Hæstiréttur íslands
Mál nr. 716/2009
Lykilorð
- Skaðabætur
- Verksamningur
- Ábyrgð fasteignareiganda
- Vinnuveitendaábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 30. september 2010. |
|
Nr. 716/2009. |
Hótel Saga ehf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Guðrúnu Sigurborgu Jónasdóttur (Óðinn Elísson hrl.) |
Skaðabætur. Verksamningar. Ábyrgð fasteignareiganda. Vinnuveitandaábyrgð.
G krafðist skaðabóta úr hendi H vegna tjóns sem hún varð fyrir í húsakynnum H er hún féll um tröppu sem varð á vegi hennar. G reisti málsvörn sína á hendur H á skaðabótaábyrgð fasteignareiganda og ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna, en ekki lá fyrir í málinu að samningssamband hafi verið á milli G og H. Í dómi Hæstaréttar segir að ekkert hafi fram komið í málinu sem styðji fullyrðingu G þess efnis að umrædd trappa hafi verið haldin sérstökum hættueiginleikum eða að lýsing á staðnum hafi verið óforsvaranleg. Því yrði bótaábyrgð ekki lögð á H sem eiganda fasteignarinnar. Þá lagði Hæstiréttur til grundvallar að óundirritaður þjónustusamningur milli H og HT, meðstefnda í héraði, hafi verið verksamningur að efninu til sem samningsaðilar hefðu starfað eftir. Talið var, með hliðsjón af ákvæðum þjónustusamningsins og framburði vitna fyrir héraðsdómi, að G hefði hvorki sýnt fram á H væri bótaskyldur á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð, né að þjónustusamningurinn gæti skapað G sjálfstæðan rétt til bóta úr hendi H. Var H því sýknað af kröfu G í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Páll Hreinsson og Benedikt Bogason dómstjóri.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu, en til vara að krafa stefndu verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hún þess að áfrýjanda verði gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi slasaðist stefnda á árshátíð Múrarameistarafélagsins sem haldin var í Súlnasal Hótel Sögu 3. febrúar 2006. Í skýrslu stefndu fyrir héraðsdómi kemur fram að hún fór á salernið eftir að borðhaldi lauk. Þegar hún kom aftur af salerninu féll hún um tröppu sem varð á vegi hennar nokkrum skrefum frá dyrum salernisins og hlaut þá áverka sem greinir í hinum áfrýjaða dómi. Umrædd trappa er notuð til þess að ganga upp og niður af sviði Súlnasalarins þegar sviðið er í upphækkaðri stöðu. Í skýrslu Jóhönnu Selmu Sigurðardóttur, þáverandi dyravarðar á Hótel Sögu og starfsmanns Hagatorgs ehf., kom fram að hún hefði komið að þegar gestir voru að aðstoða stefndu við að standa upp af gólfinu. Ljóst væri að trappan hefði verið færð frá sviðinu yfir á þann stað þar sem stefnda féll um hana. Þá bar Kristinn Ragnarsson, þáverandi dyravörður og starfsmaður Hagatorgs ehf., að það hefði verið í verkahrings tæknimanns Hagatorgs ehf. að fjarlægja tröppuna og fara með hana afsíðis þegar sviðið var látið síga niður.
II
Stefnda reisir málsókn sína á hendur áfrýjanda annars vegar á skaðabótaábyrgð fasteignareiganda og hins vegar á ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna. Ekki liggur fyrir í málinu að samningssamband hafi verið á milli stefndu og áfrýjanda.
Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu stefndu að umrædd trappa hafi verið haldin sérstökum hættueiginleikum eða að lýsing salarins hafi verið óforsvaranleg. Verður bótaábyrgð því ekki lögð á áfrýjanda sem eiganda fasteignarinnar Hagatorgs 1.
Þá reisir stefnda bótakröfu sínu á því að tæknimaður sá, sem fjarlægja hafi átt tröppuna og fara með hana afsíðis þegar sviðið var látið síga niður, hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu sem orsakað hafi slysið. Beri áfrýjandi þannig ábyrgð á tjóni stefndu á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar sinnar.
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki borið ábyrgð á tæknimanni Hagatorgs ehf. þar sem fyrirtækið hafi verið sjálfstæður verktaki sem sá að öllu leyti um rekstur Súlnasalarins á Hótel Sögu. Þessu vísar stefnda á bug og bendir á að þjónustusamningurinn við Hagatorg ehf., sem áfrýjandi hefur lagt fram, sé óundirritaður.
Þegar virtar eru greinargerðir Hagatorgs ehf. og áfrýjanda fyrir héraðsdómi svo og skýrslur Hrannar Greipsdóttur þáverandi hótelstjóra, Jóhönnu Selmu Sigurðardóttur og Kristins Ragnarssonar þáverandi starfsmanna Hagatorgs ehf., verður að leggja til grundvallar að starfað hafi verið eftir þjónustusamningnum þótt óundirritaður væri.
Þá telur stefnda að efni þjónustusamningsins beri með sér að ekki hafi verið um hreinan verksamning að ræða þar sem áfrýjandi hafi haft margháttað boðvald og ákvörðunarvald yfir starfsmönnum Hagatorgs ehf.
Telja verður að sá óundirritaði samningur á milli áfrýjanda og Hagatorgs ehf. sem fyrir liggur í málinu sé að efni til verksamningur. Þar tekst fyrirtækið Hagatorg ehf. á hendur að sinna þjónustu í funda- og veislusölum hótelsins samkvæmt stöðlum Radisson SAS Hotels & Resorts gegn greiðslu ákveðins hlutfalls af veitingatekjum. Í grein 8.1 er tekið fram að starfsmenn Hagatorgs ehf. séu ekki starfsmenn Radisson SAS Hótel Sögu og að áfrýjandi beri á engan hátt ábyrgð á þessum starfsmönnum. Í grein 8.13 er áréttað að mistök starfsmanna eða brot í starfi séu á fulla ábyrgð Hagatorgs ehf. Í samningnum er ekki að finna ákvæði um að starfsmenn áfrýjanda stýri daglegum störfum Hagatorgs ehf. í funda- og veislusölum. Ekki verður heldur ráðið af framburði vitna fyrir héraðsdómi að þannig hafi málum í raun verið hagað þegar umrætt slys varð. Að þessu virtu verður ekki talið að stefnda hafi sýnt fram á að þau skilyrði séu fyrir hendi að bótaábyrgð verði lögð á áfrýjanda á tjóni stefndu á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð. Ekki verður heldur fallist á með stefndu að grein 7.5 í samningnum, sem fjallar um innbyrðis uppgjör á tjóni á milli Hagatorgs ehf. og áfrýjanda, geti skapað stefndu sjálfstæðan rétt til bóta úr hendi áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður krafa áfrýjanda um sýknu tekin til greina.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Hótel Saga ehf., er sýkn af kröfu stefndu, Guðrúnar Sigurborgar Jónasdóttur.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. september sl., var þingfest 6. nóvember 2008.
Stefnandi er Guðrún Sigurborg Jónasdóttir, Kleppsvegi 82, Reykjavík.
Stefndu eru Hagatorg ehf., Lækjargötu 2a, Reykjavík og Hótel saga ehf., Hagatorgi 1, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir, in solidum, til að greiða stefnanda 3.339.135 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.962.199 krónum frá 3. febrúar 2006 til 3. ágúst 2006 og af 3.339.135 krónum frá 3. ágúst 2006 til 6. desember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Við munnlegan flutning málsins setti stefnandi fram þá kröfu til vara að við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku verði tekið mið af 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Krafist er málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
Stefndi Hagatorg ehf. krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda, Hótels Sögu ehf., eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins og/eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hinn 3. febrúar 2006 hafi hún verið gestur á árshátíð Múrarameistarafélagsins í Súlnasal Hótels Sögu ásamt eiginmanni sínum. Hafi Múrarameistarafélagið samið við stefnda, Hótel Sögu ehf., vegna veislunnar en stefndi Hagatorg ehf. hafi séð um veisluþjónustu í Súlnasal samkvæmt þjónustusamningi við Hótel Sögu.
Stefnandi lýsir aðdraganda slyssins þannig að hún hafi verið að koma af salerni staðarins en hafi séð afar illa vegna myrkurs. Þegar hún hafi séð eiginmann sinn í nokkurri fjarlægð frá salerninu hafi hún ákveðið að ganga til hans. Hún hafi ekki verið búin að ganga nema nokkur skref er hún féll um tröppu sem dregin hafði verið út á gólf og var í gangvegi hennar. Trappan hafi, fyrr um kvöldið, verið notuð til þess að hægt væri að ganga upp á svið staðarins, en hafði verið dregin út á gólf þegar sviðið var tekið niður og hafi því ekki átt að vera á þeim stað sem stefnandi féll um hana. Sviðið hafi ekki verið í notkun þegar slysið átti sér stað og því engin þörf á því að trappan væri á þeim stað sem stefnandi datt um hana. Umrædd trappa muni vera ca 40-50 cm á hæð, breidd og dýpt.
Stefnandi kveðst ekki hafa verið ölvuð þegar að slysið átti sér stað. Við fallið hafi hún brotnað á hægri upphandlegg ásamt því að verða fyrir öðrum áverkum.
Lögmaður stefnanda hafi óskað eftir upplýsingum frá Hótel Sögu ehf. um slysið og tildrög þess ásamt upplýsingum um það hvar hótelið væri tryggt. Samkvæmt þeim upplýsingum var hótelið með ábyrgðartryggingu hjá Forsikringsbolaget Zurich í Svíþjóð. Með bréfi, dags. 9. maí 2006, hafi verið óskað eftir því við lögreglu að teknar yrðu skýrslur af tilgreindum aðilum vegna slyssins. Hafi þær borist stefnanda þann 15. september 2006. Óskað hafi verið eftir afstöðu stefnda, Hótels Sögu ehf., til bótaskyldu með bréfi, dags. 15. október 2006. Hinn 23. janúar 2007 hafi borist bréf frá Vátryggingafélagi Íslands þar sem fram kom að félagið hefði tekið að sér að skoða bótagrundvöll málsins. Í bréfinu hafi bótaskyldu hótelsins verið hafnað á þeim grundvelli að veislan sem slysið átti sér stað í hafi verið á vegum og ábyrgð stefnda Hagatorgs ehf. Í bréfi Vátryggingafélags Íslands segi, nánar tiltekið, að eftir að yfirfarinn hafi verið þjónustusamningur milli stefndu Hótels Sögu ehf. og Hagatorgs ehf. væri ljóst að samkvæmt útlistun samningsins hafi starfsfólk Hagatorgs annast skemmtanahald, m.a. í Súlnasal, þ.m.t. mönnun tæknistjórnar, umsjónar salar, þjóna og framreiðslufólks, dyravarða og starfsfólks í fatageymslu. Samkvæmt þessu hafi umrædd árshátíð verið á vegum og ábyrgð stefnda, Hagatorgs ehf.
Með bréfi, dags. 2. mars 2007, hafi verið óskað eftir afstöðu stefnda, Hagatorgs ehf., til bótaskyldu á slysinu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir lögmanns stefnanda hafi ekki borist formlegt svar frá stefnda, Hagatorgi ehf., um afstöðu fyrirtækisins til bótaskyldu, en fyrir liggi tölvupóstur frá lögfræðingi félagsins um að hann hafi málið til skoðunar. Óskað hafi verið eftir því með bréfi, dags. 24. september 2007, að Vátryggingafélag Íslands endurskoðaði afstöðu sína til bótaskyldu Hótels Sögu ehf. Með tölvupósti, dags. 30. október 2007, hafi félagið ítrekað þá afstöðu sína að hótelið bæri enga ábyrgð á slysinu og vísaði í fyrri rökstuðning sinn þess efnis að veislan þar sem slysið varð hafi verið á ábyrgð Hagatorgs. Óskað hafi verið eftir endurskoðun félagsins á afstöðu þess með vísan til þess að Múrarameistarafélag Íslands hefði samið við stefnda, Hótel Sögu ehf., en fyrir hönd Hótels Sögu ehf. hafi því verið hafnað að það breytti niðurstöðu um bótaskyldu í málinu.
Að gagnaöflun lokinni óskaði stefnandi eftir því að læknarnir Ragnar Jónsson og Júlíus Valsson mætu afleiðingar slyssins. Niðurstaða örorkumats framangreindra lækna, dags. 30. október 2007, var sú að varanlegur miski stefnanda var metinn 15 stig og varanleg örorka 35%. Töldu læknarnir að stefnandi hefði verið 100% óvinnufær í 6 mánuði eftir slysið. Það var jafnframt niðurstaða matsins að stefnandi hefði ekki getað vænst frekar bata eftir 6. ágúst 2006.
Hinn 6. febrúar 2009 voru dómkvaddir þeir Guðmundur Björnsson læknir og Sigurður B. Halldórsson hrl. til þess að meta tjón stefnanda vegna slyssins. Matsgerð þeirra er dags. 14. mars 2009.
Niðurstaða matsmanna er eftirfarandi:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr: sex mánuðir, 100%.
2. Þjáningabætur skv. 3. gr.: Rúmliggjandi ekkert. Batnandi án þess að vera rúmliggjandi 6 mánuðir
3. Stöðugleikapunktur: 3. ágúst 2006.
4. Varanlegur miski skv. 4. gr.: 15 stig.
5. Varanleg örorka skv. 5. gr.: 50%.
Byggist endanleg kröfugerð stefnanda á þessari matsgerð.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndu, Hótel Saga ehf. og Hagatorg ehf., beri fulla skaðabótaábyrgð á slysinu á grundvelli sakarreglu íslensks skaðabótaréttar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Óumdeilt sé að samningssamband hafi verið á milli stefnda, Hótels Sögu ehf., og Múrarameistarafélags Íslands um að stefndi, Hótel Saga ehf., tæki að sér að útvega aðstöðu og þjónustu á árshátíð félagsins. Þá hafi legið fyrir samningssamband á milli stefndu um þjónustu stefnda, Hagatorgs ehf., á árshátíðinni. Stefnandi byggi þannig á því að samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og skaðabótalögum nr. 50/1993 eigi hún rétt á fullum bótum vegna tjóns sem hún varð fyrir þann 3. febrúar 2006 sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á.
a) Ákvæði laga, reglugerða og reglna sem við eiga
Lög um veitinga- og gististaði nr. 67/1985 sem hafi verið í gildi á slysdegi hafi gilt um starfsemi stefndu, sbr. skilgreiningu 9. gr. laganna. Samkvæmt 14. gr. laganna skyldi ráðherra setja með reglugerð nánari reglur um framkvæmd laganna. Á grundvelli laganna hafi verið sett reglugerð um veitinga- og gististaði nr. 288/1987 sem jafnframt hafi verið í gildi á slysdegi. Samkvæmt 29. gr. reglugerðarinnar skyldi húsnæði og búnaður veitingastaða fullnægja kröfum heilbrigðis- og byggingareglugerða, brunamálareglugerðar og reglugerðar um húsnæði vinnustaða. Í reglum um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995 sé m.a. kveðið á um vinnurými. Í 3. gr. reglnanna segi, sbr. lið 1, að húsnæði vinnustaða skuli innrétta þannig að það sé sem öruggast og heilsusamlegast. Í 2. lið 3. gr. segi að vinnurými skuli skipulagt með hliðsjón af því starfi sem þar eigi að fara fram. Þá segi að allar umferðarleiðir manna og flutningstækja skuli vera greiðar og afmarkaðar. Í 4. lið 3. gr. reglnanna segi að gengið skuli þannig frá pöllum, gryfjum, stigum, handriðum og opum að ekki sé hætta á að starfsfólk eða aðrir geti fallið niður og slasast. Í 6. gr. sé kveðið svo á um að á gólfum vinnustaða megi ekki vera neinar hættulegar upphækkanir, göt eða hallar og skuli þau vera föst og stöðug, sbr. 6. lið. 6. gr. Samkvæmt 6. lið 8. gr. reglnanna skuli búnaði til lýsingar á vinnustöðum komið þannig fyrir að valdi starfsmönnum engri slysahættu.
b) Um ábyrgð stefndu á slysi stefnanda
Hótel Saga ehf.
Stefndu hafi tekið að sér, samkvæmt samningi við Múrarameistarafélag Íslands, að halda árshátíð félagsins þann 3. febrúar 2006 en stefndi, Hótel Saga ehf., hafi verið eigandi og rekstraraðili þeirrar fasteignar þar sem slysið varð. Sé ljóst að fyrir hendi sé skýrt samningssamband á milli stefnda, Hótel Sögu ehf., og Múrarameistarafélags Íslands um að stefndi, Hótel Saga ehf., útvegaði félaginu aðstöðu fyrir árshátíð félagsins sem og þjónustu. Samningssamband stefnda, Hótels Sögu ehf., við stefnda, Hagatorg ehf., um þjónustu á árshátíðinni breyti engu um það samband sem fyrir hendi hafi verið á milli Múrarameistarafélagsins og stefnda, Hótels Sögu ehf. Beri stefndi, Hótel Saga ehf., fulla ábyrgð á þeim aðila sem hann feli að sjá um þjónustu á árshátíð sem hafi verið á hans vegum.
Á fasteignaeigendum og rekstraraðilum fasteigna hvíli skýr athafnaskylda varðandi umbúnað fasteignar sem og sú aðgæsluskylda að koma í veg fyrir að þeir sem eigi erindi í og um fasteignina verði fyrir tjóni. Aðbúnaður í salnum þar sem umrædd veisla fór fram hafi verið á ábyrgð stefnda, Hótels Sögu ehf., og sé byggt á því að stefndi beri þar af leiðandi skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda þar sem tryggja hefði átt að umrædd trappa, sem stefnandi datt um, stæði ekki laus úti á gólfi á svæði þar sem ætlast var til að gestir staðarins gengju um. Hafi verið full ástæða til þess af hálfu stefnda, Hótels Sögu ehf., að tryggja að ekki væri mögulegt að trappan sem um ræðir gæti verið laus í gangvegi fólks. Jafnframt beri stefndi, Hótel Saga ehf., ábyrgð á því að ófullnægjandi lýsing hafi verið á þeim stað sem slysið varð, en sérstök ástæða hafi verið til þess að svæðið væri vel lýst þar sem hætta var á að fólk félli um tröppurnar. Jafnframt beri stefndi ábyrgð á þeim starfsmönnum sem unnu á vegum Hagatorgs ehf. á árshátíðinni enda hafi verið í gildi samningur þeirra á milli um þjónustu á árshátíðinni.
Hagatorg ehf.
Stefndi Hagatorg ehf. hafi borið ábyrgð á starfsmönnum þeim sem unnu við umrædda árshátíð. Sú háttsemi starfsmanna stefnda Hagatorgs ehf. að skilja þær tröppur, sem stefnandi datt um, eftir á gangvegi á rökkvuðum stað hafi falið í sér aðgæslulausa og gáleysislega háttsemi sem stefndi, Hagatorg ehf., beri ábyrgð á. Ekki skipti máli í því sambandi að óljóst sé hvaða starfsmaður nákvæmlega kom framangreindum tröppum fyrir á þeim stað sem stefnandi datt um þær eða á hvaða starfsmanni sú skylda hvíldi að sjá til þess að tröppurnar væru fjarlægðar þegar sviðið, sem þær stóðu við, var ekki lengur í notkun. Ljóst sé samkvæmt íslenskum skaðabótarétti að atvinnurekandi beri ríka ábyrgð á saknæmri háttsemi starfsmanna sinna og þurfi ekki nauðsynlega að vera um nafngreindan starfsmann að ræða.
Stefnandi byggi þannig á því að stefndi, Hagatorg ehf., beri ábyrgð á því að stefnandi varð fyrir slysi þegar hún féll um tröppur á rökkvuðum stað. Í fyrsta lagi hafi það talist saknæmt af hálfu starfsmanna stefnda, Hagatorgs ehf., að skilja umræddar tröppur eftir á þeim stað þar sem stefnandi féll um þær, en í öðru lagi hafi starfsmönnum hans borið að sjá til þess að tröppurnar væru fjarlægðar af þeim stað þar sem þær voru og að rými þar sem umrædd árshátíð var haldin væri þannig að gestum hennar stafaði ekki hætta af. Þá hafi starfsmönnum stefndu borið að sjá til þess að lýsing á þeim stað þar sem stefnandi féll, væri fullnægjandi og viðeigandi miðað við aðstæður.
c) Um bótaábyrgð stefndu almennt vegna slyss stefnanda
Óumdeilt sé að stefnandi hrasaði um tröppu þegar hún gekk út af salerni staðarins. Trappan sem stefnandi hrasaði um hafði verið notuð fyrr um kvöldið svo unnt væri að ganga upp á sviðið í salnum. Sviðið sé þess eðlis að hægt er að hækka það og lækka eftir þörfum. Þegar sviðið var ekki lengur í notkun hafi það verið lækkað og hafi þá einhver af starfsmönnum stefndu dregið tröppuna frá sviðinu og skilið eftir úti á gólfi, rétt fyrir framan salerni staðarins, án þess að nokkur aðvörun væri um að hún væri þar. Þá hafi lýsing ekki verið löguð að þeim aðstæðum sem fyrir hendi voru þannig að ekki væri hætta á að fólk félli um tröppuna á þeim stað sem hún var. Hefði starfsmönnum stefndu átt að vera ljóst að gera mætti ráð fyrir nokkurri umferð til og frá salerninu og því óforsvaranlegt að trappan skyldi hafa verið skilin eftir úti á miðju gólfi, í miklu rökkri, enda um mikla slysagildru að ræða miðað við aðstæður þetta kvöld.
Ljóst sé að slys stefnanda megi rekja til gáleysislegrar hegðunar einhvers af starfsmönnum stefndu og óviðunandi aðstæðna í Súlnasal Hótels Sögu ehf. sem hafi verið á ábyrgð stefndu. Það að laus trappa skuli hafa verið úti á gólfi, í gangvegi fólks, þar sem lítil lýsing var verði að telja stefndu báðum til sakar, þ.e. vegna aðstæðna og aðbúnaðar, sem og vegna þess saknæma gáleysis starfsmanna að skilja umræddar tröppur eftir á þeim stað sem stefnandi féll um þær. Þá hafi það verið saknæmt gáleysi starfsmanna stefndu að gera ekki strax gangskör að því að fjarlægja tröppurnar um leið og svið það sem þær stóðu við var tekið úr notkun og þörfin fyrir tröppurnar var ekki lengur fyrir hendi. Á starfsmönnum stefndu sem og stefndu sjálfum, hafi hvílt rík athafnaskylda að tryggja að engar slysahættur væru fyrir hendi, enda hafi þeir borið ábyrgð á aðstöðu og þjónustu á þeirri árshátíð þar sem stefnandi varð fyrir slysi.
Ljóst sé að slys stefnanda megi rekja til vanbúnaðar og gáleysis starfsmanna stefndu sem og aðgerðarleysis, en ljóst sé að full ástæða hafi verið til þess að fjarlægja umrædda tröppu frá þeim stað þar sem hún var, sérstaklega þar sem svið það sem hún átti að standa við, hafi ekki verið í notkun. Sé ljóst að um mikla slysagildru hafi verið að ræða sem hafi verið til þess fallin að valda tjóni enda hafi aðstæður verið með þeim hætti að fjöldi fólks var samankominn í Súlnasal Hótels Sögu ehf. þetta kvöld og hafi verið myrkur í salnum. Mátti þar jafnframt búast við að fólk væri ölvað og því sérstök ástæða til að tryggja að slíkar slysagildrur væru ekki fyrir hendi. Verði að gera þá kröfu til þeirra sem taka að sér slík veisluhöld að starfsmenn þeirra gæti að því að ekki séu fyrir hendi neinar hættur fyrir gesti og að lögð verði á starfsmenn slík aðgerðarskylda að fjarlægja þá hluti sem kunni að hafa í för með sér hættu á slysi.
Sé þá jafnframt óforsvaranlegt að lýsing á þeim stað þar sem slysið varð hafi verið svo lítil, en í lögregluskýrslu, dags. 31. ágúst 2006, komi fram að það hafi verið lítil sem engin lýsing fyrir framan salerni staðarins.
Ekki sé unnt að staðreyna með fullri vissu hvaða starfsmaður það var sem bar ábyrgð á því að tröppunni var komið fyrir á jafn hættulegum stað og raun ber vitni, eða á hvaða starfsmanni sú skylda hvíldi að fjarlægja umrædda tröppu þegar sviðið, sem trappan var við, var ekki lengur í notkun. Þessi staðreynd breyti þó engu um það að stefndu beri fulla bótaábyrgð á slysi stefnanda, en samkvæmt íslenskum skaðabótarétti falli mistök starfsmanna, hvort sem þau eru nafnlaus eða ekki, undir regluna um vinnuveitandaábyrgð.
Stefnandi hafi ítrekað leitað til stefndu um svör við bótaábyrgð vegna slyss stefnanda. Formlegt svar hafi borist frá stefnda, Hótel Sögu ehf., en aðeins munnlegt svar frá stefnda, Hagatorgi ehf., um að málið væri í skoðun. Sé stefnanda því engin önnur leið fær en að fara með mál sitt fyrir dómstóla til heimtu fullra skaðabóta vegna slyss síns.
Dómkröfur stefnanda séu á því byggðar að stefnanda beri fullar skaðabætur úr hendi stefndu vegna líkamstjóns síns og skuli skaðabætur taka mið af matsgerð Guðmundar Björnssonar læknis og Sigurðar B. Halldórssonar hrl. þar sem fram kemur að varanleg örorka stefnanda sé 50% og varanlegur miski 15 stig.
Um fjárhæð endanlegrar dómkröfu vísar stefnandi til nýs tjónsútreiknings á dskj. nr. 36. Fjárhæðir séu uppreiknaðar til 6. desember 2008 þegar mánuður var liðinn frá því að mál stefnanda var þingfest og stefndu gátu gert sér grein fyrir kröfu stefnanda. Þá séu dráttarvextir reiknaðir frá sama tíma, sbr. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Dómkrafan sé byggð á mati dómkvaddra matsmanna á dskj. nr. 34 en þar séu niðurstöður fyrri matsgerðar staðfestar að öðru leyti en því að varanleg örorka stefnanda er hækkuð úr 35% í 50%, sem skýri hækkun á bótum fyrir varanlega örorku í tjónsútreikningi á dskj. nr. 36 ásamt því að stöðugleikatímapunktur er færður frá 6. ágúst 2006 til 3. ágúst 2006.
Hækkun á varanlegri örorku sé því úr 963.302 krónum í 1.376.938 krónur. Útreikningur kröfu vegna varanlegrar örorku taki mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Viðmiðunarlaun við útreikning á varanlegri örorku séu þau sömu og fram komi í stefnu.
Hækkun á bótakröfu vegna þjáningabóta skýrist af því að bætur vegna þjáninga án rúmlegu hafi hækkað úr 1.320 krónum í 1.360 krónur frá því að fyrri dómkrafa stefnanda var reiknuð en fjárhæðirnar miðist við 6. desember 2008, sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Þá hækki krafa um bætur vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr 894.750 krónum í 921.975 krónur, sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Um frekari rökstuðning fyrir dómkröfunni vísist til þess sem fram komi í stefnu.
Um sundurliðun krafna vísar stefnandi til dskj. nr. 36 og er hún eftirfarandi:
|
Tímabundið tekjutap: |
kr. 789.984 |
|
Þjáningabætur: 184 dagar á 1.360 kr. (dagar án rúmlegu) |
kr. 250.240 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. 6.146.500 x 15% |
kr. 921.975 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. Árslaun kr. 1.579.962- x 1.74200 x 50% |
kr. 1.376.936 |
|
_______________________________ Heildarbætur: |
________________ kr. 3.339.135 |
Um bótaábyrgð vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar, reglunnar um vinnuveitandaábyrgð, svo og til almennu sakarreglunnar. Stefnandi vísar jafnframt til skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði, reglugerðar um veitinga- og gististaði nr. 288/1987 og þeirra reglugerða sem vísað er til í 29. gr. hennar. Vísað er til reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða.
Málsástæður og lagarök stefnda, Hótels Sögu ehf.
Aðalkrafa stefnda um sýknu er á því byggð að ekki sé sannað að stefndi eða starfsmenn hans hafi valdið slysi stefnanda eða eigi sök á slysi hennar, hvorki á grundvelli sakarreglunnar né á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð.
Gildi um slysið almennar skaðabótareglur (sakarreglan) og hvíli sönnunarbyrðin um meinta sök stefnda alfarið á stefnanda. Ósannað sé annars vegar orsakasamband milli slyssins og gerðar og ástands fasteignar stefnda og hins vegar milli slyssins og athafna starfsmanna stefnda.
Ekkert í stefnu sýni fram á, eða leiði að því líkur, að nokkuð hafi verið athugavert við húsakynni stefnda. Gerð og búnaður fasteignarinnar var í lagi og ekkert athugavert við umbúnað hennar. Að sögn stefnanda gekk hún á tröppu sem dregin hafði verið út á gólf og var í gangvegi hennar. Ekkert í gögnum málsins styður þessa frásögn stefnanda. Megi nefna að vitni sem hún óskaði eftir að yrði boðað til skýrslutöku, Guðjón Sigurður Snæbjörnsson, hafi tjáð lögreglunni að tröppurnar hafi verið vinstra megin við salernið er gengið er út af því, en hvort þær hafi verið upp við vegginn eða aðeins úti á gólfinu mundi hann ekki. Sé því ósannað að umræddar tröppur hafi verið í gangvegi stefnanda. Það sé einnig ósannað að tröppurnar hafi verið „dregnar út á gólf þegar sviðið var tekið niður“. Hvorki gögn né vitnisburður styðji þessa fullyrðingu og hvað þá að það hafi verið starfsmenn stefnda, Hagatorgs ehf., sem stóðu fyrir því. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir því að það hafi verið starfsmenn stefnda, Hagatorgs ehf., sem hafi staðið fyrir þessu. Sú sönnun hafi ekki tekist.
Hafi umræddar tröppur verið í gangvegi stefnanda, sem þó sé ósannað, þá sé því alfarið mótmælt að stefndi beri nokkra ábyrgð á því, frekar en hann beri ábyrgð á því ef borð eða stólar séu dregnir í gangveg á skemmtunum eins og oft gerist.
Til að stefndi teljist skaðabótaskyldur þá þurfi hann að hafa valdið tjóninu með saknæmum og ólögmætum hætti. Þurfi þá að koma til saknæmt og ólögmætt atferli eða athafnaleysi af hálfu stefnda. Slíkt sé ekki sannað, enda ekkert athugavert við aðbúnað umræddrar fasteignar eða athafnir starfsmanna stefnda, sem ekki hafi verið við störf í Súlnasal á umræddan tíma. Það geti í raun hafa verið hver sem er sem dregið hafi umrædda tröppu út á gólfið, hafi hún verið þar. Það feli ekki í sér saknæma og ólögmæta háttsemi af hálfu stefnda.
Gera verði þær kröfur til gesta á veitinga- og skemmtistöðum að þeir kunni fótum sínum forráð og gæti þess hvar og hvert þeir ganga. Hafi verið dimmt fyrir utan kvennasalerni auki það á aðgæsluskyldu þess er út af salerninu gengur. Aðbúnaður og lýsing umrætt kvöld var í engu frábrugðinn aðbúnaði og lýsingu á hverri þeirri skemmtun sem haldin er í Súlnasal. Þegar skemmtiatriði fara fram, líkt og mun hafa verið raunin á þeirri stundu er stefnandi hrasaði, þá sé meiri birta yfir sviði staðarins en öðrum hlutum salarkynna. Sé það gert að kröfu gesta, enda erfitt að fylgjast með því sem gerist á sviði ef mikil birta er í sal. Verði að gera þær kröfur til gesta á slíkum skemmtunum að þeir gæti sín er þeir ganga þar sem birtulítið er. Það hafi stefnandi ekki gert og sé það, að mati stefnda, meginástæða slyssins. Hvað varðar fullyrðingu í stefnu um að það teljist sannað að lítil sem engin lýsing hafi verið fyrir framan salerni staðarins, með vísan í lögregluskýrslu, þá beri að benda á að sú skýrsla sé gefin af stefnanda.
Að mati stefnda sé það ósannað að stefnda hafi verið allsgáð, líkt og hún haldi fram, enda lýsi hún því sjálf fyrir lögreglu að hún hafi fengið rauðvín í hálft rauðvínsglas yfir borðhaldinu, sem hún hafi þó ekki verið búin að klára þegar hún fór á salernið. Alkunna og venja sé að þjónustufólk bæti í glös gesta undir borðhaldi, hvort sem þau eru tóm eða hálf, og kunni slíkt að hafa gerst í tilviki stefnanda. Að auki megi benda á að hún lýsi því sjálf í tjónstilkynningu að hún hafi drukkið eitt rauðvínsglas auk þess sem starfsmaður stefnda, Hagatorgs ehf., telji stefnanda hafa verið hífaða. Hafi sú verið raunin auki það enn á aðgæsluskyldu stefnanda.
Með vísan til alls framangreinds er því alfarið mótmælt að nokkuð hafi verið athugavert við umbúnað fasteignar stefnda og beri stefndi því ekki skaðabótaskyldu á slysi stefnanda á grundvelli sakarreglunnar. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Hvað varðar þá málsástæðu stefnanda að stefndi beri ábyrgð á slysinu á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar þá sé því alfarið hafnað. Enginn starfsmanna stefnda hafi verið við störf í Súlnasal þetta kvöld. Stefndi, Hagatorg ehf., hafi séð um alla þjónustu í veislu og fundarsölum hótelsins umrætt kvöld sem og aðra daga. Allir þeir aðilar er voru við störf, hvort sem um var að ræða þjónustufólk, tæknimenn, dyraverði eða aðra, hafi verið starfsmenn stefnda, Hagatorgs ehf., sem hafði tekið að sér þjónustuna á grundvelli þjónustusamnings. Hafi Hagatorg ehf. því verið verktaki hjá stefnda, Hótel sögu ehf., sem síðan hafi verið verkkaupi stefnda, Hagatorgs ehf..
Líkt og óumdeilt ætti að vera leiði skaðaverk sem unnið sé af verktaka ekki til skaðabótaábyrgðar verkkaupa nema í undantekningartilfellum. Þau undantekningartilvik tengist meðal annars því að aðbúnaður á vinnustað sé í ólagi og að verkkaupi hafi haft boðvald yfir starfsmönnum verktakans. Hvorugt hafi átt við í tilfelli stefnda og stefnda, Hagatorgs ehf. Hafi starfsmenn Hagatorgs ehf. valdið stefnanda tjóni með saknæmum eða ólögmætum hætti, sem stefndi telji þó fráleitt, þá eigi stefnandi ekki kröfu á hendur stefnda vegna þess atferlis. Slíkri kröfu skuli beina að stefnda Hagatorgi ehf. en ekki stefnda.
Virðist stefnda einnig sem stefnandi geri sér grein fyrir þessu, enda haldi stefnandi því fram í stefnu að sú háttsemi starfsmanna stefnda, Hagatorgs ehf., að skilja þær tröppur sem stefnandi á að hafa dottið um í gangvegi stefnanda, feli í sér aðgæslulausa og gáleysislega háttsemi sem stefndi, Hagatorg ehf., beri ábyrgð á. Þessu sé stefndi sammála, verði talið að háttsemin hafi verið slík, sem stefndi sé þó ósammála. Ábyrgðin væri þá alfarið hjá vinnuveitandanum, það er stefnda, Hagatorgi ehf. Saknæm háttsemi fælist þá í tilflutningi umræddra trappa frá sviði og í gangveg stefnanda en á engan hátt í aðbúnaði á ábyrgð stefnda.
Þrátt fyrir að samningssamband kunni að hafa verið milli stefnda og Múrarameistarafélags Reykjavíkur, þá hafi það ekki í för með sér að stefndi beri ábyrgð á skaðabótaskyldum verknaði starfsmann sjálfstæðs verktaka.
Með vísan til stefnu sé því alfarið hafnað að aðbúnaður og aðstæður á umræddu hóteli hafi brotið á nokkurn hátt þau lög og reglugerðir sem vísað sé til. Aðstæður og umbúnaður sá sem stefnandi telji ábótavant hafi verið í sama horfi um áratugaskeið án þess að nokkrar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu opinberra eftirlitsaðila. Að auki megi benda á að umræddur pallur hafi verið í notkun á hótelinu í um eða yfir 20 ár án þess að nokkur hafi slasast í meðförum hans.
Með vísan til alls framangreinds teljist það, að mati stefnda, sannað að stefndi beri ekki vinnuveitandaábyrgð á starfsmönnum stefnda Hagatorgs ehf., auk þess sem stefndi telji að ekki sé sannað að nokkuð hafi verið athugavert við atferli, hegðun eða framkvæmd umræddra starfsmanna. Ástæður slyssins séu alfarið á ábyrgð stefnanda, en að mati stefnda hafi hún sýnt af sér aðgæsluleysi og hafi slysið því verið óhappatilvik sem stefndi beri enga ábyrgð á. Sé því krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Varakrafa stefnda um verulega lækkun krafna stefnanda sé byggð á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulega eigin sök er hún gekk út af kvennasalerni og í átt til eiginmanns síns. Hafi lýsing verið á þann veg sem stefnandi lýsi, þ.e. lítil sem engin, hafi stefnandi haft ríka aðgæslu- og varúðarskyldu, enda stórkostlegt gáleysi fólgið í því að ganga af stað á svæði sem stefnandi sjálf segir að hafi verið illa upplýst. Hafi svo verið hafi stefnanda borið að gæta sín, horfa niður fyrir sig og fikra sig áfram á betur upplýstan stað. Það hafi hún ekki gert og því fór sem fór. Beri stefnandi því verulega eigin sök á slysinu.
Verði það talið að stefndu hafi borið ábyrgð in solidum á umræddu slysi þá telur stefndi að hlutdeild þess hafi verið hverfandi, sem leiði að mati stefnda til sýknu eða að minnsta kosti verulegrar sakarskiptingar á milli stefnda og stefnda Hagatorgs ehf. á þann veg að sök stefnda sé hverfandi. Því til stuðnings megi ítreka að það hafi verið starfsmenn stefnda, Hagatorgs ehf., sem hafi verið að störfum í Súlnasal umrætt kvöld en ekki starfsmenn stefnda.
Verði stefndi talinn bera einhverja skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda þá sé fjárkröfu stefnanda mótmælt sem allt of hárri.
Kröfu um tímabundið tekjutjón sé alfarið mótmælt sem ósönnuðu, enda ljóst að tekjur stefnanda á tjónsári hafi verið hærri en tekjur undanfarinna ára. Sé því ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tímabundnu tekjutjóni.
Hvað varðar fjárhæð kröfu vegna varanlegrar örorku þá sé nauðsynlegt að benda á að af skattskýrslum að dæma hafi meðalárstekjur stefnanda síðustu þremur árum fyrir umrætt slys verið rúmlega 900.000 krónur. Því sé alfarið mótmælt að líta beri til „yfirlýsingar Styrktarfélags vangefinna“ við mat á árstekjum stefnanda, enda alfarið ósannað að þær tekjur séu réttar og hafi á annað borð verið til staðar. Þær hafi, af gögnum málsins að dæma, hvorki verið gefnar upp til skatts né hafi þær verið studdar reikningum, líkt og sjálfstæðum verktaka beri skylda til. Ætti að mati stefnda að vera augljóst að tekjuviðmið stefnanda skuli vera í samræmi við verðbættar lágmarkstekjur sem fram koma í 3. málsgrein 7. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993, eða uppreiknað 1.225.000 krónur. Er tekjuviðmiði stefnanda því mótmælt og þeim fjárhæðum er byggðar eru á því, það er bætur vegna varanlegrar örorku.
Stefndi vísar til meginreglna skaðabótaréttar, sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Einnig er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hvað varðar kröfu um málskostnað er vísað til 129. og 130. greina laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda, Hagatorgs ehf.
Stefndi byggir á því að félagið hafi starfað hjá Hótel Sögu ehf. og séð um þjónustu í veitingasölum hótelsins og þegið fyrir það ákveðna prósentu af sölunni. Sé þetta alvanalegt hjá þjónum og hafi verið í þjónustulaunasamningum milli þjóna og veitingamanna.
Stefndi geti ekki tekið ábyrgð á innanstokksmunum hótelsins eða þeim hlutum og áhöldum sem unnið sé með á hótelinu.
Stefndi líti svo á að mál þetta komi honum ekki við, heldur sé tryggingafélag hótelsins að reyna að losa sig undan kröfunni.
Hagatorg ehf. sé ekki starfrækt í dag. Félagið hafi hætt störfum á Hótel Sögu í janúar 2007. Líti stefndi svo á að verið sé að hengja bakara fyrir smið.
Einnig sé hægt að draga í efa að stefnandi hafi ekki verið undir áhrifum áfengis þar sem það hafi verið innifalið allt kvöldið. Þá hafi hátalari, sem sé hjá salerninu, verið þar í tugi ára.
Niðurstaða
Í þinghaldi þann 29. mars 2009 féll niður þingsókn af hálfu stefnda, Hagatorgs ehf. Greinargerð var lögð fram af hálfu hans. Ber því samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið gagnvart stefnda, Hagatorgi ehf., eftir framkomnum kröfum og gögnum sem fram hafa komið með tilliti til þess sem komið hefur fram af hálfu þessa stefnda.
Eins og lýst er hér að framan, í kafla um málavexti, varð stefnandi fyrir slysi á árshátíð Múrarameistarafélagsins sem haldin var í Súlnasal Hótels Sögu 3. febrúar 2006. Stefnandi bar fyrir dómi að slysið hefði orðið með þeim hætti að þegar skemmtiatriðum lauk hafi hún farið á snyrtinguna. Skært ljós hafi verið á snyrtingunni en dimmt hafi verið í salnum þegar hún gekk fram. Kveðst stefnandi hafa gengið nokkur skref í átt að eiginmanni sínum sem stóð þar nærri þegar hún féll um tröppu sem stóð í miðjum gangveginum frá snyrtingunni. Þannig háttar til í Súlnasalnum að hægt er að hækka sviðið þegar skemmtiatriði fara fram en lækka það aftur að þeim loknum. Var umrædd trappa notuð til þess að auðvelda aðgengi upp á sviðið. Kvaðst stefnandi ekki hafa séð tröppuna þegar hún gekk inn á snyrtinguna.
Með hliðsjón af framburði þeirra vitna er skýrslu gáfu fyrir dómi telst sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem stefnandi lýsir. Vitnið Jóhanna Selma Sigurðardóttir, starfsmaður stefnda Hagatorgs ehf., bar fyrir dómi að hún hefði komið að þar sem stefnandi hafði fallið. Staðfesti hún að umrædd trappa hefði þá verið úti á gólfinu og kvaðst hún hafa fært tröppuna upp að vegg. Bar hún að trappan ætti að vera baksviðs þegar hún væri ekki í notkun. Kvað Jóhanna Selma það vera hlutverk tæknimanns að gæta tröppunnar. Staðfesti vitnið Kristinn Ragnarsson þá fullyrðingu.
Ljóst þykir að stefnandi hafi ekki mátt búast við því að trappa stæði í miðjum gangvegi þegar hún kom fram í salinn. Var myrkur í salnum og gat hún ekki greint tröppuna. Þykir sýnt fram á að orsök slyss stefnanda hafi verið vítavert gáleysi starfsmanns í Súlnasal sem skildi tröppuna eftir á þessum stað.
Stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði ekki drukkið áfengi þetta kvöld. Ekkert hefur komið fram í málinu sem styður það að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis er hún féll. Í vottorði Ólafs Ragnars Ingimarssonar, sérfræðings á slysa- og bráðasviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, segir að stefnandi hafið komið á slysadeild 4. febrúar 2006 kl. 00.11. Segir m.a. í vottorðinu að hún hafi verið með eðlilega meðvitund og áttun.
Hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi, í umrætt sinn, sýnt af sér óaðgætni eða að hún eigi sök á því hvernig fór.
Stefndu halda því báðir fram að þeir beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda. Stefndi, Hagatorg ehf., heldur því fram að félagið hafi starfað hjá Hótel Sögu ehf. og séð um þjónustu í veitingasölum hótelsins og hafi þáð fyrir það ákveðna prósentu af sölunni. Stefndi, Hótel Saga ehf., heldur því fram að stefndi, Hagatorg ehf., hafi verið verktaki hjá stefnda, Hótel Sögu ehf.
Umrætt slys varð á árshátíð Múrarameistarafélagsins. Fyrir liggur að Hótel Saga ehf. gerði Múrarameistarafélaginu reikning fyrir kostnaði við árshátíðina. Má af því draga þá ályktun að Múrarameistarafélagið hafi samið við Hótel Sögu ehf. um að halda umrædda árshátíð.
Í málinu liggur frammi óundirritaður þjónustusamningur milli stefndu. Samkvæmt framburði Hrannar Greipsdóttur, þáverandi hótelstjóra, fyrir dómi unnu stefndu eftir þessum samningi.
Eins og nafn samningsins ber með sér er um þjónustusamning að ræða en ekki verktakasamning. Markmið samningsins var að hámarka sameiginlega hagsmuni samningsaðila og hámarka tekjur og arðsemi eins og hægt væri. Bera mörg ákvæði samningsins þetta með sér. Þá ber samningurinn einnig með sér að ábyrgð stefndu á rekstri veislusala var sameiginleg. M.a. kemur fram í grein 7.1. í samningnum að Hótel Saga ehf. skal greiða stefnda, Hagatorgi ehf., þjónustugjald sem nemur ótilgreindri prósentu af veitingatekjum. Í grein 7.5. segir að Hagatorg ehf. beri fulla ábyrgð á mistökum starfsmanna sem leiða til augljóss fjárhagslegs tjóns fyrir hótelið. Tjón af völdum mistaka skuli metið hverju sinni og skuli Hagatorg ehf. bera helming kostnaðar á móti hótelinu.
Sýnt hefur verið fram á í máli þessu að slys stefnanda verður rakið til vítaverðs gáleysis starfsmanns Hagatorgs ehf. Í ljósi þess þjónustusamnings, er í gildi var milli stefndu, þykir hins vegar ekki verða greint á milli ábyrgðar stefndu á tjóni stefnanda og verða þeir dæmdir in solidum til þess að bæta stefnanda umrætt tjón.
Stefnandi kveðst fyrir slys hafa unnið sem verktaki hjá Styrktarfélagi vangefinna. Kröfu sína um tímabundið tekjutjón byggir stefnandi á óstaðfestri yfirlýsingu skrifstofustjóra styrktarfélagsins. Samkvæmt framlögðum skattframtölum verður ekki séð að umræddar tekjur hafi verði færðar stefnanda til tekna. Í ljósi þessa telst ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni.
Engar tölulegar athugasemdir hafa verið gerðar við kröfu um þjáningabætur af hálfu stefndu og verður krafa stefnanda um þjáningabætur, að fjárhæð 250.240 krónur, því tekin til greina.
Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna hlaut stefnandi 15% varanlegan miska. Krefst stefnandi miskabóta samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 921.975 krónur. Stefndu hafa ekki mótmælt þessari kröfu tölulega og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett.
Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna hlaut stefnandi 50% varanlega örorku, en stefnandi hafði áður verið metin til 35% varanlegrar örorku. Lögmaður stefnda, Hótels Sögu ehf., gerir ekki athugasemdir við þá hækkun dómkröfu er tengist hækkun varanlegrar örorku stefnanda úr 35% í 50%.
Til grundvallar kröfugerð sinni vegna varanlegrar örorku leggur stefnandi verktakagreiðslur sem hún telur sig hafa notið árin 2003 til 2005. Er því mótmælt af hálfu stefnda, Hótels Sögu ehf. Eins og áður segir í umfjöllun um tímabundið tekjutjón telst ósannað að stefnandi hafi haft umræddar tekjur. Verða þær því ekki lagðar til grundvallar ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku. Er fallist á með stefnda að í tilviki stefnanda verði því að miða við verðbættar lágmarkstekjur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Með vísan til þeirrar greinar, 6. gr. og 15. gr. skaðabótalaga, reiknast bætur vegna varanlegrar örorku 1.128.907 krónur.
Samkvæmt framansögðu ber stefndu að greiða stefnanda 250.240 krónur í þjáningabætur, 921.975 krónur vegna varanlegs miska og 1.128.907 krónur vegna varanlegrar örorku eða samtals 2.301.122 krónur.
Er matsgerð dómkvaddra matsmanna lá fyrir hækkaði stefnandi, með samþykki lögmanns stefnda, Hótels Sögu ehf., kröfugerð sína. Var þá fallin niður þingsókn af hálfu stefnda, Hagatorgs ehf., Þar sem dæmd fjárhæð skaðabóta rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar stefnanda verða stefndu dæmdir in solidum til greiðslu framangreindrar fjárhæðar. Vextir dæmast eins og greinir í dómsorði.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda, in solidum, málskostnað sem ákveðst 1.145.389 krónur og greiðist hann í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns, Hervarar Pálsdóttur hdl., 450.000 krónur, og útlagður kostnaður, 695.389 krónur, eða samtals 1.145.389 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Hótel Saga ehf. og Hagatorg ehf., greiði in solidum stefnanda, Guðrúnu Sigurborgu Jónasdóttur, 2.301.122 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1991 af 1.172.215 krónum frá 3. febrúar 2006 til 3. ágúst 2006, af 2.301.122 krónum frá þeim degi til 6. desember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 1.145.389 krónur í málskostnað.
Stefndu greiði stefnanda in solidum 1.145.389 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns, Hervarar Pálsdóttur hdl., 450.000 krónur, og útlagður kostnaður, 695.389 krónur, eða samtals 1.145.389 krónur, greiðist úr ríkissjóði.