Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Kaupmáli
- Séreign
|
|
Miðvikudaginn 17. febrúar 2010. |
|
Nr. 16/2010. |
A B C D og E (Eiríkur Elís Þorláksson hrl.) gegn F (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Kaupmáli. Séreign.
A o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu F um að tilteknar eignir teldust séreign hans við skipti á dánarbúi eiginkonu hans. Stóð ágreiningur aðila um söluandvirði hlutabréfa í félagi, en með kaupmála höfðu hlutabréf í félaginu verið gerð að séreign F. Talið var nægilega fram komið að fjármunir sem lagðir hafi verið inn á fjárvörslureikning F hafi verið útborganir af viðskiptamannareikningi F hjá félaginu og verið endurgjald fyrir hlutabréf F. Var því fallist á að þessir fjármunir og arður af þeim væru séreign F. Þá þótti nægilega í ljós leitt að innborganir á fjárvörslureikninginn hafi verið vegna endurgreiðslu lána, en ekki hafi verið leiddar líkur að því að F og eiginkona hans hafi haft fjármuni til að leggja inn á reikninginn á þessum tíma. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að eignir í vörslusafni nr. 00.101106_0 á nafni hans hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væru séreign hans að frátalinni innborgun þann 10. júní 2007 að fjárhæð 1.000.000 króna og arði af henni. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila óskipt kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, A, B, C, D og E greiði óskipt varnaraðila, F, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2009.
Mál þetta barst dóminum 15. júní 2009 með bréfi skiptastjóra í dánarbúi G, sem lést [...]. Málið var þingfest 26. júní 2009 og tekið til úrskurðar 1. desember sl.
Sóknaraðili, F, krefst þess staðfest verði að eignir í vörslusafni nr. [...] á nafni sóknaraðila hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. séu séreign sóknaraðila. Að auki krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Varnaraðilar, D, E, C, A og B, krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefjast þau úr hendi sóknaraðila málskostnaðar og virðisaukaskatts af honum.
I.
Dánarbú G var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005. Sóknaraðili er eftirlifandi maki G en varnaraðilar börn hennar af fyrra hjónabandi. Ágreiningurinn lýtur að því hvort tilteknar eignir á fjárvörslureikningi á nafni sóknaraðila teljist séreignir hans við skiptin. Þar sem alger óeining er með málsaðilum um málsatvik að öðru leyti er ekki annað fært en að gera grein fyrir málsatvikalýsingu hvorra um sig sérstaklega.
II.
Sóknaraðili vísar til þess að þar sem ágreiningsefni þessa máls standi um söluandvirði hlutabréfa í félagi sem reki sögu sína til sjötta áratugar síðustu aldar hafi forsaga málsins þýðingu fyrir úrslit þess. Umrætt félag, H hf., hafi verið stofnað 18. júní árið 1955 af sóknaraðila og I. Hlutafé félagsins hafi í upphafi numið 150.000 krónum og hafi hlutur sóknaraðila numið 67.500 krónum eða 45% af heildarhlutafé. Sóknaraðili hafi verið kjörinn einn þriggja stjórnarmanna, auk þess sem hann hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Því starfi hafi hann gegnt allt til ársins 1990 er hann hafi látið af starfi framkvæmdastjóra en hafi starfað áfram sem stjórnaformaður félagsins. Félagið hafi því allt frá stofnun verið að hluta til í eigu sóknaraðila.
Við skilnað sóknaraðila og eiginkonu hans og barnsmóður árið 1963 hafi fjárskipti þeirra verið þannig að sóknaraðili hafi haldið eignarhluta sínum í fyrirtækinu en eiginkona hans fasteign þeirra og öðrum eignum.
Sóknaraðili og G hafi kynnst árið 1965. Þá hafi G verið ekkja með sex börn, þar af þrjú á heimili. Síðar hafi sóknaraðili flutt inn til G og þriggja barna hennar í þriggja herberga íbúð þeirra að [...]. Verkaskipting sóknaraðila og G hafi verið sú að hún gætti heimilis en sóknaraðili hafi rekið fyrirtæki sitt, H hf. og hafi þetta fyrirkomulag staðið allt frá því þau kynntust og þar til fyrirtækið var selt árið 1997.
Þann 4. ágúst 1982 hafi sóknaraðili og G gert með sér kaupmála og erfðaskrá. Kaupmálinn hafi átt að tryggja stöðu erfingja þeirra á þann hátt að allar eignir þeirra hjóna, fyrir utan hlutabréf í H hf., hafi átt að verða séreign G, en hlutabréf í H hf. hafi átt að verða séreign sóknaraðila. Þau mistök hafi þó verið gerð að hlutabréf í H hf. hafi einnig verið gerð að séreign G. Þessi mistök hafi ekki komið í ljós fyrr en Brynjólfur Kjartansson hrl., þáverandi lögmaður H hf., hafi bent sóknaraðila á mistökin árin 1990/1991 og hafi þá verið ákveðið að leiðrétta þau. Á svipuðum tíma hafi verið ákveðið að börn sóknaraðila myndu gera álíka kaupmála sem gerði bréf þeirra í H hf. að séreign þeirra.
Jafnframt hafi þær miklu deilur, sem orðið hafi um eignarhluta I og síðar J í fyrirtækinu, haft áhrif á ákvörðun sóknaraðila og G, en við andlát þessara feðga hafi í tvígang risið miklar deilur milli erfingja um eignarhluta þeirra í fyrirtækinu. Það hafi því verið vilji sóknaraðila og G að slíkt myndi ekki gerast félli annað þeirra frá eða kæmi til skilnaðar þeirra í milli.
Á árinu 1989 hafi K og L, börn sóknaraðila, keypt 55% hlutafjár í H hf., eða 507.500 krónur að nafnverði, en sá hlutur hafi verið í eigu J og konu hans M, en J lést snemma árs 1988. Hafi systkinin K og L áður verið eigendur 10% hlutar í félaginu hvor, eða samtals 20% hlutar.
Þann 30. maí 1991 hafi hlutafé félagsins verið fimmfaldað með útgáfu jöfnunarhlutabréfa, eða úr 1.050.000 krónum í 5.250.000 krónum. Eftir gerð kaupmála þann 28. júní 1991 hafi eigendahópur H hf. því verið eftirfarandi:
F 787.500 krónur 15,0%
L 1.968.750 krónur 37,5%
K 1.968.750 krónur 37,5%
N 525.000 krónur 10,0%
5.250.000 krónur 100%
Á árinu 1995 hafi H hf. leigt allan rekstur sinn til garðyrkjubænda og aðila tengdum Sölufélagi Garðyrkjumanna. Hafi reksturinn verið leigður inn í O ehf., kt. [...], sem hafi verið eignalaust og „tómt” félag með 1.000.000 króna hlutafé. Samhliða hafi nafni beggja félaga verið breytt og hafi fyrrnefnda félagið fengið nafnið P ehf. og síðarnefnda félagið nafnið H ehf. Hluti af tryggingum seljenda fyrir því að kaupendur stæðu við sinn hluta samningsins hafi meðal annars falist í því að sóknaraðili og K hafi verið skráðir hvor fyrir sínum 50% hlut í félaginu, en hafi jafnframt skuldbundið sig til þess að framselja þá á nafnverði 1.000.000 krónur til kaupenda rekstrarins þegar þeir hefðu staðið að fullu við samninginn. Leigusamningi hafi síðan verið breytt í kaupsamning árið 1997 og hafi sóknaraðili fengið 28.000.000 króna vegna eignarhluta síns í fyrirtækinu.
Sóknaraðili hafi því ekki verið raunverulegur hluthafi í H ehf. (áður O ehf.), heldur hafi hann verið skráður fyrir helming hlutafjárins sem tryggingu fyrir skilvísi kaupenda. Þetta félag hafi síðan keypt allt hlutafé í P ehf. Umrædd hlutabréf hafi ekki verið gerð að séreign sóknaraðila þar sem þau hafi aðeins staðið sem trygging fyrir því að sóknaraðili fengi fjármuni sína frá kaupanda.
Í janúar 1997 hafi sóknaraðili síðan selt allt hlutafé sitt í H hf., sem þá hafi heitið P ehf. Salan hafi farið fram í tvennu lagi: annars vegar til félagsins sjálfs fyrir rúmar 6.800.000 króna sem hafi verið greiddar að fullu með því að færa söluverðið á viðskiptareikning, meðal annars með því að gera upp fyrri úttektir úr félaginu og mismunurinn greiddur út og hins vegar með sölu til H ehf. þar sem hlutur sóknaraðila hafi verið greiddur með skuldabréfi til 54 mánaða.
Samkvæmt skattframtali 1996 hafi eignir þeirra hjóna í árslok 1995, fyrir utan fasteignir, verið bifreið og ríkisvíxill að fjárhæð 1.000.000 króna, krafa á hendur R að fjárhæð tæplega 6.000.000 króna vegna sölu til hans á fasteigninni að Q. Umræddur ríkisvíxill hafi verið keyptur af P ehf. á nafn sóknaraðila í lok ársins 1995 sem hluti af útgreiðslu úr félaginu til eigenda.
Samkvæmt skattframtali 1997 hafi eignir þeirra verið, samkvæmt lið 10.2, að fjárhæð 4.348.709 krónur, samkvæmt lið 10.3 að fjárhæð 7.064.109 krónur, en þar meðtalin sé krafan á hendur R. Samkvæmt lið 10.4, séu eignir að fjárhæð 5.997.235 krónur, þar af hlutabréf í P ehf., H ehf. og S ehf. auk hlutabréfa sem keypt voru í fjárvörslunni það ár í Jarðborunum hf., Flugleiðum hf., Eimskip hf. og Íslenska fjársjóðnum hf.
Ástæða þessara eignabreytinga, það er kaup á hlutabréfum, skuldabréfum og í sjóðum, hafi verið sú að í tengslum við arðgreiðslur og sölu á fyrrgreindum hlut í H hf. (P ehf.) hafi sóknaraðili ákveðið að koma andvirðinu í sérstaka fjárvörslu hjá Landsbréfum. Hafi hann notað til þess hluta af fjármunum er fengust úr sölu hlutabréfanna. Á árinu 1996 hafi sóknaraðili samið við Landsbréf um fjárvörslu og greitt, auk fyrrgreinds ríkisvíxils, samtals 5.860.000 krónur í peningum inn í fjárvörsluna sem sína séreign sem fjármögnuð hafi verið með greiðslum frá P ehf. Séreign G hafi verið sú sama og á fyrra ári.
Í skattframtali 1998 vegna ársins 1997 komi fram andvirði sölu á hlutabréfum í P ehf., sem hafi verið séreign sóknaraðila. Greiðslur af skuldabréfum vegna sölunnar á P ehf. til H ehf. hafi verið færðar mánaðarlega, frá ársbyrjun 1997 á fjárvörslureikning sóknaraðila hjá Landsbréfum, og allt fram í júní 2001 er skuldabréfin hafi verið að fullu greidd. Á árinu 1997 hafi verið lagt inn á fjárvörsluna vegna greiddra afborgana og vaxta af skuldabréfinu rúmar 6.500.000 króna, auk 1.000.000 króna innborgunar af söluandvirðinu sem staðgreitt var. Þannig hafi verið greiddar 6.860.000 krónur í peningum inn í fjárvörsluna árin 1996 og 1997 fyrir utan skuldabréfagreiðslurnar, sem sé sama fjárhæð og hafi numið söluverðinu til félagsins sjálfs. Að sögn sóknaraðila var eingöngu um fjárfestingar vegna andvirðis umræddrar sölu að ræða, þar eð aðrar eignir, sem hafi ekki verið miklar, hafi ekki verið lagðar inn í fjárvörsluna. Enn séu séreignir G þær sömu og fyrri tvö ár.
Á árinu 1998 hafi verið lagt inn á fjárvörslureikninginn vegna greiddra afborgana og vaxta af skuldabréfi vegna sölu á P ehf. tæpar 7.300.000 króna. Engar aðrar innborganir séu inn í fjárvörsluna það ár. Á árinu 1998 hafi ekki orðið neinar verulegar eignabreytingar fyrir utan kaup og sölu hlutabréfa í fjárvörslu sóknaraðila. Launatekjur þeirra hjóna fari óskertar, auk fleiri greiðslna, inn á bankabækur.
Á árinu 1999 hafi verið lagt inn á fjárvörslureikninginn vegna greiddra afborgana og vaxta af skuldabréfi vegna sölu á P ehf. rúmar 6.300.000 króna. Engar aðrar innborganir séu inn í fjárvörsluna það ár. Á árinu 1999 hafi einu breytingarnar, fyrir utan fjárvörsluviðskipti, verið sala sóknaraðila á hlutabréfum í S ehf., séreign hans, til K. Hafi þau bréf verið seld á markaðsverði, líkt og sóknaraðili hafi sýnt fram á. Hafi helmingur af andvirði þeirrar sölu farið til greiðslu skulda og framfærslu á árinu, en helmingur hafi verið ógreiddur í árslok og færður sem krafa í skattframtali. Ekkert af andvirði þessarar sölu hafi verið greitt inn á fjárvörslureikninginn.
Á árinu 2000 hafi verið lagt inn á fjárvörslureikninginn vegna greiddra afborgana og vaxta af skuldabréfi vegna sölu P ehf. rúmlega 7.700.000 krónur. Engar aðrar innborganir séu inn í fjárvörsluna það ár. Árið 2000 greiði sóknaraðili af fjárvörslureikningi sínum ábyrgðarskuld vegna C, samtals að fjárhæð 5.000.000 króna og sé sú krafa því séreign sóknaraðila, líkt og dánarbúið hafi þegar staðfest. Það sama ár hafi verið selt skuldabréf á R vegna sölu á fasteigninni að Q. Hafi andvirði skuldabréfsins, samtals að fjárhæð 5.948.858,30 krónur, farið inn á reikning T. Hafi hluti þeirrar fjárhæðar, samtals 5.000.000 króna, verið færður inn á reikning U.
Á árinu 2001 hafi verið lagt inn á fjárvörslureikninginn vegna greiddra afborgana og vaxta af skuldabréfi vegna sölu P ehf. rúmar 3.100.000 krónur og hafi þau skuldabréf þá verið að fullu greidd. Engar aðrar innborganir séu inn í fjárvörsluna það ár. Á árinu 2001 hafi þau hjón keypt bifreiðina [...] og hafi mismunur söluverðs fyrri bifreiðar og kaupverð nýrrar bifreiðar, samtals að fjárhæð 5.000.000 króna, verið tekinn af reikningi U þar sem andvirði af sölu skuldabréfs vegna Q hafi verið geymt.
Á árinu 2002 sé ekkert greitt inn á fjárvörslureikning sóknaraðila, en það ár sé bifreiðin [...] seld og bifreiðin [...] keypt. Greitt sé 1.030.000 krónum meira fyrir nýju bifreiðina en nemur söluverði þeirrar eldri og hafi sá mismunur verið greiddur úr fjárvörslu sóknaraðila.
Á árunum 2003 og 2004 sé ekkert greitt inn á fjárvörslureikninginn. Launagreiðslur þeirra hjóna árin 2003 og 2004 renni óskertar inn á bankabækur þeirra sem getið er á skattframtölum. Engar verulegar eignabreytingar eigi sér stað á árunum 2003 og 2004 en dánardagur G sé [...].
Með þessari skoðun á skattframtölunum telur sóknaraðili sýnt fram á að einu innborganir sem inntar hafi verið af hendi inn á fjárvörslureikning í nafni sóknaraðila hjá Landsbréfum hafi verið andvirði séreignar hans og hafi þær innborganir numið á árunum 1996-2001 rúmum 38.000.000 króna. Þessu til viðbótar hafi bæst við vextir og ávöxtun þeirra fjármuna sem í fjárvörslunni voru á hverjum tíma.
Sóknaraðili tekur fram að þar sem ávöxtun séreignar hans hjá Landsbréfum hafi ekki verið viðunandi frá árinu 2000 hafi verið ákveðið að færa hana yfir til Kaupthing Luxembourg.
Sóknaraðili ítrekar að fimm greiðslur hafi verið greiddar úr fjárvörslunni hjá Landsbréfum yfir á reikning í Kaupthing Luxembourg, tvær árið 2001 og þrjár árið 2003. Þessar þrjár hafi verið millifærðar á sama tíma en í mismunandi gjaldmiðlum.
Fyrsta greiðslan þann 24. janúar 2001 að fjárhæð 6.790.000 krónur og önnur greiðslan þann 1. febrúar 2001 að fjárhæð 3.210.000 krónur, eða samtals 10.000.000 króna, hafi verið lán til sonar sóknaraðila, K. Lánskjörin hafi verið þau að K hafi borið að endurgreiða fjárhæðina að tveimur árum liðnum og greiða 10% í vexti fyrir hvort lánsárið, eða samtals 2.000.000 króna. K hafi endurgreitt sóknaraðila 12.000.000 króna þann 8. janúar 2003 í samræmi við samning þeirra á milli inn á fjárvörslureikning sem stofnaður var í Lúxemborg.
Þriðja greiðslan, að fjárhæð 1.202.807 krónur (EUR 15.569,70) hafi verið greidd þann 24. febrúar 2003 inn á EUR reikning hjá Kaupþingi Lúxemborg, sú fjórða, að fjárhæð 22.697.080 krónur, hafi verið greidd þann 25. febrúar 2003 inn á umræddan fjárvörslureikning og sú fimmta, að fjárhæð 158.175 krónur (USD 2.025,81), hafi verið greidd þann 26. febrúar 2003 inn á USD reikning hjá Kaupþingi Lúxemborg. Reikningi sem var í EUR hafi verið lokað þann 11. apríl 2003 og innistæðan millifærð inn á umræddan fjárvörslureikning. Reikningi sem var í USD í Lúxemborg hafi verið lokað 2. apríl 2003 og innistæðan millifærð inn á umræddan fjárvörslureikning.
Samtals nemi greiðslurnar 36.058.062 krónum hafi verið greiddar inn til Kaupþings Lúxemborg á tímabilinu 8. janúar 2003 til 26. febrúar 2003. Staða eigna í lok árs 2003 hafi verið 41.576.899 krónur en í lok árs 2004 45.432.086 krónur. Hækkun milli ára sé því ávöxtun fjárins.
Af skattframtölum sjáist að tekjur sóknaraðila og G frá árinu 1996 til ársins 2003 hafi verið eftirfarandi:
Sóknaraðili G
1996 4.119.770 1.551.648
1997 493.331 373.331
1998 273.741 273.741
1999 0 0
2000 0 0
2001 0 0
2002 0 0
2003 842.358 842.358
Af þessu sjáist að þau hjón hafi ekki haft úr miklu að moða öðru en að ganga á sparnað og fjárvörslu séreignar sóknaraðila.
Til að auðvelda þeim hjónum lífið hafi börn sóknaraðila, L og K, farið að greiða mánaðarlega 110.000 krónur hvort, eða samtals 220.000 krónur, inn á bankareikning sóknaraðila og hafi sú fjárhæð verið notuð til framfærslu.
Því sé ljóst, að teknu tilliti til þess að hjónin hafi ferðast um það bil þrjá mánuði á hverju ári og hafi endurnýjað bíla sína reglulega, að þau hafi með óverulegum launatekjum sínum ekki getað staðið undir lífstíl sínum og lífsviðurværi. Þar sem þau hafi ekki haft aðrar tekjur hafi fyrrgreind aðstoð barna sóknaraðila, auk arðs af séreign hans, verið notuð til uppihalds.
Rök og málsástæður sóknaraðila fyrir aðalkröfu sinni eru þau helst að engin rök standi til annars en að þær fjárhæðir sem lagðar hafi verið inn á fjárvörslu sóknaraðila hjá Landsbréfum séu séreign hans, enda hafi þær allar verið afrakstur af sölu á hlutabréfum í H hf. sem hafi óumdeilanlega verið séreign sóknaraðila, sbr. erfðaskrá og breytingu á kaupmála dags. 28. júní 1991.
Í 75. grein hjúskaparlaga nr. 31/1993 segi:
Þetta sé svonefnd ígildisregla. Þess sé hvorki getið í kaupmála né fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda að aðrar reglur eigi að gilda um séreignir þeirra hjóna en fram komi í umræddri 75. grein hjúskaparlaga.
Það sé ekki eingöngu sú eign, sem ákveðin hafi verið séreign, sem falli þarna undir heldur einnig tekjur og arður af séreign. Hafi sú regla verið við lýði í íslenskum rétti að minnsta kosti frá lögum nr. 3/1900. Í raun falli séreign eingöngu niður sé andvirði hennar ráðstafað eða það renni saman við hjúskapareign og týnist þar og ekki sé lengur hægt að sérgreina umrædda eign eða arð af henni. Það eigi ekki við hér.
Það ætti því að vera óumdeilt að sú fjárhæð sem komið hafi í kjölfar sölu á hlutabréfum í H hf., og hafi farið beina leið inn á fjárvörslu sóknaraðila í Landsbréfum og þaðan beina leið inn í fjárvörslu sóknaraðila hjá Kaupþing Lúxemborg, sé séreign. Engin rök standi til annars enda sé framangreind 75. grein skýr hvað þetta varðar. Skiptastjóri í dánarbúi G sé sammála þessum skilningi, eins og fram komi í minnisblaði hans dagsettu 24. janúar 2008.
Þó hafi skiptastjóri og varnaraðilar haft efasemdir um að nokkrar greiðslur falli undir það að vera séreign sóknaraðila. Nánar tiltekið séu það eftirfarandi greiðslur inn og út af fjárvörslureikningi sóknaraðila:
1. Þann 6. febrúar 1996 ríkisvíxill að fjárhæð 1.000.000 króna.
2. Þann 6. febrúar 1996 innborgun að fjárhæð 2.860.000 krónur.
3. Þann 24. október 1996 innborgun að fjárhæð 3.000.000 krónur.
4. Þann 10. júní 1997 innborgun að fjárhæð 1.000.000 krónur.
5. Þann 31. maí 2000 eru greiddar út af fjárvörslureikningi 1.500.000 krónur sem endurgreiddar eru þann 12. október 2000.
6. Þann 24. janúar 2001 og 1. febrúar 2001 teknar út tvær fjárhæðir samtals að fjárhæð 10.000.000 króna.
Þar sem skiptastjóri og varnaraðili efist um að framangreindar greiðslur falli undir það að vera séreign sóknaraðila sé nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þær. Sóknaraðili áréttar að hluti kaupverðs H hf., skuldabréf að fjárhæð 21.359.599 krónur sem lagt var inn á fjárvörslu sóknaraðila hjá Landsbréfum, sé án nokkurs vafa séreign sóknaraðila.
1. Þann 6. febrúar 1996 ríkisvíxill að fjárhæð 1.000.000 króna.
Líkt og sóknaraðili hafi ítrekað útskýrt fyrir skiptastjóra og varnaraðilum þá hafi ekki verið ákveðið á einni nóttu að selja P ehf. hlutabréf að andvirði 7.300.000 króna þann 28. janúar 1997. Sú ákvörðun hafði verið tekin rúmu ári fyrr en samningur komist á, en beðið hafi verið með formlega skjalagerð þar til í janúar 1997 vegna skattalegra ástæðna.
Eigendur hlutabréfanna hafi tekið þá ákvörðun, eftir að fjármunir höfðu safnast saman hjá félaginu, að selja tiltekinn hluta hlutabréfa sinna til félagsins sjálfs, allt að því marki sem heimilt hafi verið samkvæmt lögum og hafi það verið skattfrjáls gjörningur. Ákveðið hafi verið að greiða strax úr félaginu vegna þessa ákveðnar fjárhæðir áður en kaupsamningur hafi formlega verið gerður og færa þær greiðslur sem skuld hluthafa á viðskiptamannareikning hluthafa hjá P ehf. Þannig hafi hluthafar fengið greiðslu fyrir hlutabréf sín, en kaupverð félagsins á umræddum bréfum hafi í kaupsamningi verið jöfnun á skuldastöðu á þessum sömu viðskiptareikningum seljenda hjá félaginu, kaupanda bréfanna.
Á grundvelli þessa hafi kaupverð hlutabréfanna verið greitt út til hluthafa fyrst með ríkisvíxli í lok árs 2005, sem færður hafi verið inn í fjárvörslu sóknaraðila þann 6. febrúar 1996; síðan þann 6. febrúar 1996 með greiðslu að fjárhæð 2.860.000 krónur; og að lokum þann 24. október 1996 með greiðslu að fjárhæð 3.000.000 króna eða samtals 6.860.000 krónur. Er að mati sóknaraðila sannað að greiðsla félagsins fyrir hlutabréf hans hafi verið þær greiðslur sem áttu sér stað úr félaginu til hans áður og greiddar voru inn á fjárvörslureikninginn, samanber framangreint.
Á þeim tíma sem þetta hafi verið gert hafi ekki verið ekki gert ráð fyrir því að 13 árum síðar myndi sóknaraðili eiga í deilum við börn G, varnaraðila málsins, um séreign sína. Þess vegna hafi farist fyrir að nefna þetta í kaupsamningi um hlutabréfin. Þrátt fyrir það telji sóknaraðili sannað að fyrrgreindar úttektir af viðskiptamannareikningi hans hjá H hf. hafi verið greiðsla vegna hlutabréfa hans í félaginu. Muni þetta og ástæður þessa verða útskýrðar af þeim vitnum sem sóknaraðili mun leiða fyrir dóminn.
2. Þann 6. febrúar 1996 innborgun að fjárhæð 2.860.000 krónur.
Sjá lið 1 hér að framan.
3. Þann 24. október 1996 innborgun að fjárhæð 3.000.000 krónur.
Sjá lið 1 hér að framan.
4. Þann 10. júní 1997 innborgun að fjárhæð 1.000.000 krónur.
Hvað varði innborgun þann 10. júní 1997 að fjárhæð 1.000.000 krónur þá hafi það verið greiðsla vegna kaupa H ehf. á umræddum hlutabréfum. Þar sem langt sé um liðið frá því þessi viðskipti hafi átt sér stað hafi bankagögn ekki fundist til staðfestingar á þessu. Því beri einnig að halda til haga að þann 17. október 2003 hafi greiðsla að fjárhæð 1.000.000 krónur farið úr fjárvörslu sóknaraðila inn á reikning nr. 63610 í Landsbanka íslands hf., en sá reikningur falli undir dánarbússkiptin.
5. Þann 31. maí 2000 eru greiddar út af fjárvörslureikningi 1.500.000 krónur sem endurgreiddar eru þann 12. október 2000.
Varðandi inn- og útfærslu að fjárhæð 1.500.000 krónur daganna 31. maí 2000 og 12. október 2000 þá hafi það verið lán til handa syni sóknaraðila, K, sem endurgreitt hafi verið þann 12. október 2000 með innborgun frá honum. Því sé augljóst að „slóð” séreignarinnar haldi, enda sé andvirði hennar notað í lán sem síðan sé endurgreitt. Sú fjárhæð renni því ekki saman við hjúskapareign sóknaraðila og G. Engin lagarök standi til annars en að lán sem þetta teljist séreign líkt og innlán til bankastofnunar viðheldur séreign.
6. Þann 24. janúar 2001 og 1. febrúar 2001 teknar út tvær fjárhæðir samtals að fjárhæð 10.000.000 króna.
Umræddar greiðslur út af fjárvörslu sóknaraðila hjá Landsbréfum, það er 6.790.000 krónur þann 24. janúar 2001 og 3.210.000 krónur þann 1. febrúar 2001 hafi verið lán til sonar sóknaraðila, K, sem K hafi síðan endurgreitt með 10% ársvöxtum þann 8. janúar 2003 inn á fjárvörslureikning sóknaraðila í Kaupþing Luxembourg í samræmi við samning þeirra á milli. Því er augljóst að „slóð” séreignarinnar haldi, enda sé andvirði hennar notað í lán sem síðan sé endurgreitt. Sú fjárhæð renni því ekki saman við hjúskapareign sóknaraðila og K.
Engin lagarök standi til annars en að lán sem þetta teljist séreign líkt og innlán til bankastofnunar viðheldur séreign. Lánin og arður af þeim séu séreign í samræmi við 75. grein hjúskaparlaga og túlkun dómstóla og fræðimanna á henni.
Með vísan til alls framangreinds, það er að sóknaraðili hafi sýnt fram á með fullnægjandi hætti slóð afraksturs séreignarinnar, telur sóknaraðili sönnunarbyrðina fyrir því að þau verðmæti sem fóru inn á fjárvörslu í Landsbréfum og þaðan í fjárvörslu í Kaupþing Lúxemborg, séu ekki séreign, hafa færst yfir á varnaraðila, sem sé í samræmi við kenningar fræðimanna á sviði hjúskaparréttar. Því beri að taka kröfur sóknaraðila að fullu til greina.
Um lagarök er einkum vísað til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962 og hjúskaparlaga nr. 31/1993, þá sérstaklega ákvæða fyrrgreindra laga sem vísað er til í greinargerð. Að auki er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
III.
Varnaraðilar mótmæla allri málsatvikalýsingu sóknaraðila sem rangri og ósannaðri. Telja þeir mestalla lýsingu atvika hugarburð sóknaraðila málsins sem leggi ekki neinar stoðir undir málatilbúnað hans. Þannig sé öllum hlutabréfaviðskiptum og einkum tilgangi og ráðstöfunum hverju sinni mótmælt. Hlutverki og stöðu sóknaraðila og nú látinnar konu hans á heimilinu og framlagi til hjónabandsins er mótmælt sem röngu og ósönnuðu sem og öllum öðrum lýsingum. Þá er mótmælt tilurð og framkvæmd meintra munnlegra samkomulaga og öðru sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila.
Af hálfu sóknaraðila sé því haldið fram að allar þær fjárhæðir sem lagðar hafi verið inn á fjárvörslu hans hjá Landsbréfum og síðar Kaupþingi í Lúxemborg skuli teljast séreign hans. Sú staðhæfing sé studd við að allar þær færslur hafi mátt rekja til sölu á hlutabréfum í H hf. sem óumdeilanlega hafi verið séreign sóknaraðila. Sóknaraðili vísi til 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 máli sínu til stuðnings. Varnaraðilar mótmæla því alfarið að nokkrir fjármunir hverju nafni sem nefnast í fjárvörslu hjá Kaupþingi í Lúxemborg séu í séreign sóknaraðila. Varnaraðilar mótmæla öllum kröfum, málsástæðum og staðhæfingum sóknaraðila meðal annars með eftirfarandi röksemdum:
Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að það ætti að vera óumdeilt að fjárhæð „sem kom í kjölfar sölu á hlutabréfum í H hf., fór beina leið inn á fjárvörslu sóknaraðila í Landsbréfum og þaðan beina leið inn í fjárvörslu sóknaraðila hjá Kaupþing Lúxemborg, sé séreign“. Varnaraðilar mótmæla því að hér sé um séreign að ræða. Sönnunarbyrðin um að svo sé hvíli á sóknaraðila sem hafi ekki tekist að sýna fram á það. Þá hafi séreign sóknaraðila á grundvelli erfðaskrár og kaupmála aðeins verið hlutabréf í H hf. og jöfnunarhlutabréf sem kynnu að vera gefin út í félaginu. Ekkert liggi fyrir um hvernig hlutafé í H hf. hafi aukist upp í þær fjárhæðir sem fjallað sé um í samningum, dags. 28. janúar 1997 og 29. janúar 1997, hvort það hafi yfir höfuð verið gert með jöfnunarhlutabréfum.
Þá hafi fyrstu færslur á fjárvörslu sóknaraðila verið framkvæmdar áður en farið hafi fram sala á þeim hlutabréfum sem tilgreind hafi verið séreign sóknaraðila samkvæmt kaupmála. Fyrstu færslur á fjárvörslu hjá Landsbréfum séu 6. febrúar 1996, þá tvær færslur, og ein færsla þann 24. október 1996.
Varnaraðilar mótmæla því að ríkisvíxill að fjárhæð 1.000.000 krónur sem keyptur hafi verið þann 28. desember 1995 hafi verið keyptur sem gagngjald fyrir hlutabréf í H hf. Ríkisvíxillinn hafi verið færður inn á fjárvörslu sóknaraðila þann 6. febrúar 1996. Sömu mótmæli séu færð fram vegna tveggja greiðslna inn á fjárvörslu, annars vegar 2.860.000 krónur þann 6. febrúar 1996 og hins vegar á 3.000.000 krónum þann 24. október 1996.
Sala á hlutabréfunum til P ehf. hafi ekki átt sér stað fyrr en í janúar 1997 og því séu ekki nein tengsl milli þeirrar eignar og framangreindra innlagna á fjárvörslu sóknaraðila. Röksemdir í greinargerð sóknaraðila lúti að atvikum sem sagt er að hafi átt sér stað fyrir samningsgerð, m.a. því að útgreiðsla á fjármunum út úr félaginu, áður en kaupsamningur hafi verið gerður, hafi verið liður í kaupunum. Framangreinda staðhæfingu þurfi að sanna en ekki hafa verið lögð fram fullnægjandi gögn í þá veru. Einu gögnin sem liggi fyrir um þessi atvik sé kaupsamningurinn frá því í janúar 1997 og hafi hann ótvírætt ríkara sönnunargildi en einhliða útskýringar sóknaraðila á atvikum fyrir samningsgerð. Í 2. gr. kaupsamningsins segi orðrétt: „Kaupverð hlutabréfanna greiðist með því að jafna skuldastöðu á viðskiptareikningum seljanda hjá kaupanda sem eru í samræmi við söluverð hlutabréfanna skv. 1. gr.“
Varnaraðilar vekja athygli á því að útskýringar sóknaraðila á færslum á 2.860.000 krónum og 3.000.000 króna í greinargerð séu ekki í samræmi við útskýringar í bréfi lögmanns sóknaraðila dags. 27. nóvember 2007 til skiptastjóra. Í bréfinu sé því haldið fram að á árunum 1995 og 1996 hafi sóknaraðili fengið ríflegan arð í formi launagreiðslna frá P ehf. án nokkurs vinnuframlags. Af skattalegum ástæðum hafi 25% þessara launagreiðslna verið skráðar á G þótt hún hefði hvorki unnið í þágu félagsins né átt tilkall til arðgreiðslu af hlut í félaginu. Engin gögn hafa verið lögð fram um þær staðhæfingar. Einu gögnin séu skattframtöl G heitinnar og sóknaraðila þar sem meintar arðgreiðslur séu tilgreindar sem laun.
Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili því ekki fært sönnur fyrir því að framangreindar fjárhæðir sem fóru í fjárvörslu hjá Landsbréfum hafi tengsl við séreign sóknaraðila samkvæmt kaupmála og skuli teljast til séreignar á grundvelli ígildisreglu hjúskaparlaga. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um að fjármunirnir teljist til séreignar hans.
Ennfremur er því mótmælt að innborgun að fjárhæð 1.000.000 króna inn á fjárvörslu sóknaraðila þann 10. júní 1997 skuli teljast til séreignar. Sóknaraðili hafi haldið því fram að sú fjárhæð hafi verið greiðsla til sóknaraðila vegna sölu á hlutabréfum í P ehf. Samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi dags. 28. janúar 1997 hafi ekki verið mælt fyrir um neina staðgreiðslu vegna viðskiptanna. Hafi sóknaraðili því ekki fært sönnur á að fjárhæðina megi rekja til séreignar hans og því beri að hafna kröfu hans um að fjárhæðin skuli teljast til séreignar á grundvelli ígildisreglunnar.
Þá er því mótmælt að sýnt hafi verið fram á að greiðsla inn á fjárvörsluna að fjárhæð 1.500.000 króna þann 12. október 2000 skuli teljast til séreignar. Þann 31. maí 2000 hafi verið greiddar út af fjárvörslureikningnum 1.500.000 króna en þann 12. október sama ár hafi sama fjárhæð verið greidd inn á reikninginn. Sóknaraðili hafi útskýrt færslurnar þannig að hún væri lán til handa syni sóknaraðila, K. Lánið hafi K endurgreitt sóknaraðila þann 12. október 2000. Grundvallarforsenda þess að ígildisreglu hjúskaparlaga sé beitt sé að hægt sé með skýrum hætti að rekja tengsl síðari eignar við frumeign. Hér hátti ekki svo til þar sem engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu sóknaraðila í þá veru og sé því á því byggt af hálfu varnaraðila að hafna beri kröfu um að framangreind fjárhæð skuli teljast til séreignar hans.
Þá er því mótmælt að um séreign sé að ræða í tilviki þeirra 12.000.000 króna sem greiddar voru inn á fjárvörslureikning sóknaraðila hjá Kaupþingi í Lúxemborg þann 8. janúar 2003. Sóknaraðili haldi því fram að um séreign sé að ræða þar sem hann hafi með tveimur úttektum af fjárvörslu hjá Landsbréfum, annars vegar 6.790.000 krónur þann 24. janúar 2001 og hins vegar 3.210.000 krónur þann 1. febrúar 2001, samtals 10.000.000 krónur, veitt syni sínum, K, lán. K hafi síðan endurgreitt þá fjárhæð með 10% ársvöxtum þann 8. janúar 2003 inn á fjárvörslu sóknaraðila hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Af hálfu sóknaraðila hafi ekki verið lögð fram nein gögn framangreindu til staðfestingar. Vísað er til röksemda varðandi lán að fjárhæð 1.500.000 króna til K, sem raktar séu hér að framan og lúti að því að rekja megi með skýrum hætti tengsl ígildis við frumeign. Sama eigi við varðandi þennan lið, sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að umrædd fjárhæð skuli teljast séreign.
Eins og að framan hafi verið rakið um tilgreindar færslur á fjárvörslu sóknaraðila, fyrst hjá Landsbréfum en síðar hjá Kaupþingi í Lúxemborg, hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að þau tengsl séu á milli fjármunanna og frumeignar, þ.e. séreignar hans samkvæmt kaupmála dags. 28. júní 1991, að líta verði svo á að umræddar fjárhæðir falli undir ígildisreglu hjúskaparlaga. Hjúskapareignatilhögun sé hin almenna skipan á fjármálum hjóna og hafi því verið talið að sá sem haldi því fram að eign sé ekki hjúskapareign hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Sönnunarbyrði um að framangreindar færslur á fjárvörslu sóknaraðila skuli teljast séreign hans hvílir alfarið á sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn eða gert líklegt með öðrum hætti að um séreign hafi verið að ræða sem leiða skuli til þess að sönnunarbyrði skuli færast yfir á varnaraðila.
Með vísan til alls framangreinds telja varnaraðilar það blasa við að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að tilgreindar færslur skuli teljast til séreignar hans og beri því að hafna öllum kröfum hans þar að lútandi.
Um lagarök er einkum vísað til 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
K, sonur sóknaraðila, bar vitni fyrir dómi. Hann bar að farið hefði verið að huga að sölu fyrirtækisins H hf. árið 1995. Á þeim tíma hafi þó ekki verið grundvöllur til að selja þar sem væntanlegur kaupandi hafi þá ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess. Því hafi verið ákveðið að leigja honum fyrirtækið árið 1995 í tvö ár. Á seinna árinu hafi aðstæður breyst, kaupendur hafi fengið fjármagn og skattabreytingar hafi verið í sjónmáli. Þá hafi verið ákveðið að fara aftur í söluferil og hafi fyrirtækið síðan verið selt árið 1997.
Frá upphafi viðræðna hafi verið ljóst að fyrirtækið yrði selt þeim aðilum sem að lokum keyptu það. Hafi það verið gert með þeirri aðferð sem greinir í kaupsamningi og hafi verið kölluð Lúxemborgaraðferðin sem hafi verið óþekkt hér á þeim tíma. Hún gerði aðilum kleift að kaupa félög þó þeir hefðu ekki fjárhagslega burði til þess. Þetta hafi bara verið upphafið að því að kaupendurnir gætu tekið yfir fyrirtækið og samlegðaráhrif þess færu að virka strax. Tekið hafi sex mánuði að ljúka sölunni.
Vitnið kvaðst ekki vita hvernig hlutur sóknaraðila samkvæmt þessum kaupsamningi var greiddur. Undirbúningur sölunnar hafi verið unninn af Pétri Guðmundarsyni lögmanni og Stefáni Franklín endurskoðanda.
Útborgun af hinum umdeilda fjárvörslureikningi 31. maí 2000 og innborgun 12. október bar vitnið að væri lán frá sóknaraðila til vitnisins. Um þetta lán séu ekki til neinir skriflegir samningar. Þeir feðgar hafi lánað hvor öðrum í gegnum tíðina án þess að gera um það skriflega samninga þegar fjárhæðir hafi ekki verið hærri en þetta.
Útborganir af fjárvörslureikningi, samtals að fjárhæð 10.000.000 króna, inntar af hendi 24. janúar 2001 og 1. febrúar sama ár, hafi einnig verið lán sóknaraðila til vitnisins. Hafi samist um að vitnið endurgreiddi þetta lán að tveimur árum liðnum. Öll fjölskyldan, sem hafi fengið greiðslur úr hlutabréfum H hf., hafi stofnað fjárvörslureikning hjá Landsbréfum. Ávöxtunin þar hafi þó verið mjög rýr. Vitnið kvaðst hafa verið ósátt við ávöxtun á fjárvörslu sinni hjá Landsbréfum og því flutt sín viðskipti til Kaupþings í Lúxemborg þar sem vitnið hafi fengið mun betri ávöxtun og hafi nefnt við sóknaraðila að aldrei fengist undir 10% ávöxtun í Lúxemborg. Sóknaraðili hafi hinsvegar verið með neikvæða ávöxtun hjá Landsbréfum. Vitnið hafi þá stungið upp á því að það endurgreiddi sóknaraðila lánið með 10% vöxtum og hvatti sóknaraðila til að færa fjárvörslu sína til Kaupþings í Lúxemborg.
Um þetta lán hafi sóknaraðili og vitnið gert skriflegt samkomulag dags. 16. janúar 2001. Það hafi síðan verið greitt með 10% vöxtum eins og um hafi verið samið. Vitnið hafi opnað fjárvörslureikning í Lúxemborg fyrir sóknaraðila og hafi greitt skuld sína inn á þann reikning. Frá þeim tíma hafi sóknaraðili ávaxtað fé sitt þar.
Vitnið Stefán Franklín, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, bar fyrir dómi að hann hefði hafið störf fyrir H hf. um 1980 og hafi verið endurskoðandi fyrirtækisins til 1988 en þá hafi orðið eigendaskipti að fyrirtækinu, hafi fyrirtækinu verið skipt upp. Fjölskylda J hafi tekið félag að nafninu S en F og hans fjölskylda fyrirtækið H hf. Vitnið hafi haldið áfram að vera endurskoðandi S en Sigurður Pálmi Sigurðsson hafi orðið endurskoðandi H hf. Í framhaldi af þessu hafi vitnið komið að samningum þegar rekstur H hf. var leigður til Sölufélags Garðyrkjumanna 1995 og síðan aftur þegar hlutabréf í H hf. voru seld. Hafi verið unnið í því á árinu 1996 og 1997 hafi endanlega verið gengið frá samningnum. Hafi vitnið komið að skjalagerð og ákvörðun um það hvernig viðskiptin skyldu fara fram.
Sérstaklega spurt um kaupsamning dags. 28. janúar 1997 um hlutabréf í P ehf. (áður H hf.) þar sem 24,333% í félaginu eru seld félaginu sjálfu með jöfnun skuldastöðu seljenda á viðskiptamannareikningum sagði vitnið að þegar leigusamningarnir við Sölufélagið hafi verið gerðir árið 1995 þá hafi greiðslur farið inn í P ehf. og hafi þar safnast upp töluverðir peningar. Þaðan hafi verið greidd laun til eigenda og einnig greiddar upphæðir inn á viðskiptareikninga hluthafanna sem hafi safnast upp. Á árinu 1996 hafi verið ákveðið, til þess að jafna út úttektir hluthafanna af þessum reikningum, að hluthafarnir seldu hlutabréfin til félagsins.
Sóknaraðili hafi fengið frá félaginu samtals 3.860.000 krónur í febrúar 1996. Annarsvegar með 1.000.000 króna víxli og hinsvegar 2.860.000 krónum í peningum og síðan 3.000.000 króna í október 1996. Ákvörðun um að selja bréfin til félagins með þeim hætti að jafna út stöðu á viðskiptamannareikningi hafi verið tekin haustið 1996. Þá hafi legið fyrir að skattalögum yrði breytt árið 1997 og söluhagnaður hlutabréfa yrði meðhöndlaður með öðrum hætti. Sölufélagið hafi verið að ræða við hluthafana um það að Sölufélagið vildi fara út úr leigusamningi og kaupa frekar félagið og allan rekstur þess. Viðræður við Sölufélagið hafi þegar verið hafnar um haustið 1996 þess efnis að ganga þannig frá viðskiptunum að hlutabréfin yrðu seld í stað þess að reksturinn væri leigður. Það hafi fyrst og fremst verið af skattalegum ástæðum að undirritun kaupsamningsins hafi verið dregin fram yfir áramót 1996 og 1997.
Spurt um eftirlaunasamning sóknaraðila, sem getið sé í drögum að samkomulagi dags. 10. febrúar 1995 kvaðst vitnið ekki vita til þess að sá eftirlaunasamningur hefði verið gerður. Þegar hlutabréf í P ehf. hafi verið seld hafi komið fram að Sölufélagið vildi ekki hafa neina ábyrgð á skuldbindingum eins og eftirlaunasamningi. Því hafi aldrei reynt á það hvort þessi eftirlaunasamningur væri til staðar og hafi hann því ekki verið hluti af viðskiptunum.
Vitnið bar að hluthafar í P ehf. hafi í raun verið búnir, á árinu 1996, að taka út þær fjárhæðir sem tilgreindar séu í kaupsamningnum frá 28. janúar 1997. Greiðsla upp á 6.860.000 krónur hafi verið fjárhæð sem færð hafi verið á viðskiptareikning sóknaraðila og söluverðið hafi byggt á þeirri tölu. Allir hluthafarnir hafi verið búnir að taka út þessar fjárhæðir á árinu 1996. Til þess að slétta þær út hafi hlutirnir verið seldir til félagsins.
Vitnið kvaðst hafa komið að því að opna fjárvörslu fyrir sóknaraðila hjá Landsbréfum í febrúar árið 1996. Það hafi verið gert til þess að halda utan um söluverð á þessum hlutabréfum til þess að þeir fjármunir væru á einum stað. Á árinu 1996 hafi sóknaraðili og G, með aðstoð Péturs Guðmundarsonar, breytt kaupmála sínum og erfðaskrá. Þar sem gera hafi mátt ráð fyrir að eignir beggja væru verðmætar hafi menn viljað hafa aðskilnaðinn skýran í kaupmálanum. Ákveðið hafi verið að hlutabréfasalan yrði öll færð á sérstaka fjárvörslu. Vitnið hafi því farið með sóknaraðila í Landsbréf og hafi aðstoðað hann við að stofnað fjárvörsluna. Tilgangurinn hafi verið að inn á þessa fjárvörslu færi einungis endurgjald fyrir sölu á hlutabréfum í H hf. Inn á þessa fjárvörslu hafi farið greiðslur fyrir skuldabréf sem Sölufélagið hafi greitt 6,8 milljónir og greiðslur af skuldabréfum sem Sölufélagið hafi greitt mánaðarlega eða á þriggja mánaðafresti. Taldi vitnið að annað hefði ekki farið inn á reikninginn, en kvaðst þó ekki hafa fylgst með því.
Sigurður Pálmi Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi, bar fyrir dómi að hann hafi séð um skattframtöl fyrir G heitna og sóknaraðila frá árinu 1983 og til þessa dags. Hann hafi verið endurskoðandi fyrir H hf. og síðar P ehf. frá 1988 eða 1989. Hann kvaðst þekkja ágætlega fjárhagsmálefni hjónanna og félagsins.
Vitnið kvaðst hafa unnið yfirlit yfir lífeyri til framfærslu og reksturs eigna G og sóknaraðila, sem liggur frammi í málinu. Kvað hann yfirlitið unnið samkvæmt skattframtölum áranna 1996, 1997, 1998, vegna tekjuáranna 1995, 1996 og 1997. Í skjalinu séu ekki teknar með eignir sem hafi verið á fjárvörslusamningi við Landsbréf. Þetta séu því þær eignir sem taldar hafi verið hjúskapareignir. Í fyrstu séu teknar launatekjur að frádregnum sköttum, síðan teknar aðrar tekjur svo sem vaxtatekjur af bankainnistæðum eða skuldabréfaeign. Skuldabréfaeign sem tilgreind sé í skjalinu sé vegna sölu á íbúð í Q og síðan sala á skuldabréfum til H ehf.
Að teknu tilliti til tekna og eignabreytinga þá megi sjá að lífeyrir til framfærslu og reksturs á fasteignum, bifreiðum og sumarbústað nemi að meðaltali rúmum tveimur milljónum á ári þessi þrjú ár. Ef hefði átt að ráðstafa söluandvirði séreignarinnar inn á fjárvörslu sem sé 7.860.000 krónur þá sé lífeyririnn neikvæður. Hefði því verið útilokað að greiða inn á fjárvörsluna af sjálfsaflafé og af tekjum af eignum.
V.
Að mati varnaraðila ber að vísa þessu máli frá dómi án kröfu þar sem kröfugerð sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði laga. Ekkert liggi fyrir um hver staðan á vörslusafni á nafni sóknaraðila sé nú. Dómkrafa í þessu máli verði að vera þannig að staðfest sé að tilteknir fjármunir sem sóknaraðili tilgreindir í greinargerð sinni sem séreign, til dæmis að andvirði skuldabréfs í P ehf., séu séreign.
Í málinu er þess krafist að tilteknu safni eigna sé haldið utan skipta eftir skammlífari maka þar sem eignasafnið sé í einkaeigu hins langlífari. Þess er nánar tiltekið krafist að staðfest verði að eignir í vörslusafni nr. [...] á nafni sóknaraðila hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. séu séreign sóknaraðila. Að mati dómsins eru þau réttindi sem krafist er viðurkenningar á nægilega skýrt afmörkuð til þess að dómur verði lagður á kröfuna og jafnframt er þessi kröfugerð nægilega ákveðin og ljós til þess að hægt sé að taka hana upp óbreytta sem niðurstöðu í dómsmáli, séu efnisleg skilyrði á annað borð fyrir þeim málalokum. Málinu verður því ekki vísað frá dómi.
Varnaraðilar fallast á að eignarhlutur sóknaraðila í H hf. að nafnvirði 787.500 króna hafi verið séreign hans svo og jöfnunarhlutabréf sem kynnu að hafa verið gefin út. Varnaraðilar mótmæla því að sönnur hafi verið færðar fyrir því að jöfnunarhlutabréf hafi verið gefin út í félaginu. Til sönnunar útgáfu jöfnunarhlutabréfanna vísar sóknaraðili til framlagðra skattframtala en samkvæmt skattframtali ársins 1996 fyrir árið 1995 voru gefin út jöfnunarhlutabréf í P ehf. (áður H hf.) og nam nafnverð hlutar sóknaraðila 3.712.500 krónum.
Sannað þykir með skattframtali sóknaraðila 1996 fyrir árið 1995 að gefin hafi verið út jöfnunarhlutabréf í félaginu P ehf. Jafnframt að hlutdeild sóknaraðila í þeim hafi numið 3.712.500 krónum að nafnvirði. Óumdeilt er að sóknaraðili átti fyrir hlutabréf í fyrirtækinu að nafnvirði 787.5000 krónur. Því er fallist á að sóknaraðili hafi átt hlutabréf í P ehf. að nafnvirði 4.500.000 krónur í árslok 1995 og að þau hafi verið séreign hans.
Svo sem áður er greint seldu sóknaraðili og börn hans hlutabréf sín í H hf. í janúar 1997. Þann 28. janúar seldu þau 24,333% hlutafjárins til P ehf. Þann 29. janúar seldu þau 75,667% sem eftir stóðu til H ehf. Þessir hlutir voru á söludegi orðnir allir hlutir seljenda í félaginu eða 100%. Því verður ekki fallist á það með varnaraðilum að 24,333% hlutafjár hafi verið seld tvisvar, fyrst P ehf. og aftur daginn eftir H ehf.
Vitnið Stefán Franklín bar að á þeim tíma þegar fyrirtækið P ehf. var leigt til Sölufélags Garðyrkjumanna hafi safnast fé á reikningum hluthafa hjá fyrirtækinu, þ.e.a.s. krafa fyrirtækisins á hluthafana. Á árinu 1996 hafi Sölufélagið rætt það við hluthafana að fara út úr leigusamningnum og kaupa frekar félagið og allan rekstur þess. Á því ári hafi allir hluthafar í P ehf. tekið út þær fjárhæðir sem tilgreindar séu í kaupsamningnum frá 28. janúar 1997. Greiðsla að fjárhæð 6.860.000 krónur hafi verið færð á viðskiptareikning sóknaraðila hjá félaginu og hafi söluverðið byggt á þeirri tölu. Til þess að slétta út þessar útborganir hafi hlutirnir verið seldir til félagsins. Þá um haustið hafi legið fyrir að skattalögum yrði breytt árið 1997. Það hafi því fyrst og fremst verið af skattalegum ástæðum að undirritun kaupsamningsins hafi verið dregin fram yfir áramót 1996 og 1997 en þann 1. janúar 1997 komu til framkvæmda lög um 10% fjármagnstekjuskatt.
Það þykir nægilega fram komið í málinu, meðal annars með framburði vitnisins Stefán Franklín að þeir fjármunir sem lagðir voru inn á fjárvörslu sóknaraðila hjá Landsbréfum á árinu 1996, alls að fjárhæð 6.856.000 krónur, hafi verið útborganir af viðskiptamannareikningi sóknaraðila hjá P ehf. og hafi því, vegna skuldajöfnunar, verið endurgjald frá P ehf. fyrir hlutabréf sóknaraðila í félaginu sem kaupsamningur dags. 28. janúar 1997 snýst um. Af þeim sökum er fallist á að þessir fjármunir og arður af þeim séu séreign sóknaraðila.
Sóknaraðili hefur hvorki með gögnum eða á annan hátt sýnt fram á að innborgun þann 10. júní 1997 að fjárhæð 1.000.000 sé endurgjald fyrir sölu hlutabréfa í P. Að mati dómsins er því ekki unnt að fallast á að sá hluti vörslusafns nr. [...] á nafni sóknaraðila hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sé séreign sóknaraðila.
Með framburði vitnisins K, sonar sóknaraðila, þykir nægjanlega í ljós leitt að fjárhæð sem nam 1.500.000 krónum og var greidd út úr fjárvörslunni 31. maí 2000 og endurgreidd 12. október sama ár hafi verið lán sóknaraðila til vitnisins. Því verður fallist á að sú fjárhæð sem greidd var inn á fjárvörsluna 12. október 2000, og arður af henni, sé séreign sóknaraðila.
Ennfremur þykir nægjanlega í ljós leitt með framburði vitnisins K að greiðslur, samtals að fjárhæð 10.000.000, sem fóru út af fjárvörslu sóknaraðila 24. janúar og 1. febrúar 2001 en komu inn á áðurnefnt vörslusafn sóknaraðila hjá Kaupþingi í Lúxemborg þann 8. janúar 2003, þá samtals 12.000.000 krónur, hafi verið lán sóknaraðila til vitnisins. Ekki hafa verið leiddar sérstakar líkur að því af hálfu varnaraðila að sóknaraðili og kona hans hafi á þessum tíma haft fjármuni til að leggja slíkar fjárhæðir inn á fjárvörslureikninginn og verður hafnað málsástæðu þeirra um að um slíkt hafi verið að ræða varðandi nefnda greiðslu 8. janúar 2003.
Að öllu framangreindu virtu, með vísan til gagna málsins og alls málatilbúnaðar aðila, verður það því niðurstaða málsins að fallist er á að eignir í tilgreindu vörslusafni sóknaraðila hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. séu séreign hans, þó að frátalinni innborgun þann 10. júní 2007 að fjárhæð 1.000.000 og arði af henni.
Eftir atvikum þykir rétt að varnaraðilar greiði sóknaraðila óskipt málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000, þar með talinn virðisaukaskattur.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, F, um að eignir í vörslusafni nr. [...] á nafni sóknaraðila hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. séu séreign sóknaraðila að frátalinni innborgun þann 10. júní 2007 að fjárhæð 1.000.000 króna og arði af henni.
Varnaraðilar, D, E, C, A og B, greiði sóknaraðila óskipt 300.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.