Hæstiréttur íslands
Mál nr. 596/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2014. |
|
Nr. 596/2014. |
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn Seltjarnarnesbæ (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A
var sviptur lögræði í tvö ár.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2014, þar sem sóknaraðili var sviptur lögræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að lögræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um þóknun verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8.
september 2014.
Með
beiðni, dags 15. ágúst 2014, hefur Seltjarnarnesbær, krafist, með vísan til
d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, að varnaraðili, A, kt. [...], [...]
Seltjarnarnesi, verði sviptur tímabundið lögræði til tveggja ára, bæði
sjálfræði og fjárræði, með vísan til 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en um
aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Af
hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað, en
til vara er þess krafist að lögræðissviptingu verði markaður skemmri tími.
Í
beiðni sóknaraðila er rakið að varnaraðili sé [...] ára einstæður karlmaður og
öryrki til 30 ára vegna langvarandi kvíðasjúkdóms. Fyrir nokkrum áratugum hafi
hann verið dagsjúklingur á Kleppsspítala. Á fyrri árum hafi ástand verið með
þeim hætti að hann hafi verið óvinnufær en þó að mestu getað séð um sig
sjálfur. Heilsu hans hafi hrakað hratt síðari ár og hafi hann glímt við hin
ýmsu líkamlegu veikindi ásamt mjög versnandi geðheilsu en andlegri heilsu hafi
hrakað hratt síðustu misseri. Árið 2012 hafi A verið lagður inn á geðdeild og
dvalið þar í nokkurn tíma. Í apríl 2014 sætti hann svo afskiptum lögreglu þar
sem hann hafi ráfað um nakinn fyrir utan húsið að [...] þar sem hann hafi búið
einn í íbúð sinni. Í kjölfarið eða 16. apríl sl. hafi hann verið
nauðungarvistaður á bráðageðdeild 32C á Landspítala í 21 dag. Gerðar hafi verið
rannsóknir til að athuga hvort hegðun A mætti rekja til líkamlegrar heilsu en
engin slík orsök fundist. Hann hafi á þessum tíma verið með óráði en þó bráð af
honum öðru hvoru og hann þá verið viðræðuhæfur. Eftir að vistun hafi runnið
skeið á enda hafi A um tíma dvalist sjálfviljugur á deildinni en svo sótt stíft
að útskrifast. Þar sem A hafi þótt óhæfur að sjá um sig hafi það verið mat
lækna að nauðsynlegt væri að nauðungarvista hann á ný 19. maí 2014. Nokkuð hafi
bráð af A á næstu dögum og þá verið ákveðið að láta reyna á að hann yrði einn
heima í þjónustuíbúð sinni og nyti þá frekari stuðnings. Hér hafi læknar
bráðageðdeildar 32C metið það svo að A ætti við hratt vaxandi elliglöp að glíma
sem birtist í almennri vitskerðingu, minnisskerðingu og hegðunartruflunum. Dvöl
A heima hafi varað í tvo daga en þá hafi hann ráðist á þrjá starfsmenn
þjónustuíbúða að [...] og hafi honum þá verið fylgt af lögreglu til innlagnar á
deild 32C Landspítala. Hafi hér þótt fullreynt að A gæti ekki lengur dvalið í
íbúð sinni. Ástand A í dag sé þannig að mati lækna að hann sé alls ófær um að
sjá um sig sjálfur og til að taka ákvarðanir um eigið líf. Hann þurfi aðstoð
við allar venjulegar athafnir daglegs lífs og aldrei brái af honum. Hann eigi
til að vera árásargjarn og í óráðsköstum sem hann fái öðru hvoru geti hann
verið hættulegur sjálfum sér og öðrum. Þá sé A alls vanhæfur til að sinna
fjármálum vegna veikinda. Það sé mat yfirlæknis bráðageðdeildar 32C Landspítala
að A svari engri læknismeðferð, sé mjög vitrænt skertur og ástand hans þannig
að jafna megi við alvarlegan geðsjúkdóm. Þá sé það mat yfirlæknisins að
ólíklegt sé að A batni. A hafi stundum samþykkt dvöl á geðdeild en svo snúist
hratt hugur og neitað alfarið að dvelja þar. Hann sé að mati lækna algerlega
óhæfur til að sjá um sig sjálfur og hafi ekkert innsæi í ástand sitt. A
dveljist nú á bráðageðdeild en sé ekki formlega nauðungarvistaður þar en unnið
sé að því að koma honum fyrir á hjúkrunarrými eða öldrunardeild. Því fari
félagsþjónustusvið Seltjarnarnesbæjar fram á með vísan til 4. gr., sbr. d-liðs
2. mgr. 7. gr. og 8. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, að A verði sviptur lögræði,
bæði sjálfræði og fjárræði, sbr. 5. gr. laganna. Beiðni þessi sé sett fram
vegna brýnnar þarfar þar sem það sé mat lækna að hæfni A sé svo skert að hann
sé alls ófær að ráða persónulegum högum sínum sjálfur og til að ráða fé sínu.
Með hliðsjón af hagsmunum beggja aðila sé brýnt að máli þessu verði hraðað eins
og kostur er, sbr. 10. gr. áður greindra laga. Þóknun og annar kostnaður
sóknaraðila óskast greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga
nr. 71/1997.
Í
afriti af vottorði B geðlæknis og yfirlæknis á bráðageðdeild 32C, dags 18. júlí
2014, er vísað til þess að A hafi verið þar til innlagnar síðan 16. apríl sl.
Hann sé ókvæntur og barnlaus og búi einn í íbúð sinni að [...], sem hann hafi
erft eftir foreldra sína, en eigi tvö bræður á lífi sem hann hafi takmörkuð
samskipti við. Hann hafi lítið getað starfað í gegnum árin vegna kvíðasjúkdóms,
en verið greindur með áráttu- og þráhyggju sýki. A hafi verið öryrki í um 30
ára skeið en þó lítið komið til meðferðar á geðdeild en þó fyrir nokkrum
áratugum verið dagsjúklingur á Kleppspítala. A hafi komið til innlagnar á
geðdeild árið 2012, en hann hafi þá verið slæmur af kvíða auk þess sem hann
hafi þá glímt við mikil líkamleg veikindi þar sem hann hafi fengið
lungnakrabbamein og gengist undir hjartaþræðingu. Hvað varðar ástand A nú þá
endurspeglar atvikalýsing í vottorði læknisins í megindráttum það sem greinir í
áður lýstri beiðni sóknaraðila. Segir þar enn fremur að ástand hans sé nú orðið
slíkt að ekki brái af honum og hann sé ruglaður allan daginn. Hann rífi sig úr
fötum og ráfi um herbergið en ráðist stundum að starfsfólki. Hann eigi erfitt
með að borða án aðstoðar og þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Ekki
hafi enn tekist að finna honum stað á öldrunardeild eða hjúkrunarrými en unnið
sé að því. Þá hafi A ekki verið fær um að annast fjármál sín vegna veikinda sl.
þrjá mánuði og ekki getað borgað reikninga. Hann sé ófær um að taka ákvarðanir
um eigið líf. C vinur hans hafi boðist til að annast um fjármál fyrir hann en
mikilvægt sé að skoða fljótt hvernig þau standi. Sé það niðurstaða
yfirlæknisins að A hafi ekki svarað þeirri meðferð sem reynd hafi verið. Hann
sé nú mjög vitrænt skertur og með mikla atferlistruflun. Hann virðist vera með
hratt vaxandi hrörnunarsjúkdóm og sé ástand hans nú slíkt að jafna megi við
alvarlegan geðsjúkdóm og ólíklegt að bati fáist. Hann sé á engan hátt fær um að
ráða persónulegum högum eða til að halda utan um fjármál sín. Telur
yfirlæknirinn í því ljósi nauðsyn að A verði sviptur lögræði til tveggja ára. Í
vitnisburði sínum fyrir dómi staðfesti B yfirlæknir framangreint mat sitt.
Benti hún einnig á að þó svo að bráð hafi nokkuð af A upp á síðkastið væri
almennt ástand hans eftir sem áður slíkt að hann þyrfti stöðuga ummönnun og til
lengri tíma litið væri afar ósennilegt að hann fengi varanlegan bata.
Fyrir
dómi var kröfu sóknaraðila andmælt af hálfu varnaraðila. Vísaði lögmaður
varnaraðila til þess að hann hafi virst nokkuð viðræðugóður og lýst því að hann
væri ekki meðmæltur því að gripið yrði til ráðstafanna sem farið væri hér fram
á.
Að
framangreindu virtu, og einkum með hliðsjón af vottorði og framburði B
yfirlæknis, er það mat dómsins að varnaraðili búi við ástand er jafna megi til
alvarlegs geðsjúkdóms og sé af þeim sökum ófær að ráða persónulegum högum og
ósennilegt að á því verði breyting. Með vísan til d-liðar 2. mgr. 7. gr.
lögræðislaga nr. 71/1997, er það niðurstaðan að varnaraðili, A, verði sviptur
tímabundið lögræði til tveggja ára, bæði sjálfræði og fjárræði, með vísan til
4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, svo tryggja megi nauðsynlega læknismeðferð.
Samkvæmt
1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði kostnað af
málinu, þ.m.t. þóknun lögmanns sóknaraðila, Árna Ármanns Árnasonar hrl., sem og
skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., eins og í
úrskurðarorði greinir, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum
virðisaukaskatti.
Pétur
Dam Leifsson, settur héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili,
A, kt. [...], er sviptur lögræði, það er bæði sjálfræði og fjárræði, í 24
mánuði.
Kostnaður af málinu greiðist úr ríkissjóði og
þar með talið þóknun talsmanna aðila, Árna Ármanns Árnasonar hrl. og Brynjólfs
Eyvindssonar hdl., 150.000 kr. til hvors um sig, sem greiðist úr ríkissjóði, en
tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.