Hæstiréttur íslands
Mál nr. 655/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 16. janúar 2008. |
|
Nr. 655/2007. |
Þrotabú Um ehf. (Ólafur Rafnsson hdl.) gegn Gunnari Óla Erlingssyni og Randi Níelsdóttur (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Úrskurður héraðsdóms um frávísun máls vegna vanreifunar var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins innti Um ehf. af hendi til Íslandsbanka hf. 16. september 2005 tvær greiðslur, annars vegar 350.000 krónur til innborgunar á kröfu samkvæmt skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 2.000.000 krónur og hins vegar 545.066 krónur til að greiða upp kröfu samkvæmt skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 667.000 krónur. Bæði þessi skuldabréf munu hafa verið gefin út af Um ehf. til bankans á árinu 2004 og varnaraðilinn Gunnar Óli Erlingsson, sem varð eini stjórnarmaðurinn í félaginu 4. mars 2005, gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu þeirra. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 9. mars 2006. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 21. nóvember sama ár og krafðist þess að rift yrði „þeirri ráðstöfun er fólst í afléttingu persónulegrar ábyrgðar“ varnaraðilans Gunnars Óla með framangreindum tveimur greiðslum. Í héraðsdómsstefnu var vísað til þess að krafist væri riftunar með stoð í 134. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 getur þrotabú að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum haft uppi fjárkröfu á hendur þriðja manni, sem gengið hefur í ábyrgð fyrir skuld þrotamanns og losnað frá þeirri skuldbindingu með riftanlegri greiðslu hans. Á þeim grunni gæti sóknaraðila verið fært að beina málsókn að varnaraðilanum Gunnari Óla án þess að þörf væri á að gera jafnframt kröfu á hendur viðtakanda áðurnefndra greiðslna, sem nú heitir Glitnir banki hf. Í hinum kærða úrskurði er í meginatriðum gerð grein fyrir málatilbúnaði sóknaraðila samkvæmt héraðsdómsstefnu. Eins og hún er gerð úr garði skortir mjög á að málið hafi þar verið nægilega reifað með tilliti til þess, sem að framan greinir, svo að efnisdómur verði felldur á það. Vegna þessa verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Um ehf., greiði varnaraðilum, Gunnari Óla Erlingssyni og Randi Níelsdóttur, hvoru fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 26. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi, en það var áður flutt hinn 17. október 2007, er höfðað af þrotabúi Um ehf., Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði, á hendur Gunnari Óla Erlingssyni, Kögurseli 8, Reykjavík, og Randí Níelsdóttur, Kögurseli 8, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 22. nóvember 2006.
Dómkröfur stefnanda eru:
1. að rift verði eftirtöldum ráðstöfunum.
a. Þeirri ráðstöfun er fólst í afléttingu persónulegrar ábyrgðar stefnda, Gunnars Óla, með greiðslu á 350.000 króna láni, nr. 967092 hjá Glitni hf., hinn 16. september 2005.
b. Þeirri ráðstöfun er fólst í afléttingu persónulegrar ábyrgðar stefnda, Gunnars Óla, með greiðslu á 545.066 króna láni, nr. 0515-74-967381 hjá Glitni hf., hinn 16. september 2005.
2. Að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 895.066 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga, nr. 38/2001, frá 16. september 2005 til greiðsludags.
3. Í framangreindum kröfuliðum er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndu krefjast þess, að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir, að hið gjaldþrota félag, Um ehf., var stofnað af þremur aðilum árið 2003 til að annast kaup og uppsetningu auglýsingaflettiskilta, og rekstur þeirra. Í því skyni voru keypt sex skilti, og voru þau öll sett upp. Annaðist einn eigenda félagsins, Einar Kristinn Hermannsson, framkvæmdastjórn fyrir félagið í verktöku.
Rekstur félagsins mun ekki hafa gengið sem skyldi og var hlutafé félagsins selt einum af stofnendunum stefnda, Gunnari Óla Erlingssyni, í febrúar/mars 2005. Varð stefndi Gunnar Óli í kjölfar þess eini stjórnarmaður félagsins, eiginkona hans, stefnda Randí, varamaður í stjórn, en hún tók jafnframt við stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Bæði stefndu, Gunnar Óli og Randí, urðu prókúruhafar félagsins.
Stefnandi kveður, að í framhaldi kaupa stefnda, Gunnars Óla, á félaginu, hafi hann tekið til við að selja auglýsingaskilti félagsins, og hafi fimm þeirra verið seld Skiltagæslunni ehf., fyrir hvert að fjárhæð 2.893.864 krónur og andvirði þeirra verið greitt inn á tékkareikninga félagsins. Eitt skiltið segi stefndi, Gunnar Óli, að hafi verið selt félaginu Enso ehf., sem er fyrirtæki í eigu hans sjálfs og eiginkonu hans, Randíar Níelsdóttur, fyrir 1.200.000 krónur.
Stefnandi kveður, að ekki verði ráðið að nokkur rekstur hafi verið í hinu gjaldþrota félagi frá því að stefndi, Gunnar Óli, keypti allt hlutafé félagsins af öðrum stofnendum í mars 2005, og hafi einu fjártilfærslur verið fólgnar í sölu eigna félagsins og uppgreiðslu tiltekinna skulda félagsins fyrir andvirði þeirra.
Stefndi, Gunnar Óli, kveður það rétt að hann hafi ásamt tveimur öðrum mönnum, Einari Kristni Hermannssyni og Hilmari Eiríkssyni, stofnað Um ehf. á árinu 2003. Eftir stofnun félagsins hafi Gunnar Óli, Einar Kristinn og eiginkona Hilmars gengist í jafnar ábyrgðir fyrir lánum er félagið tók. Þannig hafi stefndi, Gunnar Óli, gengist í ábyrgð fyrir lánum Um ehf. í Íslandsbanka hf., að fjárhæð 2.000.000 króna og 667.000 krónur. Þá hafi Einar og eiginkona Hilmars gengist í ábyrgð fyrir lánum í Íslandsbanka hf., hvort um sig fyrir lánum að fjárhæð 2.000.000 króna og 667.000 krónur. Við stofnun félagsins hafi verið samkomulag um að jafnræðis yrði gætt við greiðslu lánanna, þannig að ekki yrði gengið á hlut neins ábyrgðarmanns. Snemma árs 2005 hafi stefndi, Gunnar Óli, keypt hluti annarra stofnenda í Um ehf. Eftir kaupin á hlutum í félaginu hafi stefndi, Gunnar Óli, tekið um það ákvörðun að koma eignum félagsins í verð og greiða skuldir félagsins. Stefndi, Gunnar Óli, hafi selt eignir félagsins og nýtt söluverð eignanna til greiðslu skulda félagsins, m.a. þeirra skulda sem tveir stofnendur og eiginkona þriðja stofnandans höfðu gengist í ábyrgð fyrir. Um ehf. hafi hinn 19. ágúst 2006 greitt að fullu tvö lán í Íslandsbanka hf., hvort 2.000.000 króna, sem Einar Kristinn og eiginkona Hilmars höfðu gengist í ábyrgð fyrir. Þá hafi Um ehf. greitt þann sama dag að fullu upp tvö lán í Íslandsbanka hf., hvort upphaflega 667.000 krónur, sem sömu aðilar höfðu gengist í ábyrgð fyrir. Greiddar hafi verið 1.699.537 krónur til uppgreiðslu á láni, upphaflega að fjárhæð 2.000.000 króna, sem Einar hafði ábyrgst og 555.889 krónur til uppgreiðslu á láni, upphaflega að fjárhæð 667.000 krónur. Þá hafi verið greiddar 1.662.380 krónur til uppgreiðslu á láni, upphaflega 2.000.000 króna, sem að eiginkona Hilmars hafði ábyrgst og 555.889 krónur til uppgreiðslu á láni, upphaflega 667.000 króna, sem að eiginkona Hilmars hafði ábyrgst. Á þeim tíma hafi ekki verið til fjármunir til að greiða jafnframt upp lán þau er stefndi, Gunnar Óli, hafði ábyrgst fyrir Um ehf., og hafi því ekki verið gætt jafnræðis gagnvart ábyrgðarmönnum við greiðslu lánanna á þeim tíma. Stefndi, Gunnar Óli, hafi setið uppi með ábyrgð á lánum í Íslandsbanka hf. og látið aðra stofnendur Um ehf. en Gunnar Óla njóta góðs af peningaeign félagsins á þeim tíma. Hinn 16. september 2005 hafi Um ehf. greitt 350.000 krónur inn á lán, upphaflega 2.000.000 króna, sem stefndi, Gunnar Óli, hafði ábyrgst og þann sama dag hafi Um ehf. greitt upp lán að fjárhæð 545.066 krónur, upphaflega 667.000 krónur, sem stefndi, Gunnar Óli, hafði ábyrgst. Eftirstöðvar af láni, upphaflega 2.000.000 króna, sem Gunnar Óli hafði ábyrgst hafi numið 1.182.178 krónum, þann dag sem Um ehf. hafi greitt 350.000 krónur inn á þá skuld. Um ehf. hafi ekki greitt frekar inn á það lán og hafi stefndi, Gunnar Óli, því sjálfur þurft að greiða lánið upp hinn 29. mars 2006. Staða stefnda, Gunnars Óla, hafi því verið verri en Einars Kristins og eiginkonu Hilmars, því Um ehf. hafði greitt að fullu lán er þeir aðilar höfðu ábyrgst en ekki lán það sem Gunnar Óli ábyrgðist. Stefndi, Gunnar Óli, hafi setið uppi með ábyrgð á láni er hafi staðið í 1.182.178 krónum, en Einar og eiginkona Hilmars hafi verið losuð úr ábyrgð.
Fyrrum framkvæmdastjóri félagsins, Einar Kristinn Hermannsson, stefndi hinu gjaldþrota félagi til greiðslu eftirstöðva skulda við sig, og var stefna árituð um aðfararhæfi kröfunnar hinn 7. október 2005. Hinn 14. nóvember 2005 fór fram árangurslaus fjárnámsgerð hjá félaginu, byggð á kröfunni, og í framhaldi þess var krafist gjaldþrotaskipta hjá félaginu, með beiðni, dags. 22. desember 2005. Var beiðnin móttekin hjá Héraðsdómi Reykjaness hinn 23. janúar 2006, sem telst frestdagur við skiptin.
Bú Um ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum hinn 9. mars 2006.
Kröfulýsingarfresti lauk hinn 27. maí 2006 og var skiptafundur um lýstar kröfur haldinn hinn 15. júní 2006.
Hinn 23. mars 2006 mætti stefndi, Gunnar Óli, til skýrslutöku hjá skiptastjóra þrotabúsins sem eini stjórnarmaður þess. Stefnandi kveður, að innköllun um kröfur birtist í fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu hinn 27. mars 2006, og bárust tvær kröfur í þrotabúið, fyrir hönd skiptabeiðanda annar svegar og Glitnis hf. hins vegar. Á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu hinn 15. júní 2006 hafi verið mætt af hálfu beggja kröfulýsenda, og lýsti stefndi, Gunnar Óli, því yfir að hann hafi yfirtekið kröfu Glitnis hf., sem síðar hafi verið staðfest af hálfu bankans.
Stefnandi kveður, að báðir kröfuhafar hafi talið vera til staðar kröfur þrotabúsins á hendur hinum, og í ljósi sérstakrar stöðu þrotabúsins hafi skiptastjóri lagt ríka áherslu á að þeir aðilar næðu samkomulagi sín á milli. Hafi skiptastjóri frestað fundi í því skyni til 9. ágúst 2006, samhliða því að hann myndi kanna betur vísbendingar um riftanlegar ráðstafanir fyrir upphaf skipta. Á skiptafundi 9. ágúst 2006 hafi hins vegar einungis verið mætt af hálfu skiptabeiðanda, sem í senn hafi krafist þess að kannaðar yrðu ráðstafanir til stefnda, Gunnars Óla, og tengdra aðila, og jafnframt ábyrgst kostnað af slíkum rannsóknum. Hafi síðan umræddum skiptafundi verið frestað til 21. september 2006.
Stefnandi kveður skiptastjóra hafa fengið Bókhaldsstofuna ehf. til þess að kanna nánar vísbendingar um riftanlegar ráðstafanir þrotabúsins og aðrar kröfur á hendur þriðja aðila. Skýrsla Bókhaldsstofunnar ehf. er dagsett hinn 19. september 2006. Á skiptafundi í þrotabúinu hinn 21. september 2006 hafi enn ekki verið mætt af hálfu stefnda, Gunnars Óla, og hafi skýrsla Bókhaldsstofunnar ehf. verið lögð fram á þeim fundi. Skiptabeiðandi hafi krafist þess, að nánari úttekt yrði einungis gerð á ráðstöfunum er tengdust stefnda, Gunnari Óla, Enso ehf. og Merkingu ehf., og í ljósi þess að eigi hafi verið til staðar eignir í þrotabúinu til að standa straum af frekari rannsóknum hafi það verið gert og skiptafundi frestað ótiltekið.
Þegar vísbendingar á hendur stefndu hefðu verið kannaðar nánar hafi verið boðað sérstaklega til skiptafundar hinn 30. október 2006, með bréfi, dagsettu 19. október 2006. Enn hafi ekki verið mætt til fundarins af hálfu stefnda, Gunnars Óla. Hafi á fyrrgreindum skiptafundi verið tekin ákvörðun um málshöfðun þessa, og hafi skiptabeiðandi lýst yfir fullri ábyrgð á öllum málskostnaði vegna þeirra málaferla. Hafi stefndu verið sent bréf, dagsett 31. október 2006, þar sem lýst hafi verið yfir riftun og krafist greiðslna eða samkomulags, og frestur veittur til 10. nóvember í því skyni. Engin viðbrögð hafa orðið við því bréfi og hafi mál því verið höfðað.
Stefndu mótmæla sem rangri fullyrðingu stefnanda í stefnu um að ekki sé ágreiningur um að félagið hafi verið ógjaldfært á þeim tíma er ætlaðar ráðstafanir áttu sér stað. Þá mótmæla stefndu sem röngu þar sem segir í stefnu, að kröfur stefnanda byggi á því að fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags hafi verið í slæmri trú, og ráðstafanirnar ótilhlýðilegar og stefndu til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins og hafi það leitt í senn til þess að eignir þrotabúsins hafi ekki verið til reiðu fullnustu kröfuhöfum. Brjóti það þar með gróflega í bága við jafnræðisreglur við skiptameðferð. Stefndu telja þetta aðeins orðin tóm enda styðji ekkert í málatilbúnaði stefnanda þær fullyrðingar sem um ræði.
III
Hinn 16. september 2005 hafi verið greiddar út af tékkareikningi félagsins 350.000 krónur, vegna láns hjá Glitni hf., nr. 0515-74-967092, nr. 967092, sem tryggt hafi verið með sjálfskuldarábyrgð stefnda, Gunnars Óla. Stefnandi krefst riftunar á skuld með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. og 3. mgr. 147. gr., og þess að stefndi, Gunnar Óli, endurgreiði stefnanda skuldina með dráttarvöxtum frá þeim degi, sem hún hafi verið innt af hendi. Jafnframt vísar stefnandi til 141. gr. laga nr. 21/1991.
Sama dag hafi verið greiddar 545.066 krónur út af tékkareikningi félagsins, vegna láns hjá Glitni hf., 0515-74-967381, nr. 967092.
Stefnandi kveður sömu málsástæður og lagarök eiga við um þennan kröfulið og hér að framan.
Almennt um kröfuliði á hendur stefndu Gunnari Óla og Randí er vísað til þess að þau teljist nákomin í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, og séu í senn eigendur og stjórnendur hins gjaldþrota félags, Um ehf., og jafnframt hins stefnda félags Enso ehf.
Í framangreindum kröfuliðum er krafist greiðslu in solidum á grundvelli samábyrgðar úr hendi stefndu Gunnars Óla og Randíar með vísan til almennra reglna skaðabótaréttarins og XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, ásamt reglum XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr.
Kröfur stefnanda byggi á því að fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags hafi verið í slæmri trú og ráðstafanirnar ótilhlýðilegar og stefndu til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins, og hafi í senn leitt til þess að eignir þrotabúsins hafi ekki verið til reiðu fullnustu kröfuhöfum og brjóti þar með gróflega í bága við jafnræðisreglur við skiptameðferð. Ekki sé ágreiningur um að félagið hafi verið ógjaldfært er umræddar ráðstafanir áttu sér stað.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði, svo og laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Um efnislegar kröfur sé byggt á almennum reglum íslensks kröfuréttar og almennum reglum skaðabótaréttar, svo og XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þá segir í stefnu, að í ljósi þess að stefndu hafi í engu svarað kröfubréfi stefnanda sé sérstaklega áskilinn réttur til að vísa síðar til einstakra lagagreina XX. kafla, gefi varnir stefndu tilefni til slíks, umfram þær tilvísanir sem þegar sé að finna í reifun málsástæðna.
Kröfur um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði.
Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili. Beri honum því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir þeirri kröfu sinni.
IV
Stefndu kveða Gunnar Óla einan af stofnenda félagsins hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna ábyrgða á greiðslu lána Um ehf. Skjóti því skökku við að skiptastjóri þrotabúsins skuli höfða mál á hendur Gunnari Óla einum til riftunar greiðslna inn á lán er hann hafði ábyrgst þegar fyrir liggi að Um ehf. hafi á sama tíma greitt hærri fjárhæðir inn á lán er Einar Kristinn og eiginkona Hilmars höfðu ábyrgst. Með því að höfða mál aðeins á hendur Gunnari Óla brjóti stefnandi gegn jafnræðissjónarmiðum og reglum er ákvæði gjaldþrotalaga nr. 21/1991 byggi á. Stefndu telja ámælisvert að mál skuli hafa verið höfðað. Þau benda á að mál þetta hafi verið höfðað að frumkvæði annars kröfuhafa í búinu, Einars Kristins, fyrrum hluthafa í félaginu, sem ákvörðun virðist hafa tekið í nafni búsins um málshöfðun á hendur stefndu þrátt fyrir að fyrir liggi að mun hærri greiðslur hafi verið inntar af hendi af hálfu félagsins til greiðslu lána er Einar Kristinn hafi verið í ábyrgð fyrir. Ekkert samræmi sé í aðgerðum þrotabúsins hvað þetta varði og beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda þegar af þessum sökum. Stefndu telja að skiptastjóra hafi að sjálfsögðu borið að höfða mál einnig á hendur Einari Kristni og eiginkonu Hilmars, ef það hafi verið skoðun hans að greiðslur inn á lán þar sem stofnendur voru í ábyrgð hafi verið riftanlegar, en ekki fela einum kröfuhafa sjálfdæmi í málinu og um leið sjálfdæmi um að þola sjálfur ekki riftun ráðstafana, sem séu þær sömu og krafist sé í málinu að stefndu verði dæmd til að þola. Stefndu átelja þessa meðferð mála og telja m.a. að skiptastjóra hafi borið, áður en mál var höfðað, að kynna fyrir stefndu fyrirhugaða málssókn og jafnframt að gefa stefndu kost á að leggja fram ábyrgð fyrir tryggingu kostnaðar við höfðun riftunarmála gegn Einari Kristni og eiginkonu Hilmars. Þá leggja stefndu áherslu á að málssókn þessi sé á ábyrgð þrotabúsins og skiptastjórans, en ekki Einars Kristins, og beindu stefndu þeirri áskorun til skiptastjóra að fella málið þegar niður.
Stefnda, Randí Níelsdóttir, byggir kröfu um sýknu á aðildarskorti og vísar þeirri kröfu til stuðnings til 16. gr. laga nr. 91/1991. Óskiljanlegt sé af hvaða sökum þrotabú Um ehf. hefur stefnt henni til að þola riftun greiðslna inn á lán Um ehf. er Gunnar Óli hafði ábyrgst og af hvaða sökum stefnandi krefur hana um greiðslu á 895.066 krónum. Stefnda, Randí, hafi ekki verið í ábyrgð fyrir fyrrgreindum lánum Um ehf. í Íslandsbanka hf. og sé málið henni með öllu óviðkomandi. Þá geri stefnandi enga grein fyrir því í stefnu af hvaða sökum hann stefni Randí í málinu, en stefnandi vísi í stefnu til almennra reglna skaðabótaréttarins og XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, ásamt reglum XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr. Tilvísun stefnanda til fyrrgreindra lagareglna í stefnu sé óskiljanleg og styðji á engan hátt kröfur stefnanda á hendur stefndu. Beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og byggir sú krafa á því að ekki séu skilyrði að lögum fyrir kröfum stefnanda. Stefndu byggja á því að þær greiðslur sem um ræðir séu ekki riftanlegar samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 og því ekki riftanlegar gagnvart stefndu samkvæmt 147. gr. sömu laga, en skilyrði fyrir riftun samkvæmt þeirri grein sé að þriðji maður hafi losnað frá skuldbindingu sinni vegna riftanlegrar greiðslu. Stefndu leggja áherslu á að skilyrði fyrir riftun samkvæmt 134. gr. laganna sé að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd hafi verið fjárhæð sem skerti greiðslugetu skuldarans verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefndu leggja áherslu á að ekkert fyrrgreindra skilyrða sé fyrir hendi í máli þessu. Greiðsla til Íslandsbanka hafi ekki verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri, greiðsla hafi ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var og hún ekki skert greiðslugetu skuldarans verulega. Þá hafi greiðslan að sjálfsögðu verið venjuleg eftir atvikum, ekki síst í ljósi þess að Um ehf. hafði áður greitt upp lán í Íslandsbanka hf., sem annar stofnandi og eiginkona annars stofnanda höfðu ábyrgst. Fyrrgreind skuld við Íslandsbanka, sem stefndi hafði ábyrgst og sem greitt var inn á, hafi verið eina skuld félagsins.
Ekki séu fyrir hendi skilyrði riftunar, samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, og hafi stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að þau skilyrði riftunar, sem þar séu greind hafi verið til staðar. Stefndu mótmæla því að svo hafi verið og beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda af þeim sökum.
Stefndu átelja málatilbúnað stefnanda og mótmæla m.a. þeirri ætlun stefnanda að ætla á síðari stigum að lýsa því á hverju kröfur hans um riftun byggi, en í stefnu áskilji stefnandi sér rétt til að vísa síðar til einstakra ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 til stuðnings kröfum sínum, gefi varnir stefndu tilefni til slíks. Stefndu mótmæla þessum áskilnaði stefnanda og telja í andstöðu við réttarfarsreglur þá ætlan stefnanda að byggja mál sitt upp og rökstyðja það eftir að greinargerð stefndu liggi fyrir. Stefndu vísa þessu til stuðnings til ákvæða laga nr. 91/1991, einkum 80. gr.
Stefndu mótmæla sérstaklega kröfum stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta.
Um lagarök vísa stefndu til laga nr. 91/1991, m.a. 16. gr. þeirra laga. Þá vísa stefndu til reglna kröfuréttar og ákvæða laga nr. 21/1991.
Kröfu um málskostnað byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Krafa stefnanda í máli þessu er annars vegar um að rift verði tilteknum ráðstöfunum, sem fólust í afléttingu persónulegra ábyrgða stefnda, Gunnars Óla, með greiðslu á láni til Glitnis hf. og hins vegar að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda þá fjárhæð, sem greidd var Glitni hf.
Í stefnu kveðst stefnandi byggja á því að rift verði greiðslu þessara lána á grundvelli 134. gr. og 147. gr. laga nr. 21/1991, og stefndi, Gunnar Óli, endurgreiði stefnanda skuldina, eins og þar segir. Þá kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á hendur stefndu, Gunnari Óla og Randí, á því, að þau teljist nákomin í skilningi laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Þá má samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, krefjast riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.
Málatilbúnaður stefnanda verið ekki skilinn á annan veg en þann, að hann geri kröfu um riftun á þessum tveimur greiðslum hins gjaldþrota félags til Glitnis hf. Ljóst er að greiðslurnar voru inntar af hendi til Glitnis hf. og til þess að unnt sé að rifta þeim hlýtur aðild þess félags að vera nauðsynleg. Stefnandi hefur hins vegar ekki stefnt Glitni hf., heldur virðist hann byggja á því að með greiðslum til Glitnis hf. hafi verið um að ræða greiðslur til stefndu og þar sem þau hafi verið nákomin í skilningi gjaldþrotalaga, megi rifta greiðslunni innan þeirra tímamarka, sem greinir í 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Ljóst er að umræddar greiðslur voru ekki greiddar til stefndu og er óútskýrt hvernig unnt er að beina riftunarkröfum þessum að þeim. Þykir stefnandi ekki hafa gert viðhlítandi grein fyrir aðild stefndu að máli þessu. Er og samhengi atvika og málsástæðna mjög óljóst og ruglingslegt. Að því virtu, sem nú hefur verið rakið, þykir stefnandi ekki hafa lagt málið upp með nægilega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að málinu, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður. Verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi í heild sinni.
Eftir þessum úrslitum ber, með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Málinu er vísað frá dómi ex officio.
Stefnandi, Þrotabú Um ehf., greiði stefndu, in solidum, 100.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.