Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. maí 2002.

Nr. 146/2002.

Jóhannes Ottósson

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

gegn

Hólmfríði G. Sigurðardóttur

(enginn)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna.

Undir opinberum skiptum til fjárslita milli H og J vísaði skiptastjóri tilgreindum ágreiningsatriðum til úrlausnar héraðsdóms í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Réðst úrlausnarefni málsins af þeirri kröfu sem þar var sett fram. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um frávísun krafna H vegna atriða sem ekki var að finna í bréfi skiptastjóra. Jafnframt var staðfest niðurstaða héraðsdóms um kröfur þær sem J hafði haft uppi.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. mars 2002, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um nánar tilgreind atriði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 3.852.500 krónur „auk vaxta frá 1. október 1999 til skiptaloka“, að frá matsverði á Safírstræti 5, sem hann fær lagt út við skiptin, „verði dregin fjárhæð vegna útlagðs kostnaðar frá upphafi skipta og fram að matsdegi, að teknu tilliti til tekna, að fjárhæð 1.174.283 kr.“ og að sér verði endurgreiddur útlagður kostnaður, annars vegar 338.348 krónur „auk vaxta frá 1. apríl 1998 til skiptaloka“ og hins vegar 38.610 krónur „auk vaxta frá 1. janúar 2000 til skiptaloka“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. mars 2002.

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. janúar s.l., barst dóminum með bréfi skiptastjóra, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur héraðsdómslögmanns, dags. 4. október s.l. Styðst málskot þetta við 112. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20, 1991.

Sóknaraðili málsins er Hólmfríður G. Sigurðardóttir, Valsárskóla, en varnaraðili Jóhannes Ottósson, Miðteigi 2, Akureyri.

Sóknaraðili gerir eftirfarandi kröfur í málinu og eru þær settar fram sem kröfur um breytingar á fyrirliggjandi skiptatillögu skiptastjóra, sem fylgdi boðun á skiptafund þann 3. október 2000:

1.        Miðað verði við matsverð á Sörlaskjóli 3, hesthús og hlaða, kr. 1.900.000,-.

2.        Til frádráttar endanlegri úthlutun til varnaraðila komi fylgihlutir bifreiðar, Toyota Hilux, sem kom í hlut sóknaraðila, á því verði sem skiptastjóri hefur komist að niðurstöðu um skv. 105. gr. laga nr. 21, 1991.

3.        Hestarnir Vænting og Sörli, sem komu í hlut sóknaraðila samkvæmt úthlutun skiptastjóra, verði felldir út úr skiptatillögu, þar sem þeir hafi báðir verið verðlausir og því felldir.

4.        Krafa varnaraðila á hendur búinu að fjárhæð kr. 817.500,- verði felld niður.

5.        Matskostnaður vegna mats á hestinum Safír að fjárhæð kr. 267.053,- verði greiddur af varnaraðila einum.

6.        Reiðtygi og annar búnaður sem tilheyrði hestum búsins verði tekinn undir skiptin og sóknaraðili fái greiddan helming af verðmætinu miðað við niðurstöðu skiptastjóra fenginni samkvæmt 105. gr. laga nr. 20, 1991.

7.        Matsverð hryssunnar Friggjar samkvæmt yfirmati, kr. 200.000,-, verði leiðrétt þar sem matið var byggt á röngum forsendum.

8.        Að sóknaraðili fái greidda dráttarvexti skv. III. kafla laga nr. 25, 1987 af endurgjaldskröfu sinni á hendur varnaraðila samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 258/1999, kr. 2.375.000,-, frá 1. september 1999 til 1. júlí 2001, en skv. III. kafla laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Einnig gerir sóknaraðili kröfu um almenna vexti af inneign sinni hjá búinu, sem  enn hefur ekki verið greidd henni, frá upphafsdegi opinberra skipta til greiðsludags.

9.        Að þóknun skiptastjóra verði lækkuð verulega frá framkominni kröfu hans.

10.     Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila.

11.     Markaðsverð verði látið ráða við verðmat á hryssunni Drottningu.

 

Kröfur varnaraðila eru eftirfarandi (töluliðir vísa til kröfuliða sóknaraðila):

1.         Aðallega að þessum kröfulið verði vísað frá dómi, en til vara, að staðfest verði fyrri ákvörðun skiptastjóra um að leggja sóknaraðila Sörlaskjól 3 út á kr. 1.450.000,-.

2.         Aðallega að þessum kröfulið sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara, að staðfest verði fyrri ákvörðun skiptastjóra um útlagningu Toyota Hilux bifreiðar til sóknaraðila án greindra fylgihluta.

3.         Aðallega að þessum kröfulið sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara, að kröfum samkvæmt honum verði alfarið hafnað.

4.         Að viðurkennd verði krafa varnaraðila á hendur búinu að fjárhæð kr. 3.852.500,- auk vaxta frá 1. október 1999 til skiptaloka.  Þá krefst varnaraðili endurgreiðslu útlagðs kostnaðar í þágu búsins samtals að fjárhæð kr. 338.348,- auk vaxta frá 1. apríl 1998 til skiptaloka vegna ársins 1998 og kr. 38.610,- auk vaxta frá 1. janúar 2000 til skiptaloka.  Gerð er krafa um að vextir taki mið af almennum óverðtryggðum skuldabréfum.  Þá krefst varnaraðili þess, að frá matsverði á Safírstræti 5, sem varnaraðili fær útlagt, verði dregin fjárhæð vegna útlagðs kostnaðar frá upphafi skipta og fram að matsdegi, að teknu tilliti til tekna, kr. 1.174.283,-.

5.         Að kröfum sóknaraðila verði hafnað og viðurkennt að þessi kostnaður falli utan við skiptin.

6.         Aðallega að þessum kröfulið sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara, að kröfum samkvæmt honum verði hafnað.

7.         Aðallega að þessum kröfulið sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara, að kröfum samkvæmt honum verði hafnað.

8.         Aðallega að þessum kröfulið sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara, að kröfum samkvæmt honum verði hafnað.

9.         Að þessum kröfulið verði vísað frá dómi

10.      Að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað.

11.      Að matsverð hryssunnar Drottningar verði ákveðið kr. 30.000,-.

12.      Að útlagður kostnaður mannsins skv. 4. tl. beri vexti.

 

Verkefni dómsins er í fyrsta lagi afmörkun þeirra ágreiningsatriða, sem taka ber afstöðu til í málinu.  Að niðurstöðu fenginni um það þarf annars vegar að taka afstöðu til verðmætis ákveðinna eigna og hins vegar hvernig fara skuli með framkomnar kröfur er tengjast opinberum skiptum til fjárslita milli aðila.

 

I.

Málsatvik eru þau, að sóknaraðili krafðist skilnaðar við varnaraðila þann 20. janúar 1998 og var samhliða gerð krafa um opinber skipti til fjárslita milli þeirra hjóna.  Inga Þöll Þórgnýsdóttir, héraðsdómslögmaður, var skipuð skiptastjóri með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra þann 24. mars 1998.

Undir skiptunum hefur margvíslegur ágreiningur komið upp milli aðila og hafa ágreiningsefni þeirra í þrígang sætt meðferð dómstóla.  Lauk síðasta ágreiningsmálinu með dómi Hæstaréttar uppkveðnum þann 24. ágúst 1999.  Var í málinu viðurkennd endurgjaldskrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð kr. 2.375.000,- en öðrum kröfum vísað frá dómi.

Þann 16. september 1999 sendi skiptastjóri aðilum tillögur að skiptalokum.  Ágreiningur varð um verðmat tveggja hrossa sem lyktaði með dómkvaðningu matsmanna og yfirmatsmanna og tóku lögmenn aðila því ekki afstöðu til tillögunnar að svo stöddu. 

Skiptastjóri sendi aðilum nýjar tillögur að skiptalokum með boðun á skiptafund þann 3. október 2000.  Ekki varð af skiptafundi vegna anna lögmanna aðila og ágreinings um störf skiptastjóra

Á skiptafundi þann 7. maí 2001 var gerð tilraun til að ljúka skiptum til fjárslita milli aðila.  Lagði skiptastjóri til að skiptum yrði lokið á grundvelli skiptatillagnanna, sem meðfylgjandi voru áðurnefndri boðun á skiptafund 3. október 2000.  Á skiptafundinum var bókuð svofelld athugasemd eftir lögmanni mannsins:  „Lagt er fram minnisblað frá lögmanni mannsins vegna skiptafundar nr. 133 þar sem reifuð eru eftirfarandi ágreiningsatriði og gerð er krafa um greiðslu vegna umhirðu hrossa og kostnaður við Safírstræti og annars útlagðs kostnaðar vegna búsins.  Þá er gerð krafa um að matskostnaður vegna Safírs verði ekki dreginn undir búskiptin og að verð á Drottningu verði skattmatsverð kr. 25.000,-.  Þá er krafist vaxta á útlagðan kostnað.“  Jafnframt segir í endurriti skiptafundar:  „Lögmaður konunnar leggur ekki fram gögn.  Lögmaður konunnar mótmælir kröfu um umhirðu á hrossum.  Þá er staðfest að ágreiningur er um kostnað vegna Safírstrætis.  Því er mótmælt að matskostnaður á Safír sé inn í dæmdum málskostnaði.“

Í bréfi skiptastjóra til dómsins dags. 4. október 2001 segir eftirfarandi um lok skiptafundarins 7. maí 2001:  „Í framhaldi af því kom upp ágreiningur með störf skiptastjóra sem lyktaði með því að skiptastjóri óskaði eftir að fara frá málinu.  Að lokum sættust lögmenn á að ljúka skiptum í samræmi við tillögu skiptastjóra en að ágreiningi um tiltekin atriði yrði vísað til úrslausnar dómstóls.  Skiptastjóri varð við þeirri tillögu gegn því að störfum hans við skiptin væri þar með lokið og að greiðsla vegna skiptanna yrði greidd skv. sundurliðaðri tímaskýrslu.“

Í niðurlagi nefnds bréfs, dags. 4. október 2001, lagði skiptastjóri síðan eftirfarandi ágreiningsatriði fyrir dóminn varðandi hin opinberu skipti til fjárslita milli aðila:  1) Hver skal vera greiðsla til mannsins vegna umhirðu hrossa?  2) Hver skal vera greiðsla til mannsins vegna hesthúss að Safírstræti.  3) Hver skal vera greiðsla til mannsins vegna annars útlagðs kostnaðar við búið, sbr. skjal nr. 133 hjá skiptastjóra.  4) Ágreining um hvort matskostnað vegna Safírs eigi að draga undir skiptin eða hvort matskostnaður sé inni í dæmdum málskostnaði.  5) Ágreining um verð á Drottningu.  6) Kröfu mannsins um vexti á útlagðan kostnað.

 

II.

Eins og áður hefur verið rakið byggir málskot þetta á 112. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20, 1991.  Í 112. gr. segir m.a., að rísi ágreiningur milli aðila við opinber skipti samkvæmt XVI. kafla laganna um atriði sem 2. mgr. 103. gr. og 104.-111. gr. taki til, skuli skiptastjóri leitast við að jafna hann.  Takist það ekki beini skiptastjóri málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr.  Slíkur ágreiningur verði ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt.  Í 1. mgr. 122. gr. segir síðan m.a., að ef ágreiningur rísi um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveði sérstaklega á um að beint skuli til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telji þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem komi upp við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa.  Í 3. tl. 1. mgr. 122. gr. er síðan tekið fram að meðal þess sem fram skuli koma í kröfunni sé um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi.

Í bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Norðurlands eystra, dags. 4. október 2001, koma skýrlega fram þau ágreiningsatriði, sem  hann hefur lagt fyrir dóminn.  Í greinargerð sinni setti sóknaraðili fram kröfur varðandi nokkur þessara atriða en einnig ýmis önnur, sem ekki er að finna í umræddu bréfi skiptastjóra.  Varnaraðili sneið síðan kröfugerð sína eftir umræddu bréfi og kröfum sóknaraðila. 

Af framanröktum fyrirmælum 112. og 122. gr. laga nr. 20, 1991 er að mati dómsins ljóst, að úrlausnarefni máls þessa ræðst af þeirri skriflegu kröfu, sem skiptastjóri beindi til dómstólsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 122. gr.  Verður því í málinu ekki tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en fram koma í títtnefndu bréfi skiptastjóra, dags. 4. október 2001.  Kröfum er ekki eiga stoð í bréfinu ber því að vísa frá dómi.  Er því kröfum sóknaraðila, er fram koma í töluliðum 1, 2, 3, 6, 7, 8, 9 í kröfugerð hennar, vísað frá dómi ex officio.

 

III.

Röksemdir sóknaraðila varðandi þau ágreiningsefni er fram koma í bréfi skiptastjóra til dómsins, dags. 4. október 2001, eru eftirfarandi:

Sóknaraðili kveður ágreining vera um öll þau atriði, sem fram komi á minnisblaði merktu nr. 133 hjá skiptastjóra.

Þá kveður sóknaraðili, að samkvæmt skiptatillögu skiptastjóra sé samþykkt krafa varnaraðila á hendur búinu að fjárhæð kr. 817.500,- vegna umhirðu hrossa.  Mótmælir sóknaraðili kröfu þessari sem órökstuddri og krefst þess að hún verði felld út úr skiptunum.

Mótmælir sóknaraðili því að matskostnaður vegna stóðhestsins Safírs kr. 267.053,- greiðist af hluta sóknaraðila í búinu, eins og gert sé ráð fyrir í skiptatillögu skiptastjóra.  Krefst sóknaraðili þess, að varnaraðila verði gert að greiða þennan kostnað af sínum hluta úr búinu, þar sem þessi kostnaður sé tilkominn vegna aðgerða hans líkt og staðfest hafi verið með dómum héraðsdóms og Hæstaréttar.

Hvað verðmat á hryssunni Drottningu varðar þá byggir sóknaraðili á því, að markaðsverð hljóti að ráða, þar sem engar hömlur séu á sölu hryssunnar.  Kveður sóknaraðili þá kvöð, sem varnaraðili vilji byggja á um bann við sölu Drottningar, hafa verið fellda úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra þann 30. júní 1998, sem síðan hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 3. september s.á.

 

Efnislegar röksemdir varnaraðila varðandi þau ágreiningsefni er fram koma í bréfi skiptastjóra til dómsins, dags. 4. október 2001, eru eftirfarandi:

Varnaraðili krefst þess að fá  viðurkenndar kröfur sínar vegna umhirðu hrossa, hesthúss við Safírstræti og annars útlagðs kostnaðar, enda séu þær vel rökstuddar.  Vísar varnaraðili til bréfs skiptastjóra til héraðsdóms, dags. 3. nóvember 1999, 34. liðar, og svars dómsins, dags. 5. nóvember s.á.  Samkvæmt þessu sé það álit varnaraðila, að það sé sóknaraðila að hnekkja framlögðum útreikningi með rökstuddum hætti.  Um þessa kröfu vísist til dóms Hæstaréttar, H. 1999:1384, að breyttu breytanda.  Varnaraðila hafi sérstaklega verið falið af skiptastjóra að annast hrossin.  Allar tekjur hafi runnið í búið, en hann einn haft kostnað af.  Þá hafi við úthlutun verið lagt til grundvallar verð á hrossunum miðað við ásigkomulag á útlagningardegi, en það hafi verið betra vegna umsjár varnaraðila.  Við þetta hafi bæst, að sóknaraðili hafi stöðugt verið að krefjast þess að fá hin og þessi hross, en ávallt hafnað kröfu varnaraðila um að fá hrossin.  Þá séu ófá bréf frá sóknaraðila þar sem hún vilji fullvissa sig um að hrossunum sé sinnt, þau tamin o.s.frv.  Vísar varnaraðili til þess, að kröfu þessarar gerðar beri samkvæmt meginreglu íslensks réttar að viðurkenna, nema sýnt sé að hún sé of há.

Varnaraðili krefst jafnframt vaxta á framangreinda kröfu frá 1. október 1999, en þann dag hafi skiptum hrossa endanlega verið lokið.  Hér verði að hafa í huga, að sóknaraðili hafi fengið sín útgjöld endurgreidd með vöxtum.  Kveður varnaraðili ekki eiga að vera ágreining um staðreyndir varðandi útlagðan kostnað, en þessi kostnaður, sem varnaraðili hafi innt af hendi eftir upphaf skipta, hafi komið til skipta í einni eða annarri mynd.  Allur kostnaður beri virðisaukaskatt eins og þær eignir sem varnaraðili hafi fengið úthlutað.

Um kröfulið nr. 5 (nr. 4 í bréfi skiptastjóra dags. 4. október 2001) vísar varnaraðili til 129. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, einkum e-liðar 1. mgr., en þar sé fjallað um málskostnað og útlagðan kostnað vegna matsgerða.  Í ágreiningsmáli aðilanna hafi af hálfu sóknaraðila verið gerð krafa um málskostnað með vísan til greindra laga og hafi hún verið dæmd svo.  Í matsbeiðni sóknaraðila til héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið tekið fram að matsgerðin færi fram á ábyrgð og kostnað matsbeiðanda, þ.e. sóknaraðila.  Með vísan til þessa beri að hafna umræddri kröfu sóknaraðila.  Búið eigi engan þátt að taka í þessum kostnaði, enda hafi varnaraðili þegar greitt hann að fullu með greiðslu dæmds málskostnaðar.

Varnaraðili kveður hafa orðið um það samkomulag í sparnaðarskyni, að nægilegt væri að meta hryssuna Frigg til að fá úr því skorið að hve miklu leyti óumdeild kvöð, um að ekki megi selja hryssurnar, skerti verðmæti þeirra.  Samkomulag hafi tekist um að hryssurnar væru kr. 100.000,- og kr. 700.000,- virði ef heimilt væri að selja þær.  Nú liggi hins vegar fyrir, að Frigg sé ekki kr. 700.000,- virði heldur kr. 200.000,- vegna kvaðarinnar.  Samsvarandi fjárhæð fyrir Drottningu sé u.þ.b. kr. 28-29.000,- og sé því gerð krafa um að hún verði metin á kr. 30.000,-.  Byggt sé á því að samkomulag hafi tekist um þessa tilhögun.

Hvað kröfu um málskostnað varðar kveður varnaraðili, að málarekstur þessi sé til kominn vegna skeytingar- og viljaleysis sóknaraðila til að ljúka málinu.  Sé krafa varnaraðila um málskosnað gerð með vísan til 130. og 131. gr. laga nr. 91, 1991.  Vísist um þetta til fjölmargra bersýnilega rangra yfirlýsinga nú, sem eigi sér enga stoð í veruleikanum.

Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 20, 1991 um skipti á dánarbúum ofl., hjúskaparlaga nr. 31, 1993 og laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

 

IV.

Skv. 2. mgr. 122. gr. laga nr. 20, 1991 um skipti á dánarbúum ofl. fer héraðsdómari með ágreiningsatriði skv. 1. mgr. eftir ákvæðum XVII. kafla.  Í XVII. kafla, nánar til tekið 131. gr. laganna segir síðan, að að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum laganna gildi almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt nefndum kafla.  Með vísan til þessa er það álit dómsins, að við úrlausn málsins verði beitt meginreglum einkamálaréttarfars er ákvæðum laga nr. 20, 1991 sleppir, þ.m.t. reglunni um frjálst sönnunarmat dómara og málsforræðisreglunni, sbr. einkum 44. og 46. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Undir rekstri málsins fengu aðilar nokkur tækifæri til að koma að gögnum í málinu, málstað sínum til stuðnings.  Með vísan til þess og ofangreinds verða þeir að bera hallan af því að atvik, sem þeir byggja mál sitt á, teljist ekki studd nægjanlegum gögnum.

XIV. kafli laga nr. 20, 1991 fjallar um opinber skipti til fjárslita milli hjóna ofl.  Í athugasemdum við 107.-108. gr. í greinargerð er fylgdi nefndum lögum segir m.a.:  „ ... þegar opinber skipti fara fram til fjárslita samkvæmt XIV. kafla er um þá aðstöðu að ræða að hvor aðilinn telst eftir sem áður eigandi að sínum munum eða réttindum, en skiptin fara fram til að fullnægja því tilkalli sem hinn aðilinn getur talist eiga til hlutdeildar í andvirði þeirra muna eða réttinda eftir lagareglum um fjármál hjóna ...“  Af þessum  orðum og öðrum athugasemdum við ákvæði XIV. kafla er ljóst, að eignir aðila tilheyra ekki „búi“ þrátt fyrir að yfir standi opinber skipti til fjárslita milli þeirra, en tilvitnað hugtak kemur ítrekað fram í málatilbúnaði aðila og gögnum er stafa frá skiptastjóra.  Verður að hafa nefnd grundvallaratriði í huga þegar leyst er úr ágreiningi aðila viðvíkjandi kröfum varnaraðila er fram koma í liðum 1-3 í bréfi skiptstjóra, dags. 4. október 2001.

Ekki verður annað séð en ágreiningslaust sé í málinu, að öll þau hross er skiptin taka til, hafi verið hjúskapareign varnaraðila í hjúskap hans með sóknaraðila, sbr. t.d. bréf skiptastjóra til lögmanna aðila dags. 16. september 1999 og bréf hans til dómsins dags. 3. nóvember s.á. 

Í síðastnefndu bréfi vísar skiptastjóri til þess, að maðurinn hafi haft vörslur allra eigna á grundvelli 1. mgr. 107. gr. laga nr. 20, 1991.  Efnislega segir í greininni, að aðilar eigi hvor um sig rétt á að hafa vörslur þeirra eigna sem til skipta komi skv. 104. gr. og þeir hafi haft í vörslum sínum þegar opinber skipti byrjuðu, þar til skiptastjóri kveði á um annað skv. 2. mgr.  Þar sem skiptastjóri vísar ekki til 2. mgr. heldur einungis 1. mgr. þykir mega slá því föstu, að engin breyting hafi orðið á vörslum hrossanna með tilkomu skiptanna.

Samkvæmt framlagðri sundurliðun sóknaraðila á umræddri kröfu þá er hún vegna tímabilsins frá 20. janúar 1998, en þann dag krafðist sóknaraðili skilnaðar við varnaraðila, og til 30. september 1999.  Samkvæmt endurriti af skiptafundi sem haldinn var 30. september 1999 og endurriti skiptagerðar, dags. 1. október 1999, lauk skiptum á hrossunum 30. september 1999 og komu sjö hross í hlut konunnar; Von, Vænting, Sörli, Gjafar, Gígja, „Fyl undan Hlín“ og Árvakur.  Er skýrt tekið fram í endurriti skiptagerðar, að sóknaraðili greiði af nefndum sjö hrossum skatta og gjöld frá 1. október 1999.

Af gögnum málsins verður ekki annað séð en við skipti hrossanna hafi verið miðað við verðmæti þeirra á útlagningardegi, þ.e. 1. október 1999, sbr. t.d. ummæli í greinargerð varnaraðila.  Sammæli hefur því orðið milli aðila um að víkja frá meginreglu 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31, 1993 hvað varðar tímamark úrlausnar um þessar tilteknu eignir við skiptin.

Af framangreindu röktu er ljóst, að krafa varnaraðila um greiðslu kostnaðar vegna umhirðu hrossa til 1. október 1999 er í raun krafa hans um endurgjald fyrir vörslur og umhirðu eigin hjúskapareigna fyrir tímamark úrlausnar um hrossin við skiptin. 

Vinna varnaraðila við umhirðu og tamningu hrossanna, að því gefnu að hún hafi skilað sér í auknu verðmæti þeirra, hefur komið báðum aðilum til góða þar sem verðmæti þeirra við skiptin hefur orðið meira.  Varnaraðili getur hins vegar ekki byggt á því að vinnuframlag hans hafi myndað skuld, sem taka verði tillit til við skiptin.  Að þessu leyti er aðstaða hans hin sama og á hjúskapartímanum.  Varnaraðili þykir hins vegar eiga rétt til endurgreiðslu nauðsynlegs kostnaðar sem hann hefur sannanlega lagt út fyrir vegna umsjár hrossanna fram til 1. október 1999.  Þykja rök standa til þess að um þær skuldir gildi það sama og um skuldir sem stofnað var til fyrir 20. janúar 1998.  Þar sem varnaraðili hefur hins vegar ekki lagt fram neina reikninga umræddri kröfu sinni til stuðnings þykir verða að hafna henni með öllu.

Við skiptin ber að taka tillit til skulda aðila, sem stofnað var til fyrir 20. janúar 1998, sbr. meginreglu 101. gr. laga nr. 31, 1993. Varnaraðili kveður kröfu sína að fjárhæð kr. 338.348,- vera vegna útlagðs kostnaðar í þágu „búsins“.  Hefur hann ekki rökstutt þessa kröfu frekar.  Verður málatilbúnaður sóknaraðila ekki skilinn á annan veg, en hún mótmæli þessari kröfu alfarið.  Af framlagðri sundurliðun kröfunnar má ráða, að hún sé að meginstefnu til þríþætt, vegna Heiðarlundar 8c, bifreiðarinnar VK-594 og hesthúss við Sörlaskjól 3.  Krafan er ekki studd neinum reikningum og óljóst er hvenær til einstakra liða hennar var stofnað.  Er það mat dómsins að vegna ónógs rökstuðnings og vöntunar á gögnum verði að hafna umræddri kröfu varnaraðila með öllu.

Um kröfu varnaraðila að fjárhæð kr. 38.610,-, sem varnaraðili kveður einnig vera vegna útlagðs kostnaðar í þágu „búsins“, gildir það sama og um ofangreinda kröfu.  Verður því ekki tekið tillit til hennar við opinber skipti til fjárslita milli aðila.

Frádráttarkrafa varnaraðila vegna byggingarkostnaðar við Safírstræti 5 er að fjárhæð kr. 1.174.283,-.  Ekki er deilt um að nettótekjur sem ganga eiga upp í ógreiddan byggingarkostnað séu að fjárhæð kr. 339.953,-.  Samkvæmt framlagðri sundurliðun varðar krafan að öllu leyti tímabilið fyrir 20. janúar 1998.  Með vísan til þeirra röksemda, sem áður hafa verið raktar, þykir kröfuliður að fjárhæð kr. 437.400,-, vegna eigin vinnu varnaraðila, ekki eiga rétt á sér því ekki verður fallist á að vinnuframlag hans sjálfs fyrir 20. janúar 1998 hafi myndað skuld, sem taka verði tillit til við skiptin.  Kröfuliður er kallast „aðkeypt vinna ógreidd“ er studd reikningi Heimis Guðlaugssonar, sem varnaraðili mun hafa greitt 3. febrúar 1998, sbr. dags. reiknings og áritun nefnds Heimis á reikninginn.  Þykir því verða að taka hann til greina við skipti aðila.  Aðrir kröfuliðir eru ekki studdir neinum gögnum og verður því, með vísan til þess sem rakið hefur verið að framan, ekki á þeim byggt við hin opinberu skipti til fjárslita milli aðila.  Þar sem mismunur ofangreindra nettótekna og kröfu þeirrar er styðst við reikning Heims Guðlaugssonar er varnaraðila í óhag verður að hafna umræddri kröfu varnaraðila að fjárhæð kr. 1.174.283,- með öllu.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu eru ekki efni til að taka afstöðu til réttmætis kröfu varnaraðila um vexti af útlögðum kostnaði.

Fyrir liggur að sóknaraðili óskaði eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur, að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta verðmæti stóðhestsins Safírs.  Skiluðu þeir matsgerð í nóvember 1998 og viðbótarmatsgerð dags. 5. desember 1998.  Byggði sóknaraðili kröfur sínar í máli nr. Q-5/1999 fyrir héraðsdómi og kærumáli nr. 258/1999 fyrir Hæstarétti á niðurstöðu matsmannanna.  Í dómsorði Hæstréttar sagði um málskostnað í málinu:  Sóknaraðili (varnaraðili máls þessa) greiði varnaraðila (sóknaraðila) samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Framangreint mál var rekið á grundvelli XVII. kafla laga nr. 20, 1991 um skipti á dánarbúum ofl.  Um málskostnað í málum samkvæmt honum ber, í samræmi við niðurstöðu dómsins hér að framan, að líta til XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Í 129. gr. laganna er talinn upp sá kostnaður, sem telst til málskostnaðar í einkamálum.  Í e-lið 1. mgr. kemur m.a. fram, að þóknun matsmanns teljist málskostnaður. 

Fjárhæð hins dæmda málskostnaðar í áðurnefndu kærumáli nr. 258/1999 getur að mati dómsins tæplega skýrst af öðru en því, að Hæstiréttur hafi við ákvörðun málskostnaðar í málinu, í samræmi við áður tilvitnuð lagaákvæði, litið til kostnaðar sóknaraðila af öflun matsgerðanna.  Er það því niðurstaða dómsins, að sóknaraðila hafi á engan hátt tekist að færa rök fyrir því, að taka eigi tillit til hins umdeilda matskostnaðar við skiptin.

Víða kemur fram í gögnum málsins, að sóknaraðili metur hryssuna Drottningu 100.000,- króna virði.  Af greinargerð varnaraðila er ljóst, að hann er í grunninn sammála þessu mati, en telur hins vegar hryssuna vera bundna þeirri kvöð að hana megi ekki selja og vegna kvaðarinnar sé verðmæti hennar við skiptin einungis 30.000,- krónur.

Af fyrirliggjandi gögnum virðist mega ráða, að hina meintu kvöð megi rekja til föður varnaraðila, sem afsalaði honum Drottningu ásamt 11 öðrum hrossum með afsali dags. 25. ágúst 1998.  Kvaðarinnar er þó í engu getið í afsalinu.  Hefur varnaraðili ekki lagt fram gögn er skjóta stoðum undir það, að umrædd kvöð hafi frá upphafi eignarhalds hans hvílt á Drottningu.  Er það því að mati dómsins ósannað.

Varnaraðili byggir á því í greinargerð sinni, að umrædd kvöð sé óumdeild.  Þykir verða að skilja málatilbúnað hans þannig, að sóknaraðili hafi með bindandi hætti samþykkt að Drottning væri haldinn þessari kvöð.  Dóminum hefur hins vegar ekki tekist að finna þessari fullyrðingu haldbæra stoð í gögnum málsins.  Þannig bera t.d. bréf skiptastjóra til dómsins dags. 4. október 2001, bréf lögmanns konunnar dags. 30. september 1999 og bréf skiptastjóra dags. 3. nóvember s.á. með sér, að ágreiningur er um verðmat Drottingar.  Segir t.a.m. í síðastnefndu bréfi skiptastjóra:  „Á skiptafundi 25. nóvember 1998 er enginn ágreiningur um verðmat hrossa ef frá eru talin hrossin Frigg og Drottning þar sem maðurinn heldur því fram að skv. kvöð megi hann ekki selja þau og því séu þau verðlaus búinu.“  Benda þessi ummæli að mati dómsins ekki til þess að kvöðin hafi verið óumdeild á skiptatímanum.  Þau gögn er það bera með sér stafa ekki frá sóknaraðila eða lögmanni hennar.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins, að ósannað sé að sóknaraðili hafi á einhverjum tíma samþykkt, svo skuldbindandi sé við skiptin, að títtnefnd kvöð hvíli á Drottningu.  Verður því við hin opinberu skipti til fjárslita milli aðila að miða við að Drotting sé 100.000,- króna virði.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

Á L Y K T A R O R Ð :

Kröfum sóknaraðila, Hólmfríðar G. Sigurðardóttur, sem fram koma í töluliðum 1, 2, 3, 6, 7, 8, 9 í kröfugerð hennar, er vísað frá dómi ex officio.

Ekki skal tekið tillit til kröfu varnaraðila, Jóhannesar Ottóssonar, að fjárhæð kr. 3.852.500,- vegna umhirðu hrossa við opinber skipti til fjárslita milli aðila.

Ekki skal tekið tillit til kröfu varnaraðila að fjárhæð kr. 338.348,- við opinber skipti til fjárslita milli aðila.

Ekki skal tekið tillit til kröfu varnaraðila að fjárhæð kr. 38.610 við opinber skipti til fjárslita milli aðila.

Ekki skal tekið tillit til kröfu varnaraðila að fjárhæð kr. 1.174.283,- við opinber skipti til fjárslita milli aðila.

Ekki eru efni til að taka afstöðu til réttmætis kröfu varnaraðila um vexti af útlögðum kostnaði.

Ekki skal tekið tillit til kostnaðar vegna mats á stóðhestinum Safír við opinber skipti til fjárslita milli aðila.

Verðmæti hryssunnar Drottningar við opinber skipti til fjárslita milli aðila skal vera kr. 100.000,-.

Málskostnaður fellur niður.