Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. mars 2004.

Nr. 129/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Böðvar Bragason lögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. og d. liðir 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og geðrannsókn með vísan til d-liðar 1. mgr. 71. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. apríl 2004 kl. 16.00 og sæta jafnframt geðrannsókn. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Í málinu liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi, eftir að honum var gert að sæta nálgunarbanni 20. janúar 2004, brotið gegn 232. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Fram kemur í læknisvottorði Kristófers Þorleifssonar geðlæknis 26. mars 2004, sem vísað er til í hinum kærða úrskurði, að varnaraðili sé hættulegur öðrum. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á með héraðsdómara að skilyrðum c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald sé fullnægt. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2004.

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, verði gert að sæta gæslu­varðhaldi til föstudagsins 23. apríl 2004, kl. 16:00.  Jafnframt er þess krafist að  X verði gert að sæta geðrannsókn.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 20. janúar sl. hafi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðað [...] að X skyldi sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94, 2000.  Samkvæmt greindum úrskurði sé X óheimilt í 9 mánuði að koma á eða í námunda við heimili B, Z, á svæði sem afmarkist við 50 metra radíus umhverfis Z.  Jafnframt hafi verið lagt bann við því í 9 mánuði að X komi á eða í námunda við heimili A, Q, Reykjavík á svæði sem afmarkist við 50 metra radíus umhverfis Q.  Enn fremur hafi X verið bannað í 9 mánuði að veita B og A eftirför, nálgast þau á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- og farsíma þeirra eða setja sig á annan hátt beint í samband við þau.  Úrskurður héraðsdóms hafi verið birtur fyrir X þann 3. febrúar sl.

Samkvæmt geðheilbrigðisvottorði Kristófer Þorleifssonar, geðlæknis, frá 6. janúar sl., komi m.a. fram að X sé haldinn cyclothymia eða tvílyndi, hann sé mjög persónuleikaraskaður með andfélagslega persónuleikaröskun svo og persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum, hann hafi mjög laka hvatastjórn, sé hvatvís, reiðigjarn og ofstopafullur en hann sé algerlega meðvitaður um hvað hann geri og hann sé ekki haldinn neinum geðsjúkdómi sem afsaki gjörðir hans í reiðiköstum og hann því fullkomlega sakhæfur.  Í vottorðinu komi einnig fram að X sé talinn hættulegur öðrum enda sé hann þekktur af líkamsmeiðingum og hótunum, en síður eða ekki hættulegur sjálfum sér.

[...]

Meintur brotaferill X hafi hafist þann 20. ágúst 2003 og staðið til 1. janúar sl. og verið tilefni nálgunarbannsins.  Um hafi verið að ræða röð tilvik í formi hótana og ógnana af ýmsu tagi, húsbrots, spjalla á bifreiðum, líkamsárás o.fl. í garð A og B.  Meintur brotaferill hans hafi hafist að nýju þann 9. febrúar sl. og hafi haldið áfram síðan en um sé að ræða svipuð brotatilvik og legið hafi til grundvallar nálgunarbanninu.  Ljóst sé að X virði ekki nálgunarbannið og brot hans sýni fram á einbeittan brotavilja hans.  Rannsóknargögn beri með sér að X sé hættulegur einstaklingur og þeim A og B stafi ógn af honum.  Að mati lögreglu sé því nauðsynlegt að X sæti gæsluvarðhaldi til að verja þau fyrir frekari ofsóknum frá X.

Lögregla kveður að ólokið sé rannsókn þeirra fimm nýlegu mála sem að framan greini en fyrir liggi að höfða opinbert mál á hendur X vegna mála nr. [...] Að mati lögreglu megi ætla að X muni halda áfram brotum meðan málum hans sé ekki lokið, hjá lögreglu og fyrir dómi, til að koma í veg fyrir áframhaldandi brota­starfsemi.

      Sama dag og X var handtekinn, þann 25. mars sl.,  hafi Kristófer Þorleifsson geðlæknir, verið kvaddur til að leggja mat á hvort ástæða væri til að X sætti nauðungarvistun skv. III. kafla, sbr. 7. gr., lögræðislaga nr. 71, 1997.  Í vottorði læknisins komi fram að X væri algjörlega rauntengdur, ekki með ranghugmyndir eða ofskynjanir en dómgreind hans hins vegar biluð, dapur, í jafnvægi en haldinn tvílyndi.  Að öðru leyti hafi mat læknisins verið hið sama og fram komi í vottorði hans frá 6. janúar sl.  Það hafi verið mat læknisins að ástand X væri ekki það sjúklegt að nægjanlegar forsendur væru fyrir nauðungarvistun á lokaðri geðdeild.  Helgi Guðbergsson, héraðslæknir, hafi einnig verið kallaður til og hafi mat hans verið hið sama, að ekki væru forsendur fyrir nauðungarvistun á lokaðri geðdeild.    

Lögreglan telji nauðsynlegt að fram fari geðrannsókn á X til að meta sakhæfi hans og því sé sett fram krafa um að hann sæti slíkri rannsókn og við það miðað að hún verði ítarlegri en sem fyrir liggi í rannsóknargögnum og hún verði framkvæmd á gæsluvarð­haldstímanum. 

Rannsókn allra framangreindra mála og annarra sem varða X hafi tafist þar sem mjög erfiðlega hafi gengið að finna hann.  Hann hafi verið í felum og reynt að forðast lögreglu, ekki svarað síma eða skilaboðum og hann búi ekki lengur á lögheimili sínu og óvíst sé um dvalarstað hans.  Þyki því jafnframt nauðsynlegt að tryggja návist X svo unnt sé að ljúka rannsókn og geðrannsókn og hefja saksókn.

Lögreglan kveður meint sakarefni varða við 155. gr., 1. mgr. 217. gr., 232. gr., 233. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og geti brotin varðað fangelsis­refsingu.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til b-, c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála.  Krafa um að X sæti geðrannsókn sé studd við d-lið 1. mgr. 71. gr. sömu laga.

Fyrir liggur rökstuddur grunur um brot kærða á 155. gr., 1. mgr. 217. gr., 232. gr., 233. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og geta brotin varðað fangelsis­refsingu sannist sök kærða.  Telja verður að skilyrði c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála séu fyrir hendi hér. 

Fyrir liggur vottorð Kristófers Þorleifssonar geðlæknis, dags. í dag, þar sem fram kemur sú niðurstaða læknisins að kærði sé haldinn persónuleikabrestum eða andfélagslegri persónuleikaröskun svo og persónuröskun eða óstöðugum geðbrigðum.  Hann sé hvatvís og með laka hvatastjórn, reiðigjarn og ofstopafullur.  Þá kemur fram í vottorðinu að læknirinn telji kærða fullkomlega sakhæfan.  Í vottorði Helga Guðbergssonar læknis, dags. í dag, segir að kærði hafi ekki nein einkenni um virkan geðsjúkdóm.  Þá segir læknirinn að kærði búi við persónuleikatruflanir miðað við þær ástæður og atvik sem upp hafi komið og leitt hafi til afskipta lögreglu.  Það sé hins vegar ekki á sviði læknisins að úrskurða nánar um geðheilsu hans. 

Dómurinn fellst á það með lögreglu, með vísan til d-liðar 1. mgr. 71. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, að nauðsyn beri til þess að kærði sæti geðrannsókn til þess að sakhæfi hans verði metið enda verður að telja að ítarlegri rannsóknir á heilbrigði kærða þurfi til til þess að niðurstaða fáist í þessu efni.

Samkvæmt framansögðu er krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett og jafnframt að kærða verði gert að sæta geðrannsókn.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

          Kærði, X,  sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. apríl 2004, kl. 16:00.  Jafnframt er honum gert að sæta geðrannsókn á gæsluvarðhaldstímanum.