Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Lögvarðir hagsmunir


Mánudaginn 12. janúar 2015.

Nr. 17/2015.

A

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

gegn

B

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

Kærumál. Nauðungarvistun. Frávísun frá Hæstarétti. Lögvarðir hagsmunir. 

Talið var að A skorti lögvarða hagsmuni til að fá skorið úr um gildi ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi eftir að vistuninni hafði verið aflétt. Var málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. desember 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 29. sama mánaðar um nauðungarvistun hans á [...] í allt að 21 sólarhring. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi, en til vara að vistun hans á sjúkrahúsi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Nauðungarvistun sóknaraðila var aflétt 9. janúar 2015. Af þeim sökum hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt hinum kærða úrskurði. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti án kröfu.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Rúnars Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. desember 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 30. desember sl. er til komið vegna kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], [...], [...], um að felld verði úr gildi nauðungarvistun hans á [...], sem innanríkisráðuneytið lét samþykki fyrir hinn 29. desember sl.

Varnaraðili, B, krefst þess að ofangreind nauðungarvistun sóknaraðila standi óhögguð og því verði hafnað kröfum sóknaraðila. 

I

Hin kærða ákvörðun um nauðungarvistun sóknaraðila er samkvæmt gögnum upphaflega reist á ákvörðun C, geðlæknis, á [...], sbr. ákvæði 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Gerðist það eftir að sóknaraðili hafði komið á slysadeild [...] í fylgd lögreglu að morgni 27. desember sl., 

Þá liggur fyrir beiðni um nauðungarvistun sóknaraðila af hálfu varnaraðila, B, sem dagsett er 29. desember sl.  Til stuðnings beiðninni er læknisvottorð D heilsugæslulæknis á [...].  Í vottorðinu er að nokkru lýst högum og aðstæðum sóknaraðila.  Er m.a. greint frá því í vottorðinu að vottorðsgefanda hafi verið gert viðvart frá B vegna hótanna sóknaraðila við aðra einstaklinga. Vegna þessa hafi vottorðsgefandi reynt að ræða í síma við sóknaraðila en með takmörkuðum árangri.  Greint er frá því að sóknaraðili hafi að ósk aðstandenda hans, en með aðstoð lögreglu verið fluttur af heimili sínu að morgni 27. desember sl. á slysadeild [...], en í framhaldi af því á bráðamóttöku, þar sem hann hefði samþykkt innlögn á [...]. Í vottorðinu er greint frá því að sóknaraðili hafði við innlögnina verið í maníu og með aðsóknarhugmyndir.  Lokaorð vottorðsins eru svofelld:

Það er augljós aukin talþrýstingur og hann (sóknaraðili) fer úr einu í annað samhengislítið.  Það er ekkert innsæi í veikindin sem eru augljós og hegðan er ekki eins og hann sýnir vanalega.  Er tíðrætt um sjálfsvíg ef hann þyrði. ... Augljóslega ekki hæfur til útskriftar strax.  Hefur væntanlega tekið takmarkað af geðlyfjum undanfarið og segist sjálfur hafa a.m.k. seinkað lyfjatöku.  Verður að metast hættulegur sjálfum sér og öðrum með lítið innsæi í sinn sjúkdóm og geðrofseinkenni sem líklega versna við útskrift núna.

Greining: [...]

Álit mitt er að nauðsynlegt og algerlega óhjákvæmilegt sé að nauðungarvista A þar sem hann hafnar meðferð, hefur ekki innsýn í sinn sjúkdóm. Hefur verið hótandi gagnvart fjölskyldu og kunningjum, hótar ofbeldi og sennilega hættulegur sjálfum sér að auki.“

Samkvæmt framlögðum gögnum samþykkti innríkisráðuneytið hinn 29. desember sl. á grundvelli fyrirliggjandi gagna og beiðni, að sóknaraðili yrði vistaður á sjúkrahúsi.

Eins og fyrr sagði barst kæra sóknaraðila héraðsdómi þann 29. desember sl. 

Að tilhlutan dómsins ritaði fyrrnefndur C geðlæknir, að fyrirlagi E yfirlæknis [...], vottorð um geðheilsu sóknaraðila og lá það frammi við fyrirtöku málsins í gær. Í vottorðinu er áréttað að sóknaraðili hafi komið á slysadeild [...] í fylgd lögreglu að morgni 27. desember sl. og er því lýst nánar þannig, en einnig meðferð hans;

„Frekar illa hirtur og lyktandi.  Klæddur í jólasveinajakka.  Var spenntur, ör og talaði hátt með aukinn talþrýsting og aðsóknarhugmyndir og átti erfitt með að sitja kyrr.“ Í vottorðinu er gerð grein fyrir læknismeðhöndlun sóknaraðila og ástandi á [...] eftir þetta þannig:

Á deildinni rauk hann nokkrum sinnum fyrirvaralaust upp og gat þá verið mjög ógnandi, og jafnvel slegið til starfsfólks, en náði að róast aftur. Ákveðið var að fá öryggisvörð á staðinn þar sem skjólstæðingur hafði sýnt það að vera óútreiknanlegur og mögulega hættulegur. Hann krafðist útskriftar og var þá ákveðið að nauðungarvista hann skv. 48 klst. reglunni, kl. 22:50 þ. 27.12.14. Vegna æsings og óróleika, ógnandi hegðunar og hótandi tals var ákveðið að nauðungarsprauta hann, fékk [...], var settur á yfirsetu yfir nóttina.

Á deildinni í dag hefur hann áfram sýnt maníu einkenni með spennu og æsingi, stuttum kveikjuþræði og ógnandi hegðun og fékk hann aftur nauðungarsprautur um hádegi í dag, sömu skammta.  Ljóst er að sjúklingur er metinn í maníu með geðrofseinkenni og er því ekki útskriftarfær og er í bráðri þörf fyrir viðeigandi meðferð og áframhaldandi vistun á deildinni.  Án viðeigandi meðferðar er hætta á versnandi sjúkdómsástandi og batahorfum þar með spillt. ... Mikilvægt er að draga sem mest úr áreiti á sjúkling sem hluti af meðferð og því er hann ekki talinn fær um að mæta til dómþings.“

Fyrir þingfestingu málsins í gær bárust dómara upplýsingar um að sóknaraðili væri ekki ferðafær.  Af þeim sökum fór dómari ásamt talsmanni sóknaraðila á [...].  Þar hafði dómari tal af sóknaraðila, sem að hann þekkti fyrir, en auk þess ræddi hinn skipaði talsmaður við hann einslega.

Fyrir dómi hafa áðurnefndir læknar, D, heimilislæknir sóknaraðila til sjö ára, og C geðlæknir staðfest áðurrakin vottorð sín. Það var samdóma álit þeirra að sjúkdómsástand sóknaraðila væri alvarlegt og að hann hefði brýna þörf á vist á lokaðri [...] enda hefði hann ekki innsýn í ástand sitt.  Þá gaf skýrslu fyrir dómi E, yfirlæknir [...] og staðgengill forstöðumanns.  Hann staðfesti efni vottorðs C geðlæknis og lét það álit í ljós að sóknaraðila væri brýnt að njóta viðeigandi meðferðar enda hefði hann lítið sem ekkert innsæi á sjúkdómsástand sitt.

Dómari telur af því sem rakið hefur verið, að brýn og augljós nauðsyn sé til þess að vista sóknaraðila á [...].  Er þannig fullnægt skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71, 1997.  Ber því að hafna kröfu sóknaraðila, en staðfesta áðurgreinda ákvörðun innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun.

Málskot frestar ekki réttaráhrifum úrskurðarins að þessu leyti.

Samkvæmt 31. gr. sbr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila úr ríkissjóði, Ólafs Rúnar Ólafssonar hrl. 119.225 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 29. desember 2014 um nauðungarvistun hans á [...]. 

Málskostnaður talsmanns sóknaraðila, Ólafs Rúnars Ólafssonar hrl. 119.225 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.