Hæstiréttur íslands

Mál nr. 649/2008


Lykilorð

  • Áfengislagabrot
  • Auglýsing
  • Ábyrgð á prentuðu máli


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. apríl 2009.

Nr. 649/2008.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson, settur saksóknari)

gegn

Reyni Traustasyni

(Þórður Bogason hrl.)

 

Áfengislagabrot. Auglýsing. Ábyrgð á prentuðu máli.

R, ritstjóri tímaritsins Mannlífs, var ákærður fyrir áfengislagabrot með því að hafa birt auglýsingar af áfengi í tímaritinu og í fylgiriti með því. R krafðist sýknu. Byggði hann m.a. á því að ekki hafi verið um auglýsingar að ræða, heldur umfjallanir um áfengi. Talið var að um hafi verið að ræða tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar hafi verið áfengistegundir. Væri því um að ræða brot gegn 1. mgr. 20. gr. áfengislaga. Talið var að R bæri refsiábyrgð á auglýsingunum í tímaritinu sem ritstjóri þess samkvæmt 3. mgr. 15. gr. prentlaga þar sem höfundur væri ekki nafngreindur. Þá var talið að ritið sem fylgt hefði tímaritinu teldist fylgirit þess samkvæmt lokaorðum 9. gr. laganna og bæri R einnig refsiábyrgð á auglýsingunum í því samkvæmt 3. mgr. 15. gr. Ekki var fallist á að bann við áfengisauglýsingum væri andstætt tjáningarfrelsisákvæði eða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu. Var R sakfelldur og dæmdur til greiðslu sektar. 

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 2. júlí 2008, en sú áfrýjunarstefna var afturkölluð og var málinu áfrýjað öðru sinni 19. nóvember 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi, allt í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að sekt hans verði lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt 1. ákærulið.

Rit það sem 2. og 3. ákæruliðir varða kom út í júlí 2006 á vegum Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf., sem einnig gaf út tímaritið Mannlíf, og var dreift með júlíhefti tímaritsins. Á forsíðu þessa tölublaðs Mannlífs, sem 1. ákæruliður lýtur að, var prentað „Bók fylgir frítt“ og á blaðsíðu 134 í tímaritinu sagði um höfund þann sem hreppti verðlaun smásagnasamkeppninnar Gaddakylfan, sem lýst er í héraðsdómi, að sigurvegarar í keppninni „fengu sögur sínar birtar í bók sem fylgir Mannlífi“. Bók þessi er 96 blaðsíður í vasabókarbroti. Enginn ritstjóri er sérstaklega tilgreindur í henni, en Jón Trausti Reynisson ritar formála. Hann var titlaður aðstoðarritstjóri Mannlífs á ritstjórnarsíðu þess við hlið ritstjórans, ákærða í máli þessu. Vegna þess sem hér hefur verið rakið telst rit þetta hafa verið fylgirit tímaritsins Mannlífs samkvæmt lokaorðum 9. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og ber ákærði sem ritstjóri tímaritsins því refsiábyrgð á áfengisauglýsingum á kápusíðum þess samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laganna. Reynir því ekki á refsiábyrgð samkvæmt 13. gr. laganna. Með þessum athugasemdum en vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður niðurstaða hans staðfest um sakfellingu ákærða, refsingu hans og sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Reynir Traustason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 311.728 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Þórðar Bogasonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2008.

                Mál þetta, sem dómtekið var 28. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 8. apríl 2008 á hendur Reyni Traustasyni, kt. 181153-2969, Aðaltúni 20, Mosfellsbæ, fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem ritstjóri tímaritsins Mannlífs, birt auglýsingar af áfengi, sem hér nánar greinir:

1.                 í 7. tbl. 23. árgangs Mannlífs, gefnu út í júlí 2006 á bls. 35 auglýsingu fyrir Chivas viskí, en í auglýsingunni er mynd af fólki með viskíglös og texti um uppruna og vinsældir áfengisins. 

2.                 í fylgiriti með tímaritinu skv. 1. tl., sem inniheldur íslenskar glæpasögur úr samkeppninni Gaddakylfan 2006, sem Mannlíf stóð fyrir, birt á innri bókarkápu baksíðu auglýsingu fyrir Beefeater gin, en í auglýsingunni er mynd af flösku sem inniheldur áfengið og glas þar við hlið, auk þess sem uppskrift er undir yfirskriftinni “HINN EINI SANNI GT” og upplýsingar um gæði áfengisins.

3.                 í sama riti og skv. 2. tl. á baksíðu birt auglýsingu fyrir Ballantine´s viskí, með mynd af flösku af áfenginu og texta með upplýsingum um gæði og bragð áfengisins.

Er háttsemin samkvæmt 1., 2. og 3. tl. talin varða við 20. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956 og 13. gr. sömu laga að því er varðar 2. og 3. tl. ákæru.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

                Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, greiðist úr ríkis­sjóði.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá mánudeginum 31. júlí 2006 höfðu lögreglu borist ábendingar um að í tímaritinu Mannlífi, 7. tbl. 23. árgangs, gefnu út í júlí 2006, væru áfengisauglýsingar. Jafnframt væru slíkar auglýsingar í fylgiriti sem sent hafi verið út með tímaritinu. Samkvæmt útprentun af vef Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er Chivas viskí 40% að styrkleika. Beefeater gin 40% að styrkleika og Ballantine´s viskí 40% að styrkleika. Heildsali fyrir allar þessar áfengistegundir er skráður Mekka Wines & Spirits.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 14. mars 2007. Ákærði kvaðst ekkert sjá ólöglegt við umræddar auglýsingar þar sem um væri að ræða umfjallanir um áfengi. Að því er varðaði auglýsingu á bls. 35 í tímaritinu Mannlífi kvaðst ákærði ekki vita hvaðan sú mynd hafi komið sem væri í auglýsingunni. Textinn kæmi hins vegar frá ritstjórninni. Ekki kvaðst ákærði muna hver hafi ritað textann. Texti á mynd á auglýsingu framan og aftan á bakkápu fylgiritsins sem sent hafi verið út með tímaritinu sem innihélt glæpasögur úr samkeppninni Gaddakylfunni 2006 einnig hafa komið frá ritstjórn Mannlífs. Ekki kvaðst ákærði muna hver hafi ritað þann texta. Þá kvaðst ákærði ekki vita hvort greitt hafi verið fyrir þessar auglýsingar. Ákærði kvaðst telja að ritstjóri og ábyrgðarmaður bæri ábyrgð á því sem birtist í blaðinu og ætti það við um þessar kynningar. Kynningarnar hafi verið í samræmi við stefnu Mannlífs. Kynningar væru venjulega bornar undir ákærða til samþykktar, en ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum kynningum sérstaklega. Ekki kvaðst ákærði vita hver hafi átt frumkvæðið að kynningunum.

                Fyrir dómi bar ákærði á þann veg að hann hafi verið ritstjóri Mannlífs í júlí 2006. Væri hlutverk ritstjóra að ákveða allt ritstjórnarefni blaðsins. Allur gangur væri á hvort ritstjóri fengi efni til yfirlestrar áður en rit væri gefið út. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi fengið þær umfjallanir til yfirlestrar er sakarefni þessa máls snérust um áður en blaðið hafi verið gefið út. Allur gangur væri á hvort auglýsingar væru komnar inn fyrir útgáfu, en aðalatriðið væri að ritstjórnarefni væri á sínum stað. Blaðinu væri sent svonefnt ,,proof” til samþykktar fyrir prentun. Ritstjóri fengi hluta af því til yfirferðar og auglýsingastjóri annað. Sumt efni kæmi í blaðið algerlega á síðustu stundu og ætti það t.d. við um auglýsingar. Ritstjóri gerði síðan athugasemdir ef eitthvað það væri í blaði sem ekki væri hæft til birtingar. Að því er fylgirit samkvæmt ákæru varðaði hafi verið um að ræða sjálfstætt fylgirit. Hafi það víða verið selt sjálfstætt og því ekki einungis fylgifiskur tímaritsins Mannlífs í þessu tilviki. Hafi verið um að ræða svokallaðan ,,bónus” sem fylgt hafi tímaritinu. Ekki kvaðst ákærði vita hvaðan kynning á bls. 35 fyrir Chivas hafi komið. Þá kvaðst ákærði ekki vita hvort greitt hafi verið fyrir þessa kynningu. Ef kynningu fylgdi fróðleiksmoli um vöruna kæmi hún frá ritstjórn. Reglan hafi verið sú að ef kynna ætti áfengi hafi verið lagt til grundvallar að setja umfjöllun um áfengið til að það teldist ekki auglýsing. Ákærði kvaðst hafa séð fylgiritið sem fylgt hafi 7. tbl. 23. árgangs Mannlífs áður en það hafi farið út. Hönnun og uppsetning á fylgiritinu hafi farið fram innanhúss hjá tímaritinu. Viðkomandi umfjöllunum hafi ekki verið ætlað að örva sölu á áfengum drykkjum.  

Jón Erling Ragnarsson, framkvæmdastjóri Mekka ehf., bar að fyrirtækið væri í innflutningi á áfengi og hafi flutt inn þær áfengistegundir er um ræddi. Í öllum tilvikum væri það þannig að miðlar hefðu samband til að sækja uppfyllingarefni í blöð. Það væri stefna fyrirtækisins að taka allri umfjöllun um vörumerkin fagnandi. Hafi verið fundið efni fyrir blöðin til að vinna úr og birta með myndum af viðkomandi vörumerkjum. Þá léti fyrirtækið einnig mynd af viðkomandi vörumerki í té. Öll hönnun og uppsetning á viðkomandi umfjöllun færi síðan fram hjá viðkomandi blaði. Mjög líklegt væri að eitthvað væri greitt fyrir slíkar kynningar. Væri það nánast sjálfgefið.

                Steinar Lár Steinarsson, markaðsstjóri Mekka ehf., kvaðst hafa verið starfandi sölu- og markaðsstjóri hjá fyrirtækinu á þessum tíma og hafi fyrirtækið verið með þær áfengistegundir í sölu er væru til umfjöllunar. Frumkvæði að þessum umfjöllunum hafi komið frá tímaritinu. Hafi verið ósk þeirra að fjalla um umræddar áfengistegundir, en Mannlíf væri svonefnt ,,lífsstílstímarit”. Myndir í umræddum kynningum væru frá Mekka ehf. komnar. Hafi umboðsmanni tímaritsins m.a. verið vísað á heimasíðu hinna erlendu framleiðenda. Þaðan hafi texti verið tekinn. Tímaritaútgáfan hafi annast uppsetningu á umræddum umfjöllunum. Þær umfjallanir hafi verið viðkomandi vörum og vörumerkjum til framdráttar. Ragnar Pedersen auglýsingastjóri tímaritaútgáfunnar væri mjög áhugasamur um þessar vörur og hafi hann viljað fjalla um þær. Ekki kvaðst Steinar geta fullyrt um greiðslu fyrir þessar umfjallanir.    

Niðurstaða:

Í málinu liggur frammi eintak af 7. tbl. 23. árg. tímaritsins Mannlíf, sem út kom í júlí 2006. Í blaðinu er að finna auglýsingu samkvæmt 1. tl. ákæru. Er auglýsingunni réttilega lýst í ákæru. Þá liggur frammi rit sem ber heitið Morð. Er ritið merkt Mannlífi og kemur fram að um sé að ræða verðlaunasögur Mannlífs og Hins íslenska glæpafélags. Í riti þessu er að finna tvær auglýsingar samkvæmt 2. og 3. tl. ákæru. Er þessum auglýsingum einnig rétt lýst í ákæru.  

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, er hvers konar auglýsing á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. er með auglýsingu átt við hvers konar tilkynningu til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar tekur bannið sömuleiðis til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er fram­leiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfengan drykk sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.

Ákærði byggir varnir sínar m.a. á því að ekki sé um auglýsingar að ræða í þeim tilvikum sem ákært er vegna heldur umfjallanir um áfengi, sem ekki teljist vera auglýsingar. Í umræddum tilvikum eru sýndar í myndum áfengistegundir og í einu tilviki atriði tengd áfengisneyslu. Koma vörumerki viðkomandi tegunda berlega í ljós. Sú umfjöllun sem er um áfengistegundir þessar er hins vegar svo almenns eðlis að ekki verður talið annað fyrir liggja en að um sé að ræða tilkynningu til almennings vegna markaðssetningar á þessari vöru. Hafa vitni lýst því yfir að auglýsingunum hafi verið ætlað að vera viðkomandi vörumerkjum til framdráttar. Verður slegið föstu að hér hafi verið um að ræða tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru áfengistegundir. Er hér um að ræða brot gegn 1. mgr. 20. gr. laga nr. 75/1998.

Tímaritið Mannlíf kemur út nokkrum sinnum á ári. Rit það sem sent var út með Mannlífi umrætt sinn kom út í eitt sinn. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 57/1956 teljast til tímarita rit sem koma út með sama heiti ekki sjaldnar en tvisvar sinnum á ári. Samkvæmt því fer um refsiábyrgð gagnvart því riti sem hér er til umfjöllunar eftir 13. gr. laganna. Hæstiréttur Íslands hefur markað þá stefnu að minni kröfur séu gerðar til að höfundur teljist hafa nafngreint sig í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956 þegar auglýsingar eiga í hlut en ella gildir um annað efni. Auglýsingar þær sem ákæra í máli þessu varðar bera hvorki með sér nafn höfundar né auglýsanda. Vörumerkið Chivas kemur skýrlega fram á einni auglýsingunni, vörumerkið Beefeater gin á annarri og vörumerkið Ballantine´s viskí á þeirri þriðju. Eru engin auðkenni sem beint eða óbeint vísa til innflytjanda vörunnar. Er þannig ekki um nafngreiningu að ræða í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 ber útgefandi rits eða ritstjóri refsi-og fébótaábyrgð á efni rits ef höfundur hefur ekki nafngreint sig. Samkvæmt því ber ákærði sem ritstjóri tímaritsins Mannlífs refsiábyrgð eftir 15. gr. laga nr. 57/1956 á þeirri auglýsingu sem birtist í Mannlífi.

Rit það sem 2. og 3. tl. ákæru varðar kom út með Mannlífi í júlí 2006. Fremst í ritinu kemur fram að Tímaritaútgáfan Fróði gefi ritið út. Er það sama tímaritaútgáfa og gefur Mannlíf út. Ákærði lýsti yfir við skýrslugjöf hjá lögreglu að ritstjórn Mannlífs hefði séð um þann texta sem ritaður hafi verið á auglýsingar samkvæmt 2. og 3. tl. ákæru. Á grundvelli 13. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 ber ákærði sem ritstjóri tímaritsins Mannlífs ábyrgð á þeim auglýsingum sem birtust í ritinu. 

Dómstólar hafa margsinnis slegið föstu að auglýsingar njóti verndar tjáningarfrelsis­ákvæðis 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og tjáningarfrelsisákvæðis 10. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sem lögtekinn var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar má aðeins setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum, við tilteknar þar tilgreindar aðstæður. Hafa dómstólar jafnframt slegið föstu að þau rök sem búi að baki 20. gr. áfengislaga, eigi sér efnislega stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnar­skrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi löggjafinn metið auglýsingabann áfengis nauðsynlegt og ítrekað það mat eftir að núgildandi tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið sett. Þá hafa dómstólar ekki fallist á að 20. gr. laga nr. 75/1998 brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Með hliðsjón af öllu framanrituðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. 

Ákærði er fæddur í nóvember 1953. Hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Með hliðsjón af brotum ákærða og dómaframkvæmd á þessu réttarsviði er refsing ákærða hæfilega ákveðin 500.000 króna sekt, sem greiðist í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, ella sæti ákærði fangelsi í 28 daga. 

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Reynir Traustason, greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 28 daga. 

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gunnars Inga Jóhannssonar héraðsdómslögmanns, 198.702 krónur.