Hæstiréttur íslands
Mál nr. 158/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 12. mars 2013. |
|
Nr. 158/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. mars 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og einangrun aflétt.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a. og b. liðar 1. mgr. 95 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. f. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. mars 2013 kl. 16. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að einangrun verði aflétt.
Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að í gær hafi kærði, X, verið handtekinn grunaður um aðild á innflutningi sterkra fíkniefna hingað til lands. Um klukkan 15:00 í gær hafi lögregla séð hvar kærði X kom að gistiheimili við [...] í [...] og hitti þar landa sinn A, þar sem X afhendi A hægðarlyf (laxerolíu) og mat.
Um klukkan 15:50 hafi A verið handtekinn á gistiheimilinu. Við líkamsrannsókn á honum hafi mátt sjá aðskotahluti neðarlega í meltingarvegi hans sem lögregla ætli að séu fíkniefni. Þá hafi A viðurkennt að hafa innbyrgt mikinn fjölda hylkja sem hafi að geyma fíkniefni og nú þegar hafi hann skilað frá sér þó nokkrum fjölda hylkja en þó ekki öllum.
Um kl. 15:55 hafi kærði verið handtekinn á gistiheimili við [...] í [...]. Í yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði neitað sök. Hann kvaðst hafa komið hingað til lands í gær í því skyni að kaupa bifreiðar. Aðspurður um ferðir sínar í gær kvaðst hann hvorki hafa farið að gistiheimilinu við [...] né hitt A.
Kærði X sé nú undir rökstuddum grun um þátttöku í ofangreindum innflutningi og megi ætla að fleiri aðilar tengist brotinu. Lögregla leiti nú þeirra manna sem hafi átt að taka á móti hinum innfluttu efnum en ljóst sé að til hafi staðið að selja efnin hér á landi.
Rannsókn málsins sé á frumstigi og því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna málsins. Gangi kærði frjáls ferða sinna kunni hann að spilla rannsókninni, s.s. með því að setja sig í samband við aðra sakborninga eða koma undan munum sem sönnunargildi hafi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkæmt gögnum málsins er kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmann og vitna. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því fyrir hendi í málinu. Kærði er erlendur ríkisborgari og hefur að því er virðist engin tengsl við Ísland. Verður því talið að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Vægari úrræði eru ekki fullnægjandi til að tryggja nærveru kærða meðan mál hans er í rannsókn. Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. mars 2013 kl. 16:00.
Kærða er gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.