Hæstiréttur íslands
Mál nr. 476/2015
Lykilorð
- Skuldamál
- Auðgunarkrafa
- Óvígð sambúð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2015. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 995.474 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 907.474 krónum frá 25. október 2013 til 25. september 2014, en af 995.474 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta á rót að rekja til slita á óvígðri sambúð áfrýjanda og sonar stefnda, Ívars Þórs Erlendssonar, eins og ráða má af innheimtubréfi áfrýjanda til stefnda 25. september 2013, sem bar yfirskriftina ,,fjárslit sambúðarfólks“. Sambúðin mun hafa hafist árið 2005, en henni lokið að hausti 2013. Samrit af bréfinu var sent fyrrum sambúðarmanni áfrýjanda. Málinu hefur þó verið markaður farvegur sem almennt skuldamál milli áfrýjanda og stefnda, föður fyrrum sambúðarmanns hennar. Áfrýjandi verður því að færa sönnur fyrir kröfum sínum eftir þeim hefðbundnu leiðum sem í slíkum málum eru færar.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi fjallar mál þetta um kaup og sölu á tveimur bifreiðum, annars vegar bifreiðinni KI-766 og hins vegar bifreiðinni RG-211. Fyrrgreinda bifreiðin var keypt 17. apríl 2013 og var kaupverð hennar 900.000 krónur sem áfrýjandi lagði til. Í kaupsamningi var kaupandi bifreiðarinnar tilgreind eiginkona stefnda, Harpa Kristinsdóttir, og umráðamaður bifreiðarinnar þáverandi sambúðarmaður áfrýjanda. Bifreiðina seldi Harpa 3. júní 2013 til Æco bíla ehf. og var söluverð hennar 1.440.000 krónur. Sama dag var bifreiðin RG-211 keypt af Æco bílum ehf. og var kaupandi sagður Ergo fjármögnunarþjónusta Íslands og umráðamaður hennar var sagður stefndi. Kaupverð þeirrar bifreiðar var 2.190.000 krónur.
Áfrýjandi bar fyrir dómi að við kaup síðari bifreiðarinnar hafi söluverð þeirrar fyrri farið upp í greiðslu kaupverðs. Stefndi hafi verið skráður fyrir bifreiðinni ,,til málamynda“. Spurð um hvort stefndi hafi fengið fjármuni í sínar hendur til þess að ganga frá kaupum á bifreiðinni kvað áfrýjandi það ekki hafa verið.
Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi var stefndi inntur eftir því hvers vegna hann hafi verið skráður sem umráðamaður bifreiðarinnar og kvað hann það hafa verið vegna þess að Ergo hafi verið eigandi að bílnum, en hann ,,ábyrgðarmaður á láninu“.
Bifreiðin RG-211 mun hafa verið seld 13. nóvember 2013. Spurður um hver hafi fengið söluandvirði hennar bar stefndi fyrir héraðsdómi að það hlyti að vera sonur sinn, Ívar Þór, en sá síðarnefndi staðfesti fyrir dómi að stefndi hefði ekki fengið neitt í hendur af söluandvirði bifreiðanna tveggja.
Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi auðgast með óréttmætum hætti á hennar kostnað. Verður héraðsdómur því staðfestur, en rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður milli aðila.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands mánudaginn 20. apríl 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 30. mars sl., var höfðað af Elsu Kristjánsdóttur, kt. [...], Fjörubraut 1224, Reykjanesbæ, með stefnu birtri 25. september 2014, á hendur Erlendi Þórissyni, kt. [...], Dverghömrum 4, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru: Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kröfu að fjárhæð kr. 995.474, auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af fjárhæð kr. 907.474, frá 25. október 2013, en af kr. 995.474, frá höfðun máls allt til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda og til þrautaþrautavara að krafa stefnanda verði lækkuð. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, stefnda að skaðlausu.
Með úrskurði dómsins uppkveðnum 27. febrúar sl., var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
Málavextir
Aðila greinir á um málavexti. Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að þann 16. apríl 2013 hafi hún fengið greiddar slysabætur að fjárhæð 1.082.290 krónur. Þann 17. sama mánaðar hafi hún ákveðið að festa kaup á bifreiðinni KI 766 sem hún hafi staðgreitt með millifærslu af bankareikningi að fjárhæð 907.474 krónur. Varðandi framangreindar greiðslur vísar stefnandi til útprentunar Íslandsbanka yfir hreyfingar á reikningi nr. 0542-26-102622. Til hægðarauka hafi bifreiðin verið skráð á eiginkonu stefnda, sem sé móðir þáverandi sambýlismanns stefnanda, en ljóst hafi verið frá upphafi að bifreiðin hafi verið eign stefnanda.
Í júnímánuði 2013 hafi stefnandi tekið ákvörðun um að setja bifreiðina KI-766 upp í kaup á dýrari bifreið, þ.e. bifreiðina RG-211. Mismunur á verðmæti bifreiðanna hafi verið greiddur með svokölluðum bílasamningi við Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka, og vísar stefnandi til kaupsamninga og afsala frá 3. júní 2013. Við þessi kaup hafi verið ákveðið til hagræðingar að stefndi væri skráður skuldari samkvæmt bílasamningunum. Samkvæmt venju hafi Ergo, þ.e. Ergo fjármögnunarþjónusta, verið skráður eigandi bifreiðarinnar en stefndi umráðamaður hennar. Stefnandi hafi þó sem fyrr verið raunverulegur eigandi bifreiðarinnar og hafi það verið sameiginlegur skilningur stefnda og stefnanda að um hafi verið að ræða málamyndagerning.
Þann 1. ágúst 2013 hafi stefnandi millifært inn á reikning stefnda 88.000 krónur vegna afborgana af áðurgreindum bílasamningi auk greiðslna vegna trygginga. Síðar í þeim mánuði hafi stefnandi og sonur stefnda slitið samvistum. Í framhaldi af því hafi stefnandi ekki haft aðgang að bifreiðinni og stefndi og sonur hans hafnað óskum stefnanda um að bifreiðin yrði seld og stefnandi fengi greidda til baka þá fjármuni sem hún hafði lagt til kaupanna. Eftir ítrekaðar samkomulagstilraunir hafi stefnandi sent stefnda kröfubréf þann 25. september 2013 sem í engu hafi verið sinnt af hálfu stefnda og frekari tilraunir til að ná samkomulagi, m.a. fyrir milligöngu eiginkonu stefnda, reynst árangurslausar. Þann 13. nóvember 2013 hafi komið í ljós að stefndi hafi verið skráður eigandi bifreiðarinnar RG-211, en þann dag hafi bifreiðin verið seld.
Stefndi gerir athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda og segir hana að hluta byggða á rangfærslum og ekki studda haldbærum gögnum. Rekur stefndi samskipti sonar hans og stefnanda, m.a. kaup þeirra á bifreið sumarið 2011 og eftirmála samvistarslita þeirra á haustmánuðum 2013. Vísar stefndi til þess, að telji stefnandi bifreiðina eiga undir skipti milli hennar og sonar stefnda, hafi máli þessu ekki verið markaður réttur farvegur. Þá vísar stefndi til þess að sonur hans hafi verið eina fyrirvinna fjölskyldunnar þegar stefnandi hafi fengið greiddar út slysabætur sem notaðar hafi verið til framfærslu fjölskyldunnar. Segir stefndi að eiginkona hans hafi keypt bifreiðina KI-766 og verið skráður eigandi hennar en sonur þeirra, fyrrverandi sambýlismaður stefnanda, umráðamaður. Það sé rangt sem segi í stefnu að fjármunum stefnanda hafi verið varið að öllu leyti til kaupa á bifreiðinni, því sonur stefnda hafi, í þeim tilgangi að fjármagna kaupin og framfleyta fjölskyldunni, selt tvær bifreiðar. Heimilið hafi verið tekjulítið, sonur stefnda eina fyrirvinnan og verulegir fjárhagserfiðleikar eins og stefnanda sé vel kunnugt um.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að hún eigi endurkröfu á hendur stefnda vegna fjárframlags hennar til kaupa á bifreiðinni RG 211 á grundvelli hinnar almennu auðgunarreglu, en þegar umrædd bílaviðskipti fóru fram hafi það verið sameiginlegur skilningur stefnanda og stefnda að stefnandi væri raunverulegur eigandi bifreiðarinnar. Hafi skráning stefnda sem umráðamaður bifreiðarinnar eingöngu verið til hagræðingar og hafi báðum aðilum verið það ljóst. Því hafi stefndi ekki getað vænst þess að um hafi verið að ræða fjárframlag stefnanda til hans. Við sambandsslit stefnanda og sonar stefnda hafi forsendur samningssambands aðila máls þessa brostið og hefði stefndi, að kröfu stefnanda, þá þegar í stað átt að hlutast til um sölu umræddrar bifreiðar.
Í kröfubréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 25. september 2013, hafi stefnandi eingöngu krafist greiðslu sem hafi numið þeirri fjárhæð sem stefnandi hafi upphaflega lagt til kaupa á bifreiðinni RG 211. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi hagnast á sölu bifreiðarinnar og að sá hagnaður hafi átt að renna til stefnanda, að lágmarki sem nemi kröfu stefnanda í máli þessu. Stefnandi krefjist þess að fá endurgreidda þá fjármuni sem hún hafi lagt til kaupa á bifreiðinni RG 211, þ.e. 907.474 krónur. Einnig sé stefndi krafinn um endurgreiðslu á fjármunum sem lagðir voru inn á bankareikning hans þann 1. ágúst 2013, þ.e. vegna afborgana af áhvílandi bílaláni og greiðslu trygginga. Hins vegar hafi stefndi frá síðari hluta ágústmánaðar 2013 hvorki veitt stefnanda umráð bifreiðarinnar né upplýsingar um afdrif hennar.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, einkum hinnar almennu auðgunarreglu, sem staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar, sem og 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 67. gr. sömu laga varðandi framlagningu gagna. Um vaxtakröfu vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, einkum 5. og 6. gr. laganna, um málskostnaðarkröfu til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar stefnandi til laga nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Stefndi hafi enga aðkomu haft að kaupum bifreiðar í aprílmánuði 2013 og bifreiðin hafi aldrei verið skráð á hans nafn. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi auðgast með nokkrum hætti á umræddum viðskiptum. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún eigi kröfu, en dómkröfur hennar séu annars vegar byggðar á millifærslu inn á bankareikning bílasölu og hins vegar inn á reikning stefnda, samkvæmt yfirlýsingum stefnanda vegna ætlaðs rekstrarkostnaðar bifreiðar án þess að gerð sé grein fyrir af hverju stefndi hafi átt að standa straum af þeim kostnaði.
Sýknukröfu að svo stöddu byggir stefndi á því að fjárslitum stefnanda og sonar stefnda sé enn ólokið og því með öllu óljóst hverjar og hvort stefnandi kunni að eiga kröfur á hendur stefnda. Meðan þannig standi á sé ekki grundvöllur til kröfugerðar.
Kröfu um lækkun byggir stefndi á því að bifreiðin hafi orðið til á sambúðartíma þar sem báðir aðilar hafi tekið þátt í framfærslu fjölskyldu. Stefnandi geti því aldrei átt frekari kröfu en 450.000 krónur, eða sem nemur helmingi af kaupverði bifreiðar.
Um lagarök vísar stefndi til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda samninga, almennar reglur samninga- og kröfuréttar og ákvæði laga nr. 91/1991. Vegna kröfu um málskostnað vísar stefndi til laga nr. 91/1991 og varðandi virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi, stefndi og vitnin Ívar Þór Erlendsson, sonur stefnda og fyrrverandi sambýlismaður stefnanda, og Harpa Kristjánsdóttir, eiginkona stefnda, skýrslu.
Stefnandi byggir kröfu sína á almennu auðgunarreglunni og krefur stefnda um endurgreiðslu vegna fjármuna sem hún hafi lagt til kaupa á bifreiðinni RG 211 þann 3. júní 2013. Þegar framangreind bílaviðskipti fóru fram var stefnandi í sambúð með syni stefnda en þau slitu samvistum á haustmánuðum 2013.
Málatilbúnaður stefnanda verður ekki skilinn á annan veg en að stefndi hafi auðgast á óréttmætan hátt við sölu bifreiðarinnar RG 211 þann 13. nóvember 2013 og vegna þess hafi stefnandi orðið fyrir tjóni.
Í íslenskri löggjöf má finna dæmi þess að byggt sé á viðhorfum um óréttmæta auðgun, t.d. í 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 og 57. gr. laga nr. 94/1933 um tékka. Ekki hefur verið talið að almenn auðgunarregla gildi í íslenskum rétti. Þó hefur verið talið að réttmætt geti verið að beita auðgunarreglu við sérstakar aðstæður enda þótt ekki sé til þess bein heimild í lögum. Kröfu af þessu tagi verður þá að meta eftir eðli máls í hverju tilviki fyrir sig með hliðsjón af öllum atvikum máls.
Stefnandi heldur því fram að kaup á bifreiðinni RG 211 hafi annars vegar verið fjármögnuð með sölu bifreiðarinnar KI 766 þann 3. júní 2013, sem hafi verið eign stefnanda þó svo, sem óumdeilt er, að skráður eigandi bifreiðarinnar hafi verið þáverandi tengdamóðir hennar, vitnið Harpa Kristjánsdóttir, sem fyrir dómi kvaðst við kaupin hafa lánað nafn sitt. Hins vegar hafi kaupin verið fjármögnuð með láni sem stefndi kvaðst fyrir dómi hafi tekið hjá Ergo fjármögnunarþjónustu í tengslum við kaup á bifreiðinni RG 211 þann 3. júní 2013 í greiðaskyni við son sinn og þáverandi sambýliskonu hans. Þá er einnig óumdeilt að Ergo fjármögnunarþjónusta var við kaupin skráður eigandi bifreiðarinnar RG 211 en stefndi umráðamaður. Eins og fram kemur í gögnum frá ökutækjaskrá Samgöngustofu hélst sú skipan allt til 13. nóvember 2013, en þann dag ber skráning með sér að stefndi hafi keypt umrædda bifreið af Ergo fjármögnunarþjónustu og síðan selt hana þriðja aðila þann sama dag. Kaupsamningar og/eða afsöl um framangreind viðskipti liggja hins vegar ekki frammi í málinu, en í stefnu er skorað á stefnda að leggja þau gögn fram.
Stefnandi krefur stefnda annars vegar um 907.474 krónur sem hún kvaðst hafa lagt til vegna kaupa á bifreiðinni KI 766 og hins vegar 88.000 krónur sem hún hafi greitt til stefnda vegna afborgunar af framangreindu láni Ergo og vegna trygginga bifreiðarinnar RG 211. Fyrir dómi hafnaði stefndi því alfarið að hafa auðgast á sölu bifreiðarinnar RG 211. Nánar aðspurður hver hafi fengið fjármuni í kjölfar sölu bifreiðarinnar í nóvember 2014, kvað stefndi það hljóta að hafa verið son sinn sem séð hafi um söluna. Stefnandi bar fyrir dómi að við sambúðarslit hennar og sonar stefnda haustið 2013 hafi hún lagt til við þáverandi sambýlismann sinn að þau skiptust á að nota bifreiðina RG 211, tvo til þrjá daga í senn. Hann hafi hins vegar ekki skilað bifreiðinni á tilskildum tíma og bifreiðin horfið. Vitnið Ívar Þór, fyrrverandi sambýlismaður stefnanda, bar fyrir dómi að við sölu bifreiðarinnar RG 211 hafi átt sér stað skipti og einnig hafi verið greiddir peningar á milli, „það var eitthvað mjög lítið, kannski hundrað þúsund...“ eins og vitnið orðaði það. Vitnið kvað enga fjármuni hafa runnið til stefnda við framangreinda sölu bifreiðarinnar.
Að virtu öllu því sem að framan hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að stefndi hafi auðgast með óréttmætum og saknæmum hætti á kostnað hennar. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Samkvæmt þeim úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 792.496 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu fyrir héraðsdómi samkvæmt gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 26. júní 2014. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur hdl., sem ákveðst 1.060.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ásta Björk Eiríksdóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti mál þetta Páll Kristjánsson hdl.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Erlendur Þórisson, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Elsu Kristjánsdóttur í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 792.496 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, Elsu Kristjánsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 1.060.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.