skyldum bæri foreldrum að gegna svo sem best henti hag barnsins. Þau væru þannig bundin við ákvarðanir í þessum efnum að taka tillit til mats sérfræðinga á vegum skólayfirvalda um hvað barni væri fyrir bestu. Áttu foreldrar H því ekki fortakslausan rétt á að hún nyti aðgangs að almennum grunnskóla í heimabyggð. Þegar gerðir S væru metnar í ljósi þessa var ekki talið að H hefði tekist að sýna fram á að fullnægt væri skilyrði 26. gr. skaðabótalaga varðandi þær ákvarðanir skólayfirvalda S sem H taldi að í hefði falist ólögmæt meingerð gegn frelsi hennar friði, æru eða persónu. Var sveitarfélagið S því sýknað af kröfum H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 21. mars 2007 og var áfrýjað öðru sinni 23. sama mánaðar. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Áfrýjandi, sem fædd er 1985, er fötluð af völdum sjúkdómsins tuberous sclerosis og er þroskaheft, flogaveik og með einkenni einhverfu. Hún hóf nám í Mýrarhúsaskóla haustið 1991. Í héraðsstefnu eru af hennar hálfu rakin ýmis atvik í samskiptum við skólayfirvöld á Seltjarnarnesi frá 1995 til ársins 2000. Telur áfrýjandi að í allri framgöngu skólayfirvalda á þessu tímabili sem þar er nánar lýst felist alvarlegt viðvarandi einelti og ólögmæt meingerð gagnvart sér í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Einkum vísar hún í því sambandi til tímabundinnar brottvísunar hennar úr Valhúsaskóla 1. febrúar 2000, synjunar skólans 30. ágúst sama ár um að veita henni skólavist og tilkynningar skólaskrifstofu stefnda 31. október sama ár um að Valhúsaskóli geti ekki veitt henni viðtöku. Málsatvikum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Gögn málsins sýna glöggt að um langt skeið var grundvallarágreiningur milli stjórnenda grunnskóla stefnda og sérfræðinga á þeirra vegum annars vegar og foreldra áfrýjanda hins vegar um tilhögun kennslu hennar. Skólayfirvöld töldu ekki unnt að veita áfrýjanda kennslu við hæfi í heimaskóla sökum mikillar fötlunar hennar og að hag hennar væri betur borgið í sérskóla en almennum skóla. Foreldrar áfrýjanda töldu hins vegar að hvað sem þessu mati liði ætti hún ótvíræðan rétt á að stunda nám í almennum grunnskóla og gætu þau ein sem forráðamenn hennar tekið ákvörðun um hvort sótt yrði um vist í sérskóla. Í 37. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla er í 1. mgr. kveðið á um að börn og unglingar sem eiga erfitt með nám meðal annars vegna fötlunar skuli eiga rétt á stuðningi. Samkvæmt 2. mgr. getur kennslan verið einstaklingsbundin eða farið fram í hóp innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérdeild eða í sérskóla. Í 3. mgr. greinarinnar er svohljóðandi ákvæði: „Meginstefnan skal vera sú að kennslan fari fram í heimaskóla. Telji foreldrar barns eða forráðamenn, kennarar eða aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla geta forráðamenn sótt um skólavist fyrir það í sérskóla.“ Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 66/1995, segir meðal annars að með greininni sé áréttuð sú stefna gildandi laga að börn og unglingar sem erfitt eigi með nám meðal annars vegna fötlunar samkvæmt 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra eigi rétt á kennslu við sitt hæfi og að kennsla fari fram í heimaskóla nemandans eins og frekast er kostur. Af þessu orðalagi athugasemdanna er ljóst að þrátt fyrir meginregluna um nám í heimaskóla kann fötlun nemanda að vera þess eðlis að hann geti ekki stundað nám í almennum grunnskóla. Skýrt er orðað í 3. mgr. 37. gr. laga nr. 66/1995 að mat á því hvort barnið fái notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla á bæði undir foreldra þess eða forráðamenn og kennara og aðra sérfræðinga. Það felst í forsjárskyldum foreldra að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ráða persónulegum högum þess, sbr. nú 28. gr. barnalaga nr. 76/2003, og í samræmi við það er á þeirra valdi og ábyrgð að sækja um skólavist fyrir barn í sérskóla á sama hátt og það er almennt á þeirra valdi og ábyrgð að innrita barn í skóla, sbr. 6. gr. laga nr. 66/1995. Þessum skyldum ber foreldrum að gegna svo sem best hentar hag barnsins og þörfum. Þau eru þannig við það bundin við ákvarðanir í þessum efnum að taka tillit til mats sérfræðinga á vegum skólayfirvalda um hvað barni sé fyrir bestu. Ef foreldrar áfrýjanda vildu ekki sætta sig við mat skólayfirvalda stefnda og sérfræðinga á þeirra vegum gafst þeim kostur samkvæmt þágildandi ákvæðum 2. töluliðar 1. mgr. 16. gr. laga nr. 59/1992 á að leita um þetta ráðgjafar og mats Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins eins og bæði barnaverndaryfirvöld og skólanefnd stefnda höfðu bent á. Samkvæmt framansögðu áttu foreldrar áfrýjanda ekki fortakslausan rétt á að hún nyti aðgangs að almennum grunnskóla í heimabyggð. Verður að meta gerðir stefnda í því ljósi. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms varðandi einstök tilvik, sem áfrýjandi reisir bótakröfu sína á, verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Höllu Ómarsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2006.
Mál þetta höfðaði Halla Ómarsdóttir, kt. 010485-3049, Miðbraut 14, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri 14. desember 2005 á hendur Seltjarnarneskaupstað, kt. 560269-2429. Einnig var stefnt skólanefnd Seltjarnarness og Valhúsaskóla, en fallið hefur verið frá kröfum á hendum þeim.
Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 29. september sl. Það var endurupptekið fyrr í dag og dómtekið að nýju.
Stefnandi krefst greiðslu á 4.000.000 króna. Þá krefst hún málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Í stefnu segir að stefnandi sé fötluð af völdum sjúkdómsins Tuberous Sclerosis og því sé hún þroskaheft, flogaveik og með einkenni einhverfu. Foreldrar hennar hafi viljað að hún lifði sem eðlilegustu lífi þrátt fyrir fötlunina og hafi talið hana eiga að lögum rétt til þess. Með stuðningi hafi hún sótt leikskóla á Seltjarnarnesi. Hún hafi byrjað í Mýrarhúsaskóla haustið 1991, en foreldrar hennar hafi tilkynnt skólayfirvöldum óskir sínar um aðgang stefnanda að almennum skóla með löngum fyrirvara.
Stefnandi var í Mýrarhúsaskóla frá 1991 til 1999. Veturinn 1993-94 dvaldi hún þó erlendis með fjölskyldu sinni vegna náms móður sinnar.
Í stefnu er vísað til nokkurra atvika er hafi átt sér stað á meðan stefnandi var í Mýrarhúsaskóla.
Í fyrsta lagi er greint frá því að skólastjóri hafi tilkynnt móður stefnanda vorið 1995 að skólinn gæti ekki haft stefnanda í skólanum næsta vetur þar sem svonefndur sérkennslukvóti skólans hefði verið lækkaður. Segir að hann hafi tilkynnt brottvísun hennar úr skólanum. Eftir viðræður við bæjarstjóra Seltjarnarness og nýjan skólastjóra hafi stefnandi þó haldið áfram námi haustið 1995.
Skólastjóri Mýrarhúsaskóla hafi boðað til fundar með foreldrum nemenda í 5.-A, bekk stefnanda, þann 18. janúar 1996. Á fundinum skyldi „ræða sérstaklega mál eins nemanda”, þ.e. stefnanda. Tekið er fram í bréfinu að fundurinn verði haldinn með samþykki foreldra stefnanda, sem ekki muni sækja fundinn. Segir skólastjóri í bréfinu að hann vonist til þess að allir foreldrar sjái sér fært að mæta og að gagnleg umræða geti farið fram, “um þetta mál sem mér skilst að brenni á mun fleiri foreldrum bekkjarins en þeim sem þegar hafa rætt við mig”.
Lögð er fram í málinu fundargerð er aðstoðarskólastjóri mun hafa tekið saman. Stefnandi telur að þar komi fram andúð sumra foreldra á því að fatlað barn skuli vera í heimaskóla.
Skólastjóri hélt annan fund 28. mars 1996. Þar voru einnig foreldrar stefnanda. Í stefnu er sagt að foreldrar stefnanda hafi verið ánægðir með fundinn, þrátt fyrir að tveir kennarar í skólanum hafi talað gegn henni, eins og segir í stefnu.
Í stefnu segir að veturinn í 5. bekk A hafi verið stefnanda erfiður. Fyrst er nefnd framganga foreldra bekkjarfélaga. Þá hafi stefnandi misst allt hárið af völdum flogalyfja og bekkjarfélagar hafi talað um að hún væri ógeðsleg. Þá hafi foreldrar hótað að hafa börn sín heima ef þau þyrftu að sitja nálægt henni. Loks hafi hún að ósk bekkjarfélaganna verið rekin úr leikriti er hún hafði æft með þeim. Um vorið hafi fjölmörg börn í bekknum tekið sig saman og sent mörg óhróðursbréf um stefnanda og fjölskyldu hennar heim til hennar. Þá hafi verið skotið úr loftbyssu á húsið. Fram hafi komið af hálfu skólans að erfitt reyndist að vinna börnin á band stefnanda.
Þá er fullyrt í stefnu að þetta vor hafi einn kennari við skólann, sem einnig átti barn í bekk stefnanda, haft frumkvæði að fundi með foreldrum bekkjarfélaga stefnanda. Þar hafi málefnin verið rædd og segir í stefnu að skipuð hafi verið sérstök stjórn til að skipuleggja aðgerðir gegn veru stefnanda í bekknum.
Í stefnu segir að móðir stefnanda hafi heyrt af þessum fundi og þá ritað bæjarstjóra Seltjarnarness bréf, sem dagsett sé 21. júní 1996. Bréfinu hafi ekki verið svarað. Síðar um sumarið hafi Regína Höskuldsdóttir, skólastjóri, tjáð foreldrum stefnanda að bréfið hefði komið sér illa. Þar sem kvartað væri yfir einelti kennara myndu kennarar líklega mótmæla því að hafa stefnanda í bekk.
Haustið 1996 hafi komið nýr kennari að bekk stefnanda. Ekkert hafi hins vegar orðið úr uppstokkun í árganginum sem rædd hafi verið. Þá segir í stefnu að tilraunir skólans til að vinna með einelti barnanna hafi mistekist. Hópur foreldra bekkjarfélaga stefnanda hafi viðhaldið fyrra ástandi og óánægju með veru hennar í bekknum. Í æ ríkari mæli hafi hún ekki verið inni í bekknum heldur í sérkennslu með stuðningskennara til að forðast neikvæða framkomu bekkjarfélaga.
Haustið eftir, 1997, hafi stefnandi verið flutt í nýjan bekk, 5. bekk C. Skólagangan hafi gengið vel þann vetur. Segir í stefnu að skólastjóri hafi boðið að stefnandi fylgdi þessum bekk áfram til loka 7. bekkjar, sem þá hafi verið síðasti bekkurinn í Mýrarhúsaskóla. Vel hafi gengið framan af vetri 1998-99. Á fundi 18. mars 1999 hafi skólastjóri hins vegar tilkynnt fyrirvaralaust að stefnandi yrði ekki áfram í skólanum eftir að skólaárinu lyki. Það væri vilji skólans að hún færi í sérskóla fyrir fatlaða.
Í bréfi skólastjóra þann 10. janúar 2000, til móður stefnanda, er því mótmælt að stefnanda hafi verið lofað veru í þessum bekk eins og lýst er í stefnu.
Móðir stefnanda ritaði skólastjóra bréf 6. apríl 1999 þar sem hún óskaði eftir rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun. Skólastjóri svaraði með bréfi 14. apríl. Þar segir að Mýrarhúsaskóli sé fyrir börn á aldrinum sex til tólf ára, nám stefnanda við skólann sé eina undantekningin sem gerð hafi verið frá því. Síðan segir: „Nú er það samdóma álit þeirra fagaðila sem að máli hennar koma að þrátt fyrir viðleitni okkar til þess aðskapa henni hentugar námsaðstæður þá sé það fullreynt að þessi ráðstöfun gangi ekki lengur. Við teljum að verið sé að kasta á glæ afar dýrmætum tíma sem nýta mætti til að stuðla að bættum samskiptum hennar í sérhæfðu umhverfi. Út frá þessum sjónarmiðum teljum við því ekki verjandi að halda kennslu hennar áfram hér við skólann. Við mælum eindregið með að henni verði séð fyrir skólavist í sérhæfðu úrræði þar sem hægt verður að mæta betur þörfum hennar og stuðla að bættum tjáskiptum hennar.”
Móðir stefnanda kærði brottvísun hennar til menntamálaráðuneytisins og óskaði jafnframt eftir rannsókn á skólastarfi í Mýrarhúsaskóla. Erindi hennar var vísað frá ráðuneytinu til skólanefndar Seltjarnarness. Niðurstaða skólanefndar og síðar bæjarstjórnar varð sú „að virða bæri” ákvörðun Mýrarhúsaskóla og að stefnanda skyldi veitt skólavist í Valhúsaskóla veturinn 1999-2000.
Stefnandi hóf nám í 8. bekk A í Valhúsaskóla haustið 1999. Ráðinn var sérstakur stuðningskennari, Soffía Thorarensen, auk Hrafndísar Teklu Pétursdóttur, sálfræðings. Á fundi sem haldinn var í skólanum 21. janúar 2000 var rætt um málefni stefnanda. Fundinn sátu m.a. móðir stefnanda, skólastjóri og stuðningskennarinn. Misjöfn viðhorf má sjá af fundargerð sem lögð hefur verið fram, en ekki verður séð hver skráði þá fundargerð.
Með bréfi dagsettu 28. janúar 2000 tilkynnti skólastjóri foreldrum stefnanda að til stæði að taka ákvörðun um hvort vísa ætti stefnanda úr skólanum tímabundið, með það í huga að fundið yrði fyrir hana annað kennsluúrræði. Í bréfinu er vísað til þess að mál hennar hafi reynst skólanum erfitt. Eigi það fyrst og fremst rót sína að rekja til fötlunar stefnanda og þess að hún virðist ekki geta virt þær almennu skólareglur er gildi um aðra nemendur. Þrátt fyrir viðtöl og sérfræðiaðstoð hafi ekki fundist viðunandi lausn. Vísað er til þess að nokkrum dögum áður hafi hún slegið annan kennara sinn í andlitið. Þetta sé ekki einsdæmi, hún hafi ofsinnis slegið til þeirra, skallað eða klórað.
Foreldrar stefnanda rituðu bréf til andmæla. Hinn 1. febrúar tilkynnti skólastjóri ákvörðun sína um að vísa stefnanda úr skóla samkvæmt heimild í 41. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, sbr. reglugerð nr. 385/1995. 4. febrúar tilkynnti skólanefnd foreldrum stefnanda að henni hefði verið tryggt sérkennsluúrræði í Safamýrarskóla.
Með bréfi 23. mars 2000, var skólanefnd Seltjarnarness send stjórnsýslukæra þar sem m.a. var gerð krafa um að brottvísun stefnanda yrði felld úr gildi. Með úrskurði 11. júlí 2000 hafnaði skólanefnd kröfum stefnanda.
Úrskurður skólanefndar var kærður til menntamálaráðuneytis. Ráðherra felldi ákvörðun skólastjóra og úrskurð skólanefndar úr gildi með úrskurði 25. september 2005. Í úrskurðinum segir m.a.: „Með hliðsjón af aðdraganda málsins og upphafi skólagöngu nemandans í Valhúsaskóla er ljóst að sökum fötlunar hefur ekki verið gerð sú krafa til nemandans að hann fylgdi almennum skólareglum Valhúsaskóla. Verður því ekki fallist á þá röksemd skólanefndar Seltjarnarness í hinum kærða úrskurði að nemandanum beri að lúta sömu agaviðurlögum og aðrir nemendur eru beittir og virða skólareglur til jafns við aðra. Er því tímabundin brottvísun ... á grundvelli brota á almennum skólareglum ... byggð á ólögmætum forsendum með hliðsjón af einstaklingsáætlun sem skólinn samdi í september 1999...”
Áður en úrskurður ráðherra lá fyrir var leitað eftir því að stefnanda yrði veitt skólavist í Valhúsaskóla í upphafi nýs skólaárs haustið 2000. Var vísað til þess að brottvikning hennar hefði verið tímabundin og hlyti að falla niður er nýtt skólaár hæfist.
Valhúsaskóli hafnaði þessu erindi og taldi að tímabundin brottvikning stefnanda stæði þar til niðurstaða ráðuneytisins lægi fyrir.
Stefnandi hóf nám við Valhúsaskóla um mánaðamótin september/október 2000. Með bréfi föstudaginn 6. október tilkynnti skólastjóri foreldrum stefnanda að karlmaður sem ráðinn hafði verið umsjónarmaður með stefnanda, hefði sagt upp störfum. Þá hefði annar starfsmaður afþakkað starfið. Því gæti skólinn ekki tekið við stefnanda eftir þá helgi. Tekið var fram að áfram yrði reynt að ráða starfsfólk.
Fundur var haldinn með skólastjóra 16. október 2000, að ósk foreldra stefnanda. Í stefnu segir að móðir stefnanda hafi lýst óánægju sinni með það að stefnandi hefði ekki verið skráð í ákveðinn bekk og hefði verið einangruð frá skólastarfinu. Hafi skólastjóri sagt að kennarar stæðu saman um að hafna samvinnu við stefnanda og að hann styddi þá aðgerð í ljósi þess að móðir stefnanda hefði kært hann og kennara skólans. Þá hafi hann skýrt frá því að 15. október hefði verið auglýst eftir stuðningskennara fyrir stefnanda, með umsóknarfresti til 27. október. Hafi foreldrar stefnanda óskað eftir því að auglýst yrði fljótlega aftur ef ekki bærust umsóknir. Segir í stefnu að það hafi, eftir því sem næst verði komist, ekki verið gert.
Með bréfi, dags. 31. október 2000, tilkynntu skólastjóri og skólanefnd foreldrum stefnanda að Valhúsaskóli gæti ekki veitt stefnanda viðtöku í skólann. Var mælt með því í bréfinu að stefnandi fengi kennslu í sérskóla á grundvelli 2. mgr. 27. gr. grunnskólalaga, sbr. og d lið 11. gr. reglugerðar um sérkennslu nr. 389/1996.
Í framhaldi af þessu bréfi var reynt að útvega henni skólavist í grunnskóla í Reykjavík. Hún hóf nám í Réttarholtsskóla í ágúst 2001. Stundaði hún nám þar þann vetur og lauk skólagöngu hennar vorið 2002. Í vitnisburði skólans segir að stefnandi hafi stundað nám samkvæmt einstaklingsnámskrá. Hafi verið lögð áhersla á að efla hæfileika hennar sem einstaklings og gera hana styrkari í samskiptum við aðra. Upplýstu lögmenn aðila að stefnandi hefði verið í almennri deild í skólanum, en ekki í sérdeild, og að sérstakir starfsmenn hafi aðstoðað hana.
Vorið 2001 höfðuðu foreldrar stefnanda mál á hendur stefnda Seltjarnarnesbæ auk skólanefndar bæjarins og Valhúsaskóla. Kröfðust þau ógildingar á ákvörðun skólastjóra 31. október 2000 um að skólinn gæti ekki veitt stefnanda viðtöku. Jafnframt kröfðust þau ógildingar á þeirri ákvörðun þann 30. ágúst 2000 að láta tímabundnu brottvikninguna standa áfram í byrjun nýs skólaárs. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 7. febrúar 2002, þar sem stefnendur málsins, foreldrar stefnanda, hefðu ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu umræddra ákvarðana.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Í stefnu kveðst stefnandi höfða mál þetta til greiðslu miskabóta. Annars vegar vegna þeirra ólögmætu aðgerða skólastjóra Valhúsaskóla að víkja stefnanda úr skóla tímabundið frá 1. febrúar 2000 og neita að taka aftur við stefnanda þegar nýtt skólaár byrjaði 2001. Hins vegar vegna ákvörðunar skólastjórans og skólanefndar Seltjarnarness þann 31. október 2000 að Valhúsaskóli gæti ekki veitt stefnanda viðtöku í skólann. Kveðst hún hafa orðið að leita sér menntunar í öðru bæjarfélagi sem hafi haft í för með sér óþægindi fyrir sig og fjölskyldu sína. Jafnframt hafi brottvikningin valdið því að hún hafi farið á mis við kennslu og samskipi við jafnaldra sína, sem sé öllum börnum mikilvæg.
Í stefnu segir að foreldrar stefnanda og hún sjálf hafi frá upphafi orðið vör við óánægju foreldra ýmissa bekkjarsystkina hennar með að fatlað barn væri í bekknum. Haustið 1995, eftir að tilkynnt hafði verið að stefnanda væri vikið úr skóla, hafi komið fram verulegir erfiðleikar við skólagönguna. Kennarar skólans hafi verið óánægðir með að stefnandi væri enn í skólanum, þó þeim hefði verið sagt frá brottrekstri hennar.
Stefnandi kveðst byggja miskabótakröfu á því að stefndi hafi, með þeim athöfnum skólastjórnenda sem lýst hefur verið, brotið gegn lögvörðum réttindum sínum á saknæman hátt. Þetta séu réttindi hennar sem fatlaðs einstaklings, sem tryggð séu að íslenskum rétti og í alþjóðlegum samningum. Í stefnu segir að stofnast hafi bótaskylda stefndu á grundvelli sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna brota á réttindum hennar.
Í stefnu segir að stefnandi og fjölskylda hennar hafi upplifað aðgerðir skólayfirvalda á Seltjarnarnesi sem einelti og ofsóknir. Stefnandi hafi farið á mis við nám og orðið fyrir tilfinningalegum skaða vegna framkomu skólayfirvalda og skólasystkina hennar gagnvart henni. Skólayfirvöld hafi ekki gert neitt til þess að verja stefnanda fyrir því misrétti sem hún varð fyrir heldur, þvert á móti, hafi þau leyft því að viðgangast. Telur stefnandi sig af þessum sökum eiga rétt á miskabótum úr hendi stefndu.
Um jafnan rétt sinn til náms eins og ófötluð börn vísar stefnandi til 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá vísar hún til 1. málsgr. 37. gr. laga nr. 66/1995 um rétt þeirra sem eigi erfitt með nám til sérstaks stuðnings í námi. Þá er vísað til 2. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 með síðari breytingum.
Stefnandi telur að eingöngu foreldrar eða forráðamenn geti ákveðið að barn skuli sækja sérskóla, sbr. 37. gr. laga nr. 66/1995. Því sé ákvörðun skólastjóra og skólanefndar frá 31. október 2000 ólögmæt, en í henni felist að stefnandi skuli fara í sérskóla. Til frekari áréttingar er vísað til 1. og 2. gr. laganna. Í þessu sambandi er enn vísað til 65. gr. stjórnarskrárinnar, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 2. gr. samningsviðauka nr. 1, sbr. lög nr. 97/1995.
Stefnandi krefst einnig miskabóta með því að sú ákvörðun að neita henni um skólavist haustið 2000 hafi verið ólögmæt. Eðli máls samkvæmt geti hún aldrei staðið lengur en skólaárið og hljóti að falla niður við upphaf nýs skólaárs. Slík niðurstaða samræmist einnig meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi vísar hér jafnframt til þess að samkvæmt reglugerð nr. 385/1996 hafi aldrei mátt líða meira en ein vika áður en nemanda yrði fundið nýtt kennsluúrræði. Vegna þessa brots á meðalhófsreglu eigi hún rétt á bótum vegna þess tjóns sem ákvörðunin olli henni.
Með vísan til fordæmis í Hæstaréttardómi í máli nr. 177/1998 hvíli sú skylda á opinberum aðilum að grípa til aðgerða til þess að tryggja að hinn almenni borgari fái notið félagslegra og menningarlegra réttinda sinna. Því hafi stefndu borið að sjá til þess að viðeigandi stoðþjónusta og aðstæður væru til staðar til þess að fullnægja þörfum stefnanda svo hún gæti lokið grunnskólanámi sínu í heimaskóla. Stefnandi kveðst ekki sannfærð um að skólayfirvöld hafi reynt það til hlítar að hún fengi notið félagslegra réttinda sinna.
Þá bendir stefnandi á að foreldrum hennar hafi ekki gefist kostur á að tjá sig áður en ákvörðunin 31. október 2000 var tekin. Þetta feli í sér brot gegn 13. gr. stjórnsýslulaga.
Að lokum segir í stefnu að öll sú háttsemi sem lýst hafi verið, sem felist m.a. í alvarlegu og viðvarandi einelti í skóla og brottrekstri úr skóla, feli í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda sem leiði til þess að stefnda beri að greiða henni miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveðst mótmæla málatilbúnaði stefnanda. Í málavaxtalýsingu í stefnu sé í mörgum atriðum hallað réttu máli.
Stefndi tekur fram að hann hafi gert það sem í hans valdi stóð til þess að ráða starfsfólk til þess að vinna með stefnanda. Þá hafi hann greitt Réttarholtsskóla tvö stöðugildi kennara vegna stefnanda skólaárið 2001-2002. Það hafi verið gert þótt stefnandi hafi þá lögum samkvæmt átt að hafa lokið skólagöngu sinni í grunnskóla, sérstaklega með tilliti til þess að hún hafi misst af allri kennslu veturinn 2001.
Stefndi telur að hann eða starfsmenn sínir hafi ekki unnið stefnanda þá meingerð sem þeim sé gefið að sök í stefnu eða valdið henni tjóni á saknæman og ólögmætan hátt. Þá séu ekki skilyrði til beitingar sakarreglunnar eða reglunnar um húsbóndaábyrgð. Hann mótmælir þeirri fullyrðingu í stefnu að stefnandi hafi sætt einelti í grunnskólunum á Seltjarnarnesi og að skólayfirvöld hafi vanrækt að verja hana heldur látið eineltið viðgangast. Þessi fullyrðing sé ósönnuð.
Stefndi segir að skólayfirvöld hafi gert allt sem var í þeirra valdi til að tryggja stefnanda tækifæri til náms við skólana. Þá hafi stefnanda verið tryggt skólaúrræði í öðrum skóla þegar henni var ómögulegt að stunda nám við heimaskóla. Samanlagt hafi stefnandi verið í grunnskóla í tíu og hálft ár, hálfu ári lengur en lög geri ráð fyrir.
Stefndi kveðst telja að ekki hafi verið unnt að sinna menntunarþörf stefnanda í almennum grunnskóla vegna fötlunar hennar. Skólayfirvöld og sérfræðingar þeirra hafi alltaf haldið þessu fram og að hag stefnanda væri betur borgið í sérskóla. Stefndi kveðst hafna því að 37. gr. laga um grunnskóla veiti öllum fortakslausan rétt til náms í almennum grunnskóla. Í þessu ákvæði og 2. gr. laga nr. 59/1992 sé gert ráð fyrir því að fötlun kunni að vera þess eðlis að nám í almennum grunnskóla sé útilokað. Því sé gert ráð fyrir því að einhverjir nemendur sæki nám í sérskóla.
Í þessu sambandi vísar stefndi til forsjárskyldu samkvæmt 29. gr. barnalaga nr. 20/1992. Þar sé lögfest skylda foreldra til þess að afla börnum sínum lögmæltrar fræðslu og til að stuðla að því að þau fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika sína. Barnaverndarnefnd hafi ítrekað bent á mikilvægi þess að fyrir lægi mat Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, en því hafi foreldrar stefnanda ætíð hafnað. Því verði ekki byggt á öðru en umsögnum og mati sérfræðinga við skólann á Seltjarnarnesi. Þau hafi öll verið á þann veg að nám í almennri bekkjardeild hentaði stefnanda ekki.
Því kveðst stefndi mótmæla því að brotinn hafi verið réttur á stefnanda samkvæmt 7. gr. laga nr. 59/1992 eða 37. gr. grunnskólalaga. Hann kveðst byggja á því að unnið hafi verið faglega að því að meta þarfir stefnanda. Loks mótmælir stefndi því að brotinn hafi verið réttur stefnanda samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Forsendur og niðurstaða.
Í stefnu er vísað bæði til sakarreglunnar og 26. gr. skaðabótalaga til stuðnings kröfu stefnanda. Í öðru samhengi kemur fram að hún krefst miskabóta og gerir ekki neina grein fyrir fjárhagstjóni. Það er viðurkennd skoðun fræðimanna að krafa um miskabætur verði að byggjast á beinni heimild í settum lögum, þannig að ekki þarf að fjalla frekar um sakarregluna.
Í stefnu virðist einkum byggt á þremur tilvikum. Brottvikningu stefnanda úr Valhúsaskóla 1. febrúar 2000. Synjun um að veita henni skólavist við upphaf skólaárs í ágúst 2001 og þeirri ákvörðun að Valhúsaskóli gæti ekki veitt henni viðtöku 31. október 2001. Þó verður ekki hjá því komist að leysa úr því hvort brotið hafi verið gegn stefnanda með þeim hætti að stefnanda beri að greiða henni miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga vegna annarra þeirra atvika sem tíunduð eru í stefnu.
Við aðalmeðferð málsins voru ekki leidd nein vitni. Sönnunarfærsla hefur því aðeins verið í formi framlagningar skjala.
Ósannað er að stefnandi hafi sætt viðvarandi einelti og að kennarar og skólastjórnendur hafi vanrækt starfsskyldur sínar gagnvart henni.
Tilkynning skólastjóra vorið 1995 um að skólinn gæti ekki haft stefnanda í skólanum næsta vetur verður ekki metin sem ólögmæt meingerð. Svo fór í því tilviki að stefnandi hélt áfram í skólanum um haustið.
Þá verður ekki talið að skólastjórnendur hafi brotið gegn stefnanda með því að halda tvo fundi, 18. janúar og 28. mars 1996. Ekki er í stefnu vikið að neinum þeim aðgerðum í þessu sambandi sem unnt er að telja ólögmæta meingerð. Þá verður stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir aðgerðum foreldra bekkjarfélaga stefnanda eða barnanna.
Í mars 1999 var foreldrum stefnanda tilkynnt að hún yrði ekki áfram í Mýrarhúsaskóla. Þær forsendur sem lágu að baki þessari ákvörðun skólastjóra verða ekki taldar hafa verið ómálefnalegar.
Brottvísun stefnanda úr Valhúsaskóla var felld úr gildi með úrskurði ráðherra. Var talið að brottvísunin byggði á ólögmætum forsendum með því að styðjast við brot á skólareglum. Brottvísunin hafði verið látin halda gildi fram á nýtt skólaár, uns hún var felld úr gildi eins og áður segir. Þó niðurstaða ráðherra hafi verið sú að brottvísunin byggði á ólögmætum forsendum felst ekki í því ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda eða æru. Þá hefur hvorki með skriflegum gögnum né vitnaleiðslum verið reynt að sýna fram á að svo hafi verið. Það athugast í þessu sambandi að stefnanda var útveguð skólavist í öðrum skóla nokkrum dögum eftir brottvísunina.
Í kjölfar þess að brottvísun stefnanda var felld úr gildi hóf hún á ný að sækja Valhúsaskóla. Stefnandi lagði fram skjal þar sem lýst er veru stefnanda í skólanum haustið 2000. Um er að ræða tölvuskeyti sem Guðrún Ægisdóttir, trúnaðarmaður fatlaðra, sendi lögmanni stefnanda 6. október 2000. Hún kveðst hafa farið með stefnanda og móður hennar í skólann fyrsta daginn, en að öðru leyti virðist hún endursegja frásagnir móður stefnanda. Í skeytinu segir m.a.: „Ingibjörg hafði síðan samband við mig í gær. Nú er staðan sú, í sem skemmstu máli, að Halla og kennari hennar eru útilokuð frá nánast öllu þarna í skólanum. Allir kennarar skólans neita að hleypa þeim inn í sína stofu, sömuleiðis er þeim meinaður aðgangur að bókasafni og að mér skilst mötuneyti einnig...” Í greinargerð stefnda er frásögn í þessu skjali mótmælt. Bréfritari gaf ekki skýrslu fyrir dómi og verður því ekki unnt að byggja á þessari frásögn. Er að þessu virtu ósannað að skólastjórnendur hafi vísvitandi torveldað skólagöngu stefnanda haustið 2000. Þá er ekki sýnt fram á að hún hafi í reynd verið útilokuð frá skólanum.
Að þessu virtu er ósannað að stefnandi hafi sætt ólögmætri meingerð af hálfu Mýrarhúsaskóla, Valhúsaskóla eða einstakra starfsmanna skólanna. Á hún því ekki kröfu á miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Verður stefndi sýknaður af kröfum hennar.
Rétt er að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn. Með hliðsjón af tímaskráningaryfirliti lögmanns hennar verður málflutningsþóknun ákveðin með virðisaukaskatti 709.650 krónur.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Seltjarnarneskaupstaður, er sýknaður af kröfum stefnanda, Höllu Ómarsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 709.650 krónur.