Hæstiréttur íslands

Mál nr. 454/2007


Lykilorð

  • Heimild dómara til leiðréttingar
  • Heimvísun


         

Þriðjudaginn 18. mars 2008.

Nr. 454/2007.

Björg Ólafía Vacchiano

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Olgeiri Kristni Axelssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Heimild dómara til leiðréttinga. Heimvísun máls.

Í málinu var kveðinn upp dómur í héraði 4. apríl 2007 þar sem ekki var tekið tillit til breyttrar kröfugerðar O. Hinn 1. júní 2007 var málið tekið fyrir að nýju og dómsorðið leiðrétt með vísan til 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þannig að tekið var tillit til hinnar breyttu kröfugerðar sem báðir aðilar höfðu lýst sig samþykka. Talið var að þessi efnisbreyting hefði farið út fyrir þær heimildir sem dómari hefði samkvæmt framangreindu ákvæðinu til að leiðrétta dóm eftir uppsögu hans. Yrði því ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. júlí 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 15. ágúst sama ár og var því áfrýjað öðru sinni 30. ágúst 2007. Áfrýjandi krefst þess aðallega að höfuðstóll kröfu stefnda verði lækkaður um 2.903.879 krónur og að áfrýjanda verði því aðeins gert að greiða stefnda 1.652.621 krónu. Til vara krefst áfrýjandi annarrar minni lækkunar á kröfu stefnda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness var kveðinn upp dómur í málinu 4. apríl 2007 og hljóðaði dómsorð hans svo:

„Stefnda, Björg Ólafía Vacchiano greiði stefnanda Oddgeir Kr. Axelssyni 2.056.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.056.500 krónum frá 15. febrúar 2006 til 15. mars 2006, en af 2.056.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

Hinn 1. júní 2007 var að nýju háð dómþing í Héraðsdómi Reykjaness og málið tekið fyrir. Viðstaddir voru héraðsdómarinn ásamt tveimur meðdómsmönnum. Í þingbók Héraðsdóms Reykjaness var þá skráð:

„Með vísan til 116. gr. laga nr. 91/991 og með samþykki umboðsmanna aðila hefur framangreindur dómur verið leiðréttur um bersýnilega villu um stefnufjárhæð og niðurstöðu sbr. dómskjal nr. 15, og er dómsorðið eftir leiðréttinguna þannig;

Umboðsmenn aðila eru ekki mættir en þeir vissu af fyrirtökunni.“

Til bókar var síðan fært svohljóðandi dómsorð:

„Stefnda, Björg Ólafía Vacchiano greiði stefnanda Oddgeir Kr. Axelssyni 4.556.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.056.500 krónur frá 15. febrúar 2006 til 15. mars 2006, en af 2.056.500 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2006 og af 4.556.500 krónum frá degi til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómara heimilt að leiðrétta ritvillur, reikningsskekkjur, nafnskekkjur og aðrar bersýnilegar villur í dómi. Af ákvæðinu leiðir að dómara er heimilt að leiðrétta þess háttar skekkjur í texta dóms en það heimilar ekki að gerðar séu efnisbreytingar á dómi eftir uppkvaðningu hans, sbr. dóm Hæstaréttar frá 1987, í dómasafni réttarins það ár, bls. 437, þar sem skýrt er sambærilegt ákvæði í 2. mgr. 195. gr. eldri laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði.

Samkvæmt gögnum málsins verður ráðið að þau mistök hafi orðið að upphafleg krafa hafi verið lögð til grundvallar dómi en ekki sú krafa, sem aðilar eru sammála um að stefndi hafi haft uppi þegar málið var tekið til dóms. Efnisbreytingar sem fyrr var getið og gerðar voru á dóminum 1. júní 2007 fóru samkvæmt framansögðu út fyrir þær heimildir sem dómari hefur til að leiðrétta dóm eftir uppsögu hans samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar eftir þörfum, nýs málflutnings og dómsálagningar á ný.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.