Hæstiréttur íslands
Mál nr. 660/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Miðvikudaginn 21. apríl 2010. |
|
Nr. 660/2009. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Ragnari Ágústi Rúnarssyni(Guðmundur Ágústsson hrl. Grímur Sigurðarson hdl.) (Hjördís E. Harðardóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur. Sératkvæði.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við A gegn vilja hennar, en X notfærði sér það að A gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga. Var brot hans talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við úrlausn málsins var lögð til grundvallar trúverðug og staðföst skýrsla A, sem studd var framburði vitna og öðrum gögnum, um að hún hefði sofnað ölvunarsvefni í rúmi X og vaknað við það að X var að hafa við hana samfarir. Þá þótti það ekki draga úr trúverðugleika A að hún kallaði ekki á hjálp eins og ástatt var fyrir henni. Framburður X var á hinn bóginn talinn hafa breyst og var það mat dómsins að X hefði hlotið að vera ljóst að A var sofandi þegar hann hóf samfarirnar. X hafði ekki áður sætt refsingum og var refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Þá var honum gert að greiða A 600.000 krónur í bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann verði sýknaður af henni.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 477.521 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Sératkvæði
Gunnlaugs Claessen
Ákærða er í málinu gefin að sök nauðgun, en hann hafi snemma morguns 20. júlí 2008 haft samræði við A „gegn vilja hennar, en ákærði notfærði sér það að A gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga.“ Þessi háttsemi er í ákæru talin varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fram er komið að þau höfðu samfarir umræddan morgun á heimili ákærða og að bæði voru undir áhrifum áfengis. Kemur þá til úrlausnar hvort ástand hennar hafi verið með þeim hætti að sannað sé að hún hafi ekki getað spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga.
A bar fyrir dómi að hún hafi kvöldið áður verið í afmælisveislu og þar hafið áfengisdrykkju. Um nóttina hafi hún farið með vinkonum sínum í miðborg Reykjavíkur og haldið áfram drykkju á skemmtistöðum. Síðan hafi þær hitt ákærða á Laugavegi. Það hafa vinkonur hennar staðfest og taldi ein þeirra að þá hafi klukkan verið um 5 að morgni. Þar slóst A í för með ákærða og yfirgaf vinkonur sínar, en ekkert liggur fyrir um ölvunarstig hennar þá. Þau reyndu án árangurs að komast inn á skemmtistað, en héldu því næst að heimili vinar ákærða í [...]stræti og dvöldu þar um stund. Eftir það fóru þau í leigubíl heim til ákærða. Bæði bera að þar hafi þau sest í sófa í stofu, rætt saman og skoðað myndir af barni ákærða. A bar að síðan hafi hún að beiðni ákærða hjálpað honum við að setja teppi fyrir glugga í svefnherbergi hans, en til þess hafi hún þurft að standa uppi á dýnu í rúmi hans og líma teppið fast með límbandi. Áður hafi hún farið úr jakka, tekið af sér hálsfesti og lagt frá sér. Síðan hafi hún lagst í rúm ákærða og sofnað strax. Ákærði bar hins vegar að hún hafi eftir þetta lagst til svefns í sófa í stofu og hann í sitt rúm, en hún síðan komið og lagst hjá honum og átt frumkvæði að samförum þeirra. Vinkona A kvað hana hafa hringt í sig frá heimili ákærða á milli klukkan 9 og 9:30 um morguninn og önnur vinkona sótt hana og komið með hana til sín um klukkan 10.
Þær vísbendingar um ölvunarstig A um morguninn, sem þessi atvik veita, renna ekki stoðum undir að hún hafi verið ósjálfbjarga vegna ölvunar eða svefndrunga. Hún bar sjálf að hún hafi ekki drukkið áfengi eftir að fundi hennar og ákærða bar saman á Laugavegi og aðspurð kvaðst hún ekki hafa verið þreytt þegar þau voru í [...]stræti skömmu fyrir ætlað brot ákærða og minntist þess ekki að hafa sofnað í sófa þar, andstætt því sem hún bar í skýrslu hjá lögreglu. Spurningu um áfengisdrykkju svaraði hún þannig að „við vorum búin að vera að drekka ansi mikið og ég var orðin frekar drukkin.“ Mæling var ekki gerð á alkóhólmagni í blóði eða þvagi hennar við komu á neyðarmóttöku klukkan 21.10 að kvöldi sama dags, sem gæti hafa varpað ljósi á ölvun hennar um morguninn. Læknir þar kvað hana ekki hafa borið merki um áfengisneyslu. Að öllu virtu tel ég ekki sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ástand hennar hafi verið slíkt að hún hafi ekki getað spornað við athöfnum ákærða eða að saknæmisskilyrði séu að öðru leyti uppfyllt, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. nóvember 2008 í máli nr. 265/2008. Ég tel að sök ákærða sé ósönnuð og samkvæmt því beri að sýkna hann og fella allan sakarkostnað á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2009.
I
Málið, sem dómtekið var 16. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 18. maí 2009 á hendur „Ragnar Ágúst Rúnarsson, kennitala [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot með því að hafa snemma morguns sunnudaginn 20. júlí 2008 á heimili ákærða að [...], [...], [...], haft samræði við A gegn vilja hennar, en ákærði notfærði sér það að A gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga.
Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
A, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 800.000 auka vaxta samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. júlí 2008 til 3. janúar 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu kostnaðar vegna þóknunar við réttargæslu“.
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.
II
Framangreindur brotaþoli kærði ákærða til lögreglunnar 14. ágúst 2008 fyrir kynferðisbrot. Við yfirheyrslu skýrði hún frá því að hún hefði farið í afmælisveislu að kvöldi 19. júlí og um nóttina hefði hún farið á skemmtistaði með vinkonum sínum. Á [...] hefðu þær svo hitt ákærða sem þá hafði orðið viðskila við félaga sína og verið feginn að sjá brotaþola, enda vinur kærasta hennar. Það varð úr að brotaþoli fór með ákærða að leita félaganna, en er þeir fundust ekki var farið heim til vinar ákærða og var ætlunin að gista þar. Það gekk þó ekki eftir og varð úr að ákærði bauð brotaþola með sér heim. Þegar þangað kom kvaðst brotaþoli hafa farið að hjálpa ákærða að setja upp gluggatjöld og staðið við það í rúmi hans. Að því búnu kvaðst hún hafa lagst í rúmið og sofnað í öllum fötum nema hvað hún hafði farið úr jakka og tekið af sér hálsmen. Það næsta sem brotaþoli kvaðst muna var að hún vaknaði við að ákærði var búinn að færa hana úr fötunum og lá ofan á henni og var að hafa við hana samfarir. Brotaþoli kvaðst hafa sofnað aftur en þegar hún vaknaði um morguninn kvaðst hún hafa áttað sig á því hvað hafði gerst og flýtt sér í burtu. Hún kvaðst hafa verið frekar mikið drukkin en þó muna allt. Heima hjá ákærða hefði hún þó algjörlega dottið út.
Ákærði var fyrst yfirheyrður af lögreglu 22. október og neitaði í fyrstu alfarið að hafa haft samfarir við brotaþola. Síðar breytti hann framburði sínum og kvaðst hafa haft samfarir við hana. Hann kvaðst hafa hitt hana dauðadrukkna niður í bæ þessa nótt og hefði hún spurt hvort hún mætti gista hjá honum því hún væri ekki með lykla að heimili sínu. Þau hefðu síðan farið heim til ákærða og þar haft samfarir með fullri þátttöku og samþykki beggja. Undir ákærða var borin frásögn brotaþola um gluggatjöldin og kannaðist hann ekki við hana. Hann kvaðst í fyrstu hafa neitað að hafa haft samfarir við brotaþola vegna hræðslu við kæru. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis en alveg vitað hvað hann var að gera.
Brotaþoli fór á Neyðarmóttökuna að kvöldi 20. júlí með móður sinni og kærasta. Þar skýrði hún frá á sama hátt um það hvar og hvenær hún hitti ákærða og fór með honum heim. Síðan segir í vottorði læknis: „Sofnaði fljótt, en vaknaði einhverju seinna að hann var búinn að taka hana úr fötunum og viðkomandi ofan á henni. Segist frosið og ekki getað ýtt honum ofan af sér. Sofnaði aftur og vaknaði um kl. 12 á hádegi. Hann var þá sofandi við hlið hennar í rúminu. Flýtti sér í fötin og vinkona hennar kom og sótti hana. Fór heim með vinkonunni og kom heim til sín um kl. 18. Móðirin sá strax að eitthvað hafði gerst.“ Brotaþoli hafi farið beint inn í herbergið sitt, en komið síðan fram eftir að hafa talað við kærasta sinn, sem vildi slíta sambandinu, eða eitthvað í þá veru, segir í vottorðinu. Í vottorðinu eru reitir sem bera yfirskriftina: Tilfinningalegt ástand og er þar merkt við óraunveruleikakennd, skýra frásögn grátköst og í hnipri. Í reiti undir yfirskriftinni: Kreppuviðbrögð er merkt við skjálfta, hroll, ógleði/uppköst og magaverki.
Neyðarmóttakan vísaði brotaþola til sálfræðings sem hitti hana fyrst 5. ágúst og fimm sinnum eftir það. Í samantekt sálfræðingsins segir að allt viðmót brotaþola bendi til þess að hún hafi upplifað ofsaótta, bjargarleysi og niðurlægingu í kjölfar meintrar nauðgunar. Niðurstöður greiningarmats sýni að hún „þjáist af áfallastreituröskun (Posttraumatic Stress Disorder) í kjölfar meintrar nauðgunar. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum konunnar í viðtölum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.“
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði hitt brotaþola á [...] umrædda nótt, en þau þekktust lítillega áður í gegnum kærasta brotaþola sem var kunningi ákærða. Hann hefði verið búinn að tapa af félögum sínum og hefði hún spurt sig hvert hann væri að fara og kvaðst hann hafa sagt henni að hann væri á leið á [...]. Hún vildi koma með honum, en búið var að loka þegar þau komu þangað. Ákærði kvaðst þá hafa ákveðið að fara heim til vinar síns er býr niðri í bæ og hafi brotaþoli spurt hvort hún mætti koma með og hafi hann samþykkt það. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að brotaþoli hafi sagst vera lyklalaus eða í öðrum vandræðum, en rengdi ekki að hafa borið á annan veg hjá lögreglu. Hann kvað brotaþola hafa verið ölvaða, en ekki gat hann skilgreint það nánar. Sjálfur hafi hann verið mikið ölvaður. Þau fóru síðan heim til vinarins. Á leiðinni hafi hún verið að spyrja hann um fyrrverandi kærasta sinn, en ákærða hafði verið sagt að þau hefðu slitið sambandi sínu. Hann kvaðst litlu hafa svarað henni. Þau komu nú heim til vinarins, en ekki mundi ákærði að greina frá hvað þar gerðist nema hvað brotaþoli sofnaði í sófa í stofunni. Minnti ákærða að þá hefði klukkan verið á milli þrjú og fjögur. Hann kvaðst svo hafa pantað sér leigubíl til að fara heim og þegar hann var á leið inn í hann hafi brotaþoli komið inn í bílinn með honum. Þau óku síðan heim til ákærða og kvað hann brotaþola hafa nú litið miklu frískari út heldur en þegar hún sofnaði. Hann kvað hana hafa beðið sig um að leyfa sér að koma með honum heim og varð það úr. Þegar þangað var komið fóru þau inn í stofu og kvaðst ákærði hafa sýnt henni myndir af syni sínum og eins hafi þau horft á sjónvarp. Áður kvaðst hann hafa farið inn í herbergi sambýlings síns er þar var með stúlku. Ákærði kvað brotaþola hafa sofnað í sófa í stofunni en hann farið inn í svefnherbergi. Næst kvaðst hann muna til þess að hann er lagstur upp í rúm og við það að festa svefn þegar brotaþoli kemur inn í svefnherbergið og leggst við hliðina á honum að eigin hvötum, enda hafi hann ekki beðið hana um það. Hann kvað brotaþola hafa byrjað að láta vel að honum og kyssa hann og í framhaldinu hafi þau haft samfarir. Ekki kvaðst hann muna til þess að lýsa þeim nánar, nema hvað hann hefði legið ofan á brotaþola og sér hefði orðið sáðlát. Nánar spurður kvað ákærði brotaþola hafa verið klædda þegar hún kom upp í til hans, en hafa afklætt sig sjálf nema hvað hann hefði hjálpað henni úr sokkabuxunum. Hann kvaðst sjálfur hafa afkætt sig. Borið var undir ákærða það sem brotaþoli bar hjá lögreglu og kvað hann hana ekki skýra rétt frá. Ákærði kvaðst hafa hringt í brotaþola þegar hann frétti af því að hún ætlaði að kæra hann og spurt hana hvort hún ætlaði virkilega að gera það og hafi hún jánkað því. Þá hafi stjúpi kærasta hennar hringt í sig og hótað sér lífláti ef hann hefði oftar samband við hana. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að hafa sent brotaþola skilaboð í gegnum Myspace síðu hennar, en þeirra verður nánar getið í IV. kafla.
Brotaþoli bar að hafa verið í afmælisveislu vinkonu sinnar að kvöldi 19. júlí og aðfaranótt þess 20. Um nóttina var hún og félagar hennar að ganga niður [...] þegar þau mættu ákærða sem kvaðst vera feginn að sjá hana, enda búinn að tapa félögum sínum. Brotaþoli kvaðst hafa boðist til að fara með honum að finna vini hans og fóru þau á [...] en þar var þá búið að loka. Kvaðst ákærði þá ætla til vinar síns og kvaðst brotaþoli ætla að fara með honum. Þegar þangað var komið settust þau inn í stofu og kvaðst brotaþoli hafa haldið að hún myndi gista þar, en það gekk ekki þegar gest bar að garði. Hún kvað þá ákærða hafa hringt á leigubíl og hafi þau ekið heim til hans. Þegar þangað kom fór ákærði inn í herbergi sambýlings. Síðan hafi hann farið að sýna henni myndir af syni sínum og eitthvað í tölvunni en svo hafi ákærði beðið hana um að hjálpa sér við að hengja upp gluggatjöld í herbergi hans. Hún kvaðst hafa gert það, en um hafi verið að ræða teppi sem fest var fyrir gluggann með límbandi. Brotaþoli kvaðst hafa staðið í rúminu til að ná upp og eftir að þau höfðu lokið við að festa teppið kvaðst hún hafa lagst niður og sofnað. Það næsta sem hún vissi af sér var að hún kvaðst hafa vaknað við það að hún fann að ákærði var ofan á sér og að hafa samfarir við sig. Hún kvaðst ekki hafa vaknað alveg en þó orðið alveg stjörf, eða frosið. Hún kvaðst hafa sofnað aftur en svo vaknað um morguninn í rúminu við hliðina á ákærða sem var sofandi og var hún þá klædd í kjól en með nærbuxur og sokkabuxur utan um ökkla á öðrum fætinum. Brotaþoli kvaðst þá hafa farið fram á salerni og hringt í vinkonu sína sem hafi hringt í aðra vinkonu sem hafi komið og sótt sig. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvar hún væri og hafa þurft að lýsa umhverfinu fyrir henni til að hún gæti áttað sig á hvar brotaþoli væri. Saman fóru þær svo til fyrri vinkonunnar og þar kvaðst brotaþoli hafa sofnað og sofið fram eftir degi. Þegar hún vaknaði kvaðst hún hafa farið í sturtu og síðan verið ekið heim. Hún kvaðst ekki hafa sagt þessum vinkonum sínum beint hvað hefði gerst en þær hafi skynjað að eitthvað hefði gerst. Hún kvaðst seinna þennan dag hafa sagt fyrri vinkonunni hvað hefði gerst og síðan hringt í kærasta sinn til að segja honum hvað hefði gerst og hefði hann ekki viljað trúa henni og skellt á hana. Þegar heim var komið kvað brotaþoli móður sína strax hafa skynjað að eitthvað hefði gerst. Hefði hún sagt henni frá þessu hágrátandi og þá pantaði móðirin tíma á Neyðarmóttökunni. Þá var aftur hringt í kærastann sem nú vildi trúa því hvað gerst hafði og kom á Neyðarmóttökuna.
Brotaþoli kvaðst hafa verið við drykkju frá klukkan um átta að kvöldi þess 19. og haldið því áfram fram undir morgun og því verið alldrukkin. Hún kvað vinkonu sína hafa verið með veski sitt og þar með hafði hún ekki lykla að heimili sínu og þess vegna hafi hún ætlað að fá að gista einhvers staðar, en hún hafi verið með farsíma sinn. Hún kvaðst hins vegar ekki hafa viljað hringja heim til sín og vekja þar upp og ekki haft peninga fyrir leigubíl. Þá hefði hún talið sér óhætt hjá vini sínum. Brotaþoli kvað ákærða einnig hafa verið alldrukkinn.
Brotaþoli kvað sér hafa liðið mjög illa eftir þennan atburð og hafi hann orðið til þess að það slitnaði upp úr sambandi hennar við kærastann 6 vikum eftir þetta. Hún hafi gengið til sálfræðings og hafi það líka verið sér erfitt að rifja atburðinn upp aftur og aftur. Hún kvaðst hafa hætt að hafa samband við vinkonur sínar og setið heima og grátið. Þá hafi hún átt í verulegum vandræðum í vinnunni. Hún kvaðst hafa fengið magabólgur af álaginu og á endanum hafi hún farið til útlanda og verið þar í 8 mánuði og haft gott af því, en einnig fundist gott að koma heim aftur.
Móðir brotaþola bar að hún hefði komið heim um kvöldmatarleytið og kvaðst móðirin strax hafa séð að eitthvað var að. Brotaþoli hefði farið beint inn í herbergi sitt eftir að hafa rétt kastað kveðju á heimilisfólk. Móðirin kvaðst hafa farið inn í herbergið. Þá hafi brotaþoli verið þar alveg niðurbrotin og sagt sér að hún hefði farið heim með vini kærasta síns, ákærða, og gefið þá skýringu að hún hefði verið lykla- og peningalaus, en hitt hann og hefði hann boðið henni með sér heim til að gista. Brotaþoli sagði móður sinni að hún hefði hjálpað ákærða við að hengja upp gluggatjöld en síðan hefði hún sofnað en vaknað við að ákærði var að hafa við hana samfarir. Brotaþoli kvaðst enga björg hafa sér getað veitt og ekki hafa þorað að opna augun heldur sofnað aftur. Þegar hún síðan vaknaði um morguninn var hún með buxurnar á hælunum. Brotaþoli hefði síðan hringt í vinkonur sínar.
Móðirin kvað brotaþola hafa liðið mjög illa og grátið mikið þennan dag og næstu daga. Þá hafi þetta komið niður á vinnu brotaþola, en þær mæðgur unnu á sama stað.
Vinkona brotaþola kvað þær hafa verið að skemmta sér saman en leiðir hafi skilið á [...] þegar brotaþoli fór eitthvað frá félögum sínum. Vinkonan kvaðst svo hafa heyrt frá brotaþola snemma næsta morgun þegar hún hringdi og bað hana um að sækja sig. Ekki vissi brotaþoli þó hvar hún væri en vinkonan kvaðst hafa heyrt á henni að henni liði mjög illa. Þá sagði brotaþoli vinkonunni að eitthvað hefði gerst en skýrði það ekki frekar í símtalinu. Vinkonan gat ekki sótt brotaþola heldur hringdi í aðra vinkonu sem sótti brotaþola og saman fóru þær heim til sín. Heima hjá sér kvað hún brotaþola hafa sagt sér að hún hefði verið í íbúð og vaknað við að maður var ofan á sér en sofnað aftur og vaknað síðar með buxurnar niður um sig. Vinkonan kvað brotaþola ekki hafa sagt sér nákvæmlega hvað maðurinn, sem var ofan á henni, var að gera. Vinkonan kvaðst ekki þekkja þennan mann. Hún kvað brotaþola hafa verið í sjokki, grátandi og henni liðið mjög illa þegar hún var að segja sér frá þessu, en hún hefði ekki lýst þessu sem framhjáhaldi. Brotaþoli hefði hringt í kærasta sinn sem hefði brugðist illa við tíðindunum og hefði brotaþola liðið mjög illa eftir samtalið.
Önnur vinkona brotaþola bar að sameiginleg vinkona þeirra hefði hringt í sig snemma um morguninn og beðið sig um að sækja brotaþola. Vinkonan hringdi í brotaþola, sem vissi þá ekki hvar hún væri stödd. Þegar vinkonan kom til brotaþola kom hún hágrátandi upp í bílinn og sagði henni frá því að hún hefði farið heim með ákærða og sofnað og vaknað við að eitthvað var að gerast sem átti ekki að gerast en skýrði það ekki nánar nema hvað hún hefði verið í sjokki og henni hefði fundist þetta ógeðslegt. Ekki skýrði brotaþoli þetta nánar og vinkonan ók henni heim til sameiginlegu vinkonunnar og skildi þar við þær. Vinkonan bar að brotaþola hefði liðið mjög illa eftir þennan atburð.
Sambýlingur ákærða bar að hann hefði verið inni hjá sér þessa nótt þegar ákærði hefði bankað og kíkt inn og hefði einhver verið fyrir aftan ákærða. Ekki sá hann hver það var en vissi að það var stúlka. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt í íbúðinni þessa nótt og engin samskipti hafa haft við stúlkuna sem var með ákærða. Sambýlingurinn kvað gluggatjöld í herbergi ákærða hafa verið fest með límbandi.
Fyrrum kærasti brotaþola bar að hún hefði hringt í sig og sagt sér að hún hefði farið heim með ákærða og kvaðst hann hafa heyrt á henni að eitthvað hefði gerst. Hann kvaðst hafa hringt í ákærða sem hefði neitað að hafa farið með brotaþola heim. Um kvöldið hefði svo brotaþoli sagt sér að ákærði hefði nauðgað sér, en áður hefði móðir brotaþola sagt sér hvað hefði gerst. Í kjölfar þessa hefði brotaþola liðið mjög illa, átt erfitt með svefn og það hefði reynt svo á sambandið að það hefði slitnað um það bil mánuði eftir atburðinn, enda brotaþoli ekki verið söm manneskja á eftir. Kærastinn kvað brotaþola hafa sagt sér hvað hefði gerst og er það í samræmi við frásögn hennar sem að framan var rakin.
Sálfræðingurinn sem brotaþoli gekk til staðfesti vottorð sitt sem getið var um í II. kafla. Sálfræðingurinn bar að brotaþoli hefði verið lengi að ákveða hvort hún ætti að kæra ákærða eða ekki og væri það eðlilegt og ekki óalgengt hjá þeim sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þá bar sálfræðingurinn að brotaþoli hefði skýrt sér frá því sem gerst hefði og er sú frásögn í samræmi við það sem brotaþoli bar og að framan var rakið. Sálfræðingurinn kvað brotaþola ekki bera merki um að hún hefði haldið fram hjá og síðan séð eftir því, heldur bæri hún greinileg merki þess að þetta sem gerðist hefði verið gegn vilja hennar. Enn fremur að brotaþoli hefði verið sjálfri sér samkvæm í frásögn sinni í viðtölunum.
Læknir sem tók á móti brotaþola á Neyðarmóttökunni staðfesti vottorð sitt sem getið var um í II. kafla. Læknirinn bar að hún hefði verið grátandi við komu og átt erfitt með að skýra frá því sem hafði gerst. Þá bar læknirinn að brotaþoli hefði borið sömu einkenni og aðrir hafa sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þá kvað læknirinn brotaþola ekki hafa borið merki um áfengisneyslu.
IV
Ákærða og brotaþola greinir ekki á um að ákærði hafði samfarir við hana þessa nótt. Brotaþoli kveður ákærða hafa nauðgað sér en ákærði bar að samfarirnar hafi verið að vilja hennar eins og rakið var. Bæði bera þau að hafa verið drukkin þessa nótt en ekki hafa verið færð fram gögn, önnur er frásagnir þeirra sjálfra, um hversu mikil ölvun þeirra var.
Ákærði var fyrst yfirheyrður af lögreglu 22. október 2008 og hófst yfirheyrslan klukkan 10.09. Þá bar hann að hafa hitt brotaþola dauðadrukkna niður í bæ umrædda nótt og hefði hún beðið um að fá að gista hjá honum og farið með honum heim. Er þangað var komið hefði sambýlingur ákærða verið vakandi ásamt kærustu sinni og þau setið í sófa í stofunni. Eitthvað hafi þau ræðst við en síðan hafi brotaþoli sofnað í sófanum en hann farið inn í rúm og sofnað þar. Þegar ákærði vaknaði morguninn eftir var brotaþoli farin. Ákærði kvað brotaþola ekki hafa sett upp gluggatjöld með sér og neitaði að hafa haft samfarir við hana. Undir ákærða voru borin skilaboð sem send höfðu verið 20. júlí 2008 klukkan 19.34 í gegnum Myspace síðu brotaþola. Þau eru þessi: „sæl, fórst þú eitthvað snemma í gær? ÞETTA er bara á milli okkar er þaggi?“. Ákærði kannaðist ekki við að hafa sent þessi skilaboð en kvaðst vera með svona síðu. Ákærða var bent á að tekin hefðu verið lífssýni úr brotaþola og var hann spurður hvort hann leyfði að tekin yrðu sýni úr honum til samanburðarrannsóknar og samþykkti hann það. Þegar hér var komið sögu ákvað lögreglumaðurinn að ljúka yfirheyrslunni og var klukkan þá 10.45.
Að lokinni þessari fyrstu yfirheyrslu ræddi ákærði við verjanda sinn og gaf síðan nýja skýrslu þar sem hann viðurkenndi að hafa haft samfarir við brotaþola. Hófst skýrslutakan klukkan 11.02. Ákærði bar nú að hann hefði skilið við brotaþola í sófa stofunni eftir að þau höfðu rætt við sambýling hans og kærustu og hefði brotaþoli sofnað í sófanum. Hann hefði síðan legið í rúmi sínu og verið eiginlega farinn að sofa þegar brotaþoli hafi komið og lagst upp í til hans. Hann hafi þá verið í nærbuxum en hún alklædd. Þegar hún var lögst upp í hjá honum hafi hún afklætt sig og eftir það hefðu þau haft samfarir og hefði hann legið ofan á henni. Ákærða kvað sér hafa orðið sáðfall og eftir að samförunum lauk hefði hann sofnað og þegar hann vaknaði morguninn eftir hefði brotaþoli verið farin. Hann neitaði sem fyrr að hafa sent brotaþola framangreind skilaboð. Ákærði var spurður hví hann hefði ekki borið á þennan hátt við fyrri skýrslutökuna og sagðist hann hafa verið hræddur við kæruna. Seinni yfirheyrslunni lauk klukkan 11.16.
Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 3. desember 2008. Honum voru þá kynnt gögn um að framangreind skilaboð hefðu verið send úr tölvu sambýlings hans á heimili þeirra. Ákærði neitaði að hafa sent skilaboðin. Þá bar hann á sama hátt og fyrr um samfarir hans og brotaþola.
Hér að framan var rakinn framburður ákærða fyrir dómi og bar hann þar að mestu á sama hátt og í síðari lögregluskýrslunni nema hvað nú kvað hann sambýling sinn hafa verið í herbergi sínu og hefði hann farið þangað inn og rætt við hann. Hann ítrekaði að samfarirnar hefðu verið með samþykki brotaþola sem hefði komið inn í svefnherbergið til hans eftir að hann var kominn inn í rúm.
Brotaþoli hefur frá upphafi borið á sama veg og hún bar fyrir dómi og að framan var rakið, það er að hún hafi verið að hjálpa ákærða við að setja upp gluggatjöld og staðið í rúmi hans. Að þessu verki loknu hefði hún lagst í rúmið og sofnað strax enda langdrukkin. Hún hafi svo vaknað við hann ofan á sér að hafa við sig samfarir, frosið og sofnað aftur. Þegar hún svo vaknaði aftur um morguninn hafi hún verið með nær- og sokkabuxur utan um ökkla annars fótar. Eftir að brotaþoli vaknaði komst hún í samband við vinkonur sínar og hafa þær báðar borið um ástand hennar eins og rakið var. Hið sama á við um móður hennar og fyrrum kærasta. Þá fær framburður brotaþola og stuðning í vottorðum og framburði læknis og sálfræðings. Loks fær framburður hennar að hluta til stuðning af framburði sambýlings ákærða sem bar að gluggatjöld í herbergi hans hefðu verið teppi sem fest hefði verið upp með límbandi en brotaþoli bar að hafa hjálpað ákærða við að festa teppi fyrir gluggann með límbandi.
Eins og sjá má hefur framburður ákærða ekki verið sá sami frá upphafi. Hann gaf þá skýringu á fyrsta framburði sínum hjá lögreglu, þar sem hann neitaði að hafa haft samfarir við brotaþola, að hann hefði verið hræddur við kæruna. Fyrir dómi gaf hann þá skýringu á misræmi framburðar hans hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hefði á þessum tíma misnotað áfengi og hefði af þeim sökum lélegt skammtímaminni. Nú hefði hann náð tökum á áfengisneyslunni og við það hefði minni hans batnað.
Ekki er hægt að líta fram hjá því að framburður brotaþola hefur frá upphafi verið staðfastur um það sem hún ber að hafi gerst milli hennar og ákærða. Framburður ákærða hefur á hinn bóginn breyst eins og rakið var. Það var til dæmis fyrst við aðalmeðferð sem hann bar að hann hefði rætt við sambýling sinn inni í herbergi hans en sambýlingurinn ekki komið fram í stofu ásamt kærustu sinni og rætt við ákærða og brotaþola þar. Þá er það og mat dómsins að brotaþoli hafi gefið skýrslu sína fyrir dómi óþvingað og eðlilega þar sem hvorki var að greina hik né misbresti í frásögn hennar þannig að í ósamræmi væri við fyrri skýrslur og framburð vitna. Ákærði virtist á hinn bóginn nokkuð þvingaður og óskýr um sumt sem hann, nánar spurður um, kvaðst ekki muna. Samkvæmt þessu er það mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi en ákærði hafi ekki verið eins trúverðugur á sama hátt.
Með vísun til þess sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að við úrlausn málsins eigi að leggja til grundvallar trúverðuga og staðfasta skýrslu brotaþola sem studd er framburði vitna og öðrum gögnum sem grein var gerð fyrir í III. kafla. Þessi gögn styðja öll frásögn brotaþola um að hún hafi sofnað ölvunarsvefni í rúmi ákærða og vaknað við að hann var að hafa við hana samfarir. Kemur þá til athugunar hvort þau viðbrögð brotaþola að kalla hvorki á hjálp né streitast á móti ákærða, þegar hún vaknaði, valdi því að ákærði hafi með réttu mátt líta svo á að samfarirnar væru með hennar samþykki. Við úrlausn á þessu álitamáli verður að líta til þess að brotaþoli hafði sofnað í ókunnu húsi og hafði hvorki séð né þekkti til annarra íbúa þess. Þá hafði hún sofnað ölvunarsvefni undir morgun eftir að hafa verið að drekka áfengi frá því um kvöldmatarleytið kvöldið áður og er ekki ótrúverðug sú skýring hennar að hún hafi „frosið“, eins og hún sjálf komst að orði, og sofnað aftur meðan á samförunum stóð eins og hún lýsti. Það er því mat dómsins að það dragi ekki úr trúverðugleika brotaþola að hún kallaði ekki á hjálp eins og ástatt var fyrir henni. Með vísun til framanritaðs er það og mat dómsins að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að brotaþoli var sofandi þegar hann hóf samfarirnar. Á sama hátt hlaut honum og að vera ljóst að þótt hún hafi vaknað litla stund og ekki reynt að losna úr samförunum gat hann ekki litið á það sem samþykki hennar eins og ástatt var fyrir henni. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa haft samræði við brotaþola sem hún gat ekki spornað við sökum ölvunar og svefndrunga eins og honum er gefið að sök í ákærunni en brot hans er þar rétt fært til refsiákvæðis. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum og er refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Ákærði skal, með vísun til 26. gr. skaðabótalaga, greiða brotaþola 600.000 krónur í bætur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Hann skal greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og málsvarnarlaun verjanda síns, 543.816 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Loks skal hann greiða 142.269 krónur í annan sakakostnað.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Hervör Lilja Þorvaldsdóttir og Ingimundur Einarsson.
Dómsorð
Ákærði, Ragnar Ágúst Rúnarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. júlí 2008 til 3. janúar 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns Guðmundar Ágústssonar hrl., 543.816 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Feldísar Óskarsdóttur hdl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 142.269 krónur í annan sakarkostnað.