Hæstiréttur íslands
Mál nr. 323/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Bifreið
- Búfé
- Sakarskipting
|
|
Fimmtudaginn 8. febrúar 2001. |
|
Nr. 323/2000. |
Sigurjón S. Jónsson Bláfeld (Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn Jóni Hólm Stefánssyni (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Skaðabætur. Bifreiðir. Búfé. Sakarskipting.
Hestur í eigu S varð fyrir bifreið J. Drapst hesturinn en verulegar skemmdir urðu á bifreiðinni og krafði J S um bætur vegna þess tjóns sem hann varð fyrir. Byggði J á því að hesturinn hefði hlaupið í veg fyrir bifreið hans og um væri að kenna vanrækslu S við gæslu hestsins. Lausaganga stórgripa var bönnuð þar sem slysið varð. Talið var sannað að hesturinn hefði, ásamt fleiri hrossum í eigu S, verið kominn út úr girðingu um land S daginn fyrir slysið. Þá var talið sannað með framburði vitna að ástand girðinga við land S hefði ekki verið nægjanlega gott. Talið var að ástandi girðinga og eftirliti S með hestum sínum hefði verið þann veg farið að rekja mætti til gáleysis hans að þeir sluppu. Var S gert að bæta J tjón hans að 3/4 hlutum. J var hins vegar talinn hafa ekið of hratt miðað við aðstæður og í ljósi þess að hann vissi að lausaganga hrossa væri til vandræða þar sem slysið varð. Var hann því látinn bera 1/4 hluta tjóns síns sjálfur. Fundið var að því að héraðsdómari tók orðrétt úr stefnu og úr greinargerð stefnda í héraði umfjöllun þeirra um málsástæður og lagarök í stað þess að vinna úr gögnunum helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggðu á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. ágúst 2000. Krefst hann aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Slys það, sem mál þetta er risið af, varð á þjóðvegi nr. 374, Hvammsvegi í Ölfusi, skammt frá þjóðvegi nr. 1, Suðurlandsvegi, um klukkan 7.30 að morgni föstudagsins 5. febrúar 1999. Svo sem greinir í héraðsdómi vildi slysið þannig til að hestur í eigu áfrýjanda varð fyrir jeppabifreið stefnda. Drapst hesturinn en verulegar skemmdir urðu á bifreiðinni. Lausaganga stórgripa er bönnuð í sveitarfélaginu Ölfusi.
Hestur þessi var, ásamt fjórum öðrum, geymdur í girðingu á jarðarpartinum Hvolsbrún, sem var í eigu áfrýjanda. Hvolsbrún var skipt úr landi jarðarinnar Ingólfshvols, sem er sunnan Suðurlandsvegar og liggur að honum á kafla. Höfðu öll hrossin sloppið úr girðingunni í umrætt sinn. Í framburði fyrir héraðsdómi töldu bæði áfrýjandi og Halldór Ómar Guðmundsson, sem kom á vettvang skömmu eftir slysið, að af verksummerkjum í nýföllnum snjó hefði mátt ráða að hestarnir hefðu komist úr Hvolsbrúnarlandi yfir í tún á landi Bræðrabóls, sem er austan Hvolsbrúnar. Þaðan hafi þeir komist út um opið hlið og síðan um annað opið hlið út á Suðurlandsveginn. Hafi hestarnir síðan haldið austur með Suðurlandsveginum og norður yfir hann og gegnum land Hjarðarbóls, sem þar er, inn á Hvammsveg þar sem slysið varð.
Áfrýjandi var búsettur í Reykjavík. Hann kvaðst fyrir héraðsdómi yfirleitt eiga leið austur fyrir fjall þrisvar sinnum í mánuði og þá líta til hrossanna, en jafnframt hafði hann beðið nágranna að fylgjast með þeim. Um þetta eftirlit liggur að öðru leyti ekki annað fyrir en framburður Þorláks Gunnarssonar, bónda að Bakkárholti í Ölfusi, fyrir héraðsdómi. Hann kvaðst hafa litið eftir hestunum og keyrt til þeirra fóður eftir þörfum á um það bil 7 til 10 daga fresti. Hann virðist ekki hafa sinnt eftirliti með girðingum um land áfrýjanda. Bakkárholt er vestan við Hvolsbrún, en þaðan kvað Þorlákur góða yfirsýn yfir Hvolsbrúnarland, sem hafi þó skerst nokkuð eftir að reiðskemma var reist þar á milli skömmu fyrir slysið. Áfrýjandi kvað tengdadóttur sína hafa farið framhjá landinu tvisvar á dag, á leið til og frá Laugarvatni. Hún hefur ekki komið fyrir dóm og ekki liggur fyrir í hverju eftirlit hennar var fólgið. Rafn Haraldsson, Bræðrabóli í Ölfusi, næsti nágranni austan við land áfrýjanda, kvaðst fyrir héraðsdómi ekki hafa orðið var við eftirlit með hrossunum.
Fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að tengdadóttir sín hefði séð hestana í Hvolsbrúnarlandi kvöldið fyrir slysið. Guðmundur Bjarnason Baldursson, Kirkjuferju í Ölfusi, bar hins vegar að hann hefði séð hestana utan lands áfrýjanda í túni Bræðrabóls í tvo til þrjá daga fyrir slysið. Halldór Ómar Guðmundsson taldi að hestarnir kynnu að hafa verið komnir úr Hvolsbrúnarlandi og inn í land Bræðrabóls deginum fyrir slysið. Verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að hestarnir hafi verið komnir út úr girðingu um land stefnda daginn fyrir slysið.
Fyrir héraðsdómi bar Rafn Haraldsson að ástand girðinga milli Bræðrabóls og lands áfrýjanda hafi verið mjög slæmt og gripir komist þar fram og til baka. Guðmundur Bjarnason Baldursson bar að girðingar um landið hafi ekki verið beysnar og að komið hefði fyrir að hross úr landi áfrýjanda hefðu farið yfir á land Bræðrabóls. Við vettvangsskoðun fyrir aðalmeðferð málsins í héraði 27. ágúst 2000 reyndist girðingu milli Hvolsbrúnar og Bræðrabóls ábótavant.
Umrædd landspilda, Hvolsbrún, er nærri fjölförnum þjóðvegi. Bar áfrýjanda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hestarnir ættu greiða leið úr girðingu um landspilduna. Gat hann í þeim efnum ekki reitt sig á að um tún grannjarða væru gripheldar girðingar og lokuð hlið. Telja verður að ástandi girðinga og eftirliti áfrýjanda með hestunum hafi verið þann veg farið að rekja megi til gáleysis hans að þeir sluppu.
II.
Skýrsla lögreglunnar á Selfossi 5. febrúar 1999 veitir mjög takmarkaðar upplýsingar um aðdraganda slyssins, aðstæður og ummerki á vettvangi. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að slysið varð á tvíbreiðum þjóðvegi lögðum bundnu slitlagi. Leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund. Snjóföl var á veginum er slysið varð, myrkur og þungbúið veður, en úrkomulaust. Þá verður á grundvelli lögregluskýrslu og framburðar stefnda sjálfs að telja í ljós leitt að hálka hafi verið á veginum. Samkvæmt framburði Ásgeirs Jamil Allanssonar fyrir héraðsdómi, en hann keypti bifreið stefnda nokkru eftir slysið, var hún búin hálfslitnum grófmynstruðum en ónegldum hjólbörðum. Ekki voru vitni að slysinu. Stefndi bar fyrir héraðsdómi að hann hefði ekið á um það bil 80 km hraða á klukkustund og verður að leggja þá frásögn hans til grundvallar. Taldi hann að hesturinn hafi komið snögglega upp á veginn hægra megin frá í veg fyrir bifreiðina. Hann hafi snögghemlað en hrossið lent framan á bifreiðinni og borist nokkra vegalengd með henni. Í framburði stefnda fyrir héraðsdómi kemur fram að honum var kunnugt um að lausaganga hrossa væri til vandræða á þeim slóðum, sem slysið varð, og kvaðst hann hafa vara á sér við akstur þar af þeim sökum. Verður í ljósi vitneskju stefnda um þessa hættu að meta honum til gáleysis að hafa í umrætt sinn ekið á 80 km hraða á klukkustund í myrkri og hálku. Að öllu virtu verður áfrýjanda gert að bæta stefnda þrjá fjórðu hluta tjóns hans vegna slyssins, en fjórðung skal stefndi bera sjálfur.
Í málflutningi fyrir Hæstarétti bar lögmaður áfrýjanda hvorki brigður á það mat sölustjóra notaðra bifreiða hjá P. Samúessyni ehf. að markaðsverð bifreiðar stefnda hafi fyrir slysið verið á bilinu 1.100.000 til 1.150.000 krónur né að söluverð hennar eftir slysið hafi verið 300.000 krónur. Hann taldi hins vegar eðlilegra að miða tjón stefnda við áætlaðan viðgerðarkostnað bifreiðarinnar, en samkvæmt mati Sjóvá-Almennra trygginga hf. nam hann 764.119 krónum. Í ljósi þess að verðmæti bifreiðar rýrnar jafnan við verulegt tjón þótt úr því sé bætt með viðgerð þykir um þetta atriði mega byggja á niðurstöðu héraðsdómara og telja tjón stefnda nema 800.000 krónum. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda 600.000 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Í ljósi þess að áfrýjandi hefur haft nokkurn ávinning af málskoti sínu þykir hæfilegt að ákveða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Það athugast, að í hinum áfrýjaða dómi hefur héraðsdómari, andstætt e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr 3. mgr sömu greinar, tekið orðrétt úr stefnu og úr greinargerð stefnda í héraði umfjöllun þeirra um málsástæður og lagarök í stað þess að vinna úr þessum gögnum helstu málsástæður aðila og réttarheimildir, sem þeir byggja á.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Sigurjón S. Jónsson Bláfeld, greiði stefnda, Jóni Hólm Stefánssyni, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. september 1999 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóni Hólm Stefánssyni, kt. 211245-3369, Gljúfri í Ölfus, á hendur Sigurjóni Sveini Jónssyni Bláfeld, kt. 030339-2909, Sæviðarsundi 90, Reykjavík, með stefnu sem birt var 30. desember 1999.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.250.000 krónur að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, af 1.250.000 krónum frá 5. febrúar 1999 til 17. ágúst 1999, en af 950.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað honum að skaðlausu.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins var farið á vettvang í Ölfushrepp og aðstæður skoðar af dómara, aðilum og lögmönnum þeirra.
I.
Stefnandi segir aðdraganda þessa máls vera að að morgni föstudagsins 5. febrúar 1999, um kl. 07.30, hafi hann ekið frá heimili sínu að Gljúfri í Ölfusi og suður Hvammsveg „með fyrirhugaða akstursleið að Suðurlandsvegi". Stefnandi hafi verið í bifreið sinni sem er af gerðinni Toyota Hilux, X-cab., skrásetningarnúmer XE-398, árgerð 1992, sem hafi verið ekinn um 95 þús. km.
Á móts við jörðina Nautaflatir í Ölfus segir stefnandi að hestur hafi skyndilega stokkið inn á veginn hægra megin við bifreiðina miðað við akstursstefnu hennar, rétt framan við bifreiðina. Stefnandi hafi þá ekið á um 80 km hraða á klukkustund og nær samstundis hafi hesturinn lenti á hægra framhorni bifreiðarinnar og borst með henni nokkra vegalend, en kastaðast síðan af henni og út fyrir veginn austan megin. Svo skyndilega hafi þetta gerst að stefnandi hafi alls ekkert ráðrúm haft til að hemla eða sveigja til hliðar, áður en hesturinn lenti á bifreiðinni. En Hvammsvegur sé á þessum stað með tveimur akreinum og bundnu slitlagi. Hámarkshraði þar sé því 90 km á klst.
Stefnandi kveðst strax eftir óhappið hafa haft samband við Halldór Guðmundsson, bónda á Nautaflötum. Halldór hafi komið á vettvang en ekki kannast við að eiga hestinn. Stefnandi og Halldór hafi veitt því athygli að fjórir hestar stóðu utan girðingar undir vegg fjárhúsa sem tilheyra Nautaflötum. Fjárhús þessi standi austan Hvammsvegar og vinstra megin, miðað við legu Hvammsvegar, þegar ekið sé í áttina að þjóðvegi nr. 1 og séu í u.þ.b. 400 m fjarlægð frá þjóðvegi nr. 1. (Suðurlandsvegi). Að sögn Halldórs hafi þessir hestar, sem þar voru utan girðingar á landi Nautaflata, ekki verið frá Nautaflötum. Hafi Halldór fullyrt að þessir hestar hefðu fyrir nokkrum dögum verið í girðingu á landi Bræðrabóls í Ölfusi, jörð sunnan við þjóðveg nr. l.
Stefnandi segir bifreið sína hafa stórskemmst við áreksturinn og orðið algerlega óökufæra. Það hafi tekið stefnanda talsverðan tíma að selja flak bifreiðarinnar, en það hafi þó tekist um miðjan ágústmánuð, en þá hafi stefnandi selt Ásgeiri Allanssyni bílflakið fyrir 300.000 krónur.
Tjónanefnd vátryggingafélaga hafi fengið málið til ákvörðunar og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilega upplýst "....að rekja megi tjónið til sakar eiganda hrossanna...." Því bæri að bæta hrossið úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar. Þessu hafi stefnandi ekki viljað una og skotið málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum með kvörtun, dags. 10. apríl 1999.
Með úrskurði. 8. júní 1999 hafi niðurstaða úrskurðarnefndarinnar einróma orðið á þann veg að eiganda hestsins bæri að bæta tjón á bifreið stefnanda. Jafnframt hafi nefndin úrskurðað að bætur til eiganda hestsins féllu niður með vísan til umferðarlaga nr. 50/1987, 3. mgr. 88. gr.
Í framhaldi af niðurstöðu úrskurðarnefndar i vátryggingarmálum kveðst stefnandi ítrekað hafa haft símasamband við stefnda og freistað þess að fá tjón sitt bætt. Stefndi hafi tjáðst vilja skoða málið og semja við stefnanda. Hafi stefndi skoðað flak bifreiðarinnar með viðgerðarmanni til að meta hugsanlegan viðgerðarkostnað hennar. Hann hafi þó ekki staðið við gefin fyrirheit um að bæta tjón stefnanda.
Með bréfi dags. 17. ágúst 1999 hafi stefnandi sent stefnda innheimtubréf með kröfu um að stefnanda yrði bætt að fullu það tjón, sem hann hafi orðið fyrir á Hvammsvegi 5. febrúar 1999. Kröfunni hafi lögmaður stefnda hafnað í bréfi dags. 2. september 1999.
II.
Málavextir eru þeir, að sögn stefnda, að hann hafi verið með 5 hross á eigin vegum og nánustu fjölskyldumanna í girðingu á jörð sinni, Ingólfshvoli, fyrri hluta árs 1999. Hafi þau verið taumvön. Frá frá 1976 til 1991 hafi hann verið með stórt bú á jörðinni. Frá 1991 hafi hann nýtt hluta jarðarinnar til skógræktar og til hagabeitar fyrir hross sín og hross skyldmenna. Nágranni stefnda, Þorlákur Gunnarsson í Bakkárholti, hafi fóðrað og fylgst með hrossunum að beiðni stefnda. Þá hefur Páll Þorláksson á Sandhóli fylgst með hrossum stefnda og látið hann vita ef eitthvað var að.
Stefnandi hafi ekið á hryssu stefnda á Hvammsvegi að morgni föstudagsins 5. febrúar 1999. Stefndi hafi verið látinn vita um atvikið um kl. 16.30 sama dag og komið á staðinn ásamt Gylfa Jónssyni, bróður sínum, og John Snorra, syni sínum. Jafnfallinn snjór hafi verið yfir öllu og vel mátt greina vegsummerki á jörðu. Hryssan hafi enn þá legið í vegkantinum við vegvísinn heim að Nautaflötum og hefði þá ekki verið hreyfð eftir slysið. Stefndi kveðst hafa athugað vegsummerki og séð hjólför í snjónum og hófaför eftir 5 hross frá afleggjaranum að Nautaflötum að hesthúsi Nautaflata við Hvammsveg, sem er litlu norðar en hinum megin við veginn. Um 40 hross hafi verið við hesthúsið en innan girðingar. Búið hafi verið að hleypa hrossum stefnda saman við hópinn. Auðvelt hafi verið að greina hvar árekstur við hrossið hafi átt sér stað því ryð, frostlögur og olía hafi verið á veginum auk smáhluta úr bílnum. Frá þeim stað og að hrossinu hafi verið 102 metrar.
Upplýst væri að lögreglan hafi komið á slysstað og tekið niður frásögn stefnanda. Lögreglan hafi síðan talaði við stefnda daginn eftir. Stefndi kveðst hafa komið þeirri kvörtun á framfæri að einhver hefði opnað hliðin fyrir hrossunum og sagt lögreglunni frá upplýsingum sem hann hefði fengið í því sambandi.
Næst dag kveðst stefndi aftur hafa farið á vettvang og nú með Gylfa Jónssyni og Sigurjóni, syni hans. Umhverfið hafi þá verið auðséð í björtu og stefndi gert uppdrátt af vettvangi.
Sunnudaginn fyrir tjónsatvikið kveðst stefndi hafa, við þriðja mann, farið yfir öll hlið og girðingar til þess að tryggja gæslu hrossanna og hafi þá allt verið með felldu. Hann telur útilokað að hrossin hafi sloppið af sjálfsdáðum út úr girðingu á jörð hans. Á hinn bóginn hafi mátt sjá í snjónum að einhver hefði komið að hliðunum tveim og opnað fyrir hrossunum enda hafi hófaför verið á báðum stöðum.
Jarðarpartur sá, sem hrossin voru höfð á, sé um 45 ha. að stærð og allur góður til beitar. Hrossin hafi því ekki þurft að leita betri haga. Það hafi frekar verið á hinn veginn að hross hefðu sóst eftir að komast inn á beitarlandið.
Hryssan, sem ekið var, hafi verið keypt frá Kjarnholtum I í Biskupstungum, fjögurra vetra og átti að fara í tamningu þá um veturinn. Hún hafi verið spök og aðeins bandvön. Stefndi kveðst hafa gert kröfu um að vátryggingarfélag bifreiðar stefnanda, Sjóvá-Almennar hf., bætti honum hryssuna en verðmæti hennar hefði verið 315.000 krónur.
III.
Stefnandi reisir kröfu sína um skaðabætur úr hendi stefnda á því að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna fjártjóns sem orðið hafi á bifreið stefnanda, þar sem hann hafi sýnt af sér gáleysi við gæslu hestsins. Vegna þessa gáleysis hafi hesturinn sloppið úr vörslum stefnda og valdið tjóni á bifreið stefnanda. Með þessu gáleysi hafi stefndi brotið gegn banni við lausagöngu stórgripa í Ölfushreppi, nú Ölfusi, sem gilt hefur frá l. nóvember 1991, sbr. ákvörðun hreppsnefndar Ölfushrepps, sem auglýst var í Lögbirtingarblaðinu, 128. tölublaði 1991. Síðan segir í stefnu um málsástæður og lagarök stefnanda:
Eigendur hesta bera skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, á öllu tjóni sem kann að verða af völdum lausagöngu hesta á svæðum þar sem þeim er ekki heimil för. Þá er á því byggt að gera verði ríkari kröfur á hendur eigendum dýra en ella, þegar hætta á tjóni af völdum þeirra er meiri, eins og á við um hross og aðra stórgripi. Bæði Hvammsvegur, svo ekki sé talað um Suðurlandsveg, eða þjóðveg nr. 1, eru fjölfarnir þjóðvegir og það eitt kallar á ríkari aðgæslu hesta og annarra stórgripa á svæðinu, sérstaklega um vetrarmánuði þegar skyggni er verra og oft erfiðara að sjá til ferða stórgripa.
Ákvörðun hreppsnefndar um bann við lausagöngu stórgripa (hrossa og nautgripa) í Ölfus er byggð á heimild í lögum nr. 46/1991 um búfjárhald. Samkvæmt 5. gr. nefndra laga er sveitarstjórnum veitt sérstök heimild til að taka ákvörðun um að eigendum búfjár sé skylt að hafa það í öruggum vörslum allt árið eða tiltekinn hluta þess. Tilurð heimildarinnar er skýr, þ.e að koma í veg fyrir ágang búfjár, m.a. á fjölfarna vegi.
Stefnandi telur að óhappið haf orðið án nokkurrar sakar eða aðgæsluleysis hans sem ökumanns bifreiðarinnar, enda hafi hann ekið innan leyfilegs hámarkshraða og sýnt fullnægjandi aðgæslu við aksturinn miðað við aðstæður á staðnum á umræddum tíma. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að bifreið stefnanda var vel útbúin til aksturs miðað við árstíma. Hestur stefnda hafi hins vegar komið fyrirvaralaust og mjög skyndilega upp á veginn og lent beint á hægra horni bifreiðarinnar án þess að nokkur minnst möguleiki væri til þess að stöðva bifreiðina. Fyrir liggur að stefndi átti a.m.k. fjóra hesta, sem hafi einnig verið utan girðingar undir fjárhúsvegg austan Hvammsvegar og því megi ætla með nokkurri vissu að sá hestur stefnanda sem komið hafi upp á veginn vestan hans, hafi verið á leið til þeirra sem stóðu vörslulausir við fjárhúsið á jörðinni Nautaflötum.
Stefnandi gerði án tafar ráðstafanir til að hafa upp á eiganda hestsins og tilkynnti auk þess óhappið til lögreglunnar á Selfossi sem kom á staðinn og gerði skýrslu um óhappið.
Tjónanefnd vátryggingafélaganna fékk til meðferðar ágreining um bótaskyldu í málinu. Í ódags. niðurstöðu nefndarinnar segir orðrétt: "Ekki nægilega upplýst að rekja megi tjónið til sakar eiganda hrossanna, ber því að bæta hrossið úr ábyrgðartr. viðkomandi bifreiðar." Af þessari tilvitnun verður ekki ráðið að tjónanefndin hafi fjallað um bótaskyldu eiganda hestsins sem tjóninu olli, á tjóni stefnanda enda fékk stefnandi ekkert tækifæri til að tjá sig um málið, né sjá gögn málsins, áður en tjónanefndin kvað upp álit sitt.
Stefnandi vildi eðlilega ekki una niðurstöðu tjónanefndarinnar og skaut því málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum með kvörtun dags. 6. apríl 1999. Niðurstaða þeirrar nefndar var send stefnanda með bréfi dags. 8. júní 1999 og er hún samhljóða og ótvíræð á þá lund að eigandi hestsins beri að bæta tjón á bifreið stefnanda. Í áliti nefndarinnar er byggt á því að varsla hrossa hjá stefnda hafi ekki verið fullnægjandi. Orðrétt segir í álitinu: ".....Eigandi hestsins getur þess hins vegar ekki að varsla hesta hans sé með fullnægjandi hætti þannig að virt sé bann við lausagöngu hesta í Ölfushreppi þar sem umferðaróhappið varð. Í málum sem þessum stendur það eigendum dýra, sem verða fyrir bifreiðum, að sýna fram á, að vörslur og gæsla dýranna sé fullnægjandi þannig, að ekki komi til lausagöngu þeirra nema vegna sérstakra óviðráðanlegra atvika og/eða óhappatilvika. Ófullnægjandi varsla dýra, sem bann liggur við að gangi laus getur ein og sér orðið til þess að sök verði felld á eiganda dýrsins eða vörsluaðila þess. Þar sem eigandi hestsins hefur ekki sýnt fram á, að vörslur hestsins og gæsla hafi verið fullnægjandi í umrætt sinn þykir hann bera sök í máli þessu. "
Hestur stefnda mun hafa verið á landi í hans eigu í Ölfusi, vestan við jörðina Bræðraból. Stefndi býr sjálfur fjarri þessum stað og í öðru sveitarfélagi. Að mati stefnanda liggur fyrir óyggjandi niðurstaða um aðgæsluleysi stefnda, sem eiganda hrossa í Ölfusi sem þar voru á hans ábyrgð, en algerlega vörslu- og gæslulaus og áttu þannig greiða för um jarðir í Ölfusi og þar á meðal yfir Suðurlandsveg, eða þjóðveg nr. 1. Þá liggur enn fremur fyrir að stefndi hafði ekki hirt um að tilkynna hross, sem hann geymdi í Ölfusi, til búfjáreftirlitsmanna sveitarfélagsins, svo sem honum bar að gera samkvæmt 10. gr. laga nr. 46/1991, sbr. breytingu með lögum nr. 51/1998. Stefndi hefur því auk aðgæsluleysis síns gerst brotlegur við greind lagaákvæði og ber því alla sök í máli þessu. Tilsjónarmann með gripum í hagagöngu ber einnig að að (sic.) fá samþykktan af sveitarstjórn. Fyrir liggur að stefndi hafði engan slíkan aðila á sínum vegum í Ölfusi og hefur sjálfur lögheimili í öðru sveitarfélagi.
Ljóst er að stefnandi hefur orðið fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni, sem stefndi ber ábyrgð á. Samkvæmt skriflegri staðfestingu P. Samúelssonar frá 16. ágúst 1999, sbr. dskj. nr. 9, var bifreið stefnanda metin í febrúar 1999 á kr. 1.100.000-1.150.000,-. Bifreiðin var af tryggingafélagi hennar talin ónýt þannig að ekki væri unnt að gera við hana. Í ljósi þeirra upplýsinga seldi stefnandi flak bifreiðarinnar. Gengið var frá sölunni með afsali dags. 17. ágúst 1999.
Skaðabótakrafa stefnanda er byggð á nefndri staðfestingu P. Samúelssonar ehf., sem hefur umboð fyrir Toyota bifreiðar og selur notaðar bifreiðar af þeirri tegund. Auk þess áætlar stefnandi að hann hafi vegna slyssins orðið fyrir öðrum útgjöldum sem nemi a.m.k. kr. 100.000,-. Þeirri kröfu stefnanda er mjög í hóf stillt, enda ljóst að ýmis útgjöld eru beinar afleiðingar slyss af því tagi sem hér um ræðir. Nægir þar að nefna afnotamissi bifreiðarinnar, kostnað við útvegun á annarri bifreið og samskipti við tryggingafélög og stofnanir, þ.m.t. símakostnaður. Slíkan kostnað ber stefnda að greiða stefnanda, sem á lögvarða kröfu til að fá allt fjárhagstjón sitt bætt.
Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður stefnanda að rétt væri greint frá aðstæðum á dskj. nr. 17, sem er teikning stefnda af afstöðu á slysstað. Þá mótmælti hann gildi framburðar bróður stefnda, sonar stefnda og bróðursonar stefnda fyrir úrlausn þessa máls.
IV.
Stefndi gerir með eftirgreindum hætti grein fyrir málsástæðum sínum og lagarökum:
Stefndi hafnar því að hann beri fébótaábyrgð á tjóni stefnanda. Orsök tjóns er óvarkárni stefnanda sjálfs sem ók of hratt miðað við aðstæður eftir sveitavegi eða á a.m.k. 80 km. hraða í hálku og myrkri og sýndi ekki nægilega aðgæslu. Þá var bifreið stefnanda illa búin til vetraraksturs, dekk slitin og án nagla. Stöðvunarvegalengd bifreiðar stefnanda sýnir það svart á hvítu hversu hratt hafði verið ekið en hún var rúmir hundrað metrar mælt frá árekstursstað og að þeim stað sem hryssa stefnda lá eftir árekstur. Hann gætti því ekki reglunnar um að haga akstri sínum þannig að hann gæti stöðvað bifreið sína á þriðjungi þeirrar vegalengdar sem auð er og hindrunarlaus framundan.
Stefnandi gætti ekki ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987 við aksturinn og er sérstaklega bent á 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 36. gr., b. og 1. lið 2. mgr. 36. gr. laganna.
Stefnandi var búinn að viðurkenna hjá lögreglu að hann hefði séð til hestaferða fyrir árekstur. Hann leitaði álits tjónanefndar tryggingafélaganna sem komst að þeirri niðurstöðu að öll sökin væri hans. Byggt var á hans eigin framburði hjá lögreglu en skýrsluna hafði stefnandi sent tjónanefndinni með erindi þann 15. febrúar 1999.
Þegar niðurstaða tjónanefndar lá fyrir fór stefnandi fyrst að breyta sinni frásögn á þann veg að hann hefði ekki séð hrossin áður. Slíkar skýrslur verður að skoða í ljósi málsatvika og fyrstu skýrslur lögreglu eru jafnan áreiðanlegastar. Ótrúlegt verður að telja að lögreglan skáldi það að [stefnandi] hafi sagt að hann hafi séð hrossin áður.
Stefnandi kom með nokkuð nýja frásögn í síðari skýrslu sinni en þar segir hann hross hafa stokkið upp á veginn hægra megin frá og í veg fyrir bifreið hans. Engin ummerki voru á vettvangi sem bentu til þess að hryssan hafi verið utan vegar fyrir atvikið heldur mátti sjá för eftir hryssuna frá hesthúsinu og eftir miðjum veginum til móts við bifreiðina. Þetta voru gönguför en ekki eftir hross á hlaupum.
Stefnandi hafði oft ekið um Hvammsveg og mátti vel vita að hross gátu gengið laus á þessu svæði enda kvartar hann undan því í bréfi sem lagt var fyrir Úrskurðarnefnd í tryggingarmálum. Þrjár tamningastöðvar eru á bæjum við Hvammsveg og stefnanda mátti vera það kunnugt. Þar sem áreksturinn varð er hesthús Nautaflata sem er mjög nálægt veginum og talsverð hætta er á að hross sem ganga laus væru að vafra þar nálægt og jafnvel að hross slyppu út en aðeins 2 strengir eru í girðingunni og um 40 hross innan hennar.
Stefnandi verður að sanna sök stefnda til þess að á hann verði lögð bótaábyrgð en hann hefur haldið fram við Úrskurðarnefndina röngum upplýsingum varðandi vörslu hrossanna. Í bréfi stefnanda til Úrskurðarnefndar var stefndi gerður tortryggilegur sem kærulaus Reykvíkingur og á þann hátt var nefndarmönnum talin trú um að stefndi sinnti ekki banni sveitarstjórnar við lausagöngu hrossa. Þessu er ekki að fagna þar sem nær víst er að hrossum stefnda hafi verið sleppt út úr girðingu af mannavöldum og þar var hvorki stefndi eða menn á hans vegum að verki. Alla sök skortir hjá stefnda.
Þótt lausaganga sé bönnuð leiðir það ekki til hlutlægrar ábyrgðar eiganda hests sem er á vegi. Það verður að sýna fram á að eigandinn hafi vísvitandi brotið bannið eða sýnt verulega vangæslu við gæslu hrossa. Því er svo andmælt sem ósönnuðu að nokkur þau skilyrði séu fyrir hendi sem leiði til ábyrgðar [stefnda] samkvæmt almennu skaðabótareglunni.
Álit Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum vekur furðu. Nefndin lagði mat á sönnunarbyrðina á afar hæpinn hátt og ályktaði að stefndi hafi ekki sýnt fram á að vörslur hestsins eða gæsla hafi verið fullnægjandi í umrætt sinn. Þetta gerði nefndin án þess að hafa nokkuð fyrir sér nema einhliða frásögn stefnanda. Stefndi telur að úrskurðurinn hafi ekkert sönnunargildi í málinu.
Stefnandi telur stefnda til lasts að hafa ekki tilkynnt um hross sín til forðagæslumanna. Það er hlutverk forðagæslumanna að hafa eftirlit með ásetningi búfjár, fóðrun og hirðingu skv. 9. gr. laga um búfjárhald nr. 46/1991 en ekki að fylgjast með því hvaða hross er á hverju landi. Stefndi var með hross sín á sínu landi og tilkynnti þá ekki frekar en aðrir jarðeigendur í Ölfusi um hversu mörg hross voru þar enda var langt í frá að landið væri ofbeitt. Hreppsmenn flestir vissu um hross stefnda á landi hans og þá væntanlega forðagæslumennirnir einnig.
Það var ekki ætlun stefnda að leggja ágreining aðila undir tjónanefnd eða Úrskurðarnefnd í ágreiningsmálum tryggingafélaganna þótt málin hafi æxlast svo. Ágreiningurinn átti ekkert erindi þangað þar sem stefndi hefur engar þær tryggingar hjá Tryggingamiðstöðinni hf. eða öðrum aðilum sem bæta tjón stefnanda ef til bótaábyrgðar stefnda kemur vegna hryssunnar.
Girðing á landi stefnda var traust og átti að halda hrossum. Hrossin þurftu að fara um tvö lokuð hlið áður en þau fór út á veginn en sá aðili, sem hleypti þeim í gegn, var ekki á vegum stefnda og stefndi vissi ekki betur en hrossin væru innan girðingar. Stefndi hafði gert fullnægjandi ráðstafanir til þess að eftirlit væri með hrossunum. Orsök þess að hrossin voru utan girðingar var ekki vangæsla stefnda eða manna á hans vegum heldur saknæmur verknaður ókunns aðila, þ.e.a.s. spellvirki. Stefndi leggur áherslu á að skammt var liðið frá því að hrossin sáust síðast inni í girðingu og ekkert hafði gefið gæslumanni hrossanna tilefni til að ætla annað en þau væru innan girðingar. Vel sést yfir land stefnda frá Bakkárholti og að auki frá Sandhóli en fólk þar fylgdist einnig með hrossum stefnda.
Stefndi véfengir tölulega tjón stefnanda og bendir á að stefnandi hafi sagt sér að hann hafi selt bifreiðina í bílaparta á kr. 380.000. Verð bifreiðarinnar fyrir tjón er véfengt enda var bifreiðin ryðguð og þá verðminni en sambærilegar bifreiðar.
V.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hann lýsti umferðaróhappi því er gerðist á Hvammsvegi á móts við Nautaflatir í Ölfushreppi að morgni 5. febrúar 1999 með eftirgreindum hætti: Stefnandi býr að Gljúfri í Ölfushreppi og var á leið heiman frá sér austur Hvammsveg í átt að þjóðvegi 1. Ók stefnandi bifreið sinni XE 398, Toyota Hilux x/c, árgerð 1992, og lagði af stað að heiman rétt fyrir kl. 7.30. Þegar hann kom á móts við fjárhúsin að Nautaflötum, sem eru austan megin þjóðvegarins, þá hefði hross skyndilega stökkið fyrir bifreiðina. Kvaðst hann hafa haft lítið ráðrúm en snögghemlað. Bifreiðin hefði borist nokkra vegalengd með hrossið framan á bifreiðinni. Hrossið hefði síðan fallið austur fyrir veginn um leið og bifreiðin stöðvaðist. Kvaðst hann þá hafa stigið út úr bifreiðinni og hugað að hrossinu. Það hefði reynt að standa upp nokkrum sinnum en síðan skyndilega dáið. Hann hafi þá hringt í lögreglu, tjáð henni málavexti og óskað eftir að hún kæmi á staðinn. Kvaðst hann hafa óskað eftir að lögregla skoðaði slysstaðinn. Engin skýrslutaka hefði þó farið fram á staðnum.
Eftir að hafa haft símasamband við lögregluna kvaðst stefnandi hafa talað við bóndann á Nautaflötum því hann hefði haldið að það gæti hugsast að hrossið hefði verið frá honum. Eiginkona bóndans vinni í Hveragerði og hafi þau hjónin verið að leggja af stað að heiman á þessum tíma. Þau hefðu því komið á staðinn skömmu síðar. Kvaðst hann hafa skoðað hrossið með þeim. Halldór, bóndinn, hefði haldið að hrossið gæti verið frá sér en kona hans hefði ekki verið á þeirri skoðun. Þau hefðu síðan farið að fjárhúsunum til að athuga hvort hross Halldórs, sem þar áttu að vera innan girðingar, hefðu sloppið út. Þá hefðu komið í ljós fjögur laus hross er stóðu við fjárhúsin utan girðingar, rétt hjá hrossum Halldórs, er voru hinum megin innan girðingar. Þá hefði Halldór sagt að þetta væru hross, er hann hefði séð á túninu á Bræðrabóli daginn áður, og haft að orði, að sennilega hefðu þau verið þar einhverja daga. Við svo búið hefðu þau rekið hrossin fjögur inn í hrossahóp Halldórs.
Nánar lýsti stefnandi árekstrinum við hross stefnda á þann hátt að hrossið hefði komið snögglega upp á veginn hægra megin við bifreiðina, þ.e. að vestanverðu, vestan við Hvammsveg. Þetta hafi orðið mikið samstuð - enda þótt hann hefði bremsað ósjálfrátt um leið og hrossið lenti á bifreiðinn, hefði höggið verið mikið. Frost hefði verið, hálka á vegi og snjóföl en snjóað hefði lítillega um nóttina. Bifreiðin hafi verið allvel búin til vetraraksturs en að vísu ekki á negldum hjólbörðum. Stefnandi kvaðst að vonum vera alvanur að aka þá leið, er hann fór í umrætt sinn. Kvaðst hann alltaf á þessari leið vera á varðbergi gagnvart lausgangandi hrossum en erfitt sé fyrir ökumann að gæta sín á hrossum er stökkvi skyndilega upp á akbraut í veg fyrir bifreiðina.
Stefnandi kvaðst hafa þurft að hverfa af slysstað áður en lögreglan kom á staðinn. Kvaðst hann hafa þurft að mæta á fund og ekki getað beðið eftir að lögreglan kæmi, enda hafi sá lögreglumaður, sem hann hafði símasamband við, ekki talið það nauðsynlegt. Bifreiðin hefði verið dregin með hjálp Halldórs á Nautaflötum af veginum og út í kantinn á afleggjara heim að húsum að Nautaflötum, þannig að hún varð ekki hindrun fyrir umferð. Kvaðst stefnandi síðan hafa talað við lögreglumanninn daginn eftir - á laugardegi. Kvaðst stefnandi reyndar hafa haft í mörgu að snúast þá stundina, þetta hefði verið um hádegi og lögreglumaðurinn hefði verið búinn að ljúka sinni vakt. Lögreglumaðurinn hefði verið að fara til að vera viðstaddur jarðaför og hefðu þeir rætt saman lauslega í anddyri lögreglustöðvarinnar. Lögreglumaðurinn hefði hripað niður á blað það sem þeim fór í milli. Kvaðst stefnandi aldrei hafa séð lögregluskýrsluna fyrr en hann hefði óskað eftir gögnum, sem send höfðu verði tjónanefnd af hálfu stefnda. Þá hefði honum orðið ljós alvarleg missögn í skýrslunni, misskilningur milli hans og viðkomandi lögreglumanns. Í skýrslunni segi að hann hefði veitt athygli fjórum hestum áður en áreksturinn varð en það sé ekki rétt. Kvaðst hann hafa rætt þetta við lögreglumanninn og þeir hefðu orðið samsinna um að þarna væri á ferðinni misskilningur. Lögreglumaðurinn hefði hins vegar tjáð honum að lögregluskýrslu yrði ekki breytt, hann yrði að mæta til yfirheyrslu með formlegum hætti til að leiðrétta þetta - svo sem hann hefði síðan gert.
Hann sagði að lögreglumaðurinn hefði ekki spurt sig út í ástand bifreiðarinnar en lögregluskýrslan tjái ranglega að bifreiðin hefði verið á negldum hjólbörðum. Tilgangur hans með að kalla lögregluna strax á staðin hafi verið að hún kannaði áreksturinn, hvaða för væru þarna o.s.frv.
Hann sagði að svartamyrkur hefði verið, þegar áreksturinn varð. Er hann og Halldór voru að bogra yfir hrossinu, sem varð fyrir bifreiðinni, hefðu þeir ekki greint sökum myrkurs tölu þeirra hesta, sem þá stóðu við fjárhúsin þar rétt hjá.
Stefnandi kvaðst hafa mætt bifreið á veginum við Lambhaga skömmu áður en hann lenti í umræddum árekstri. Þetta hafi verið bifreið er flutti börn í skóla í sveitinni. Þegar skólabifreiðin kom til baka skömmu síðar var óhappið um garð gengið. Kvað hann bifreiðina þá hafa numið staðar og hann rætt við bifreiðarstjórann.
Aðspurður kvaðst stefnandi hafa áætlað við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði verið á 80 km/klst. er óhappið varð, en raunar hefði hann ekki litið á hraðamæli svo nærri atvikinu að marktækt væri. En hann kvaðst þó geta fullyrt að ekki hefði verið um meiri hraða að ræða. Kvaðst hann hafa dregið úr hraða þegar hann mætti skólabifreiðinni svo sem áður sagði. Bifreiðarstjóri skólabifreiðarinnar hefði ekki gefið honum nein merki um að hætta væri framundan svo sem oft vill verða að bifreiðastjórar gefi með ljósmerkjum þeim sem á móti koma. Bifreiðarstjórinn hefði hins vegar tjáð sér, þegar hann kom til baka og stansaði á slysstað, að hann hefði haft verulegar áhyggur af því að hafa ekki varað hann við.
Stefnandi kvað bifreið sína hafa verið í mjög góðu standi þegar hún lenti í umræddum árekstri, ekin eitthvað um rúma 90.000 km og óryðguð.
Aðspurður um dskj. nr. 17 kvaðst stefnandi hafa efasemdir um hófaför eftir hesta stefnda, sem þar eru gefin til kynna, en þessi leið sé tíðfarin af hestamönnum. Þar að auki taldi hann vegalengdir og staðsetningar rangar í veigamiklum atriðum. Kvað hann áreksturinn hafa gerst á móts við fjárhúsin og staðsetning á hrossinu, sem lenti í árekstrinum, væri of sunnarlega á teikningunni.
VI.
Í aðilaskýrslu stefnda fyrir dómi kom eftirfarandi m.a. fram: Hann kvaðst hafa í febrúar 1999 á landareign sinni, Hvolsbrún, haft fimm hross á jarðarparti sem sé 45 ha. að stærð. Varðandi gæslu hrossanna kvaðst stefndi hafa þannig starf að hann ætti tíðum ferð fram hjá landareign sinni í Ölfushreppi, oftast tvisvar sinnum í mánuði, og hefði þá yfirlit yfir staðinn. Þá hefðu systkinin í Bakkarholti, í nábýli við Hvolsbrún, fylgst með því sem fram hefði farið á landareign hans. Páll Þorláksson á Sandhóli, sem einnig er í nágrenni Hvolsbrúnar, hefði einnig haft auga með landareigninni. Þá hefði tengdadóttir hans, Jónína Björnsdóttir, sem var við nám á Laugarvatni, átt þarna leið um daglega þennan vetur. Stefndi kvaðst geta talið það á fingrum annarrar handar hversu oft hestar hefðu sloppið úr girðingu frá honum. Hann sagði að hrossin hefðu þurft að fara í gegnum þrjár girðingar og tvö hlið til að komast norður að Nautarflötum við Hvammsveg svo sem þau gerðu. Þegar hann athugaði aðstæður daginn eftir slysið, kvað hann krosstré, sem er hluti af girðingu á landamörkum landareignar hans og Bræðrabóls í Ölfushreppi, hafa legið á hliðinni og myndað leið fyrir hestana að fara yfir eins og hófaför hefðu sýnt. Hliðið út á veginn [tengiveginn, sem liggur frá Kirkjuferjuhjáleigu upp á þjóðveg 1 (stofnveg)] hafði verið opnað svo sem förin eftir hliðið og fótspor sýndu í snjónum.
Stefndi kvaðst hafa fengið að vita um tjónsatburðinn u.þ.b. kl. 16.30 sama dag og hann varð. Hafi hann drifið sig á staðinn og fengið með sér tvo aðra. Hann hefði naumast getað trúað því að hans hross hefðu farið af landareign hans. Þegar hann kom austur hefði hann séð á sporum að fimm hestar höfðu farið yfir gegnum hlið við hliðina á ristarhliðinu upp á þjóðveg 1. Af sporunum hefði mátt ráða að hliðið hefði verið opið er hestarnir fóru þar í gegn en það hefði verið lokað er hann kom á staðinn.
Stefndi kveðst hafa farið á slysstað á Hvammsvegi og fundið hrossið, sem var mjög illa farið. Hann sagði að u.þ.b. 10 cm snjólag hefði verið á veginum og akstursför bara ein enda þótt um tveggja akreina veg væri að ræða. Fljúgandi hálka hefði verið í þessum hjólförum. Kvaðst hann hafa þrætt vegkantinn með félögum sínum frá hrossinu þar sem það lá og að þeim stað þar sem frostlögur, ryð, ryk o.fl. var á veginum. Þegar þeir gengu fram hjá fjárhúsunum hafi þeir séð spor eftir eitt hross þaðan [í norður] eftir miðjum veginum þar sem vegurinn var ótroðinn alveg að þeim stað þar sem frostlögurinn o.fl. var á veginum, en þar hefði mátt marka að hrossið hefði snarsnúist á veginum. Kvað hann hafa verið brotið úr malbiki vegarins þar í kantinum svo að ekki reyndist þörf á að marka staðinn nánar.
Stefndi sagði að Gylfi, bróðir hans, og John Snorri, sonur stefnda, hhefðu verið með honum í þessari för. Aðspurður hvenær síðast hefði sést til hrossanna innan girðingar hjá honum, sagði stefndi, að það hefði verið á fimmtudagskvöldi fyrir slysið. Jónína, tengdadóttir hans, hefði þá séð hrossin [á landareign stefnda] þegar hún var að koma frá Laugarvatni. Halldór Guðmundsson á Nautaflötum hefði séð hrossin í ljósaskiptunum þetta kvöld en ekki greint, hvort þau voru innan girðingar á landareign stefnda eða á landsvæði Bræðrabóls [vestan megin við tengiveginn].
Stefndi kvaðst aðspurður ekki hafa verið kunnugt um bann við lausagöngu stórgripa í Ölfushreppi í Árnessýslu frá og með 1. nóvember 1991, svo sem auglýst hefði verið í Lögbirtingablaði. Kvaðst hann hafa keypt jörð sína í hreppnum 1976 og búið þar á staðnum þar til 19. febrúar 1991. Kvað hann þann hluta jarðarinnar [sem hann hélt eftir sölu á Ingólfshvoli] lítið hafa verið nýttan. Kvaðst hann vera með tæpa tvo hektara undir skógrækt. Þá kvaðst hann hafa átt eitt til þrjú hross og notað landareignina fyrir hrossin. Bróðir hans, Gylfi, hafi átt eitthvað svipað af hrossum [sem beitt hefði verið á landið], þannig að þarna hafi verið frá fimm upp í sjö hross. Kvaðst hann hafa þinglýst landsvæði sitt sem lögbýlið Hvolsbrún eftir að jörðinni[á Ingólfshvoli] var skipt upp.
Aðspurður kvaðst stefndi hafa komið um kl. 18.00 á slysstað daginn, sem slysið varð. Þá hafi birtuskilyrði verið mjög góð, alveg heiðskírt veður og svona um fimm stiga frost. Kvaðst hann hafa verið á staðnum í u.þ.b. tvo tíma.
Stefndi sagði að eftir sporum að dæma hafi hrossin farið af landsvæði hans á klöppinni, þar sem krosstrén hefðu legið niðri, milli þess og landsvæðis Bræðrabóls [vestan megin við tengiveginn], út á tengiveginn gegnum hlið og eftir veginum norður að hliðinu við þjóðveg 1 [stofnveg], þar í gegn og yfir veginn í land Hjarðarbóls og þaðan yfir á afleggjarann að Hjarðarbóli. Hann sagði að myndin á dskj. nr. 18 sýndi hliðið út á þjóðveginn. Kvaðst hann ekki hafa tekið mynd af hliðinu út á tengiveginn [á móts við húsin að Bræðrabóli] en í gegnum það hlið væri ekki farið af almenningi enda þótt um gamla póstleið væri að ræða. Ekki væri unnt að áætla hvað það hefði tekið hrossin langan tíma að fara af landareign stefnda framangreinda leið að slysstað.
Aðspurður kvaðst stefndi líta svo á að hross hans hefðu enn verið í sínum vörslum þótt þau hefðu farið af landareign hans í þetta sinn. Hann kvaðst sjálfur hafa teiknað uppdráttinn á dskj. nr. 17. Kvaðst hann hafa rissað hann upp á laugardeginum eftir slysið. Hann sagði að upplýsingar um hrossin og vörslur þeirra, sem fram koma í lögregluskýrslu á dskj. nr. 4, hefðu komið frá honum.
VII.
Guðmundur Bjarnason Baldursson frá Kirkjuferju í Ölfushreppi bar vitni í málinu. Kvaðst hann m.a. aðspurður þekkja til landareignar stefnda í Ölfushreppi. Jarðirnar, Ingólfshvoll, Bræðraból og Kirkjuferjuhjáleiga liggi að landareigninni. Landareignin sé einungis notuð til beitar og komið hefði fyrir að hross af landareigninni hefðu farið yfir á landareign Bræðrabóls. Kvaðst hann ekki vita, hvaða eftirlit væri haft með þessum hrossum. Ekki kvaðst hann vita náið um ástand girðinga um landsvæðið en taldi að þær væru ekki allar í góðu lagi, héldu ekki alls staðar hrossum. Aðspurður kvað hann hross stefnda hafa verið búin að vera á túni í landareign Bræðrabóls einhverja daga áður en slysið varð - alla vega tvo eða þrjá. Kvaðst hann ekki treysta sér til að segja hve mörg hross þetta voru. Hann kvað algegnt að hlið upp við þjóðveginn væri opið en kvaðst loka því ef hann yrði þess var. Kvaðst hann morguninn, sem slysið varð, hafa farið til vinnu sinnar á Selfossi en ekki orðið var við hross [á leiðinni upp á þjóðveginn] og minntist þess ekki að hafa orðið var við hófaför á leiðinni.
Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 18 og 19, sem eru ljósmyndir, og var Guðmundur spurður hvort eitthvað rifjaðist upp fyrir honum við það að sjá myndirnar. Taldi hann að trúlega væru skóförin á myndunum hans. Kvaðst hann hafa hitt stefnda, Sigurjón, þegar hann var að taka þessar myndir.
Halldór Ómar Guðmundsson, Hvammi í Ölfushreppi, (dvalarstaður að Nautaflötum) kom fyrir dóm sem vitni. Hann kvaðst vita að landspilda stefnda væri úr landi Ingólfshvols. Að landspildunni lægi Bræðraból og ef til vill Grænhóll og hinum megin við Suðurlandsveginn nýja liggi Hjarðarból. Kvað hann landspilduna eitthvað lítillega hafa verið nýtta fyrir hesta. Ekki kvaðst hann þekkja til hvernig eftirliti með hrossunum hafi verið háttað. Ekki kvaðst hann hafa orðið var við ágang hrossa þaðan og ekki þekkja ástand girðinga þar.
Hann sagði að morguninn, er slysið varð, hafi verið hringt til sín rétt fyrir klukkan átta og hafi það verið stefnandi. Hafi stefnandi lent í því óhappi að keyra á hest. Kvað hann ekki óeðlilegt að hringt hefði verið í hann því hann sé með hesthús og hlöðu þarna hinum megin við veginn þar sem þetta óhapp varð - þessi hestur hefði getað verið frá honum. Hafi hann farið út á veg með sambýliskonu sinni og hafi þau aðstoðað stefnanda eins og þau gátu og þörf var á. Kvaðst hann ekki hafa getað með fullri vissu neitað því að hrossið væri ekki frá honum því að hann hafi átt tvær brúnar hryssur, sem hefðu getað verið þarna. Konan hefði þegar sagt að hann gæti ekki átt þetta hross. Og er hann hefði séð hross, sem hann ekki átti, á tröðinni við hesthúsið og hlöðuna utan girðingar austan við Hvammsveginn, hefði hann orðið nokkuð öruggur um að þessi hestur væri ekki frá honum kominn. Hann kvaðst ekki muna betur en hrossin hafi verið þrjú að tölu, sem þarna voru. Kvaðst hann þó ekki geta fullyrt um að þau hefðu ekki verið fjögur. Kveðst hann hafa opnað hlið og sett þessi hross saman við sín [innan girðingar].
Er hann fór að skoða hrossin á vettvangi kvað Halldór, af lit hestanna, grun hafa vaknað hjá honum um að þessi aðkomuhross væru frá landspildu stefnda hinum megin þjóðvegarins, en hann kvaðst hafa daginn áður verið á ferð og virst þá sem hestarnir væru komnir út úr Hvolsbrúnarlandi inn á land Bræðrabóls.
Halldór kveðst hafa kannað þá um morguninn, eftir að stefnandi var farinn, hvort hann gæti séð hvaðan hestarnir hefðu komið. Svo hefði viljað til að snjóað hafði þarna og logn hafði verið þannig að rekja mátti hvar hestarnir höfðu farið. Hestarnir hefðu farið í gegnum land á Bræðrabóli, greinilega farið síðan í gegnum opið hlið í landi Bræðrabóls og síðan annað hlið upp við Suðurlandsveg, sem augljóslega hafði verið opið, og farið svo með Suðurlandsveginum austur úr og inn um hlið beint á móti Hvolsafleggjaranum, þar sem er hús frá Hjarðarbóli, og þaðan upp að skógræktargirðingunni. Komið svo fram með girðingunni og inn á Hvamms-veginn og greinilega farið svolítið upp með Hvammsveginum áleiðis upp að Lambhaga - en auðvelt hefði verið að rekja förin í snjónum. Auðséð hefði verið að hestarnir höfðu kroppað svolítið í vegkantinum. Síðan hafi þau snúið við og komið aftur til baka. Halldór kvaðst ekki hafa séð nein mannaför, einungis hrein för eftir hestana. Halldór kveðst hafa gert þessa athugun um níuleytið sama morgun og slysið varð. Ekki hefði verið unnt að merkja að hliðið við Bræðraból hefði nýlega verið opnað, engin fótspor hefðu verið í snjónum. Halldór sagði að norðankaldi hafi verið og nokkuð frost en hált á vegum.
Halldór kvaðst hafa aðstoðað stefnanda við að draga bifreið hans af Hvammsvegi inn á afleggjarann að Nautaflötum. Hafi bifreiðin verið skilin þar eftir. Það hefði verið eina aðstoðin sem stefnandi þurfti á að halda.
Aðspurður kvaðst Halldór nokkurn veginn geta sagt hvar plastið og glerið úr bifreiðinni var á veginum og hvar hesturinn lá við veginn. Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 17, sem er uppdráttur af vettvangi, gerður af stefnda. Kvaðst hann álíta að fjarlægðin á uppdrættinum milli þess staðar er áreksturinn varð og þar sem hrossið lá hefði raunar verið töluvert styttri en þar greinir. Kvaðst hann ætla að þarna hafi verið um sjötíu metra að ræða. Stikur séu við veginn. Þetta hafi verið u.þ.b. tvö stikubil en bilið milli stika sé 25 til 30 metrar. Plastið og glerið af bifreiðinni hafi verið u.þ.b. fimm metra norðan við stikuna og mið við, hvar hesturinn fór út af veginum.
Þá kom fyrir dóminn til skýrslugjafar, Rafn Haraldsson, Bræðrabóli, Ölfushreppi. Hann kvaðst ekki þekkja hvernig landssvæði stefnda hefur verið nýtt. Kvaðst þó hafa séð hross og ær á beit þar. Kvaðst hann aðspurður ekki hafa orðið var við eftirlit með þessum skepnum. Kvaðst hann hafa orðið var við að hross hefðu gengið þaðan í land Bræðrabóls og víðar. Þetta hafi gerst nokkrum sinnum. Ágangur hafi orðið af hrossum þaðan í land Bræðrabóls og niður afleggjarann að Kvíarhóli. Ekki hafi hann þekkt þessi hross en þó hefði hann haldið í tvo skipti að hrossin væru frá Ingólfshvoli. Hefði hann þá hringt í mann, sem bjó á Ingólfshvoli, Sigurjón, og tilkynnt honum um þetta eða konu Sigurjóns. Í bæði skiptin hefðu hestarnir verið fjarlægðir úr landi hans og af veginum. Aðspurður kvað hann ástand girðingar milli Hvolsbrúnar og Bræðrabóls mjög slæmt, gripir komist þar fram og til baka, girðingin liggi víða niðri. Kvaðst hann sjálfur ekki hafa sinnt viðhaldi á girðingu þessari.
Jón Kristinn Guðmundsson, Lambhaga 42 á Selfossi, kom fyrir dóminn. Hann upplýsti að hafa haft atvinnu af að aka börnum til skóla á þeim tíma er atburður sá, er hér er til meðferðar, átti sér stað. Kvaðst hann hafa ekið frá Hvoli og upp Hvammsveg þennan morgun. Hann kvaðst illilega hafa orðið var við hross hlaupandi á veginum nánast við afleggjarann heima að Hjarðarbóli. Þetta hafi verið á tímabilinu tuttugu mínútur yfir sjö til hálfátta. Kvaðst hann hafa séð þrjú hross. Þau hefðu hlaupið yfir lága girðingu á hliði beint á móts við Hvammsveg, austur yfir veginn. Skyggni hafi ekki verið með besta móti. Hafi hann rétt sloppið við að lenda á einu af hrossunum. Kvaðst hann hafa mætt stefnanda á leiðinni eftir Hvammsvegi skömmu síðar. Kvaðst hann um seinan hafa hugkvæmst að aðvara hann.
Jón Kristinn kvaðst hafa ekið skólabílnum um tíu ára skeið á þessum slóðum og hafi lausaganga hrossa verið stöðugt vandamál þarna frá Kögunarhóli og út fyrir Kotströnd. Kvaðst Jón hafa sótt dreng á bænum Kvistir þennan morgun og ekið síðan sömu leið til baka og fram á slysstað. Kvaðst hann ekki hafa farið út úr bifreið sinni, þar sem hann hafi verið með börn í henni, en spurt stefnanda, hvort hann vantaði aðstoð. Stefnandi hafi verið búinn að hringja á hjálp. Hafi hann því haldið akstri skólabifreiðarinnar áfram við svo búið. Kvað hann vandalaust hafa verið að aka fjórtán manna rútubifreið sinni fram hjá bifreið stefnanda á veginum [eftir árekstur síðari bifreiðarinnar við hrossið]. Bifreið stefnanda hafi staðið rétt ofan við [norðan við] Hjarðarbólsafleggjarann. Snjómugga hafi verið en ekki teljandi hált á veginum.
Ásgeir Jamil Allansson gaf skýrslu fyrir réttinum. Ásgeir kvaðst hafa keypt bílflak af stefnanda. Lagt var fyrir hann dskj. nr. 10, sem er myndrit af afsali stefnanda, Jóns Hólms Stefánssonar, á bifreið sinni XE-398, Toyota Hilux, árg. ´92, til Ásgeirs. Staðfesti Ásgeir að það væri rétt sem þar stæði, þ.m.t. umsamið kaupverð, 300.000 krónur. Ásgeir sagði að ástand bifreiðarinnar hafi verið mjög gott en bifreiðin hafi verið „staðin". Hann sagði að ryð hafi verið á litlum bletti aftan á bifreiðinni eftir „pústið". Þá hafi verið ryð á vinstra frambretti, ryð undan lista. Annað ryð hafi ekki verið í bifreiðinni. Hjólbarðar hafi verið grófmunstraðir en hálfslitnir. Hann staðfesti að mynd af bifreiðinni á dskj. nr. 25 sýndi rétt ástand bifreiðarinnar þegar hann keypti hana.
Svavar Gylfi Jónsson kom fyrir dóminn til skýrslugjafar. Kvaðst hann hafa farið með bróður sínum, stefnda, Sigurjóni, á vettvang eftir að ekið var á umrætt hross. Hann lýsti aðkomu á vettvangi og því sem hann hafði séð.
Sigurjón Gylfason, bróðursonur stefnda, kom fyrir dóm til skýrslugjafar. Kvaðst hann hafa farið á vettvang daginn eftir slysið, laugardaginn [6. febrúar 1999]. Hann lýsti vegsummerkjum eins og þau komu honum fyrir sjónir.
John Snorri Sigurjónsson, sonur stefnda, kom fyrir dóm til skýrslugjafar. Kvaðst hann hafa farið á vettvang seinna sama dag og slysið varð. Hann lýsti aðkomu og aðstæðum svo sem honum hafði virst þær þá.
Þorlákur Gunnarsson, bóndi í Bakkárholti í Ölfushreppi, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa fylgst með hrossum stefnda, sem voru á landsvæði stefnda þar í sveit. Hafi hann gefið þeim í fyrravetur eftir þörfum. Hestarnir hefðu aldrei verið utan girðingar svo hann hefði orðið var við. Frá hliðum og girðingum hefði þannig verið gengið að þau hefðu ekki áttu að komast hjálparlaust út.
Sveinn Ægir Árnason, lögreglumaður, gaf skýrslu. Hann kvaðst m.a. minnast þess að stefnandi, Jón Hólm, hefði lýst aðdraganda og atvikum eins og þau koma fram í lögregluskýrslunni á dskj. nr. 4.
VIII.
Niðurstaða.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefndi hafi sýnt af sér gáleysi við gæslu hesta sinna, sem höfð voru í útigangi á jarðarparti stefnda í febrúar 1999.
Við vettvangsskoðun kom í ljós að girðing milli jarðar stefnda og jarðar Bræðrabóls er áfátt. Í framburði Rafns Haraldssonar á Bræðrabóli fyrir réttinum kom fram að nokkrum sinnum hefði það gerst að hross hefðu gengið af jörð stefnda yfir í land Bræðrabóls. Sagði hann ástand girðingar milli landareignar stefnda og Bræðrabóls mjög slæma, gripi komast þar fram og til baka og girðingu liggja víða niðri. Kvaðst hann ekki hafa sinnt viðhaldi á þessari girðingu. Halldór Ómar Guðmundssonar, sem kvaðst hafa kannaði aðstæður sama morgun og keyrt var á hross stefnda, bar fyrir réttinum, að eftir hófaförum að dæma hefðu hrossin farið út um opið hlið í landi Bræðrabóls og síðan annað hlið, sem greinilega hefði verið opið, upp á Suðurlandsveg. Af þessu má ætla að lítið hafi hindrað hross stefnda út á þjóðveginn þá leið sem þau fóru í þetta sinn. Fallist verður því á að stefndi hafi ekki sýnt næga aðgæslu hrossa sinna umrætt sinn enda getur stefndi ekki reiknað með og treyst því að hlið á öðrum landareignum en hans séu höfð lokuð.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu við akstur bifreiðar sinnar umrætt sinn.
Í lögregluskýrslu, sem dagsett og tímasett er 5. febrúar 1999 kl. 07.30, og gerð var út af umræddum atburði, segir um akstursskilyrði: „Birta: myrkur. Lýsing: engin. Veður: ekki vitað. Færð: snjór, hálka." Í skýrslunni segir að bifreiðin hafi verið á negldum hjólbörðum. Þessi skýrsla er engan veginn þannig úr garði gerð að ráða megi af henni með nákvæmum hætti aðdraganda og afleiðingar umferðarslyssins. Hún er ekki staðfest eða undirrituð af stefnanda og greinir ekki frá sjálfstæðum athugunum lögreglu á staðnum. Ekki er t.d. getið um hvar telja mátti af ummerkjum að áreksturinn hefði átt sér stað á veginum og í hvaða fjarlægð frá þeim stað hrossið lá við komu lögreglunnar á staðinn. Engar marktækar upplýsingar aðrar eru um aðgæslu eða aðgæsluleysi stefnanda við akstur bifreiðar sinnar þetta sinn utan þeirra, sem hann sjálfur hefur tjáð og viðurkennt, enda voru engin vitni af atburðinum. Á hinn bóginn má ráða af framburði Jóns Kristins Guðmundssonar, sem ók skólabifreið á veginum skömmu áður en áreksturinn varð, mætti stefnanda á leiðinni, og ók litlu síðar til baka og kom á slysstað og hafði tal af stefnanda, að erfitt hefði verið að varast hrossin, sem þarna hlupu laus.
Samkvæmt framangreindu verður ályktað að stefnandi hafi eigi mátt varast það að hross stefnda varð fyrir bifreið hans á veginum. Verður stefndi því talinn bótaskyldur vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir og hlaust af lausagöngu á hrossum stefnda.
Stefnandi kveðst reisa fjárhæð kröfu sinnar um skaðabætur á yfirlýsingu frá P. Samúelsson ehf. frá 16. september 1999, sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 9, en félagið hefur umboð fyrir sölu á bifreiðum af teg. Toyota hér á landi. Þar segir m.a. að markaðsverð á bílnum hefði verið í febrúar 1999 á bilinu 1.100.00 -1.150.000 krónur samkvæmt mati umboðsins. Upplýst er að stefnandi seldi bifreiðina, í því ástandi sem hún var eftir tjónið, á 300.000 krónur. Þykir mega taka mið af þessu varðandi bótafjárhæð og verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í skaðabætur með vöxtum eins og dómsorð greinir.
Eftir atvikum þykir hæfilegt að stefndi greiði stefnanda 220.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á þóknun lögmanns stefnanda.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sigurjón Sveinn Jónsson Bláfeld, greiði stefnanda, Jóni Lárusi Hólm Stefánssyni, 800.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. september 1999 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 220.000 krónur alls í málskostnað.