Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 20

 

Mánudaginn 20. ágúst 2001:

Nr. 233/2001.

Lilja Matthíasdóttir

Viðar Halldórsson og

Þorvaldur Ásgeirsson

(Hrafnkell Ásgeirsson hrl.)

gegn

Hafnarfjarðarkaupstað

(Guðmundur Benediktsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun vegna vanreifaðra málsástæðna og óljóss samhengis málsástæðna, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. og 1. mr. 100. gr. laga nr. 91/1991, enda annmarkarnir slíkir að ekki yrði úr þeim bætt  undir rekstri málsins. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júní 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmd í sameiningu til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Lilja Matthíasdóttir, Viðar Halldórsson og Þorvaldur Ásgeirsson, greiði í sameiningu varnaraðila, Hafnarfjarðarkaupstað, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júní 2001.

   Málið höfðaði Hrafnkell Ásgeirsson hæstaréttarlögmaður fyrir hönd Lilju Matthíasdótur, kt. 200255-4619, Víðivangi 14, Hafnarfirði, Viðars Halldórssonar, kt. 230555-3519, Hjallabraut 23, Hafnarfirði og Þorvaldar Ásgeirssonar, kt. 010148-4569, Vesturvangi 11, Hafnarfirði, á hendur Hafnar­fjarðar­kaupstað, kt. 590169-7579, Strandgötu 6, Hafnarfirði, til greiðslu skaðabóta að fjárhæð krónur 38.747.229.  Stefna var birt 14. mars síðastliðinn og málið þingfest samdægurs.

I.

   Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða krónur 38.747.229, með dráttarvöxtum af krónum 13.847.229 frá 1. apríl 1996 til 1. janúar 1997, af krónum 18.827.229 frá þeim degi til 1. janúar 1998, af krónum 23.807.229 frá þeim degi til 1. janúar 1999, af krónum 28.787.229 frá þeim degi til 1. janúar 2000, af krónum 33.767.229 frá þeim degi til 1. janúar 2001 og af krónum 38.747.229 frá þeim degi til greiðsludags.  Jafnframt verði stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar með virðisaukaskatti samkvæmt mati dómsins.

   Til vara er krafist lægri bóta úr hendi stefnda að mati dómsins, auk þess sem krafist er málskostnaðar eins og í aðalkröfu.

   Guðmundur Benediktsson hæstaréttarlögmaður og bæjarlögmaður í Hafnar­firði tók til varna fyrir hönd stefnda.  Hann krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá dómi.  Til vara er krafist sýknu af kröfum stefnenda og til þrautavara að stefnufjár­hæð verði stórlega lækkuð. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

II.

   Stefnendur lýsa málsatvikum svo í stefnu, að hinn 12. september 1995 hafi þeir stofnað einkahlutafélagið Strandgötu 30.  Tilgangur félagsins hafi meðal annars verið kaup og rekstur fasteigna og hafi það verið fyrst og fremst hugsað sem eignar­halds­félag.  Félagið hafi verið skráð hjá Hlutafélagaskrá 11. október sama ár.  Hug­myndin hafi verið að kaupa veitingahúsið nr. 30 við Strandgötu í Hafnarfirði í nafni félagsins og stofna annað félag, Veitingahúsið Strandgötu 30 ehf., sem myndi leigja fasteignina af Strandgötu 30 ehf. og reka í húsnæðinu veitinga- og skemmtistað.  Að sögn stefnenda hafi verið ákveðið að bíða með skráningu rekstrarfélagsins þar til öll rekstrarleyfi lægju fyrir. 

   Áður hafi Miðbær Hafnarfjarðar ehf. fest kaup á 93% eignar­hluta (01-02) fasteignar­innar nr. 30 við Strandgötu „fyrir tilstilli stefnda“, eins og segir í stefnu.  Umrætt félag hafi verið byggingarfélag, sem fengið hefði úthlutaða lóðina nr. 15-17 við Fjarðargötu og hafið þar byggingu á stóru verslunar- og skrifstofuhúsnæði.  Þegar þær fram­kvæmdir hafi verið vel á veg komnar hefði komið í ljós að vegna mistaka embættis­manna stefnda hefði hluti af lóð fasteignarinnar Strandgötu 30 náð undir fyrr­nefnda nýbyggingu.  Af þessum sökum hefðu sömu embættismenn lagt áherslu á að Miðbær Hafnarfjarðar ehf. keypti megin hluta (93%) fasteignarinnar Strandgötu 30 af þrotabúi Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar ehf.  Kaupsamningur þess efnis hefði verið undir­ritaður 31. janúar 1994 og hann áritaður og staðfestur af stefnda sem þinglýstum eiganda eignarinnar.  Lóð þeirrar eignar hefði síðan verið minnkuð og sá hluti sem lent hefði undir áður nefndri nýbyggingu verið framseldur til Miðbæjar Hafnarfjarðar ehf.  Stefndi hafi síðan afsalað 93% eignarhluta í fasteigninni Strandgötu 30 til Mið­bæjar Hafnarfjarðar ehf. með afsali dagsettu 19. september 1995.  Sama dag hafi byggingarfélagið afsalað eigninni til Strandgötu 30 ehf.  Að sögn stefnenda hafi allir sem komið hefðu að gerð afsalanna tveggja vitað að forsendur fyrir kaupunum hefðu verið þær að leyfi fengist til veitingarekstrar í húsnæðinu, þar á meðal vínveitinga­leyfi.

   Þegar Miðbær Hafnarfjarðar ehf. hafi fest kaup á nefndri fasteign hafi setið í eigninni leigjendur, Bræðraborg hf. og fyrirsvarsmenn þess félags, Ingólfur og Helgi Einarssynir.  Þeir hafi ekki greitt umsamda leigu, en engu að síður neitað að rýma hús­­næðið.  Því hafi reynst nauðsynlegt að koma þeim úr eigninni með aðstoð dóm­stóla.  Áður en til þess hafi komið hafi þeir „rústað eignina að innan“, eins og segir í stefnu.  Lýsingu á viðskilnaði nefndra manna sé að finna í skýrslu Guðmundar A. Guðjónssonar úttektarmanns á vegum stefnda frá 4. desember 1994, matsbeiðni Mið­bæjar Hafnar­fjarðar ehf. dagsettri 18. apríl 1995 og matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna frá 3. nóvember sama ár.

   Stefnendur segja því næst í stefnu, að þeir hafi gert sér grein fyrir því að nauð­syn­legt yrði að fara í verulegar endurbætur á húsnæðinu að Strandgötu 30 til þess að hægt yrði að reka veitingastarfsemi í húsinu.  Hlutafé í Strandgötu 30 ehf. hafi aðeins verið 510.000 krónur og hefði því verið ljóst að fjármunir til þeirra hluta yrðu að koma annars staðar frá heldur en úr sjóðum félagsins.

   Síðari hluta árs 1995 hafi hafist endurbætur á húsnæðinu í fullu samráði við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, þar á meðal bygginga- og verkfræðideild bæjarins.  Allir sem komið hefðu að málinu hafi vitað að framkvæmdum hafi verið hagað á þann veg að fullnægt yrði kröfum áfengislaga um ástand hússins, til þess að það fullnægði þeim kröfum sem gerðar yrðu um húsnæði til vínveitinga.

   Með bréfi dagsettu 9. nóvember 1995 hafi Jón Þórir Jónsson, eiginmaður stefnanda Lilju, sótt um vínveitingaleyfi í veitingahúsinu nr. 30 við Strandgötu, án þess að „nokkurt markvert gerðist“, svo sem segir í stefnu.  Þegar komið hafi verið fram í miðjan febrúar 1996 hafi nefndur Jón Þórir dregið umsókn sína til baka.  Hinn 28. sama mánaðar hafi stefnandi Þorvaldur sótt um vínveitingaleyfi fyrir veitinga­húsið og fengið jákvæð viðbrögð Guðmundar Benediktssonar bæjarlögmanns í lög­fræði­áliti frá 8. apríl sama ár, þar sem bæjarlögmaður hefði mælt með því að bæjar­stjórn Hafnarfjarðar veitti jákvæða umsögn um umsóknina.  Bæjarstjórn hafi ekki hlustað á álit bæjarlögmanns og fellt tillögu um samþykki fyrir veitingu umrædds vín­veitinga­leyfis með 8 atkvæðum gegn 3 á bæjarstjórnarfundi 16. sama mánaðar.

   Þá segir í stefnu, að á tímabilinu frá 7. nóvember 1995 til 16. apríl 1996 hafi sama bæjarstjórn samþykkt meðmæli með vínveitingaleyfi til 6 aðila í Hafnarfirði.  Eftir þeim gögnum sem fengist hafi frá stefnda á greindu tímabili hafi allir um­sækjendur vínveitingaleyfa fengið jákvæð meðmæli bæjarstjórnar, nema stefnandi Þorvaldur.  Erindi stefnanda Þorvaldar hafi ekki verið hafnað á rökum eða faglegan hátt og sé því fullyrt að synjun bæjarstjórnar byggist á ómálefnalegum og pólitískum ástæðum.

   Þegar hér hafi verið komið sögu segja stefnendur í stefnu, að þeim hafi verið ljóst að þeir hefðu verið „plataðir“ af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði til að „kaupa“ veitingahús, sem sömu menn hafi komið í veg fyrir að hægt yrði að nýta.  Þess vegna hafi stefnda, með bréfi dagsettu 24. apríl 1996, verið boðið að kaupa eignarhluta Strand­götu 30 ehf. í húsinu nr. 30 við Strandgötu.  Því boði hafi verið hafnað með bréfi stefnda 2. júní sama ár.

   Hinn 12. júlí 1996 hafi lögmaður stefnenda, fyrir þeirra hönd og Strandgötu 30 ehf., ritað stjórnsýslukæru til félagsmálaráðherra vegna synjunar bæjarstjórnar Hafnar­fjarðar á meðmælum með vínveitingaleyfi til stefnanda Þorvaldar.  Þrátt fyrir kæruna hafi svo virst sem bæjarstjórn hefði haldið áfram þeim vinnubrögðum að veita öllum öðrum umsækjendum en stefnanda Þorvaldi jákvæð meðmæli með umsóknum um vínveitingaleyfi í Hafnarfirði.  Með úrskurði félagsmálaráðuneytis uppkveðnum 29. október 1996 hafi hin umþrætta afgreiðsla bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 16. apríl hins vegar verið ógilt og lagt fyrir bæjarstjórn að taka málið fyrir að nýju.

   Með bréfi dagsettu 6. nóvember 1996 hafi verið óskað eftir fundi með bæjar-stjóra til að ræða málefni Strandgötu 30 ehf.  Á þeim fundi hefði verið tekin saman skuldastaða félagsins eftir rekstrarlaust ár vegna ólögmætra aðgerða stefnda og hefði hún numið um það bil 42.000.000 króna.

   Umsókn stefnanda Þorvaldar hafi enn verið tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 3. desember 1996 og verið felld með 4 atkvæðum gegn 4, en einn bæjar­fulltrúi hafi gengið af fundi og tveir setið hjá við atkvæðagreiðsluna.

   Um mitt ár 1997 hafi skuldir verið farnar að hlaðast upp og fasteign stefnenda verið komin í uppboðsmeðferð hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði, bæði vegna veð­skulda og vegna ógreiddra fasteignagjalda.  Hinn 22. október 1997 hafi Ingvar Guð­munds­son löggiltur fasteignasali metið verðmæti eignarinnar 30.-33.000.000 króna miðað við ástand hennar, en væri fyrir hendi veitingarekstur í húsinu teldi fasteigna­salinn að söluverð þess myndi hækka í að minnsta kosti 45.000.000 króna.

   Hinn 11. september 1998 hafi fasteignasalarnir Hilmar Baldursson, Magnús Axelsson og Magnús Emilsson metið verðmæti fasteignarinnar krónur 24.-25.000.000 miðað við staðgreiðslu, en tólf dögum síðar hafi hún verið seld Lífeyrissjóðnum Fram­sýn á nauðungaruppboði fyrir krónur 12.500.000.  Segir í stefnu, að tekið skuli fram að húsið hafi verið í vanhirðu og áhvílandi á því tugir milljóna króna.  Áður hafi stefnda verið sent bréf í umboði stefnanda Þorvaldar og þess krafist að stefndi greiddi tap hans er næmi krónum 20.170.000 auk vaxta og lögmannskostnaðar.  Þrátt fyrir frekari bréfaskriftir og ítrekun á kröfugerð stefnenda allra um bætur úr hendi stefnda á árunum 1999 og 2000 hafi stefndi hafnað bótaskyldu og því sé málssókn þessi nauð­synleg til að stefnendur nái fram rétti sínum.

III.

   Stefndi lýsir helstu málsatvikum svo í greinargerð, að hinn 31. janúar 1994 hafi Miðbær Hafnarfjarðar ehf. keypt fasteignina Strandgötu 30 af þrotabúi Kvik­mynda­húss Hafnarfjarðar ehf., sem keypt hefði sömu eign af stefnda nokkrum árum áður.  Hið gjaldþrota félag hefði ekki greitt stefnda kaupverð að fullu og því hafi stefndi enn verið þinglýstur eigandi eignarinnar 31. janúar.  Sökum þessa hafi stefndi áritað kaupsamninginn milli Miðbæjar Hafnarfjarðar ehf. og þrotabúsins þann dag.  Miðbær Hafnarfjarðar ehf. hafi síðan selt Strandgötu 30 ehf. sömu fasteign 19. september 1995.  Þegar fyrrgreinda félagið hefði keypt eignina af áður nefndu þrota­búi hefði verið í gildi leigusamningur um húsið, sem enn hefði verið í gildi þegar Strand­gata 30 ehf. hefði keypt eignina.  Leigjandinn hafi verið Bræðraborg ehf., sem ekki hefði greitt umsamda húsaleigu að sögn stefnenda.  Jafnframt hefði leigjandinn, sam­kvæmt staðhæfingum stefnenda, „rústað eignina að innan“ áður en hann hefði verið borinn út af fasteigninni.

   Stefndi kveður fasteignina Strandgötu 30 vera forskalað timburhús frá 1908.  Ástand þess hafi ekki verið gott þegar Strandgata 30 ehf. hafi keypt það, sbr. ástands­skýrslu frá 4. desember 1994.  Eftir að eignin hafi svo verið „rústuð að innan“, eins og segi í stefnu, á einhverjum ótilteknum tíma, hafi engin regluleg starfsemi verið í húsinu.  Fasteignin hafi síðan verið seld á uppboði 23. september 1998.

   Einn stefnenda, Þorvaldur Ásgeirsson, hafi sótt um vínveitingaleyfi í húsinu hjá Lögreglustjóranum í Hafnarfirði hinn 28. febrúar 1996, en þeirri umsókn hafi verið hafnað eftir að bæjarstjórn stefnda hafi gefið neikvæða umsögn á fundi sínum 16. apríl, sem bindandi sé fyrir lögreglustjóra.  Félagsmálaráðuneyti hafi ógilt nefnda ákvörðun bæjarstjórnar með úrskurði 29. október 1996.  Umsóknin hafi því verið lögð fyrir bæjarstjórn á nýjan leik 3. desember sama ár og hafi þá aftur verið samþykkt að gefa neikvæða umsögn um umsókn um vínveitingaleyfi á þessum umrædda stað í bænum.

   Stefndi mótmælir í greinargerð þeirri fullyrðingu stefnenda í stefnu, að stefndi hafi „platað“ stefnendur til að kaupa umrædda fasteign.  Þetta sé ósatt.  Þá bendir stefndi á í því sambandi, að stefnendur hafi ekki verið eigendur húseignarinnar heldur hluthafar í félögum sem átt hafi eignina og hafi stefndi í hvorugt skiptið verið seljandi hennar.  Einnig bendir stefndi á, að sá er síðast hafi sótt um leyfi til vínveitinga á þessum stað hafi ekki fengið slíkt leyfi.                 

IV.

   Málsástæðum og lagarökum stefnenda er svo lýst í stefnu, að fram hafi komið vefengingar í skjölum málsins um aðild stefnenda í málinu.  Aðild þeirra byggist á 16. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969.  Samkvæmt téðri grein áfengislaga beri að gefa vín­veitingaleyfi út á nafn.  Viðkomandi aðili beri þá bæði réttindi og skyldur samkvæmt leyfinu.  Stefnendur hafi verið ákveðnir í að stofna sérstakt rekstrarfélag um reksturinn.  Gengið hefði verið frá skjölum vegna stofnunar þess félags, Veitinga­hússins Strandgötu 30 ehf., en þar til það væri skráð hefðu væntanlegir hluthafar, stefnendur þessa máls, borið persónulega ábyrgð vegna þess og ávinning ef því væri að skipta, sbr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.  Einnig benda stefnendur á að krafa þeirra sé skaðabótakrafa, sem þeir eigi allir sameiginlega á hendur stefnda.  Aðildin fullnægi því skilyrðum 19. gr. laga um með­­­ferð einkamála.

   Með því að synja um meðmæli með umsókn stefnanda Þorvaldar um vín­veitinga­leyfi sé ljóst að stefndi hafi brotið gegn jafnréttisákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sér í lagi 11. gr. laganna.  Eins og rakið sé í kafla II að framan hafi bæjar­stjórn Hafnarfjarðar mælt með sams konar umsóknum „ótrúlega“ margra aðila í Hafnar­­firði og sé stefnendum ekki kunnugt um að bæjarstjórn hafi synjað um með­mæli með umsókn nokkurs manns til vínveitinga nema stefnanda Þorvaldar.  Félags­mála­ráðu­neyti velkist ekki í vafa um að hér hafi ekki verið um jafnrétti að ræða.

   Það hafi vissulega verið, segir í stefnu, furðuleg aðferðafræði af hálfu bæjar­yfir­valda í Hafnarfirði:

Að klúðra lóðarveitingu til Miðbæjar Hafnarfjarðar ehf. með því að hluti lóðar undir nýbyggingu Fjarðargötu 13-15 hafi verið eign þriðja aðila, Kvik­mynda­húss Hafnarfjarðar hf.

Að leggjast á forráðamenn byggingarfélagsins til þess að bjarga bæjaryfir­völdum út úr illleysanlegri klípu af ofangreindum ástæðum með því að einkahluta­félagið keypti vínveitingahús að Strandgötu 30 í Hafnarfirði, sem hefði haft vín­veitinga­leyfi árum saman.

Að bæjaryfirvöldum hafi verið kunnugt um að það væri algjör forsenda fyrir kaupunum af hálfu félagsins, Miðbæjar Hafnarfjarðar ehf., að vínveitingaleyfi fengist til rekstrarins.  Í samræmi við það og til að liðka fyrir málinu að öðru leyti hafi tveir af hluthöfum í byggingarfélaginu, stefnendur Viðar Halldórsson og Þorvaldur Ásgeirs­son, ásamt þriðja aðila, Lilju Matthíasdóttur, stofnað eignarhaldsfélag, Strandgötu 30 ehf., til þess að kaupa eignina af byggingarfélaginu.

Að eigninni hafi verið afsalað af stefnda til Miðbæjar Hafnarfjarðar ehf., sem veitinga­húsi.

Að endurbætur hafi hafist á húsinu strax á árinu 1995 með samþykki tækni­deildar Hafnarfjarðarbæjar og annarra yfirmanna bæjarfélagsins.

Að þegar Hafnarfjarðarbæ hafi borist umsóknir um meðmæli fyrir vínveitinga­leyfi hafi verið rekinn lítill vínveitingastaður á jarðhæð, í horni hússins, með sam­þykki bæjaryfirvalda.

Að bæjaryfirvöldum hafi verið kunnugt á þeim tíma, sem endurbætur hafi farið fram á húsinu, að þær væru kostaðar af væntanlegum hluthöfum í Veitinga­húsinu Strandgötu ehf.

Að kaupverð eignarinnar Strandgötu 30, sem verið hefði krónur 31.500.000 og greitt hefði verið með yfirtöku áhvílandi lána, hækkaði daglega vegna verðbóta og vaxta á sama tíma og stefndi hefði komið í veg fyrir nýtingu eignarinnar.

Að fella með 8 atkvæðum gegn 3 að mæla með vínveitingaleyfi til handa stefnanda Þorvaldi hafi verið í andstöðu við 11. gr. stjórnsýslulaga.

Að hunsa fyrirmæli félagsmálaráðuneytis í úrskurði uppkveðnum 29. október 1996 og að fella málið að nýju á bæjarstjórnarfundi 3. desember sama ár.

Að knýja í gegn nauðungarsölu á fasteigninni, neita skuldajöfnuði á móti ógreiddri leigu fyrir kjallara hússins og afnotum Leikfélags Hafnarfjarðar af eigninni, þrátt fyrir þau lögbrot sem framin hefðu verið vegna synjunar meðmæla með vín­veitingaleyfi af hálfu bæjaryfirvalda.

Að reyna ekki að rökstyðja aðgerðir sínar í málinu.

Samkvæmt framansögðu telja stefnendur ljóst að brot stefnda í þessu sam­bandi varði við stjórnsýslulög, svo og skaðabótalög nr. 50/1993.  Krafa stefnenda sé skaða­­bótakrafa og sé fyrningartími hennar 10 ár.

Vaxtakröfu sína byggja stefnendur á vaxtalögum nr. 25/1987, einkum III. kafla laganna um dráttarvexti.  Málskostnaðarkröfu styðja þeir við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnendur styðja því næst dómkröfur sínar á svohljóðandi veg í stefnu:

 

Vinna við standsetningu Strandgötu 30, Hafnarfirði:

Vinna Jóns Þóris Jónssonar, sbr. dskj. nr. 15                                             kr.                3.128.000

Vinna Viðars Halldórssonar, sbr. dskj. nr. 14                                     kr.                1.646.060

Vinna Þorvaldar Ásgeirssonar, sbr. dskj. nr. 14                     kr.                1.918.800

Efniskostnaður, sbr. dskj. nr. 16                                                            kr.                1.763.389

Hluti og tæki til rekstrar veitingahúss, sbr. dskj. nr. 7A                kr.                1.840.000

Vinna rafvirkja, sbr. dskj. nr. 16B                                                          kr.                1.000.980

 

Laun meðan beðið var veitingaleyfis:

Vinna Jóns Þóris 1/1-31/3 ´96, sbr. dskj. nr. 15                      kr.                 750.000

Vinna Þorvaldar í 12 mán. (50% vinna) 1/1-31/12 ´96                kr.              1.800.000

Tapaður hagnaður vegna þess að leyfi fékkst ekki

til rekstrar veitingastaðarins í 5 ár; 1996-2000, þ.e.

5 x 4.980.000, sbr. dskj. nr. 7A                                                            kr.                24.900.000

                                                                                   Samtals                kr.                38.747.229

 

Segir enn fremur í stefnu, að stefnendur áskilji sér rétt til að óska dóm­kvaðningar eins mats­manns til þess að meta fjárhæðina vegna tapaðs hagnaðar vegna þess að ekki hafi komið til rekstrar veitingastaðarins og áskilji þeir sér jafnframt rétt til þess að hækka eða lækka dómkröfur sínar í samræmi við niðurstöðu væntanlegs matsmanns.

Af hálfu stefnenda sé krafist vaxta frá 1. apríl 1996 af framkvæmdum, viðhaldi og endurnýjun húsnæðis, sem verið hefði eðlilegur tími að miða við að rekstur hæfist.  Vaxta sé hins vegar krafist af töpuðum hagnaði eftir rekstur hvers árs, krónur 4.980.000 í skipti.  Þannig sé krafist vaxta af krónum 13.847.229 frá 1. apríl 1996 til 1. janúar 1997, af krónum 18.827.229 frá þeim degi til 1. janúar 1998, af krónum 23.807.229 frá þeim degi til 1. janúar 1999, af krónum 28.787.229 frá þeim degi til 1. janúar 2000, af krónum 33.767.229 frá þeim degi til 1. janúar 2001 og af krónum 38.747.229 frá þeim degi til greiðsludags.

Enda þótt fyrning vaxtakrafna sé 4 ár sé vaxta krafist frá 1. apríl 1996, enda finnist stefnendum ólíklegt, miðað við eðli máls, að krafist verði fyrningar á hluta vaxta.

Varðandi varakröfu sína benda stefnendur á í stefnu, að samkvæmt matsgerð dóm­kvaddra manna frá 3. nóvember 1995 sé viðgerðarkostnaður metinn krónur 4.433.928.  Hækkun á þeirri fjárhæð samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar leiði til þess að fjár­hæðin verði krónur 5.380.351.  Samkvæmt matsgerðinni sé ljóst að ýmsa liði, sem framkvæmdir hafi verið, vanti inn í matið.  Megi þar telja, að inngangi frá Strandgötu hafi verið lokað og meðal annars byggt gólf í tröppur og settur í gluggi; opnaður hafi verið inngangur í undirgöngum og sett afgreiðsla við dyr, smíðaður hafi verið diskur og hann settur upp í fatahengi, járnfatahengi hafi verið sett upp, settir hafi verið upp nýir barir í húsinu, nýr ofn hafi verið keyptur í fatahengi, húsnæðið hafi verið fullmálað, eldhús inn­réttað, svið stækkað og teppalagt, veggjum hafi verið breytt, og svo framvegis, sbr. nánari upptalning í stefnu.  Segir þar enn fremur, að stefnendur áskilji sér rétt „til þess að reikna þessar fjárhæð sérstaklega til fjár á síðari stigum málsins.“

Loks segir í stefnu um málsástæður og lagarök stefnenda, að vegna sérstöðu málsins og frammistöðu stefnda í því sambandi munu dómstólar gera minni kröfur til sönnunarfærslu heldur en ella.  Er vísað til tveggja hæstaréttardóma því til stuðnings.

V.

   Stefndi byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins frá dómi á því, að málið sé vanreifað af hálfu stefnenda og ekki stutt viðhlítandi sönnunargögnum.  Málið sé því ekki tækt til dómsálagningar.  Framlagðar vinnuskýrslur séu ónákvæmar og ekki mark­tækar sem sönnunargögn.  Umrædd vinna við standsetningu fasteignar Strand­götu 30 ehf., í þágu þess einkahlutafélags, sé stefnda með öllu óviðkomandi og breyti þar engu þótt einum stefnanda hafi síðar verið synjað um vínveitingaleyfi á þessum stað í bænum vegna neikvæðrar umsagnar stefnda.  Ekki komi fram í gögnum stefnenda hvað af umræddum framkvæmdum hafi verið eðlilegt viðhald, hvað hafi verið lag­færingar eftir skemmdir unnar af fyrri leigjendum og hvað, ef eitthvað, hafi annað verið framkvæmt.  Þá bendir stefndi á, að reikningar vegna efniskostnaðar, vinnu raf­virkja og vegna hluta og tækja til rekstrar veitingastaðar séu margir hverjir stílaðir á einkahlutafélagið, sem ekki sé aðili að þessu dómsmáli.  Er umræddum reikningum því jafnframt mótmælt, sem málinu óviðkomandi.  Loks bendir stefndi á, að liðurinn tapaður hagnaður, að fjárhæð kónur 24.900.000, sem reistur sé á því að ekki hafi fengist vínveitingaleyfi, sé algjörlega vanreifaður og því geti stefndi ekki tjáð sig um hann.  Engin sönnunargögn hafi verið lögð fram til stuðnings nefndum kröfu­­lið.

   Verði ekki fallist á aðalkröfuna byggir stefndi á því til vara, að sýkna beri hann á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/991 um meðferð einka­mála.  Er í þessu sambandi vísað til ummæla í stefnu, þar sem segi að stefnendur þessa máls séu væntanlegir hluthafar í rekstrarfélagi, sem fyrirhugað hafi verið að stofna um rekstur vínveitingahúss að Strandgötu 30 og hafi rekstrarfélagið átt að heita Veitingahúsið Strandgötu 30 ehf.  Samkvæmt 10. gr. laga nr. 138/1994 um einka­hluta­félög geti óskráð félag ekki verið aðili að dómsmáli.  Því síður geti hluthafar í óskráðu félagi verið aðilar að dómsmáli og ekki heldur í skráðu félagi nema fyrir hönd viðkomandi félags.  Stefnendur hafi ekki lagt fram sönnunargögn um þá ætlun sína að stofna umrætt rekstrarfélag og verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að væntanlegur rekstraraðili hafi átt að vera Strandgata 30 ehf.  Megi einkum ráða þetta af stjórnsýslukæru, sem lögð hafi verið fram í málinu og reikningum um efniskostnað, sem margir séu stílaðir á umrætt einkahlutafélag. 

Varðandi kröfu um bætur fyrir stand­setningu hússins, að fjárhæð krónur 13.247.229, bendir stefndi á, að slík krafa geti ekki komið frá öðrum en þáverandi eiganda hússins, margnefndu einkahlutafélagi, og breyti þar engu þótt stefnendur þessa máls séu hluthafar í félaginu.  Þá hljóti umrædd krafa að eiga að beinast, að minnsta kosti að hluta til, að þeim aðila sem unnið hafi þær skemmdir á húsnæðinu, sem greint sé frá í stefnu.  Sé því að þessu leyti um aðildar­skort að ræða varnar megin í málinu.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. þágildandi áfengislaga nr. 82/1969 skuli leyfi til áfengisveitinga bundið við nafn veitingamanns.  Verði að ætla að hann njóti réttinda og beri skyldur sem slíkur.  Tilgangur nefnds lagaákvæðis sé sá að gera ákveðinn ein­stakling ábyrgan fyrir vínveitingaleyfinu, ekki síst til að auðvelda allt eftirlit og alla aðra framkvæmd með áfengisveitingum á hverjum stað.  Þó viðkomandi veitinga­maður hafi með höndum reksturinn og beri ábyrgð á honum samkvæmt téðri lagagrein geti reksturinn verið í eigu annars aðila.  Stefnandi Þorvaldur, sem bæjarstjórn stefnda hafi ákveðið að veita neikvæða umsögn um vínveitingaleyfi, sé með bóta­kröfu á hendur stefnda, sem byggð sé á sömu forsendum og meðstefnendur hans byggja á í málinu, þ.e. sem væntanlegur hluthafi í óstofnuðu einkahlutafélagi.  Telur stefndi að stefnandi Þorvaldur geti sem slíkur ekki átt aðild að málinu og sé því um aðildarskort að ræða í hans tilviki líka.

Stefndi bendir enn fremur á, að hann hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar að Strandgötu 30 eða verkbeiðandi þegar ætlaðar endurbætur og lagfæringar hafi verið gerðar á húsnæðinu.  Hinar ætluðu verkframkvæmdir séu því stefnda með öllu óvið­komandi og geti fjárkröfur vegna þeirra verka því ekki beinst að honum.  Þá hafi þáverandi eigendur húsnæðisins, Strandgata 30 ehf., haft umráð og afnot fasteignar­innar eftir að umræddum leigjendum hefði verið vísað út úr húsnæðinu.  Því verði kröfur um ætlaðan missi á hagnaði vegna starfsemi í húsinu, sem leiði af synjun á vín­veitingaleyfi í umræddu húsnæði, að koma frá því félagi, ef aðild eigi að teljast rétt sóknar megin í málinu.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni bendir stefndi á að ef aðild teljist rétt í málinu og takist stefnendum að sýna fram og leggja fram viðhlítandi sönnunargögn fyrir því að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna synjunar bæjarstjórnar stefnda á því að veita jákvæða umsögn með umsókn stefnanda Þorvaldar um vínveitingaleyfi í marg­umræddu húsnæði, þá verði skaðabótakrafa stefnenda lækkuð verulega.  Jafnframt sé þá krafist fyrningar á hluta vaxtakröfunnar, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Stefndi hafnar varakröfu stefnenda með sömu rökum og áður greinir, en hún sé að áliti stefnda í meginatriðum vanreifuð og ótæk til dóms.  Viðgerðarkostnaður samkvæmt matsgerð frá 3. nóvember 1995 sé stefnda með öllu óviðkomandi og sé að því leyti um aðildarskort að ræða.  Upptaldar endurbætur samkvæmt stefnu hafi verið gerðar í þágu eiganda hússins, Strandgötu 30 ehf., og ætti því framkvæmdakostnaður vegna þeirra að beinast að félaginu.  Stefndi eigi því heldur ekki aðild að því er þann þátt varðar.   

Loks segir í greinargerð að málskostnaðarkrafa stefnda sé reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála.

VI.

Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefnda gaf héraðsdómari lög­mönnum aðila kost á að reifa málið einnig með hliðsjón af því að það kynni að sæta frávísun frá dómi án kröfu vegna galla á málatilbúnaði stefnenda, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/991 um meðferð einkamála.  Vísaði dómari sérstaklega til ákvæðis í e-lið 1. mgr. 80. gr. laganna, þ.e. að málsástæður stefnenda væru óljósar, sem og lýsing annarra atvika sem stefnendur byggðu á í málinu, en af þeim sökum væri samhengi máls­ástæðna einnig óljóst.  Lögmaður stefnenda svaraði því til að málið gæti ekki talist vanreifað af hálfu stefnenda heldur væri, ef eitthvað, um „ofreifun“ að ræða.  Lögmaður stefnda áréttaði sjónarmið sín í greinargerð og kvað stefnda ókleift að taka til skynsamlegra varna í málinu vegna ófullkomins málatilbúnaðar stefnenda, sem stríddi gegn meginreglu réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga.

VII.

Mál þetta er höfðað sem skaðabótamál af hálfu Lilju Matthíasdóttur, Viðars Halldórssonar og Þorvaldar Ásgeirssonar á hendur Hafnarfjarðarkaupstað.  Af málatil­búnaði stefnenda verður ráðið að þau byggi sameiginlega aðild sína á því að þau hafi ráðgert stofnun einkahlutafélags til rekstrar vínveitingastaðar í húsnæði að Strandgötu 30 í Hafnarfirði, sem einkahlutafélagið Strandgata 30 ehf., í eigu stefnenda, keypti af Miðbæ Hafnar­fjarðar ehf. 19. september 1995.  Byggja stefnendur því sameiginlega aðild sína á 10. gr. laga nr. 138/1994 um einka­hluta­félög.  Af gögnum málsins er ljóst að umrætt félag var aldrei skráð og að engir löggerningar voru gerðir fyrir hönd þess.  Er því ekki um að ræða óskipta persónulega ábyrgð stefnenda vegna félagsins, sem réttlætt geti sameiginlega málshöfðun þeirra á hendur stefnda.

Stefnendur styðja sameiginlega aðild enn fremur við 16. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. eldri áfengislaga nr. 82/1969, en kröfuna segja þau vera skaðabótakröfu, sem þau eigi sameiginlega á hendur stefnda.  Um 16. gr. einkamálalaga þarf ekki að fjölyrða í þessu sambandi, en óumdeilt er að stefnendur málsins hafa aðildarhæfi, sbr. 1. mgr. lagagreinarinnar.  Samkvæmt 1. máls­lið 1. mgr. 19. gr. laganna er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dóm­kröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.  Hefur þetta verið nefnt samlagsaðild.  Það sem einkum einkennir slíka aðild er að tveir eða fleiri aðilar gera hver fyrir sig sína kröfu eða kröfur í sama máli, þótt einn dómur gangi síðan um allar kröfurnar.  Af málatilbúnaði stefnenda er hins vegar ljóst að þeir gera í málinu sameiginlega dómkröfu um óskipt réttindi sín gagnvart stefnda á grundvelli sam­aðildar, en um hana er fjallað í 1. mgr. 18. gr. nefndra laga.

Eins og áður er rakið keypti Strandgata 30 ehf. 93% eignarhluta í fasteigninni Strandgötu 30.  Í stefnu er lýst tildrögum að kaupunum og ýmislegt staðhæft án þess að nokkur rök séu færð fyrir þeim staðhæfingum í stefnu eða öðrum sóknar­skjölum málsins.  Þá er ein staðhæfing stefnenda beinlínis röng, þar sem í stefnu er greint frá því að stefnendur hafi verið „plataðir“ af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði til að kaupa veitingahús.  Hið rétta er að framangreint einkahlutafélag, í eigu stefnenda, keypti fast­eignina.  Meðal dómkrafna stefnenda er krafa um tapaðan hagnað vegna þess að ekki hafi fengist leyfi til rekstrar veitingastaðar í umræddu húsnæði í 5 ár, þ.e. frá 1996-2000.  Nemur fjárhæð þess kröfuliðar krónum 24.900.000.  Stefnendur hafa ekki gert grein fyrir hvernig þeir telji til réttar yfir nefndri dómkröfu, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að einkahlutafélagið hafi framselt þeim kröfuna.  Þá er í stefnu krafist bóta að fjárhæð krónur 4.604.369 vegna efniskostnaðar, hluta og tækja til rekstrar veitingastaðar og vinnu rafvirkja við standsetningu veitingastaðar í húsnæði einka­­­hlutafélagsins að Strand­götu 30.  Að baki þeim dómkröfum liggur fjöldi reikninga, sem sumir eru stílaðir á félagið en aðrir á einstaka stefnendur málsins.  Loks er í stefnu krafist launa fyrir hönd stefnanda Þorvaldar og eiginmanns stefnanda Lilju, á meðan beðið hafi verið eftir vínveitingaleyfi, samtals krónur 2.550.000 og launa vegna vinnu sömu manna og stefnanda Viðars við standsetningu húsnæðisins, samtals krónur 6.692.800.  Er dóminum hulin ráðgáta hvernig stefnendur telja sam­eigin­lega til réttar yfir nefndum dómkröfum, en ljóst er að einkahlutafélagið Strand­gata 30 ehf. er samkvæmt framansögðu réttur sóknaraðili að hluta krafnanna.  Aðrar kröfur gætu stefnendur reynt að heimta í félagi í einu dómsmáli á grundvelli samlags­aðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. einkamálalaga.

Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að ekki hafi verið lagður réttur grund­völlur að málshöfðun í upphafi.  En fleiri atriði koma hér til skoðunar.  Fallist er á með stefnda að málatilbúnaður stefnenda í heild full­nægi ekki kröfum réttar­farslaga um skýran og glöggan málatilbúnað.  Óljóst er á hvaða lagagrundvelli skaðabóta­kröfur þeirra eru reistar, en auk áðurnefndra máls­ástæðna og lagaraka er í stefnu vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum jafn­ræðis­reglu 11. gr. vegna neikvæðrar umsagnar bæjarstjórnar stefnda um umsókn stefnanda Þorvaldar um vín­veitinga­leyfi á árinu 1996, og til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, sem eiga ekki við um sakar­efnið.  Þá er í varakröfu stefnenda vísað til matsgerðar dómkvaddra manna frá 3. nóvember 1995 um viðgerðarkostnað, krónur 4.433.928.  Lýtur sá kostnaður að stand­setningu margumrædds húsnæðis eftir kaup Strandgötu 30 ehf. á fasteigninni af Mið­bæ Hafnarfjarðar ehf. og viðgerða eftir skemmdir, sem stefnendur kveða leigjendur að hluta húsnæðisins, Bræðraborg hf., hafa valdið.  Er dóminum sem fyrr hulin ráðgáta hvernig bótaábyrgð vegna þessa kröfu­liðar verði lýst á hendur stefnda.  Er lítið sem ekkert hald í stefnu varðandi þetta atriði fremur en önnur atvik sem stefnendur byggja málssókn sína á.

Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að málsástæður stefnenda séu svo vanreifaðar og samhengi málsástæðna svo óljóst að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. og 1. mr. 100. gr. einkamálalaga, enda eru annmarkarnir slíkir að ekki verður barið í brestina undir rekstri málsins. 

Þar sem mála­tilbúnaður stefnenda er svo óvandaður sem raun ber vitni eru ekki rök til annars en að dæma þá óskipt til greiðslu málskostnaðar, sbr. 2. og 3. mgr. 130. gr. einkamálalaga.  Þykir hann hæfilega ákveðinn krónur 200.000.

 

Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist nokkuð vegna anna héraðsdómara og flutnings á húsnæði dómstólsins frá Brekkugötu 2 að Fjarðargötu 9 í Hafnarfirði.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

   Stefnendur, Lilja Matthíasdóttir, Viðar Halldórsson og Þorvaldur Ásgeirsson, greiði stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, krónur 200.000 í málskostnað.