Hæstiréttur íslands

Mál nr. 407/2014


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Aðilaskipti
  • Framsal
  • Tómlæti


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 29. janúar 2015.

Nr. 407/2014.

Vingþór ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Grjóthálsi ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

Lánssamningur. Gengistrygging. Aðilaskipti. Framsal. Tómlæti.

G ehf. tók lán að jafnvirði 500 milljón íslenskra króna hjá V hf. Á forsíðu lánssamningsins kom fram að lánið væri í erlendum gjaldmiðlum og/eða óverðtryggðum íslenskum krónum og í útborgunarbeiðni greindi að myntsamsetning lánsins væri í erlendum myntum í ákveðnum hlutföllum. Ári síðar gerðu aðilarnir tvo lánssamninga sem skyldi ráðstafað til uppgreiðslu eldra lánsins. Þau lán voru síðar framseld V ehf., sem gerði við G ehf. samning í evrum um endurfjármögnun lánanna. G ehf. taldi sig hafa ofgreitt af upphaflega lánssamningnum vegna ólögmætrar gengistryggingar og krafðist viðurkenningar á því að eftirstöðvar þess samnings, sem komið hefði í stað eldri samninga, hefðu lækkað til samræmis við það. Talið var að þar sem fé í íslenskum krónum hefði skipt um hendur þegar G ehf. fékk upphaflega lánið hefði það verið í íslenskum krónum með ólögmætri gengisbindingu. Höfuðstóll lánsins hefði síðan tekið mið af gengislækkun krónunnar við endurfjármögnunina. Talið var að G ehf. gæti haft þessa mótbáru uppi gagnvart V hf. og var fallist á kröfu félagsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómason og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og að honum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Hinn 7. desember 2007 gerði stefndi lánssamning við VBS fjárfestingarbanka hf., er hafði starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki eftir lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Á forsíðu samningsins var tilgreint að lánið væri „í erlendum gjaldmiðlum og/eða óverðtryggðum íslenskum krónum“ og í aðfaraorðum meginmáls hans sagði að lánið væri til níu mánaða „að jafnvirði allt að ISK 500.000.000“ með þeim skilmálum sem tilgreindir væru í samningnum. Í þeim kom meðal annars fram að lántaka bæri að senda lánveitanda beiðni um útborgun lánsins með tilgreindum fyrirvara, en þar ætti að tiltaka í hvaða myntum lánið yrði tekið. Um vexti sagði að greiða ætti LIBOR-vexti af lánshlutum í erlendum myntum, öðrum en evrum, en af þeim gjaldmiðli átti að greiða EURIBOR-vexti. Af lánshlutum í íslenskum krónum átti hins vegar að greiða REIBOR-vexti. Til viðbótar þessum vöxtum kom álag sem nam 4%. Vexti átti að reikna á þriggja mánaða fresti og bæta við höfuðstól, en lánið með vöxtum var á gjalddaga 15. september 2008. Var tekið fram að það ætti að greiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Í útborgunarbeiðni vegna lánsins var vísað til samningsins „um lán að fjárhæð ISK 500.000.000“ og myntsamsetning þess sögð vera „EUR 33% JPY 33% CHF 34%“. Þá var þess óskað í beiðninni að lánið yrði greitt inn á tiltekinn reikning Össurar hf. í íslenskum krónum. Kom fram í lánssamningnum og útborgunarbeiðninni að lánið væri til að fjármagna greiðslu til þess félags í því skyni að aflétta kauprétti þess af fasteigninni Grjóthálsi 5 í Reykjavík sem var í eigu stefnda. Samkvæmt samkomulagi stefnda og Össurar hf. 1. desember 2007 nam sú greiðsla 490.000.000 krónum og var andvirði lánsins ráðstafað til að inna hana af hendi, en eftirstöðvar þess að fjárhæð 4.968.650 krónur, þegar tekið hafði verið tillit til kostnaðar af lántökunni, munu hafa verið lagðar inn á reikning stefnda í íslenskum krónum.

  Stefndi gerði tvo lánssamninga 19. desember 2008 við VBS fjárfestingarbanka hf., annars vegar að fjárhæð 500.000.000 krónur og hins vegar að fjárhæð 528.036.685 krónur. Í skilmálum samninganna kom fram að ráðstafa skyldi andvirði lánanna til greiðslu á láni samkvæmt fyrrgreindum samningi 7. desember 2007. Einnig var tekið fram í úborgunarbeiðni með samningunum að um væri að ræða endurfjármögnun á eldra láni. Samkvæmt kvittun VBS fjárfestingarbanka hf. 22. desember 2008 var öllu andvirði lánanna tveggja, samtals að fjárhæð 1.028.036.685 krónur, ráðstafað 19. sama mánaðar til að gera upp fyrra lánið. Samkvæmt skilmálum samninganna voru bæði lánin á gjalddaga 20. janúar 2009, en skuldara var heimilt að framlengja þau allt að fjórum sinnum um mánuð í senn. Bæði lánin áttu að bera REIBOR-vexti með 4,2% álagi og átti að greiða þá á gjalddaga eða fyrir hvern mánuð á síðari gjalddögum yrði lánstími framlengdur. Með viðaukum 20. júní 2009 við lánssamningana skuldbatt stefndi sig til að greiða þá 20. júlí sama ár.

Með bréfi VBS fjárfestingarbanka hf. 19. október 2009 var stefnda tilkynnt að lánssamningarnir 19. desember 2008 hefðu verið framseldir til áfrýjanda. Áritaði fyrirsvarsmaður stefnda tilkynningarnar um móttöku þeirra 26. október 2009.

Hinn 26. október 2009 gerði stefndi lánssamning við áfrýjanda að fjárhæð 6.156.672 evrur. Í upphafi meginmáls samningsins var vísað til fyrri lánssamninga stefnda 19. desember 2008 við VBS fjárfestingarbanka hf. og tekið fram að þeir hefðu verið framseldir til áfrýjanda „auk allra réttinda ... og skyldna samkvæmt samningunum.“ Var einnig tekið fram að áfrýjandi sem framsalshafi og stefndi hefðu komist að samkomulagi um að gera nýjan samning sem kæmi að öllu leyti í stað eldri samninga. Hið nýja lán bar EURIBOR-vexti með 3,5% álagi og var til fimm ára með mánaðarlegum afborgunum, en stefnda var heimilt að framlengja lánið um önnur fimm ár. Hinn 16. mars 2011 var gerður viðauki við lánssamninginn sem fól meðal annars í sér heimild fyrir stefnda til að framlengja lánið um allt að tíu ár hvenær sem væri á lánstíma.

II

Hinn 27. ágúst 2009 keypti VBS fjárfestingarbanki hf. allt hlutafé í áfrýjanda sem þá hét AB 223 ehf. Nafni félagsins var síðan breytt í það heiti sem áfrýjandi ber. Bankinn lagði síðan eignir til áfrýjanda, þar með talda fyrrgreinda lánssamninga 19. desember 2008, og afsalaði hlutum sínum í honum 13. nóvember 2009 til Landsbanka Íslands hf. til greiðslu skulda.

Með úrskurði 7. apríl 2010 var VBS fjárfestingarbanki hf. tekinn til slita, en nafni félagsins var síðar breytt í VBS eignasafn hf. Í kjölfarið gerði félagið þá kröfu á hendur Landsbanka Íslands hf., sem einnig var í slitum, að rift yrði ráðstöfun á greiðslu skulda með afsali á hlutum í áfrýjanda. Með dómi Hæstaréttar 18. desember 2012 í máli nr. 720/2012 var sú krafa tekin til greina og bankanum gert að skila öllu hlutafé í áfrýjanda. Eftir að sá dómur gekk hefur áfrýjandi verið að fullu í eigu VBS eignasafns hf.

Með samningi 29. desember 2009 framseldi stefndi ætlaða kröfu sína um skaðabætur eða endurgreiðslu á hendur VBS eignasafni hf. til Holtasels ehf., en það félag og stefndi munu vera í eigu sama manns. Krafan á hendur VBS eignasafni hf. var reist á þeim grundvelli að lánssamningurinn 7. desember 2007 við stefnda hefði farið í bága við IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með því að binda höfuðstól láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Með bréfi 25. september 2010 lýsti Holtasel ehf. kröfunni við slit VBS eignasafns hf. og krafðist þess að hún kæmi til skuldajafnaðar gegn kröfu á hendur sér samkvæmt lánssamningi 14. september 2007. Af hálfu VBS eignasafns hf. var rétti til skuldajafnaðar gegn kröfu félagins hafnað með bréfi 16. ágúst 2011 þar sem ekki væri fullnægt því skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að lánardrottinn hefði eignast kröfuna þremur mánuðum fyrir frestdag við slitin. Þessari afstöðu slitastjórnar var ekki andmælt og var krafan afturkölluð með yfirlýsingu 10. október 2012. Holtasel ehf. hafði þá gert samning 20. apríl 2012 um framsal kröfunnar aftur til stefnda. Með bréfi 27. sama mánaðar krafðist stefndi þess að áfrýjandi gengi til samninga við sig um leiðréttingu á höfuðstól lánsins samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi 26. október 2009. Þeirri kröfu hafnaði áfrýjandi með bréfi 31. maí sama ár.

III

 Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því að hann hafi með samningi 7. desember 2007 við VBS fjárfestingarbanka hf., eins og félagið hét á þeim tíma, tekið lán í íslenskum krónum, bundið gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla. Þetta hafi strítt gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, eins og staðfest hafi verið með fjölda dóma Hæstaréttar. Við endurfjármögnun lánsins með fyrrgreindum samningum 19. desember 2008 hafi verið miðað við að gengisbindingin væri gild og því hafi höfuðstóllinn hækkað í samræmi við það og verið nærri tvöfalt hærri en upphaflega lánsfjárhæðin. Telur stefndi sig geta haft þessa mótbáru uppi gegn áfrýjanda sem fengið hafi kröfur á hendur sér samkvæmt síðastgreindum samningum framseldar 19. október 2009. Þá breyti engu þótt þeir lánssamningar hafi verið endurfjármagnaðir með lánssamningi 26. október 2009 við áfrýjanda, en dómkrafa stefnda feli það í sér að eftirstöðvar þess samnings verði reiknaðar án tillits til hækkunar höfuðstóls upphaflega samningsins vegna tengingar hans við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í stefnu til héraðsdóms sagði um grundvöll þeirrar mótbáru sem stefndi heldur fram gegn skuldbindingu sinni gagnvart áfrýjanda að hún væri byggð á því að stefndi gæti krafist leiðréttingar á höfuðstóli lánsins á þeirri forsendu að hann væri rangur vegna ólögmætrar tengingar lánsins við gengi erlendra gjaldmiðla. Í greinargerð áfrýjanda til héraðsdóms var þessari málsástæðu stefnda einnig lýst og sagt að hann héldi því fram að röng forsenda um höfuðstól vegna gengistryggingar ætti jafnframt við um lánssamninginn 26. október 2009 og því bæri að leiðrétta hann til lækkunar. Að þessu gættu verður ekki fallist á það með áfrýjanda að stefndi hafi ekki með nægjanlega glöggum hætti teflt fram málsástæðu sinni um að óskráðar réttarreglur samningaréttar um rangar forsendur taki til skuldbindingar hans samkvæmt lánssamningnum við áfrýjanda. Aftur á móti var fyrst hreyft þeirri málsástæðu af hálfu stefnda að víkja mætti skuldbindingu hans til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eftir að málið var höfðað að gengnum fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 720/2012. Telur stefndi að fyrr hafi ekki legið fyrir upplýsingar um að áfrýjandi hafi verið dótturfélag VBS fjárfestingarbanka hf. og því hafi málsástæðan komið tímanlega fram. Á þetta verður ekki fallist, enda komu þessi eignatengsl fram í gögnum þeim sem stefndi lagði fram þegar málið var þingfest í héraði. Þessari málsástæðu var því ekki hreyft jafnskjótt og tilefni var til og kemur hún þar með ekki til álita í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Eins og áður er rakið var tilgreint á forsíðu lánssamningsins 7. desember 2007 milli stefnda og VBS fjárfestingarbanka hf. að lánið væri „í erlendum gjaldmiðlum og/eða óverðtryggðum íslenskum krónum“ og í aðfaraorðum meginmáls sagði að lánið væri til níu mánaða „að jafnvirði allt að ISK 500.000.000“. Þá sagði í skilmálum samningsins að lántaka bæri að senda lánveitanda beiðni um útborgun lánsins með tilgreindum fyrirvara, en þar ætti að tiltaka í hvaða myntum lánið yrði tekið. Í útborgunarbeiðni vegna lánsins var vísað til samningsins „um lán að fjárhæð ISK 500.000.000“ og myntsamsetning þess sögð vera „EUR 33% JPY 33% CHF 34%“. Í samræmi við þá beiðni var andvirði lánsins ráðstafað inn á reikninga í íslenskum krónum. Þetta lán var svo endurfjármagnað með samningum 19. desember 2008 um lán í íslenskum krónum og samkvæmt kvittun 22. sama mánaðar var öllu andvirði þess varið til að gera upp fyrra lánið.

Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum, bundið gengi erlendrar myntar, hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki gengst undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um þann lánssamning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.

Samkvæmt framansögðu skipti fé í íslenskum krónum um hendur þegar stefndi fékk lánið samkvæmt lánssamningnum 7. desember 2007 og tekið var lán í þeirri mynt þegar það lán var endurfjármagnað með lánssamningunum 19. desember 2008. Að því virtu verður fallist á það með stefnda að skuldbinding hans samkvæmt fyrri lánssamningnum hafi verið í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en það braut í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Við endurfjármögnunina samkvæmt síðari samningunum tók höfuðstóll þeirra mið af því að gengi íslensku krónunnar hafði lækkað miðað við þá gjaldmiðla sem lánið var bundið við.

Svo sem áður er rakið fékk áfrýjandi framseldar kröfur á hendur stefnda samkvæmt lánssamningunum 19. desember 2008. Samkvæmt óskráðum reglum kröfuréttar um framsal almennra krafna gildir sú regla að skyldur skuldara aukast ekki við framsalið. Þannig getur skuldari borið fram allar þær sömu mótbárur við framsalshafa sem hann gat haft uppi við framseljanda. Í samræmi við þetta glataði stefndi ekki mótbárum sínum gegn umræddum lánssamningum þótt þeir væru framseldir til áfrýjanda. Þá breytir engu í þessu tilliti þótt samningarnir hafi verið endurfjármagnaðir með lánssamningi 26. október 2009, enda var beinlínis tekið fram í honum að hann kæmi að öllu leyti í stað fyrri samninga. Fól sá samningur því í reynd aðeins í sér samkomulag um umlíðan skuldarinnar. Stefndi hefur því réttilega beint viðurkenningarkröfu sinni að þeim lánssamningi sem liggur til grundvallar skuldbindingu hans.

Með því að lánssamningurinn 7. desember 2007 fól í sér ólögmæta gengistryggingu nær tvöfaldaðist höfuðstóll lánsins þegar það var endurfjármagnað með lánssamningunum 19. desember 2008. Þessi ranga forsenda um lögmæta gengistryggingu var því veruleg fyrir stefnda og mátti vera lánveitanda ljós. Jafnframt verður talið standa lánveitanda nær sem fjármálafyrirtæki að þurfa að bera áhættuna af því að þessi forsenda reyndist röng. Þá verður ekki talið að stefndi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti með því að krefjast fyrst leiðréttingar á höfuðstól lánsins með bréfi 27. apríl 2012 að haft geti áhrif á þann rétt hans. Skiptir í því efni máli að áfrýjandi er dótturfélag upphaflegs lánveitanda. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fjárhæð eftirstöðva lánssamnings aðila 26. október 2009 en áfrýjandi andmælir ekki útreikningi þeirra. Jafnframt verður staðfest ákvæði héraðsdóms um málskostnað.  

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 skulu í dómi koma fram helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á. Við samningu héraðsdóms var þessa ekki gætt, heldur tekið upp í heild sinni efni stefnu og greinargerðar. Í niðurstöðukafla dómsins er þetta efni síðan endurtekið að miklu leyti. Þessi samning dómsins fer í bága við fyrrgreint ákvæði laganna og 3. mgr. sömu greinar þar sem segir að dómar eigi að vera stuttir og glöggir. Þetta er aðfinnsluvert. janda.﷽﷽﷽﷽lu skulda með afsali ´mælandi2015

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vingþór ehf., greiði stefnda, Grjóthálsi ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2014.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar sl. var höfðað með stefnu útgefinni 16. nóvember 2012 af Grjóthálsi ehf., Stórhöfða 34-40, Reykjavík, á hendur Vingþóri ehf., Austurstræti 16, 155 Reykjavík.

Dómkröfur aðila

        Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamnings, dagsetts 26. október 2009, hafi numið 1.134.535 EUR hinn 10. nóvember 2012.  

        Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánasamnings, dags. 26. október 2009, hafi numið 1.498.424 EUR hinn 10.11. 2012.

        Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram í síðasta lagi við aðalmeðferð málsins.

         Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

         Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins, þar sem tekið verði tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

         Í upphaflegri kröfugerð krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2013 var hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins en varakröfu stefnanda, þar sem þess var krafist að viðurkennt yrði með dómi að stefndi skuli endurútreikna eftirstöðvar lánssamnings frá 26. október 2009, var vísað frá dómi með vísan til 1. og 2. mgr. 25. gr. og d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

         Þann 25. júní 2013 lagði stefnandi fram bókun þar sem fram kemur að hann hafi uppi nýjar málsástæður til stuðnings kröfu sinni og gerði hann grein fyrir tilurð hinna nýju málsástæðna. Lögmaður stefnda óskaði í þessu þinghaldi eftir fresti til að bregðast við bókun stefnanda og mótmælti því að nýjar málsástæður kæmust að í málinu.

        Í bókun, sem stefnandi lagði fram 5. desember 2013, lýsti hann yfir breytingu á kröfugerð. Stefnandi kvað dómkröfur sínar í stefnu óbreyttar að öðru leyti en því að hann hefði bætt við nýrri varakröfu vegna dóms Hæstaréttar nr. 348/2013, sem kveðinn var upp þann 21. nóvember 2013. Breytingin á kröfugerð stefnanda fæli ekki í sér auknar kröfur heldur  nýrri og lægri varakröfu vegna útreiknings kröfu í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Lögmaður stefnda mótmælti því að fram væru lagðar breytingar á kröfugerð á þessu stigi, áskildi sér rétt til að leggja fram bókun við aðalmeðferð málsins og óskaði eftir fresti til að kynna sér framlagða bókun.

       Í þinghaldi 15. janúar 2014 lagði stefndi fram bókun og dóm Hæstaréttar nr. 720/2012. Í sama þinghaldi óskaði stefnandi eftir því að bókað yrði að tilefni nýrrar málsástæðu í bókun sem hann lagði fram 25. júní 2013 hafi fyrst komið upp við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar nr. 720/2012. Ný málsástæða hafi verið bókuð í fyrsta þinghaldi eftir uppkvaðningu dómsins en þá var fyrst tilefni til þess, sbr. 5. mgr. 105.gr. einkamálalaga.

        Þá óskaði stefndi eftir því að bókað yrði að málsástæður varðandi 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 ættu ekki við og að bókuð yrðu mótmæli við því að nýmálsástæða kæmist að í málinu og ef svo væri væri byggt á því að hún ætti ekki við og að ekki ætti að víkja lánasamningnum frá 26. október 2009 til hliðar á grundvelli hennar að svo miklu leyti sem hann væri of hár vegna meintrar ólögmætrar gengistryggingar lánasamnings nr. 20890. Jafnframt mótmælti stefndi breytingum á kröfugerð.

II

Málavextir

         Með lánssamningi, dagsettum 7. desember 2007, tók stefnandi lán hjá VBS fjárfestingarbanka hf. að jafnvirði 500 milljónir íslenskra króna, með myntsamsetningu EUR 33%, JPY 33% og CHF 34%. Lánasamningurinn var með lánsnúmerið 20890. Lánið átti að endurgreiða með einni afborgun þann 15. september 2008. Í 3. gr. samningsins kom fram að lánshlutar í erlendum myntum öðrum en evrum skyldu bera LIBOR-vexti en lánshlutar í evrum skyldu bera EURIBOR-vexti. Þá var sérstaklega mælt fyrir um dráttarvexti vegna þess hluta lánsins sem var í erlendum myntum. Lánveitandi var VBS fjárfestingarbanki hf. Fram kemur í 5. mgr. 1. gr. lánasamningsins að ráðstafa skuli láninu til fjármögnunar stefnanda til að losa kauprétt Össurar ehf. af fasteigninni við Grjótháls 5 í Reykjavík. Þessi tilgangur var svo ítrekaður í beiðni um útborgun lánsins dagsettri sama dag. Fjárhæð lánsins ríflega tvöfaldaðist á lánstímanum.

        Þann 19. desember 2008 gerðu stefnandi og VBS fjárfestingabanki tvo lánasamninga, annar nr. 46572, að fjár­hæð 528.036.685 krónur, og hinn nr. 46573, að fjárhæð 500.000.000 króna, báðir með gjalddaga 20. janúar 2009. Lánað var í íslenskum krónum. Í 5. mgr. 1. gr. beggja samninganna kom fram að ráð­stafa skyldi lánunum til greiðslu lánasamnings stefnanda nr. 20890 hjá VBS fjárfestingabanka hf. Þann 20. júní 2009 gerðu sömu aðilar viðauka við þessa lánasamninga þar sem gjalddagar samninganna voru framlengdir til 20. júlí 2009. Þann 19. október 2009 tilkynnti VBS fjárfestingarbanki hf. stefnanda með tveimur tilkynningum að bæði lánin hefðu verið framseld stefnda.   

Þann 26. október 2009 voru fyrrgreind tvö lán síðan endurfjármögnuð með lánssamningi málsaðila, að fjárhæð 6.156.672 EUR. Í 5. mgr. 1. gr. samningsins komi fram að VBS hafi framselt fjárkröfur sínar á grundvelli fyrrgreindra samninga til stefnda auk allra réttinda og skyldna samkvæmt samningunum. Í samn­ingnum kemur fram að hann komi „að öllu leyti“ í stað hinna tveggja fyrri samninga.

Í dómi Hæstaréttar í málinu 720/2012, sem stefndi lagði fram 15. janúar 2014, en áður hafði stefnandi vísað til hluta dómsins í bókun 25 júní 2013, kemur fram að VBS eignasafn hf. hafi þann 13. nóvember 2009 afsalað öllum hlutum í stefnda Vingþóri ehf. til Landsbanka Íslands hf. Í máli þessu krafðist VBS eignasafn hf. þess að rift væri yfirfærslu á stefnda Vingþóri ehf. til Landsbanka Íslands hf. á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að Landsbanka Íslands hf. var gert að skila VBS eignasafni hf. félaginu Vingþóri ehf., stefnda í máli þessu. Að gengnum þessum dómi varð stefndi Vingþór ehf. aftur dótturfélag í 100% eigu VBS fjárfestingarbanka hf. sem þá hafði fengið nafnið VBS eignasafn hf.

         Viðarhylur ehf. keypti allt hlutafé í stefnanda af Holtaseli ehf. með samningi 29. desember 2009, en Holtasel ehf. hafði verið móðurfélag stefnanda. Sam­hliða fyrrgreindum samningi um sölu á hlutafé í stefnanda til Viðarhyls ehf. framseldi stefnandi skaðabóta- og/eða endurgreiðslukröfu sína vegna meintrar ólög­mætrar gengistryggingar fyrrgreinds lánssamnings til Holtasels ehf.

          Með kröfulýsingu 25. september 2010 lýsti Holtasel ehf. skaðabótakröfu í þrotabú VBS vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar. Slitastjórn VSB fjárfestingarbanka hf. hafnað kröfunni með bréfi 16. ágúst 2011. Með yfirlýsingu Holtasels ehf. dags. 10. október 2012. afturkallaði félagið kröfuna í þrotabúið.  Stefnandi fékk síðan kröfuna framselda að nýju.

      Þann 16. mars 2011 undirrituðu stefnandi og stefndi viðauka, skilmálabreytingu við lánssamninginn frá 26. október 2009. Í viðaukanum voru aðeins gerðar breytingar á greinum 2.7 um framlengingarheimild og 3.4 um vexti. Fram kom að fyrir utan tilgreindar breytingar skyldi ákvæði lánssamningsins haldast í einu og öllu óbreytt.

        Eftir dóma Hæstaréttar í svokölluðum gengislánamálum, sér í lagi með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011: Landsbankinn gegn þrotabúi Mótormax ehf., var staðfest að lán sem stefnandi taldi sambærilegt upphaflegu láni stefnanda hjá VBS fjárfestingarbanka hf. væri íslenskt lán sem gengistryggt var miðað við gengi erlendra gjaldmiðla og væri gengistryggingin ólögmæt, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

         Stefnandi ritaði stefnda bréf 27. apríl 2012, þar sem þess var krafist að stefndi gengi til samninga um leiðréttingu höfuðstóls samningsins frá 26. október 2009, en þá lá fyrir að VBS fjárfestingarbanki hf. hefði verið tekið til slitameðferðar. Í bréfinu byggði stefnandi á því að skv. ádráttarbeiðni kæmi fram að óskað hefði verið eftir því að lánið yrði greitt út í íslenskum krónum með myntsamsetningu EUR 33%, JPY 33% og CHF 34%. Í 3. mgr. 1. gr. samningsins kom fram að lántaki skyldi tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum. Í greininni kom jafnframt fram að lánið yrði greitt út í íslenskum krónum inn á reikning Össurar hf. hjá Kaupþingi í samræmi við ákvæði samningsins um að láninu ætti að ráðstafa til að losa fyrrgreindan kauprétt af fasteigninni Grjótháls 5 í Reykjavík.

     Í bréfinu benti stefnandi á að lánasamningar nr. 46572 og 46573 frá 19. desember 2008 hafi verið framseldir stefnda 19. október 2009 og því hafi stefndi orðið nýr kröfuhafi lánanna. Stefnandi vísaði til þess að meginreglan væri sú að við kröfu­hafa­skipti ættu skyldur skuldarans ekki að aukast við framsal og að skuldari gæti borið fyrir sig allar sömu mótbárur við framsalshafann, sem hann hefði getað haft uppi við framseljandann. Auk þess benti stefnandi á að höfuðstóll lánasamninganna frá 19. desember 2008 hefði verið lægri sem næmi hinni ólögmætu gengistryggingu, ef upphaflegur lánssamningur stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. hefði ekki verið gengistryggður við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi kvaðst því telja að upphaf­legur höfuðstóll lánssamnings frá 26. október 2009 hafi einnig verið rangur, sem því næmi, og óskaði eftir því að hann yrði leiðréttur.

        Stefndi hafnaði kröfunni með bréfi 31. maí 2012 á þeirri forsendu að hún væri „fjárkrafa vegna ofgreiðslu“ sem stefnandi gæti mögulega ráðstafað til greiðslu á láni sínu hjá VBS fjárfestingarbanka á grundvelli skuldajafnaðar, en væri ekki mótbára í skilningi kröfuréttar við annan lánssamning. Þá hélt stefndi því fram að hefði stefnandi átt rétt á að bera fyrir sig mótbáru um tilurð lánssamningsins, þá hefði hann glatast vegna tómlætis og vegna þess að stefnandi hefði samþykkt framsal lána­samninganna. 

        Stefnandi mótmælti sjónarmiðum stefnda með bréfi 2. júlí 2012 þar sem láns­samningurinn frá 26. október 2009 hefði verið gerður til endurfjármögnunar á lána­samningunum tveimur sem hefðu verið notaðir til að endurfjármagna hinn upphaflega samning. Upphafleg lánsfjárhæð hefði tvöfaldast vegna hinnar ólögmætu gengis­tryggingar. Þeirri mótbáru hefði hann getað komið að gagnvart VBS fjárfestingarbanka og þar sem hún héldist þrátt fyrir framsal gæti hann beitt henni gegn stefnda. Enn fremur mótmælti stefnandi því að hann hefði glatað rétti sínum til leiðréttingar vegna tómlætis eða vegna þess að hann hefði samþykkt framsal lánasamninganna. Stefndi svaraði bréfi stefnanda 31. júlí 2012 og ítrekaði fyrri röksemdir sínar. Með tölvupósti 16. október s.á. gerði stefnandi fyrirvara og áskildi sér rétt til að endurkrefja stefnda um þær greiðslur sem kynnu að eiga sér stað á meðan mál þetta væri rekið fyrir dómstólum. 

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggir á því að upphaflegt lán hans frá VBS fjárfestingarbanka hf. skv. lánasamningi 7.desember 2007, nr. 20890, sé svokallað gengistryggt lán, þ.e. íslenskt lán sem verðtryggt sé miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi byggir á því að fyrrgreindur lánasamningur sé lán í íslenskum krónum og að tenging höfuðstóls hans við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt þar sem hún stríddi gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Í því sambandi vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011.

        Þá byggir stefnandi einnig á því að í ádráttarbeiðni vegna fyrrgreinds lánasamnings komi fram að óskað hafi verið eftir því að lánið yrði greitt út í íslenskum krónum með myntsamsetningu EUR 33%, JPY 33% og CHF 34%. Af þessari ádráttarbeiðni verði dregin sú ályktun að um íslenskt lán hafi verið að ræða og tilgreining erlendrar myntsamsetningar í ádráttarbeiðninni hafi einungis verið til þess að gengistryggja fjárhæðina. Þá komi fram í lánasamningnum að lánið sé að jafnvirði 500 milljónir íslenskra króna en engin erlend fjárhæð sé tilgreind í samningnum. Í 3. mgr. 1. gr. lánasamningsins komi fram að lántaki skuli tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hyggist taka lánið og í hvaða hlutföllum. Í greininni komi jafnframt fram að lánið verði tilgreint í erlendum myntum eða jafnvirði þeirra í íslenskum krónum. Lánið hafi síðan verið greitt út í íslenskum krónum inn á reikning Össurar hf. hjá Kaupþingi í samræmi við ákvæði samningsins um að láninu ætti að ráðstafa til að losa kauprétt af fasteign við Grjótháls 5 í Reykjavík.  

        Stefnandi byggir á dómi Hæstaréttar nr. 155/2011 þann 9. júní 2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Mótormax ehf., þar sem leyst var úr því álitaefni, hvort algjörlega sambærilegt lán væri gengistryggt íslenskt lán. Staðfest hafi verið að um væri að ræða íslenskt lán sem gengistryggt var við gengi erlendra gjaldmiðla og væri því gengistryggingin ólögmæt, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi byggir á því að lánasamningur í því máli og lánasamningur stefnanda við VBS fjárfestingarbanka hf. frá 7. desember 2007 séu eins eða a.m.k. mjög sambærilegir. 

        Stefnandi heldur því fram að lánasamningar nr. 46572 og 46573 frá 19.12.2008 hafi verið nýttir til að endurfjármagna fyrrgreindan samning, sbr. 5. mgr. 1. gr. beggja samninganna. Þar komi fram að ráðstafa skuli lánunum til greiðslu láns stefnanda nr. 20890 hjá VBS fjárfestingarbanka hf. Þannig liggi fyrir að endurgreiðsla láns nr. 20890 hafi verið í íslenskum krónum. Stefnandi byggir á því að fyrir liggi að eftirstöðvar lánasamnings nr. 20890, hafi stökkbreyst vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar og hafi því höfuðstóll lánasamninganna nr. 46572 og 46573 verið samtals 1.028.036.685 krónur, þ.e. 494.218.078 krónum hærri en hann hefði átt að vera miðað endurútreikning á ólögmæti gengistryggingar upphaflega samningsins sem lagður hefur verið fram í málinu. 

        Eins og rakið hefur verið hafi lánasamningar nr. 46572 og 46573 verið framseldir stefnda þann 19. október 2009 og varð því stefndi nýr kröfuhafi lánanna. Stefnandi byggir á því að fyrrgreindir lánasamningar teljist almennar kröfur. Meginreglan varðandi kröfuhafaskipti almennra krafna sé sú, eins og áður er getið, að skyldur skuldarans eigi ekki að aukast við framsalið og því geti skuldarinn borið fram allar sömu mótbárur við framsalshafann og hann gat borið fyrir sig gagnvart framseljanda, hvort sem þær lúta að því að krafan hafi aldrei verið til eða sé fallin úr gildi eða efni hennar breytt frá því sem áður var. Þennan rétt hafi skuldarinn að jafnaði þótt framsalshafa hafi verið ókunnugt um mótbáruna þegar framsalið átti sér stað. 

        Þá byggir stefnandi á því að fyrir liggi að hann hefði getað krafist leiðréttingar á höfuðstól lánasamninganna nr. 46572 og 46573 frá 19. desember 2008 hjá VBS fjárfestingarbanka hf. á þeirri forsendu að höfuðstóll þeirra væri rangur vegna ólögmætrar gengistryggingar hefði ekki komið til framsals lánasamninganna. Stefnandi telur fullsannað að lánasamningur frá 26. desember 2009 hafi verið gerður til endurfjármögnunar á áðurgreindum tveimur lánasamningum nr. 46572 og 46573, en þeir höfðu verið notaðir til endurfjármögnunar á hinum gengistryggða samningi, eins og er áður getið. Í því sambandi vísar stefnandi til þess sem segir í fyrrgreindum lánasamningi frá 26. október 2009, en þar segi varðandi tengsl hans við fyrri tvo samninga:

„VBS hefur nú framselt ofangreindar fjárkröfur sínar samkvæmt samningunum til Lánveitanda auk allra réttinda, þar með talið tryggingarréttinda, og skyldna samkvæmt samningunum. Lánveitandi, sem framsalshafi samninganna og nýr kröfuhafi samkvæmt þeim, og Lántaki sem skuldari, hafa nú komist að samkomulagi um að gera með sér nýjan lánasamning – þennan Samning. Samningur þessi kemur því að öllu leyti í stað samninganna, sem jafnframt munu falla úr gildi þegar Samningur þessi hefur öðlast gildi með undirritun Lánveitanda og Lántaka.“ 

Stefnandi byggir á því að höfuðstóll lánasamningsins frá 26. október 2009, sem notaður var til að endurfjármagna tvo síðastgreindu samninga, byggi á sömu röngu forsendunum og þeir tveir fyrri þ.e. höfuðstóll þeirra sé rangur sem hinni ólögmætu gengistryggingu nemur. Stefnandi byggir á því að krafa hans stafi frá upphaflegum lánasamningi, þ.e. að hefði hann ekki tvöfaldast, hefðu lánasamningar þeir sem framseldir voru stefnda verið lægri að höfuðstólsfjárhæð. Stefnandi telur að ljóst liggi fyrir að andmæli við fjárhæð þeirra lánasamninga (stofnun þeirra) sé mótbára sem hann hefði haft uppi gagnvart VBS fjárfestingarbanka hf. ef ekki hefði komið til fyrrgreint framsal. Skuldari haldi öllum sömu mótbárum gagnvart framsalshafa og hann hafði gagnvart framseljanda almennrar kröfu. Þá liggi fyrir að krafa VBS fjárfestingarbanka hf. og nú krafa stefnda sé almenn krafa og því geti stefnandi haldið uppi sömu mótbárum gegn stefnda sem framsalshafa.

        Stefnandi mótmælir því sem fram kemur í bréfi stefnda frá 31. maí 2012, að krafa hans sé sjálfstæð krafa sem „ekki tengist lánasamningunum með neinum hætti“. Sé krafan endurgreiðslukrafa, eins og haldið var fram í bréfi stefnda, þá geti hún ekki jafnframt verið sjálfstæð krafa, þ.e. ekki í sambandi við þá kröfu sem var framseld. Sjálfstæð krafa sé krafa sem ekki sé í tengslum við fyrra samningssamband líkt og krafa um endurgreiðslu væri. Stefnandi vísar til lánasamninga frá 19. desember 2008, en í þeim komi fram að þeir hafi verið notaðir til greiðslu á lánasamningi nr. 20890. Enn fremur vísar stefnandi til lánasamnings frá 26. október 2009, en þar komi fram að hann sé til fjármögnunar á lánasamningunum nr. 46572 og 46573 og stefndi hafi fyrir framsal tekið yfir allar skyldur gagnvart stefnanda. Stefnandi telur að í því felist m.a. að stefndi hafi tekið yfir þær mótbárur sem stefnandi kynni að hafa átt gagnvart hinum framseldu lánasamningum og tilurð þeirra.  

        Þá mótmælir stefnandi því að tómlæti sé til staðar af hans hálfu eins og stefndi haldi fram í fyrrgreindu bréfi sínu. Í því sambandi bendir stefnandi á að ólögmæti samninganna hafi fyrst verið staðfest með dómi Hæstaréttar nr. 155/2011 sem kveðinn var upp þann 9. júní 2011. Stefnandi hafi beint kröfu á hendur stefnda með bréfi dagsettu, þann 27. apríl 2012 sem sé innan árs frá því að ólögmæti samningsins var staðfest. Áður hafi stefnandi beint kröfu að stefnda á fundi með lögmanni stefnda, Eggerti Páli Ólasyni hdl., og auk þess hafi allmörg símtöl átt sér stað milli lögmanna málsaðila. Þannig hafi ekki verið um neitt tómlæti að ræða af hans hálfu. 

        Stefnandi mótmælir því að með því að samþykkja framsal lánasamninganna hafi hann fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig mótbárur vegna hans. Meginreglan við kröfuhafaskipti sé sú að þau séu frjáls og geti átt sér stað án samþykkis og atbeina skuldara. Eigi stefndi við það að í undirritun um móttöku tilkynninga um framsal frá 19. október 2009 hafi falist eitthvert samþykki fyrir framsalinu þá mótmælir stefnandi því sem röngu. Tilgangur fyrrgreindra tilkynninga hafi fyrst og fremst verið sá að tilkynna stefnanda um nýjan greiðslustað, þ.e. hjá stefnda. Tilkynningarnar sem slíkar eru ákvöð sem bindi stefnanda við móttöku til þess að greiða á hinum nýja greiðslustað. Í staðfestingu á móttöku á tilkynningunum hafi því ekki falist samþykki fyrir framsalinu heldur eingöngu staðfesting á móttöku tilkynningar stefnda. 

        Stefnandi lítur svo á að í tilkynningum stefnda felist yfirlýsing og staðfesting stefnda um að gegn því að stefnandi hefji að greiða honum í stað VBS fjárfestingarbanka hf. haldist lánasamningarnir óbreyttir og þ.m.t. allar þær mótbárur sem stefnandi hefði getað haft uppi gagnvart VBS fjárfestingarbanka hf. Sá skilningur byggist á þeirri meginreglu kröfuréttar að skuldari haldi öllum mótbárum gagnvart framsalshafa eftir framsal þ.m.t. varðandi tilurð og stofnun kröfu. Þessi skilningur eigi sér líka stoð í lánasamningi stefnanda og stefnda frá 26. október 2009, en þar komi fram að VBS fjárfestingarbanki hf. hafi framselt stefnda lánasamninga frá 19. desember 2008, auk allra réttinda og skyldna. 

        Við útreikning aðalkröfu stefnanda miðar hann við útreikningsdag þann 10. nóvember 2012, en þann dag hafi síðast verið greitt af láninu áður en mál þetta var höfðað og eftirfarandi forsendur liggi til grundvallar útreikningi stefnanda á eftirstöðvum lánasamnings aðila frá 26. október 2009.

        Höfuðstóll upphaflegs lánasamnings frá 7. desember 2007 milli stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. hafi numið 500 milljónum króna. Gjaldfallnir gengistryggðir vextir hafi hinn 19. desember 2008 numið 33.818.607 krónum. Það væri stefnanda til hagsbóta ef gjaldfallnir gengistryggðir vextir yrðu endurreiknaðir miðað við samningsvexti og að gengistrygging hefði aldrei verið til staðar en í kröfu stefnanda sé ekki verið að endurreikna vexti sem greiddir voru af gengistryggðum höfuðstól, heldur séu þeir látnir standa. Gjaldfallinn höfuðstóll og gjaldfallnir gengistryggðir vextir 19.12.2008 hafi því numið samtals 533.818.607 krónum sem er 494.218.078 krónum lægri en höfuðstóll samninganna tveggja sem notaðir voru til endurfjármögnunar lánasamningsins. Stefnandi tekur fram að fyrrgreindir vextir að fjárhæð 33.818.607 kr. hafi verið greiddir með lánasamningunum nr. 46572 og 46573 frá 19. desember 2008.

Útreikningar eru eftirfarandi:

 

Á tímabilinu frá 19. desember 2008 til 20. júlí 2009 (en lánasamningar frá 19. desember 2008 gjaldféllu þann 20. júlí 2009) eru vextir reiknaðir af höfuðstól í samræmi við skilmála lánasamninganna tveggja frá 19. desember 2008.

        Vextir, sem greiddir voru af lánasamningunum tveimur nr. 46572 og 46573 (1 mánaðar REIBOR), eru bornir saman við útreiknaða áfallna vexti á hverjum tíma en mismunur er höfuðstólsfærður á sömu dagsetningu.

        Miðað við það hafi eftirstöðvar höfuðstóls þann 20. júlí 2009 verið 538.104.517 krónur, en skv. viðauka við lánasamningana nr. 46572 og 46573, sé það gjalddagi beggja samninga, svo sem fyrr greini.

Því næst sé lántökugjald 0,25% reiknað af eftirstöðvum höfuðstóls þann 20. júlí 2009, en það gjald komi til við umbreytingu á láninu í EUR og nemi 1.345.261 krónu, sbr. grein 4.1 í lánasamningi frá 26. október 2009. Eftirstöðvar ásamt lántökugjaldi verði þá samtals 539.449.778 krónur (538.104.517 + 1.345.261). Þeirri upphæð sé umbreytt í evrur miðað við skiptigengi EUR=179,68 krónur sem sé skiptigengi samkvæmt VBS fjárfestingarbanka hf. þann 20.07.2009. Eftirstöðvar skuldar stefnanda ásamt lántökugjaldi, hefðu því átt að vera 3.002.281 evra þann 20. júlí 2009, miðað við endurútreikning á ólögmæti gengistryggingar upphaflega samningsins.

        Vextir séu svo reiknaðir af EUR-fjárhæð frá 20. júlí 2009 til 10. október 2009 (sem var fyrsti vaxtadagur nýja lánsins) en þeir séu 30.561 EUR miðað við 4,469% sem sé vaxtaprósenta frá VBS fjárfestingarbanka hf. Samtals hefði því upphafleg staða lánasamningsins frá 26. október 2009 átt að vera 3.032.842 EUR þann 10. október 2009. Staða lánasamningsins við undirritun hans þann 26. október 2009, sé sú sama og 10. október 2009, en ástæða þess er sú að fyrsti vaxtadagur lánasamnings var settur 10. október 2009.

        Frá 10. október 2009 til 10. nóvember 2012 hafi stefnandi greitt 37 sinnum af lánasamningnum, samkvæmt útgefnum kvittunum með jöfnum afborgunum, hverri að fjárhæð 51.305,60 evrur. Samtals sé því búið að greiða af lánasamningnum 1.898.307 evrur. Þar af leiði að eftir standi af höfuðstóll lánasamningsins, á útreikningsdegi hans þann 10. nóvember 2012, sé 1.134.535 evrur sem sé sú staða lánsins sem krafist er viðurkenningar á í aðalkröfu.

Útreikningur er sem hér segir:

 

       Í bókun sem stefnandi lagði fram í þinghaldi 25. júní 2013 lýsti hann því yfir sem áður er að rakið að hann hefði upp nýjar málsástæður til stuðnings kröfu sinni. Varðandi tilurð nýrra málsástæðna vísaði stefnandi til þess að undir rekstri þessa máls hafi fallið dómur Hæstaréttar í málinu nr. 720/2012 VBS eignasafn hf. gegn Landsbanka Íslands hf. Í því máli krafðist VBS eignasafn þess að rift væri yfirfærslu á félaginu Vingþóri ehf., stefnda í þessu máli, til Landsbanka Íslands hf. á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sem hafði verið gerð til greiðslu á skuld VBS fjárfestingarbanka hf. við Landsbanka Íslands hf. Jafnframt hafi verið krafist greiðslu frá Landsbanka Íslands hf. Niðurstaða Hæstaréttar hafi byggt á varakröfu Landsbanka Íslands hf. og var Landsbanka Íslands hf. gert með vísan til 144. gr. s.l. að skila VBS eignasafni félaginu Vingþóri ehf., stefnda í máli þessu.

Í dómnum var lýst hvers vegna stefndi Vingþór ehf. var stofnaður og þá í hvaða tilgangi. Í dómi héraðsdóms sé þessu lýst þannig:

„Við uppgjör aðila í kjölfar falls varnaraðila áttu aðilar í viðræðum á árinu 2009 um hvernig sóknaraðili gæti greitt skuldir sínar og hinn 11. ágúst 2009 gerðu aðilar samkomulag um uppgjör á skuldum sóknaraðila við varnaraðila. Í samkomulagi þessu er lagt á ráðin með að sóknaraðili skyldi láta tilgreind verðmæti í sinni eigu, fasteignir og kröfuréttindi að fjárhæð 4.344.773.656 krónur inn í nýtt einkahlutafélag og afsala síðan hlutunum í því félagi til varnaraðila að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þær eignir sem leggja skyldi inn í hið nýja einkahlutafélag voru tveir lánasamningar við Grjótháls ehf., metnir á 1.082.819.912 krónur......“

        Af ofangreindu megi ráða að stefndi Vingþór ehf. virðist hafa verið stofnaður í þeim eina tilgangi að taka við eignum VBS fjárfestingarbanka hf., en í upphafi var stefndi dótturfélag í 100% eigu VBS fjárfestingarbanka. Félagið virðist síðan hafa verið framselt Landsbanka Íslands hf. Að gengnum ofangreindum dómi hafi stefndi aftur orðið dótturfélag í 100% eigu VBS fjárfestingarbanka hf. sem hafði þá fengið nafnið VBS eignasafn hf. Þrátt fyrir þetta sé því m.a. haldið fram í greinargerð stefnda, að stefndi geti ekki átt aðild að málinu, þar sem stefndi og VBS eignasafn hf. séu ótengd félög og stefndi hafi engar upplýsingar um lögskipti stefnanda og móðurfélagsins. Þá sé því jafnframt haldið fram að stefndi hafi verið grandlaus um lánasamning nr. 20890. Stefnandi byggir á því að dómur Hæstaréttar í ofangreindu máli taki af öll tvímæli um að stefndi hafi ekki verið grandlaus um lögskipti að baki og tilurð lánasamninga nr. 46572 og 4657 sem hann fékk framselda.  Þá liggi jafnframt fyrir að stefndi hafi haft aðgang að öllum upplýsingum sem lúta að viðskiptum stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. 

        Í ljósi ofangreinds dóms Hæstaréttar sem kveðinn var upp eftir að mál þetta var höfðað, telur stefnandi ljóst að málatilbúnaður stefnda um meint grandleysi sitt, fái ekki staðist. Stefnandi tekur fram að hann hafi verið með sérstakan áskilnað í stefnu um að hafa uppi frekari málsástæður gæfist tilefni til. Stefnandi byggir á því að stofnað hafi verið til skuldar skv. lánasamningum nr. 46572 og 46573 og síðar skv. lánasamningi frá 26. október 2009 til að efna skuldbindingu samkvæmt lánasamningi nr. 20890. Með því hafi skuldbindingin verið efnd samkvæmt efni lánasamningsins sem reyndist hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu.

        Telur stefnandi að við úrlausn málsins verði að líta til þess sem ætla má um vitneskju samningsaðila um atvik, stöðu þeirra við samningsgerðina og efni samnings.  Stefnandi byggir á því að ákvæði laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum séu nokkuð ótvíræð. Starfsmenn VBS fjárfestingarbanka hf. (nú VBS eignasafns hf.) hafi átt að geta gert sér grein fyrir því að gengistrygging lánasamnings stefnanda hjá bankanum var ólögmæt. Þeim hafi því einnig verið kunnugt um að lánasamningar nr. 46572  og 46573 hafi verið of háir sem nam gengisfalli íslensku krónunnar gagnvart hinum erlendu gjaldmiðlum, sem lánasamningurinn miðaði við, frá útgáfu hans til gjalddaga. Stefnandi sé ekki sérfróður um fjármálastarfsemi og peningamál á fjölþjóðlegum vettvangi svo jafnað verði við þá þekkingu sem fjármálafyrirtæki búi að öðru jöfnu ein yfir, líkt og VBS fjárfestingarbanki hf. gerði sem fjármálafyrirtæki.

        Stefndi sé félag í 100% eigu VBS eignasafns hf. Stefnandi telur að stefndi geti ekki vikið sér undan því að endurreikna og leiðrétta lán, sem reyndist frá upphafi u.þ.b. tvöfalt hærra en það átti að vera, vegna ólögmætrar gengistryggingar, upphaflegs láns nr. 20890. Stefndi hafði fengið lánasamninga nr. 46572 og 46573 framselda frá móðurfélagi sínu VBS fjárfestingarbanka hf., nú VBS eignasafni hf., sem síðar voru endurfjármagnaðir með lánasamningi frá 26. október 2009, sem krafist er leiðréttingar á í málinu. 

        Stefnandi byggir á því að fyrir liggi í málinu sönnun á því að bæði lánasamningar nr. 46572 og 46573 og lánasamningur frá 26. október 2009 eigi rót sína að rekja til láns nr. 20890 og séu of háir sem hinni ólögmætu gengistryggingu nemur. Stefnandi byggir því, í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, á því að það teljist bersýnilega ósanngjarnt af stefnda að bera lánasamning frá 26. október 2009 fyrir sig að því marki sem hann er of hár vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar upphaflegs lánasamnings. Því byggir stefnandi á því að lánasamningi frá 26. október 2009 eigi að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, að svo miklu leyti sem hann er of hár vegna ólögmætrar gengistryggingar lánasamnings nr. 20890.

        Í þinghaldi þann 5. desember 2013 lagði stefnandi fram bókun um að hann myndi hafa uppi nýja varakröfu í málinu. Stefnandi lýsti yfir eftirfarandi breytingum á kröfugerð sinni í málinu:

„Dómkröfur stefnanda koma fram á bls. 1 í stefnu á dómskjali nr. 1 og eru þær óbreyttar að öðru leyti en því að stefnandi hefur nú bætt við nýrri varakröfu vegna dóms Hæstaréttar nr. 348/2013, sem kveðinn var upp þann 21.11.2013.  Breyting þessi á kröfugerð stefnanda felur ekki í sér aukningu á kröfum hans, heldur er stefnandi að koma að nýrri og lægri varakröfu, vegna útreiknings kröfu í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. 

Ný varakrafa er eftirfarandi:

       Stefnandi krefst þess til vara að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamnings, dagsetts 26. október 2009, hafi numið EUR 1.498.424 hinn 10.11.2012.“  

       Varðandi tilurð nýrrar varakröfu þá vísar stefnandi til þess að undir rekstri þessa máls hafi fallið Hæstaréttardómur í málinu nr. 348/2013 Landsbankinn hf. gegn Tómasi Jónassyni. Í því máli hafi Tómas krafið Landsbankann hf. um fjárhæð sem hann hafði ofgreitt vegna ólögmætrar gengistryggingar vegna skuldabréfs er hafði að geyma ákvæði um bindingu höfuðstóls við gengi erlendra gjaldmiðla og taldist ólögmætt samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Tómas hafi gert skuldabréfið upp gagnvart forvera Landsbankans hf., Landsbanka Íslands hf., meðal annars með því að taka yfirdráttarlán en síðar ráðstafaði Fjármálaeftirlitið kröfuréttindum forvera Landsbankans hf. vegna yfirdráttarlánsins til Landsbankans hf.  Í dómi Hæstaréttar komi fram að aðilaskipti hafi orðið að kröfum á hendur stefnda vegna yfirdráttarláns hans hjá Landsbanka Íslands hf., forvera Landsbankans hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Í dómnum komi fram að samkvæmt almennum reglum um aðilaskipti að kröfuréttindum öðlaðist áfrýjandi ekki rýmri rétt á hendur stefnda með þeirri ráðstöfun en forveri hans naut og dæmdi Hæstiréttur Landsbankann hf. til að greiða Tómasi 6.224.999 kr., auk málskostnaðar.

        Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, var komist að þeirri niðurstöðu að við útreikning kröfu Tómasar eigi ekki í því máli að miða við sömu útreikningsaðferð og í málum nr. 600/2011 og 464/2012, en útreikningsaðferðir stefnanda í þessu máli byggja á þeirri aðferð. Í dómnum hafi verið byggt á sambærilegri aðferð og í dómum Hæstaréttar nr. 471/2010 og 604/2010, sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og talið að umsamin vaxtakjör af gengisbundnum lánum hefðu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þeirra sem hefði verið óheimil. Í dómnum segi að í ljósi þessara tengsla samningsvaxta og gengistryggingar sé óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðis um gengistryggingu leiði til þess að með öllu eigi að líta fram hjá ákvæðum um vaxtahæð og komist að þeirri niðurstöðu að umsamið sé að skuldin hafi átt að bera vexti skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

      Stefnandi telur að beita eigi þeirri útreikningsaðferð sem byggt var á í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar nr. 600/2011 og 464/2012 í máli þessu, en í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 348/2013 byggir stefnandi á því til vara að beita eigi sömu útreikningsaðferð og gert er í dómi Hæstaréttar nr. 348/2013. Stefnandi byggir á sömu málsástæðum og í aðalkröfu.

        Varakrafa stefnanda miðar við sama útreikningsdag og aðalkrafa, 10. nóvember 2012, en þann dag var síðast greitt af láninu áður en mál þetta var höfðað. Eftirfarandi forsendur liggi til grundvallar útreikningi stefnanda á eftirstöðvum lánasamnings aðila frá 26.10.2009. 

        Höfuðstóll upphaflegs lánasamnings frá 7. desember 2007 milli stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. hafi numið 500 milljónum króna. Gjaldfallnir gengistryggðir vexti hafi hinn 19. desember 2008 numið 33.818.607 krónum. Í aðalkröfu séu vextir ekki endurreiknaðir á höfuðstól heldur látnir standa, út frá sjónarmiðum í dómum Hæstaréttar Íslands nr. 600/2011 og 464/2012. Í varakröfu séu vextir hins vegar reiknaðir skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 á upphaflegan höfuðstól samnings nr. 20890.

       Gjaldfallinn höfuðstóll og endurreiknaðir vextir, samkvæmt lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands og 12 mánaða viðlögn vaxta, þann 19. desember 2008 hafi numið samtals 591.360.750 krónum sem er 436.675.935 krónum lægri fjárhæð en höfuðstóll samninganna tveggja sem notaðir voru til endurfjármögnunar lánasamningsins. Stefnandi sýnir útreikninga sína sem hér segir:

 

Á tímabilinu frá 19. desember 2008 til 20. júlí 2009 (en lánasamningar frá 19. desember 2008 gjaldféllu þann 20. júlí 2009) séu vextir reiknaðir af endurreiknuðum höfuðstól í samræmi við skilmála lánasamninganna tveggja frá 19. desember 2008.

Vextir, sem greiddir voru af lánasamningunum tveimur nr. 46572 og 46573 (1 mánaðar REIBOR), séu bornir saman við útreiknaða áfallna vexti á hverjum tíma en mismunur er höfuðstólsfærður á sömu dagsetningu.

Miðað við þetta hafi eftirstöðvar höfuðstóls verið þann 20. júlí 2009, 602.667.786 krónur, en skv. viðauka við lánasamningana nr. 46572 og 46573, sé það gjalddagi beggja samninga, svo sem fyrr greinir. 

Þá sé lántökugjald, 0,25%, reiknað af eftirstöðvum höfuðstóls þann 20. júlí 2009, en það gjald komi til við umbreytingu á láninu í evrur og nemi 1.506.669 krónum, sbr. grein 4.1 í lánasamningi frá 26. október 2009. Eftirstöðvar ásamt lántökugjaldi verði þá samtals 604.174.455 krónur (602.667.786 + 1.506.669). Þeirri upphæð sé umbreytt í evrur miðað við skiptigengi EUR=179,68 krónur sem sé skiptigengi samkvæmt VBS fjárfestingarbanka hf. þann 20.07.2009. Eftirstöðvar skuldar stefnanda ásamt lántökugjaldi, hefðu því átt að vera 3.362.503 evrur þann 20. júlí 2009, miðað við endurútreikning á ólögmæti gengistryggingar upphaflega samningsins. Vextir séu svo reiknaðir af evrufjárhæð frá 20. júlí 2009 til 10. október 2009 (sem var fyrsti vaxtadagur nýja lánsins) en þeir séu 34.228 evrur miðað við 4,469% sem sé vaxtaprósenta frá VBS fjárfestingarbanka hf.

        Samtals hefði því upphafleg staða lánasamningsins frá 26. október 2009 átt að vera 3.396.731 evra þann 10. október 2009 miðað við ólögmæti upphaflega lánssamningsins og vaxtareikning hans skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 á upphaflegan höfuðstól samnings. Staða lánasamningsins við undirritun hans þann 26. október 2009, sé sú sama og 10. október 2009, en ástæða þess er sú að fyrsti vaxtadagur lánasamnings var settur 10. október 2009.

        Frá 10. október 2009 til 10. nóvember 2012 hafi stefnandi greitt 37 sinnum af lánasamningnum, samkvæmt útgefnum kvittunum með jöfnum afborgunum, hverri að fjárhæð 51.305,60 evrur. Samtals sé því búið að greiða af lánasamningnum 1.898.307 evrur. Þar af leiði að eftir standa af höfuðstól lánasamningsins, skv. varakröfu stefnanda, á útreikningsdegi hans þann 10. nóvember 2012, 1.498.424 evrur sem sé sú staða lánsins sem krafist er viðurkenningar á í varakröfu stefnanda.

Útreikningur stefnanda er sem hér segir:

        Stefnandi vísar til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991varðandi heimild til þess að setja fram varakröfuna á þessu stigi málsins, en tilefni til hennar hafi fyrst orðið þann 21. nóvember 2013 við uppkvaðningu Hæstaréttar Íslands á dómi í máli nr. 348/2013. Þá vísar stefnandi til þess að hann sé ekki að bæta við kröfur sínar heldur sé þvert á móti hagstæðara fyrir stefnda að fallist verði á varakröfu stefnanda en aðalkröfu hans. Þá sé með varakröfu þessari ekki bókaðar nýjar málsástæður heldur byggir hún á öllum sömu málsástæðum og aðalkrafa málsins.

        Um lagarök vísar stefnandi til 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum. Þá vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar um framsal krafna og mótbárur skuldara og til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna viðurkenningarkrafna sinna. Þá vísar stefnandi í bókun 25. júní 2013 til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

        Kröfur um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

        Varðandi kröfu um sýknu á grundvelli aðildarskorts vísar stefndi til þess að stefnandi byggi kröfu um leiðréttingu á höfuðstól lánssamnings við stefnda, dags. 26. október 2009, á samningi milli stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. nr. 20890. Stefndi hafi ekki átti aðild að þeim samningi sem lauk með uppgreiðslu lánsins af hálfu stefnanda til VBS fjárfestingarbanka hf. Sá samningur sé því óviðkomandi lögskiptum VBS fjárfestingarbanka hf. og stefnda. Í stefnu sé ekki gerð fullnægjandi grein fyrir aðild stefnda að málinu að þessu leyti. Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki byggt á því sérstaklega að lánssamningur sá sem hann krefst leiðréttingar á, milli stefnanda og stefnda, dags. 26. október 2009, sé sem slíkur ólögmætur heldur gerir aðeins þá kröfu að hann beri að endurútreikna. Þannig sé ekki um það að ræða að lánssamningur stefnanda við stefnda eða viðauki við hann sé umdeildur á nokkurn hátt, fyrir utan fjárhæð.

        Stefndi byggir á því að reglur um mótbárur við aðilaskipti eigi ekki við í málinu. Hugsanleg mótbára stefnanda vegna lánasamningsins nr. 20890, dags. 7. desember 2007, hafi ekkert gildi gagnvart stefnda, enda hafi það lán, sem mótbáran kynni að varða, verið uppgreitt án nokkurra athugasemda af hálfu stefnanda. Síðari lánasamningar hafi síðan verið framseldir stefnda án nokkurrar tilvísunar til þess samnings sem kröfur og málatilbúnaður stefnanda byggi á. Engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnanda við framsalið. Lögskipti stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. að baki lánssamningi nr. 20890 séu stefnda með öllu óviðkomandi. Samningarnir sem stefndi fékk framselda hafi verið sjálfstæðir að efni og formi, hafi haft sjálfstæð lánanúmer, skuldbinding þeirra hafi ráðist að fullu af texta þeirra án tilvísana til fyrri samnings og í þeim hafi jafnframt falist sjálfstæð skuldbinding um efndir samkvæmt skilmálum þeirra.

        Stefnandi hafi síðan gengið til samninga við stefnda um það lán sem hann krefjist nú leiðréttingar á af fúsum og frjálsum vilja og án nokkurra tilvísana eða fyrirvara vegna þess samnings sem hann byggir nú á að leiða eigi til leiðréttingar lánsins, sem að öðru leyti er ekki byggt á að sé sem slíkt ólögmætt.

        Með vísan til alls þessa sé ljóst að stefndi geti ekki átt aðild að málinu þar sem það byggi á og varði lögskipti stefnanda við annan aðila, VBS fjárfestingarbanka hf.

Stefndi bendir á að af atvikum málsins og málatilbúnaði stefnanda megi ráða að líta verði á kröfu stefnanda sem skaðabótakröfu eða endurgreiðslukröfu vegna ofgreidds fjár vegna lánssamnings nr. 20890 og þeirri kröfu verði aðeins beint að viðsemjanda stefnanda, VBS fjárfestingarbanka hf. Þessi skilningur hafi jafnframt verið staðfestur með kröfulýsingu í bú VBS fjárfestingarbanka hf. þar sem Holtasel ehf., framsalshafi meintrar kröfu stefnanda vegna lánssamnings nr. 20890, byggði kröfu sína á því að stefnanda hafi verið gert að ofgreiða 419.592.189 kr. vegna lánssamninga við VBS fjárfestingarbanka hf. Segi í kröfulýsingunni að Holtasel ehf. krefji VBS fjárfestingarbanka hf. um bætur/endurgreiðslu og byggi á sjónarmiðum um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Með þessum hætti hafi sakarefni málsins áður verið ráðstafað með þeim hætti að kröfum vegna samnings nr. 20890 verði beint að VBS fjárfestingarbanka hf. á tilteknum grundvelli. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi, dags. 27. apríl 2012, að stefnandi beindi kröfum að stefnda vegna hugsanlegs ólögmætis lánasamnings nr. 20890 og þá með þeim hætti að endurreikna eigi núgildandi ótengdan lánssamning aðila.

        Með vísan til alls þessa krefst stefndi sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

        Verði stefndi ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts byggir stefndi sýknukröfu sína á því að hugsanlegar mótbárur sem stefnandi hafði vegna lánssamnings nr. 20890 eigi ekki við um þann samning sem krafist er leiðréttingar á. Reglur kröfuréttarins um mótbárur skuldara við kröfuhafaskipti eigi við um framsal samninga. Krafa stefnanda eigi aðeins rót í lánssamningi nr. 20890, frá 7. desember 2007, en ekki í lánssamningum 46572 og 46573, dags. 19. desember 2008, sem framseldir voru stefnda. Lánssamningur, dags. 7. desember 2007, sem stefnandi byggir kröfur sínar á hafi ekki verið framseldur stefnda og hafi stefndi þar af leiðandi aldrei orðið aðili að þeim samningi. Þegar af þeim ástæðum geti stefnandi ekki byggt á mótbárum á grundvelli hans við gildi lánasamningsins milli aðila málsins frá 26. október 2009. Þá sé jafnframt ósannað að stefndi hafi haft vitneskju um efni hans, enda sé hann ekki hluti þeirra samninga sem stefndi fékk framselda.

        Þá byggir stefndi á því að umræddur lánssamningur sem stefndi byggi á að falið hafi í sér ólögmæta gengistryggingu hafi verið að fullu uppgreiddur með nýjum sjálfstæðum lánssamningum við VBS fjárfestingarbanka hf. í íslenskri mynt. Því hafi ekki verið um að ræða framsal þess lánssamnings til stefnda sem stefnandi byggir rétt sinn eða mótbárur á og hafi þær ekkert gildi gagnvart stefnda. Við uppgreiðslu láns nr. 20890 hafi fallið niður allar mótbárur sem stefnandi kynni að hafa átt vegna þess samnings og sé því alfarið mótmælt að hugsanlegar mótbárur vegna hans hafi haldið sér við gerð lánasamningsins milli stefnanda og stefnda þann 26. október 2009. Þá sé ljóst að við gerð samnings þess sem stefnandi krefst leiðréttingar á hafi með engum hætti af hálfu stefnanda verið gerður fyrirvari við fjárhæð höfuðstóls samningsins eða forsendur hans, hvorki við gerð hans eða síðari skilmálabreytingu 16. mars 2011. Eins og áður greini geti stefnandi aðeins beint kröfum að VBS fjárfestingarbanka hf. varðandi lánssamninginn sem uppgreiddur var 19. desember 2008. Tilvist slíkrar kröfu geti ekki talist sérstök mótbára gegn skuldbindingu stefnanda samkvæmt lánssamningnum dags. 19. desember 2008 eða sjálfstæðri skuldbindingu stefnanda samkvæmt lánssamningi dags. 26. október 2009. Þá bendir stefnandi á að ekki yrði komið fram skuldajöfnuði á slíkri kröfu gagnvart kröfu stefnda samkvæmt lánssamningi frá 26. október 2009 þar sem það almenna skilyrði skuldajöfnuðar að kröfurnar séu milli sömu aðila er ekki uppfyllt, enda sé ekki byggt á reglum um skuldajöfnuð í málatilbúnaði stefnanda.

        Þá byggir stefndi á því, verði litið svo á að stefnandi geti byggt rétt á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings nr. 20890, að stefnandi hafi fyrirgert þeim rétti með því að hafa greitt þann samning upp að fullu án fyrirvara eða áskilnaðar um leiðréttingu höfuðstóls og síðar með því að hafa ekki haft uppi athugasemdir við framsal samnings þess sem krafist sé leiðréttingar á eða síðari skilmálabreytingu hans.

Stefnandi hafi sjálfur byggt á því að höfuðstóll lánsins hafi tvöfaldast vegna gengistryggingar við erlenda gjaldmiðla og hafi því haft fullt tilefni til fyrirvara eða áskilnaðar um leiðréttingu höfuðstóls eða endurkröfu vegna ofgreiðslu af láninu þegar það var uppgert. Þetta hafi stefnandi í engu gert, heldur hafi á grundvelli samningsfrelsis gengið til sjálfstæðra nýrra samninga um lán í íslenskum krónum beinlínis á þeirri forsendu og til samræmis við þá upphæð sem höfuðstóll lánssamnings nr. 20890 hafi verið kominn í og þannig greitt lán nr. 20890 upp án nokkurra fyrirvara. Með því hafi allar kröfur vegna samningsins fallið niður. Stefnandi geti því engan rétt byggt á lánssamningi nr. 20890, enda hafi hann verið grandsamur um þá forsendu lána nr. 46572 og 46573 að þau hafi verið ætluð til uppgreiðslu á láni sem hafði tvöfaldast að höfuðstól vegna gengistryggingar. Þar sem stefndi hafi ekki átt aðild að gerð þessara þriggja samninga hafi ekki mátt ætla að hann væri grandsamur um nokkra fyrirvara af hálfu stefnanda við lögmæti þeirra enda koma slíkar athugasemdir stefnanda hvergi fram í þeim gögnum sem lágu fyrir við framsal samninga nr. 46572 og 46573 til stefnda þann 19. október 2009 eða gerð þess samnings sem stefnandi krefst leiðréttingar á. Þá mótmælir stefndi því að aðstöðumunur hafi verið með aðilum við gerð þeirra samninga sem málið varðar.

        Verði litið svo á að stefnandi geti byggt rétt á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings nr. 20890 byggir stefndi á því að lánið hafi verið erlent lán sem fallið hafi utan gildissviðs laga nr. 38/2001. Ekki hafi verið um ólögmæta gengistryggingu lánsins að ræða og mótmælir stefndi öllum málsástæðum stefnanda þar að lútandi. Þá byggir stefndi á því að stefnanda beri að efna samning dags. 26. október 2009 í samræmi við efni hans, óháð lögskiptum stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. Stefnandi vísi til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936.       

       Þá byggir stefnandi á því að þrátt fyrir að komist yrði að þeirri niðurstöðu að lánssamningurinn frá 7. desember 2007 væri ólögmætur þá geti stefnandi ekki byggt á því kröfu um endurútreikning lánssamnings frá 26. október 2009 á hendur stefnda, enda um ótengt lán annarra aðila að ræða. Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hafa að geyma reglur um verðtryggingu. Í 1. gr. laganna sé gildissvið þeirra afmarkað, en þar komi fram í 2. mgr. að þau gildi um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í VI. kafla laganna sé að finna nánari reglur um verðtryggingu og grundvöll hennar. Það leiði af 2. gr. laganna að ákvæði VI. kafla séu ófrávíkjanleg, með þeirri undantekningu að heimilt sé að víkja frá þeim til hagsbóta fyrir skuldara.

        Gildissvið VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu sé afmarkað í 1. mgr. 13. gr. laganna, en þar segi orðrétt:

 „Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.“

        Af ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu sé ljóst að VI. kafli laganna taki til þeirra tilvika þegar lánað er í íslenskum krónum, en þau tilvik þegar lánað er í erlendri mynt falli utan gildissviðs laganna. Þar af leiði að lánsfé í íslenskum krónum verður einungis verðtryggt skv. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu.

     Í 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu sé ekki að finna heimild til að binda fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Í almennum athugasemdum við frumvarp til vaxtalaga kemur fram að ætlun löggjafans hafi m.a. verið sú að fella niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá segi orðrétt í athugasemdum við 13. og 14. gr. laganna:

„Samkvæmt 13. og 1. mgr. 14. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“

        Að þessu leyti sé ljóst að lögmætur grundvöllur verðtryggingar geti aðeins verið vísitala neysluverðs eða hlutabréfavísitala og óheimilt sé að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla en þessi skilningur hafi þegar verið staðfestur í fjölda dóma Hæstaréttar Íslands.

        Stefndi hafnar alfarið öllum staðhæfingum stefnanda þess efnis að með dómum Hæstaréttar, einkum dómi nr. 155/2011 þann 9. júní 2011, eða öðrum dómum sem stefnandi vísar til, hafi ólögmæti lánsins dags. 7. september 2007, verið staðfest eða ólögmæti sambærilegs láns. Hafa verði í huga að álitaefni um meint ólögmæti lána ráðist fyrst og fremst af skoðun á texta lánssamninga. Stefnandi hafi ekki leitt að því sönnur að um sambærileg lán hafi verið að ræða eða að atvik mála þeirra dóma sem stefnandi byggir á séu sambærileg atvikum þess máls sem hér um ræðir.

        Stefndi byggir á því, í samræmi við framangreind ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001 og dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands um sakarefnið, að telja verði að lánssamningur nr. 20890 hafi verið samningur um erlent lán og hann falli því utan gildissviðs vaxtalaga. Þá byggir hann einkum á eftirfarandi atriðum sem Hæstiréttur hafi litið til við mat á álitaefninu.

        Í fyrsta lagi er byggt á því af hálfu stefnda að yfirskrift samningsins nr. 20890 feli í sér tilvísun til erlendra gjaldmiðla. Yfirskrift samningsins er: „Lánssamningur – Um lán í erlendum gjaldmiðlum og/eða óverðtryggðum íslenskum krónum.Stefndi byggir á því að samningsform lánsins geri ráð fyrir því að lánið geti verið í erlendum gjaldmiðlum eingöngu, erlendum gjaldmiðlum og óverðtryggðum íslenskum krónum og jafnframt einungis óverðtryggðum íslenskum krónum og hafi í raun verið lán í erlendri mynt. Í öllu falli sé ekki unnt að líta á lánið sem lán í íslenskri mynt eins og þau lán sem liggja til grundvallar þeim dómum sem stefnandi byggir á.

        Í öðru lagi byggir stefndi á því að tilgreining lánsfjárhæðar lánsins feli í sér tilvísun til erlendra gjaldmiðla. Tekið sé fram í samningi aðila að hann sé til 9 mánaða að fjárhæð að jafnvirði allt að 500.000.000 ISK, með nánari skilmálum er fram koma í samningnum. Þannig segi í 1. gr. samningsins að lántaki skuli senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánið eða lánshlutann inn á. Þar skuli lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hyggst taka lánið og í hvaða hlutföllum. Þá komi fram að fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig ákvarðist þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki verði fjárhæðirnar endanlegar og muni ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kunni að breytast á lánstímanum. Svo segi að lánið verði eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins.

        Í beiðni stefnanda um útborgun lánsins í viðauka 1 við samninginn sé þess óskað að lánið verði greitt út í myntsamsetningunni 33% í evrum, 33% í japönskum jenum og 34% í svissneskum frönkum. Samkvæmt efni samningsins hafi sú myntsamsetning verið endanleg og ekki átt að breytast eftirleiðis. Því sé rétt að tala um lán í erlendri mynt en stefnandi hafi alfarið ráðið myntsamsetningu lánsins.

       Um endurgreiðslu á láninu segi jafnframt í 2. gr. að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af.

        Stefndi byggir á því, með vísan til alls þessa, að ljóst sé að lánsfjárhæðin sem greidd var út hafi ekki verið ákveðin í íslenskum krónum heldur hafi hún ráðist af gengi þeirra mynta sem stefnandi ákvað sjálfur að lánið skyldi samanstanda af.

        Í þriðja lagi byggir stefndi á því að vextir séu tilgreindir til samræmis við það að um erlent lán hafi verið að ræða. Í 3. gr. samningsins sé kveðið á um að lánshlutar í erlendum myntum öðrum en evrum skuli bera vexti sem séu LIBOR-vextir, lánshluti í evrum skuli bera EURIBOR-vexti og lánshluti í íslenskum krónum skuli bera REIBOR-vexti, allt eins og nánar sé tiltekið í samningnum. Ljóst sé því að vextir samkvæmt lánssamningnum séu til samræmis við það að um erlent lán hafi verið að ræða. Enginn hluti samningsins hafi verið í íslenskum krónum.

        Í fjórða lagi er byggt á því af hálfu stefnda að efndir á skyldum samningsaðila hafi falið í sér tilfærslu á erlendum gjaldmiðlum. Í sölunótu, dags. 7. desember 2007, sem send var Grjóthálsi frá VBS fjárfestingarbanka hf., komi fram að Grjótháls hafi selt tiltekið magn af evrum og íslenskum krónum og þar er einnig tilgreindur höfuðstóll þeirra mynta sem lánið var veitt í samkvæmt beiðni um útborgun. Í sölunótunni er einnig tekið fram að þennan sama dag hafi verið greiddar út 494.968.650 ISK vegna lánsins. Stefnandi hafi tekið við umræddri sölunótu án athugasemda.

        Þá bendir stefndi á að í gögn málsins af hálfu stefnanda kunni að vanta frekari gögn um greiðslur lánsins nr. 20890 og útreikning þeirra og einnig frekari gögn þar sem gerð er grein fyrir uppgreiðslu höfuðstóls lánsins og með hvaða hætti hún fór fram. Bent er á að í kvittun, dags. 22. desember 2008, kemur fram orðrétt: „ATH. Rétta kvittun 13.1.2009.“ Miðað við ákvæði lánssamningsins ætti uppgreiðslan að hafa átt sér stað í japönskum jenum, evrum og svissneskum frönkum til samræmis við tilgreiningu stefnanda á þeim myntum sem lánið skyldi samanstanda af og ákvæði 2. gr. samningsins um að lánið bæri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af.

        Í fimmta lagi byggir stefndi á því að vilji samningsaðila hafi staðið til þess að um erlent lán hafi verið að ræða. Þeir hafi hagað samningsgerðinni með þeim hætti að stefnandi fengi lán í erlendum gjaldmiðlum hjá VBS fjárfestingarbanka hf. Stefnandi hafi t.d. tekið við sölunótu dags. 7. desember 2007 án athugasemda. Í þessu sambandi bendir stefndi á það að stefnandi hafði tekjur í erlendri mynt af leigusamningi um fasteignina Grjótháls 5 við Össur hf., en þessar leigugreiðslur voru veðsettar VBS fjárfestingarbanka hf. frá 1. desember 2007. Lánið hafi því haft bein tengsl við tekjuöflun stefnanda í erlendri mynt.

        Með vísan til alls þessa telur stefndi ljóst að lán það sem stefnandi byggir rétt sinn á hafi ekki verið ólögmætt. Lánið hafi í eðli sínu verið lán í erlendri mynt og gögn málsins sýni fram á að aðilar hins meinta ólögmæta samnings hafi gengið út frá því að um lögmætt lán í erlendri mynt hafi verið að ræða. Þá hafi jafnframt verið gengið út frá því að greiðslur til stefnanda í erlendri mynt stæðu til tryggingar efndum á samningnum og myndu skipta um hendur við efndir aðila á samningsskyldum sínum.

        Verði fallist á að stefnandi geti byggt kröfur á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings nr. 20890, og að sá samningur hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu, byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fallin niður gagnvart stefnda vegna fyrningar og/eða tómlætis. Stefndi hafi fengið framseldar kröfur á hendur stefnanda að tiltekinni fjárhæð í óverðtryggðum íslenskum krónum. Ekki hafi verið um framsal annarra krafna að ræða og stefnandi hafi ekki hreyft andmælum við framsalinu. Þvert á móti hafi stefnandi gengist athugasemdalaust undir lánssamning við stefnda þann 26. október 2009, undirritað skilmálabreytingu við hann þann 16. mars 2011 og greitt athugasemdalaust afborganir af honum, í erlendum gjaldeyri, í samræmi við efni samningsins. Stefnandi hafi fyrst gert kröfu á hendur stefnda um leiðréttingu lánssamningsins frá 26. október 2009 með bréfi þann 27. apríl 2012. Stefndi hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti sem leiði til þess að hann geti ekki haft í frammi kröfur á hendur stefnda á grundvelli samningsins 7. desember 2007. Stefndi hafnar því að stefnandi hafi ekki haft tilefni til að hafa uppi kröfur eða fyrirvara fyrr en með uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í málinu nr. 155/2011 frá 9. júní 2011.

        Stefndi byggir á því að tómlæti stefnanda verði jafnframt alvarlegra í ljósi þess að stefnandi hafði upplýsingar um lánssamninginn frá 7. desember 2007, sem stefndi hafði ekki og því verið í lófa lagið að halda frammi þeim kröfum sem mál þetta snýst um þá þegar við gerð og framsal lánssamninga nr. 46572 og 46573.

        Stefndi vísar til þess að mál þetta sé höfðað með stefnu þann 20. október 2012 eða tæpum 5 árum eftir að hinn meinti ólögmæti lánssamningur tók gildi þann 7. desember 2007. Gjalddagi samningsins hafi samkvæmt ákvæðum hans verið 15. september 2008 en á kvittunum fyrir greiðslu lánsins komi fram að gjalddagi lánsins hafi verið 21. október 2008.    

         Stefndi mótmælir kröfum stefnanda sem vanreifuðum. Ekki sé unnt að fallast á þá útreikninga sem fram komi í stefnu. Þannig séu útreikningarnir fyrir aðalkröfu byggðir upp eins og um eitt samfellt lán hafi verið að ræða. Engin grein er gerð fyrir einstökum greiðslum af lánum nr. 20890, 46572 eða 46573 eða útreikningum þeirra og það vanti tæmandi gögn í málið þar að lútandi. Miðað sé við að höfuðstóll láns nr. 20890 sem greiða hafi átt til baka hafi verið 500.000.000 kr. en hins vegar sé ljóst af gögnum málsins að útborgun vegna þess láns var önnur eða 494.968.650 kr. Þá séu ekki lögð fram gögn um það gengi sem stefnandi byggir útreikninga sína á, hvorki er varði höfuðstól né vexti. Að öðru leyti séu tölulegar kröfur stefnanda svo vanreifaðar að ekki sé unnt að taka til fullnægjandi varna á grundvelli þeirra og sé þeim mótmælt.

        Vegna framlagðra bókana stefnanda þann 25. júní 2013 og 5. desember 2013, og nýrrar varakröfu, lagði stefndi fram bókun þann 15. janúar 2014.

         Í bókuninni kemur fram að stefndi hafi ávallt hafnað því að nýjar málsástæður stefnanda kæmust að í málinu og byggir stefndi á því að með framlögðum bókunum freisti lögmaður stefnanda þess að koma að nýjum málsástæðum. Stefndi hafnar því að umræddar málsástæður komist að eins og fram komi í endurritum í framangreindum fyrirtökum. Þá mótmælir stefnandi þeim efnislega komist þær að í málinu að mati dómara, enda hafi stefndi ekki haft tækifæri til að fjalla um þær í greinargerð málsins. Af þessum sökum sé áréttað allt það sem fram komi í greinargerð stefnda um málsástæður hans. Stefndi vísar til þess sem segir í greinargerð hans í málinu en þar segi orðrétt í mgr. nr. 6, bls. 4:

„Þá virðist sem stefnandi byggi á reglum samningaréttarins um brostnar forsendur en á engan hátt er gerð fullnægjandi grein fyrir þeim málsástæðum í stefnu eða vísað til þeirra reglna eða ákvæða samningalaga nr. 7/1936, með beinum hætti, hvorki í kafla um málsástæður eða í tilvísunum til lagaákvæða.“

       Stefndi bendir á að þrátt fyrir þetta, þ.e. að stefndi taki sérstaklega fram að hann reifi ekki málsástæður er varði ógildingu samningsins, þar sem ekki sé tilefni til þess, freisti stefnandi þess að koma að málsástæðu er varðar 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 í bókun þann 25. júní 2013, en í niðurlagi bókunar segi orðrétt: „Stefnandi byggir á því í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að það teljist bersýnilega ósanngjarnt af stefnda að bera lánasamnings frá 26. október 2009 fyrir sig að því marki sem hann er of hár vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar upphaflegs lánasamnings. Því byggi stefnandi á því að lánasamningi frá 26. október 2009 eigi að vera vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 að svo miklu leyti sem hann er of hár vegna ólögmætrar gengistryggingar lánasamnings nr. 20890.“

        Stefndi  hafi mótmælt þessu í greinargerð og við fyrirtöku þá er bókunin var lögð fram í og ítrekar mótmæli við að þessi málsástæða komist að.

       Þá hafnar stefndi því alfarið sem efnislega kemur fram í bókun stefnanda þann 25. júní 2013 og átelur hann jafnframt fyrir það að þar sé aðeins tekinn hluti úr málsatvikalýsingu dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 720/2012, en dómurinn ekki lagður fram í heild sinni. Leggi stefndi því fram umræddan dóm Hæstaréttar Íslands til að upplýsingum um málsatvik þess máls í heild sinni sé haldið til haga í máli þessu þar sem vísað hafi verið til þeirra af hálfu stefnanda. Jafnframt áréttar stefndi að stofnandi stefnda sé KPMG lausnir ehf., en félagið hafi verið stofnað þann 30. júní 2009.

       Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 720/2012, þ.e. lýsingu málsatvika í héraðsdómi sem vísað er til í dómi Hæstaréttar, segi orðrétt:

„Hinn 27. ágúst 2009 keypti sóknaraðili einkahlutafélagið AB 223 ehf. af KPMG lausnum ehf. og var hlutafé þess 500.000 krónur. Var nafni þess breytt í Vingþór ehf. 28. ágúst 2009. Þá skyldi gera sérstakan kaupsamning milli sóknaraðila og varnaraðila um hlutina í nýja einkahlutafélaginu og skyldi varnaraðili greiða kaupverð félagsins með ,,niðurfellingu útistandandi skulda VBS við GLI samtals að fjárhæð kr. 6.973.077.574“

       Því sé þannig alfarið mótmælt, eins og fram komi í greinargerð stefnda, að stofnað hafi verið til skuldar skv. lánasamningum nr. 46572 og 46573 og síðar skv. lánasamningi frá 26. október 2009 til að efna skuldbindingu samkvæmt lánasamningi nr. 20890.

        Þá mótmælir stefndi því alfarið að stefnandi geti ekki talist sérfróður um fjármálastarfsemi og peningamál eins og bókað sé hjá stefnanda þann 25. júní 2013 eða að staða hans og VBS fjárfestingarbanka hf. hafi verið ójöfn, fallist dómari málsins ekki á það að málsástæða er varðar 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 komist ekki að í málinu.

     Varðandi bókun stefnanda þann 5. desember 2013 vísar stefndi til þess að hann hafi mótmælt því að breytingar yrðu gerðar á kröfugerð málsins og sé sú afstaða ítrekuð, sem og mótmæli við bókuninni efnislega, sérstaklega að því leyti sem þar komi fram nýjar málsástæður. Stefndi áskilur sér rétt til að reifa þau sjónarmið frekar við aðalmeðferð málsins og umfjöllun um kröfugerð.  

        Varðandi lagarök vísar stefndi í stefnu til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Stefnanda beri að efna samning, dags. 26. október 2009, við stefnda, í samræmi við efni hans, óháð lögskiptum stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf.

        Þá vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

        Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 5/1988. Stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili og ber því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

Niðurstöður

       Eins og rakið hefur verið tók stefnandi lán að jafnvirði 500 milljóna íslenskra króna hjá VBS fjárfestingarbanka hf. með lánasamningi, dags. 7.12.2007, og var myntsamsetning EUR 33%, JPY 33% og CHF 34%. Númer lánasamningsins var 20890. Lánið átti að greiða með einni afborgun þann 15. september 2008. Láninu átti að ráðstafa til fjármögnunar stefnanda til að losa kauprétt Össurar hf. af fasteigninni Grjótháls 5. Hinn desember 2008 gerðu stefnandi og VBS fjárfestingarbanki hf. með sér tvo lánasamninga um lán í óverðtryggðum íslenskum krónum, annað lánið var að fjárhæð 500.000.000 kr. og hitt að fjárhæð 528.036.685 kr., bæði með gjalddaga 20. janúar 2009. Samkvæmt 1. gr. samninganna átti að ráðstafa lánunum til uppgreiðslu láns samkvæmt fyrrgreindum lánasamningi nr. 20890, sem þá hafði stökkbreyst og ríflega tvöfaldast. Þá kemur fram í skýringu á beiðni um útborgun að um endurfjármögnun á þáverandi láni hjá VBS fjárfestingarbanka hf. sé að ræða. Þann 20. júní 2009 gerðu sömu aðilar viðauka við þessa lánasamninga þar sem gjalddagar samninganna voru framlengdir til 20. júlí 2009.

        VBS fjárfestingarbanki hf. framseldi síðan bæði lánin til stefnda og tilkynnti stefnanda það 19. október 2009. Hinn 26. október 2009 voru fyrrgreind tvö lán endurfjármögnuð með lánasamningi stefnda og stefnanda að fjárhæð 6.156.672 evrur og í samningnum kom fram að hann kæmi að öllu leyti í stað hinna tveggja fyrri samninga.             

         Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hann hafi ofgreitt upphaflega lánið skv. lánasamningi 20890. Höfuðstóll lánsins hafi verið í íslenskum krónum og tekið breytingum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Slík gengistrygging lána sé ólögmæt og hafi strítt gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 og sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92/2010, 153/2010 og fleiri dóma Hæstaréttar. Stefnandi byggir á því að lánasamningur nr. 20890 hafi verið eins eða sambærilegur lánasamningi þeim sem um var deilt í málinu Landsbankinn hf. gegn Mótormax ehf., þar sem leyst var úr því álitaefni hvort lán væri gengistryggt íslenskt lán.

        Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á grundvelli aðildarskorts. Stefnandi byggi kröfu um leiðréttingu höfuðstóls lánasamnings við stefnda, dags. 26. október 2009, á lánssamningi milli stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. nr. 20890. Stefndi hafi ekki átt aðild að þeim samningi sem lauk með uppgreiðslu lánsins af hálfu stefnanda til VBS fjárfestingarbanka hf. Sá samningur sé því óviðkomandi lögskiptum stefnda við VBS fjárfestingarbanka hf. Þá byggir stefndi á því að reglur um mótbárur við aðilaskipti eigi ekki við í málinu eins og rakið hefur verið hér að framan. Stefndi byggir því á að hann geti ekki átt aðild að málinu þar sem það byggi á og varði lögskipti stefnanda við annan aðila, VBS fjárfestingarbanka hf. og stefndi og hann séu ótengdir aðilar. Stefnandi hafi fyrst beint kröfum sínum að stefnda vegna hugsanlegs ólögmætis lánasamnings nr. 20890 með bréfi, dags. 27. apríl 2012, og þá með þeim hætti að endurreikna ætti lánasamning aðila. Með vísan til þessa beri að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

        Stefnandi byggir á því að aðild stefnda að málinu sé skýr, stefndi hafi fengið lánasamningana framselda eins og lýst sé í stefnu. Stefndi hafi verið dótturfélag VBS fjárfestingarbanka hf. og í 100% eigu þess og þannig sé um tengda aðila að ræða. Í bókun sem stefnandi lagði fram þann 25. júní 2013 í tilefni af því að hann hefði uppi nýjar málsástæðum í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 3837/2012, sem féll undir rekstri málsins, vísar stefnandi til þess sem rakið er í atvikalýsingu héraðsdóms. Þar komi fram að í kjölfar falls VBS fjárfestingarsafns hf., áður VBS fjárfestingarbanki hf., hafi félagið átt í viðræðum um það hvernig VBS eignasafn hf. gæti greitt skuldir sínar og þessir aðilar hafi þann 11. ágúst 2009 gert samkomulag um uppgjör á skuldum VBS eignasafns hf. við Landsbanka Íslands hf. Þær eignir sem leggja hafi átt inn í nýtt einkahlutafélag hafi verið tveir lánasamningar við stefnanda Grjótháls ehf. metnir á 1.082.819.912 krónur. Stefnandi byggir á því að af þessu megi ráða að stefndi hafi verið stofnaður í þeim tilgangi að taka við eignum VBS fjárfestingarbanka hf., en félagið hafi síðan verið framselt Landsbanka Íslands hf. Í niðurstöðum áðurnefnds dóms hafi Hæstiréttur Íslands, með vísan til 144. gr. laga nr. 21/1991, gert Landsbanka Íslands hf. að skila VBS eignasafni hf., stefnda í máli þessu. Stefndi hafi þannig aftur orðið dótturfélag í 100% eigu VBS eignasafns hf.

        Þrátt fyrir þetta sé því haldið fram af stefnda í greinargerð að stefndi og VBS fjárfestingarbanki hf. hafi verið ótengd félög og að stefndi hafi engar upplýsingar haft um lögskipti stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. og sé grandlaus um lánasamning nr. 20890.

        Í þinghaldinu hinn 25. júní 2013, þegar stefnandi lagði fram bókun um nýjar málsástæður, óskaði lögmaður stefnda eftir fresti til að bregðast við bókun stefnanda og mótmælti jafnframt að ný málsástæða kæmist að í málinu.

        Í bókun, sem stefndi lagði síðan fram hinn 15. janúar 2014, mótmælti hann því að nýjar málsástæður stefnanda, sem fram koma í niðurlagi bókunar stefnanda frá 25. júní 2013, kæmust að í málinu og því að aðeins væri tekinn hluti úr atvikalýsingu dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 720/2012 í bókun stefnanda og lagði stefndi dóminn fram í heild sinni. Vísar stefndi til þess að í atvikalýsingu dómsins komi fram að hinn 27. ágúst 2009 hafi VBS eignasafn hf. keypt einkahlutafélagið AB 233 ehf. af KPMG lausnum ehf. og nafni þess verið breytt í Vingþór ehf. 28. ágúst 2009 og hafi það verið liður í samningum aðila.

        Eins og rakið hefur verið féll fyrrgreindur dómur í Hæstaréttarmálinu nr. 720/2012 undir rekstri málsins og þar koma fram upplýsingar um ótvíræð tengsl stefnda og VBS fjárfestingarbanka hf. sem upplýsa um atriði sem ekki lágu fyrir þegar stefna var gefin út 16. nóvember 2012. Stefnda gafst tækifæri til að hafa uppi varnir gagnvart þessum nýju málsástæðum með mótmælum og rökstuðningi í bókun sinni frá 15. janúar 2014. Þá gáfu varnir stefnda í greinargerð hans, á þá leið að stefndi og VBS fjárfestingarbanki hf. væru ótengdir aðilar, tilefni til þess að brugðist væri við af hálfu stefnanda eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar Íslands lá fyrir. Þá brást stefndi einnig við þessum nýju málsástæðum við aðalmeðferð málsins og mótmælti því að þær kæmust að. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 kemur fram að málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til, að öðrum kosti komist þær ekki til greina nema gagnaðili samþykki þær. Litið er svo á að tilefni til að hafa uppi málsástæður þær sem stefnandi hefur í frammi í bókun sinni frá 25. júní 2013 hafi fyrst orðið til eftir að fyrir lá dómur í fyrrgreindu Hæstaréttarmáli nr. 720/2012 og þykja þær því mega komast að í máli þessu.

        Af málatilbúnaði stefnanda er ljóst að með kröfum sínum í málinu fer hann fram á, með aðalkröfu sinni, að staðfest verði með dómi að eftirstöðvar lánssamningsins, dags. 26. október 2009, séu 1.134.535 evrur, miðað við 10. nóvember 2012, þegar síðast var greitt af láninu áður en mál þetta var höfðað. Í nýrri varakröfu, sem lögð var fram 5. desember 2013 er hins vegar krafist viðurkenningar á því að eftirstöðvar lánssamnings, dags. 26. október 2009, hafi numið 1.498.424 evrum hinn 10. nóvember 2012, en vikið verður frekar að varakröfu síðar.  

        Af hálfu stefnanda er gerð grein fyrir fyrri lánasamningum og tengslum við sakarefnið og hver tengsl stefnandi telur stefnda hafa við það. Þá verður að telja að nægilega sé lýst, á hverju stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda.   

        Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið er ekki fallist á að sýkna beri stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

        Kemur þá til skoðunar hvort lánssamningur nr. 20890 var lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla líkt og stefnandi byggir á. Fallist er á það með stefnanda málins að skuldbinding samkvæmt umræddu bréfi hafi verið í íslenskum krónum en bundið við gengi erlendra mynta þannig að í bága hafi farið við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Það er í samræmi við efni skuldabréfsins, enda kemur fjárhæð skuldbindingarinnar aðeins fram í íslenskum krónum. Þá var lánið greitt út í íslenskum krónum en ekki í erlendum myntum og lánasamningum nr. 46572 og 46573 frá 19. desember 2008, sem voru í íslenskum krónum, ráðstafað til greiðslu láns nr. 20890, þannig að lánið var einnig greitt upp með íslenskum krónum. Varðandi þá málsástæðu stefnda að efndir á skyldum samningsaðila hafi falið í sér tilfærslu á erlendum gjaldmiðlum þá getur það ekki hreyft framangreindri niðurstöðu um skuldbindingu samkvæmt framangreindum lánssamningi að tekjur og aðrar óskyldar skuldbindingar stefnanda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Þegar skuldabréfið var gert upp með tveimur nýjum lánum hinn 19. desember 2008 var óheimilt að miða höfuðstól lánsins við stöðu viðkomandi gjaldmiðla á þeim degi. Við uppgjör skuldabréfsins var þar af leiðandi ofgreidd fjárhæð sem svaraði til gengisfalls íslensku krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðlum sem um ræðir.

        Í ljósi þess að fyrrgreind ákvæði laga nr. 38/2001 eru ótvíræð um að lán í íslenskum krónum megi ekki verðtryggja með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla verður að líta svo á að stefnandi hafi öðlast endurkröfu vegna ofgreiðslu skuldabréfsins. Þessi endurkrafa stofnaðist við uppgjör lánsins 19. desember 2008 og beindist gegn VBS fjárfestingarbanka hf.

        Samkvæmt ákvæðum 18. gr. l. 38/2001, með síðar breytingum, ber kröfuhafa að  endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar.

         Stefnandi byggir á því að lánasamningar nr. 46572 og 46573 frá 19. desember 2008 hafi verið nýttir til að endurfjármagna fyrrgreindan samning, sbr. 5. mgr. 1. gr. beggja samninganna. Stefnandi byggir á því í aðalkröfu að fyrir liggi að eftirstöðvar lánasamnings nr. 20890, hafi stökkbreyst vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar og hafi því höfuðstóll lánasamninganna nr. 46572 og 46573 verið 494.218.078 krónum hærri en hann hefði átt að vera miðað við endurútreikning á ólögmæti gengistryggingar upphaflega samningsins. Þá byggir stefnandi á því að lánasamningar nr. 46572 og 46573 hafi verið framseldir til stefnda þann 19. október 2009 og þá hafi stefndi orðið nýr kröfuhafi. Fyrrgreindir lánasamningar teljist almennar kröfur og samkvæmt meginreglunni varðandi kröfuhafaskipti eigi skyldur skuldarans ekki að aukast við framsalið og því geti skuldarinn borið fram allar sömu mótbárur við framsalshafann sem hann gat borið fyrir sig gagnvart framseljanda. Stefnandi hefði getað krafist leiðréttingar á höfuðstól lánasamninganna nr. 46572 og 46573 frá 19. desember 2008 hjá VBS fjárfestingarbanka hf. á þeirri forsendu að höfuðstóll þeirra væri rangur vegna ólögmætrar gengistryggingar hefði ekki komið til framsals lánasamninganna og fullsannað sé að lánasamningur frá 26. október 2009 hafi verið gerður til endurfjármögnunar á áðurgreindum lánasamningum nr. 46572 og 46573. Samningurinn komi því að öllu leyti í stað lánssamninga nr. 46572 og 46573. Höfuðstóll lánasamningsins frá 26. október 2009 byggi á sömu röngu forsendunum og þeir tveir fyrri.

        Stefndi byggir á því að hugsanlegar mótbárur sem stefnandi hafði vegna lánssamnings nr. 20890 eigi ekki við um samninginn frá 26. október 2009 sem krafist er leiðréttingar á. Krafa stefnanda eigi aðeins rót í lánssamningi nr. 20890, frá 7. desember 2007, en ekki lánssamningum 46572 og 46573, dags. 19. desember 2008, sem framseldir voru stefnda. Lánssamningur, dags. 7. desember 2007, hafi ekki verið framseldur til stefnda og stefnandi geti því ekki byggt á mótbárum á grundvelli hans við gildi lánasamningsins milli aðila málsins frá 26. október 2009. Þá sé ósannað að stefndi hafi haft vitneskju um efni hans, enda sé hann ekki hluti þeirra samninga sem stefndi fékk framselda.

        Þá byggir stefndi á því að umræddur lánssamningur nr. 20890 hafi verið að fullu uppgreiddur með nýjum sjálfstæðum lánssamningum við VBS fjárfestingarbanka hf. í íslenskum krónum. Við uppgreiðslu láns nr. 20890 hafi fallið niður allar mótbárur sem stefnandi kynni að hafa átt vegna þess samnings. Þá hafi stefnandi við gerð þess samnings sem hann krefjist leiðréttingar á ekki með neinum hætti gert fyrirvara við fjárhæð höfuðstóls samningsins eða forsendur hans, hvorki við gerð hans né síðari skilmálabreytingu 16. mars 2011. Tilvist þessarar kröfu geti ekki talist sérstök mótbára gegn skuldbindingu stefnanda samkvæmt lánssamningum dags. 19. desember 2008 eða sjálfstæðri skuldbindingu stefnanda samkvæmt lánssamningi dags. 26. október 2009.

        Eins og rakið hefur verið lagði stefnandi fram bókun um nýjar málsástæður til stuðnings kröfu sinni í þinghaldi þann 25. júní 2013 og tilurð þessarar nýju kröfugerðar hafi verið dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 720/2012, VBS eignasafn hf. gegn Landsbanka Íslands, en dómur þessi taki af öll tvímæli um að stefndi og VBS fjárfestingarbanki hf. hafi verið tengdir enda stefndi í 100% eigu bankans.

        Stefndi byggir á því, verði litið svo á að stefnandi geti byggt rétt á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings nr. 20890, að stefnandi hafi fyrirgert þeim rétti með því að hafa greitt þann samning upp að fullu án fyrirvara eða áskilnaðar um leiðréttingu höfuðstóls og síðar með því að hafa ekki haft uppi athugasemdir við framsal samnings þess sem krafist sé leiðréttingar á eða síðari skilmálabreytingu hans. Með því hafi allar kröfur vegna samningsins fallið niður. Stefnandi geti því engan rétt byggt á lánssamningi nr. 20890, enda hafi hann verið grandsamur um þá forsendu lána nr. 46572 og 46573 að þau hafi verið ætluð til uppgreiðslu á láni sem hafði tvöfaldast að höfuðstól vegna gengistryggingar. Þar sem stefndi hafi ekki átt aðild að gerð þessara þriggja samninga hafi ekki mátt ætla að hann væri grandsamur um nokkra fyrirvara af hálfu stefnanda við lögmæti þeirra enda koma slíkar athugasemdir stefnanda hvergi fram í þeim gögnum sem lágu fyrir við framsal samninga nr. 46572 og 46573 til stefnda þann 19. október 2009 eða gerð þess samnings sem stefnandi krefst leiðréttingar á.

        Stefnandi mótmælir því sem stefndi byggir á, að krafa hans sé sjálfstæð krafa sem „ekki tengist lánasamningunum með neinum hætti“. Sé krafan endurgreiðslukrafa, eins og haldið var fram í bréfi stefnda, þá geti krafan ekki jafnframt verið sjálfstæð krafa eins og rakið hefur verið. Þá mótmælir stefnandi því að tómlæti sé til staðar af hans hálfu, eins og stefndi byggir á og vísar til þess að ólögmæti samninganna hafi fyrst verið staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 155/2011 sem kveðinn var upp þann 9. júní 2011. Stefnandi hafi beint kröfu á hendur stefnda með bréfi, dagsettu hinn 27. apríl 2012, sem sé innan árs frá því að ólögmæti samningsins var staðfest. Áður hafi stefnandi beint kröfu að stefnda á fundi með lögmanni stefnda og auk þess hafi allmörg símtöl átt sér stað milli lögmanna málsaðila. Þannig hafi ekki verið um neitt tómlæti að ræða af hans hálfu. 

        Stefnandi mótmælir því að hann hafi samþykkt framsal lánasamninganna og með því hafi hann fyrirgert rétti sínum til að bera mótbárur vegna hans fyrir sig. Meginreglan við kröfuhafaskipti sé sú að þau séu frjáls og geti átt sér stað án samþykkis og atbeina skuldara. Stefndi mótmælir því að í undirritun um móttöku tilkynninga um framsal frá 19. október 2009 hafi falist eitthvert samþykki fyrir framsali. Það hafi eingöngu verið staðfesting á móttöku tilkynninga stefnda sem áður segir og rakið er. Í tilkynningum stefnda felist yfirlýsing og staðfesting stefnda um að gegn því að stefnandi hefji að greiða honum í stað VBS fjárfestingarbanka hf. haldist lánasamningarnir óbreyttir og þ.m.t. allar þær mótbárur sem stefnandi hefði getað haft uppi gagnvart VBS fjárfestingarbanka hf. Þessi skilningur eigi sér stoð í lánasamningi stefnanda og stefnda frá 26. október 2009, en þar komi fram að VBS fjárfestingarbanki hf. hafi framselt til stefnda lánasamninga frá 19. desember 2008, auk allra réttinda og skyldna. Þá komi fram í lánasamningnum, dags. 19. desember 2008, að lánunum skuli ráðstafa til greiðslu láns lántakanda hjá lánveitanda nr. 20890 og í skýringum með beiðni um útborgun á lánunum komi fram að um sé að ræða endurfjármögnun á núverandi láni lántaka hjá VBS fjárfestingarbanka hf.

        Í 1. gr. lánasamnings milli stefnda og stefnanda, dags. 26. október 2009, komi fram varðandi tilgang láns og lánsfjárhæð að VBS fjárfestingarbanki hf. hafi framselt ofangreinda lánssamninga frá 19. desember 2008 til stefnda auk allra réttinda, þar með talið tryggingaréttinda og skyldna samkvæmt samningunum og aðilar hafi gert með sér nýjan lánssamning. Þá segi jafnframt í 1. gr. lánssamninganna tveggja milli VBS fjárfestingarbanka hf. og stefnanda að samningurinn komi að öllu leyti í stað samninganna, sem jafnframt munu falla úr gildi þegar samningurinn hafi öðlast gildi með undirritun aðila. Ekki verður því litið öðru vísi á en að með samningi þessum hafi samningarnir tveir frá 19. desember 2008 verið endurfjármagnaðir.

      Stefndi byggir í fyrsta lagi á því, verði litið svo á að samningurinn nr. 20890 hafi verið ólögmætur, að virða beri kröfu stefnanda sem skaðabótakröfu sem stofnast hafi við gerð samningsins þann 7. desember 2007 eða í síðasta lagi þann 21. október 2008, er samningurinn var á gjalddaga. Á grundvelli þess sé krafan fyrnd í samræmi við ákvæði fyrningarlaga nr. 14/1905 og einnig skv. 9. gr. núgildandi fyrningarlaga nr. 150/2007, er tóku gildi 1. janúar 2008.

         Í 18. gr. laga nr. 38/2001 er mælt fyrir um endurkröfurétt skuldara vegna lána sem eru gengistryggð með ólögmætum hætti. Í XIV. grein bráðabirgðaákvæðis laganna segir að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknist frá 16. júní 2010, sbr. l. nr. 151/2010, 2. gr. Fyrning endurkröfu stefnanda var því  rofin 2010 og aftur við höfðun málsins 16. nóvember 2012.

         Ekki er því fallist á það með stefnda að krafan sé fyrnd eða niður fallin vegna tómlætis stefnanda.

         Samkvæmt almennum reglum um aðilaskipti að kröfuréttindum öðlaðist stefndi ekki rýmri rétt á hendur stefnanda en framseljandi, VBS fjárfestingarbanki hf., móðurfélag stefnda, naut. Þannig hélt stefnandi öllum mótbárum gegn kröfunni þrátt fyrir framsalið. Þá er til þess að líta að ekki var um að ræða framsal milli ótengdra aðila heldur frá móðurfélagi til dótturfélags.

        Með hliðsjón af öllu því sem rakið hefur verið verður að telja ósanngjarnt af hálfu stefnda að byggja á lánssamningi stefnda og stefnanda frá 26. október 2009 að því marki sem lánið var of hátt vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar lánasamningsins frá 7. desember 2007.

        Aðalkrafa stefnanda miðast við 10. nóvember 2012, en þann dag hafi hann síðast greitt af láninu áður en mál þetta var höfðað. Höfuðstóll upphaflegs lánasamnings frá 7. desember 2007 milli stefnanda og VBS fjárfestingarbanka hf. nam 500 milljónum króna. Gjaldfallnir gengistryggðir vextir, námu hinn 19. desember 2008, 33.818.607 krónum. Gjaldfallinn höfuðstóll og gjaldfallnir gengistryggðir vextir 19. desember 2008 námu því samtals 533.818.607 krónum ef ekki er miðað við gengistryggingu, sem er 494.218.078 krónum lægri en höfuðstóll samninganna tveggja sem notaðir voru til endurfjármögnunar lánssamningsins. Fyrrgreindir vextir hafi ásamt höfuðstól verið greiddir með lánasamningunum nr. 46572 og 46573 frá 19. desember 2008. Samkvæmt útreikningum stefnanda hafi eftirstöðvar lánasamnings, dags. 26. október 2009, átt að hafa numið 1.134.535 evrum hinn 10. nóvember 2012, en uppgreiðslufjárhæð lánasamningsins hafi verið 1.028.036.685 krónur sem greidd var með fyrrgreindum lánasamningum frá 19. desember 2009. Fram kemur hjá stefnanda að hann hafi greitt 37 sinnum af lánasamningnum, samkvæmt útgefnum kvittunum, með jöfnum afborgunum hverri að fjárhæð 51.305,60 evrur og samtals 1.898.307 evrur, þannig að eftir standi af höfuðstól lánasamningsins, á útreikningsdegi hans þann 10. nóvember 2012, 1.134.535 evrur sem er sú staða lánsins sem krafist er viðurkenningar á í aðalkröfu.

         Stefndi mótmælir kröfum stefnanda sem vanreifuðum og jafnframt útreikningum aðalkröfu.

       Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, sem og í máli nr. 604/2010, var talið að umsamin vaxtakjör af gengisbundnum lánum hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þeirra sem hefði verið óheimil. Í ljósi þessara tengsla milli samningsvaxta og gengistryggingar þótti óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðis um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samninganna um hæð vaxta. Í dómnum var hins vegar talið að ákveðið hefði verið að skuldin skyldi bera vexti. Því var komist að þeirri niðurstöðu að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

         Stefnandi leggur samningsvexti til grundvallar í útreikningi á stöðu lánssamnings nr. 20890 þann 19.12.2008. Með vísan til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar Íslands verður að líta með öllu framhjá ákvæðum umrædds lánssamnings um samningsvexti þar sem þeir geta ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu lánsins. Á hinn bóginn er ljóst að skuldin átti að bera vexti og verður að miða við að um það skuli fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001.

        Af þessum sökum verður ekki fallist á aðalkröfu stefnanda.

        Lögmaður stefnanda lagði fram bókun í þinghaldi þann 5. desember 2013 og lýsti yfir breytingum á kröfugerð sinni og sett fram nýja varakröfu sem hljóðar svo: „Stefnandi krefst þess til vara að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamnings, dags. 26. október 2009, hafi numið 1.498.424 evrum hinn 10. nóvember 2012.‟

        Lögmaður stefnda mótmælti því í þessu sama þinghaldi að breytingar yrðu gerðar á kröfugerð málsins og í bókun sem hann lagði fram ítrekaði hann mótmælin við hinni nýju varakröfu stefnanda. Stefndi byggir á því að heimildum stefnanda til að breyta kröfum sínum undir rekstri máls frá því sem fram kom í stefnu séu settar skorður í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi byggir á því að litið hafi verið svo á að stefnandi geti á öllum stigum máls dregið úr kröfum sínum til ívilnunar fyrir stefnda og hafi hann þannig svigrúm til að lækka peningakröfu frá því sem fram kemur í stefnu. Þá geti stefnandi komið að nýjum varakröfum undir rekstri máls án framhaldssakar þótt þeirra hafi ekki verið getið í stefnu svo lengi sem þær rúmast innan stefnukröfu og byggist á málsástæðum og gögnum sem stefnandi hefur þegar haft uppi í máli eða getur enn borið upp.

       Stefnandi byggir varakröfu sína á sömu málsástæðum og varakröfu sína og vísar til þess að tilefni varakröfu hafi fyrst orðið til við uppkvaðningu Hæstaréttar Íslands þann 21.11.2013 í máli nr. 348/2013, en þá hafi hann hafist handa við útreikning varakröfunnar í samræmi við niðurstöðu í áðurnefndum dómi Hæstaréttar Íslands. Þar sem fyrrgreind varakrafa stefnanda rúmast innan stefnukröfu og byggist á sömu málsástæðum og gögnum og hann hefur þegar haft uppi varðandi aðalkröfu er fallist á að krafan komist að í málinu. Við aðalmeðferð kom fram hjá lögmanni stefnda að ekki væru gerðar athugasemdir við útreikning varakröfu.

          Í varakröfu er útreikningur vaxta í samræmi við 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, sbr. áðurnefndan dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 348/2012.

         Ekki hafa komið fram mótmæli við endurútreikning stefnanda samkvæmt varakröfu. Að þessu gættu og með skírskotun til þess sem að framan greinir verður fallist á varakröfu stefnanda eins og hún er sett fram.

          Miðað við þessa niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað. Með vísan til eðlis málsins og umfangs þykir hann hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

           Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Lögmenn aðila eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

            Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

            Fallist er á kröfu stefnanda, Grjótháls ehf., um að eftirstöðvar lánssamnings milli aðila, dags. 26. október 2009, hafi numið 1.498.424 evrum hinn 10.11.2012.

             Stefndi, Vingþór ehf., greiði stefnanda, Grjóthálsi ehf., 2.100.000 krónur í málskostnað.