Hæstiréttur íslands

Mál nr. 214/2000


Lykilorð

  • Víxill


Þriðjudaginn 19

 

Þriðjudaginn 19. desember 2000.

Nr. 214/2000.

Olíuverzlun Íslands hf.

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

gegn

Jóni Þorgeirssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

                       

Víxilmál.

O og E ehf. gerðu með sér viðskiptasamning um rekstur þjónustustöðvar. Í samningnum var meðal annars kveðið á um að E ehf. skyldi leggja til tryggingar skuldum ódagsettan og óútfylltan sýningarvíxil útgefinn af J og skyldi O hafa fullt umboð til að dagsetja og innheimta víxilinn til greiðslu á viðskiptakröfum. Fljótlega kom til vanskila og var víxilskjalið, sem skorti útgáfudag, gjalddaga og fjárhæð, fyllt út af O og innheimt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að um eyðuvíxil hefði verið að ræða. Hefði O verið veitt umboð til útfyllingar skjalsins með afhendingu þess og gerð viðskiptasamningsins. Því var hafnað að mótbárur um efni umboðs, sem O fékk til útfyllingar samkvæmt viðskiptasamningnum og með afhendingu skjalsins væru meðal varna, sem getið er í 118. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Var því fallist á kröfu O um greiðslu víxilfjárhæðarinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 7.159.358 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi er mál þetta höfðað til heimtu skuldar samkvæmt víxli útgefnum 20. maí 1999 til greiðslu í Landsbanka Íslands í Reykjavík. Víxillinn var samþykktur af Þorgeiri H. Jónssyni fyrir hönd Esjuskálans ehf., Vallholti á Kjalarnesi, útgefinn af stefnda Jóni Þorgeirssyni og ábektur af honum, Þorgeiri H. Jónssyni og áfrýjanda. Gjalddagi víxilsins var 31. maí 1999 og fjárhæð 7.159.358 krónur. Var ritað á hann að hann væri án afsagnar.

Fyrir liggur í málinu að 20. mars 1996 var gerður svonefndur viðskiptasamningur milli áfrýjanda og Esjuskálans ehf., sem í samningnum var nefndur sölumaður, um rekstur þjónustustöðvar að Esjugrund á Kjalarnesi. Með samningnum tók sölumaður að sér rekstur þjónustustöðvar með aðstöðu í eigu áfrýjanda og skyldi meðal annars selja fyrir eigin reikning bensín og olíuvörur frá honum. Samkvæmt 13. gr. samningsins skyldi sölumaður gefa út tryggingarbréf með fasteignaveði eða tryggt með öðrum hætti, sem áfrýjandi mæti fullnægjandi, fyrir skuldum sölumanns á hverjum tíma. Þá sagði þar að nánari ákvæði um tryggingar skyldu sett í viðauka 1.8. með samningnum. Sá töluliður viðaukans var svohljóðandi: „Tryggingar sölumanns gagnvart OLÍS eru: Ódagsettur og óútfylltur sýningarvíxill, samþykktur af Esjuskálanum ..., útgefinn af Jóni Þorgeirssyni ... og ábektur af Þorgeiri Jónssyni ... Komi til vanskila af hálfu sölumanns er OLÍS jafnframt veitt fullt og óskorað umboð til þess að dagsetja og innheimta nefndan víxil til greiðslu á viðskiptakröfum með áföllnum kostnaði. Síðar verður útbúið tryggingabréf með veði í fasteign og tryggingarvíxli skilað til sölumanns.“ Samningurinn og viðaukinn við hann voru undirritaðir af hálfu áfrýjanda og af Þorgeiri H. Jónssyni sem sölumanni. Er óumdeilt að víxilskjalið hafi verið afhent áfrýjanda á svipuðum tíma og samningurinn var undirritaður. Af gögnum málsins er ljóst að við afhendingu var skjalið útfyllt að öðru leyti en því að ekki var tiltekinn útgáfudagur, gjalddagi og fjárhæð.

Fljótlega kom til vanskila gagnvart áfrýjanda vegna rekstrar þjónustustöðvarinnar. Verður ráðið af gögnum málsins að 30. apríl 1999 hafi verið gefið út skuldabréf vegna Nýja Eskjuskálans að fjárhæð 3.000.000 krónur, er fært var sem innborgun á viðskiptareikning sölumanns hjá áfrýjanda samkvæmt samningnum, en ekki eru í málinu frekari gögn varðandi skuldabréf þetta. Vegna vanskila sölumanns samkvæmt viðskiptasamningnum var framangreint víxilskjal fyllt út með útgáfudegi 20. maí 1999, gjalddaga 31. maí 1999 og fjárhæðinni 7.159.358 krónur, en sú var fjárhæð skuldar á viðskiptareikningi sölumanns hjá áfrýjanda 20. maí 1999.

II.

Svo sem að framan er rakið var skjal það, sem um er deilt í málinu, ekki útfyllt hvað varðaði útgáfudag, gjalddaga eða fjárhæð þegar það var afhent til tryggingar viðskiptaskuld samkvæmt áðurgreindum samningi. Því var um að að ræða eyðuvíxil, sbr. 10. gr. víxillaga nr. 93/1933. Með gerð viðskiptasamningsins og afhendingu skjalsins var áfrýjanda veitt umboð til að fylla það út. Í máli þessu er deilt um hversu víðtækt það umboð var. Heldur stefndi því meðal annars fram að umboðið beri að skýra svo að áfrýjandi hafi einungis haft heimild gagnvart stefnda til að gera skjalið að sýningarvíxli og hafi hann því ekki mátt setja ákveðinn gjalddaga á víxilinn. Mótbárur um efni umboðs þess, sem áfrýjandi fékk með viðskiptasamningnum og afhendingu víxilskjalsins, eru ekki meðal þeirra varna, sem getið er í 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkmála. Komast mótbárurnar því ekki að í máli þessu, sem rekið er samkvæmt XVII. kafla þeirra laga.

Stefndi hefur ekki fært fram aðrar haldbærar varnir gegn kröfu áfrýjanda, sem verður því tekin til greina. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Jón Þorgeirsson, greiði áfrýjanda, Olíuverzlun Íslands hf., 7.159.358 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. maí 1999 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. febrúar s.l., er höfðað með stefnu birtri 31. ágúst s.l.

Stefnandi er Olíuverslun Íslands hf., kt. 500269-3249, Héðinsgötu 10, Reykjavík.

Stefndu eru Kléberg ehf., kt. 420196-2459, Esjugrund 52, Reykjavík, Þorgeir H. Jóns­son, kt. 130160-7519, sama stað og Jón Þorgeirsson, kt. 140823-2879, sama stað.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefn­anda kr. 7.159.358 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 31. maí 1999 til greiðsludags.  Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 31. maí 2000, en síðan árlega þann dag.  Þá er krafist málskostnaðar sam­kvæmt reikningi.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur verði verulega lækkaðar.  Í báðum tilvikum er krafist máls­kostn­aðar að skaðlausu.  Í greinargerð var krafist frávísunar málsins, en fallið var frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.

Málavextir.

Stefnandi segir skuldina vera samkvæmt víxli útgefnum 20. maí 1999 til greiðslu í Landsbanka Íslands, Reykjavík.  Víxillinn sé samþykktur af stefnda Þorgeiri fyrir hönd stefnda Klébergs ehf. (áður Esjuskálinn ehf.), útgefinn og framseldur af stefnda Jóni og ábektur af stefnda Þorgeiri auk stefnanda.  Víxillinn, sem sé án afsagnar, sé til greiðslu 31. maí 1999 og sé að fjárhæð kr. 7.159.358.  Innheimtuaðgerðum hafi ekki verið sinnt og sé stefnanda því nauðsyn að fá dóm um kröfu sína.

Stefndu lýsa atvikum svo að 20. mars 1996 hafi stefndi Þorgeir fyrir hönd Esju­skál­ans ehf. gert samning við stefnanda um rekstur þjónustustöðvar að Esjugrund, Kjal­arnesi.  Stefndi Þorgeir sé í samningnum nefndur sölumaður og greinilegt sé að svo­kallaður sölumaður sé mótaðili og samningsaðili við stefnanda.  Um sé að ræða veru­lega margbrotinn og flókinn þjónustusamning með þremur viðaukum.  Í viðauka I, 8. gr. komi fram, að trygging sölumannsins gagnvart stefnanda sé ódagsettur og óút­fylltur sýningarvíxill, samþykktur af Esjuskálanum, útgefinn af stefnda Jóni og ábektur af stefnda Þorgeiri.  Þá segir í samningnum að komi til vanskila af hálfu sölumanns sé stefnanda jafnframt veitt fullt og óskorað umboð til þess að dagsetja og innheimta nefndan víxil til greiðslu á viðskiptakröfum með áföllnum kostnaði.  Stefndu segja fram­kvæmd samningsins hafa orðið með þeim hætti að fljótlega eftir að reksturinn hófst í mars 1996 hafi komið til vanskila af hálfu sölumannsins, stefnda Þorgeirs.  Þrátt fyrir það hafi ekki verið gengið að víxlinum, heldur vanskilin látin hrannast upp.  Hafi svo verið komið löngu fyrir árið 1999 að vanskilin voru stöðugt í u.þ.b. 5.000.000 króna.  Stefndu segja tryggingarvíxilinn hafa átt að vera til bráðabirgða og hafi verið gefið út skuldabréf að fjárhæð kr. 3.000.000 til tryggingar vanskilum.  Þegar í ljós hafi komið að það dugði ekki til hafi stefnandi gefið víxilinn út og sett hann í innheimtu og þannig ekki haldið það samningsloforð sem gefið hafði verið.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir kröfu sína á reglum víxillaga nr. 93/1933 og reglum kröfuréttar um efndir loforða og samninga.  Stefnandi rekur málið á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991.  Stefnandi styður vaxtakröfur við reglur III. kafla vaxtalaga og máls­kostn­að­arkrafa er reist á 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu byggja á því að um sé að ræða sýningarvíxil eins og skýrt komi fram í áður­greindum viðskiptasamningi. Af því leiði að einungis hafi verið heimilt að setja á hann útgáfudag og ákveðna fjárhæð.  Þegar eyðuvíxill sé framseldur til tryggingar sé í raun um að ræða tvo samninga.  Annars vegar tryggingarsamning, þar sem svo sé um samið að eyðuvíxillinn sé trygging fyrir skilvísum greiðslum eða efndum á öðrum samn­ingi.  Hins vegar sé um að ræða útfyllingarumboð, en það sé háð efni trygg­ing­ar­samn­ingsins.  Aðeins sé heimilt að fylla út eyðuvíxilinn þegar þau skilyrði eru uppfyllt sem um getur í tryggingarsamningi og með þeim hætti er þar greinir.  Segi í trygg­ing­ar­samningi að víxill sé sýningarvíxill, þá sé hann það og segi til viðbótar að heimilt sé að setja dagsetningu á víxilinn þá sé átt við útgáfudag.  Stefndu byggja einnig á því að greini­lega sé um að ræða sýningarvíxil, sbr. 2. mgr. 2. gr. víxillaga og hafi víxillinn verið afhentur sem slíkur.  Stefnandi hafi brotið gegn 69. gr. víxillaga með því að setja á hann gjalddagann 31. maí 1999.  Samkvæmt meginreglum víxilréttar sé einungis heimilt að fylla út í þær eyður eyðuvíxils sem nauðsynlegt sé til að stofna fullgildan víxil.  Stefndu halda því fram að með því að skrá gjalddaga á sýningarvíxilinn hafi verið gerð efnisbreyting á honum sem stefndu séu ekki skuldbundnir til að hlíta.

Stefndu byggja einnig á því að stefnanda hafi á sínum tíma verið afhent skulda­bréf, sem stefndi Þorgeir taldi vera greiðslu á víxlinum.

Þá byggja stefndu einnig á því að stefnandi hafi farið út fyrir umboð sitt og sé því um að ræða fölsun á víxlinum.

Stefndi Jón byggir einnig á því að í raun hafi hann gefið víxilinn út í mars 1996.  Hann hafi ekki verið í nokkru samningssambandi við stefnanda og hafi hann búist við því að ef á víxilinn reyndi, þá yrði það innan árs frá undirskrift hans.  Ekki verði séð að hann hafi gefið stefnanda umboð til útfyllingar á víxlinum.  Þá byggir stefndi Jón á því að af ofangreindum ástæðum geti hann aldrei verið ábyrgur fyrir hærri fjárhæð en sem nemur árs veltu.  Hafi hann verið upplýstur um það og honum sagt að ábyrgð hans færi aldrei yfir kr. 2.000.000.

Stefndu vísa aðallega til 10. gr. víxillaga og meginreglna víxilréttar um útfyllingu eyðu­víxla.  Þá sé sérstaklega vísað til 2. mgr. 2. gr. víxillaga.

Forsendur og niðurstaða.

Óumdeilt er að umræddur víxill var afhentur stefnanda til tryggingar greiðslu á við­skiptakröfum með áföllnum kostnaði samkvæmt samningi stefnanda og stefndu Klé­bergs ehf. (áður Esjuskálinn ehf.) og Þorgeirs.  Óumdeilt er einnig að víxillinn var út­fylltur að öðru leyti en því að á hann vantaði víxilfjárhæð, útgáfudag og gjalddaga.  Samkvæmt samningnum hafði stefnandi fullt og óskorað umboð til þess að fylla víxilinn út að þessu leyti og innheimta hann.  Var því um eyðuvíxil að ræða, sbr. 10. gr. víxillaga.  Sú málsástæða stefndu að stefnandi hafi farið út fyrir umboð sitt við út­fyll­ingu víxilsins er ekki meðal þeirra varna sem gegn andmælum stefnanda komast að í víxilmálum, sem rekin eru samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 118. gr. lag­anna.  Hinu sama gegnir um þá málsástæðu að stefndi Þorgeir hafi afhent stefnanda skulda­bréf sem hann taldi vera greiðslu á víxlinum.

Hins vegar er ljóst að stefndi Jón var ekki aðili að ofangreindum við­skipta­samn­ingi.  Upplýst er að samningurinn var undirritaður 20. mars 1996 og verður við það að miða að stefndi Jón hafi á þeim tíma ritað nafn sitt á víxilinn sem útgefandi, en þá hafði gjalddagi ekki verið færður á víxilinn.  Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi Jón hafi veitt stefnanda umboð til útfyllingar víxilsins verður að telja að víx­ill­inn hafi verið sýningarvíxill gagnvart stefnda Jóni, sbr. 2. mgr. 2. gr. víxillaga.  Sam­kvæmt 34. gr. víxillaga skal sýna sýningarvíxil til greiðslu áður en eitt ár er liðið frá út­gáfu hans.  Þegar mál þetta var höfðað var sýningarfrestur löngu liðinn og víxilkrafa á hendur stefnda Jóni fallin niður, sbr. 1. mgr. 53. gr. víxillaga.  Verður stefndi Jón því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og verður stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn kr. 250.000.

Kröfur stefnanda á hendur stefndu Klébergi ehf. og Þorgeiri verða hins vegar teknar til greina og verða þeir dæmdir til að greiða stefnanda óskipt kr. 250.000 í máls­kostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Jón Þorgeirsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Olíuverslunar Íslands hf. í máli þessu.  Stefnandi greiði stefnda kr. 250.000 í málskostnað.

Stefndu Kléberg ehf. og Þorgeir H. Jónsson, greiði stefnanda, Olíuverslun Íslands hf., in solidum kr. 7.159.358 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 31. maí 1999 til greiðsludags og kr. 250.000 í málskostnað.