Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                         

Þriðjudaginn 24. ágúst 1999.

Nr. 241/1999.

Fjallkonan ehf.

Birgir Páll Jónsson

Jón Guðmundsson og

Leó E. Löve

(Leó E. Löve hrl.)

gegn

Tóbaks og vínbarnum ehf.

(enginn)

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Talið var að F, B, J og L brysti heimild til kæru ákvörðunar héraðsdómara um að fella niður kröfu þeirra um málskostnaðartryggingu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 1999 um að fella niður kröfu sóknaraðila um málskostnaðartryggingu í máli varnaraðila á hendur þeim. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til o. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeir krefjast þess aðallega að hinni kærðu ákvörðun verði breytt þannig að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu, en til vara að málinu verði vísað heim til löglegrar meðferðar. Þeir krefjast einnig kærumálskostnaðar, en þó því aðeins að tekið sé til varna fyrir Hæstarétti af hálfu varnaraðila.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins þingfesti varnaraðili málið 20. maí 1999. Var þá sótt þing af hálfu sóknaraðila og krafist að varnaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu. Héraðsdómari frestaði málinu til þinghalds 28. sama mánaðar til þess að aðilar fengju kost á að tjá sig frekar um kröfuna. Við þá fyrirtöku málsins var ekki mætt af hálfu sóknaraðila. Ákvað héraðsdómari þá að krafa sóknaraðila um málskostnaðartryggingu væri fallin niður og frestaði málinu til reglulegs dómþings 1. júní 1999.

Samkvæmt 143. gr. laga nr. 91/1991 geta ákvarðanir héraðsdóms um atriði varðandi rekstur einkamáls aldrei sætt kæru til Hæstaréttar, heldur eingöngu úrskurðir um ákveðin efni, sem þar eru tæmandi talin. Brestur þannig heimild til kæru og verður málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.