Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-136

Guðbrandur Bogason (Guðmundur Ágústsson lögmaður)
gegn
VIVA Fortuna ehf. (Sveinn Jónatansson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Byggingarleyfi
  • Grennd
  • Skipulag
  • Stjórnsýsla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 17. nóvember 2022 leitar Guðbrandur Bogason leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. október sama ár í máli nr. 413/2021: Guðbrandur Bogason gegn VIVA Fortuna ehf. og til réttargæslu Mýrdalshreppi á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðila verði gert, að viðlögðum dagsektum, að fjarlægja hús sem hann hefur reist á lóðinni Bakkabraut 18 í Vík, á grundvelli byggingarleyfis sem Mýrdalshreppur gaf út til gagnaðila en til vara að byggingarleyfið verði dæmt ógilt.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að þar sem ekki lægi fyrir deiliskipulag af svæðinu hefði þurft að efna til grenndarkynningar. Þar sem slík kynning hefði ekki farið fram hefði verið um annmarka á útgáfu byggingarleyfis að ræða og meðferð málsins ekki í samræmi við lög. Við úrlausn kröfu um að fjarlægja byggingu við þær aðstæður hefði afgerandi þýðingu hvort leyfishafi hefði verið grandlaus eða grandsamur um annmarka á því og hvort sá sem teldi brotið gegn hagsmunum sínum með útgáfu leyfisins hefði brugðist við án tafar. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að fyrirsvarsmaður gagnaðila hefði verið í góðri trú um gildi leyfisins allt þar til smíði hússins var nánast lokið auk þess sem ljóst væri að veruleg verðmæti færu forgörðum yrði fallist á kröfu leyfisbeiðanda. Þá voru ekki talin efni til þess að fallast á varakröfu hans um ógildingu byggingarleyfisins. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hann til þess að Hæstiréttur hafi ekki leyst úr sambærilegu máli eftir gildistöku skipulagslaga nr. 123/2010 og laga um mannvirki nr. 160/2010. Jafnframt hafi Hæstiréttur ekki áður tekið til úrlausnar hvaða afleiðingar það hafi þegar byggingaraðili byggi töluvert stærra hús en byggingarleyfi heimili. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, einkum þar sem héraðsdómur hafi ekki tekið efnislega afstöðu til varakröfu hans og því hafi átt að heimvísa málinu. Auk þess hafi Landsréttur ranglega reist sýknu gagnaðila af aðalkröfunni á því að gagnaðili hafi verið grandlaus og að leyfisbeiðandi hafi sýnt af sér tómlæti. Leyfisbeiðandi telur að gagnaðila hafi strax við útgáfu byggingarleyfis 9. júní 2017 verið ljóst að forsenda þess væri sú að grenndarkynning færi fram. Þá hafi hann tilkynnt um fyrirhugaða málsókn sína um leið og hann hafi haft til þess nægjanlegar upplýsingar.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.