Hæstiréttur íslands
Mál nr. 664/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 21. desember 2007. |
|
Nr. 664/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 106. gr. sömu laga, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2008 kl. 17. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 28. febrúar 2008, kl. 17.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum hinn 12. júlí sl. í máli nr. S-64/2007 hafi dómfelldi verið dæmdur til að sæta fangelsi í 20 mánuði fyrir fjölmörg hegningarlagabrot, meðal annars rán. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 16. ágúst í máli nr. S-1013/2007 hafi hann verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. hegningarlaga nr. 19/1940 og 252. gr. sbr. 20. gr. sömu laga. Dómfelldi hafi áfrýjað báðum dómunum til Hæstaréttar og verði bæði málin (nr. 476/2007 og 511/2007) flutt í Hæstarétti 7. febrúar 2008.
Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 27. apríl 2007 vegna endurtekinna brota, fyrst á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en síðan á sama grundvelli og með vísan til 1. mgr. 106. gr. sömu laga, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-396/2007 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 433/2007, og nú síðast með úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-429/2007.
Dómfelldi sé, þrátt fyrir ungan aldur, síbrotamaður og verði að telja yfirgnæfandi líkur á því að hann muni halda áfram brotum verði hann látinn laus úr gæslu áður en endanlegur dómur gangi í málum hans. Sé því talið að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt og sé því til stuðnings vísað meðal annars til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar sem kveðinn hafi verið upp eftir að héraðsdómar féllu.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 106. gr. sömu laga, með hliðsjón af sakarferli dómfellda og á grundvelli fyrirliggjandi dóma þyki nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gangi í máli hans.
Hæstiréttur hefur í dómi sínum um gæsluvarðhald yfir dómþola þann 20. ágúst 2007 talið skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Dómþoli hefur áfrýjað dómunum frá 12. júlí og 16. ágúst 2007. Verður því krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald tekin til greina með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. nr. 19/1991 eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 28. febrúar 2008, kl. 17.00.
.