Hæstiréttur íslands
Mál nr. 380/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Einkahlutafélag
- Forkaupsréttur
- Samaðild
- Sakarefni
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 380/2011.
|
Jentom Foundation (Klemenz Eggertsson hrl.) gegn Mark Ainscough og Lax-á ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
Kærumál. Einkahlutafélög. Forkaupsréttur. Samaðild. Sakarefni. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Enska félagið M átti hlut í L ehf. Við slit á M var ákveðið að hlutafé félagins í L ehf. félli til MA. Í samþykktum L ehf. var kveðið á um forkaupsrétt félagsins og að því frágengnu hluthafa þess við framsal hluta í því. J höfðaði mál þetta gegn MA og L ehf. annars vegar til viðurkenningar á því að J ætti forkaupsrétt að hlutafénu sem kom í hlut MA og hins vegar að MA yrði gert að selja og afsala J hlutnum gegn greiðslu söluverðsins. Um hið fyrra atriði taldi Hæstiréttur að J hefði ekki verið skylt skv. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að beina málsókn sinni að öllum hluthöfum í félaginu, þar sem forkaupsrétturinn, sem J teldi sig njóta, væri ekki sameiginlegur réttur hans með öðrum hluthöfum L ehf., heldur sjálfstæður réttur hvers hluthafa, sem eftir atvikum fengi að neyta hans einn eða ásamt öðrum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Var því lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að þessu leyti. Um hið síðara atriði taldi Hæstiréttur að réttur J til að krefja MA um afsal hlutafjárins í skjóli forkaupsréttar gæti ekki orðið til fyrr en reynt yrði hvort L ehf. eða að því frágengnu aðrir hluthafar kysu að neyta forkaupsréttar síns. Var þeirri kröfu J því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili, sem virðist bera heitið Jentom Foundation og mun hafa starfstöð í Liechtenstein, hluthafi í varnaraðilanum Lax-á ehf., þar sem hann á hlut að nafnverði 145.635 krónur eða sem svarar 12,2% hlutafjár. Meðal annarra hluthafa í varnaraðilanum var enska félagið Moss Farms Group Ltd., sem átti þar hlut að nafnverði 247.443 krónur eða 20,71% hlutafjárins. Fyrir liggur að ákveðið var 16. mars 2010 að slíta Moss Farms Group Ltd. Skiptastjóri í félaginu tilkynnti sama dag varnaraðilanum Lax-á ehf. um skipun sína til starfa, svo og að ákveðið hefði verið að við slit félagsins félli fyrrnefnt hlutafé þess til varnaraðilans Mark Ainscough. Hlutaskrá í varnaraðilanum Lax-á ehf. var breytt því til samræmis 19. mars 2010. Áður mun varnaraðilinn Mark Ainscough hafa tilkynnt öðrum hluthöfum í Lax-á ehf. um þessa fyrirhuguðu ráðstöfun 5. sama mánaðar og leitað samþykkis þeirra á henni. Því erindi svaraði sóknaraðili með fyrirspurn um hvert yrði kaupverð hlutar Moss Farms Group Ltd. og vísaði í því sambandi til 7. greinar samþykkta varnaraðilans Lax-ár ehf., þar sem mælt er fyrir um forkaupsrétt félagsins og að því frágengnu hluthafa við framsal hlutar í því af öðrum sökum en vegna arftöku við andlát hluthafa.
Að undangengnum frekari bréfaskiptum málsaðila, sem snerust einkum um hvort forkaupsréttur að hlutum í varnaraðilanum Lax-á ehf. yrði virkur við slit á félagi sem þar ætti hlut, höfðaði sóknaraðili mál þetta 16. desember 2010. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess að viðurkennt yrði að hann ætti forkaupsrétt að 20,71% hlutafjár í varnaraðilanum Lax-á ehf., sem Moss Farms Group Ltd. „seldi stefnda Mark Ainscough“ í mars 2010, og að þeim síðastnefnda yrði gert að selja og afsala til sóknaraðila þessum hlut gegn greiðslu á söluverðinu, að því tilskildu „að söluverðið sé eðlilegt og sanngjarnt að mati stefnanda.“ Þá krafðist sóknaraðili þess jafnframt að viðurkennd yrði skaðabótaskylda varnaraðilans Lax-ár ehf. gagnvart sér „vegna ofangreindrar sölu á hlutafénu.“ Varnaraðilar tóku til varna í málinu og kröfðust þess aðallega að því yrði vísað frá dómi. Við munnlegan málflutning um þá kröfu 17. maí 2011 breytti sóknaraðili dómkröfum sínum á þann veg að viðurkennt yrði að hann ætti „forkaupsrétt að 20.71% hlutafjár í Lax-á, ehf., sem Moss Farms Group Ltd., seldi stefnda Mark Ainscough, í mars 2010 og stefnda Mark Ainscough, verði gert skylt að selja og afsala stefnanda ofangreindum hlut, gegn greiðslu á söluverðinu.“ Sóknaraðili féll um leið frá öðrum dómkröfum í héraðsdómsstefnu en um málskostnað. Með hinum kærða úrskurði varð héraðsdómur við kröfu varnaraðila um frávísun málsins.
II
Framangreindar breytingar, sem sóknaraðili gerði á dómkröfum sínum í þinghaldi í héraði 17. maí 2011, rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar hans í héraðsdómsstefnu. Þessar breytingar voru sóknaraðila því heimilar, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, og skiptir þá engu að varnaraðilar hafi áður krafist þess að málinu yrði vísað frá dómi, meðal annars vegna annmarka á dómkröfum hans.
Með fyrri hluta dómkrafna sinna leitar sóknaraðili viðurkenningar á forkaupsrétti sínum að hlutum í varnaraðilanum Lax-á ehf., sem áður tilheyrðu Moss Farms Group Ltd. en munu nú hafa runnið til varnaraðilans Mark Ainscough við slit á því félagi. Forkaupsrétturinn, sem sóknaraðili telur sig njóta, er ekki sameiginlegur réttur hans með öðrum hluthöfum í varnaraðilanum Lax-á ehf., heldur sjálfstæður réttur hvers hluthafa, sem eftir atvikum fengi að neyta hans einn eða ásamt öðrum hluthöfum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Af þessum sökum var sóknaraðila ekki skylt samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 að beina málsókn sinni að öllum hluthöfum í félaginu. Dómur, sem tæki þessa kröfu sóknaraðila til greina, yrði eðli máls samkvæmt háður því skilyrði að forkaupsréttur hans kæmi því aðeins til álita að varnaraðilinn Lax-á ehf. neytti ekki forkaupsréttar eftir ákvæðum 7. greinar samþykkta sinna, svo og að sóknaraðili yrði að þeim rétti frágengnum að sæta því að deila forkaupsrétti með öðrum hluthöfum, sem hans kynnu að vilja neyta. Að þessu virtu eru ekki slíkir annmarkar á þessari kröfu sóknaraðila að efni séu til að vísa henni frá dómi og verður hinn kærði úrskurður vegna þessa felldur úr gildi að því leyti.
Síðari hluti dómkrafna sóknaraðila beinist sem fyrr segir að því að varnaraðilanum Mark Ainscough verði gert að afsala til hans 20,71% hlutafjár í varnaraðilanum Lax-á ehf. Réttur sóknaraðila til að krefja fyrrnefnda varnaraðilann um það afsal í skjóli forkaupsréttar gæti ekki orðið til fyrr en reynt yrði hvort félagið eða að því frágengnu aðrir hluthafar kysu að neyta forkaupsréttar fyrir sitt leyti. Með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar af þessum sökum staðfest að því er varðar frávísun málsins að þessu leyti.
Ákvörðun málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins verður að bíða efnisdóms, en varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, sem ákveðinn er eins og í dómsorði greinir að teknu tilliti til þess að niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins stendur að hluta óröskuð.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar frávísun kröfu sóknaraðila, Jentom Foundation, um að varnaraðila Mark Ainscough verði gert að selja og afsala til sín 20,71% hlutafjár í Lax-á ehf.
Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar, Lax-á ehf. og Mark Ainscough, greiði í sameiningu sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2011.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 17. maí sl. um frávísunarkröfu stefndu. Stefnandi er Foundation Jentom, Liectenstein, en stefndu eru Mark Ainscough, Englandi, og Lax-á ehf., Akurhvarfi 16, Kópavogi.
Upphaflegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
„Stefnandi gerir þær dómkröfur gagnvart báðum stefndu, að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 20,71% hlutafjár í Lax-á ehf., sem Moss Farms Group Ltd. seldi stefnda Mark Ainscough, í mars 2010 og stefnda Mark Ainscough verði gert skylt að selja og afsala stefnanda ofangreindum hlut gegn greiðslu á söluverðinu að því tilskyldu að söluverðið sé eðlilegt og sanngjarnt að mati stefnanda.
Jafnframt er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda Lax-ár ehf. vegna ofangreindrar sölu á hlutafénu.
Þess er krafist að stefndu verði dæmd óskipt til greiðslu málskostnaðar, að mati réttarins, auk virðisaukaskatts.“
Í þinghaldi 17. maí sl., en í því þinghaldi var málið flutt um frávísunarkröfu stefndu, lagði stefnandi fram bókun um breytta kröfugerð, svohljóðandi:
„Stefnandi gerir þær dómkröfur gagnvart báðum stefndu, að viðurkennt verði með dómi að sefnandi eigi forkaupsrétt að 20,71% hlutafjár í Lax-á ehf., sem Moss Farms Group Ltd. seldi stefnda Mark Ainscough, í mars 2010 og stefnda mark Ainscough, verði gert skylt að selja og afsala stefnanda ofangreindum hlut, gegn greiðslu á söluverðinu.
Þess er krafist að stefndu verði óskipt dæmd til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins, auk virðisaukaskatts.
Annað í dómkröfum stefnu fellur brott.“
Stefndu mótmæltu þessari framlagningu og töldu að málið ætti að vera í upprunalegum búningi þegar flutningur færi fram um frávísun. Var málið einnig flutt um þetta ágreiningsefni.
I.
Málavextir eru óumdeildir. Stefnandi er hluthafi í stefnda Lax-á ehf. Stefndi Mark átti félag, Moss Farm Group Ltd., sem var eigandi að hlutabréfum í Lax-á ehf. Mark óskaði eftir slitum á þessu félagi sínu og við þau slit eignaðist hann hin umdeildu hlutabréf. Skiptastjóri félagsins óskaði eftir því við stefnda Lax-á ehf. að hlutirnir yrðu færðir á nafn stefnda Marks í hlutaskrá Lax-á ehf. og var fallist á þá beiðni skiptastjóra með bókun í hlutaskrá félagsins. Stefnandi telur að við þessa yfirfærslu hafi forkaupsréttur samkvæmt 7. gr. samþykkta Lax-á ehf. orðið virkur og hafi því verið gengið fram hjá honum sem forkaupsréttarhafa. Stefndu telja hins vegar að forkaupsréttur hafi ekki orðið virkur við þessa aðstöðu vegna ákvæðis 1. mgr. 14. gr. laga um einkahlutafélag nr. 138/1994.
II.
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að krafa stefnanda sé vanreifuð og ódómtæk. Aðalkrafa stefnanda sé raunverulega tvíþætt og lúti að viðurkenningu á forkaupsrétti stefnanda og kröfu um skyldu stefndu til tiltekinna efnda gagnvart stefnanda. Kröfunni sé hins vegar ekki skipt upp í stefnunni með þeim hætti að önnur krafa verði dæmd óháð hinni. Hana beri því að meðhöndla í einu lagi og vísa frá dómi.
Þá beri að vísa aðalkröfunni frá dómi í fyrsta lagi vegna þess að hún sé höfð uppi á hendur hinu stefnda félagi og einum hluthafa þess en ekki öllum hluthöfum sem augljóslega hafi hagsmuni af úrlausn málsins með því að ef forkaupsréttur verði viðurkenndur stefnanda til handa þá eigi væntanlega aðrir hluthafar einnig forkaupsrétt í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína og því sé nauðsyn á aðild þeirra að málinu, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfugerðin samræmist heldur ekki meginreglu félagaréttar um jafnfræði hluthafa í hlutafélagi, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Í öðru lagi sé ljóst að kröfugerð stefnanda sé þannig úr garði gerð að ekki sé tekið tillit til betri réttar félagsins sjálfs til hinna umþrættu hluta ef forkaupsréttur verður talinn vera til staðar. Samkvæmt 7. gr. samþykkta félagsins hafi félagið sjálft fyrsta forkaupsrétt en forkaupsréttur hluthafa verði ekki virkur fyrr en fyrir liggi að félagið sjálft hafi ekki neytt forkaupsréttar síns. Stefnandi hafi ekki í málatilbúnaði sínum gert ráð fyrir þessum rétti félagsins og þannig ekki gert kröfu um viðurkenningu á réttindum sínum að geymdum rétti félagsins.
Loks sé í þriðja lagi útilokað að dómur verði lagður á upprunalega kröfu stefnanda eins og síðari hluti hennar sé fram settur. Krafan um sanngjarnt söluverð að mati stefnanda sé algerlega ódómtæk.
Þá sé krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Lax-á ehf. algerlega vanreifuð og verður auk þess ekki höfð uppi samhliða efnislegri kröfu í öðrum lið aðalkröfu.
Stefnandi mótmælir framangreindum málsástæðum stefndu, sérstaklega þar sem kröfugerð stefnanda hafi verið breytt eins og framan greinir.
III.
Talið verður að stefnanda hafi verið heimilt að breyta dómkröfum sínum svo fremur það raski ekki grundvelli málsins, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndu hafa ekki sýnt fram á að vörnum kunni að verða áfátt af þessum sökum.
Hins vegar verður fallist á með stefndu að hin breytta kröfugerð sé enn annmörkum háð að því leyti að ekki hefur verið gætt ákvæða 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um samaðild. Krafa stefnanda er á hendur félaginu og einum hluthafa þess en ekki á hendur öðrum hluthöfum sem augljóslega hafa hagsmuni að úrlausn málsins en þeir eiga forkaupsrétt í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína.
Krafa stefnanda hljóðar einnig um að stefnda Mark verði gert skylt að selja umræddan hlut gegn greiðslu á söluverðinu. Ekki er upplýst í málinu hvert söluverð var og helst að skilja að stefndi Mark hafi fengið hlutina afhenta frá skiptastjóra án greiðslu. Krafan er því ekki dómtæk að þessu leyti.
Samkvæmt framansögðu verður málinu vísað frá dómi og eftir þeirri niðurstöðu verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Foundation Jentom, greiði Mark Ainscough og Lax-á ehf., 150.000 krónur í málskostnað.