Hæstiréttur íslands

Mál nr. 102/2001


Lykilorð

  • Handtaka
  • Leit
  • Haldlagning
  • Skotvopn
  • Skaðabætur
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. september 2001.

Nr. 102/2001.

 

Guðmundur Gunnarsson

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Handtaka. Leit. Haldlagning. Skotvopn. Skaðabætur. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta. Gjafsókn.

 

Lögregla hafði tvívegis afskipti af heimili G vegna kvartana nágranna hans um hávaða og ónæði. Við komu lögreglu var G ölvaður og tvö börn hans hjá honum. Í fyrra skiptið lagði lögregla hald á þrjú skotvopn, skotfæri og búnað tengdan skot veiðum, en í seinna skiptið handtók hún G og færði hann í fanga geymslu þar sem honum var haldið fram á morgun er skýrsla var tekin af honum. G krafði íslenska ríkið um miskabætur vegna handtöku, vistunar hjá lögreglu, leitar í íbúð sinni og haldlagningar muna, skaðabóta vegna eigna sinna, sem hald hefði verið lagt á, og endurgreiðslu kostnaðar af lögfræðiaðstoð vegna tilrauna til að endurheimta eignirnar. Hæstiréttur hafnaði miskabótakröfunni með vísan til þess að háttsemi G hefði gefið lögreglu fullt til efni til að handtaka hann og ekki lægi annað fyrir en að hann hefði veitt lögreglu aðgang að húsakynnum sínum. Þá hefði vistun G í fangaklefa ekki staðið lengur en nauðsyn bar til. Að því er snerti skaðabótakröfu G var upplýst að héraðsdómur hafði hafnað að svo stöddu kröfu hans um að haldi yrði létt af skotvopnunum þar til fyrir lægi úttekt og samþykki lögreglu á vopnaskáp, sem G hefði fest kaup á, eða hann hefði sýnt fram á að hann gæti annast vörslu skotvopna sinna með lögmætum hætti. Jafnframt lá fyrir að lögregla hafði ekki skoðað vopnaskáp G eftir úrskurð héraðsdóms heldur hafnað að afhenda honum tvö skotvopn með vísan til ástands þeirra. Hæstiréttur taldi að þær aðstæður, sem leiddu til þess að héraðsdómur hafnaði að svo stöddu kröfu G um að vopnin yrðu afhent, væru ekki lengur fyrir hendi. Til að krafa um skaða bætur fyrir haldlagningu eigna væri tæk væri óhjákvæmilegt að ljúka þessum þætti málsins, eftir atvikum með nýrri kröfu til héraðsdóms um að haldi yrði aflétt. Því væri óhjákvæmilegt að vísa sjálfkrafa frá héraðsdómi kröfu áfrýjanda um skaðabætur vegna muna, sem væru í haldi lögreglunnar. Kröfu G um endurgreiðslu lögfræðikostnaðar var vísað frá Hæstarétti þar sem hann hafði ekki kært til réttarins niðurstöðu héraðsdóms um að vísa kröfunni frá héraðsdómi, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2001. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 440.850 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. mars 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Atvik þessa máls urðu aðfaranótt 1. október 1999 og að morgni sama dags. Hafði lögreglan tvívegis afskipti af áfrýjanda um nóttina, þar sem hann hélt til í íbúð sinni. Í fyrra skiptið lagði lögreglan þar hald á þrjú skotvopn hans, skotfæri og annan búnað tengdan skotveiðum. Í seinna skiptið handtók lögreglan áfrýjanda og færði í fangageymslu. Var hann í haldi lögreglu fram á morgun, en skýrsla var tekin af honum klukkan 10.59 áðurnefndan dag. Lauk skýrslutökunni rúmlega hálfri klukkustund síðar og var áfrýjanda sleppt að því búnu. Telur áfrýjandi afskipti lögreglu af sér hafa verið ólögmæt. Krefst hann miskabóta vegna handtöku, vistunar hjá lögreglu, leitar í íbúð sinni og haldlagningar muna, skaðabóta vegna eigna sinna, sem hald var lagt á og ekki skilað eftir það, og endurgreiðslu kostnaðar af lögfræðiaðstoð vegna tilrauna til að endurheimta eignirnar. Málavöxtum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Áfrýjandi beindi kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 1999 um að haldi yrði létt af skotvopnunum, sem áður voru nefnd. Því máli var lokið með úrskurði 2. febrúar 2000. Kom meðal annars fram í úrskurðinum að áfrýjandi sé skráður eigandi níu skotvopna, sem hann hafi leyfi fyrir. Var kröfu áfrýjanda hafnað að svo stöddu þar til fyrir lægi úttekt og samþykki lögreglunnar í Reykjavík á vopnaskáp, sem áfrýjandi hafði fest kaup á, eða hann sýndi annars fram á að hann gæti annast vörslu skotvopna sinna með lögmætum hætti. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2000 var áfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða sekt fyrir að geyma skotvopn og skotfæri óaðskilin og ekki í læstum hirslum á dvalarstað sínum. Ekki var krafist upptöku vopnanna í því máli.

Með hinum áfrýjaða dómi var kröfu áfrýjanda vegna lögfræðikostnaðar í tengslum við tilraunir hans til að endurheimta skotvopnin vísað frá dómi. Hann hefur ekki borið þá niðurstöðu undir Hæstarétt með kæru samkvæmt ákvæðum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. þeirra laga. Þessi hluti héraðsdóms getur því ekki sætt endurskoðun Hæstaréttar og verður kröfu áfrýjanda um greiðslu lögfræðikostnaðar samkvæmt því vísað frá Hæstarétti.

II.

Er lögreglumenn komu í íbúð áfrýjanda hið fyrra sinn aðfaranótt 1. október 1999 tóku þeir áðurnefnd skotvopn og fylgihluti og höfðu á brott með sér. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að þeir hafi gert leit í íbúðinni, heldur hafi vopnin og skotfærin blasað við þeim þar inni. Ekki liggur annað fyrir en að áfrýjandi, sem var ölvaður, hafi veitt lögreglumönnunum aðgang að húsakynnum sínum. Hann gat ekki framvísað leyfi fyrir vopnunum, sem voru varðveitt með ólögmætum hætti, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Var lögreglumönnunum að svo vöxnu máli bæði rétt og skylt að leggja hald á vopnin. Háttsemi áfrýjanda gaf þeim einnig fullt tilefni til að handtaka hann og stóð vistun hans í fangaklefa ekki lengur en nauðsyn bar til. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um kröfur áfrýjanda vegna aðgerða lögreglunnar gagnvart honum 1. október 1999.

III.

Áfrýjandi freistaði þess fljótlega eftir að hald var lagt á skotvopnin að ná þeim til sín aftur. Er hér að framan greint frá úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2000, þar sem kröfu hans um afhendingu var hafnað að svo stöddu meðan ekki væri sýnt fram á að vopnaskápur áfrýjanda teldist öruggur geymslustaður fyrir vopnasafn hans.

Lögmaður áfrýjanda krafði stefnda um bætur vegna aðgerða lögreglunnar með bréfi til ríkislögmanns 2. mars 2000. Leitaði hinn síðastnefndi af því tilefni eftir umsögn lögreglustjórans í Reykjavík 8. sama mánaðar. Í svarbréfi lögreglunnar 10. maí 2000 sagði meðal annars: „Er honum því frjálst að vitja muna sinna, enda geri hann grein fyrir lögmæltri geymslu að mati fulltrúa embættisins.“ Gögn málsins bera ekki með sér að neitt hafi síðan gerst í tengslum við þetta fyrr en 4. og 5. október 2000 þegar áfrýjandi fór til lögreglunnar og krafðist þess að fá byssurnar afhentar. Er óumdeilt að honum hafi þá verið boðið að fá eina þeirra afhenta, en jafnframt neitað að fá hinar tvær, sem eru gömul haglabyssa og riffill. Ekkert er fram komið um að sú afstaða hafi verið studd við það að áfrýjandi hefði ekki trygga geymslu fyrir vopn sín. Var því nú borið við að ástand þessara tveggja skotvopna væri slíkt að þau teldust ólögmæt. Væri haglabyssan hættuleg vegna slits, en rifflinum hefði verið breytt mjög mikið. Þannig hefði hlaup hans verið stytt en þess í stað settur á hann hljóðdeyfir auk þess sem skeftið hefði verið sagað af. Líktist hann nú meira skammbyssu með hljóðdeyfi en riffli. Mun áfrýjandi hafa krafist þess að fá öll vopnin og því ekki komið til þess að neitt þeirra yrði afhent. Með bréfi 6. október 2000 til áfrýjanda lýsti lögreglan síðan þeim áformum sínum að afturkalla leyfi fyrir rifflinum, en gömlu haglabyssunnar var þar ekki getið þótt deginum áður hafi verið neitað að afhenda hana. Mótmælti áfrýjandi þessu í bréfi 30. október 2000. Lögreglan í Reykjavík sendi síðan málið 20. desember sama árs sýslumanninum í Stykkishólmi til afgreiðslu, en áfrýjandi hafði þá flust búferlum þangað. Eftir nokkur bréfaskipti við áfrýjanda ákvað sýslumaður 7. mars 2001 að afturkalla skotvopnaleyfi áfrýjanda fyrir rifflinum, sem skyldi jafnframt eyðilagður. Að beiðni áfrýjanda skoðaði lögreglan í Stykkishólmi vopnaskáp hans. Verður ekki annað ráðið en að skápurinn sé traust og örugg geymsla fyrir skotvopn.

IV.

Meðal málsgagna er listi áfrýjanda yfir þá muni, sem hald var lagt á. Auk skotvopnanna var um að ræða tiltekinn fjölda riffil- og haglaskota, sjónauka, hljóðdeyfi, skotbelti, byssupoka og byssutösku. Hefur áfrýjandi jafnframt lagt fram verðmat á einstökum munum, sem stefndi mótmælir.

Eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði 2. febrúar 2000 kröfu áfrýjanda um að haldi yrði létt af skotvopnum hans verður ekki séð að lögreglan í Reykjavík hafi átt neitt frumkvæði að því að skila hinum haldlögðu munum, einhverjum eða öllum, þrátt fyrir áðurgreind ummæli í bréfi 10. maí 2000. Hún gerði heldur engan reka að því að athuga vopnaskáp áfrýjanda. Mátti þó vænta þess að stuðlað yrði að því að eignum áfrýjanda yrði ekki haldið lengur en þörf var á, sbr. 82. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá eru engar skýringar fram komnar á því hvers vegna sumum þessara muna, svo sem skotbelti og skotfærum, var ekki skilað strax eða fljótlega. Af áðurnefndu bréfi lögreglunnar verður ráðið að á því stigi hafi enn ekki verið byggt á öðru en því að örugg geymsla fyrir vopnin væri ekki fyrir hendi. Frá þessari afstöðu sýnist lögreglan hafa horfið í október 2000 þegar boðið var að afhenda eina byssu en neitað að afhenda hinar tvær vegna ástands þeirra. Höfðu vopnin þó verið í vörslu lögreglu í eitt ár er þar var komið án þess að hreyft væri þessari ástæðu að öðru leyti en því að hljóðdeyfir var talinn ólöglegur. Framkvæmd lögreglunnar í þessum efnum hefur þannig verið áfátt. Hefur afgreiðsla þessa málefnis dregist úr hófi auk þess sem uppgefnar ástæður fyrir því að neita að afhenda vopnin hafa verið á reiki án þess að neitt hafi gerst, sem gat gefið tilefni til slíks.

Þær ástæður, sem leiddu til þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði að svo stöddu kröfu um að afhenda vopnin, virðast samkvæmt öllu framanröktu ekki vera lengur fyrir hendi. Til þess að krafa um skaðabætur fyrir haldlagningu eigna geti verið tæk er hins vegar óhjákvæmilegt að ljúka þessum þætti málsins, eftir atvikum með nýrri kröfu til héraðsdóms um að haldi verði aflétt. Meðan sakir standa svo að ágreiningur um að aflétta haldi er óútkljáður er óhjákvæmilegt að vísa sjálfkrafa frá héraðsdómi kröfu áfrýjanda um skaðabætur vegna muna, sem eru í haldi lögreglunnar.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að kröfum áfrýjanda verður að hluta vísað frá Hæstarétti og héraðsdómi, en stefndi sýknaður af þeim að öðru leyti. Skal stefndi greiða áfrýjanda hluta kostnaðar hans af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi yfir að hann nyti gjafsóknar í málinu samkvæmt XXI. kafla nr. 19/1991. Hann hefur þó ekki sótt um gjafsókn, hvorki fyrir héraðsdómi né Hæstarétti, og fyrir Hæstarétti var heldur ekki gerð krafa um ákvörðun gjafsóknarlauna. Samkvæmt 178. gr. laganna skal veita gjafsókn í málum sem þessu og hvílir sú skylda á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að fenginni umsókn. Dómstólar veita hins vegar ekki gjafsókn, en ákveða greiðslu samkvæmt henni. Eins og málið er úr garði gert eru ekki skilyrði fyrir hendi til að dæma að kostnaður áfrýjanda af málinu skuli greiddur samkvæmt gjafsókn.

Dómsorð:

Kröfu áfrýjanda, Guðmundar Gunnarssonar, um greiðslu lögfræðikostnaðar, er vísað frá Hæstarétti.

Skaðabótakröfu áfrýjanda vegna muna hans, sem lagt var hald á 1. október 1999, er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, íslenska ríkið, er að öðru leyti sýkn af kröfu áfrýjanda.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2000.

 

Mál þetta, sem dómtekið var 29. nóvember s.l., er höfðað með stefnu með ódag­settri áritun um birtingu en þingfestri 27. apríl s.l.

Stefnandi er Guðmundur Gunnarsson, kt. 190448-3479, Laugavegi 61, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu á kr. 440.850 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 2. mars 2000 til greiðsludags.  Þá er kraf­ist málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts og er gerð sú krafa að máls­kostn­aður verði tildæmdur gjafsóknarhafa eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.  Stefn­andi telur sig hafa gjafsókn í máli þessu án sérstaks leyfis á grundvelli ákvæðis í 178. gr. laga nr. 19/1991.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.  Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að 1. október 1999 kl. 01:10 var óskað eftir lögreglu að Meðal­holti 13 hér í borg en kvartað hafði verið undan ónæði frá stefnanda.  Lögregla fór á vettvang og hafði tal af stefnanda.  Segir í lögregluskýrslu að hann hafi verið sjá­an­lega ölvaður og voru tveir drengir hans, 6 og 12 ára gamlir hjá honum.  Var stefn­anda gerð grein fyrir því að ölvunarástand hans væri ekki viðeigandi meðan drengirnir væru hjá honum.  Fengu lögreglumenn fulltrúa barnaverndarnefndar á vettvang, svo og móður drengjanna, en hún og stefnandi voru nýskilin.  Tók hún börnin með sér heim.  Í lögregluskýrslu er haft eftir stefnanda að kona á efri hæð væri alltaf að kæra hann og mætti hún passa sig á honum.  Lögreglumennirnir sáu skotvopn í stofunni, gamla haglabyssu og aðra nýlega sem stóð óvarin upp við vegg og skotfæri við.  Þá var riffill í plastkassa við stofusófa.  Lögreglan lagði hald á skotvopn þessi og lauk af­skipt­um þeirra í bili.

Sömu nótt kl. 03:15 var lögregla aftur kvödd að heimili stefnanda vegna kvört­unar um hávaða og ónæði af völdum hans.  Er haft eftir íbúa í húsinu að stefnandi hafi verið að ónáða hana með því að berja á hurðina á íbúð hennar.  Einnig héldi hann vöku fyrir fólki með háværri tónlist.  Segir í skýrslunni að farið hafi verið á staðinn í ljósi þess að stefnandi hefði fyrr um kvöldið, er lögreglan var á vettvangi, hótað að skjóta kon­una sem bjó á hæðinni fyrir ofan hann.  Virtist lögreglu stefnandi vera talsvert ölv­aður, óstöðugur á fótum og þá hafi framburður hans verið ruglingslegur.  Hafi stefn­andi haldið áfram með ásakanir og hótanir í garð konunnar.  Stefnandi var beðinn að gera grein fyrir því hvort hann hefði fleiri skotvopn í íbúðinni, en hann neitaði því en sagðist eiga 10-20 skotvopn.  Þar sem stefnandi hafi haft í stöðugum hótunum um að skjóta nágrannakonu sína og í ljósi ölvunarástands  hans var tekin sú ákvörðun að handtaka stefnanda og færa hann á lögreglustöð.  Var síðan tekin ákvörð­un um vistun hans í fangageymslu og var hann færður þangað kl. 04:11.  Kl. 10:47 var stefn­andi færður til yfirheyrslu og var hann látinn laus að henni lokinni kl. 11:31.  Í þeirri yfirheyrslu viðurkenndi stefnandi að hafa verið mjög ölvaður og ekki muna at­burða­rás skýrt.

Elínborg Kristjánsdóttir gaf skýrslu hjá lögreglu 13. október 1999 og kvaðst hún hafa haft samband við lögreglu sökum þess að hún óttaðist að stefnandi kynni að fremja voðaverk með byssunni.  Hún kvað stefnanda vera með mikinn yfirgang í sam­bandi við sameignina en hann hafi aldrei ógnað henni með byssum og aldrei hótað henni líkamsmeiðingum.

Stefnandi gaf skýrslu um byssueign sína og vörslur skotvopna 22. desember 1999.  Kvaðst hann geyma vopnin í sérstökum skáp sem hann hafi keypt í Vesturröst og sé skáp­urinn heima hjá móður hans.  Kvað hann um algjöra undantekningu að ræða að hann var með vopn heima hjá sér því hann hafi ætlað á veiðar daginn eftir.

Lögmaður stefnanda gerði þá kröfu í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. nóvember 1999 að haldi á umræddum skotvopnum yrði aflétt.  Með úrskurði dómsins upp kveðnum 2. febrúar s.l. var komist að þeirri niðurstöðu að fullt tilefni hafi verið til þess að leggja hald á umrædd skotvopn eins og aðstæðum var háttað.  Var kröfu stefnanda hafnað með svofelldum rökstuðningi:  „Eins og mál þetta liggur fyrir, þykir verða að hafna kröfu sóknaraðila um afhendingu umræddra skotvopna, að svo stöddu, eða þar til fyrir liggur úttekt og samþykki varnaraðila á vopnaskáp þeim, sem sóknaraðili hefur fest kaup á, eða sóknaraðili færir með öðrum hætti fullnægjandi sönnur á það, að mati varnaraðila, að hann geti annast vörslur skotvopna sinna með lögmæltum hætti, sbr. 5. mgr. 33. gr. rgl. 787/1998”.  Þá var ákveðið að hvor aðili um sig bæri sinn kostnað af málinu.  Stefnandi kærði úrskurð þennan til Hæstaréttar Íslands, en með dómi réttarins upp kveðnum 23. febrúar s.l. var málinu vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn.

Ákæra var gefin út á hendur stefnanda 1. febrúar s.l. fyrir brot á vopnalögum og skot­vopnareglugerð með því að hafa skotvopn og skotfæri óaðskilin og eigi í læstum hirsl­um á dvalarstað sínum.  Með dómi upp kveðnum 25. febrúar s.l. var stefnandi sak­felldur og dæmdur til greiðslu 30.000 króna sektar.  Ekki var krafist upptöku skot­vopna og skotfæra, en stefnandi hefur enn ekki fengið skotvopn sín í hendur.  Lagt hefur verið fram bréf lögreglustjórans í Reykjavík dagsett 6. október s.l. þar sem stefn­anda er kynnt að tekin verði ákvörðun um hvort leyfi fyrir umræddum riffli verði aftur­kallað.  Að mati lögreglustjóra er um skammbyssu með hljóðdeyfi að ræða og var stefnanda veittur frestur til andmæla.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir á því að handtaka hans og vistun í fangaklefa í marga klukku­tíma hafi verið að ósekju og ólögmæt.  Hafi lögregla án dómsúrskurðar rofið stjórn­ar­skrár­bundinn rétt hans til friðhelgi heimilis.  Handtakan og vistunin sé lögbrot og jafn­framt bótaskyld ólögleg meingerð  við frelsi hans og persónu.  Hafi hann haft af því óþægindi, leiðindi og álitshnekki og eigi hann rétt á bótum fyrir.

Stefnandi vísar til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, 5. mgr. 5. gr. laga um Mann­rétt­indasáttmála Evrópu, 6. gr. sömu laga og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá bendir stefnandi á 97. gr. laga nr. 19/1991 þar sem segi að lögreglumönnum sé rétt að hand­taka mann, ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot, sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja ná­vist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.  Stefnandi fellst ekki á að handtakan hafi verið nauðsynleg jafnvel þótt rétt hafi verið að henni staðið.  Brot stefnanda hafi falist í því að geyma byssu og skotfæri saman en ekki í að­skildum hirslum.   Hafi handtaka hans ekkert með það að gera að koma í veg fyrir áfram­haldandi brot og ekki hafi verið þörf á að tryggja návist hans.  Þá hafi ekki verið ástæða til að ætla að hann spillti sönnunargögnum.

Stefnandi gerir einnig bótakröfu vegna ólöglegrar haldlagningar skotvopna, skot­færa og fylgihluta.  Byggir hann aðallega á því að lögregla hafi lagt hald á eigur hans inni á heimilinu án þess að hafa húsleitarúrskurð.  Hefði slíkur úrskurður legið fyrir hefði komið til athugunar hvort lagagrundvöllur væri fyrir hendi.   Skilyrði hald­lagn­ingar muna séu tæmandi talin í 78. gr. laga nr. 19/1991 og verði þeir í fyrsta lagi að hafa sönnunargildi, í öðru lagi að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt og í þriðja lagi að þeir kunni að verða gerðir upptækir.  Stefnandi bendir á að ekki hafi verið krafist upptöku þeirra.

Stefnandi reisir bótakröfu sína á XXI. kafla laga nr. 19/1991, aðallega 176. gr.  Stefn­andi byggir á því að brostið hafi lögmæt skilyrði til handtöku, vistunar og hald­lagn­ingar og að ekki hafi verið nægilegt tilefni til aðgerðanna.  Stefnandi segir kröfu um fjártjón vera vegna vopna og skotfæra sem ekki hefur verið skilað.  Þá telur stefnandi allan þann lögfræðikostnað, sem  hann hafi haft af því að endurheimta eigur sínar, vera beint tjón sitt.  Stefnandi bendir á að samkvæmt 82. gr. laga nr. 19/1991 skuli aflétta haldi þegar þess er ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er end­an­lega lokið.  Að mati stefnanda var aldrei þörf á haldi og máli stefnanda hafi lokið end­an­lega með dómi 25. febrúar s.l.

Auk framangreindra lagaákvæða vísar stefnandi til reglna íslensks skaða­bóta­réttar.  Stefnandi vísar um miskabótakröfu til 26. gr. skaðabótalaga. Dráttarvaxtakrafa er reist á vaxtalögum og málskostnaðarkrafa er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafa um virðisaukaskatt. er reist á lögum nr. 50/1988.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að fjárhagslegt tjón hans sé kr. 241.250, kostn­aður af lögfræðilegri aðstoð vegna aðgerða til að endurheimta eigur nemi kr. 99.600, krafa um miskabætur vegna handtöku og vistunar er kr. 50.000 og miska­bóta­krafa vegna leitar og haldlagningar er kr. 50.000.

Stefndi byggir á því að mikið hafi gengið á hjá stefnanda umrædda nótt.  Lög­reglan hafi fyrst haft afskipti af honum vegna barnaverndarmáls og haldlagningar skot­vopna.  Íbúi í húsinu hafi óttast að hann myndi fremja voðaverk með byssum og hafi hann ónáðað konuna með því að berja á hurð hennar.  Stefnandi hafi verið mjög ölvaður og hafi hann talað um að skjóta grannkonu sína og þá hafi hann talað um að eiga 10-20 skotvopn.  Stefndi byggir á því að við þessar aðstæður hafi stefnandi verið hand­tekinn, en það hafi verið hlutverk lögreglu að grípa inn í þegar aðstæður væru með þessum hætti.  Samkvæmt 97. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið fyrir hendi ótvíræð laga­heimild til handtöku og þá bar nauðsyn til að vista stefnanda í fangageymslu.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki verið sviptur frelsi að ósekju.  Þá hafi stefn­anda ekki verið haldið lengur en nauðsynlegt var miðað við ástand hans.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi brotið gegn vopnalögum og reglugerð um skot­vopn og hlotið dóm fyrir.  Hafi því verið full lagaheimild til haldlagningar hlut­anna og þurfti ekki húsleitarúrskurð eins og atvikum var háttað.  Ekki hafi verið krafist upp­töku og sé stefnanda því frjálst að vitja munanna, enda geri hann grein fyrir lög­mætri geymslu þeirra.  Sé því ekki um fjártjón að ræða hjá stefnanda.

Stefndi vefengir verðmætamat munanna og mótmælir kröfu um lögfræðikostnað, sem hann telur ekki á ábyrgð stefnda.  Stefndi mótmælir miskabótakröfum sem of háum og ekki í samræmi við dómvenju og þá er mótmælt upphafstíma vaxta.  Stefndi vísar um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um lögmæti handtöku stefnanda og vistunar hans í fangaklefa í framhaldi af því.  Þá er tekist á um lögmæti haldlagningar skot­vopna og skotfæra í íbúð stefnanda.  Krefst stefnandi miskabóta, bóta vegna fjár­hags­legs tjóns vegna eigna sem lagt hafi verið hald á en ekki skilað og bóta vegna lög­fræði­kostnaðar.

Upplýst er að lögregla var tvívegis kvödd í íbúð stefnanda aðfaranótt 1. október 1999.  Í fyrra skiptið var lagt hald á skotvopn og skotfæri sem þar voru geymd óað­skil­in.  Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem upp var kveðinn 2. febrúar s.l., var kom­ist að þeirri niðurstöðu að fullt tilefni hafi verið til að leggja hald á skotvopnin eins og aðstæðum var háttað.  Þessu mati dómsins verður ekki haggað, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. 

Þá byggir stefnandi á því að lagt hafi verið hald á skotvopnin án þess að húsleit­ar­úrskurður væri fyrir hendi.  Þessi málsástæða var ekki höfð uppi í framangreindum úr­skurði og ber því að leysa úr henni í þessu máli.  Stefnandi kvað lögreglumennina hafa ruðst inn íbúðina óboðna og kvaðst hann hafa mótmælt leitinni og veru þeirra á staðn­um.  Í lögregluskýrslu er þess ekki getið að stefnandi hafi amast við því að lög­reglu­menn kæmu inn í íbúðina, en þar kemur fram að hann brást illa við þegar leggja skyldi hald á skotvopnin og reyndi hann að hindra töku þeirra.  Af gögnum málsins verður því ekki annað ráðið en stefnandi hafi hleypt lögreglumönnum inn í íbúð sína.  Verður því ekki talið að þörf hafi verið fyrir húsleitarúrskurð, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 19/1991.

Stefnandi byggir á því að handtaka hans og vistun í fangaklefa hafi verið ólög­mæt.  Þegar lögregla kom í íbúð stefnanda í fyrra skiptið voru aðstæður þannig að hann var þar ölvaður með syni sína hjá sér og skotvopn og skotfæri sem geymd voru óað­skilin.  Þá virtist honum uppsigað við konu sem bjó á efri hæð og hafði á orði að hún mætti passa sig á honum.  Er lögregla var kvödd á vettvang í seinna skiptið var stefn­andi orðinn talsvert ölvaður og óstöðugur á fótum.  Þá hafði hann barið að dyrum hjá umræddri nágrannakonu.  Stefnandi hélt áfram ásökunum og hótunum í garð kon­unnar um að skjóta hana og þá sagðist hann ekki vera með fleiri skotvopn í íbúðinni, en hann ætti 10-20 skotvopn.  Samkvæmt framansögðu er ljóst að nágrönnum stóð veru­leg ógn af stefnanda og var lögreglumönnum bæði rétt og skylt að handtaka hann og færa á lögreglustöð til yfirheyrslu.  Stefnandi hefur viðurkennt að hafa verið orðinn mjög ölvaður þegar þarna var komið sögu og þá kvaðst hann ekki muna atburðarásina skýrt.  Var lögreglu því ekki annað fært eins og á stóð en að færa stefnanda í fanga­geymslu þar til ástand hans væri orðið þannig að unnt yrði að taka af honum skýrslu.  Verður ekki talið miðað við ástand stefnanda að dregist hafi úr hömlu að færa hann til skýrslutöku.  Á stefnandi því ekki rétt á bótum af þessum sökum. 

Stefnandi krefst bóta vegna þeirra skotvopna sem lagt var hald á og miðar hann tjón sitt við mat á verðmæti þeirra.  Ljóst er að ekki var krafist upptöku á vopnunum og hefur því verið lýst yfir af hálfu stefnda að honum sé frjálst að nálgast þau uppfylli hann þau skilyrði sem honum voru sett með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar s.l.  Stefnandi hefur hins vegar ekki fært fullnægjandi sönnur á það að mati lög­reglustjórans í Reykjavík að hann geti annast vörslur skotvopna sinna með lög­mælt­um hætti.  Samkvæmt því er það af ástæðum sem varða stefnanda að hann hefur enn ekki fengið vopnin í sínar hendur.  Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni og verður krafa hans þar að lútandi ekki tekin til greina.

Stefnandi krefst bóta vegna lögfræðiaðstoðar vegna aðgerða til að endurheimta eigur sínar.  Ekki verður betur séð en hér sé um sömu málskostnaðarkröfu að ræða og gerð var fyrir dómi við meðferð kröfu stefnanda um afléttingu halds.  Með úrskurði dóms­ins í því máli var ákveðið að málskostnaður félli niður.  Með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 verður krafa, sem dæmd hefur verið að efni til, ekki borin aftur undir sama dómstól.  Ber því að vísa þessari kröfu frá dómi.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.  Samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 greiðist kostnaður stefnanda af málinu, þar með talin málflutningsþóknun lög­manns hans, Ólafs Sigurgeirssonar, hrl., 200.000 krónur, úr ríkissjóði.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Kröfu stefnanda, Guðmundar Gunnarssonar, um bætur vegna lögfræðiaðstoðar er vísað frá dómi.

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda af málinu, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Sigurgeirssonar, hrl., 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti,  greiðist úr ríkissjóði.