Hæstiréttur íslands
Mál nr. 393/2016
Lykilorð
- Þjófnaður
- Fjársvik
- Ólögmæt meðferð fundins fjár
- Umferðarlagabrot
- Ákæra
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Aðfinnslur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af ákæruliðum A-II og B-II í ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 11. desember 2014 og öllum ákæruliðum í ákæru hans 20. janúar 2015.
Samkvæmt lið B-II í fyrri ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa að kvöldi þriðjudagsins 16. september 2014 „reynt að svíkja út sígarettur“ að verðmæti 35.076 krónur í verslun 10-11 við Mýrarveg á Akureyri. Var hann með þessu talinn hafa brotið gegn 248. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, heiti brots að lögum og aðra skilgreiningu á því. Verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laganna. Framangreind verknaðarlýsing uppfyllir ekki þessar kröfur, en sakfelling samkvæmt hinum áfrýjaða dómi var reist á atvikum sem með réttu hefðu þurft að koma fram í henni. Er óhjákvæmilegt vegna þessa annmarka á ákærunni að vísa framangreindum lið hennar frá dómi.
Með síðari ákærunni er ákærði meðal annars sóttur til saka fyrir að hafa ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis að kvöldi mánudagsins 21. apríl 2014 frá Akureyri áleiðis til Ólafsfjarðar. Ákærði neitaði þessum sakargiftum fyrir héraðsdómi. Þá er sú aðstaða fyrir hendi að ekki var tekið blóðsýni úr honum til að ganga úr skugga um áfengismagn í blóði hans og honum var ekki heldur gert að láta í té öndunarsýni. Með vísan til þessa og að virtum framburði vitna er ósannað, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem að framan greinir. Verður hann því sýknaður af þessum sakargiftum. Af því leiðir að hafnað er kröfu ákæruvalds um ökuréttarsviptingu hans.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru að öðru leyti gefin að sök í málinu og til endurskoðunar eru fyrir Hæstarétti. Þá eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var honum gerð sektarrefsing fyrir umferðarlagabrot með dómum 14. maí 2013 og 26. júní 2014. Þá gekkst hann undir sektargreiðslu hjá lögreglustjóra 17. september 2014 fyrir fíkniefnalagabrot. Fram að þessu hafði ákærða síðast verið gerð refsing með dómi 25. nóvember 2005, en sakaferill hans hafði þá verið nær óslitinn allt frá árinu 1990. Hann er nú sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, tilraun til þjófnaðar, tilraun til fjársvika, nytjastuld, ólögmæta meðferð á fundnu fé og akstur bifreiðar sviptur ökurétti. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, svo og vegna þess dráttar á meðferð málsins sem ákærða verður ekki um kennt, verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu hans.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Samkvæmt þingbók héraðsdóms lauk skýrslutökum í málinu 13. október 2015. Munnlegum málflutningi var þá frestað og fór hann ekki fram fyrr en 17. febrúar 2016, eða rúmum fjórum mánuðum síðar. Hafa engar skýringar verið gefnar á þessari málsmeðferð og er hún aðfinnsluverð.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi lið B-II í ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 11. desember 2014.
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Þórðar Péturs Péturssonar, og sakarkostnað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 581.201 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og ferðakostnaður hans, 56.150 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. apríl 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 17. febrúar, er höfðað með tveimur ákærum á hendur Þórði Pétri Péturssyni, kt. [...], Laxagötu 6, Akureyri. Fyrri ákæru gaf lögreglustjórinn á Akureyri út hinn 11. desember 2014 og er hún „fyrir eftirtalin hegningarlagabrot á Akureyri á árinu 2014:
A. Þjófnaðarbrot:
I. (024-2014-[...])
Að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 13. maí, brotist inn í glerverksmiðjuna Íspan hf., að Furuvöllum 15B og stolið þaðan úr peningakassa um það bil 3.500 krónum og tveimur IBM tölvuskjám. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II. (024-2014-[...])
Að hafa þessa sömu nótt í þjófnaðarskyni reynt að brjótast inn í verslunina Dýraríkið að Glerárgötu 34. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
III.
(024-2014-[...])
Að hafa sömu nótt, brotist inn í bifreiðina [...], þar sem hún stóð við [...] og stolið úr henni svörtu leðurveski, sem í voru visa- og debetkort, ökuskírteini og fleira. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
IV. (024-2014-[...])
Að hafa fimmtudaginn 24. júlí stolið Samsung Galaxy S4, mini GSM síma úr innkaupakerru í verslun Hagkaupa að Furuvöllum 17, en verðmæti símans var um 80 til 90 þúsund krónur. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
B. Fjársvik & hótanir.
(024-2014-[...])
I.
Að hafa þriðjudagskvöldið 16. september, reynt að svíkja út úr afgreiðslumanni í verslun BSO við Strandgötu þrjú karton af sígarettum að verðmæti 33.000- krónur og notað við það debetkort A, sem hann hafði stolið fyrr um kvöldið. Telst þetta varða við 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Að hafa síðar þetta sama kvöld, reynt að svíkja út sígarettur (þrjú karton) að verðmæti 35.076- krónur í versluninni 10-11 í Kaupangi við Mýrarveg og þegar það gekk ekki sagt afgreiðslumanni verslunarinnar að „lána sér peninga úr kassanum“ sem hann myndi síðan endurgreiða síðar um nóttina niðri í bæ á Akureyri, en jafnframt sagt honum að hann væri með hníf og rafbyssu á sér, og ef hann fengi ekki pening úr kassanum, myndi hann koma síðar um nóttina í heimsókn í verslunina og þá ekki svona rólegur. Telst þetta varða við 233. gr. og 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Síðari ákæru gaf lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra út hinn 20. janúar 2015 og er hún „fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot:
I. (024-2014-[...])
Með því að hafa mánudagskvöldið 21. apríl 2014, tekið í heimildarleysi bifreiðina [...], þar sem hún stóð á bifreiðastæði við [...] og ekið henni sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis áleiðis til Ólafsfjarðar, uns hann ók bifreiðinni útaf skammt norðan við Ólafsfjarðarbæ. Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 20, 1956 og 1. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með síðari breytingum.
II. (024-2014-[...])
Með því að hafa föstudaginn 3. október 2014, stolið einum pakka af Durex Play Feel sleipiefni að verðmæti 1.076 krónum [sic] úr Akureyrarapóteki, í verslunarmiðstöðinni Kaupangi við Mýrarveg á Akureyri. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
III. (024-2014-[...])
Með því að hafa laugardaginn 22. nóvember 2014, stolið reiðhjóli af gerðinni GT Marathon, að verðmæti 550.000- krónur úr bílskúr við [...], en til vara ólögmæta meðferð á fundnu fé með því að hafa slegið eign sinni á ofangreint reiðhjól þar sem hann segist hafa fundið það í garði við [...]. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. eða til vara við 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“
Málin voru sameinuð. Ákærði játar sök samkvæmt A-I. og A-IV. lið fyrri ákæru en neitar að öðru leyti sök. Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna.
Málavextir
Ekki þykir sérstök ástæða til að rekja málavexti í þeim ákæruliðum þar sem ákærði játar sök.
Fyrri ákæra, ákæruliðir A-II og A-III
Samkvæmt lögregluskýrslu barst tilkynning um innbrot í verzlunina Dýraríkið kl. 03:24 hinn 13. maí. Á vettvangi hafi komið í ljós að gler í útihurð á bakinngangi hafði verið brotið, á dyrastaf sáust ákomur eftir hringlaga áhald og gat í gegn um rúðuna eftir áhaldið. Stór poki, líklega 25 kg af hundamat, hafi verið skammt innan við dyrnar og segir í skýrslunni að ekki sé „útilokað að gerandi hafi náð að draga pokann áleiðis til sín.“
Þá segir í skýrslunni að lögregluþjónar hafi tekið eftir „grunsamlegum manni við [...]“ og hafi vegna hans verið bókað: „Sáum við mann í dökkri úlpu og með dökka húfu eiga við bakdyr á [...] og fannst okkur það grunsamlegt. [Lögregluþjónn] hljóp á eftir honum en var hann þá horfinn sjónum fyrir horn hússins og hvarf hann. [Annar lögregluþjónn] kom einnig til leitar og leituðum við í og við [...]. Fannst okkur viðkomandi ekki geta hafa komist langt og ákváðum við að halda áfram leit á þessu svæði og héldum við aftur í lögreglubifreiðina og ókum í nágrenni við [...]. Sáum við úr lögreglubifreiðinni mann koma gangandi frá [...] og þekktum við hann strax sem sama mann og við höfðum séð stuttu áður þar sem klæðaburðurinn og líkamsburðurinn var eins. Viðkomandi reyndi að fela sig í trjálundi gegnt [...], sunnan megin. Þessi aðili lá og faldi sig í trjálundinum en var þar handtekinn eftir að [lögregluþjónn] hafði fundið hann. Þennan aðila þekktum við sem Þórð Pétur Pétursson sökum fyrri afskipta okkar af honum, bæði fyrr um nóttina og eins hefur hann oft komið við sögu lögreglunnar á Akureyri. Gerð var öryggisleit á Þórði þar sem hamar, skrúfjárn [og] fastir lyklar fundust í úlpuvasa hans.“
Þá segir í skýrslu um handtöku ákærða þessa nótt að á honum hafi meðal annars fundizt: „úlpa, skór, belti, gsm sími, tvö greiðslukort í eigu B, vasaljós, 2 skrúfjárn, 2 fastir lyklar, 2 kveikjarar, hamar, hnífur, síðubítur, poki með nokkrum töflum og poki með 2 snafsaglösum og nokkrum notuðum nálum og sprautum.“ Segir svo: „Þórður kvaðst hafa fundið veski og tekið úr því greiðslukort B og síðan hent veskinu.“
Í upplýsingaskýrslu lögreglu vegna þessara mála og annarra sem upp munu hafa komið sömu nótt, segir meðal annars: „Í fórum Þórðar fannst klaufhamar með tréskefti og kringlóttum haus. Við skoðun á þessum hamri mátti greinilega ætla að honum hefði verið barið í gler eða eitthvað ámóta hvasst. Voru ný för efst á skaftinu eins og honum hefði verið lamið í eitthvað hvasst eins og t.d. brotið gler. Var hamarinn borinn saman við förin á álgrindina í hurðinni að Dýraríkinu og passaði haus umrædds hamars nákvæmlega í þessi tvö för sem mátti sjá á hurðarrammanum.“
Síðar í sömu upplýsingaskýrslu segir: „Þarna hafði verið brotin rúða í hægri framhurð bifreiðarinnar [...] þar sem hún stóð á stæði upp við hús númer [...]. Rúðan hafði kurlast þannig að ekki var hægt að sjá hvernig hún hafði verið brotin. Hurð bifreiðarinnar hafði verið opnuð og rótað í hanskahólfinu. Þaðan hafði verið [sic] að sögn umráðamanns bifreiðarinnar (B) hafði veski hennar verið tekið sem var í bifreiðinni. Í veskinu hafi verið Vísa- og Debetkort auk ökuskírteinis og einhverra afsláttarkorta.“ Þegar ákærði hafi verið handtekinn kl. 03:50 þessa nótt hafi hann verið með umrædd greiðslukort B í fórum sínum en ökuskírteini hennar hafi svo fundizt skammt frá [...] en veskið bak við gáma bak við veitingahúsið Greifann, Glerárgötu 20, sem væri þar rétt hjá.
Fyrri ákæra, ákæruliður B-I
Samkvæmt lögregluskýrslu hafði A samband við lögreglustöðina kl. 21:20 hinn 16. september og sagði korti sínu hafa verið stolið. Hjá sér hefði verið í heimsókn ákærði. A hefði brugðið sér á snyrtingu og á meðan hefði veski hans verið á borði. Þegar A hefði komið til baka hefði ákærði sagt að hann þyrfti að fara og síðan gert svo. Skömmu síðar hefði leigubifreiðarstjóri haft símasamband við A og sagt honum að ákærði hefði reynt að greiða með korti hans. Hefði A þá kannað málið og uppgötvað hvarf kortsins. Klukkan 21:29 var ákærði handtekinn í verzluninni 10-11. Reyndist hann vera með debet-kort A í jakkavasa. Er haft eftir honum í skýrslunni að hann hafi verið með kortið með leyfi A.
Í skýrslunni segir að lögregla hafi farið á afgreiðslu leigubílastöðvarinnar BSO og rætt þar við C afgreiðslustúlku. Er haft eftir henni að ákærði hafi komið þar og beðið hana um að „taka út af korti sem hann var með jafnvirði þriggja kartona af sígarettum (30 sígarettupökkum). C sagðist hafa slegið inn upphæð að verðmæti 33.000 króna en [ákærði] sagðist ekki vera með PIN númerið á kortinu. C hefði því beðið hann um að fá að sjá kortið en að [ákærði] hafi ekki viljað láta hana hafa kortið. [Ákærði] lét hana þó hafa kortið en ekki fyrr en D leigubifreiðastjóri var kominn þarna fram. Þá sagðist [ákærði] hafa átt að fara og kaupa sígarettur fyrir A. D taldi það ekki geta staðist og hringdi í A. Við það tók [ákærði] kortið og fór af vettvangi“. Í skýrslunni segir að samkvæmt „afriti af kvittunum frá BSO var klukkan 19:46 þegar þetta átti sér stað.“
Í upplýsingaskýrslu lögreglu segir að haft hafi verið símasamband við A. Haft er eftir honum að hann hafi „látið loka debetkortinu strax og hann hafi áttað sig á því að því hafi verið stolið.“
Fyrri ákæra, ákæruliður B-II
Í sömu skýrslu og rakin var vegna ákæruliðar B-I segir að klukkan 22:13 sama kvöld hafi lögregla farið í verzlunina 10-11 í Kaupangi og rætt þar við E afgreiðslumann. Er haft eftir honum að ákærði hafi komið þar og beðið um þrjú „karton“ af vindlingum. Þegar hann hafi ætlað að greiða með korti hafi E séð á skjá hjá sér að kortið væri „vákort“. E hafi tjáð ákærða þetta sem þá hefði sagt honum að „lána sér pening úr kassanum“, eins og það er haft eftir í skýrslunni. Hafi ákærði sagt að hann væri „með hníf og rafbyssu og myndi koma seinna í kvöld og þá yrði hann ekki svona rólegur í þeirri heimsókn.“
Samkvæmt strimli úr 10-11 hefði söluverð vindlinganna numið 35.073 krónum.
Síðari ákæra, ákæruliður I
Samkvæmt lögregluskýrslu barst lögreglu tilkynning frá F kl. 22:34 hinn 21. apríl, þess efnis að bifreiðinni [...], sem hún hefði til umráða, hefði verið stolið skömmu áður. Segir í skýrslunni að fyrstu upplýsingar hafi verið mjög óljósar en þó er skráð niður frásögn á þá leið að F hafi nokkurum dögum áður látið „einhvern Þórð“ fá bifreiðina því Þórður þessi hafi ætlað að gera við bifreiðina og því næst kaupa hana. Þetta kvöld hafi Þórður svo komið til F, ásamt Ólafsfirðingi einum sem gengi undir tilteknu gælunafni, og þeir þá verið á bifreiðinni. Hefði Þórður látið F fá „poka með hvítu dufti í“ og sagt þar komna greiðsluna fyrir bifreiðina. F hefði ekki samþykkt það og Þórður þá farið aftur með pokann og þeir Ólafsfirðingur ekið bifreiðinni burt. Hefðu báðir verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Er haft eftir F að Þórður hafi nánar tilgreint símanúmer en frekari upplýsingar hefði hún ekki um hann.
Í skýrslunni segir að lögreglu hafi þegar grunað að þarna hefði ákærði verið á ferð og með honum G frá Ólafsfirði. Við athugun hafi komið í ljós að ákærði hefði það símanúmer er F hefði vísað á. Lögregla hefði því ekið í átt til Ólafsfjarðar en ekki fundið bifreiðina.
Þá segir í skýrslunni að kl. 00:13 hafi F hringt á ný og sagt að tekizt hefði að ná símasambandi við ákærða og hann þá sagzt vera einhvers staðar á leiðinni til Ólafsfjarðar og hafa ekið út af veginum. Enn segir í skýrslunni að klukkan 00:51 hafi sjúkraflutningamenn frá Ólafsfirði tilkynnt að þeir hafi komið að þar sem bifreiðin [...] hefði verið utan vegar skammt norðan Ólafsfjarðar og einn maður í henni, ekki slasaður. Þangað hafi þá farið lögregluþjónar frá Dalvík og fundið ákærða í bifreiðinni. Hafi hann sýnilega verið undir áhrifum vímuefna og af honum áfengislykt. Í upplýsingaskýrslu segir að í bifreiðinni hafi verið fimm hálfs lítra bjórdósir og ein óopnuð.
Lögregla yfirheyrði ákærða hinn 22. apríl. Er þar haft eftir ákærða að hann hafi fengið bifreiðina lánaða „svona í upphafi en það hefur greinilega breytzt. Ég er náttúrulega sviptur og var að keyra í gær.“ Spurður um gærdaginn segist hann fyrst ekkert vita. Spurður um akstur daginn áður svarar ákærði: „Ætli ég hafi ekki verið á leiðinni á Ólafsfjörð að hitta kunningja minn þar.“ Hann hafi verið einn á ferð og hafið aksturinn á Akureyri, ekið beint úr bænum „og endaði svo þarna út fyrir veg, á bezta stað.“ Fram að því hafi aksturinn gengið vel. Hann hafi líklega endað utan vegar þar sem sprungið hefði á afturhjóli.
Spurður um eiganda bifreiðarinnar sagði ákærði að það væri „stelpa sem heitir [...].“ Ákærði hefði gert við „startara“ bifreiðarinnar fyrir nokkurum dögum en síðar spurt hvort bifreiðin væri föl. „[...]“ hefði sagt svo vera og leyft ákærða að aka bifreiðinni til reynslu. Í skýrslunni segist ákærði hafa hitt „[...]“ daginn áður, heima hjá henni, og þar hefði allt farið „í háaloft svo ég stakk af“. Spurður hvers vegna svo hefði farið svaraði ákærði að það hefði líklega verið af því að hann „vildi ekki afhenda bílinn.“ Hann hefði talið sig þurfa á honum að halda.
Hinn 22. apríl kom F á lögreglustöð og kærði ákærða og G fyrir nytjastuld. Í skýrslu er meðal annars haft eftir henni að bifreiðin hafi verið búin að vera ógangfær í talsverðan tíma en nágranni hennar og vinur hans, ákærði, hefðu boðizt til að gera við hana, sem F hefði samþykkt. Eftir viðgerðina hafi ákærði skilað bifreiðinni. Undanfarna daga hafi bifreiðin staðið í langtímastæði við flugvöllinn. Ákærði hafi komið til F og spurt hvað hún ætlaði að gera við bifreiðina, en kunningi sinn hefði áhuga á að kaupa hana. Hún hafi látið ákærða fá lykil og sagt hvar bifreiðina væri að finna, svo hann gæti sýnt kunningjanum hana. Næst hafi vitnið séð bifreiðinni ekið inn á bílastæðið við [...] og úr henni komið ákærði við annan mann. Rakti hún síðan atvik sem þar hefðu orðið og þykir ekki ástæða til að endurtaka hér, en sagði um brottför ákærða og félaga hans að hún hefði ekki séð „hvor fór undir stýri“.
Síðari ákæra, ákæruliður II
Samkvæmt lögregluskýrslu hafði H apótekari samband við lögreglu kl. 16:00 hinn 19. september og tilkynnti þjófnað. Maður nokkur hefði komið í Akureyrarapótek en vörur vantað í hillu að honum förnum. Við skoðun á upptökum úr eftirlitsmyndavélum hefði komið í ljós að maðurinn hefði stolið vörum. Að því er skiptir máli um þennan ákærulið er í skýrslunni haft eftir H að maðurinn hafi stolið „Durex Play Feel-sleipiefni, að verðmæti kr. 1.076.“ Segir í skýrslunni að H hafi afhent lögreglu upptöku úr eftirlitsmyndavél og hafi lögregla þekkt ákærða á upptökunni.
Síðari ákæra, ákæruliður III
Samkvæmt lögregluskýrslu kom I á lögreglustöð hinn 22. nóvember og tilkynnti stuld á reiðhjóli sínu. Kvöldið áður hefði honum verið bent á að bílskúrsdyr hans stæðu opnar og hefði hann lokað þeim með fjarstýringu. Klukkan 11:00 þennan dag hefði hann svo gengið um bílskúrinn og þá séð að horfið væri hjól sitt af gerðinni GT Marathon, 26“ fulldempað með karbon ramma og XTR búnaði. Hafi verðmæti hjólsins verið 550.000 krónur við kaup fyrir fjórum til fimm árum.
Samkvæmt annarri lögregluskýrslu hafði I samband við lögreglu að nýju hinn 6. desember og sagði að J leigubifreiðastjóri hefði hringt til sín og sagt að „einhver Doddi“ hefði verið við leigubifreiðastöðina á hjóli sem væri alveg eins og það sem stolið hefði verið. Hefði „Doddi“ rætt hjólið við J og sagt það um 600.000 króna virði. Hefðu aðrir bifreiðastjórar á stöðinni þekkt „Dodda“ sem ákærða. Þá segir í skýrslunni að I hafi hringt að nýju skömmu síðar og sagt frá því að hann hefði nú þær upplýsingar að „Doddi“ hefði sézt á hjólinu við [...]. Þangað hafi lögregla svo farið og fundið hjól en ekki ákærða. Hefði hald verið lagt á hjólið en skrifleg boð skilin eftir til ákærða og hann beðinn um að hafa samband við lögreglu vegna málsins.
Skýrslur fyrir dómi
Fyrri ákæra, ákæruliðir A-II og A-III
Ákærði neitaði að hafa reynt að brjótast inn í Dýraríkið og kvaðst ekki heldur hafa brotizt inn í bifreið. Hann hefði hins vegar fundið veski „við einhvern ruslagám þarna“. Hann hefði gramsað eitthvað í veskinu, tekið úr því tvö kort og fleygt því svo frá sér. Hann kvaðst ekki muna til þess að hafa verið með hamar í fórum sínum þetta sinn. Spurður hvers vegna hann hefði falið sig fyrir lögreglunni svaraði ákærði því að það hefði hann gert af gömlum vana.
Ákærði sagðist muna „mjög óljóst“ eftir þessu kvöldi.
Hann kvaðst ekki hafa haldið hund á þessum tíma og ekki hafa haft ástæðu til að stela hundafóðri.
Vitnið K lögregluþjónn sagði lögreglu hafa tekið eftir manni „eiga við bakdyrahurð“ á húsi við [...]. Lögregla hefði farið þangað en maðurinn þá verið farinn en dyrnar ólæstar. Lögregluþjónarnir hefðu farið garð úr garði í leit að manninum þar til vitnið hefði séð mann, eins klæddan og sá sem áður hefði sézt, stefna að trjálundi við [...]. Þar í lundinum hefðu þeir fundið og handtekið ákærða. Á honum hefði fundizt „svolítið af verkfærum“.
Vitnið L lögregluþjónn sagði að hamar sá, sem ákærði hefði verið með í fórum sínum, hefði verið sendur til tæknirannsóknar í Reykjavík. Við þá rannsókn hefði ekki fundizt glersalli á hamrinum. „En hamarinn náttúrlega bar öll merki þess eins og hefði verið djöflast með hann alveg hreint, hann var orðinn sjúskaður og þreyttur þessi hamar og þessi för voru nýleg.“
Vitnið sagði að far á hurð hefði komið heim og saman við hamarshausinn.
Vitnið M lögregluþjónn sagðist hafa verið við eftirlit um nóttina og ákærði hefði verið eini maðurinn sem hún hefði séð á ferli á svæðinu um nóttina. Þess vegna hefði verið svipazt um eftir honum þegar tilkynning hefði komið um innbrot í Dýraríkið.
Fyrri ákæra, ákæruliður B-I
Ákærði kannaðist við að hafa verið með debetkort A en kvaðst hafa talið sig hafa „leyfi eða umboð frá Pétri til þess.“ Þeir tveir þekktust mjög vel. Ákærði hefði oft farið og verzlað fyrir A en að vísu ekki áður með hans kort. Í þetta sinn hefði A sent sig með kortið til að kaupa fyrir þá tóbak, en A ætti erfitt með gang. Á BSO hefðu viðskiptin farið út um þúfur þegar ákærði hefði ekki slegið inn leyninúmer kortsins, afgreiðslustúlkan hefði viljað sjá myndina á kortinu og þá hefði komið „einhver bakþanki í“ ákærða. Hann hefði þá viljað „skila greiðslunni“ og farið. Leigubifreiðastjórinn D hefði verið kominn þarna að og farið „að skipta sér af þessu“, en D og A þekktust. Sér hefði skilizt að D hefði ætlað að hringja í A og spyrja hvort ákærði mætti nota kortið.
Vitnið C afgreiðslustúlka sagði ákærða hafa komið inn á BSO og beðið um „karton“ af vindlingum. Hún hefði afgreitt hann en svo viljað sjá debetkortið sem hann hefði greitt með. Ákærði hefði neitað því og hún þá kallað á leigubifreiðarstjórann D. Hann hefði komið fram, en vitnið kvaðst ekki muna „nákvæmlega hvort að hann fór út með kortið eða, en alla vega D þekkti þennan mann sem átti kortið og hringdi í hann“.
Vitnið sagðist ekki muna hvort ákærði hefði reynt að kaupa eitt „karton“ eða þrjú, en upphæðin hefði verið bakfærð. Sagði svo að þau hefðu verið þrjú er henni var sýndur „kassastrimill“.
Vitnið A sagði ákærða hafa verið í heimsókn hjá sér og þeir drukkið bjór. Veski vitnisins hefði legið þar á borði og vitnið hefði haft orð á því að það ætti fimmtíu þúsund króna innstæðu „á kortinu. Svo bara skömmu seinna þá stendur hann upp og segist þurfa að fara að drífa sig.“ Um hálfri klukkustund til þremur stundarfjórðungum síðar hefði leigubifreiðarstjórinn D hringt í vitnið og „hafði hann séð þennan dreng vera með kortið mitt að reyna að kaupa sígarettukarton á BSO“. D, sem þekkti vitnið, hefði stöðvað viðskiptin og vitnið hringt til lögreglu. Vitnið hefði fengið kortið til baka daginn eftir og ákærði hefði ekki náð fé af reikningi vitnisins.
Vitnið neitaði því alfarið að hafa fyrir sitt leyti leyft ákærða að nota kortið, svo sem til að kaupa vindlinga eða annað, hvorki þá né á öðrum tíma. Vitnið sagðist ekki hafa verið tóbakslaust á þessum tíma.
Fyrri ákæra, ákæruliður B-II
Ákærði sagðist hafa farið í verzlunina 10-11 til að kaupa sér tóbak. Hann hefði verið með sitt eigið kort en „fengið synjun“ á það. Hann kvaðst ekki treysta sér til að svara hvað hefði farið milli sín og afgreiðslumannsins. Sjálfur hefði hann verið undir áhrifum áfengis og „virðist fara að rugla bara eitthvað í honum. Og verið eitthvað fúll þarna.“ Hann kvaðst ekki geta sagt að hann hefði hótað manninum þótt hann hefði verið með „fyllerísbull“ og dónaskap. Ákærði hefði til dæmis sagt manninum „að hann væri drullusokkur og eitthvað svona.“ Þessum samskiptum hefði lokið með því að ákærði hefði verið handtekinn.
Vitnið E sagðist hafa verið að afgreiða í verzluninni þegar ákærði hefði komið þangað. Fyrst hefði ákærði reynt að kaupa „helling“ af vindlingum en ekki getað þar sem hann hafi framvísað korti sem skráð hafi verið sem vákort. Hefði ekki verið um innstæðuleysi að ræða heldur vákort, óheimilt til greiðslu. Ákærði hefði verið „með ógnandi tilburði og ég er að afgreiða bara fólk sem kemur inn og út, og hann kemur alltaf inn á milli og er með einhverjar svona hótanir og segist vera með eitthvað á sér og reynir bara, þú veizt, ætlar að fá, hvernig var þetta, hann ætlar sem sagt bara að fá helling af tóbaki og ég á í rauninni að lána honum fyrir því“. Ákærði hefði meðal annars sagzt vera með hníf á sér og piparúða og kvaðst vitnið hafa skilið það svo að þessu yrði beint gegn honum „ef ég myndi ekki verða við því sem hann sagði“, en ákærði hefði sagzt ætla að „koma síðar um nóttina og beita þessu þá.“
Vitnið sagði að nokkurum dögum eftir þetta hefði ákærði komið í verzlunina, þá í betra standi, og beðið sig afsökunar. Hefði vitninu orðið svolítið rórra eftir það.
Síðari ákæra, ákæruliður I
Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa ekið bifreiðinni. Hann hefði fengið aðgang að henni og lykil „til að skoða hann og gera tilboð í hann ásamt kunningja mínum.“ Kvaðst hann ekki vilja nafngreina kunningjann en þeir hefðu hugleitt bifreiðarkaupin saman.
Ákærði var spurður hver hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn frá Akureyri og svaraði hann: „Ætli það hafi ekki verið sá sem var með mér þarna uppi í stigaganginum.“ Kvaðst ákærði ekki vita fullt nafn hans en hann væri kallaður G og héti líklega G. Spurður um lögregluskýrslu þar sem ákærði hefði játað aksturinn kvaðst ákærði telja að þar hefði hann „aðallega verið að reyna að verja sjálfan“ sig. Af G þessum færi það orð að hann gæti verið „hálf varasamur“.
Fyrir dómi sagði vitnið F að nágranni sinn í sama húsi hefði bent sér á að ákærði gæti gert við bifreið vitnisins og hefði vitnið fengið ákærða til þess. Viðgerðin hefði átt að vera smávægileg. „Svo heyri ég bara læti fyrir utan og þá er hann að keyra bílinn minn. Sem hann hafði bara ekki leyfi fyrir og það var greinilega mjög sko undir áhrifum.“ Ákærði hefði komið upp og ætlað að tala við vitnið, sem hefði sagt honum að afhenda sér kveikjuláslykilinn. Þá hefði ákærði farið að ögra vitninu og veifa lyklinum framan í það. Vitnið hefði sagt ákærða að hann hefði ekkert leyfi til að aka bifreiðinni. Nágrannar vitnisins, P og N, hefðu komið og reynt að hjálpa vitninu. Vinur ákærða hefði komið með honum og „svo segjast þeir ætla að fara að ná í eitthvað dót út í bíl sem að hérna og sem sagt skila bílnum svo, ætla bara að hlaupa niður og ná í eitthvað dót. Og maðurinn hennar P ætlar að fara á eftir þeim [...]. En þeir bara hlaupa út í bíl og keyra bara í burtu.
Vitninu var kynnt skýrsla þess fyrir lögreglu. Kvaðst vitnið eftir það muna betur eftir atvikum og væri skýrslan rétt. Spurt hvað það myndi um það hver hefði ekið bifreiðinni af vettvangi sagðist vitnið telja að félagi ákærða hefði við brottförina setið í farþegasætinu. Nánar spurt sagði vitnið: „Þegar þeir voru að keyra götuna þá sá ég G í farþegasætinu.“
Vitnið N sagði F hafa komið til sín klukkan rúmlega ellefu og verið niðurbrotin. Lýsti vitnið því að það hefði séð tvo menn og þeir verið í annarlegu ástandi að mati vitnisins. Annar hefði neitað að afhenda F lykla að bifreið hennar og hún hefði beðið þau hjónin um hjálp. Vitnið og eiginmaður þess, P, hefðu reynt að ná bíllyklinum en það ekki tekizt. Maðurinn hefði sagzt ætla að sækja eitthvað sem hann ætti í bifreiðinni. Ljóst hefði verið að F hefði neitað manninum um að fara á bifreiðinni.
Vitnið sagði að allt hefði þetta gerzt mjög hratt.
Vitnið sagði að sig minnti að sá mannanna sem F hefði meira talað við hefði verið sköllóttur en hinn ekki.
Vitnið P sagði F hafa bankað hjá þeim hjónum. Tveir menn hefðu verið á stigaganginum og með læti. Þau hjón hefðu farið fram og sagt mönnunum að snáfa burt. F hefði viljað fá lykil bifreiðarinnar afhentan og hefði vitnið reynt að hjálpa henni til þess. Annar mannanna hefði sagzt ætla að ná í eitthvert dót sem væri í bifreiðinni „og hann fór út og hinn varð eftir minnir mig, svo vissi maður ekki meir fyrr en hann var bara, fór á bílnum.“ Vitnið sagðist hafa heyrt F banna þeim að fara á bifreiðinni.
Vitnið kvaðst telja að annar mannanna hefði farið á bifreiðinni en hinn orðið eftir.
Báðir mennirnir hefðu verið með húfu.
Vitnið G sagði ákærða hafa komið til sín um hádegi og þá verið á einhverri bifreið. Ákærði hefði spurt vitnið hvort það vildi kaupa bifreiðina eða vissi um nokkurn sem vildi gera svo. Þeir hefðu ekið á bifreiðinni „einhvern smáhring“ og svo farið í einhverja blokk á Akureyri þar sem ákærði hefði ætlað að hitta einhverja vinkonu sína. Þau hefðu farið að rífast og vitnið sagt ákærða að koma út. Þeir hefðu hraðað sér út, „bara drífum okkur, þú veizt, hoppar upp í bíl og við keyrum út í Ólafsfjörð, búið.“ Ákærði hefði ekið og kvaðst vitnið ekki muna til þess að hafa ekið sjálft. Vitnið kvaðst hafa verið enn í bifreiðinni þegar henni hefði verið ekið út af. Vitnið hefði verið ölvað en ekki vita um ástand ákærða, en hann hefði verið „eflaust fullur“.
Síðari ákæra, ákæruliður II
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið staddur í apótekinu umrætt sinn og hafa þar keypt sér sprautur.
Vitnið H apótekari sagði starfsfólk Akureyrarapóteks hafa grunað að vörur hefðu horfið þegar ákærði hefði verið í apótekinu. Þess vegna hefðu upptökur úr öryggismyndavélum verið skoðaðar. Væri að mati vitnisins enginn vafi á því að ákærði sæist stinga á sig vörum.
Síðari ákæra, ákæruliður III
Ákærði sagði reiðhjólið hafa staðið við húsið [...], stundum inni, stundum úti. Í húsinu væru þrjár íbúðir og hefði ákærði haldið þar til að miklu leyti um tveggja ára skeið. Hann sagðist ekki hafa slegið eign sinni á reiðhjólið, í mesta lagi farið á því fjórum sinnum inn í bæ og svo skilað því á sama stað. Hann hefði ekki vitað hver ætti reiðhjólið en hafa talið víst að það yrði látið óátalið þótt hann notaði það. Reiðhjólið hefði verið þarna í þó nokkuð marga daga og „alltaf einhver hreyfing á þessu af og til þannig að það hlaut að tilheyra þessu húsi bara.“ Í húsinu hefðu átt heima eða haldið til allnokkurir menn um lengri eða skemmri tíma. Þeir hefðu ekki gert neitt veður út af því þótt ákærði notaði reiðhjólið.
Vitnið sagðist ekki hafa vitað neitt um verðmæti reiðhjólsins.
Vitnið J leigubifreiðarstjóri sagði ákærða hafa komið að leigubifreiðastöðinni en vitnið hefði þá verið fyrir utan hana að reykja vindling. Þar hefði verið fleira fólk að ræða saman. Ákærði hefði þá bent sér á reiðhjól og sagt það sitt. Vitnið hefði þá „í fíflagangi“ sagt að hjólið væri „bara einhver ruslahaugur“ en ákærði hefði svarað því til að það kostaði fjögur til fimm hundruð þúsund krónur og hefði vitninu komið á óvart að ákærði hefði ráð á slíku reiðhjóli. Eftir samtal þeirra hefði vitnið haft orð á þessu við kunningja sinn og hefði sá þá haft orð á því að hann hefði séð á vefsíðunni „facebook“ að I læknir hefði auglýst eftir hjóli sínu sem hefði sennilega verið stolið. Vitnið hefði haft samband við I, sagt honum heiti reiðhjólsins og hefði I sagt þetta vera sitt reiðhjól, því ekki væri annað slíkt til á Akureyri.
Vitnið Q sagðist vera formaður [...] en I hefði innan félagsins auglýst eftir reiðhjóli sínu. Vitnið hefði verið statt fyrir utan verzlun og séð reiðhjólið fyrir utan og hafa þá orðið ánægt að sjá að hjólið væri komið í leitirnar. Svo hefði hins vegar maður nokkur birzt á hjólinu og mætti segja að hann væri að minnsta kosti ekki þekktur „innan hjólabransans“. Þetta reiðhjól væri þess eðlis „að það þyrfti nú svolitla fanatík til að splæsa í það“, en það myndi kosta 300 til 500 þúsund krónur að mati vitnisins. Vitnið hefði því elt manninn á leiðarenda og haft svo samband við I.
Vitnið sagði að maðurinn á hjólinu hefði verið dökkklæddur, með sambærilegt skegg og ákærði.
Vitnið R kvaðst hafa hleypt lögreglu inn á [...]. Reiðhjólið hefði þá verið búið að vera við húsið „mikið til“ undanfarnar vikur og hefði vitnið lítið hugsað um hver ætti það. Vitnið hefði vitað að ákærði hefði eitthvað notað það en kvaðst lítið hafa velt því fyrir sér.
Vitnið sagði að húsið væri þríbýlishús með sameiginlegum inngangi. Á þessum tíma hefði ákærði átt heima þar hjá vitninu og hefði verið búinn að vera þar í nokkura mánuði þegar mál þetta hefði komið upp. Samgangur hefði verið milli manna í húsinu og allir þekkzt. Hver hefði fengið hjá öðrum lánað það sem hann þurfti og svo skilað því aftur. Slíkt hefði verið vandræðalaust og einfalt.
Vitnið sagðist ekki vita til þess að reiðhjólið hefði komið til tals milli manna í húsinu.
Niðurstaða
Ákærði játar sök samkvæmt tveimur ákæruliðum fyrri ákæru. Játning hans fær næga stoð í gögnum málsins og engin sérstök ástæða er til að draga hana í efa. Með játningu sinni er hann sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimildar í ákæru.
Fyrri ákæra, ákæruliðir A-II og A-III
Ákærði var á ferð nálægt vettvangi umrædda nótt og brauzt þá inn í glerverksmiðjuna Íspan hf. og stal þar, svo sem rakið er í ákæru. Við handtöku var hann meðal annars með hamar í fórum sínum en telja verður ljóst að hamar af þeirri stærð hafi verið notaður við innbrotstilraunina í Dýraríkið. Lögreglumenn leituðu víða í grenndinni og urðu ekki varir við aðrar mannaferðir en ákærða. Þykja líkurnar á því að ákærði hafi verið að verki í Dýraríkinu svo miklar að ekki verði talinn á því skynsamlegur vafi. Þá liggur fyrir að brotizt var inn í bifreiðina [...] og þaðan tekið veski sem í voru greiðslukort. Þau var ákærði með í fórum sínum við handtökuna. Þykir fjarstæðukenndur sá möguleiki að óþekktur annar maður hafi verið að verki, tekið veskið úr bifreiðinni en skilið það eftir með kortunum í, en ákærði hafi svo fundið veskið og stungið kortunum á sig. Þykir ekki skynsamlegur vafi á því að ákærði hafi verið að verki og er sök hans sönnuð. Ákærði telst sannur að sök samkvæmt ákæruliðum A-II og A-III en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimildar í ákærunni.
Fyrri ákæra, ákæruliður B-I
Ljóst er að ákærði var með í fórum sínum debetkort sem gefið hafði verið út til handa A og reyndi að nota það við kaup á vindlingum. Sjálfur segir ákærði að þetta hafi verið með vitund og vilja A en A mótmælir því.
Fyrir dómi sagði ákærði að A og leigubifreiðarstjórinn D þekktust og verður að telja að ef ákærði hefði verið með kortið með vitund og vilja A hefði hann mátt gera ráð fyrir því að A staðfesti það við D. Virðist sem ákærði hafi ekki gert ráð fyrir slíku, en hann kaus að reyna ekki frekar á viðskiptin og yfirgaf vettvang.
Ákærði reyndi viðskipti með debetkorti sem gefið hafði verið út til annars manns og hefur ekkert komið fram í málinu sem styður að hann hafi fengið heimild til slíks. Er sök hans sönnuð samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemi ákærða rétt færð til refsiheimildar.
Fyrri ákæra, ákæruliður B-II
Ákærði kom í verzlunina 10-11. Afgreiðslumaðurinn E bar um skipti þeirra fyrir dómi og var trúverðugur. E bar að ákærði hefði reynt að kaupa „helling“ af vindlingum en korti því er hann hefði framvísað hefði verið synjað sem „vákorti“. Hvort tveggja fær stoð í öðru sem liggur fyrir í málinu. Fyrir liggur að ákærði reyndi að kaupa þrjú „karton“ af vindlingum fyrr um kvöldið á BSO og í upplýsingaskýrslu lögreglu er haft eftir A að hann hafi látið „loka kortinu“ um leið og honum hefði orðið ljóst að því hefði verið stolið. Verður því byggt á frásögn E um þetta. Þykir ljóst að ákærði hafi þarna freistað þess að eiga umrædd viðskipti og nota kort A til greiðslu. Með þessu hefur ákærði brotið gegn 248. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
G ber að ákærði hafi haft uppi tiltekin orð við sig, svo sem rakið er í ákæru. Ákærði kannast ekki við það, þótt hann viðurkenni að hafa verið ókurteis í tali við G. Ekki eru aðrir til frásagnar og ekki liggja fyrir gögn í málinu eða annað sem getur tekið af tvímæli um þetta. Þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekizt að sanna sök ákærða að þessu leyti og verður ákærði sýknaður af ákæru vegna brots gegn 233. gr. almennra hegningarlaga.
Síðari ákæra, ákæruliður I
Ljóst er að ákærði var staddur við heimili F. Sannað er með framburði hennar og vitnanna N og P að þau hafi árangurslaust reynt að ná frá honum kveikjulásslykli bifreiðarinnar og að í framhaldi af því hafi bifreiðinni verið ekið burt. F sagðist hafa séð félaga ákærða í farþegasætinu þegar bifreiðinni hefði verið ekið burt.
Vitnið N kvaðst telja F fremur hafa talað við sköllóttan mann en hærðan, og sú lýsing á fremur við vitnið G en ákærða. Á það er hins vegar að líta að vitnið N sagði allt hafa gerzt mjög hratt og all langur tími var liðinn frá atvikinu er vitnið kom fyrir dóm. Vitnið P taldi báða mennina hafa verið með húfu. Þykir ekki verða ráðið af framburði vitnanna hver hafi ekið bifreiðinni af vettvangi.
Ákærði var í bifreiðinni er komið var að henni þar sem henni hafði verið ekið út af veginum til Ólafsfjarðar.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa ekið bifreiðinni. Fyrir dómi skýrði ákærði þann framburð sinn þannig að hann hefði með honum „aðallega verið að reyna að verja sjálfan“ sig en af G færi það orð að hann gæti verið „hálf varasamur“.
Vitnið G sagði fyrir dómi að ákærði hefði ekið bifreiðinni. Þrátt fyrir að þann framburð vitnisins verði að skoða í því ljósi að allar líkur eru á að sá þeirra sem hefur ekið hafi gert það í óleyfi umráðamanns bifreiðarinnar, þykir hér flest bera að þeim sama brunni að ákærði hafi í raun ekið bifreiðinni umrætt sinn svo sem í ákæru greinir.
Þegar á framanritað er horft þykir ekki vera á því skynsamlegur vafi að ákærði hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn svo sem honum er gefið að sök. Ekki er umdeilt að hann hafi verið undir áhrifum áfengis, þótt ekki liggi fyrir rannsóknir á því atriði. Hefur ákærði með þessu unnið sér til refsingar en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimilda í ákæru.
Síðari ákæra, ákæruliður II
Ákærði neitar sök. Í málinu liggur upptaka úr eftirlitsmyndavél er sýnir ákærða ganga með fram hillu með vörum í Akureyrarapóteki. Sjálfur skyggir ákærði á hillurnar og það sem á þeim er, þegar hann gengur fram hjá, en með samanburði þess sem sést á hillunum andartaki áður og andartaki eftir að ákærði gengur hjá þykir upptakan veita ákæruliðnum þá stoð sem enginn skynsamlegur vafi sé á, en enginn annar er í færum til að fjarlægja hluti af hillunni á sama tíma. Er ákærði sannur að sök samkvæmt þessum lið og háttsemi hans er rétt færð til refsiheimildar í ákæru.
Síðari ákæra, ákæruliður III
Hér er ákærða gefið að sök að hafa stolið umræddu reiðhjóli úr bílskúr við nánar greint hús á Akureyri. Ekkert liggur fyrir í málinu um að ákærði hafi verið þar á ferð. Hitt er ljóst að ákærði hafði slíkt hjól undir höndum og hefur ekkert komið fram um að hann hafi eignazt það með lögmætum hætti eða haft leyfi annars eiganda til að vera með reiðhjólið. Þykir mega miða við það í málinu að reiðhjóli þessu hafi í raun verið stolið frá I nokkuru áður, en framburður vitnisins Q veitir því stoð að um sama hjól sé að ræða.
Ákærði heldur því fram að hjólið hafi hann fyrst séð við þáverandi aðsetursstað sinn. Þykir ekki hafa verið sannað í málinu svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi í raun sjálfur stolið reiðhjólinu svo sem honum er gefið að sök. Verður hann sýknaður af því ákæruefni. Hins vegar þykir enginn skynsamlegur vafi vera á að ákærði hafi ítrekað tekið reiðhjólið til eigin þarfa og farið á því ferða sinna sem eigandi þess væri. Hefur hann brotið gegn 246. gr. almennra hegningarlaga svo sem honum er gefið að sök í ákæru.
Ákærði hefur töluverðan sakaferil að baki, allt frá árinu 1990. Eftir nóvember 2005 að maí 2013 var honum hins vegar aldrei gerð refsing svo kunnugt sé. Með vísan til 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga sbr. 4. mgr. þág. laga 49/2005 sbr. 4. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 sem leystu lög nr. 49/2005 af hólmi hinn 30. marz 2016 hefur sakaferill ákærða fyrir árið 2013 ekki ítrekunaráhrif í máli þessu.
Hinn 14. maí 2013 var ákærði dæmdur til greiðslu 220.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga en ákærði var sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti. Var ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð í dóminum. Hinn 26. júní 2014 var ákærði dæmdur til greiðslu 320.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga en ákærði var sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti. Var ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð í dóminum. Brot sín samkvæmt ákæruliðum A-I, A-II og A-III í fyrri ákæru og ákærulið I í síðari ákæru framdi ákærði fyrir uppsögu síðarnefnds dóms. Verður refsing hans að því leyti ákveðin sem hegningarauki.
Ákærði játaði sök samkvæmt tveimur ákæruliðum en neitaði að öðru leyti. Hann lét vel af högum sínum og kvaðst nú sinna börnum sínum og ganga vel. Hefði sér að mestu tekizt að halda sig frá áfengi og öðrum vímugjöfum undanfarið.
Brot ákærða nú framdi ákærði á alllöngu tímabili, í apríl, maí, júlí, september, október og nóvember ársins 2014. Á hinn bóginn er nú allnokkuð um liðið frá því brotunum lauk, án þess að ákærða verði sérstaklega kennt um þann tíma sem meðferð málsins hefur tekið.
Þegar á allt er litið verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í fjóra mánuði og er ekki unnt að binda hana skilorði. Ökuréttarsvipting ákærða verður áréttuð svo sem í dómsorði greinir. Sakarkostnað ber ákærða að greiða, þar með talin málsvarnarlaun Gísla M. Auðbergssonar hrl. skipaðs verjanda hans, 818.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 146.624 króna ferðakostnað hans, auk annars sakarkostnaðar sem samkvæmt gögnum málsins nam 181.371 krónu. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu ákæruvaldsins fór Eyþór Þorbergsson fulltrúi lögreglustjóra með málið.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Þórður Pétur Pétursson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.
Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.
Ákærði greiði 818.400 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hrl., 146.624 króna ferðakostnað verjandans og 181.371 krónu annan sakarkostnað.