Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Mánudaginn 14. júní 2010. |
|
|
Nr. 377/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Hjálmar Blöndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila og að hann skuli sæta einangrun meðan á því stendur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila, X. Skal hann sæta einangrun meðan á því stendur.
ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur11. júní 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], M, Reykjavík sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júní 2010 kl. 16.00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhaldsins verði samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Lögregla segir að á síðustu mánuðum hafi ítrekað borist upplýsingar um að í versluninni A við N séu seld lyf og fíkniefni. Í gær, fimmtudaginn 10. júní, hafi verið framkvæmd húsleit í versluninni og á heimili kærða að M og á dvalarstað hans að O. Fundist hafi kókaín í húsinu við M, en tæplega 14 milljónir króna í reiðufé í íbúðinni við O. Þá hafi fundist söluumbúðir.
Fyrir dómi kvaðst kærði ekki vita neitt um kókaínið, hann hefði einn aðgang að húsinu ásamt syni sínum, Y. Hann kvaðst eiga féð sem fannst, þetta væri að hluta til greiðsla er hann hafi fengið fyrir að rýma húsnæði er hann hafði á leigu.
Kærði er undir grun um fíkniefnasölu. Þegar litið er til þess að talsvert magn efnis fannst og þess fjár sem kærði kveðst eiga verður að telja grun lögreglu rökstuddan. Við blasir að kærði er ekki einn undir grun og nauðsynlegt er að hindra að hann eyði sönnunargögnum og hafi samráð við vitni eða aðra sem eru undir grun. Verður honum gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður varðhaldinu markaður tími til miðvikudags 16. júní nk. kl. 16.00.
Vegna rannsóknarhagsmuna er nauðsynlegt að kærði hafi ekki samneyti við aðra og verður því fallist á kröfu lögreglu um tilhögun varðhaldsins.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði X skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. júní 2010, kl. 16.00.
Varðhaldinu skal haga samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.