Hæstiréttur íslands
Mál nr. 417/2016
Lykilorð
- Skaðabætur
- Vinnuslys
- Gjafsókn
- Líkamstjón
- Orsakatengsl
- Óhappatilvik
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir því að þegar stefndi var 10. júlí 2012 að slá gras með „Flymo“ loftpúðasláttuvél umhverfis glompu á golfvelli […], rann hann til með þeim afleiðingum að sláttuvélin fór ofan í glompuna og hvolfdi og stefndi, sem samhliða rann þar niður, hlaut varanlega áverka á löngutöng og baugfingri hægri handar við það að fingurnir lentu í ljá vélarinnar. Stefndi telur áfrýjanda bera ábyrgð á tjóni sínu á grundvelli skaðabótaábyrgðar ábyrgðartryggingartakans Golfklúbbs […] samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar, sem og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Um skilyrði þeirrar ábyrgðar vísar stefndi öðru fremur til þess að sú sláttuvél sem Golfklúbburinn lét honum í té og nýtt var í umrætt sinn hafi ekki hentað til verksins sem og að Golfklúbburinn hafi vanrækt að leiðbeina stefnda um verklag og þjálfun í meðferð hennar en hann hóf störf á vellinum 27. júní fyrr um sumarið.
Að loknum munnlegum flutningi málsins fyrir Hæstarétti hafa málavextir skýrst enn frekar og ekki er lengur til staðar neinn sá ágreiningur um tildrög slyssins sem máli skiptir. Er því lagt til grundvallar að stefndi hafi runnið til við sláttinn í umrætt skipti með framangreindum afleiðingum.
Á það er fallist með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, að ekkert liggi fyrir annað en að umrædd sláttuvél hafi á nefndum tíma virkað sem skyldi og að hún hafi verið ætluð til þess að slá við halla allt að 45° en upplýst er að hallinn að glompunni hafi verið allt að því svo mikill. Í málinu liggja jafnframt fyrir tölvubréf starfsmanna Golfklúbbs Reykjavíkur og Golfklúbbs Grindavíkur þar sem fram kom að sams konar vélar væru notaðar á völlum golfklúbbanna tveggja og notuð var á […] í umrætt sinn. Hvað sem líður órökstuddri niðurstöðu Vinnueftirlitsins annars efnis í umsögn þess 5. september 2009 verður með hliðsjón af framangreindu ekki á það fallist að sláttuvélinni hafi verið áfátt eða að hún hafi ekki hentað til verksins.
Óumdeilt er að í upphafi fékk stefndi ekki aðra fræðslu um notkun vélarinnar en að honum var sýnt hvernig hún virkaði. Þótt aðgæslu sé jafnan þörf við notkun vélknúins tækis af þessari gerð ber á hinn bóginn að líta til þess að sláttur með svokallaðri „Flymo“ loftpúðasláttuvél er ekki í eðli sínu flókin athöfn og slíkar vélar eru á markaði seldar jafnt almenningi sem fyrirtækjum án þess að krafist sé neinnar kunnáttu í notkun þeirra. Að þessu vék stefndi í framburði sínum fyrir héraðsdómi þegar hann sagði: „Það er ekkert voðalega erfitt að vinna með þessi tæki“. Jafnframt er til þess að líta að stefndi, sem var 31 árs, hafði á slysdegi starfað á golfvellinum í tvær vikur við að „snyrta sandbunkarana og svoleiðis og sjá um að golfvöllurinn liti vel út, nota sláttuvélarnar ef þess þurfti.“ Þá er ósannað að fótabúnaður stefnda hafi átt þátt í slysinu. Það varð, svo sem fyrr greinir, vegna þess að hann féll við og rann á eftir sláttuvélinni niður í glompuna. Af hálfu stefnda hefur ekki verið rökstutt hvers eðlis þær leiðbeiningar gætu hafa verið sem hefðu getað afstýrt falli hans í umrætt skipti. Auk annars skortir þannig á að sýnt hafi verið fram á orsakasamband milli slyssins og ætlaðs skorts á leiðbeiningum til stefnda um meðferð sláttuvélarinnar.
Loks hefur stefndi ekki sýnt fram á það að af hálfu Golfklúbbsins hafi verið brotið gegn nánar greindum reglum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum eða reglugerðum, settum á grundvelli þeirra laga, með þeim hætti að saknæmt geti talist.
Samkvæmt öllu framangreindu verður orsök slyssins ekki rakin til atvika, sem áfrýjandi ber ábyrgð á, heldur óhappatilviks. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.
Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda verður staðfest, en um gjafsóknarkostnað hans hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu stefnda, A.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 8. febrúar sl., var þingfest 10. febrúar 2015.
Stefnandi er A, […].
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 4.121.570 krónur með 4,5% ársvöxtum af 738.640 krónum frá 10. júlí 2012 til 1. janúar 2013, en af 4.121.570 krónum frá þeim degi til 10. febrúar 2015, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 509.490 krónum sem stefndi greiddi 29. desember 2014. Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda en til vara lækkunar. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar.
I
Stefnandi var ráðinn tímabundið til starfa á golfvellinum […] hjá Golfklúbbi […] frá 27. júní 2012 til 31. mars 2013. Þann 10. júlí 2012 slasaðist stefnandi við störf sín þar sem hann var að slá gras á golfvellinum umhverfis glompu á 16. flöt með „Flymo“ loftpúðasláttuvél af gerðinni Husqvarna GX 560. Halli er á bakkanum niður að glompunni þar sem stefnandi var að slá, en málsaðila greinir á um hversu mikill hallinn sé. Stefnandi heldur því fram að hann sé 45° en stefndi telur hann 40°. Stefnandi stóð við efri brún hallans þegar hann rann til í grasinu sem var blautt. Stefnandi telur að nýbúið hafi verið að vökva grasið, en stefndi kveður grasið ekki vera vökvað á þessum stað, heldur hafi það verið blautt eftir rigningu. Við það að renna til missti stefnandi takið á sláttuvélinni sem rann við það ofan í glompuna og hvolfdi. Stefnandi rann að sláttuvélinni þannig að fótur hans fór fyrst í ljá vélarinnar en ekki hlaust áverki af því. Því næst lentu tveir fingur stefnanda, langatöng og baugfingur hægri handar, í ljá vélarinnar.
Fingur stefnanda brotnuðu á efri kjúkum og hékk efsti hluti fingranna aðeins á skinninu. Auk þess fór sin í löngutöng stefnanda í sundur. Stefnandi var strax eftir slysið fluttur með sjúkrabíl á [Heilbrigðisstofnun] og var sendur þaðan á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann gekkst undir aðgerð. Stefnandi lá inni á spítalanum yfir nótt og var í gifsi fyrst á eftir. Hann var síðan í varfærinni hreyfiþjálfun undir leiðsögn sjúkraþjálfara frá ágúst 2012 og síðar sjúkraþjálfun fram til júlí 2013. Stefnandi var óvinnufær vegna slyssins til áramóta 2012/2013.
Slys stefnanda var tilkynnt lögreglu og Vinnueftirlitinu. Lögreglan kom á vettvang eftir að stefnandi hafði verið fluttur í burtu. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 12. júlí 2012, ræddi lögreglan við stefnanda daginn eftir slysið. Er þar haft eftir honum að hann hafi misstigið sig í grasinu sem hafi verið blautt eftir vökvun. Þá er þar haft eftir tveimur drengjum sem voru viðstaddir slysið að stefnandi hafi runnið til og misst takið á vélinni svo að hún hafi runnið niður í sandglompuna og oltið á hliðina. Stefnandi hafi síðan runnið á eftir vélinni og farið með höndina í blaðið sem hafi enn verið að snúast.
Samkvæmt umsögn Vinnueftirlitsins, dags. 5. september 2012, voru aðstæður á slysstað erfiðar þar sem verið var að slá í miklum halla með loftpúðasláttuvél sem erfitt er að stjórna í hallandi landslagi. Sláttuvélinni er lýst sem loftpúðavél af gerðinni Flymo með tveggja hestafla Briggs & Stratton vél. Öryggisrofi (handfang) hafi verið á vélinni en þar sem ljárinn stöðvist ekki um leið og handfanginu er sleppt, hafi það ekki nægt til að afstýra slysinu. Niðurstaða rannsóknar Vinnueftirlitsins var að orsök slyssins mætti rekja til erfiðra aðstæðna þar sem slegið var í miklum halla með sláttuvél sem hentaði illa til verksins. Vinnueftirlitið gaf Golfklúbbnum fyrirmæli um úrbætur sem fólust í því að meta skyldi áhættuna við sláttuvinnu í hallandi landslagi og tryggja að aðeins væru notuð tæki sem hentuðu til þeirra verka.
Stefnandi tilkynnti stefnda um slysið 14. nóvember 2012, en Golfklúbbur […] var með tryggingar hjá stefnda á slysdegi. Stefndi féllst á að slysið væri bótaskylt úr launþegatryggingu Golfklúbbs […]. Með bréfi, dags. 6. desember 2012, krafðist stefnandi einnig bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu Golfklúbbs […]. Stefndi hafnaði skaðabótaábyrgð með bréfi, dags. 5. febrúar 2013.
Stefnandi skaut ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að þeirri niðurstöðu 14. mars 2014, í máli nr. 40/2014, að líkamstjón stefnanda skyldi bætt úr ábyrgðartryggingu Golfklúbbs […] hjá stefnda. Með bréfi, dags. 26. mars 2014, tilkynnti stefndi að hann hefði ákveðið að hlíta ekki úrskurði úrskurðarnefndarinnar með vísan til heimildar 4. mgr. 7. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina.
Málsaðilar óskuðu sameiginlega eftir mati B læknis og C hæstaréttarlögmanns á heilsutjóni stefnanda í september 2014. Niðurstöður matsins, dags. 8. október 2014, eru þær að heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins hafi orðið stöðugt 1. janúar 2013, tímabundin óvinnufærni hafi verið 100% tímabilið 10. júlí til 31. desember 2012, tímabil þjáninga hafi verið það sama og tímabil óvinnufærni, þar af með rúmlegu í tvo daga. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins sé 3 stig og varanleg örorka 5%.
Í kjölfar framangreindrar niðurstöðu matsmanna greiddi stefndi stefnanda bætur úr launþegatryggingu Golfklúbbs […], samtals 509.490 krónur vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku (miska) og dagpeninga vegna óvinnufærni tímabilið 1. október til 31. desember 2012, samtals að fjárhæð 489.466 krónur.
Dómendur og lögmenn aðila gengu á vettvang við upphaf aðalmeðferðar.
II
Stefnandi reisir kröfu sína á því að tjón hans skuli bætt úr frjálsri ábyrgðartryggingu Golfklúbbs […] hjá stefnda, en Golfklúbburinn beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans vegna slyssins 10. júlí 2012, m.a. á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Stefnda beri því að greiða stefnanda bætur samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfunni sé beint gegn stefnda á grundvelli heimildar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
Um skaðabótaábyrgð Golfklúbbs […] vísar stefnandi fyrst og fremst til þess að sláttuvélin sem honum hafi verið fengin til að slá umhverfis glompuna á 16. flöt golfvallarins hafi ekki hentað til verksins. Samkvæmt umsögn Vinnueftirlitsins, dags. 5. september 2012, sé erfitt að stjórna þessari tegund af sláttuvél, Flymo loftpúðasláttuvél, í hallandi landslagi. Auk þess sé sláttuvélin lengi að slökkva á sér þótt öryggishandfangi sé sleppt. Það valdi því að spaðar vélarinnar snúist áfram og geti valdið tjóni. Með því að stefnanda hafi ekki verið fengið tæki sem hentaði til verksins hafi Golfklúbburinn brotið gegn 13., 21., 23. og 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en samkvæmt þeim ákvæðum ber atvinnurekanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Golfklúbburinn hafi ekki farið eftir þessu þar sem stefnanda hafi verið fengin sláttuvél sem hafi hentað illa til verksins sem hann hafi átt að vinna og hafi ekki verið örugg. Þá skuli verkstjóri á vinnustað sjá til þess að búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi og beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórni séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, sbr. 21. og 23. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að verkstjóri Golfklúbbsins hafi ekki fylgt þessu. Hann hefði átt að sjá til þess að stefnandi fengi sláttuvél sem væri örugg og hentaði til verksins.
Stefnandi telji Golfklúbbinn og forsvarsmenn hans hafa brotið gegn reglum nr. 367/2006 um notkun tækja, t.d. 5. og 8. gr., með því að fá honum ekki sláttuvél sem hentaði til verksins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 46. gr. laga nr. 46/1980 beri að fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi hvers konar véla og tækja. Samkvæmt 5. gr. reglna nr. 367/2006 beri atvinnurekanda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum sé ætlað að nota innan fyrirtækis hæfi því verki sem inna skal af hendi. Enn fremur beri atvinnurekanda, við val á tæki, að hafa til hliðsjónar þau sérstöku vinnuskilyrði, áhættu og aðstæður sem fyrir hendi eru innan vinnustaðar, þar á meðal áhættu á vinnusvæði og þá áhættu sem notkun viðkomandi tækis hefur í för með sér. Ljóst sé, meðal annars af umsögn Vinnueftirlitsins, að sláttuvélin hafi ekki hentað til verksins sem stefnandi hafi átt að vinna. Þá hafi Golfklúbburinn og forsvarsmenn hans ekki haft mið af aðstæðum á golfvellinum þegar stefnanda hafi verið fengin þessi tiltekna sláttuvél til verksins.
Golfklúbburinn beri einnig ábyrgð á því að hafa ekki veitt stefnanda ráðleggingar um heppilegan búnað eða fatnað við störf á golfvellinum. Stefnandi hafi þurft að slá golfvöllinn þegar hann hafi verið nývökvaður og þar með sleipur vegna bleytu. Það hefði því átt að ráðleggja honum að klæðast skóm með sérstaklega grófum sólum eða gripi. Til dæmis sé golf leikið í sérstökum golfskóm með gúmmígöddum til þess að ná viðunandi gripi.
Með því að veita stefnanda ekki viðeigandi ráðleggingar hafi Golfklúbburinn og forsvarsmenn hans einnig brotið gegn 13., 14., 21., 23. og 37. gr. laga nr. 46/1980. Sérstaklega sé vísað til þess að samkvæmt 14. gr. skuli atvinnurekandi sjá til þess að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Þá hafi einnig verið brotið gegn 7. og 8. gr. reglna nr. 367/2006. Samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu beri atvinnurekanda að sjá til þess að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín þannig að ekki stafi hætta af, m.a. þjálfun í viðbrögðum við hættu sem notkun tækis kunni að hafa í för með sér. Einnig sé vísað til 25. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum þar sem kveðið sé á um að atvinnurekandi skuli tryggja að hver starfsmaður fái nægilega þjálfun hvað varði aðbúnað, öryggi og hollustuhætti, m.a. með upplýsingum og tilsögn sem sniðin sé að vinnuaðstæðum hans og starfi um leið og hann er ráðinn til starfa. Stefnandi telji að hann hafi ekki fengið viðeigandi leiðbeiningar og þjálfun í samræmi við þessar reglur.
Stefnandi hafi sinnt starfi sínu í vinnuskóm með stáltá og gúmmísóla sem hann hafi átt sjálfur. Eftir á að hyggja telji stefnandi að þetta hafi ekki verið heppilegur fótabúnaður þar sem hann hafi ekki náð nægilega góðu gripi í grasinu. Búnaðurinn hafi þó komið í veg fyrir að stefnandi slasaðist einnig á fæti þegar fótur hans hafi runnið í sláttuvélina. Skór með góðu gripi hefðu hins vegar mögulega komið alveg í veg fyrir slysið. Golfklúbburinn hefði þ.a.l. átt að ráðleggja honum að vera í slíkum skóm við vinnu sína. Stefnandi hafi unnið mjög stutt hjá Golfklúbbnum og haft litla reynslu af störfum sem þessum. Því sé ekki hægt að gera kröfu til þess að hann hefði áttað sig á þessu sjálfur. Hjá Golfklúbbnum sé aftur á móti mikil reynsla af rekstri golfvallarins og því hafi forsvarsmenn þar mátt gera sér fulla grein fyrir þessu.
Stefnandi telji fullsannað að grasið hafi verið blautt þegar slysið hafi orðið. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. nóvember 2012, sem sé undirrituð og stimpluð af hálfu Golfklúbbsins segi m.a. orðrétt: „Völlurinn hafði verið vökvaður um nóttina auk þess sem það hafði rignt dálítið“. Fullyrðingar og málatilbúnaður stefnda hvað þetta varði sé því í andstöðu við fyrirliggjandi gögn frá Golfklúbbnum.
Fullyrðingu stefnda um að slysið megi eingöngu rekja til þess að stefnandi hafi misstigið sig umrætt sinn sé mótmælt. Afstaða stefnda virðist byggjast á ummælum í lögregluskýrslu sem séu höfð eftir stefnanda í gegnum síma þegar hann hafi verið nýútskrifaður af sjúkrahúsi eftir aðgerð vegna slyssins. Stefnandi hafi ekki sagt þetta við lögregluna og hann hafi ekki staðfest skýrslu lögreglu. Ekki komi fram í öðrum gögnum að stefnandi hafi misstigið sig, sbr. t.d. tilkynningu til Vinnueftirlitsins, dags. 12. júlí 2012, þar sem segi að stefnandi hafi runnið til. Slysinu sé lýst ítarlega í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, sem Golfklúbburinn hafi staðfest með undirritun sinni 14. nóvember 2012, en þar segi að stefnandi hafi runnið í bleytu í grasinu. Því sé ekki hægt að byggja á því að stefnandi hafi misstigið sig.
Stefndi verði að bera hallann af mögulegum sönnunarskorti, en það hafi staðið Golfklúbbnum nær að tryggja sér sönnun um þær staðreyndir sem deilt séu um í málinu. Stefnandi telji þó að það sé fullsannað með umsögn Vinnueftirlitsins, sem hafi skoðað aðstæður á vettvangi og sláttuvélina eftir slysið, að vélin hafi ekki hentað til verksins sem stefnandi hafi átt að vinna umrætt sinn.
Stefnandi beri sjálfur enga sök á því að slysið hafi orðið. Hann hafi enga reynslu haft af störfum á golfvöllum, hafi unnið í stuttan tíma hjá Golfklúbbnum og hafi aðeins farið eftir þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem hann hafi fengið. Hann hafi heldur enga sérstaka reynslu eða þekkingu haft á sláttuvélum af þessari gerð. Samkvæmt 23. gr. a í skaðabótalögum sé ekki heimilt að skerða bótarétt starfsmanns vegna meðábyrgðar í vinnuslysi nema hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða ásetning. Það sé af og frá að stefnandi hafi sýnt af sér slíka háttsemi í aðdraganda slyssins og því sé óheimilt að skerða bótarétt hans.
Samkvæmt öllu ofangreindu beri Golfklúbburinn skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar. Hvað ábyrgð á störfum verkstjóra varði sé einnig vísað til meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Tjón stefnanda vegna slyssins þann 10. júlí 2012 sé þ.a.l. bótaskylt úr ábyrgðartryggingu Golfklúbbsins, sbr. skilmála stefnda nr. AA20, einkum 4. gr.
Skaðabótakrafa stefnanda byggist á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum matsgerðar frá 8. október 2014. Krafan sundurliðist á eftirfarandi hátt:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl. kr. 123.675.-
2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. kr. 311.020.-
3. Bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl. kr. 303.945.-
4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-7. gr. skbl. kr. 3.382.930.-
Samtals kr. 4.121.570.-
1) Krafa um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns byggist á 2. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt matsgerð hafi stefnandi verið óvinnufær frá slysdegi 10. júlí til 31. desember 2012. Tekjur hans hjá Golfklúbbi […] hafi verið samtals 228.800 krónur á mánuði, sbr. staðgreiðsluyfirlit 2012. Þótt ráðning stefnanda hafi verið tímabundin séu allar líkur á að stefnandi hefði getað starfað þar áfram eða a.m.k. getað aflað sér sambærilegra tekna. Tekjur á tímabili óvinnufærni hefðu þ.a.l. átt að vera 1.372.800 krónur (228.800 x 6 mánuðir). Rauntekjur stefnanda á tímabilinu hafi hins vegar aðeins verið 1.249.125 krónur að meðtöldum dagpeningum frá stefnda. Atvinnutjón stefnanda sé því mismunurinn á þessum tveimur fjárhæðum eða samtals 123.675 krónur (1.372.800 – 1.249.125).
2) Krafa um þjáningabætur byggist á 3. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt matsgerðinni hafi tímabil þjáningabóta verið 10. júlí til 31. desember 2012, þar af rúmlega í tvo daga. Stefnandi hafi því verið veikur í samtals 174 daga. Þjáningabætur að viðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu samkvæmt 15. gr. laganna nemi samtals 3.290 krónum á dag þann tíma sem stefnandi hafi verið rúmliggjandi og samtals 1.770 krónum á dag þann tíma sem hann hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi. Með vísan til framangreinds krefjist stefnandi 311.020 króna í bætur fyrir þjáningar ((2 x 3.290)+(172 x 1.770)).
3) Varðandi kröfu um bætur vegna varanlegs miska sé vísað til 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt matsgerð sé miski 3 stig og krafan sé því 303.945 krónur (10.131.500 x 3%) með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi.
4) Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku sé reist á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt matsgerð sé varanleg örorka stefnanda, samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, vegna slyssins 5%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi er heilsufar hans í kjölfar slyssins teljist stöðugt, 1. janúar 2013, sé margfeldisstuðull hans samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 12,294.
Varðandi tekjuviðmið til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorku sé byggt á því að 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga taki til stefnanda en ekki 1. mgr. sama ákvæðis. Eins og framlögð skattframtöl beri með sér hafi stefnandi verið atvinnulaus hluta árs 2009 og allt árið 2010 og 2011. Þetta séu þau tekjuár sem miða ætti við samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þar sem stefnandi hafi verið atvinnulaus á þeim tíma sé rétt að beita 2. mgr. 7. gr. Stefnandi hafi unnið hjá […] á árunum 2005 og 2006, hjá […] ehf. hluta árs 2007 og hjá […] hf. frá maí það ár og þar til hann hafi misst vinnuna í júní 2009. Hann hafi svo hafið störf hjá Golfklúbbi […] skömmu fyrir slysið. Stefnandi hafi því sýnt að hann hafi verið fær um að afla tekna fyrir slysið og atvinnuleysi hans hafi ekki verið viðvarandi ástand. Aðstæður stefnanda hafi því sannanlega verið óvenjulegar á viðmiðunarárunum í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Annar mælikvarði en meðaltekjur hans sl. þrjú ár fyrir slysið sé því réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Stefnandi telji réttan mælikvarða vera meðaltekjur verkamanna árið fyrir slysið. Hann hafi enda unnið verkamannastörf áður og þegar hann hafi lent í slysinu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hafi meðaltekjur verkamanna árið 2011 verið samtals 388.000 krónur á mánuði eða 4.656.000 krónur fyrir allt árið. Uppreiknaðar m.t.t. launavísitölu í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr., og að viðbættu 8% framlagi í lífeyrissjóð, nemi þessar viðmiðunartekjur 5.503.385 krónum. Bætur fyrir varanlega örorku verði því samtals 3.382.930 krónur (5.503.385 x 12,294 x 5%).
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sannað málsatvik, í öðru lagi á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða sem enginn geti borið ábyrgð á og í þriðja lagi á því að saknæm háttsemi stefnda sé ósönnuð. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að eitthvað saknæmt af hálfu Golfklúbbs […] hafi valdið því að hann hafi misstigið sig við slátt á golfvellinum þannig að bótaréttur hafi stofnast honum til handa úr ábyrgðartryggingu Golfklúbbsins hjá stefnda.
Í stefnu komi fram að stefnandi hafi misst takið á sláttuvélinni sem þá hafi runnið ofan í glompu og hvolft, hann hafi síðan runnið að sláttuvélinni með þeim afleiðingum að fyrst hafi annar fótur hans lent í ljá vélarinnar en síðan tveir fingur hægri handar. Stefndi telji að vegna eiginleika sláttuvélarinnar geti atvikið ekki hafa orðið með þessum hætti. Á sláttuvélinni sé öryggishandfang sem haldið sé í þegar slegið er. Þegar handfanginu er sleppt stöðvist ljár sláttuvélarinnar. Ekki liggi annað fyrir en að öryggishandfangið hafi virkað sem skyldi. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því hvernig slysið hafi viljað til. Þar sem hann hafi ekki sannað að atvik hafi verið með framangreindum hætti geti ekki komið til álita að hann eigi bótarétt úr ábyrgðartryggingu Golfklúbbsins hjá stefnda.
Stefndi byggi sýknukröfu sína einnig á því að um óhappatilvik sé að ræða eða atvik sem eingöngu megi rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi stefnandi misstigið sig umrætt sinn. Engin orsakatengsl séu því á milli aðbúnaðar eða tækjabúnaðar og slyss stefnanda. Stefnandi hafi verið að vinna tiltölulega einfalt verk þegar hann hafi misstigið sig, m.a. hafi tveir unglingsstrákar unnið með honum. Þegar óhappið hafi átt sér stað hafi stefnandi verið búinn að starfa hjá stefnda í um tvær vikur. Starf hans hafi nær eingöngu falist í að slá golfvöllinn, m.a. með umræddri sláttuvél. Stefnandi hafi því verið vel kunnugur staðarháttum og sláttuvélinni og þekkt verkið vel.
Þá sé með öllu ósannað að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með þeim hætti sem stefnandi byggi á að því er varði tækjabúnað og aðbúnað. Stefnandi byggi á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því að hann hafi misstigið sig við sláttinn. Ekki sé um að ræða að saknæm háttsemi einhvers starfsmanns Golfklúbbsins hafi leitt til tjóns stefnanda heldur eingöngu eigin háttsemi stefnanda. Möguleg skaðabótaábyrgð Golfklúbbs […] verði því ekki reist á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Verkið sem stefnandi hafi unnið umrætt sinn hafi verið einfalt. Stefnandi hefði með eðlilegri aðgæslu auðveldlega getað komið í veg fyrir slysið. Ganga verði út frá því að stefnandi hafi ekki verið að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði þegar slysið hafi átt sér stað og hann hefði átt að þekkja eitthvað til virkni sláttuvéla og hvers beri að varast við notkun þeirra.
Samkvæmt 26. gr. laga nr. 46/1980 hvíli sú skylda á starfsmönnum að gæta sjálfir að eigin aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum, auk þess sem þeim beri skylda til að tilkynna um það sem þeir telja athugavert. Ef stefnandi hefði talið eitthvað athugavert við sláttuvélina eða eitthvað annað tengt verkinu og framkvæmd þess hafi sú skylda hvílt á honum að láta vita um það og leitast við að bæta úr því eins og hann hafi haft þekkingu og reynslu til.
Ekki hafi þurft að veita stefnanda mikla leiðsögn um hvernig framkvæma skyldi starfið þar sem um tiltölulega einfalt verk hafi verið að ræða. Stefnandi hafi þó fengið leiðbeiningar frá vallarstjóra áður en hann hafi byrjað starfið, honum hafi verið kennt á sláttuvélina og öryggishandfangið og hvernig rétt væri að bera sig að við sláttinn. Þá hafi honum verið boðnir sérstakir skór með stáltá og frekar grófum sóla sem veiti gott grip. Slíkur skóbúnaður henti best við slátt á golfvelli. Ekki skipti máli þótt golfskór séu útbúnir á annan hátt en það sé ekki vaninn að starfsmenn á golfvelli noti golfskó við vallarstörf. Ráðleggingar um skóbúnað hefðu ekki getað komið í veg fyrir óhappið. Þar sem stefnandi hafi misstigið sig hefði annar skóbúnaður engu breytt. Þá hafi stefnandi fengið ráðleggingar um skóbúnað og aðgang að hentugum skóm. Stefnandi hafi hins vegar ákveðið að klæðast eigin skóm við vinnuna og verði að bera hallann af því sjálfur hafi þeir ekki hentað til verksins. Stefndi geti því ekki borið ábyrgð á skóbúnaði stefnanda umrætt sinn.
Stefndi mótmæli niðurstöðu Vinnueftirlitsins um að sláttuvélin sem stefnandi hafi notað umrætt sinn hafi ekki hentað til verksins. Engin rök sé að finna fyrir niðurstöðunni og ljóst að hún byggi ekki á vandlegri könnun á aðstæðum eða þekkingu á því hvernig gras er slegið við sandglompur og hvaða tæki séu notuð á golfvöllum. Stefndi telji að sláttuvélin hafi hentað vel fyrir það verk sem stefnandi hafi unnið, enda sé það venja að nota svona sláttuvél við sambærileg verk á golfvöllum hér á landi. Um svokallaða loftpúðasláttuvél eða „Flymo“ hafi verið að ræða. Í umsögn Vinnueftirlitsins komi fram að sláttuvélin hafi verið „loftpúðavél af gerðinni Flymo með tveggja hestafla Briggs & Stritton vél“. Golfklúbburinn hafi notað loftpúðasláttuvélar frá framleiðandanum Husqvarna frá árinu 2000. Af upplýsingum um slíkar sláttuvélar megi sjá að þær eru hannaðar til þess að slá erfiða fleti, sérstaklega hallandi svæði um allt að 45°. Í umsögn Vinnueftirlitsins komi fram að hallinn á bakkanum niður að glompunni sé á að giska 45°. Hið rétta sé að hallinn sé um 40°. Hvort sem miðað sé við 40° eða 45° sé ljóst að sláttuvélin hafi hentað vel til verksins, enda hönnuð til þess að slá í halla. Ekki hafi verið mögulegt að nota aðra tegund af sláttuvél við verkið. Þá séu sambærilegar sláttuvélar notaðar á öðrum golfvöllum landsins við sambærilegar aðstæður.
Stefndi hafni því alfarið að Golfklúbburinn hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og brotið gegn þeim ákvæðum laga, reglugerða og reglna sem stefnandi vitni til. Stefndi telji verulega skorta á að nægileg grein sé gerð fyrir því hvaða skyldur séu brotnar og hvernig og hvað gera hefði átt í staðinn.
Varðandi 13. og 37. gr. laga nr. 46/1980 bendi stefndi á að aðbúnaður hafi verið góður, sláttuvélin hafi hentað til verksins og stefnanda hafi staðið til boða öryggisskór. Því hafi verið gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í 14. gr. sömu laga sé vísað til kennslu og þjálfunar starfsmanna við framkvæmd starfa þeirra. Stefnandi hafi fengið leiðsögn um notkun sláttuvélarinnar og hvernig henni skyldi beitt við upphaf starfsins. Sláttur grass sé einfalt starf og því ekki nauðsynlegt að veita viðamiklar leiðbeiningar. Þjálfun og kennsla hafi verið fullnægjandi. Í 21. og 46. gr. laganna komi fram að búnaður allur skuli vera góður og tæki þannig úr garði gerð að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Sláttuvélin sem notuð hafi verið hafi hentað til verksins og ekki sé á því byggt að hún hafi ekki virkað sem skyldi. Búnaðurinn hafi því verið fyllilega öruggur til verksins. Í 23. gr. laganna greini að starfsskilyrði skuli vera fullnægjandi hvað varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Ástæða þess að stefnandi hafi slasast sé sú að hann hafi misstigið sig í grasi við sláttinn. Hann hafi notað sláttuvél sem hentaði til verksins sem almennt sé notuð á öðrum golfvöllum á Íslandi við sömu störf. Starfsskilyrði hans hafi því uppfyllt skilyrði laganna.
Í 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja sé fjallað almennt um að tæki skuli hæfa viðkomandi verki. Þessa hafi fyllilega verið gætt af hálfu Golfklúbbsins enda hafi stefndi sýnt fram á að sláttuvélin hafi hentað til verksins. Þá hafi stefnandi sjálfur ákveðið að nota eigin skó í staðinn fyrir að nýta sér þá öryggisskó sem vinnuveitandi hans hafi boðið upp á. Í 7. og 8. gr. sé fjallað um upplýsingaskyldu vinnuveitanda um notkunarskilyrði tækja og þjálfun starfsmanna. Stefnandi hafi fengið kennslu í notkun sláttuvélarinnar en hún sé einföld í notkun. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvernig aðrar leiðbeiningar hefðu getað breytt atburðarásinni. Leiðbeiningarnar hafi verið fullnægjandi fyrir eins einfalt starf og sláttur grass sé. Þá sé ljóst að slysið hafi ekki orðið vegna notkunar sláttuvélarinnar heldur af þeirri ástæðu einni að stefnandi hafi misstigið sig og runnið í grasinu.
Varðandi 25. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum um þjálfun starfsmanna að því er varði aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað byggi stefndi á því að stefnandi hafi fengið nægilega þjálfun þegar hann hóf störf hjá Golfklúbbi […], honum hafi verið kennt á sláttuvélina og hvernig hann skyldi bera sig að við verkið. Því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðinu. Ekki verði séð að önnur tegund sláttuvélar eða frekari þjálfun stefnanda hefði getað haft áhrif á það hvort stefnandi hefði misstigið sig eða runnið með öðrum hætti umrætt sinn. Stefnandi byggi sjálfur ekki á því að aðbúnaður sláttuvélarinnar hafi leitt til þess að hann hafi misstigið sig eða runnið á annan hátt. Engin orsakatengsl séu því á milli óhappsins og tegundar sláttuvélarinnar eða þjálfunar á hana. Golfklúbburinn beri því enga sök á óhappinu.
Varakrafa stefnda um lækkun byggi annars vegar á því að útreikningar stefnanda á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu rangir og hins vegar á því að stefnandi verði að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.
Stefndi telji að við útreikning stefnanda á tímabundnu tekjutapi skv. 2. gr. skaðabótalaga beri einnig að draga frá greiðslu að fjárhæð 39.515 krónur sem stefnandi hafi fengið greiddar frá Vinnumálastofnun í júlí 2012. Tímabundið tekjutap stefnanda hafi þannig verið 84.160 krónur.
Stefndi fallist á það með stefnanda að aðstæður hans hafi verið óvenjulegar og að almennur mælikvarði 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé því ekki réttur við mat á framtíðartekjum hans. Stefndi mótmæli hins vegar tekjuviðmiði stefnanda. Stefnandi hafi ekki verið í fastri vinnu þegar óhappið hafi orðið og hafi einungis verið ráðinn tímabundið til Golfklúbbsins í gegnum átakið „Vinnandi vegur“ á vegum Vinnumálastofnunar. Stefnandi hafi áður verið á atvinnuleysisbótum frá júlí 2009, en þar áður starfað hjá […], fyrst í 100% starfi en síðan í 76% starfi. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi aflað tekna sem hafi verið hærri en lágmarkslaun áður en óhappið hafi orðið, hann hafi verið 31 árs og samkvæmt upplýsingum í matsgerð hafi hann hug á frekara námi. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hefði getað aflað sér hærri tekna en lágmarkslauna hefði hann ekki lent í óhappinu. Stefndi telji því rétt að miða við lágmarkslaun við útreikninginn. Lágmarkslaun, uppreiknuð með verðbótum til stöðugleikapunkts, séu 2.902.000 krónur. Bætur fyrir varanlega örorku ættu því að vera 2.902.000 krónur x 12,294 x 5% = 1.783.859 krónur og að frádregnum útgreiddum örorkubótum launþegatryggingar 509.490 krónur samtals 1.274.369 krónur.
Verði ekki fallist á að miða við lágmarkslaun beri að miða við meðallaun verkamanna, en ekki eingöngu meðallaun karla árið 2011, en annað brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Meðallaun verkamanna árið 2011 hafi verið 366.000 krónur og árslaun því 366.000 krónur x 12 = 4.392.000 krónur. Með verðbótum til stöðugleikapunkts, auk 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð séu árslaunin því 5.191.337 krónur. Bætur stefnanda vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. séu því: 5.191.337 krónur x 12,294 x 5% = 3.191.114 krónur og að frádregnum útgreiddum örorkubótum launþegatryggingar að fjárhæð 509.490 krónur samtals 2.681.624 krónur.
Þá telji stefndi að stefnandi þurfi að bera hluta tjóns síns sjálfur. Notkun sláttuvéla við slátt á grasi sé tiltölulega einfalt verk sem algengt sé að krakkar úr unglingavinnu stundi. Það hafi verið ákvörðun stefnanda að notast ekki við þá skó sem vinnuveitandi hans hafi boðið upp á, heldur eigin skó. Verði því að ætla að aðgæsluleysi stefnanda sjálfs hafi, a.m.k. að hluta, verið ástæða þess að hann hafi slasast. Hann verði því að bera hluta tjóns síns vegna þessa enda meðábyrgð hans slík að leiða eigi til skerðingar á bótarétti hans.
IV
Stefnandi slasaðist við störf sín fyrir Golfklúbb […] 10. júlí 2012 þar sem hann var að slá gras á golfvelli við talsverðan halla. Stefnandi rann til og missti takið á sláttuvélinni sem hvolfdi og hann féll á hana með þeim afleiðingum að tveir fingur lentu í ljá vélarinnar. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins hefur verið metinn 3 stig og varanleg örorka 5%. Stefndi telur ekki sannað að málsatvik hafi verið með þeim hætti sem stefnandi heldur fram, um óhappatilvik hafi verið að ræða og að saknæm háttsemi af hálfu stefnda sé ósönnuð.
Stefnandi er einn til frásagnar um slysið, en svo virðist sem engin vitni hafi verið að því hvernig það bar að. Stefnandi lýsti slysinu svo fyrir dómi að hann hefði verið við slátt á golfvellinum og tveir ungir drengir hefðu verið með honum. Hann hefði tekið eftir því að mjög bratt væri á þessum tiltekna stað og beðið drengina um að bíða í bílnum á meðan hann slægi þar. Þegar hann hafi slegið neðst í hallanum hafi hann runnið til og sláttuvélin hafi dregið hann niður í sandgryfjuna. Sláttuvélin hafi stungið framendanum í sandinn og lyfst upp. Hann hafi runnið með hægri fótinn undir vélina. Hann hafi þá verið búinn að sleppa takinu á handfanginu en ljárinn hafi enn snúist. Hann hafi ýtt sláttuvélinni til hliðar og hún endað á hliðinni. Hann hafi svo ætlað að reisa sig upp en þá rekið fingurna í ljáinn. Stefnandi kvaðst ekki hafa misstigið sig umrætt sinn. Það hafi eingöngu verið orð lögreglumannsins sem hafi ritað lögregluskýrslu um atvikið en hann hafi ekki fallist á þetta orðalag. Stefnandi lýsti starfi sínu á golfvellinum svo að í því hafi falist að láta golfvöllinn líta vel út, m.a. með því að slá grasið ef þess þurfti. Hann hafi ekki verið búinn að slá á þessum stað á golfvellinum áður en slysið hafi átt sér stað. Hann hafi ekki haft neina fyrri reynslu af garðslætti og honum hafi hvorki verið leiðbeint um notkun sláttuvélarinnar né fenginn öryggisbúnaður.
Vitnið D, framkvæmdarstjóri Golfklúbbs […], greindi frá því að honum hefði verið kunnugt um að stefnandi hefði litla sem enga reynslu. Eftir því sem hann vissi best hefði stefnandi fengið leiðbeiningar frá vallarstjóra um hvernig hann ætti að sinna starfinu og um hlífðarbúnað. Vitnið kvað mikinn halla vera við nokkrar holur á golfvellinum, en ekki væri þó þörf fyrir framlengingarbúnað á sláttuvélina og því væri hann ekki til. Hann taldi hallann þar sem slysið átti sér stað vera 45°. Hann sagði áhættumat hafa verið gert fyrir golfvöllinn, en mundi ekki hvort það hefði verið gert fyrir eða eftir slysið.
E, fyrrverandi vallarstjóri Golfklúbbs […], kvað stefnanda hafa fengið upplýsingar um starfið og að honum hefði verið sýndur búnaðurinn. Aðstoðarmaður hans hafi séð um að setja stefnanda inn í starfið. Stefnanda hafi verið boðnir skór með stáltá sem hann hafi afþakkað þar sem hann ætti svipaða skó. Vitnið kvað sláttuvélina einfalt tæki sem auðvelt væri að læra á. Stefnanda hefði verið sýnt hvernig tækið virkaði og svo „hent út á völl“. Stefnandi hafi slegið en tveir drengir hafi verið með honum og séð um að raka grasið sem stefnandi hafi slegið. Spurður um hvort sérstaklega hafi verið farið yfir hættur sem fylgdu notkun sláttuvélarinnar og notkun í halla kvað hann svo ekki hafa verið. Hann kvaðst ekki kannast við áhættumat fyrir golfvöllinn.
Slys stefnanda var tilkynnt lögreglu samdægurs, sem aftur tilkynnti Vinnueftirlitinu um það sama dag. Er lögregla kom á vettvang var búið að flytja stefnanda inn í sjúkrabifreið. Lögreglan ræddi við tvo drengi á vettvangi sem sagðir voru vitni að slysinu, en þeir voru við störf með stefnanda. Er haft eftir þeim að stefnandi hafi runnið til og misst takið á vélinni svo að hún hafi runnið niður í sandglompuna og oltið á hliðina. Stefnandi hafi síðan runnið á eftir vélinni og farið með höndina í blaðið sem hafi enn verið að snúast. Þá er í skýrslunni haft eftir stefnanda að hann hafi misstigið sig í grasinu sem hafi verið blautt eftir vökvun.
Í tilkynningu sem Golfklúbbur […] sendi Vinnueftirlitinu 12. júlí 2012 og er undirrituð af framkvæmdastjóra hans er slysinu lýst með þeim hætti að um hafi verið að ræða vinnu við slátt á glompu í smá halla. „Starfsmaður rennur til og lendir með hendi í slátturspaða vélarinnar.“ Vinnueftirlitið rannsakaði slysið og komst að þeirri niðurstöðu, eins og að framan er lýst, að orsök slyssins mætti rekja til erfiðra aðstæðna þar sem slegið var í miklum halla með sláttuvél sem hentaði illa til verksins.
Í málinu liggja einnig fyrir tilkynningar vegna slyssins til Sjúkratrygginga Íslands og til stefnda. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. nóvember 2012, sem undirrituð er af bæði stefnanda og framkvæmdastjóra Golfklúbbs […] kemur fram að stefnandi hafi verið að slá gras nálægt sandgryfju. Golfvöllurinn hafi verið blautur þar sem hann hafi verið vökvaður um nóttina auk þess sem það hafi rignt dálítið. Stefnandi hafi skyndilega runnið í bleytu í grasinu og sláttuvélin hafi runnið niður í sandgryfjuna þar sem hún hafi sporðreists og stefnandi runnið niður á eftir. Hann hafi fyrst farið með hægri fótinn í spaða vélarinnar og síðan fingur hægri handar. Í ódagsettri tilkynningu stefnanda til stefnda vegna slyss innanlands greinir hann með sama hætti frá bleytu á golfvellinum vegna vökvunar og rigningar. Hann hafi staðið nokkuð frá brúninni á sandgryfju og slegið grasið er hann hafi skyndilega runnið í bleytunni þegar hann hafi ætlað að færa sláttuvélina með þeim afleiðingum að vélin hafi farið niður í gryfjuna og hann runnið á eftir. Vélin hafi lyfst upp að aftan og hafi hægri fótur hans og síðan fingur farið í spaða vélarinnar.
Í læknisvottorðum vegna slyssins er því lýst að stefnandi hafi runnið í bleytu, dottið eða fipast við sláttinn. Þá er slysinu lýst svo í matsgerð B læknis og C hæstaréttarlögmanns að stefnandi hafi runnið til vegna bleytu.
Stefndi telur ósannað að slysið hafi orðið með þeim hætti sem stefnandi lýsir. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi misstigið sig og að um aðgæsluleysi hans hafi því verið að ræða. Eins og hér að framan er lýst kemur það einungis fram á einum stað í gögnum málsins, í lögregluskýrslu, dags. 12. júlí 2012, að stefnandi hafi misstigið sig. Um er að ræða atriði sem lögreglumaður skráði eftir símtal við stefnanda daginn eftir slysið. Stefnandi hefur hafnað því að hafa lýst atvikinu með þessum hætti og telur að lögreglumaðurinn hafi ákveðið að nota þetta orð. Framangreind skýrsla var ekki borin undir stefnanda. Með hliðsjón af framburði hans um þetta atriði og lýsingu á slysinu í öðrum gögnum málsins er ekki hægt að byggja á því að stefnandi hafi misstigið sig umrætt sinn.
Engin sérstök rannsókn fór fram á sláttuvélinni sem stefnandi notaði við slysið. Liggur ekki annað fyrir en að hún hafi virkað sem skyldi. Á sláttuvélinni er öryggishandfang sem haldið er í meðan slegið er. Ef handfanginu er sleppt stöðvast ljár sláttuvélarinnar fljótt, en ekki þegar í stað. Ljóst er að fótur stefnanda fór fyrst í ljáinn, en við vettvangsgöngu sýndi stefnandi skóinn sem hann var í við atvikið. Ef stefnandi hefur þá verið búinn að sleppa öryggishandfanginu hefði ljárinn átt að stöðvast við þetta. Möguleg skýring á áframhaldandi snúningi er t.d. að stefnandi hafi enn haldið í öryggishandfangið er hann rak fótinn í ljáinn. Samkvæmt upplýsingum um sláttuvélina sem notuð var og sams konar sláttuvélar eru þær meðal annars ætlaðar til notkunar við halla allt að 45°. Stefndi vísar til þess að slíkar sláttuvélar hafi ávallt verið notaðar hjá honum við svipaðar aðstæður og það sama gildi um aðra golfvelli. Ljóst er að ávallt er nokkur hætta samfara notkun slíkt tækis. Við vettvangsgöngu sást vel að þar sem slys stefnanda varð er verulegur halli ofan í sandgryfjuna. Þá er einnig nokkur halli þar fyrir ofan og því ljóst að stefnandi stóð ekki á jafnsléttu er slysið varð. Við slíkar aðstæður er verulegrar aðgæslu þörf. Óumdeilt er að grasið í kringum sandgryfjuna var blautt, hver svo sem orsök þess var, en það gerði aðstæðurnar enn erfiðari.
Stefnandi hafði einungis unnið í nokkra daga hjá Golfklúbbi […] er slysið varð. Hann kveðst enga þjálfun hafa fengið í notkun sláttuvélarinnar. Eins og að framan er lýst taldi framkvæmdastjóri Golfklúbbsins að vallarstjóri hefði kennt stefnanda á sláttuvélina, en ljóst hafi verið að stefnandi hefði litla sem enga reynslu. Þáverandi vallarstjóri taldi hins vegar að aðstoðarmaður sinn hefði séð um að fræða stefnanda um starfið. Sá aðstoðarmaður kom ekki fyrir dóminn. Vallarstjórinn lýsti því hins vegar að sláttuvélin væri einfalt tæki og ekki hafi verið mikil þörf á þjálfun. Þá taldi hann að ekki hafi verið sérstaklega farið yfir hættur samfara notkun sláttuvélarinnar. Ekkert áhættumat var kynnt fyrir stefnanda.
Stefnandi sýndi á vettvangi hvernig hann bar sig að við sláttinn þegar slysið varð. Telja verður að koma hefði mátt í veg fyrir slysið hefði stefnandi fengið leiðbeiningar um hvernig rétt væri að bera sig að þannig að hann hefði ekki verið í hættu á að lenda á sláttuvélinni missti hann tök á henni. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að stefnandi hafi fengið fullnægjandi leiðbeiningar um notkun sláttuvélarinnar. Verður því fallist á skaðabótaskyldu stefnda á líkamstjóni stefnanda vegna slyss hans 10. júlí 2012. Ekki þykja efni til að leggja hluta sakar á stefnanda.
Ágreiningslaust er að aðstæður stefnanda eru óvenjulegar og því skuli árslaun hans metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Aðila greinir hins vegar á um við hvaða árslaun skuli miða. Stefnandi reisir kröfu sína á því að miða skuli við laun verkamanna. Stefndi telur hins vegar að miða skuli við lágmarkslaun, en að öðrum kosti meðallaun verkamanna sem miðist ekki eingöngu við karlmenn. Stefnandi, sem var 31 árs á slysdegi, hafði sinnt ýmsum verkamannsstörfum fyrir slysið. Þá hefur hann nýlega ráðið sig aftur til slíkra starfa. Hann hefur takmarkaða almenna menntun og engin starfsréttindi. Matsmenn töldu stefnda geta unnið flest léttari störf án takmarkana en starfsgeta til erfiðari starfa teldist hins vegar lítillega skert sem taka yrði tillit til í ljósi aldurs og menntunar. Að framangreindu virtu verður að telja að réttast sé að miða líklegar framtíðartekjur stefnanda við meðallaun verkafólks, en ekki eru efni til að greina á milli kynja í því sambandi. Verður fjárhæð bóta vegna varanlegrar örorku því 3.191.114 krónur, en útreikningur á þeirri fjárhæð hefur ekki sætt andmælum.
Stefndi telur að draga skuli 39.515 krónur, sem stefnandi fékk greiddar frá Vinnumálastofnun, frá tímabundnu atvinnutjóni stefnanda. Stefnandi var ráðinn til starfa hjá Golfklúbbi […] frá 27. júní 2012 í gegnum átaksverkefni Vinnumálastofnunar sem kallaðist Vinnandi vegur. Á því skjali sem stefndi vísar til um framangreinda greiðslu frá Vinnumálastofnun koma fram greiðslur frá stofnuninni frá janúar til júlí 2012 að fjárhæð rúmlega 170.000 krónur á mánuði nema 39.515 krónur í júlí. Ekkert kemur fram um hvers konar greiðslur er að ræða. Verður því ekki séð að framangreind greiðsla skuli koma til frádráttar kröfu stefnanda.
Í samræmi við allt framangreint verður fallist á kröfu stefnanda á hendur stefnda að fjárhæð 3.929.754 krónur með vöxtum eins og krafist er, allt að frádreginni innborgun stefnda 29. desember 2014.
Í samræmi við þessa niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem renni í ríkissjóð og ákveðst 1.138.557 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ. á m. málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.125.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Barbara Björnsdóttir og Ásmundur Helgason og Gunnsteinn Olgeirsson garðyrkjufræðingur og yfirverkstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 3.929.754 krónur með 4,5% ársvöxtum af 738.640 krónum frá 10. júlí 2012 til 1. janúar 2013, en af 3.929.754 krónum frá þeim degi til 10. febrúar 2015, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 509.490 krónum sem stefndi greiddi 29. desember 2014.
Stefndi greiði 1.138.557 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ. á m. þóknun lögmanns hans, 1.125.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.