Print

Mál nr. 264/1999

Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni
  • Sératkvæði

Dómsatkvæði

                                                         

Föstudaginn 16. júlí 1999.

Nr. 264/1999.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Kio Alexander Ayobambele Briggs

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Sératkvæði.

Við leit í farangri K við komu til landsins fundust fíkniefni en hann kvaðst ekki kannast við þau. Leitin fór fram eftir ábendingu G, en hann hafði jafnframt aðstoðað K, sem var útlendingur, við að komast til landsins. Taldi G sig hafa af því hagsmuni að láta lögreglu í té upplýsingar um efnin í farangri K. Héraðsdómur, sem skipaður var þremur dómurum, taldi frásögn G af því að K hefði sagt honum frá fyrirhuguðum fíkniefnainnflutningi ótrúverðuga. Voru hvorki talin efni til að hrófla við því mati né að önnur sakargögn til viðbótar mati dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar hnekktu niðurstöðu hans um sýknu vegna vafa um sök ákærða. Enda þótt ferðamenn yrðu almennt að bera ábyrgð á farangri sínum, leiddu hinar sérstöku aðstæður til þess, að ekki væri unnt að útiloka að G eða einhver á hans vegum hefði komið efnunum fyrir í farangri K. Með hliðsjón af því og öðrum atvikum var héraðsdómur staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Málinu hefur verið skotið til Hæstaréttar með stefnu 30. júní 1999 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess, að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar, auk þess að þola þá upptöku á töflum með efninu MDMA, sem ákvörðuð var með hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sýknu hans af refsikröfu ákæruvaldsins.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Ákærði var handtekinn á Keflavíkurflugvelli 1. september 1998 við komu til landsins með flugi frá Alicante á Spáni, þegar fíkniefni fundust við leit í tösku þeirri, sem hann hafði meðferðis. Var þar um að ræða 2031 töflu af efninu MDMA (3.4 metýlendíoxímetýlamfetamínklóríð), öðru nafni E-töflur. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. sama mánaðar og hafður í haldi til 21. maí 1999, en frá þeim degi hefur hann einungis sætt banni við brottför frá Íslandi, er á var lagt þann dag með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var í Hæstarétti 27. sama mánaðar. Var bannið framlengt með ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní sl., sem staðfest var í Hæstarétti 2. júlí. Rannsókn af hálfu lögreglu og ríkissaksóknara á atvikum að öflun efnanna og flutningi þeirra hingað og fyrirætlunum um ráðstöfun þeirra beindist meðal annars að því, hvort fleiri menn væru við þetta riðnir, og hefur hún ekki leitt til sakargifta á hendur öðrum. Ákærði hefur frá öndverðu neitað nokkurri vitneskju um efnin eða ástæður þess, að þau komust í tösku hans.

Í málinu er ákærði sakaður um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, með því að hafa flutt fíkniefnin hingað til lands andstætt lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, í ágóðaskyni og vitandi um, að þau væru að verulegu leyti ætluð til sölu hér á landi. Málið var þingfest 8. janúar 1999 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem dómur var upp kveðinn 11. mars. Var ákærði þar sakfelldur samkvæmt ákærunni og dæmdur til refsivistar. Hann áfrýjaði málinu til Hæstaréttar með kröfu um ómerkingu dómsins eða um sýknu sér til handa. Laut fyrrnefnda krafan einkum að því, að héraðsdómari hefði ekki lagt nauðsynlegt mat á framburð eins helsta vitnisins í málinu, Guðmundar Inga Þóroddssonar.

Í dómi Hæstaréttar 20. maí sl. var á það fallist, að ályktun héraðsdómarans um framburð þessa vitnis yrði að skilja svo, að hann hefði afráðið að virða framburðinn að vettugi og leggja ekki mat á þýðingu hans í sambandi við sakargiftirnar á hendur ákærða, hvort heldur til hags eða óhags honum, heldur dæma um málið á grundvelli þeirra annarra gagna, sem fram væru komin. Framburðurinn laut þó að atvikum, sem máli gátu skipt um skýringu á atferli ákærða og þeim verknaði, sem honum var gefinn að sök. Með vísan til VII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var talið, að dómarinn hefði ekki átt að víkja þessum framburði til hliðar, heldur leggja mat á trúverðugleika og þýðingu hans og taka til hans rökstudda afstöðu eftir því mati, hliðstætt öðrum sönnunargögnum. Þessi héraðsdómur var því felldur úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Var dómaranum jafnframt talið rétt að kveðja tvo aðra héraðsdómara til dóms með sér við nýja meðferð málsins.

Með úrskurði 21. maí sl. ákvað héraðsdómarinn að eigin frumkvæði að víkja sæti í málinu á þeirri forsendu, að ákærði gæti dregið óhlutdrægni hans í efa, svo sem það væri nú statt. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar. Var málið falið þremur öðrum héraðsdómurum, sem hlýddu á framburð ákærða og vitna við nýja aðalmeðferð þess, og hafa þeir kveðið upp þann dóm, sem hér liggur fyrir.

II.

Ákærði er breskur ríkisborgari, en hefur að undanförnu verið búsettur á Spáni. Í málinu koma ekki fram ítarlegar upplýsingar um persónuhagi hans, en fyrir liggur, að hann starfaði hluta úr sumrinu 1998 sem dyravörður eða öryggisvörður á skemmtistað í Benidorm, sem fjölsóttur var af íslenskum ferðamönnum. Hafði hann nýlega látið af því starfi og ekki ráðist til annarrar vinnu, þegar hann gerði för sína til Íslands. Kveðst hann hafa verið hingað kominn í atvinnuleit. Hann kveðst ekki hafa átt fastan dvalarstað á Spáni við brottförina þaðan, þar sem leigutími íbúðar hans í Benidorm hefði runnið út tveimur dögum fyrr.

Á umræddum skemmtistað kynntist ákærði meðal annars vitninu Guðmundi Inga Þóroddssyni, sem rak eina af vínstúkum staðarins þetta sumar og bjó í íbúð í nágrenni Benidorm, þegar atvik málsins gerðust. Þar dvaldi þá einnig vitnið Sigurður Bragason, sem hafði bifreið til umráða.

Samkvæmt framburði Guðmundar Inga við aðalmeðferð í héraði 21. júní sl. veitti hann ákærða gistingu í íbúð sinni síðustu vikuna fyrir brottför hans frá Spáni, og segir ákærði, að hann hafi dvalið þar tvær nætur. Þeim ber saman um, að Guðmundur Ingi hafi séð um að panta fyrir ákærða flugfarið til Íslands, sem var á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu. Um frekari undirbúning ferðarinnar ber þeim ekki saman, en Guðmundur Ingi kveðst hafa samið um, að farseðill ákærða yrði afhentur honum á flugvellinum í Alicante gegn greiðslu við brottförina. Hann hafi síðan ekið ákærða út á flugvöllinn snemma morguns í bifreið Sigurðar Bragasonar, sem verið hafi með þeim, en þeir þrír hafi um nóttina verið á ferli í Benidorm. Jafnframt hafi hann gengið frá greiðslu á farseðli ákærða við fararstjóra ferðaskrifstofunnar, eftir að hafa fengið lán hjá íslenskum kunningja sínum fyrir upphæð, sem á vantaði. Er sú frásögn vitnisins staðfest af hálfu fararstjórans.

Guðmundur Ingi segir peninga þá, sem hann hafði til greiðslunnar, hafa verið frá sér komna, og hafi hann þannig lánað ákærða allt andvirði fargjaldsins. Ákærði segist hins vegar hafa fengið honum fé fyrir farinu daginn áður. Í héraðsdómi er ekki talið leitt í ljós, hvort réttara sé. Ennfremur hefur ákærði ekki viðurkennt, að Guðmundur Ingi hafi ekið sér á flugvöllinn, heldur kveðst hann hafa fengið þangað far með öðrum Íslendingi. Í héraðsdómi er þó við það miðað, að frásögn Guðmundar Inga sé réttari um þetta síðarnefnda, enda er hún studd framburði annarra vitna.

Fyrir dóminum skýrði Guðmundur Ingi Þóroddsson einnig frá því, á svipaðan hátt og við fyrri aðalmeðferð málsins, að hann hefði kvöldið fyrir brottför ákærða frá Spáni hringt í lögreglumann í Reykjavík, sem hann þekkti frá fyrri tíð, og boðið fram upplýsingar um flutning á fíkniefnum til Íslands í þeirri von að fá að njóta ívilnunar af hálfu lögreglunnar í eldra máli, sem beinst hefði að honum sjálfum. Í framhaldi af því hefði hann síðan átt símtal við lögreglumann í rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík og sagt honum, að ákærði væri á leið til landsins með fíkniefni daginn eftir. Lögreglumenn þessir staðfestu fyrir dóminum, að Guðmundur Ingi hefði sagt þeim frá ferð ákærða og gefið í skyn, að hann óskaði eftir einhverju á móti, en af þeirra hálfu hefði honum verið tjáð, að loforð um ívilnanir vegna þessarar vísbendingar kæmu ekki til greina. Einn þeirra kvaðst þó hafa sagt, að hugsanlega væri unnt að koma til móts við hann með peningagreiðslu. Hins vegar hafi lögreglan talið rétt að fylgja vísbendingunni eftir. Var ákvörðun tekin um að framkvæma leit á efnum í fórum ákærða við komu hans, svo sem gert var. Fyrir héraðsdómi viðurkenndi Guðmundur Ingi, að hann hefði talið sig hafa hagsmuni af því að segja til ákærða.

III.

Sem ferðamaður milli landa hlýtur ákærði sem aðrir að sæta því, að hann verði talinn bera ábyrgð á farangri sínum og því, sem í fórum hans kann að finnast, nema sérstakar ástæður leiði til annars. Sú staðreynd, að fíkniefni reyndust vera í vörslum hans við komuna til landsins getur þó ekki sjálfkrafa leitt til þess, að hann verði látinn bera refsiábyrgð á flutningi þeirra, þótt hún hljóti hins vegar að hafa áhrif á sönnunarstöðu í málinu.

Atvik máls þessa eru sérstæð að ýmsu leyti, en einkum vegna þess, að leitin í farangri ákærða fór fram í beinu tilefni af vísbendingu frá þeim manni, sem mesta aðstoð veitti honum við að komast til landsins. Samkvæmt framburði Guðmundar Inga Þóroddssonar hafði hann ekki aðeins veitt ákærða húsaskjól og ýmsan atbeina við undirbúning ferðar hans hingað, heldur hafði hann það nánast í hendi sér, hvort ferðin yrði farin þennan dag eða ekki. Eigi að síður var það hann, sem hafði samband við lögreglu hér á landi til að tilkynna henni, að fíkniefni myndu verða í farangri ákærða.

Við fyrri áfrýjun málsins var sá annmarki talinn vera á meðferð þess í héraði, sem fyrr segir, að dómari hefði ekki lagt mat á framburð þessa vitnis með viðhlítandi hætti. Eftir nýja meðferð málsins liggur nú fyrir dómur þriggja héraðsdómara, þar sem framburðurinn er metinn ásamt öðrum sönnunargögnum. Er álit dómaranna meðal annars á þann veg, að sú frásögn vitnisins, að ákærði hafi sagt sér frá því, að hann ætlaði að flytja fíkniefni til landsins og að það hafi séð hann koma þeim fyrir í tösku sinni, sé ekki trúverðug. Í héraðsdóminum segir réttilega, að meta verði framburð Guðmundar Inga í ljósi þeirra hagsmuna, sem hann taldi sig sjálfur eiga að gæta. Skilja verður dóminn svo, að mat á sönnunargildi framburðarins hafi ekki ráðist af þessu einu, heldur einnig af framkomu vitnisins fyrir dóminum og samanburði við annan framburð, sem á var hlýtt. Eru ekki efni til þess, eins og málið horfir við hér fyrir dómi, að draga niðurstöður matsins í efa.

Þegar þáttur vitnisins Guðmundar Inga er virtur ásamt öðru, sem fram er komið í málinu, og þrátt fyrir rangar staðhæfingar ákærða um ákveðin atriði í aðdraganda flugferðarinnar til Íslands, er ekki unnt að útiloka með öruggri vissu, að vitnið eða einhver á þess vegum hafi komið efnunum fyrir í farangrinum án vitundar ákærða. Verður að öllu athuguðu að fallast á það með héraðsdómi, að svo mikill vafi leiki á því, að ákærði hafi vitað af efnunum í farangri sínum, að dæma verði hann sýknan saka, en önnur sakargögn til viðbótar mati dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar nægja ekki til þess að hnekkja þeirri niðurstöðu, sbr. 46. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, og þá einnig að því er varðar upptöku umræddra fíkniefna og sakarkostnað í héraði.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, að meðtöldum málsvarnarlaunum, sem um er mælt í dómsorði. Til kostnaðarins telst einnig þóknun fyrir dómtúlkun við meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.


                                              

Sératkvæði

Arnljóts Björnssonar og

Hrafns Bragasonar

hæstaréttardómara

í hæstaréttarmálinu nr. 264/1999:

Ákæruvaldið

gegn

Kio Alexander Ayobambele Briggs

                                                    I.

Þegar ákærði kom til landsins 1. september 1998 fundust í tösku hans 2031 tafla af efninu metýlendíoxímetýlamfetamínklóríð (MDMA-klóríð). Hefur hann frá upphafi haldið því fram að efninu hafi verið komið þar fyrir án vitundar hans. Töflurnar voru í tveimur plastpokum, sem settir höfðu verið í rauðan og hvítan innkaupapoka úr plasti. Ekki fundust fingraför á umbúðunum.

Í töskunni, sem eingöngu var lokað með rennilás, var fatnaður og ýmsir aðrir persónulegir munir ákærða. Samkvæmt leitarskýrslu tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli voru fíkniefnin á botni töskunnar vafin inn í fatnað. Samkvæmt framburði ákærða og vitnisins Guðmundar Inga Þóroddssonar átti vitnið fatnað í töskunni, sem hann hafði lánað ákærða. Í vasa á íþróttabuxum, sem voru í töskunni, fundust tveir grófir uppdrættir, sem taldir eru sýna farangursmóttöku, fríhafnarverslun og tollskoðunarsvæði Leifsstöðvar. Ákærði kvaðst ekki eiga þessar buxur og taldi þær ekki passa á sig. Samkvæmt ljósmyndum og mælingum á buxunum geta þær þó verið mátulegar honum. Samkvæmt gögnum málsins verður ekkert fullyrt um hvort ákærði á buxurnar, en ekkert er fram komið um að vitnið Guðmundur Ingi hafi átt þær.

Fram er komið að vitnið Guðmundur Ingi gerði framangreinda uppdrætti að ákærða ásjáandi. Sagðist Guðmundur Ingi hafa gert þá að beiðni ákærða laugardagskvöldið fyrir brottför hans, þ.e. 29. ágúst 1998, og hafi þeir þá verið einir. Guðmundur Ingi kvaðst hvorki hafa teiknað örvar inn á uppdráttinn né ritað upplýsingar um fjarlægð frá farangursbandi að útidyrum. Á öðrum uppdrættinum er fríhafnarverslunarinnar getið sem “Shop“ en hinum sem “Shop Duty Free“. Í skýrslu ákærða hjá lögreglu 3. september 1998 bar hann að fyrrnefndur Guðmundur hefði teiknað uppdrætti þessa og hafi ákærði séð þá á borðinu hjá honum, þegar hann var að tala við kunningja sína, þá sem fóru til Íslands daginn eftir. Fyrir dómi bar ákærði einnig að hann hafi séð teikningarnar á borði í íbúð Guðmundar, þegar sá síðarnefndi hafi verið að tala við tvo eða þrjá aðra Íslendinga um þær. Þetta fólk hafi talað saman á íslensku. Hafi hann ekki vitað um hvað teikningarnar snérust. Hann hafi ekkert haft með þessi kort að gera eða þessar teikningar. Ósennilegt er að vitnið Guðmundur hafi gert teikningarnar með skýringum á ensku til afnota fyrir íslenska kunningja sína á Spáni, sem vafalaust þekkja vel til allra aðstæðna í komusal flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Rithandarkönnun tæknideildar rannsóknarlögreglunnar leiddi ekki í ljós hvort ákærði hefði ritað á uppdrættina. Vitnið Sigurður Bragason, sem dvaldist í íbúð vitnisins Guðmundar Inga á þessum tíma, kannaðist ekki við að hafa séð þessa uppdrætti. Ákærði kvaðst ekki vita hvað af uppdráttunum varð, fyrr en þeir komu í ljós í íþróttabuxunum.

Í héraðsdómi er frá því skýrt að vitnið Guðmundur Ingi Þóroddsson hafi tilkynnt lögreglu hér á landi í símtölum 31. ágúst og aðfaranótt 1. september 1998, að fíkniefni væru í fórum ákærða, sem þá væri væntanlegur til landsins með flugvél frá Spáni. Ekki er fullljóst hvað honum gekk til þessa, en svo sem nánar greinir í héraðsdómi hafði hann átt aðild að refsimáli, sem ólokið var hjá dómstólum. Afskiptum lögreglu af því máli Guðmundar var þá löngu lokið, en ákæra á hendur honum var gefin út 19. maí 1998. Refsimáli þessu lauk með dómi 14. október 1998, svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Hefur vitnið Guðmundur haldið fast við framburð sinn um málsatvik eftir að nefndu refsimáli lauk, meðal annars fyrir dómi 21. júní sl.

Héraðsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að frásögn vitnisins Guðmundar Inga um að uppdrættirnir hafi verið gerðir fyrir ákærða sé fremur ótrúverðug í ljósi þess að þeir fundust ekki á ákærða sjálfum. Þá hefur héraðsdómur talið frásögn vitnisins um að ákærði hafi sagt því að hann ætlaði að flytja töflurnar til landsins og að vitnið hafi séð hann koma þeim fyrir í töskunni ótrúverðugar í ljósi þess hvernig vörslum töskunnar var háttað dagana fyrir brottför ákærða.

                                                    II.

Verjandi ákærða hefur haldið fram að það sé ekki á valdi Hæstaréttar að endurmeta niðurstöður, sem byggðar séu á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað máli þessu í heild og er því héraðsdómur hér allur til endurskoðunar með þó þeim undantekningum, sem af lögum leiða. Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. og c. lið 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. og 19. gr. laga nr. 37/1994, getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Af þessum lagaákvæðum, og athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til síðastnefndu laganna, verður ályktað að Hæstiréttur geti metið hvort sönnun hafi tekist um sök ákærðs manns að því leyti sem niðurstaða verður reist á mati á öðrum gögnum en trúverðugleika munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi. Þótt þannig verði ekki hróflað við mati héraðsdóms á trúverðugleika framburðar um ákveðið atriði ber Hæstarétti að taka til endurskoðunar sönnunarmat héraðsdóms að öðru leyti og hvort sönnunarbyrði sé annars fullnægt. Fari mat héraðsdóms um trúverðugleika framburðar vitnis eða ákærða í bága við önnur gögn málsins, sem leggja verður til grundvallar, verður ekki við mat héraðsdóms unað. Hæstiréttur getur þó ekki lagt dóm á trúverðugleika framburðar með hliðsjón af framkomu ákærða eða vitna fyrir héraðsdómi.

Áður er fram er komið að vitnið Guðmundur Ingi lánaði ákærða einhver af þeim fötum, sem í töskunni voru. Eitthvað var því sett niður í hana um það leyti er ákærði var að fara úr íbúð vitnisins á Spáni. Eftir það var taskan, eftir því sem lagt var til grundvallar í héraðsdómi, og er samkvæmt framburði ákærða, vitnisins Guðmundar Inga og vitnisins Sigurðar Bragasonar, fyrst í læstri bifreið Sigurðar, en síðan í vörslum ákærða, þar til hann afhenti töskuna til innritunar sem farangur til flutnings í farangursrými flugvélarinnar. Ágreiningslaust er að flugferðin frá Alicante til Keflavíkurflugvallar var farin án viðkomu annars staðar.

Vitnið Guðmundur Ingi lýsti því að nokkru fyrir lögreglu hvernig búið var um fíkniefnin. Hann vissi því um tilvist þeirra og hvar þau voru. Fullsannað er, svo sem ráðið verður af héraðsdómi, þrátt fyrir aðrar fullyrðingar ákærða, að vitnin Guðmundur Ingi og Sigurður Bragason óku honum á flugvöllinn í Alicante og fyrrnefnda vitnið keypti farmiða fyrir hann hjá íslenskum fararstjóra á flugvellinum þar, svo og að ákærði fékk fargjaldið að hluta til lánað hjá vitninu Benóný Benónýssyni, en sá síðarnefndi hefur lagt fram gögn því til staðfestingar. Við niðurstöðu í máli þessu verður byggt á þeim framburði vitnisins Guðmundar Inga, sem á sér stoð í óvefengjanlegum framburði annarra vitna, svo og öðrum gögnum málsins.

                                                    III.

Þekkt er að þeir sem flytja fíkniefni til landsins bera því gjarnan við að þeir hafi ekkert vitað um tilvist þeirra í farangri sínum svo sem ákærði gerði. Hitt er einnig þekkt að fíkniefnum sé komið fyrir í farangri flugfarþega án vitundar þeirra. Verður ekki úr trúverðugleika frásagnar ákærða skorið nema að kanna sögu þá, sem hann sagði tollvörðum og lögreglu og síðan fyrir dómi. Ákærði hefur verið óstöðugur í skýrslum um ferðir sínar, dvalarstaði og hverja hann umgekkst síðustu daga fyrir förina til Íslands. Hann hefur neitað að skýra frá nafni stúlku, sem hann segir að hafi verið viðstödd, þegar hann bjó um farangur sinn fyrir Íslandsförina. Hann hefur ennfremur neitað að skýra frá dvalarstað sínum á Benidorm, utan þess er hann dvaldi í íbúð vitnisins Guðmundar Inga, og borið fyrir sig ástæður, er telja verður haldlitlar í ljósi þeirra alvarlegu viðurlaga, sem eru við því að flytja fíkniefni til landsins. Þá kemur frásögn hans um hvernig hann fékk farmiðann til Íslands ekki heim við það, sem telja verður fullsannað, svo sem ráðið verður af héraðsdómi. Frásögn hans um atvik á flugvellinum í Alicante, hvaða fólk hann hafði þar samband við og hverjir óku honum út á flugvöll er sama marki brennd, eins og fram kemur í niðurstöðukafla héraðsdóms.

Þegar ákærði kom til landsins var hann félaus utan þess að í tösku hans fundust 30 pesetar og 45 hollensk cent.  Hann var hvorki með greiðslukort né tékkhefti. Í fyrstu skýrslu ákærða hjá lögreglu 1. september 1998 kvaðst hann hafa verið með greiðslukort, en 3. september sagðist hann sennilega hafa gleymt því í íbúð sinni í Benidorm. Ítrekað aðspurður kvaðst hann ekki hafa vitað að hann væri ekki með greiðslukortið, fyrr en sér hefði verið sagt það við skýrslutökuna. Hinn 10. september skýrði hann lögreglu svo frá að hann væri skráður fyrir greiðslukorti, en neitaði að svara því hjá hvaða greiðslukortafyrirtæki það væri. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 25. september bar ákærði að greiðslukortið tilheyrði vinkonu sinni, sem hann vildi ekki að blandaðist í málið. Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að hann hefði ekki greiðslukort sjálfur, en hefði leyfi til að nota greiðslukort vinkonu sinnar, hvort sem hann væri einn á ferð eða í fylgd með henni. Aðspurður um hvort hann hefði ekki búist við að lenda í vandræðum með því að framvísa greiðslukorti annars manns svaraði hann því einu að þetta væri gullkort. Frásögn hans um greiðslukortið hefur þannig verið óstöðug og hvorki fullnægjandi né trúverðug.  Skýringar hans um hvernig hann hugðist nota kortið hérlendis eru fjarstæðukenndar.

Þegar ákærði var handtekinn var hann einn síns liðs og févana. Hann hafði ekki komið til Íslands áður og var vegalaus að því er hann hefur upplýst. Hingað kom ákærði klæðlítill án þess að þekkja til aðstæðna, með þær einu skýringar fyrst að hann ætlaði að dveljast hér sem ferðamaður, en síðan að hann ætlaði á sjóinn.

                                                    IV.

Þegar þess er gætt að verulegt magn fíkniefna fannst í fórum ákærða, og alls annars sem að framan er rakið, verður að telja að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sekt ákærða og sé hún hafinn yfir allan velígrundaðan vafa.

Brot hans þykir réttilega heimfært í ákæru. Með tilliti til sönnunaraðstæðna í málinu verður að leggja til grundvallar að ákærði hafi tekið að sér að flytja töflurnar til landsins fyrir aðra, þótt ekki sé upplýst hverjir það voru. Hann hefur ekki áður hlotið refsingu svo vitað sé. Við ákvörðun refsingar yrði að taka tillit til þessa, en þar sem meirihluti dómenda telur að með tilliti til sönnunaraðstæðna verði að sýkna ákærða eru ekki efni til í sératkvæði þessu að ákveða ákærða refsingu eða taka afstöðu til upptöku og sakarkostnaðar.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999.

Ár 1999, miðvikudaginn 30. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af héraðsdómurunum Ingibjörgu Benediktsdóttur, sem dómsformanni, Júlíusi B. Georgssyni og Sigurði Halli Stefánssyni, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2241/1998: Ákæruvaldið gegn Kio Alexander Ayobambele Briggs, sem tekið var til dóms 21. þ.m.

I.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 17. desember sl. á hendur ákærða, Kio Alexander Ayobambele Briggs, fæddum 4. september 1972 í Isling­ton, Bretlandi, „fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa, þriðju­daginn 1. september 1998, í ágóðaskyni flutt hingað til lands frá Alicante 2.031 töflu af MDMA (3.4 metýlendíoxímetamfetamín) sem ákærða var ljóst að voru að verulegu leyti ætlaðar til sölu hér á landi, en efnið fannst í tösku ákærða við komu hans til Keflavíkur. Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að framangreind ávana- og fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986. “

Dómur gekk í málinu 11. mars sl., en með þeim dómi var ákærði sakfelldur og dæmdur í fangelsi í 7 ár og jafnframt dæmdur til að þola upptöku á framangreindum töflum af MDMA og til greiðslu sakarkostnaðar og málsvarnarlauna. Málinu var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar Íslands 20. maí sl. var dómurinn ómerktur og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar. Ákærði sætti gæsluvarðhaldi frá 2. september 1998 til uppkvaðningar dóms Hæstaréttar. Hann var úrskurðaður í farbann 21. maí sl. þar til dómur gengur á ný í málinu, en þó eigi lengur en til 15. september nk. Með dómi Hæstaréttar 27. maí sl. var úrskurðurinn staðfestur. Héraðsdómari sá, sem fór með og dæmdi málið vék sæti með úrskurði 21. sama mánaðar. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Í kjölfarið fékk dómsformaður mál þetta til meðferðar og kvaddi hann með sér tvo héraðsdómara svo sem Hæstiréttur lagði fyrir í ofangreindum dómi sínum. Vegna dvalar sækjanda og verjanda erlendis gat aðalmeðferð ekki farið fram fyrr en 21. þ.m.

II.

Þriðjudaginn 1. september sl. kom ákærði með flugvél til Keflavíkurflugvallar frá Alicante á Spáni. Hafði hann með sér farangur í allstórri Nike íþróttatösku með rennilás, sem flutt hafði verið í farangursrými flugvélarinnar. Við tollskoðun fannst í henni pakki sem innihélt 2031 „ecstasy“-töflu með efninu metýlendíoxímetamfetamín (MDMA) sem er bannað hér á landi, sbr. reglugerð nr. 16, 1986 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna. Töflurnar reyndust vega 290 – 295 mg. hver og í hverri þeirra voru 80 – 81 mg. af efninu metýlendíoxímetýlamfetamínklóríð. Eru töflurnar því nokkuð undir meðalstyrkleika, sem talinn er vera um 100 mg. Fyrir liggur að efni þetta er meðal hættulegustu fíkniefna sem í umferð eru. Töflur þessar voru í tveimur plastpökkum sem aftur var pakkað inn í rauðan og hvítan innkaupapoka, einnig úr plasti. Ekki fund­ust fingraför á umbúðunum og kannaðist ákærði ekki við töflurnar, kvaðst aldrei hafa séð þær áður. Í töskunni var fatnaður og skór, bækur og aðrir per­sónulegir munir. Þar á meðal voru síðar íþróttabuxur sem ákærði hefur ekki kannast við að eiga. Í vasa á þeim fundust tveir bréfmiðar með riss­myndum sem talið hefur verið að séu af „komusal“ í flugstöðinni á Keflavíkurflug­velli. Ákærði var með nokkra spænska peseta á sér en ekki aðra fjármuni eða greiðslu­kort. Í frumskýrslu Elíasar Kristjánssonar deildarstjóra Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, kemur fram að ákærði var færður til tollskoðunar í leitarklefa. Hann hafi sagt að hann væri að koma til landsins sem ferðamaður, óvíst í hve langan tíma, og ætlaði að gista á hóteli. Ákærði er breskur ríkisborgari en hefur gefið upp heimilisfang í Madrid.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sök og sagt að hann hafi ekki vitað af fíkni­efnunum í íþróttatöskunni.

Í skýrslu, sem ákærði gaf hjá lögreglunni í Reykjavík síðar um komudaginn og hann hefur staðfest fyrir dómi, kvaðst hann hafa búið á Beni­dorm og tilgreindi heimilisfang þar sem reyndist vera heimilisfang tveggja íslenskra manna, sbr. hér á eftir. Kvaðst hann hafa unnið sem öryggisvörður í diskóteki á Benidorm. Kvaðst hann hafa pakkað niður í töskuna í íbúð sinni á Benidorm ásamt vinstúlku sinni tveim dögum áður en hann fór til Íslands. Hann hafi svo skilið töskuna eftir í íbúðinni og brugðið sér frá. Engir aðrir en þau tvö hafi haft aðgang að íbúðinni. Seinna hafi hann tekið töskuna og farið á strætisvagnastöð þar sem hefði verið fjöldi manns, bæði Íslendingar og Spánverjar. Hann hafi þurft að bregða sér í símann og skilið töskuna eftir á gólfinu meðan hann talaði í símann og gætu það hafa verið tíu mínútur. Þegar hann kom í flugstöðina hafi hann skilið töskuna eftir meðan hann brá sér á salerni. Í bæði skiptin hafi taskan verið eftirlitslaus og ólæst. Hann hafi veitt því eftirtekt í flugstöðinni að búið var að færa töskuna og að annar farangur hafi verið þar hjá henni. Ákærði kvaðst hafa komið hingað í atvinnuleit og ætlað að reyna fyrir sér í sjómennsku. Hann hafi hitt íslenska sjómenn á Spáni sem hafi sagt honum að hann gæti unnið sér inn góð laun á sjó. Hann kvaðst enga Íslendinga þekkja persónulega heldur aðeins hitt fólk sem kom til Spánar í frí. Hann kvaðst hafa keypt farseðilinn á ferðaskrifstofu í Benidorm fyrir 40.000 peseta. Hann hafi verið með lítið af peningum á sér en hins vegar með greiðslukort. Aðspurður um það hvort hann noti fíkniefni sagði ákærði: „Nei, og hef aldrei gert. Ég stunda hnefaleika og nota ekki efni. Ég stunda mína vinnu en nota ekki fíkniefni. Ég hef aldrei setið í fangelsi og hef hreina sakaskrá.“

Ákærði gaf aðra skýrslu hjá lögreglunni 3. september sl. Yfirheyrslan fylgir málinu á myndbandi sem dómurinn hefur skoðað. Þar kom fram hjá ákærða, er honum hafði verið skýrt frá því að í farangri hans hefðu fundist einungis nokkrir pesetar og ekkert greiðslukort, að hann teldi að hann hefði gleymt greiðslukortinu heima hjá sér. Þá skýrði hann frá því að hann hafi kynnst Íslendingi sem kallaður væri Gummi og ræki bar á diskóteki. Gummi hafi selt sér farseðilinn á 40.000 peseta þar sem hann ætlaði ekki að nota hann og látið ferðaskrifstofu, sem rekin er í einu hótelinu þarna, breyta nafninu á farseðlinum. Gaf ákærði þá skýringu á þessum breytta framburði sínum að lög­gæslumenn hafi spurt sig fyrir hvern hann væri að vinna og hann óttast að lögreglan teldi að hann hefði verið að flytja efnið fyrir þennan Gumma ef hann hefði sagt að Gummi hefði aðstoðað hann. Þá sagði ákærði að hann hafi dvalist í íbúð Gumma síðustu tvo dagana áður en hann flaug hingað. Þar hafi verið fleiri Íslendingar, um fimm talsins, sem einnig voru á leið hingað. Það hafi verið eins og allir, sem voru á leið til Íslands, þyrftu að koma til Gumma. Þá sagði ákærði efnislega þetta: Ég óska eftir því að skýra frá öllu í sambandi við þetta mál og óska eftir því að samvinna mín verði til þess að ég fái vægari dóm. Hann tók fram að hann hafi ekki sett fíkniefnin í tösku sína. Þá sagði hann frá því að hann hafi heyrt Gumma tala um það að á Íslandi væri margt fólk sem ræki diskótek eða plötuútgáfu og væri alltaf til í að kaupa mikið af pillum. Ef til vill hefði Gummi eða einhver vina hans sett töflurnar í töskuna. Maður að nafni Benni hafi sagt sér að Gummi og vinir hans væru alltaf teknir í leit hjá tollgæslunni þegar þeir kæmu til Íslands. Kvaðst hann telja að Gummi eða einhver þeirra sem í íbúðinni voru hafi laumað þessu í töskuna í þeirri von að ekki yrði leitað hjá honum. Hann kvað mikla fíkniefnaneyslu hafa átt sér stað þarna í íbúð­inni og menn þar verið að tala um að þeir hafi sent fíkniefni í pósti til Íslands. Ákærða var sýnt ljósrit af miðunum sem fundust í buxnavasa í tösku hans. Hann kvaðst ekki eiga íþróttabuxurnar, sem miðarnir voru í, og ekki heldur þær stuttbuxur, sem voru vafðar utan um fíkniefnin sem voru í töskunni. Hann kvaðst ekki hafa fengið miðana afhenta en aftur á móti hafi hann séð Gumma rissa á þá og hafi hann þá verið að tala við kunningja sinn sem fór heim til Íslands daginn eftir. Þeir hafi talað íslensku og hann ekki skilið hvað þeim fór á milli. Gæti hann ekki sagt hvað þessar teikningar þýddu. Ákærði var spurður af hverju hann hafi komið hingað félaus og aðeins með léttan klæðnað og sagði sem fyrr að hann hafi talið sig vera með greiðslukort sitt þegar hann kom til landsins. Kvaðst hann eins hafa átt von á því að honum líkaði ekki vinnan, yrði sjóveikur og þess háttar. Annars hafi hann ætlað að dveljast hér á landi í tíu mánuði. Auk þess hafi honum skilist að hér á landi væri sjómönnum útveguð hlífðarföt. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um aðstæður hér frá íslenskum sjómönnum, sem hann hafi hitt á Spáni, og álitið að ef hann færi niður á bryggju fengi hann vinnu og þar með peninga. Hann ítrekaði að hann hafi ekki vitað betur en að hann væri með kreditkortið meðferðis og ekki hafa komist að því fyrr en við yfirheyrsluna að svo var ekki. Þá sagðist hann hafa treyst Gumma.

Ákærði gaf enn skýrslu í málinu 10. september. Hann var spurður hver stúlkan væri sem hafi hjálpað honum að pakka niður. Hann sagðist ekki mundu skýra frá nafni hennar eftir þá meðferð sem hann hafi fengið hjá lögreglunni. Þá sagðist hann ekki muna heimilisfangið þar sem hann gekk frá farangri sínum. Hann breytti svo framburði sínum um þetta og sagðist ekki vilja gefa upp þetta heim­ilis­fang þar sem hann óttaðist að lögreglan myndi áreita saklausa vini hans sem hafi skotið yfir hann skjólshúsi. Hann kvað það heimilisfang sem hann hafi gefið upp vera heimilisfang Gumma þar sem hann hafi búið tvo síðustu dagana fyrir brott­förina. Hann kvaðst vera skráður fyrir greiðslukortinu sem hann hafi verið með en neitaði að svara hvaða fyrirtæki hafi gefið það út. Aðspurður kvaðst hann undanfarin ár hafa starfað við öryggisvörslu, verið útkastari á diskótekum, tekið þátt í að skipu­leggja tónleika, unnið við blaðamennsku og verið atvinnumaður í amerískum fótbolta. Þá skýrði ákærði ítarlegar frá athöfnum sínum síðustu dagana fyrir ferðina hingað til lands. Hann kvaðst hafa ætlað að fara til Íslands og dveljast þar í tíu mánuði. Hann hafi verið að ræða þetta við Gumma og sagt að hann yrði að kaupa farmiða báðar leiðir og sagt að það væri dýrt. Gummi hafi þá boðið sér farmiða sem hann ætti og gilti aðra leiðina og hann þyrfti ekki að nota. Kvaðst ákærði hafa keypt af honum mið­ann daginn áður en hann fór til Íslands. Hann hafi farið með farangur sinn til Gumma milli klukkan 10 og 12 að kvöldi 30. ágúst. Gummi hafi verið heima og annar Íslendingur sem hafi verið sofandi, en hann viti ekki hvað hann heitir. Kvaðst hann hafa farið þaðan á nætur­klúbb og skilið farangurinn eftir og ekki komið aftur heim til Gumma fyrr en um morguninn. Þá hafi verið þar nokkrir Íslendingar sem hann þekkti ekki. Taldi hann að einn þeirra ætti buxurnar með miðunum sem fundust í tösku hans við komuna til landsins. Kvaðst hann hafa lagt sig í sófa en farangurinn hafi verið inni í svefn­herbergi. Hann hafi ekki dvalist þarna lengi og farið út til þess að fá sér að borða og þegar hann kom aftur hafi fólk verið þarna ennþá. Vinstúlka hans hefði verið í för með honum og þau farið aftur og hann hafi ekki komið þar aftur fyrr en um klukkan fimm morguninn eftir og þá tekið töskuna. Kunningi Gumma hafi ekið sér út á flugvöll. Það hafi atvikast þannig að hann hafi ætlað með rútu á flugvöllinn en hitt þennan kunningja fyrir tilviljun á rútustöðinni og beðið hann um að aka sér þangað. Kunninginn hafi einmitt verið á leið út á flugvöll. Hann gat ekki sagt nein deili á þessum manni en taldi að hann væri íslenskur. Hann hafi séð hann á tali við Gumma en ekki séð hann heima hjá honum. Þeir hafi aðeins verið tveir í bílnum. Eftir að út á flugvöllinn kom hafi hann sest niður, síðan farið á salerni og eftir það farið í síma til þess að hringja. Hann hafi svo skráð sig inn og skilað farangrinum. Hann kvaðst hafa verið einn á flugvellinum, ekki hitt Gumma og ekki muna hvort hann talaði við nokkurn mann þar.

Fyrir dómi hefur ákærði haldið fast við það að hann hafi komið hingað til lands í þeim tilgangi að fá sér vinnu á fiskiskipi. Þetta sumar hafi hann hitt þó nokkurn fjölda íslenskra sjómanna á diskótekinu Q í Benidorm þar sem hann hafi verið yfirmaður öryggismála. Sjómennirnir hafi sagt að maður gæti aflað tekna sem næmu allt að 2 milljónum króna á 3-6 mánuðum ef aflabrögð væru góð. Ætlun hans hafi því verið sú að vinna hér í að minnsta kosti einn vetur og sjá hvernig hlutirnir gengju. Framkvæmdarstjóri íslenska barsins á diskótekinu, Guðmundur Ingi Þóroddsson, hafi sagt sér að hann ætti annarrar leiðar farseðil til Íslands. Það hafi verið miklu ódýrara fyrir sig að kaupa þennan miða af honum þar sem hann hafði ekki haft áætlanir um það að koma strax aftur til Spánar. Því hafi hann keypt miðann af Guðmundi. Leigutími íbúðar hans í Benidorm hafi runnið út tveimur dögum áður en hann fór til Íslands. Hann hafi nefnt þetta við Guðmund af því að hann hefði sagt áður að hann gæti dvalist í íbúð sinni. Hann hafi pakkað farangri sínum í íþróttatösku að viðstaddri vinkonu sinni og farið í íbúð Guðmundar með töskuna sem hafi verið ólæst. Hann hafi ekki pakkað neinu síðar nema e.t.v. stuttbuxum sínum og ermalausum bol. Ákærði kvaðst hvorki kannast við fíkniefnin, sem voru í tösku hans við komu til landsins, né pakkann sem var utan um þau. Hann kvaðst enga skýringu hafa á því hvernig pakkinn komst í töskuna en kvaðst geta ímyndað sér að annaðhvort Guðmundur eða einhver, sem var í íbúðinni, hafi sett pakkann með eiturlyfjunum í töskuna. Lögreglumaðurinn sem leitaði í farangrinum hafi farið rakleiðis á þann stað þar sem eiturlyfin voru og sér hafi virst sem hann hafi vitað hvar þau voru. Hann kvaðst heldur ekki kannast við grænan íþróttabol sem lögreglan hafi tekið upp úr töskunni. Þegar hann hafi séð lögregluna taka bolinn upp úr töskunni hafi hann gert sér grein fyrir að einhver hefði farið í töskuna sína því bolurinn væri allt of lítill á sig. Hann kannaðist heldur ekki við síðar, bláar íþróttabuxur, sem voru í töskunni; þær væru allt of stórar. Framburður hans um meðferð hans á töskunni frá því er hann kom með hana í íbúð Guðmundar og þangað til hann sá hana við komuna til landsins var á sama veg og við rannsókn málsins.

Ákærði kvaðst hafa séð uppdrátt þann, sem virðist vera af komusal í flugstöð Leifs Eiríkssonar, í íbúð Guðmundar, en ekki hafa hugmynd um hvað teikningarnar snerust. Hann kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að buxurnar, sem teikningarnar fundust í, hafi verið í töskunni við komu hans til landsins og því síður hafi hann vitað að þær voru í farangri hans. Guðmundur hafi rætt í íbúð hans við tvo eða þrjá Íslendinga um þessar teikningar. Þeir hafi talað saman á íslensku. Margir Íslendingar hafi komið á þessum tíma í íbúðina og einhverjir dvalist þar. Hann hafi verið mjög stutt í íbúðinni, hann hafi verið að ganga frá ýmsum málum, ganga frá leigunni á íbúðinni sinni o.þ.h. Ákærði sagðist ekki hafa verið með reiðufé á sér við komuna til landsins. Hann hafi talið sig vera með greiðslukort vinkonu sinnar á sér, sem hann hafi haft heimild til að nota. Hann hafi ekki viljað nefna þetta í fyrstu þar sem þessi kona væri þekkt á Spáni og nýlega skilin. Hún hafi verið honum hjálpleg og hann hafi ekki viljað blanda henni í þetta mál. Ákærði kvaðst hins vegar ekki eiga greiðslukort sjálfur. Kvaðst ákærði hafa ætlað að koma sér sjálfur til Reykjavíkur frá flugstöðinni og ætlað að nota greiðslukortið til að greiða fargjaldið. Hann hafi ekki átt von á því að verða sóttur. Hann hafi svo haft í hyggju að gista á einhverju ódýru gistiheimili í nokkra daga. Sjómennirnir hafi tjáð honum að það væri nóg að fara niður á höfn og gefa sig fram til vinnu, sem ætti að geta hafist innan fárra daga. Hann kvaðst enga reynslu hafa af sjómennsku, en hann hafi starfað á sjó og sér hafi verið sagt að væru menn sterkir og reiðubúnir að starfa væri ekkert vandamál að fara á sjóinn. Hann kvaðst engar skýringar hafa á þeim framburði vitnisins Guðmundar Inga að hann hafi séð ákærða pakka niður fíkniefnum áður en hann fór hingað til lands. Hann kvaðst ekki hafa verið vinur Guðmundar, en hann hafi boðið sér að fyrra bragði að dveljast hjá sér. Eftir á að hyggja hafi sér fundist eins og hann hafi þrýst á sig að gista hjá honum.

Framburður ákærða um för sína út á flugvöllinn í Alicante og bið sína þar var í meginatriðum á sama veg og við rannsókn málsins. Hann kvaðst hafa fengið far með Íslendingi, sem búi langt fyrir utan Benidorm. Hann hafi oft hitt þennan mann áður á Íslendingabarnum á diskótekinu. Maðurinn hafi verið á gömlum bíl og verið á leiðinni heim. Hann hafi boðið sér far þegar ákærði sagði honum að hann væri að fara út á flugvöll. Þennan mann hafi hann hins vegar ekki séð í íbúð Guðmundar. Mikil biðröð Íslendinga hafi verið á flugvellinum og hann stillt sér upp í þá biðröð. Hann hafi haldið á töskunni og skilið hana eftir við biðröðina í eitt skipti, þegar hann fór að hringja í móður sína og son, og farið svo aftur í röðina. Hann kvaðst engan hafa hitt á flugvellinum sem hann þekkti, hvorki Guðmund né aðra.

Ákærði kvaðst hafa greitt Guðmundi farseðilinn í reiðufé tveimur dögum fyrir brottförina. Þeir hafi þá verið í bíl fyrir utan ferðaskrifstofuna. Þeir hafi orðið samferða í bæinn, ákærði hafi farið að versla en Guðmundur farið með miðann inn á ferðaskrifstofuna. Guðmundur hafi því séð um að ganga frá skriffinnskunni í kringum þetta, breyta nafninu á miðanum frá hans nafni yfir í sitt. Um það hafi verið samkomulag að ákærði myndi svo fá farseðilinn afhentan á flugvellinum hjá starfsmanni ferðaskrifstofunnar. Hann hafi fengið farmiðann afhentan við afgreiðsluborðið þar sem hann skráði sig fyrir brottförina.

Ákærði sagði að hann hafi ekki verið illa staddur fjárhagslega er hann kom hingað til lands. Hann hafi haft um 220.000 - 250.000 íslenskar krónur á mánuði yfir aðalferðamannatímann, tvo til tvo og hálfan mánuð. Mestar tekjur sínar færu hins vegar til framfærslu barnsmóður sinnar og sonar síns. Ákærði kvað það rangt að hann hafi sagt við tollverði við komuna til landsins að hann væri að koma sem ferðamaður. Hann kvaðst ekki muna hvað hann sagði þeim. Sjómennirnir, sem hann hitti á Spáni, hafi sagt sér að þar sem hann hefði ekki atvinnuleyfi yrði hann rekinn til baka ef hann segði að hann væri í atvinnuleit. Hann kvaðst ekki hafa vitað að sem breskur þegn gæti hann leitað vinnu hvar sem er á evrópska efnahagssvæðinu. Hann kvaðst alltaf stunda vinnu á öðrum stöðum á veturna en á sumrin.

Ákærði kvaðst aldrei hafa notað fíkniefni og neita áfengis í hófi. Hann neitaði því að hann hefði verið við áfengisdrykkju með Guðmundi í íbúð hans. Hann kvaðst hvorki vita hvort Guðmundur hafi verið viðriðinn fíkniefni né hvort fíkniefnaneysla hafi verið í íbúðinni, en sumt hafi bent til þess síðarnefnda. Stúlka sem vann á barnum hjá Guðmundi hafi hins vegar varað hann við Guðmundi, sagt honum að vera varfærinn ef hann ætlaði að dveljast í íbúð hans.

III.

Verður nú gerð grein fyrir framburði vitna við rannsókn málsins og meðferð þess.

Guðmundur Ingi Þóroddsson kvaðst hafa starfað síðastliðið sumar sem veitingamaður á Benidorm og leigt íbúð í bænum Calpe, sem er um 20 km frá Benidorm. Margir hafi dvalist hjá honum en aldrei fleiri en 3-4 á sama tíma. Hann hafi kynnst ákærða, sem hafi verið dyravörður á diskóteki í Benidorm. Guðmundur kvaðst reka þar einn af börunum. Ákærði hafi verið rekinn úr vinnu vegna slagsmála og illrar meðferðar á gestum staðarins og þá fengið að gista um vikutíma hjá sér í lok ágúst. Hann hafi verið húsnæðis- og peningalaus og beðið sig um gistingu. Hann hafi ekki kunnað við að neita þessari bón. Á þessum tíma hafi Sigurður Bragason einnig verið hjá sér ásamt öðrum Íslendingi, Einari Vali, sem hafi aðeins gist þar í 2-3 nætur. Hann kvaðst hafa lánað ákærða peninga fyrir farmiðanum til Íslands. Ákærði hafi rætt um það frá því fyrr um sumarið að hann langaði að koma hingað til lands. Hann hafi sagt að einhverjir hafi tjáð sér að unnt væri að fá há laun við sjómennsku. Ákærði hafi beðið hann að lána sér fyrir fargjaldinu um viku fyrir brottförina og kvaðst Guðmundur hafa ætlað að reyna að lána honum fyrir því. Kvaðst Guðmundur hafa átt um helming upp í fargjaldið og hringt til ferðaskrifstofu í Reykjavík, Plúsferða, og pantað fyrir hann flugið. Þar hafi hann fengið þær upplýsingar að flugmiðinn yrði tilbúinn í flughöfninni daginn eftir.

Guðmundur sagði að ákærði hafi sagt sér nokkrum dögum fyrir brottförina að hann ætlaði að flytja fíkniefni með sér hingað til lands. Það hafi verið skömmu eftir að hann lofaði að lána honum fyrir fargjaldinu. Hann hafi hvorki tjáð sér hvaða fíkniefni þetta væru, hvar hann hafi fengið þau né hvað hann ætlaði að gera við þau. Hann hafi heldur ekki rætt um að hann væri í tengslum við einhverja við þennan innflutning. Neitaði Guðmundur að hann hafi átt þátt í innflutningi efnanna. Hann kvaðst hafa séð töflurnar kvöldið áður en ákærði kom hingað til lands. Ákærði hafi verið að skoða pakkana og pakka þeim niður í töskuna. Þetta hafi verið ljósar töflur, í tveimur loftþéttum glærum pakkningum, sem settar voru saman í einn poka. Ákærði hafi vafið fötum utan um pokann og sett niður í farangur sinn, bláa íþróttatösku. Hann hafi svo sett önnur föt ofan á pokann. Ákærði hafi geymt töskuna í herbergi sínu, ólæstu. Þeir hafi verið að skemmta sér í Benidorm um nóttina. Ákærði hafi verið búinn að pakka farangrinum og tekið töskuna með í bílinn og verið með hana þar í aftursætinu. Þeir hafi læst bílnum þegar þeir fóru út úr honum á Benidorm og ákærði hafi skilið töskuna eftir í bílnum. Snemma um morguninn hafi þeir svo ekið heim til Calpe til að skipta um föt og í framhaldi þess hafi þeir Sigurður ekið ákærða út á flugvöll. Þá hafi starfsfólk ferðaskrifstofunnar ekki verið komið með farþega sína. Ákærði hafi því lagt sig í sófa, sett töskuna undir höfuðið og sagst ætla að leggja sig þangað til fararstjórarnir kæmu, en þeir Sigurður farið í kaffiteríuna og beðið uns fararstjórarnir komu. Hann hafi talað við einn þeirra, Ragnheiði. Hann hafi ætlað að kaupa miðann hjá henni, en ekki átt nema fyrir helmingi fargjaldsins. Hann hafi spurt hvort ekki væri í lagi að skilja vegabréfið sitt eftir í einn dag til tryggingar greiðslu eftirstöðvanna en hún hafi ekki fallist á það. Við svo búið hafi hann rætt við félaga sinn, Benoný Benonýsson, sem kallaður er Benni, sem hafi lánað honum peningana. Benoný hafi verið á leiðinni heim til sín úr sumarfríi og þeir hafi hist í flugstöðinni. Hann hafi sagt Benóný að ákærði væri að fara til Íslands í atvinnuleit og lofað honum að greiða honum skuldina er hann kæmi heim til Íslands Hann hafi fengið nægilegt fé hjá Benóný til að geta greitt allan farseðilinn og afhent ákærða hann. Að svo búnu hafi ákærði farið í gegnum tollinn og leiðir þeirra skilið. Ákærði hafi beðið sig að bjarga sér um far til Reykjavíkur og beðið sig að hringja heim til Íslands. Hann hafi því hringt kvöldið áður í félaga sinn, Gunnar Örn Haraldsson, og spurt hvort hann gæti náð í hann, sem ekki hafi reynst vera. Ákærði hafi staðið yfir sér á meðan hann hringdi.

Guðmundur kvaðst hafa lánað ákærða eitt handklæði og nokkra boli áður en ákærði fór til Íslands, þar sem föt hans voru í hreinsun. Kannaðist hann við tvo boli á munaskrá lögreglu, sem voru í tösku ákærða við komuna til Íslands. Guðmundur kannaðist einnig við teikningarnar tvær sem fundust í farangri ákærða og kvað þær vera af komusal í Leifsstöð. Kvaðst hann hafa teiknað þetta að beiðni ákærða laugardaginn fyrir brottför hans. Ákærði hafi sagst vera að fara í fyrsta skipti til Íslands og hafi viljað vita hvar hann næði í töskurnar, hvar tollurinn væri og hvar hann ætti að ganga út. Þeir hafi verið tveir í íbúðinni þegar hann dró upp teikningarnar. Hann hafi skilið þær eftir á stofuborðinu í íbúðinni og ekki séð þær síðan.

Guðmundur kvaðst hafa haft samband við lögreglu kvöldið fyrir brottförina, um miðnætti að því er hann minnti, og tilkynnt að von væri á ákærða með fíkniefnin. Hann hafi gefið upp nafn hans og lýsingu á honum, að því er hann minnti. Hann hafi hringt úr farsíma í Einar Ásbjörnsson lögreglumann, sem hann hafi þekkt í nokkur ár. Nánar um kynni þeirra sagði ákærði að Einar væri kunningi sinn. Hann hafi meðal annars hitt hann oft á lögreglustöðinni í Grafarvogi þar sem hann vandi komu sínar meðal annars vegna starfs síns. Hann hafi einnig hitt hann á förnum vegi og verið með honum í „partýi“. Um tilefni þess að hann hringdi í Einar sagði hann að Einar hafi verið búinn að bjóða sér nokkrum sinnum, fyrst í apríl-maí, að hann myndi sjá til þess að tiltekið sakamál á hendur Guðmundi, sem nú hefur verið dæmt, myndi falla niður gegn því að hann veitti upplýsingar um fíkniefni sem kynnu að verða flutt inn til landsins frá Spáni. Kvaðst Guðmundur hafa verið áður í fíkniefnaneyslu og því bærist honum vitneskja um ýmis fíkniefnamál, en hann þvertók fyrir að hann tengdist þeim að öðru leyti. Hann kvað þá Einar hafa hist í apríl-maí á Íslandi og Einar sagt „að hann gæti nú gert ýmislegt“. Hann mundi ekki nánar hvar fundum þeirra bar saman. Það hafi verið í Reykjavík og ekki í tengslum við störf Einars. Einar hafi svo hringt síðar að eigin frumkvæði utan til sín, a.m.k. tvisvar, og lofað sér að hann gæti látið málið niður falla og innt sig eftir því hvort hann „vissi eitthvað eða væri með eitthvað“. Í sama símtali og hann tilkynnti Einari um komu fikniefnanna hafi hann spurt hann hvort boð hans um að fella niður mál hans stæði enn, hvort hann hefði áhuga á málinu. Hann hafi svarað því játandi, en sagt að fyrst ætlaði hann að ræða við Ásgeir, yfirmann fíkniefnadeildarinnar. Einar hafi svo, að hann minnti, hringt síðar og spurt hvort hann mætti gefa Ásgeiri símanúmerið hjá honum svo að Ásgeir gæti rætt sjálfur við hann. Ásgeir hafi svo hringt í sig síðar, eftir miðnætti, og aðspurður hafi hann lofað að umrætt mál myndi falla niður.

Guðmundur sagði að tilgangur sinn með þessari upplýsingagjöf hafi fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir að fíkniefnin bærust til Íslands en sér hafi fundist sjálfsagt að reyna í leiðinni að fá umrætt mál fellt niður. Af hræðslu við ákærða hafi hann ekki þorað að segja honum að ef hann færi með efnin til Íslands myndi hann tilkynna það lögregluyfirvöldum. Ákærði væri stór og skapvondur og honum orðið tíðrætt um að hann hafi lent í hnífaslagsmálum.

Guðmundur kvaðst hafa hringt á skrifstofu Árna Þórs Sigmundssonar, lögreglumanns í fíkniefnalögreglunni, sem væri kunningi sinn, daginn sem ákærði kom til Íslands, og rætt við hann. Hann hafi hringt í hann þar sem ekkert hafi heyrst frá Einari eða Ásgeiri og hann ekki náð símsambandi við þá. Árni Þór hafi sagt að ákærði yrði handtekinn. Árni Þór hafi nefnt að hann hafi rætt við Ásgeir um hvort unnt væri að semja við ákærða, en of seint hefði verið að semja um málið því það væri komið fyrir dómstóla. Ásgeir hafi svo hringt í sig sama dag eftir handtöku ákærða. Í samtalinu við Árna eða Ásgeir hafi hins vegar komið fram að upplýsingar ákærða um fíkniefnin væru góðar „upp á framtíðina að gera“.

Guðmundur kvaðst fyrst hafa kynnst ofangreindum lögreglumönnum er hann var með fyrirtæki á árunum 1992-1993, sem seldi tilbúinn mat í fyrirtæki, meðal annars á lögreglustöðvarnar í Grafarvogi og Breiðholti. Hann hafi svo rekið öryggisþjónustu árin 1994 og 1995 og þá hafi hann stundum verið á æfingum með lögreglunni í Grafarvogi og slökkviliðinu.

Guðmundur harðneitaði því að hafa átt þátt í innflutningi fíkniefnanna. Hann kvaðst ekki neyta fíkniefna og ekki selja fíkniefni. Hann kvað það rangt að mikill umgangur fólks hafi verið í íbúð sinni á meðan ákærði bjó þar. Það hafi einvörðungu verið þeir Sigurður og Einar Valur, sem þarna voru auk ákærða þessa daga, og þeir hafi ekki verið í fíkniefnaneyslu.

Vitnið Sigurður Bragason kvaðst hafa kynnst Guðmundi í fyrra á Benidorm. Þeir hafi þá afráðið að taka saman á leigu íbúð fyrir utan bæinn, í Calpe. Guðmundur hafi greitt leiguna af íbúðinni, en Sigurður kvaðst hafa verið á bíl sem Guðmundur fékk í staðinn að njóta góðs af. Hann staðfesti að ákærði hafi búið í íbúðinni og kvaðst telja að hann hafi dvalist þar í 4 daga. Ákærði hafi verið þar í herbergi án læsingar. Hann kvaðst hvorki hafa orðið var við fíkniefni hjá ákærða né öðrum í íbúðinni og heldur ekki séð umræddan uppdrátt af komusal flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Hann fullyrti að ekki hafi verið miklar gestakomur í íbúðinni þessa daga. Sigurður sagði að sér hafi verið kunnugt um fyrirætlanir ákærða um að fara til Íslands einum eða tveimur dögum áður og hafi tilgangurinn verið að fara á sjó. Ákærði hafi meðal annars spurt hann um höfnina í Reykjavík og hve langt væri þangað. Hann hafi ekki vitað að ákærði væri með fíkniefni er hann fór hingað til lands. Þeir Guðmundur hafi farið með ákærða umræddan morgun út á flugvöll í bifreið sinni, sem Guðmundur hafi ekið. Kvöldið áður hafi þeir þrír farið á bílnum til Benidorm að skemmta sér. Ákærði hafi verið tilbúinn til brottfarar og tekið með farangur sinn, tösku. Kvaðst Sigurður hafa læst bílnum og tekið lykilinn með sér. Ákærði hafi skilið töskuna efir í aftursætinu í bílnum. Leiðir hafi skilið, þeir hafi farið að skemmta sér á skemmtistöðum við ströndina, en hist aftur um 3-4 tímum síðar á tilteknum stað í bænum til að aka ákærða upp á flugvöll. Hann hafi átt að mæta um sjöleytið. Þeir hafi svo gengið að bifreiðinni og taskan hafi þá enn verið í bílnum. Hann kvaðst ekki minnast þess að þeir hafi ekið heim áður en þeir óku ákærða út á flugvöll. Er út á flugvöll kom hafi Guðmundur farið að athuga með farseðil ákærða, sem hann minnti að hafi átt að vera tilbúinn. Guðmundur hafi talað við einhvern fararstjóra, þar sem menn bóka sig í flug. Strákur að nafi Benóný hafi lánað Guðmundi peninga upp í farmiðakaupin. Sigurður kvaðst svo hafa farið á kaffiteríuna og ekki séð hvort ákærði fékk miðann afhentan. Hann hafi hins vegar komið er ákærði bókaði sig inn. Sigurður kvaðst ekki vita hvers vegna Guðmundur borgaði farmiðann fyrir ákærða. Sigurður fullyrti að hann hafi ekki vitað að ákærði var með fíkniefni er hann fór til Íslands. Hann hafi ekki frétt þetta fyrr en 1-2 dögum síðar. Guðmundur hafi heldur ekki sagt honum frá því að hann tilkynnti lögreglu um það að hann væri með fíkniefni í farangrinum.

Vitnið Benóný Benónýsson staðfesti að hann hafi lánað ákærða peninga upp í fargjald ákærða á flugvellinum í Alicante. Kvaðst hann hafa hitt Guðmund, Sigurð og ákærða þar. Bar hann að hann hafi verið á leið til Íslands og verið í biðröð brottfararfarþega er hann hitti þá þremenningana. Hann kvaðst þekkja Guðmund þar sem hann hafi unnið á barnum hjá honum árinu áður. Guðmundur hafi komið til hans og spurt hvort hann gæti lánað sér 10.000 krónur fyrir flugmiða ákærða. Hafi Guðmundur verið búinn að standa í lengri tíma „í stappi“ við afgreiðsuborðið með ákærða í því skyni að reyna „að tékka hann inn“. Hann hafi reynt að setja vegabréf sitt til tryggingar greiðslunni, en fararstjórinn hafi ekki viljað taka það gilt. Guðmundur hafi sagst vera að kaupa miðann fyrir ákærða, þar sem hann væri peningalaus. Hann hafi sagt að „Gunni“ myndi sækja hann út á Keflavíkurflugvöll og myndi gista á hóteli eftir heimkomuna. Á meðan á viðræðum þeirra Guðmundar stóð hafi ákærði staðið við afgreiðsluborðið og kvaðst Benóný telja að hann hafi ekki heyrt viðræður þeirra. Kvaðst vitnið hafa farið í hraðbanka og tekið út 10.000 krónur og lánað Guðmundi. Sýndi vitnið við rannsókn málsins kvittun því til staðfestu. Kvittun þessi liggur frammi í máinu. Er þeir voru komnir í gegnum tollafgreiðsluna og biðu eftir fluginu hafi hann spjallað við ákærða, sem hafi sagt honum að hann ætlaði að fara að vinna á fiskitogara. Hann hafi varað ákærða við Guðmundi og sagt að slæmt orð færi af honum og söguburður væri um það að leitað væri á flestöllum, sem hann umgengist mikið, þegar þeir kæmu í tollskoðun á Íslandi. Benóný kannaðist við að hann hafi hitt ákærða á diskóteki nokkrum dögum fyrir brottförina. Hann hafi meðal annars spurt sig hvort það væri hægt að fá vinnu á skipum sem hann hafi svarað játandi. Ákærði hafi talað við marga Íslendinga og þeir bent honum á að miklir tekjumöguleikar væru við togaraveiðar. Benóný sagði að borið hafi á góma í viðræðum hans við ákærða úti á flugvelli, þegar hann var að vara ákærða við Guðmundi, að ákærði hafi lent í fangelsi og hann myndi aldrei gera neitt rangt eða umgangast vafasama menn. Fram hafi komið í samtalinu að ákærði hafi ekki vitað að Guðmundur „væri svona“. Í skýrslu sinni hjá lögreglu sagði vitnið að ákærði hafi sagt sér að hann hafi lent í fangelsi í Englandi í einn mánuð. Er þessi framburður var borinn undir vitnið fyrir dómi kvað hann sig minna að ákærði hafi sagt þetta.

Vitnið Ragnheiður Pétursdóttir var fararstjóri hjá Plúsferðum á Benidorm síðastliðið sumar. Hún sagði um kaup á farmiða ákærða, að hún hafi fengið fyrirmæli frá Plúsferðum um að gefa út farseðil á nafn ákærða og myndi farseðillinn verða sóttur á flugvöllinn og greiddur daginn eftir. Kvaðst Ragnheiður hafi gefið farseðilinn út 1. september og mætt á flugvöllinn með hann. Þegar á flugvöllinn kom hafi Guðmundur komið þangað til að greiða farseðilinn, en ekki haft næga peninga fyrir honum. Hún hafi því neitað að afhenda farseðilinn nema að fá hann fullgreiddan. Guðmundur hafi þá fengið einhverja vini sína, sem hún þekkti ekki, til að fara í hraðbanka og ná í peninga til að greiða farseðilinn. Guðmundur hafi að svo búnu greitt farseðilinn og fengið hann afhentan.

Ragnheiður kvaðst hafa séð ákærða á flugvellinum ásamt Guðmundi og fleiri piltum. Hann hafi verið í fylgd þeirra. Hún hafi ekki fylgst frekar með ferðum ákærða á flugvellinum eða á leiðinni heim. Vitnið kvaðst aðspurð ekki geta um það borið hvort Guðmundur væri viðriðinn fíkniefni, en sögusagnir væru um það á Benidorm.

Vitnið Gunnar Örn Haraldsson kannaðist við það að Guðmundur hafi haft símsamband við sig og óskað eftir því að hann færi út á Keflavíkurflugvöll til að sækja mann, vin sinn, sem væri á leiðinni hingað til lands. Hann hafi ekki getað sótt manninn og sagt Guðmundi það.

Vitnið Elías Kristjánsson, deildarstjóri Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, kom fyrir dóminn og staðfesti frumskýrslu sína um komu ákærða til landsins. Hann staðfesti jafnframt að lögreglu hafi borist upplýsingar um að ákærði væri með fikniefni með sér og honum til aðstoðar við leit á ákærða hafi verið lögreglumennirnir Ólafur Guðmundsson og Árni Þór Sigmundsson. Ákærði hafi komið í græna hliðið og þaðan hafi þeir vísað honum í leitarklefa. Elías kvaðst hafa leitað í íþróttatöskunni, sem ákærði var með, og á botni hennar hafi hann fundið pakka í rauðum plastpoka, með fíkniefnunum, vafinn í einhver föt. Ákærði hafi virst hissa og ekki kannast við að eiga pakkann. Hann hafi sagt að þessum poka eða þessum efnum hefði hugsanlega verið komið fyrir í farangri sínum, ytra, hugsanlega á meðan hann brá sér í síma á flugstöðinni fyrir brottför. Vitnið staðfesti að pakki, sem er endurgerð tæknideildar lögreglu á þeim pakka sem hald var lagt á, væri sambærilegur þeim pakka að stærð og þyngd.

Lögreglumenn þeir, er komu að rannsókn málsins, voru yfirheyrðir fyrir dómi. Verður nú rakinn framburður þeirra.

Ólafur Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður fikniefnadeildar, kvað Ómar Smára Áramannsson aðstoðaryfirlögregluþjón, hafa sent sig ásamt fleiri lögreglumönnum á Leifsstöð vegna komu manns með fíkniefni til landsins. Hann kvaðst ekki hafa vitað hver gaf lögreglu upplýsingarnar um að ákærði væri með fíkniefni meðferðis. Hann lýsti leitinni á sama veg og Elías og kvaðst hafa séð hann taka pakkann upp úr kanti töskunnar. Ákærði hafi virst „sallarólegur“ þangað til hann sá pakkann. Svitinn hafi þá sprottið út á honum. Ólafur kvað ekki hafa farið á milli mála að mjög hafi fengið á ákærða að sjá pakkann. Minnti hann að ákærði hafi spurt hvort „þeir“ hafi sett pakkann þarna. Hann hafi spurt hver hefði sett pakkann þarna en ekki rætt um það hvað í honum væri.

Árni Þór Sigmundsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti frumskýrslu sína 1. september sl. um handtöku ákærða í Leifsstöð. Þar kemur fram að ákærði hafi ekki kannast við pakkann í töskunni og hann hafi sagt að pakkanum hafi verið komið þar fyrir. Hann skýrði svo frá að upp úr klukkan níu um morguninn hafi Guðmundur hringt í sig frá Spáni og sagt að hann næði ekki í Ásgeir Karlsson, yfirmann fíkniefnadeildar lögreglunnar, en maður væri á leiðinni til landsins með umtalsvert magn fíkniefna í fórum sínum. Aðspurður hafi hann sagt sér nafn ákærða og að hann væri Breti. Kvaðst Árni Þór hafa snúið sér til Ómars Smára Ármannssonar sem hafi sent hann ásamt fleiri lögreglumönnum á Leifsstöð. Helgina áður hafi móðir Guðmundar reynt að hringja í boðtæki hans. Hann hafi svarað því á mánudegi, daginn áður en ákærði kom til landsins. Hún hafi sagt að Guðmundur hafi reynt að ná sambandi og ætti brýnt erindi við hann. Hann hafi fengið hjá henni símanúmer og hringt um hádegisbilið eða upp úr hádeginu. Guðmundur hafi sagt frá manni sem væri líklega á förum til landsins og væri hugsanlega með fíkniefni í fórum sínum. Guðmundur hafi jafnframt spurt sig að því hvort lögreglan greiddi að jafnaði eitthvað fyrir svona upplýsingar og kvaðst Árni Þór hafa sagt að svo væri ekki. Hann hafi vísað Guðmundi á Ásgeir Karlsson, yfirmann fíkniefnadeildarinnar. Árni Þór kvaðst kannast við Guðmund frá því er hann starfaði á Grafarvogsstöð lögreglunnar, en Guðmundur hafi komið þangað alloft eins og margir aðrir. Árni Þór kvaðst ekki hafa haft önnur afskipti af honum og ekki þekkja hann að öðru leyti. Hann hafi ekki haft samskipti við hann utan vinnu.

Árni Þór kvaðst ekki hafa tekið þátt í leitinni en hins vegar haft afskipti af ákærða í leitarklefanum. Hann hafi sagt að hann væri að koma hingað til lands til að skemmta sér og ítrekað sagt við þá: „You set me up“.

Árni Þór sagði að sér væri ekki kunnugt um að samkomulag hafi verið gert við Guðmund um upplýsingar til lögreglunnar. Hann hafi ekki heyrt um það rætt og Guðmundur ekki nefnt neitt í þeim dúr í samtölum þeirra. Það hafi heldur ekki borist í tal milli þeirra að Guðmundur ætti ódæmd mál í dómskerfinu.

Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi staðfesti að Einar Ásbjörnsson hafi hringt heim til sín daginn fyrir komu ákærða til landsins og tjáð sér að hann væri í sambandi við aðila, sem veitt hefði upplýsingar um stórt fíkniefnamál. Lárus Kjartansson hafi verið staddur heima hjá honum þegar Einar hringdi. Ásgeir kvaðst hafa spurt Einar hvort hann gæti komist í beint samband við þennan aðila og Einar hafi gefið honum upp símanúmer á Spáni. Hann hafi hringt og þá komið í ljós að upplýsingaaðilinn var Guðmundur. Hann hafi tjáð sér að maður væri á leiðinni til landsins með mikið magn af E-töflum. Hann hafi spurt Guðmund nánar um innflutninginn en hann sagst ekki vita það nákvæmlega og beðið sig um að hringja í sig síðar um kvöldið, þá myndi hann vita þetta nákvæmlega. Hann hafi svo hringt í Guðmund um miðnætti og hafi hann sagt að hann væri kominn með þennan mann út á flugvöll og væri hann á leiðinni í vélina og kæmi til landsins um morguninn. Aðspurður hafi hann sagt að hann gæti ekki sagt honum nafnið á manninum, því að hann stæði við hliðina á sér, en hann væri svartur. Guðmundur hafi spurt hvort hann fengi eitthvað fyrir upplýsingarnar og nefnt að rætt hafi verið um að það yrði gert „eitthvað í hans málum ef hann gæfi gott mál“. Hann hafi ekki nefnt tiltekin nöfn í því sambandi. Kvaðst Ásgeir hafa svarað því að það kæmi ekki til greina að þeir myndu semja við hann um eitt eða neitt. Hann hafi sagt Guðmundi að það eina sem hugsanlega kæmi til álita væri að greiða honum eitthvað, en engin fjárhæð hafi verið nefnd í því sambandi. Ekki hafi heldur borist í tal framtíðarsamskipti milli Guðmundar og lögreglunnar. Guðmundur hafi ekki nefnt tiltekið mál í þessu sambandi en vitnið skildi fyrirspurn hans svo að hann vildi fá einhverjar ívilnanir hjá lögreglunni. Kvaðst Ásgeir ekki hafa haft hugmynd um það hvort eitthvert mál væri í rannsókn eða fyrir dómstólum á hendur Guðmundi, enda hafi hann engin deili vitað á honum.

Einar Ásbjörnsson lögreglumaður kvað Guðmund hafa komið á Grafarvogsstöð lögreglunnar fyrir um ári, en þar starfar Einar. Hann kvaðst vera málkunnugur Guðmundi, sem oft hafi komið á lögreglustöðina, bæði þar og í Breiðholti, þar sem vitnið starfaði áður. Guðmundur hafi stofnað öryggisfyrirtæki og verið mikið í mun að vera í sambandi við lögregluna. Hann hafi meðal annars ætlað að sækja um starf í lögreglunni. Einar áréttaði að hann væri ekki kunningi Guðmundar. Hann sagði að þegar Guðmundur kom ofangreint sinn á lögreglustöðina í Grafarvogi hafi hann sagst vera á förum til Spánar, þar sem hann hafi dvalist sumarið áður, og sagt sér að þar hafi verið mikið um fíkniefni. Hann hafi fært í tal hvort möguleiki væri á því að fá fyrirgreiðslu hjá lögreglu ef hann gæfi upplýsingar um einhver fíkniefnamál sem hann kæmist að á Spáni. Hann hafi sagt að í rannsókn væri mál á hendur sér hjá fíkniefnalögreglu. Einar kvaðst hafa sagt honum það hreint út að það væru ekki heimildir fyrir slíku og það kæmi ekki til greina. Hann neitaði því að hann hafi að fyrra bragði haft samband við Guðmund um þetta málefni. Einar kvaðst hafa rætt við Guðmund í síma um mitt síðastliðið sumar. Hann hafi fengið skilaboð um það að hringja í Guðmund. Hann hafi því hringt í hann og Guðmundur þá verið að ræða um að mikið væri af fíkniefnum þarna úti. Daginn fyrir komu ákærða til landsins, á tímabilinu frá hádegi til kl. þrjú eða fjögur, hafi Guðmundur hringt og sagt að von væri á manni með fíkniefni til landsins. Hann hafi „viðrað“ hvort eitthvað væri hægt að gera fyrir sig. Kvaðst Einar hafa sagt að það væri ómögulegt. Hann hafi ekki spurt Guðmund nánar um það hvað hann væri að fara fram á. Kvaðst Einar hafa hringt á lögreglustöðina og reynt að hafa upp á Ásgeiri Karlssyni, en hann hafi ekki verið í vinnu. Þá hafi hann hringt heim til Ásgeirs og sagt honum frá símtalinu við Guðmund. Þeim hafi komið saman um að best væri að Ásgeir ræddi sjálfur við Guðmund. Guðmundur hafi hringt heim til hans seint um kvöldið og sagt að einhver Breti væri að koma til landsins. Hann hafi sagt Guðmundi að hann hafi rætt fyrr um daginn við Ásgeir og spurt hvort ekki væri í lagi að Ásgeir hringdi beint til hans. Guðmundur hafi gefið sér upp símanúmer, sem Einar kvaðst síðan hafa látið Ásgeir fá. Hann hafi svo enga vitneskju haft um gang málsins fyrr en hann frétti að búið væri að handtaka ákærða.

Lárus Kjartansson rannsóknarlögreglumaður staðfesti gögn þau sem hann vann að við rannsókn málsins, munaskrá, skrá um haldlagningu og skýrslur ákærða. Hann kvaðst engin samskipti hafa haft við upplýsingagjafa. Hann staðfesti frásögn Ásgeirs um að hann hafi verið staddur á heimili hans, um kaffileytið, daginn fyrir komu ákærða til landsins, er Einar Ásbjörnsson hringdi í Ásgeir. Hann kvaðst hafa heyrt Ásgeir segja að hann vildi komast í beint samband við upplýsingaaðila og hringt svo í hann. Hann hafi heyrt á tal Ásgeirs í því símtali að samningar kæmu ekki til greina, en hugsanlegt væri að greiða einhverja peninga fyrir upplýsingar ef þær reyndust vera réttar. Ásgeir hafi sagt sér að fram hafi komið í símtalinu við Einar að mikið magn fíkniefna væri á leiðinni til landsins. Um kvöldið hafi Ásgeir haft samband við sig og beðið sig um að fara út á flugvöll vegna komu vélarinnar frá Benidorm og athuga hvort umræddur maður væri með vélinni. Er til kom hafi aðrir lögreglumenn hins vegar verið sendir út á flugvöll.

Lárus staðfesti að hann hafi afhent ákærða fatnað, sem ekki var hald lagt á, meðal annars stuttbuxur, sem pakkinn með fíkniefnunum var vafinn í. Ákærði hafi sagt að Guðmundur hafi lánað sér einhverja boli, sem voru í töskunni, og hann hafi ekki kannast við íþróttabuxur og stuttbuxur sem voru í henni. Hann kannaðist við að Guðmundur hafi komið við sögu fíkniefnalögreglu, en kvaðst enga vitneskju hafa um það að honum hafi verið lofað einhverjum ívilnunum.

Hákon Birgir Sigurjónsson, lögreglufulltrúi í tæknideild, staðfesti að fíkniefnalögreglan hafi látið útbúa eftirlíkingu af pakkanum, sem eiturlyfin voru í. Þeir hafi fengið lyfjafyrirtæki til þess að búa til töflur sömu særðar og þyngdar og umræddar MDMA töflur sem fundust í farangri ákærða. Töflunum hafi svo verið pakkað inn á svipaðan máta og MDMA töflunum var pakkað.

Hákon Birgir kom með í dóminn síðar bláar íþróttabuxur, sem fundust í farangri ákærða, en ákærði hefur ekki kannast við buxurnar og neitar því að hann hafi sett þær í töskuna, sem hann var með við komuna til landsins.

Ákærði mátaði buxurnar í dóminum þar sem ekki lágu fyrir um það gögn hvort sú fullyrðing hans stæðist að buxurnar væru allt of stórar á hann. Kvað hann buxurnar 10-15 cm síðari en þær buxur, sem hann væri vanur að klæðast, og að öðru leyti ekki við sitt hæfi.

Þorkell Jóhannesson prófessor kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína um greiningu og hættueiginleika fíkniefnisins sem fannst í fórum ákærða við komu hans til landsins.

IV.

Ákærði kom til landsins með leiguflugi frá Benidorm á Spáni að morgni þriðjudagsins 1. september sl. Við leit í farangri hans, íþróttatösku, fannst mikið magn fíkniefna í pakka, sem vafinn var í fatnað. Taskan er af venjulegri stærð, með rennilás og var í almennum farangursflutningi vélarinnar og eini farangurinn sem ákærði hafði meðferðis. Ákærði hefur frá upphafi harðneitað allri vitneskju um fíkniefnin og kvaðst strax telja að honum hafi verið komið fyrir í töskunni af öðrum. Ólafur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður, sem var viðstaddur leitina í töskunni, bar fyrir dómi að ákærði hafi verið „sallarólegur“ uns tollvörðurinn tók pakkann með fíkniefnunum upp úr töskunni. Pakkinn er lítill um sig og vegur um 670 grömm.

Frásögn ákærða um það að hann hafi ætlað að fá sér vinnu á fiskiskipi hér á landi er studdur framburði vitnanna Guðmundar Inga Þóroddssonar, Sigurðar Bragasonar og Benónýs Benónýssonar, en tveir þeir fyrrnefndu voru kunnugir ákærða, einkum Guðmundur. Ákærði hafði eingöngu léttan sumarfatnað meðferðis við komu sína til landsins. Hann var peningalaus en taldi sig vera með greiðslukort, sem ekki reyndist rétt. Ekki verða aðrar ályktanir dregnar af þessu en að um almennt fyrirhyggjuleysi ákærða hafi verið að ræða.

Ákærða og Guðmundi ber ekki saman um kaup farmiða ákærða að öðru leyti en því að ákærði hafi átt að fá farmiðann afhentan við brottförina á flugvellinum. Ákærði kveðst hafa greitt Guðmundi andvirði fargjaldsins daginn áður og fengið miðann afhentan við brottför, en Guðmundur kveðst hins vegar hafa lánað honum andvirði miðans og meðal annars fengið lán hjá framangreindum Benóný, er hann hitti hann úti á flugvelli. Komið er fram að ákærði fékk miðann við brottför á flugstöðinni. Óupplýst er hvort ákærði greiddi Guðmundi fargjaldið eða hvort hann fékk andvirði þess að láni hjá honum. Frásögn Guðmundar og Sigurðar um ferðir þeirra og ákærða út á flugvöll og veru þeirra þar ber ekki saman við framburð ákærða, sem hefur neitað því að hafa verið samvistum við þá um morguninn. Framburður þeirra Guðmundar og Sigurðar fær stoð í framburði vitnisins Ragnheiðar Pétursdóttur fararstjóra, sem fullyrðir að þeir hafi allir þrír verið saman úti á flugvelli. Vitnið Benóný kveðst hafa tekið ákærða tali er þeir biðu brottfarar í biðsal eftir vegabréfaskoðun og í því samtali hafi hann varað hann við Guðmundi, sagt að slæmt orð færi af honum og sagt væri að leitað væri á kunningjum hans við tollskoðun á Íslandi. Þetta er í samræmi við framburð ákærða sem kvað Íslendinginn „Benna“ hafa varað sig við Guðmundi. Í þessu kann að vera að leita skýringar á því að ákærði hefur ekki viljað kannast við að hafa verið með Guðmundi við brottförina hingað til lands.

Guðmundur hefur borið við rannsókn málsins og meðferð þess að hann hafi haft samband við Einar Ásbjörnsson lögreglumann kvöldið fyrir brottför ákærða og tilkynnt að von væri á honum með fíkniefnin. Fullyrti hann að Einar hafi verið búinn að bjóða sér nokkrum sinnum frá því um vorið, að hann myndi sjá til þess að tiltekið sakamál á hendur sér myndi falla niður gegn því að hann veitti upplýsingar um fíkniefni sem kynnu að verða flutt til landsins frá Spáni. Hafi Einar meðal annars hringt í sig um sumarið til Spánar og spurt hvort hann „vissi eitthvað eða væri með eitthvað“. Guðmundur bar að Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, hafi svo hringt í sig síðar, laust eftir miðnætti nóttina fyrir komu ákærða til landsins, og gefið sér það loforð að umrætt mál myndi falla niður. Guðmundur játti því að hann hafi verið áður í fíkniefnaneyslu og því bærist honum vitneskja um ýmis fíkniefnamál. Hann var dæmdur 14. október sl. í Héraðsdómi Reykjavíkur í fangelsi í 30 daga, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Hann hefur staðfest fyrir dómi að þetta sé mál það sem hann hafi fengið loforð um að yrði fellt niður gegn upplýsingum hans um væntanlegan innflutning fíkniefnanna til landsins. Kveður Guðmundur að fram hafi komið í símtali við Árna eða Ásgeir að upplýsingar ákærða um fíkniefnin væru góðar „upp á framtíðina að gera“. Hann hefur talið sig hafa haft hagsmuni af því að veita lögreglu upplýsingar um fíkniefnin, þar sem honum hafi verið gefið loforð um að framangreint mál yrði fellt niður.

Vætti Guðmundar um að hann hafi tilkynnt Einari Ásbjörnssyni og Ásgeiri Karlssyni um fíkniefnin í fórum ákærða í símtölum daginn og nóttina fyrir komu hans til landsins fær stoð í framburði þeirra og Árna Þórs Sigmundssonar. Þeir hafa hins vegar allir neitað því að ákærða hafi verið gefið loforð um að mál hans yrði fellt niður, enda hafi það verið komið fyrir dómstóla og engar heimildir til slíks. Hins vegar kom fram í vætti Ásgeirs að hann hafi nefnt við ákærða að peningagreiðslur kæmu hugsanlega til greina og Guðmundur hafi spurt í símtalinu hvort hann fengi eitthvað fyrir upplýsingarnar og rætt hafi verið við sig um það „að það yrði gert eitthvað í hans málum ef hann gæfi gott mál“.

Guðmundur hefur borið að tilgangur sinn með þessari upplýsingagjöf hafi fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir að fíkniefnin bærust til Íslands en sér hafi fundist sjálfsagt að reyna „í leiðinni“ að fá umrætt mál fellt niður. Hann taldi sig hafa gert samning við lögregluna um að hann fengi umrætt mál fellt niður gegn því að gefa upplýsingar um innflutning fíkniefnanna. Í ljósi þessara hagsmuna verður að meta framburð hans. Þá er til þess að líta að Guðmundur hefur borið að hann hafi dregið upp teikningar af Leifsstöð fyrir ákærða í þeim tilgangi að hann ætti hægara með að átta sig á staðháttum í flughöfninni. Teikningar þessar fundust hins vegar ekki á ákærða við komuna til landsins heldur í vasa á buxum, sem ákærði hefur ekki kannast við að eiga, sem geymdar voru í farangri hans. Þykir þessi frásögn Guðmundar fremur ótrúverðug. Þá þykir frásögn hans um það að ákærði hafi sagt sér frá því að hann ætlaði að flytja töflurnar til landsins og hann hafi séð ákærða pakka þeim niður heldur ekki trúverðug í ljósi framburðar hans, Sigurðar og ákærða um meðferð á töskunni dagana fyrir brottför ákærða. Guðmundur og Sigurður hafa báðir fullyrt að taskan hafi verið í aftursæti bílsins á meðan þeir fóru að skemmta sér um nóttina og yfirgáfu hana. Hún hafi verið þar enn er þeir komu til baka og óku ákærða út á flugvöll. Þykir með ólíkindum að ákærði hafi skilið hana eftir, nánast á glámbekk, ef fíkniefnin voru þá í töskunni. Það, sem að öðru leyti er fram komið með framburði vitna og ákærða um kæruleysislega vörslu íþróttatöskunnar, bendir ekki til vitneskju ákærða um að í henni væru fíkniefni, milljóna virði í sölu hér á landi. Þá þykir ósennilegt að ákærði hafi tekið þá áhættu að fara með fíkniefnin í ofngreindri tösku með sólarlandaflugi til landsins, en hann er hávaxinn blökkumaður og hlaut að stinga verulega í stúf við aðra farþega.

Við leit í tösku ákærða fundust stuttbuxur sem hann hefur ekki kannast við. Buxur þessar voru afhentar ákærða við rannsókn málsins án frekari könnunar á því hvort sú fullyrðing ákærða stæðist að buxurnar pössuðu honum ekki. Íþróttabuxurnar, sem uppdrættirnir af Leifsstöð fundust í, eru að sögn ákærða of stórar á hann og að öðru leyti ekki við hans hæfi. Hann mátaði buxur þessar í dóminum og verður því ekki slegið föstu að þessi fullyrðing hans sé röng. Ákærði hefur ekki sætt refsingu svo vitað sé.

Þegar allt framangreint er virt þykir verða að leggja framburð ákærða um málsatvik í meginatriðum til grundvallar í málinu. Með vísan til 46. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þykir vera svo mikill vafi á því að ákærða hafi verið kunnugt um að fíkniefnin voru í tösku hans við komu hans til landsins greint sinn að sýkna beri hann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu.

Upptæka skal gera, eftir kröfu ákæruvalds og með vísan til þeirra lagaákvæða sem í ákæru greinir, 2.031 töflu af MDMA (3.4 metýlendíoxímetamfetamín).

Eftir þessum málsúrslitum ber að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Kio Alexander Ayobambele Briggs, skal vera sýkn af kröfu ákæruvaldsins í máli þessu um refsingu.

Upptæka skal gera 2.031 töflu af MDMA (3.4 metýlendíoxímetamfetamín).

Allur sakarkostnaður skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.