Hæstiréttur íslands

Mál nr. 648/2006


Lykilorð

  • Áfengislagabrot
  • Auglýsing
  • Ábyrgð
  • Ábyrgð á prentuðu máli


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2007.

Nr. 648/2006.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Áfengislagabrot. Auglýsing. Ábyrgð á prentuðu máli.

X var ákærður fyrir áfengislagabrot með því að hafa sem starfandi stjórnarformaður A hf. látið birta auglýsingu á léttvíni í tímariti. Fyrir Hæstarétti tók ákæruvaldið undir þá niðurstöðu héraðsdóms að umrædd auglýsing bryti í bága við bann 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998, en krafðist ekki lengur sakfellingar X þar sem engin auðkenni vísuðu til hans eða A hf. og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 165/2006. Talið var að birting auglýsingarinnar væri andstæð 20. gr. áfengislaga, en þar sem hvorki X né A hf. voru nafngreind í auglýsingunni í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt var ekki talið að X bæri refsiábyrgð og var hann því sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. desember 2006 að fengnu áfrýjunarleyfi ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú að ákærði verði sýknaður.

Ákærði krefst jafnframt sýknu.

Ákæruvaldið tekur undir þá niðurstöðu héraðsdóms að auglýsingin, sem lýst er í ákæru, sé áfengisauglýsing sem brjóti í bága við bann 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Hins vegar séu engin auðkenni sem beint eða óbeint vísi til ákærða eða þess félags sem hann er stjórnarformaður fyrir, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 8. febrúar 2007 í máli nr. 165/2006 sé á þeim grunni ekki lengur krafist sakfellingar ákærða fyrir að hafa brotið gegn banni 20. gr. áfengislaga með því að láta birta þessa auglýsingu.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fram komið að birting auglýsingar þeirrar sem um getur í ákæru var andstæð ákvæðum 20. gr. áfengislaga. Hins vegar var hvorki ákærði né fyrirtækið sem hann veitir forstöðu nafngreint í auglýsingunni í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 og ber hann því ekki refsiábyrgð á efni hennar. Ber samkvæmt kröfu ákæruvaldsins að sýkna ákærða.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti á þann hátt er í dómsorði greinir.

                                                              Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns, samtals 498.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2006.

                Mál þetta, sem dómtekið var 10. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 1. nóvember 2005 á hendur X, kt. [...], Vesturhlíð 9, Reykjavík, fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem starfandi stjórnarformaður A hf., kt. 601289-1489, látið birta auglýsingu á áfengu léttvíni af tegundinni Mateus Rosé á bls. 46 og 47 í 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003 sem gefið var út í október það ár, en í texta auglýsingarinnar segir m.a.: „DRINK PINK Mateus – meiriháttar!“.

                Þetta er talið varða við 20. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, greiðist úr ríkis­sjóði.

             Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 13. júní 2004 bárust lögreglu ábendingar um að í 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003 væri að finna auglýsingu sem ekki samrýmdist reglum um áfengisauglýsingar. Í rannsóknargögnum málsins er 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003. Á bls. 46 og 47 er heilsíðumynd sem ber yfirskriftina ,,DRINK PINK”, sem ritað er með stórum stöfum. Á myndina er einnig ritað ,,Mateus-meiriháttar!” og ,,Vínbúðir 990 kr.”. Þá er á síðunni mynd af léttvínsflösku af tegundinni Mateus Rosé og er flaskan í vínflöskukæli. Við hlið flöskunnar eru tvö léttvínsglös.

             Á meðal gagna málsins er útskrift af vef Einkaleyfastofunnar. Þar kemur m.a. fram að umboðsmaður fyrir léttvíni af tegundinni Mateus Rosé sé G. H. Sigurgeirsson, Pósthólf 1337, 121 Reykjavík. Hafi skráning farið fram 20. júlí 1972. Ef farið er inn á vef Einkaleyfastofunnar kemur fram að skráningin gildi til 20. desember 2012. Þá liggur frammi afrit af tölvupóstskeyti frá starfsmanni innkaupadeildar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá 21. júlí 2005. Þar kemur fram að áfengisverslunin hafi á árunum 2001 til 2005 keypt Mateus Rosé léttvín af A hf. 

             Föstudaginn 5. nóvember 2004 var ákærði boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu. Hann gaf síðan skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Ákærði kvaðst vera stjórnarformaður A hf., jafnframt því að vera eigandi fyrirtækisins. Undanfarin 5 ár hafi hann ekki verið í daglegu starfi innan fyrirtækisins. Fyrirtækið flytti inn og seldi ýmiskonar drykkjarvörur, m.a. Mateus Rosé rósavín. Talsvert áreiti hafi fylgt innflutningi og sölu á léttvíni. Hafi fyrirtækið verið kært af ýmsu tilefni í tengslum við þann innflutning. Hafi ákærði af þeim sökum tekið þá ákvörðun að vera í fyrirsvari fyrir fyrirtækið að því er varðaði atriði tengd áfengi. Umfjöllun hafa verið um Mateus Rosé léttvín í 11. tbl. Gestgjafans á árinu 2003, en fyrirtækið hafi verið að kynna nýtt útlit á flösku fyrir Mateus rósavín. Þá hafi kynningin vísað til þess að það vín væri selt í vínbúðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Kvaðst ákærði bera ábyrgð á kynningunni fyrir hönd A hf. Kvaðst hann telja að kynning á víninu hafi birst í tveim tímaritum. Ekki væri um auglýsingu að ræða. Tímaritið Gestgjafinn hafi verið með umfjöllun um atriði fyrir áhugafólk um mat og vín. Þrátt fyrir að ákærði bæri ábyrgð á umfjöllun í 11. tbl. Gestgjafans, fyrir hönd A hf., hafi hann samt sem áður ekki sjálfur tekið ákvörðun um þá tilteknu mynd er fram kæmi á bls. 46 og 47 í tímaritinu. Það hafi einhver annar starfsmaður innan fyrirtækisins gert. Hafi ákærði fyrst séð myndina eftir að kæra hafi komið fram í málinu.

             B kvaðst á árunum 1996 til 2005 hafa starfað í fyrirtæki A hf. Hafi hún starfað sem deildarstjóri og haft með innflutning og sölu á áfengi að gera. C frá tímariti Gestgjafans hafi komið að máli við B og lagt til að fyrirtækið kynnti nýtt útlit á flöskum með rósavíninu Mateus Rosé. Hafi B sennilega látið starfsmönnum tímaritsins í té grunnmynd fyrir kynninguna en starfmenn tímaritsins síðan séð um að hanna kynninguna, eins og hún birtist í 11. tbl. tímarits Gestgjafans á árinu 2003. Ákærði hafi ekki komið nærri þessari kynningu. Hann hafi hins vegar, fyrir hönd fyrirtækisins, borið ábyrgð á kynningunni í blaðinu. B kvaðst hafa samþykkt myndina endanlega áður en hún hafi birst í tímaritinu.  

             C kvaðst hafa starfað sem auglýsingastjóri á tímaritinu Gestgjafanum í lok árs 2003. Í starfi hennar hafi m.a. falist að fá einstaklinga og fyrirtæki til að auglýsa í blaðinu. Að því er varðaði bls. 46 og 47 í 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003 kvaðst C ekki muna hvort hún hafi í því tilviki haft samband að fyrra bragði við A hf. vegna þeirrar myndar er hafi birst. Verið gæti að hún hafi hringt í starfsmann fyrirtækisins og gert honum grein fyrir að blaðið hefði auða síðu í tímaritinu ef fyrirtækið vildi koma kynningu eða auglýsingu í blaðið. Auglýsingar væru stundum að öllu leyti tilbúnar til birtingar þegar þær kæmu í hendur á starfsmönnum tímaritsins. Viðskiptavinir litu alltaf yfir myndir til samþykkis áður en þær birtust í blaðinu. Mikil viðskipti hafi verið við A hf. á þeim tíma sem myndir hafi birst í 11. tbl. Gestgjafans 2003. Misjafnt hafi verið hvort frumkvæði að viðskiptum hafi komið frá fyrirtækinu eða starfsfólki tímaritsins. C kvaðst sennilega hafa verið í sambandi við B hjá A hf. vegna viðskipta.

             D kvaðst hafa verið ritstjóri tímaritsins Gestgjafans á síðari hluta árs 2003. Kvaðst hún kannast við mynd á bls. 46 og 47 í 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003. Tímaritið hafi verið með auglýsingastjóra í starfi. Auglýsingastjórinn hafi leitað sem víðast og haft yfir að ráða lista yfir þá aðila sem vildu kaupa rými fyrir auglýsingar í tímaritinu. Fyrirtækið A hf. hafi verið þar á meðal. Fyrir auglýsingu á bls. 46 og 47 hafi örugglega verið greitt á sínum tíma. C hafi verið auglýsingastjóri tímaritsins á þessum tíma og sennilega séð um sölu á auglýsingunni. D kvað áfengisauglýsingar hafa verið ræddar innan fyrirtækisins m.t.t. hvað heimilt væri að birta. Kvaðst hún muna eftir að sú auglýsing sem um ræðir í málinu hafi þótt bæði flott og frumleg. Sennilega hafi auglýsingin áður birst í erlendum blöðum og hún verið staðfærð fyrir íslenskan markað.

             Niðurstaða:

             Í gögnum málsins er eintak af 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003. Á blaðsíðum 46 og 47 er mynd sem sakarefni máls þessa er sprottið af. Myndin nær yfir báðar blaðsíðurnar. Í forgrunni myndarinnar er flaska undan rósavíni af gerðinni Mateus Rosé og tvö léttvínsglös við hliðina á henni. Yfir alla opnuna er ritað með stórum stöfum DRINK PINK, sem þýða mætti sem ,,Drekktu bleikt”. Til viðbótar er ritað á opnuna Mateus meiriháttar, sem er yfirlýsing um gæði þessa víns. Loks er verð á léttvínsflösku af þessari gerð tilgreint, sem og hvar hana sé unnt að kaupa. 

             Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, er hvers konar auglýsing á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. er með auglýsingu átt við hvers konar tilkynningu til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar. Að mati dómsins er með öllu óhaldbær sú staðhæfing ákærða að eingöngu sé um kynningu að ræða á nýju útliti af áfengisflöskum undan léttvíninu Mateus Rosé á bls. 46 og 47 í 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003. Mateus Rosé vín er ekki selt hér á landi óáfengt eða með áfengisinnihald undir 2,25 o/o af hreinum vínanda. Á myndinni er þar af leiðandi sýnd flaska af tiltekinni áfengistegund sem almenningur er hvattur til að kaupa. Felur myndin þar af leiðandi ótvírætt í sér auglýsingu í skilningi 2. mgr. 20. gr. laga nr. 78/1998.  

             Þó svo ákærði viðurkenni að umrædd auglýsing stafi frá fyrirtæki hans eða hafi a.m.k. verið samþykkt til birtingar af fyrirtækinu, heldur hann í málflutningi engu að síður uppi vörnum á grundvelli þess að ekki séu uppfyllt skilyrði ákvæða 15. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956, fyrir því að höfundur verði gerður refsiábyrgur vegna birtingar auglýsingarinnar. Verður því fyrst fyrir að leysa úr hvort ákærði verði talinn höfundur umræddrar auglýsingar í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956.

             Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, ber höfundur refsi- og fébótaábyrgð á efni rits, ef hann hefur nafngreint sig og er annað hvort heimilisfastur hér á landi, þegar ritið kemur út, eða er undir íslenskri lögsögu, þegar mál er höfðað. Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig, ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina skv. 3. mgr. laganna, eða aðrir í tiltekinni ábyrgðarröð er ákvæðið tilgreinir.  Ekki er við sérstakar reglur að styðjast í 15. gr. laga nr. 57/1956 um hvernig ákvarðað verði hver teljist hafa nafngreint sig sem höfundur auglýsingar eða eftir hvaða viðmiðum verði farið í því tilliti. Þá veita athugasemdir með frumvarpi sem varð að lögum nr. 57/1956 takmarkaðar leiðbeiningar um þetta efni. Í dómi Hæstaréttar Íslands 16. janúar 1963 í málinu nr. 164/1962 var fjallað um áfengisauglýsingar. Yfir auglýsingu í því tilviki var heiti veitingastaðar og undir henni tilvísun í talsímanúmer veitingastaðarins. Þótti veitingahúsið nafngreint sem auglýsandi. Ákærði í því máli hafði samþykkt gerð auglýsingarinnar og hlutast til um birtingu hennar. Var hann því talinn bera refsiábyrgð á henni, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 1999 í máli nr. 415/1998 var einnig fjallað um áfengisauglýsingar, sem birst höfðu í Morgunblaðinu. Var lýst yfir af hálfu ákærða að enginn einn væri höfundur auglýsinganna, heldur hefðu þær verið unnar af hópi manna innan fyrirtækis ákærða. Væri ákærði einn úr þeim hópi og bæri ábyrgð á honum. Fyrirtæki ákærða hafði keypt rúm fyrir umrædda auglýsingu í blaðinu. Þótti óumdeilt að auglýsingin hefði verið samin á vegum fyrirtækis undir stjórn ákærða. Auglýsingin varðaði tiltekna vöru fyrirtækisins og auk þess kom þar fram auðkenni, sem með greinanlegum hætti vísaði til fyrirtækisins og vörumerkis, sem það hafði fengið skráð. Var númer vörumerkisins tilgreint og skráningardagur þess. Að því virtu var talið að fyrir lægi nafngreining, sem fullnægði ákvæðum 15. gr. laga nr. 57/1956 og var ákærði því talinn ábyrgur fyrir birtingu umræddra auglýsinga.

             Auglýsing sú sem um er dæmt í þessu máli er í talsvert veigamiklum atriðum frábrugðin auglýsingunum í tilvitnuðum málum. Í fyrsta lagi kemur nafn fyrirtækis ákærða ekki fram í auglýsingunni eða önnur skírskotun til fyrirtækisins. Í annan stað háttar svo til að vörumerkið Mateus er skráð vörumerki. Er það nr. 173 og var það skráð 20. júlí 1972. Gildir sú skráning til 20. desember 2012. Fyrirtæki ákærða er hins vegar ekki skráð fyrir vörumerkinu, heldur G. H. Sigurgeirsson, Pósthólf 1337, 121 Reykjavík. Ekkert í gögnum málsins skýrir hvort og þá hver tengsl séu á milli G.H. Sigurgeirssonar og fyrirtækis ákærða. Er það þá eingöngu yfirlýsing er starfsmaður í innkaupadeild Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins lét lögreglu í té 21. júlí 2005, sem leiðir þessi tengsl í ljós, en þar kom fram að áfengisverslunin hefði keypt Mateus Rosé af A hf. frá árinu 2001 til 2005.

             Ábyrgðarröð samkvæmt lögum nr. 57/1956 er skýr. Er gert ráð fyrir því sem grunnreglu að höfundur, hafi hann nafngreint sig, beri ábyrgð á auglýsingu. Ef ekki er unnt að bera kennsl á höfundinn bera aðrir ábyrgðina eftir tiltekinni ábyrgðarröð. Ekki er unnt að rekja nefnda auglýsingu til ákærða og fyrirtækis hans, nema með því að leita upplýsinga um það hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Þó svo önnur og strangari viðmið hafi verð lögð til grundvallar varðandi ótvíræða nafngreiningu höfundar þegar um ritað efni er að ræða heldur en þegar um auglýsingar er fjallað, þykir dóminum tengsl ákærða og fyrirtækis hans við auglýsinguna vera nokkuð fjarlæg til að jafngildi ótvíræðri nafngreiningu í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Virðist enda byggt á þeim sjónarmiðum í lögum nr. 57/1956 að það sé útgefanda rits eða ritstjóra að láta höfund efnis nafngreina sig með fullnægjandi hætti, að öðrum kosti séu þeir sjálfir að gangast undir ábyrgð á birtingu efnis. Að mati dómsins þykir hins vegar megin máli skipta í þessu tilliti og ráða úrslitum, að til auglýsingarinnar hafði, a.m.k. að hluta til verið stofnað, og hún síðar samþykkt til birtingar af fyrirtæki undir stjórn ákærða og varðar vöru sem fyrirtækið selur. Þegar til þess er litið er það niðurstaða dómsins að ákærði sé ábyrgur fyrir birtingu umræddrar auglýsingar í Gestgjafanum, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956.

             Ákærði byggir varnir sínar m.a. á því að 20. gr. laga nr. 75/1998 brjóti gegn tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Hefur m.a verið vísað til dóms sænska Markaðsdómstólsins frá árinu 2003 því til stuðnings. Niðurstaða dómstólsins hafi verið sú að bann við áfengisauglýsingum, að virtum ákvæðum 28. og 49. gr. ESB samningsins, sé umfram meðalhóf, sem leiði til þess að það verði ekki talið standast samninginn.

             Dómstólar hafa margsinnis slegið föstu, sbr. m.a. í dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 1999 í málinu nr. 415/1998, að auglýsingar njóti verndar tjáningarfrelsis­ákvæðis 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórn­skipunarlaga nr. 97/1995 og tjáningarfrelsisákvæðis 10. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sem lögtekinn var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar má aðeins setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum, við tilteknar þar tilgreindar aðstæður. Hafa dómstólar jafnframt slegið föstu að þau rök sem búi að baki 20. gr. áfengislaga, eigi sér efnislega stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnar­skrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi löggjafinn metið auglýsingabann áfengis nauðsynlegt og ítrekað það mat eftir að núgildandi tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið sett. Ákæruvald hefur lagt fyrir dóminn Heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem samþykkt var á Alþingi 20. maí 2001. Þá hefur ákæruvald lagt fyrir dóminn aðgerðaráætlun Alþjóðaheilbrigðis­mála­stofnunarinnar varðandi áfengi sem tekur til áranna 2000 til 2005. Gögn þessi gefa ótvíræða vísbendingu um að ekki hafi verið horfið frá fyrri niðurstöðum, sem dóm­stólar hafa lagt til grundvallar niðurstöðum í málum af þessum toga, um að áfengis­auglýsingar hafi áhrif til aukinnar neyslu áfengis, ekki síst á meðal yngri aldurshópa. Skiptir sú niðurstaða sköpum þar sem talið hefur verið óumdeilt að ofneysla áfengis fylgi vandamál af ýmsum toga, sem meðal annars varði allsherjarreglu, siðgæði og heilsu. Með vísan til þessa er ekki fallist á að beiting 20. gr. laga nr. 75/1998 feli í sér brot á tilvitnuðum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.

             Þá byggir ákærði varnir sínar á því að ákvæði 20. gr. áfengislaga brjóti í bága við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 2/1993. Er sérstaklega vísað til bókunar nr. 47 við samninginn um afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín, en bókunin kveði á um að heimila skuli markaðssetningu á léttvíni sem upprunnið er á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er vísað til dóma EFTA dómstólsins, m.a. í máli nr. E-4/04 Pedicel AS og Social- og helsedirektoratet, varðandi túlkun reglna EES samningsins um frjáls vöru- og þjónustuviðskipti. Að mati dómsins má með réttu halda fram að ákvæði 20. gr. áfengislaga geti falið í sér tæknilegar hindranir í viðskiptum með vín. Löggjafinn hefur hins vegar metið það svo að þau rök sem búi að baki banni við auglýsingum á áfengi skipti slíku máli fyrir lýðheilsu og allsherjarreglu að rétt sé að takmarka viðskipti með áfengi með þeim hætti að óheimilt sé að auglýsa áfenga drykki. Má um þessi sjónarmið vísa til umfjöllunar um ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar  hér að framan. Á grundvelli þessa verður ekki talið að slíku banni verði vikið til hliðar með vísan til þess að ákvæðið brjóti í bága við bókun 47 við EES samninginn um afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín. Verður varnarástæðu ákærða á þessum grundvelli því einnig hafnað. 

             Loks byggir ákærði varnir sínar á því að títtnefnd 20. gr. áfengislaga brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Er vísað til þess að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins auglýsi áfengi með ýmsu móti, m.a. með umfjöllunum í blöðum og tímaritum. Þá sitji ekki allir við sama borð að þessu leyti og megi um það vísa til ákvæða 1. tl. 4. mgr. 20. gr. áfengislaga, en greinin mæli fyrir um að auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt séu til landsins séu undanþegin banni við áfengisauglýsingum, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er ekki undanþegin banni við auglýsingu á áfengi samkvæmt 20. gr. áfengislaga. Ber versluninni í einu og öllu að lúta sömu reglum og um aðra gildir að því leyti. Er tilvísun í 65. gr. stjórnarskrárinnar því ekki haldbær fyrir ákærða. Þá liggur fyrir það mat löggjafans að næsta vonlaust væri að banna allan innflutning á erlendum blöðum eða tímaritum þar sem áfengisauglýsingar væru birtar eða láta fjarlægja auglýsingar úr innfluttum tímaritum. Er staða ákærða og erlendra aðila ekki sambærileg um þetta, en það er skilyrði fyrir beitingu ákvæðis 65. gr. stjórnarskrárinnar að hún taki til einstaklinga eða lögaðila í sömu stöðu. Verður vörn ákærða á þessum forsendum einnig hafnað.

             Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi brotið gegn ákvæði 20. gr., sbr. 27. gr. laga nr. 75/1998 með því að láta birta auglýsingu á bls. 46 og 47 í 11. tbl. tímaritsins Gestgjafans á árinu 2003. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru.

             Ákærði er fæddur í september 1947. Hann gekkst undir sátt 18. janúar 2005 fyrir hraðakstur og brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Að öðru leyti hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi er máli skiptir um refsiákvörðun. Brot ákærða er framið áður en hann gekkst undir sáttina 18. janúar 2005 og því hegningarauki. Ber að ákvarða refsingu með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög þannig að máli skipti fyrir niðurstöðu þessa máls. Á hinn bóginn verður að líta til þess að um er að ræða brot sem framið er í ávinningsskyni og varðar mikilvæga hagsmuni. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða ákveðin 200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem greiðist innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ella sæti ákærði fangelsi í 14 daga.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

                Rétt þykir að gera nokkra grein fyrir framvindu málsins fyrir dómi. Málið var þingfest 29. nóvember 2005. Ákærði mætti ekki til þinghalds og var málinu frestað til 15. desember 2005. Í þinghaldi þann dag neitaði ákærði sök. Verjandi ákærða boðaði þá að hann væri að hugleiða að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á atriðum tengdum sakarefninu. Var málinu frestað til 23. janúar 2006 í því skyni. Á dómþingi þann dag leitaði verjandi ákærða eftir fresti varðandi hið ráðgefandi álit, en hann kvað dóm í samkynja máli er til meðferðar væri við dómstólinn skipta máli um hvort álits yrði leitað. Með vísan til þess var málinu frestað. Þann 31. mars 2006 lagði verjandinn fram beiðni um ráðgefandi álit. Ákæruvald mótmælti því að álits yrði leitað á dómþingi 10. apríl 2006 og var málinu frestað til flutnings um það atriði til 5. maí 2006. Þann dag fór fram málflutningur. Með úrskurði héraðsdóms 17. maí 2006 var kröfu verjanda um ráðgefandi álit hafnað. Verjandinn skaut þeim úrskurði til Hæsta­réttar Íslands, sem með dómi 24. maí 2006 staðfesti úrskurð héraðsdóms. Sökum þess að ógjörningur reyndist að finna tíma til aðalmeðferðar fyrir sumarleyfi var ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram 6. október 2006. Fór hún fram þann dag og framhalds­aðalmeðferð 10. október sl.

                Af hálfu ákæruvalds flutti málið Eyjólfur Eyjólfsson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, X, greiði 200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttar­lögmanns, 328.680 krónur.