Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Réttindaröð
  • Endurgreiðslukrafa


                                     

Fimmtudaginn 22. mars 2012.

Nr. 112/2012.

Landsbanki Íslands hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Endurgreiðslukrafa.

Hinn 7. október 2008 var fjármálafyrirtækinu LÍ hf. skipuð skilanefnd samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, sem fór með allar heimildir félagsstjórnar og öll málefni þess. Var LÍ hf. tekið til slita 22. apríl 2009 samkvæmt sérreglum laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009. Eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 voru inneignir og helstu eignir sem tengdust innlendri starfsemi LÍ hf. fluttar til L hf., þ. á m. dótturfélag LÍ hf., LV hf. Samkomulag tókst síðar um uppgjör milli LÍ hf. og LV hf. vegna viðskipta þeirra, en við uppgjörið 7. nóvember 2008 var LÍ hf. ofgreidd tiltekin fjárhæð. Deila málsaðila laut einungis að því hvar í réttindaröð bæri að skipa þeirri kröfu L hf. við slit LÍ hf. Talið var að jafna mætti aðstöðu LÍ hf. á tímabilinu 7. október 2008 til 22. apríl 2009 við það að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi þess. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar hefði LÍ hf. borið að endurgreiða hina ofgreiddu fjárhæð. Var kröfu L hf. því skipað í réttindaröð við slit LÍ hf. sem búskröfu samkvæmt 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi þann dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2012, þar sem kröfu varnaraðila að fjárhæð 7.118.537.667 krónur var skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem sértökukröfu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að  kröfu hans verði skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem búskröfu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila 7. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Fór hún samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, með allar heimildir félagsstjórnar og öll málefni sóknaraðila, þar á meðal með rekstur hans og umsjón eigna. Voru öll málefni sóknaraðila þannig sett undir skilanefndina, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og var samkvæmt heiti sínu ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila sóknaraðila. Að því virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011 verður að líta svo á að á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009, er sóknaraðili kom til slita samkvæmt sérreglum laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, hafi sóknaraðili verið í aðstöðu sem leggja má að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar tilkall annarra á grundvelli eignarréttinda til peninga í vörslum hans og mat á því tímamarki sem við er miðað í 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 voru innlendar inneignir og helstu eignir, sem tengdust innlendri starfsemi sóknaraðila, fluttar yfir til NBI hf., sem síðar fékk heiti varnaraðila. Meðal þeirra eigna var dótturfélag sóknaraðila, Landsvaki hf., sem rekið hafði verðbréfa- og fjárfestingarsjóði, en sjóðirnir höfðu meðal annars fjárfest í skuldabréfum, útgefnum af sóknaraðila, og ýmsum afleiðusamningum.

Fjármálaeftirlitið beindi 17. október 2008 þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að slíta öllum peningamarkaðssjóðum og greiða út eignir í formi innlána. Í framhaldi af því sendi Landsvaki hf. 25. sama mánaðar skilanefnd sóknaraðila tillögu að uppgjöri vegna viðskipta sóknaraðila við hinn fyrrnefnda á árinu 2008. Náðist samkomulag milli Landsvaka hf. og skilanefndar sóknaraðila um að kröfur félagsins samkvæmt skuldabréfum á hendur sóknaraðila samtals að fjárhæð 7.118.537.667 krónur kæmu til skuldjafnaðar við kröfu sóknaraðila á hendur því vegna afleiðuskuldbindinga að fjárhæð 19.074.333.991 króna.

Skuldbindingar Landsvaka hf. við sóknaraðila voru að fullu greiddar með afhendingu skuldabréfa 28. október 2008 og peningagreiðslu 7. nóvember sama ár. Þau mistök urðu hins vegar af hálfu varnaraðila við uppgjörið að sóknaraðila voru ofgreiddar 7.118.537.667 krónur og er það óumdeilt. Lýtur ágreiningur málsaðila  eingöngu að því hver sé staða kröfu varnaraðila um endurheimtu þeirrar fjárhæðar við slit sóknaraðila.

Eins og áður greinir var sóknaraðili frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 í aðstöðu sem í því efni er hér um ræðir má leggja að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans. Krafa varnaraðila í máli þessu varð til 7. nóvember 2008 þegar framangreind mistök urðu í skuldauppgjöri aðila. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar bar sóknaraðila að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var, en gerði ekki. Í ljósi eðlis kröfu varnaraðila og ofangreinds samkomulags um skuldauppgjör telst krafa varnaraðila búskrafa og verður skipað í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila  kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Krafa varnaraðila, Landsbankans hf., að fjárhæð 7.118.537.667 krónur, skal njóta stöðu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 800.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2012.

Málsmeðferð, aðild og kröfur

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., slitastjórn 29. apríl 2009. Slitastjórn gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Sóknaraðili, Nýi Landsbanki Íslands hf. (NBI hf.), nú Landsbankinn hf., lýsti tveimur kröfum á hendur varnaraðila. Önnur krafan, merkt nr. 1177 í kröfuskrá, að fjárhæð 7.118.537.667 krónur, var vegna ofgreiðslu sóknaraðila í tengslum við samkomulag um fjárhagslegt uppgjör milli skilanefndar varnaraðila og Landsvaka hf., dagsett 25. október 2008. Var þess krafist að krafan nyti stöðu sem sértökukrafa í samræmi við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Hin krafa sóknaraðila, merkt nr. 1234 í kröfuskrá, að fjárhæð 55.000.000.000 króna, var vegna uppgjörs milli aðila í tengslum við ráðstöfun á tilteknum eignum og skuldum frá varnaraðila til sóknaraðila í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Krafðist sóknaraðili þess að sú krafa nyti stöðu sem búskrafa í samræmi við 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Slitastjórn hafnaði báðum kröfunum, þeirri fyrri með þeim rökum að ofgreiðsla uppfyllti ekki skilyrði þess að vera sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, en hinni síðari vegna vanreifunar. Mótmælti sóknaraðili afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 22. september 2010.

Í bréfi slitastjórnar til dómsins er tekið fram að auk sóknaraðila og varnaraðila eigi aðild að málinu ýmsir kröfuhafar, sem allir séu umbjóðendur lögmannsstofunnar Réttar, en þeir hafi mótmælt því að krafa sóknaraðila yrði viðurkennd sem forgangskrafa. Í þinghaldi 10. júní 2011 drógu síðastgreindir aðilar mótmæli sín til baka og féllu um leið frá aðild sinni að málinu. Aðilar málsins eru því þeir sem að ofan greinir.

Í þinghaldi 14. nóvember sl. var lagt fram þríhliða samkomulag milli sóknaraðila, varnaraðila og Landsvaka hf. Fól það m.a. í sér að aðilar voru sammála um að leggja þar tilgreindar fjárhæðir til grundvallar við uppgjör skuldbindinga þeirra í millum. Jafnframt féll sóknaraðili þar frá kröfu nr. 2 í greinargerð sinni til dómsins, en sú krafa svaraði að hluta til kröfu hans nr. 1234 í kröfuskrá, sbr. hér að framan, svo og þrautavarakröfu sinni samkvæmt sömu greinargerð. Varnaraðili hélt aftur á móti við kröfur sínar samkvæmt greinargerð, að því þó frátöldu að hann samþykkti kröfu sóknaraðila að fjárhæð 7.118.537.667 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Við upphaf aðalmeðferðar féll varnaraðili síðan frá kröfu sinni um viðurkenningu á skuldajöfnuði, sem hann hafði áður sett fram í greinargerð sinni. Endanlegar kröfur aðila eru því sem hér segir:

Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að krafa hans að fjárhæð 7.118.537.667 krónur, sem lýst var fyrir slitastjórn varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 30. október 2009, sé sértökukrafa í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að krafa sóknaraðila að fjárhæð 7.118.537.667 krónur, sem lýst var fyrir slitastjórn varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 30.október 2009, sé búskrafa í skilningi 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar, ásamt virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að skaðlausu.

Málið var tekið til úrskurðar 26. janúar sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Á grundvelli heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008, vék stjórn bankans frá og skipaði honum skilanefnd. Sama dag var sóknaraðili, áður NBI hf., stofnaður. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október sama ár voru innlendar inneignir og helstu eignir sem tengdust innlendri starfsemi varnaraðila fluttar yfir til sóknaraðila. Meðal þeirra eigna var dótturfélag varnaraðila, Landsvaki hf., sem rekið hafði verðbréfasjóði í ýmsum deildum í samræmi við lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Höfðu sjóðirnir m.a. fjárfest í skuldabréfum, útgefnum af varnaraðila, sem og ýmsum afleiðusamningum. Landsvaki hf. er nú dótturfélag sóknaraðila.

Fjármálaeftirlitið beindi þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða 17. október 2008 að slíta öllum peningamarkaðssjóðum og greiða út eignir í formi innlána. Í kjölfarið, 25. sama mánaðar, sendi Landsvaki hf. skilanefnd varnaraðila erindi með tillögu að uppgjöri vegna viðskipta varnaraðila við Landsvaka hf. á árinu 2008. Aðilar eru sammála um að á þeim tíma hafi heildarskuldbindingar Landsvaka hf. við varnaraðila verið 19.074.333.991 króna, og að Landsvaki hf. hafi á sama tíma átt skuldabréf á hendur varnaraðila, alls að fjárhæð 7.118.537.667 krónur. Samkomulag náðist milli Landsvaka hf. og skilanefndar varnaraðila um uppgjör á hluta af þessum skuldbindingum, og var þar gert ráð fyrir að hluti skuldanna greiddist með skuldajöfnuði. Sóknaraðili hafði milligöngu um uppgjörið og sá um framkvæmd færslna, sem fór þannig fram að sóknaraðili færði fjármuni á uppgjörsreikninga og þaðan áfram til viðtakanda hverju sinni. Greiðslur frá Landsvaka hf. að fjárhæð 19.074.333.991 króna til uppgjörs afleiðuskuldbindinga voru skuldfærðar af innlánsreikningum á tímabilinu 28. október til 7. nóvember 2008.

Óumdeilt er að Landsvaki hf. greiddi skuldbindingar sínar að fullu með afhendingu skuldabréfa 28. október 2008 og peningagreiðslu 7. nóvember sama ár, sem og að sóknaraðili hafi þá ofgreitt varnaraðila andvirði skuldabréfanna, 7.118.537.667 krónur, sem þegar höfðu verið afhent varnaraðila. Í greinargerð sóknaraðila er því haldið fram að þeir starfsmenn sem önnuðust millifærsluna hafi ekki vitað um samkomulag Landsvaka hf. og skilanefndar varnaraðila um skuldajöfnuð frá 25. október 2008. Því hafi öll fjárhæðin, 19.074.333.991 króna, verið greidd varnaraðila fyrir mistök. Slitastjórn varnaraðila hefur nú samþykkt þá kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili byggir hins vegar á því að krafan sé sértökukrafa í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara búskrafa í skilningi 3. tl. 110. gr. sömu laga. Ágreiningur aðila lýtur aðeins að því hvar skipa skuli kröfunni í réttindaröð við slit varnaraðila.

Við upphaf aðalmeðferðar gáfu skýrslu fyrir dóminum eftirtalin vitni: Erla Hrönn Aðalgeirsdóttir, forstöðumaður í bakvinnsludeild hjá Landsbankanum hf., Kristín B. Gunnarsdóttir, starfsmaður í reikningshaldi hjá Landsbankanum hf., Stefán Héðinn Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eignarstýringarsviðs hjá Landsbanka Íslands hf., og Lárus Finnbogason, fyrrverandi formaður skilanefndar Landsbanka Íslands hf. Sigurjón Guðbjörn Geirsson, fyrrverandi starfsmaður skilanefndar Landsbanka Íslands hf., gaf skýrslu gegnum síma. Ekki þykir ástæða til að rekja hér framburði vitna.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili vísar til þess að krafa hans sé um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem fært hafi verið inn á viðskiptareikning varnaraðila við uppgjör Landsvaka hf. við varnaraðila. Varnaraðila hafi verið fullkunnugt um tilefni greiðslunnar, enda hafi hann enga kröfu átt á hendur sóknaraðila. Því hafi varnaraðili vitað, eða mátt vita, að greiðslan var ofgreidd 25. október 2008. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi einnig þekkt til framkvæmdar við færslur  sóknaraðila, svo og þeirra tölvukerfa sem notast var við. Uppgjörið og framkvæmd þess hafi einnig verið unnin í nánu samstarfi við nefndarmenn í skilanefnd varnaraðila, sem ýtt hafi á að uppgjörið færi fram með þeim hætti sem gert var. Verði því að telja mjög ósanngjarnt og óeðlilegt ef varnaraðili ætti að hagnast um rúmlega 7 milljarða króna vegna framkvæmdar á millifærslu og nettun sem sóknaraðili hafi framkvæmt fyrir tvo viðskiptavini sína, varnaraðila og sjóði Landsvaka hf. Fæli slíkt jafnframt í sér verulega ólögmæta auðgun varnaraðila á kostnað sóknaraðila. Er á því byggt að ekki hafi verið hægt að framkvæma þessi viðskipti með öðrum hætti á umræddum tíma, og hafi skilanefnd varnaraðila verið það ljóst.

Í samræmi við ofanritað byggir sóknaraðili á því að varnaraðila beri að endurgreiða honum 7.118.537.667 krónur, enda sé fjárhæðin óumdeilanlega eign sóknaraðila. Þar sem ekkert kröfuréttarsamband sé milli aðila er á því byggt að uppfyllt séu skilyrði til þess að skipa eigi kröfunni í rétthæð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Vísar sóknaraðili til þess að fyrrgreind fjárhæð sé auðrekjanleg á viðskiptareikningi varnaraðila. Vitað sé einnig hvaðan þessir fjármunir hafi komið, hvert þeir hafi farið og hvar þeir séu niðurkomnir í dag. Ljóst sé af lögskýringargögnum með núgildandi gjaldþrotaskiptalögum, svo og eldri löggjöf, að löggjafinn geri ekki meiri kröfur en orðalag ákvæðisins beri með sér, þ.e. að viðkomandi sanni eignarrétt sinn að þeirri eign sem sé í haldi þrotamanns. Krafa dómstóla um sérgreiningu eigi því ekki við neinar lagaheimildir að styðjast, þótt henni hafi lítið sem ekkert verið mótmælt í gegnum tíðina. Í eldri gjaldþrotaskiptalögum, nr. 6/1978, hafi ekki verið gerð krafa um sérgreiningu, og hafi ekki verið ætlunin að breyta ákvæðinu efnislega, eins og ráða megi af ummælum í greinargerð með frumvarpi sem varð að núgilandi lögum. Af þeim sökum verði að telja að hvergi sé heimild til handa dómstólum að auka við skilyrði laga með þeim hætti sem gert hafi verið, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Því sé ljóst að skilyrðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt, sé unnt að sýna fram á eignarréttindi þriðja manns yfir hlut í vörslum þrotamanns. Engu að síður telur sóknaraðili að bæði skilyrðin séu fyrir hendi í máli þessu. Í fyrsta lagi sýni færsluyfirlit það skýrlega að umrædd krafa tilheyri sóknaraðila. Í öðru lagi sé ljóst að fjármunirnir séu á viðskiptareikningi varnaraðila, sem einn hafi ráðstöfunarrétt yfir þeim reikningi, þó svo að umræddur viðskiptareikningur sé hjá sóknaraðila, enda sé hann viðskiptabanki varnaraðila.

Sóknaraðili byggir jafnframt á því að undirritun skilanefndar varnaraðila á erindi Landsvaka hf. hafi skuldbundið slitastjórn varnaraðila með óafturkræfum hætti. Í því sambandi vísar hann til þess að með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., hafi Fjármálaeftirlitinu verið veitt víðtæk völd til að taka yfir rekstur fjármálafyrirtækja í fjárhagserfiðleikum og ráðstafa eignum þeirra og skuldum. Samkvæmt 3. mgr. 100. gr. a þágildandi laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi Fjármálaeftirlitið við mjög knýjandi aðstæður getað tekið yfir vald hluthafafundar í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, m.a. takmarkað ákvörðunarvald stjórnar, vikið stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, m.a. með samruna þess við annað fyrirtæki. Fjármálaeftirlitinu hafi jafnframt verið heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt hafi verið í slíkum tilfellum. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. sömu laga hafi Fjármálaeftirlitið getað skipað fimm manna skilanefnd sem skyldi fara með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Skilanefnd skyldi fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess og fara eftir og framkvæma þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem teknar hafi verið á grundvelli ákvæðisins.

Með lögunum hafi Fjármálaeftirlitinu einnig verið veittar undanþágur frá öðrum lögum eða þeim hreinlega vikið til hliðar, t.d. lögum um hlutafélög, verðbréfaviðskipti og fjármálafyrirtæki, samkeppnislögum, stjórnsýslulögum og lögum um gjaldþrotaskipti. Valdheimildir Fjármálaeftirlitsins, og þar með talið skilanefndar varnaraðila, hafi því gilt óháð fyrrgreindum lögum, sbr. 6. og 7. mgr. 5. gr. Ljóst sé af gildandi lögum á þeim tíma að skilanefnd hafi farið með skiptastjórn þrotabús varnaraðila, sbr. orðalag laga nr. 129/2008, sem og 1. gr. laga nr. 44/2009. Slitastjórn hafi engar lagaheimildir til að vefengja eða breyta ráðstöfunum skilanefndar frá þeim tíma er skiptastjórn hafi alfarið verið í höndum skilanefndarinnar.

Verði ekki fallist á að krafa sóknaraðila njóti rétthæðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, byggir sóknaraðili á því að krafan teljist búskrafa samkvæmt 110. gr. sömu laga. Því til stuðnings er vísað til fyrri málsástæðna við aðalkröfu, en sóknaraðili telur að varnaraðili hafi með saknæmum og ólögmætum hætti haldið eftir fjármunum hans við uppgjör krafna Landsvaka hf., þvert á samkomulag aðila. Undir 3. tl. 110. gr. laganna falli kröfur vegna tjóns sem búið baki öðrum. Þótt hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað fyrir uppkvaðningu úrskurðar um slitameðferð varnaraðila, sé á því byggt að löggjafinn hafi gert ráð fyrir því, bæði í lögum nr. 129/2008 og í lögum nr. 44/2009, en hin síðarnefndu afmarki upphaf slitameðferðar, að skilanefndir færu með skiptastjórn hinna föllnu banka, sbr. 1. gr. þeirra. Af þeim sökum verði að líta á samninga sem skilanefnd hafi gert fyrir lagasetningu um slitameðferð fjármálafyrirtækja, sem ráðstafanir skiptastjóra í skilningi 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Um lagarök vísar sóknaraðili til ákvæða 109. og 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þá er vísað til ólögfestra meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Krafa hans um greiðslu málskostnaðar byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveðst í upphafi hafna því að hann beri nokkra ábyrgð á meintum mistökum starfsmanna sóknaraðila við framkvæmd uppgjörs á skuldbindingum Landsvaka hf. 7. nóvember 2008, svo og þeirri staðhæfingu sóknaraðila að uppgjörið hafi farið fram fyrir tilstilli varnaraðila.

Varnaraðili mótmælir því jafnframt að krafa sóknaraðila að fjárhæð 7.118.537.667 krónur njóti rétthæðar í skuldaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, enda séu skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt. Sóknaraðili eigi ekki eignarrétt að sérgreindum peningum í vörslu varnaraðila, en krafa hans sé í eðli sínu krafa um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem skipa eigi í skuldaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá sé skilyrði um sérgreiningu meintra fjármuna sóknaraðila í vörslu varnaraðila heldur ekki uppfyllt þar sem umkrafin fjárhæð hafi runnið saman við aðra fjármuni varnaraðila. Af þessum sökum beri að hafna aðalkröfu sóknaraðila um að krafan njóti rétthæðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Þá telur varnaraðili ástæðu til að andmæla sérstaklega málatilbúnaði sóknaraðila er lýtur að því að krafa dómstóla um sérgreiningu eigi ekki við neinar lagaheimildir að styðjast.

Af hálfu varnaraðila er því einnig hafnað að krafa sóknaraðila njóti rétthæðar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, enda séu skilyrði ákvæðisins ekki fyrir hendi. Samkvæmt því ákvæði teljist til búskrafna kröfur sem hafi orðið til á hendur þrotabúi eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið baki öðrum. Að mati varnaraðila hafi lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., ekki átt við í tilviki varnaraðila fyrr en með gildistöku laga nr. 44/2009, þ.e. 22. apríl 2009, sem varði breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. nú 102. gr. laga nr. 161/2002. Úrskurðardagur í skilningi 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 hafi því verið 22. apríl 2009, sbr. 2. tl. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 44/2009. Þegar krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila hafi stofnast, þ.e. 7. nóvember 2008, hafi ekki verið kveðinn upp úrskurður um töku bús varnaraðila til slitameðferðar. Þegar af þeirri ástæðu geti krafa sóknaraðila ekki notið rétthæðar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili mótmælir loks þeim málatilbúnaði sóknaraðila að 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um ráðstafanir skilanefndar, þótt þær hafi verið framkvæmdar fyrir upphaf slitameðferðar, þar sem jafna eigi stöðu þeirra við stöðu skiptastjóra. Að dómi varnaraðila eigi þessi málsástæða sér enga lagastoð. Um leið er því sérstaklega mótmælt að slitastjórn varnaraðila sé bundin af samningum skilanefndar um skuldajöfnuð sem ekki hafi verið framkvæmdur, og að slitastjórn geti ekki komið fram riftun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 á ráðstöfunum skilanefndar fyrir upphaf slitameðferðar.

Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi. Þá er vísað til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum. Málskostnaðarkrafan byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Samkvæmt áðurnefndu samkomulagi milli sóknaraðila, varnaraðila og Landsvaka hf. frá 14. nóvember 2011, sem lagt var fram í þinghaldi í málinu sama dag, staðfesta sóknaraðili og Landsvaki hf. að sóknaraðili hafi eignast endurkröfu á hendur varnaraðila vegna þeirrar ofgreiðslu sem hér er fjallað um. Í sama skjali lýsir varnaraðili því yfir að hann samþykki kröfu sóknaraðila að fjárhæð 7.118.537.667 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því er ágreiningslaust að sóknaraðili eigi þá kröfu á hendur varnaraðila sem hér er deilt um, að fjárhæð 7.118.537.667 krónur. Aðilar deila hins vegar um rétthæð kröfunnar við slitameðferð varnaraðila. Krefst sóknaraðili þess að krafan njóti stöðu sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að krafan verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., segir að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til. Í dómaframkvæmd hafa verið sett tiltölulega þröng hlutlæg skilyrði fyrir afhendingu eignar úr þrotabúi á grundvelli þessa ákvæðis. Þegar um peningafjárhæðir er að ræða hefur þannig verið talið að tvö skilyrði þurfi að uppfylla til að ákvæðið eigi við. Í fyrsta lagi þarf sá sem krefst peningafjárhæðarinnar að sýna fram á eignarrétt að henni. Í öðru lagi þarf féð að liggja sérgreint í vörslum búsins. Síðari áskilnaðurinn hefur þó ekki verið gerður þegar atvikum hefur verið þannig háttað að peningar hafi ekki komist í vörslur þrotabús fyrr en eftir upphaf skipta, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 441/2011, sem kveðinn var upp 28. nóvember 2011, og nr. 226/1987, sem birtur er í dómasafni réttarins 1988, bls. 358.

Fyrir liggur að varnaraðili tók við peningagreiðslu frá sóknaraðila sem óumdeilt er að var ofgreidd, að því að virðist fyrir mistök starfsmanna sóknaraðila. Fólst ofgreiðslan í því að 7.118.537.667 krónur voru bæði greiddar með afhendingu Landsvaka hf. á skuldabréfum sömu fjárhæðar 28. október 2008 og greiðslu félagsins á heildarskuldbindingum þess við varnaraðila 7. nóvember sama ár, að fjárhæð 19.074.333.991 króna. Annaðist sóknaraðili um uppgjör greiðslnanna og voru fjármunirnir greiddir inn á reikning varnaraðila hjá sóknaraðila. Þrátt fyrir það verður varnaraðili talinn hafa vörslur fjárins, enda verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að hann hafi einn fullan aðgang að fénu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 650/2010, sem kveðinn var upp 18. janúar 2011. Í samræmi við ofangreint er það álit dómsins að sóknaraðili sé eigandi fjármuna sem eru í vörslum varnaraðila.

Sem fyrr greinir tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila 7. október 2008 og vék stjórn hans frá. Um leið setti það skilanefnd yfir varnaraðila, sem fór samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, með allar heimildir félagsstjórnar og öll málefni hans, þar á meðal að hafa umsjón með eignum og annast rekstur hans. Varnaraðili kom á hinn bóginn ekki til slita eftir sérreglum laga nr. 161/2002 fyrr en 22. apríl 2009, þegar lög nr. 44/2009, um breyting á fyrrnefndu lögunum, tóku gildi. Öll málefni varnaraðila voru þannig sett undir skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og hlaut samkvæmt heiti sínu að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila varnaraðila. Að því virtu, svo og með vísan til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 441/2011, verður að líta svo á að á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hafi varnaraðili verið í aðstöðu sem leggja má að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar tilkall annarra á grundvelli eignarréttinda til peninga í vörslum hans. Skiptir því ekki máli fyrir stöðu kröfu sóknaraðila í réttindaröð hvort peningarnir, sem hún beinist að, séu sérgreindir í vörslum varnaraðila. Samkvæmt því verður viðurkennt að krafa sóknaraðila að fjárhæð 7.118.537.667 krónur njóti stöðu eftir 1. mgr. 109. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Að fenginni þeirri niðurstöðu er ekki þörf á að fjalla um málsástæður sóknaraðila er lúta að stjórnskipulegu gildi dómafordæma Hæstaréttar um sérgreiningu eigna.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað. Með hliðsjón af atvikum og umfangi málsins þykir hann hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Krafa sóknaraðila, Landsbankans hf., að fjárhæð 7.118.537.667 krónur, er viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila, Landsbanka Íslands hf.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 2.000.000 króna í málskostnað.