Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 469/2014. |
Sérstakur saksóknari (Ólafur Þ. Hauksson sérstakur saksóknari) gegn X Y Ý Z Þ Æ Ö A Á B C D Ð E É F G H I Í J K L M N O Ó P Q R S T U Ú V Xx Yy Ýý Zz Þþ Ææ Öö (Garðar G. Gíslason hdl.) |
Kærumál. Haldlagning.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X o.fl. um að aflétt yrði haldi S á gögnum í eigu X o.fl., þau afhent félögunum og afritum gagnanna eytt.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að aflétt verði haldi sóknaraðila á gögnum í eigu varnaraðila, þau afhent varnaraðilum og afritum þeirra eytt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að haldi verði aflétt og sóknaraðila gert að afhenda þeim hin haldlögðu gögn og eyða afritum þeirra. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, svo og að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2014 .
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 24. júní sl., var af hálfu varnaraðila borið undir Héraðsdóm 12. mars 2014 með kröfu um úrskurð um afléttingu á haldlagningu sóknaraðila á gögnum í eigu varnaraðila, afhendingu gagnanna og eyðingu afrita.
Varnaraðilar krefjast þess að Héraðsdómur úrskurði um að haldlagningu sóknaraðila, á gögnum í eigu varnaraðila, sem fram fór að kröfu Seðlabanka Íslands í starfsstöðvum X að [...], [...], [...] í [...]og skjalageymslu að [...],[...],[...]og á starfsstöðvum W að [...],[...] og [...],[...], 27. mars 2012, á grundvelli úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum nr. R-166/2012 og R-167/2012 frá 27. mars 2012, verði aflétt, gögnin afhent varnaraðilum og afritum af gögnum eytt. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um afléttingu halds, afhendingu gagna og eyðingu á afritum verði hafnað. Þá verði málskostnaðarkröfu varnaraðila hafnað.
I
Varnaraðilar byggja kröfur sínar aðallega á því að húsleit og haldlagning Seðlabankans Íslands 27. mars 2012 hafi verið ólögmæt, og þar með hald sóknaraðila á gögnum varnaraðila ólögmætt. Til vara byggja varnaraðilar á því að engin sakarefni séu til staðar sem réttlætt geti hald sóknaraðila á gögnum varnaraðila. Aðalkrafa varnaraðila byggi fyrst og fremst á því að brotið hafi verið gegn rétti þeirra samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu á öllum stigum málsins, þ.e. frá því að beiðnir um húsleit og haldlagningu hafi verið lagðar fyrir Héraðsdóm og til dagsins í dag. Einkum sé um að ræða brot gegn ákvæði 8. gr. Mannréttindasáttmálans, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, sbr. og 71. gr. stjórnarskrár, en einnig gegn ákvæðum 6. gr. Mannréttindasáttmálans og 70. gr. stjórnarskrár og 13. gr. Mannréttindasáttmála. Af þeim sökum teljist húsleit, haldlagning og eftirfarandi hald á gögnum ólögmætt þannig að sóknaraðila sé skylt að aflétta haldi gagna og eyða afritum.
Mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið veitt lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Um langt skeið hafi verið litið svo á að túlka beri ákvæði landslaga með hliðsjón af ákvæðum sáttmálans sem og skýringum og túlkunum Mannréttindadómstóls Evrópu. Samkvæmt 8. gr. sáttmálans, sbr. 71. gr. stjórnarskrár, sé friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta varið. Ákvæðið hafi verið túlkað þannig að það nái til lögaðila. Við mat á hvort húsleit og/eða haldlagning gagna samrýmist 8. gr. sáttmálans hafi verið litið til þess hvort inngripið hafi verið í samræmi við landslög og hvort það hafi verið nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi. Samkvæmt 6. gr. sáttmálans eigi allir rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Í því felist m.a. að meðhöndlun krafna fyrir dómi sem snerti réttindi samkvæmt greininni, þ. á m. beiðnir um rannsóknaraðgerðir, skuli vera í samræmi við ákvæðið. Sérhver sem brotið sé gegn eigi að eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum skv. 13. gr. sáttmálans. Eitt af frumskilyrðum þess að þvingunaraðgerðir stjórnvalda samrýmist 8. gr. sé að þær séu í samræmi við landslög. Þannig verði þvingunaraðgerðir að eiga sér stoð í landslögum, lögin sem þvingunaraðgerðir byggist á þurfi að vera aðgengileg og afleiðingar af brotum fyrirsjáanlegar. Ekkert af framangreindum skilyrðum hafi verið fyrir hendi í tilviki varnaraðila þegar gögn þeirra hafi verið haldlögð. Beiðnir sóknaraðila og úrskurðir Héraðsdóms hafi ekki haft fullnægjandi stoð í lögum. Frá öndverðu hafi Seðlabankinn ekki haft heimild til húsleitar, sbr. 4. mgr. 15. gr. e, laga nr. 87/1992. Ekki sé minnst á húsleit í ákvæðinu né skýringargögnum. Hugtakið sérstakar athugasemdir í nefndu ákvæði hafi ekki verið skilgreint. Öndvert við það hafi ýmsar opinberar stofnanir húsleitarheimildir í lögum. Ef ætlun löggjafans hafi verið að veita Seðlabankanum eða Fjármálaeftirlitinu heimild til húsleitar hafi honum verið í lófa lagið að tilgreina það. Slíkt inngrip beri að skýra þröngt. Seðlabankinn hafi því ekki haft húsleitarheimildina.
Jafnvel þó Seðlabankinn hafi haft heimild til húsleitar sé byggt á því að hún hafi allt frá upphafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 68. gr., 70. og 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar hafi aldrei getað sætt refsingu samkvæmt lögum sem vitnað hafi verið til. Legið hafi fyrir allt frá gildistöku laga nr. 134/2008 að sakamál yrði ekki höfðað á grundvelli þeirra gagnvart lögaðilum. Hafi þetta komið fram í bréfi sóknaraðila til Seðlabanka 28. ágúst 2013. Í ákvörðun ríkissaksóknara frá 25. nóvember 2013 hafi það sama komið fram.
Samkvæmt 68. gr. laga nr. 88/2008 skuli leggja hald á skjöl eða upplýsingar ef ætla megi að slíkir munir hafi sönnunargildi í sakamáli. Í 74. gr. laga nr. 88/2008 sé gerður greinarmunur á húsleit hjá sakborningi og öðrum. Í ljósi þess að lög nr. 88/2008 geri að áskilnaði fyrir húsleit að brot geti varðað fangelsisrefsingu og þess að lögaðilar hafi ekki getað sætt refsiábyrgð skv. lögum nr. 87/1992 verði engan veginn séð að haldbærar forsendur hafi verið fyrir húsleitum og haldlagningum hjá varnaraðilum. Í öllu falli ekki hjá þeim varnaraðilum sem tilgreindir séu undir B lið í kröfugerðinni. Húsleitir og haldlagning á grundvelli úrskurða Héraðsdóms hafi þannig brotið með grófum hætti gegn réttindum sem tryggð séu með 8. gr. Mannréttindasáttmála, sbr. 71. gr. stjórnarskrár og 38., 70. og 74. gr. laga nr. 88/2008.
Varnaraðilar byggi einnig á því að efnislega lagastoðin fyrir húsleitar- og haldlagningarheimildum hafi að meginstefnu verið sótt í reglur Seðlabankans sem bankinn hafi sjálfur sett á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 87/1992. Reglurnar hafi fyrst verið settar 28. nóvember 2008 og margsinnis breytt þar til efni þeirra hafi verið leitt í lög nr. 127/2011. Reglurnar hafi því ekki tekið lögformlega gildi. Ófrávíkjanlegt skilyrði hafi verið að efnahags- og viðskiptaráðherra samþykkti reglurnar. Því skilyrði hafi ekki verið fylgt eftir og reglurnar ekki tekið gildi. Reglurnar hafi því ekki getað orðið grundvöllur refsingar enda viðhlítandi lagastoð fyrir að unnið væri til refsingar skort, sbr. 69. gr. stjórnarskrár. Ákvæðið geri að áskilnaði að lýsing á refsiverðri háttsemi sem refsing sé lögð við verði að koma fram í lögum. Framsal valds í þeim efnum takmarkist við ráðherra. Með bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 87/1992 hafi Seðlabanka verið veitt víðtæk heimild til að gefa út reglur sem takmörkuðu eða stöðvuðu tímabundið einhverja eða tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta. Hvergi hafi verið tiltekið að í þeim fælist heimild til handa Seðlabanka að ákveða hvort brot gegn reglunum sættu viðurlögum. Tilvísun reglnanna til viðurlagaákvæða gjaldeyrislaga hafi því verið markleysa. Staðfestingu ráðherra á reglum Seðlabanka yrði ekki jafnað til þess að ráðherra setti reglurnar sjálfur. Viðurlagaákvæði 16. gr. laga nr. 87/1992 hafi ekki getað orðið grundvöllur refsingar vegna ætlaðra brota sem lýst væri í reglum Seðlabankans. Ákvæði 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992 hefði að geyma refsireglu sem kvæði á um brot gegn ákvæðinu. Í ákvæðinu væri ekki að finna efnisreglu, heldur einungis opna heimild fyrir Seðlabanka til að setja reglur. Refsing yrði ekki gerð á grundvelli ákvæðisins.
Hin efnislega lagastoð fyrir húsleitar- og haldlagningarheimildum hafi verið sótt í reglur Seðlabankans sjálfs á grundvelli nefnds bráðabirgðaákvæðis og margsinnis breytt frá því í nóvember 2008 og fram á árið 2010. Til viðbótar við reglurnar hafi Seðlabankinn gefið út fjölda leiðbeininga og viðbóta við þær um túlkun á reglunum, sem einungis hafi verið birt á vefsíðu bankans. Til að bæta enn við flækjustigið hafi heldur ekki verið samræmi milli skilgreininga í reglum eða leiðbeiningu með þeim og laganna hins vegar. Flækjustig og ósamrýmanleiki upplýsinga hafi verið yfirþyrmandi, jafnvel fyrir sérfróða aðila. Mannréttindadómstóllinn hafi mælt fyrir um, þegar um lagaákvæði um húsleit og haldlagningu væri að ræða, að lögin yrðu að veita borgurum vernd gegn handahófskenndu inngripi í réttindi sem tryggð væru með 8. gr. sáttmálans. Þannig yrðu lögin að vera nægjanlega skýr í því að gefa borgurum fullnægjandi vísbendingar um þær kringumstæður og skilyrði þar sem yfirvald hefði vald til að beita þvingunarúrræðum. Varnaraðilar hafi átt að geta skoðað lög nr. 87/1992 og reglur settar á grundvelli laganna og gert sér grein fyrir að brot gegn þeim gæti leitt til húsleitar og haldlagningar. Seðlabankinn hafi jafnvel sjálfur mistúlkað eigin reglur.
Beiðnir um húsleit og haldlagningu, úrskurðir Héraðsdóms, framkvæmd húsleitar og haldlagning og meðferð gagna í kjölfarið hafi brotið gegn rétti varnaraðila samkvæmt 8. gr. Mannréttindasáttmálans. Í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins sé ljóst að hvert framangreindra atriða, eitt og sér, sé nægjanlegt til að um brot gegn 8. gr. sé að ræða. Við mat á því hvort inngrip sé réttlætanlegt hafi dómstóllinn skoðað hvort það sé nauðsynlegt, m.a. með tilliti til hvort grundvöllur krafna hafi verið óviðeigandi og ófullnægjandi, hvort viðkomandi aðili hafi verið réttur aðili til að rannsaka mál, hvort meðalhófs hafi verið gætt og hvort meðferð dómstóls á beiðni hafi verið fullnægjandi. Húsleitar- og haldlagningarheimildir megi ekki vera of víðtækar, þær megi ekki vera án takmarkana og máli skipti hvort öryggisventlar verji þolendur í málsmeðferðinni fyrir hvers konar misnotkun og handahófskenndum ákvörðunum stjórnvalda. Þá sé litið til þess hvaða áhrif þvingunaraðgerðin hafi á orðspor og vinnu þolanda aðgerðar. Sé ekki unnt að vísa máli frá dómstóli um lögmæti og framkvæmd þvingunaraðgerðar á þeim grundvelli að aðgerð sé yfirstaðin. Brotið hafi verið gegn öllum framangreindum atriðum og þar með gegn rétti varnaraðila skv. 8. gr. Mannréttindasáttmálans. Mannréttindadómstóllinn hafi slegið því föstu að séu kröfur opinberra aðila um þvingunaraðgerðir byggðar á rangfærslum og/eða misskilningi, sem hefði auðveldlega verið hægt og hefði átt að koma í veg fyrir með réttum varúðarráðstöfunum, þá sé grundvöllur aðgerðarinnar óviðeigandi og ófullnægjandi sem leiði til þess að hún sé ólögmæt í skilningi 8. gr. Grundvöllur krafna Seðlabankans um húsleit og haldlagningu hafi verið óviðeigandi og ófullnægjandi í skilningi 8. gr. sáttmálans. Í beiðnum til Héraðsdóms um húsleitarúrskurðina hafi Seðlabankinn tilgreint að rannsókn bankans beindist einkum að tveimur atriðum, sem komið hafi í ljós að bæði voru röng. Annars vegar með því að upplýsa hvort verð afurða X við útflutning til tengdra aðila væri í samræmi við það sem almennt tíðkaðist í viðskiptum óskyldra aðila, sbr. 2. málsgrein bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Hins vegar að upplýsa um hugsanleg brot á skilaskyldu erlends gjaldeyris, sbr. 13. gr. l. sömu laga. Hæstiréttur hafi staðfest í dómum nr. 356/2012 og 357/2012, að útreikningar Seðlabankans á fiskverði hafi verið aðfinnsluverðir. Það sé því ljóst að krafa Seðlabankans hafi byggt á ófullnægjandi skoðun sem leiddi til rangfærslna og misskilnings í málatilbúnaði bankans, sem auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að Seðlabankinn hafi ekki kannað með viðhlítandi hætti réttmæti þeirra upplýsinga sem hann byggði haldlagningarbeiðni sína á. Öll gögn málsins beri það með sér að Seðlabankinn hafi haft lítið sem ekkert í höndunum fyrir húsleit. Beiðnirnar veki því upp áleitnar spurningar um ásetning og þær hvatir sem bjuggu að baki þeirri ákvörðun að krefjast heimilda dómstóla til húsleita og haldlagninga gagna. Óhjákvæmilegt sé að íhuga hvort raunveruleg ástæða fyrir aðgerðunum hafi verið svokölluð „veiðiferð“ með það í huga að finna einhvers konar brot. Tekið hefur verið fyrir slíka háttsemi af Mannréttindadómstólnum.
Enda þótt litið væri framhjá þeirri staðreynd að málið hafi verið illa upplýst hafi umfang málsins, hlutrænt séð, verið samkvæmt niðurstöðu frumathugunar Seðlabankans með þeim hætti að bankanum hefði samkvæmt 16. gr. b. laga nr. 87/1992, borið að kæra málið til lögreglu þá þegar. Ef fyrir hafi legið nægjanlegur grunur til að Seðlabankinn fengi húsleitarheimild þá segi það sig sjálft að málið hlyti að vera það alvarlegt að kæra ætti það beint til lögreglu og setja í mat lögreglu hvort slíkra inngripa væri nauðsyn á þessum tímapunkti.
Við mat á brotum á 8. gr. sáttmálans liti dómstóllinn til þess hvort hægt hafi verið að beita vægari aðgerðum við rannsóknina. Þetta væri í samræmi við grundvallarreglu íslensks réttar um meðalhóf sem m.a. kæmi fram í 12. gr. laga nr. 37/1993 og 53. gr. laga nr. 88/2008. Væri út frá því gengið að Seðlabankanum hafi þrátt fyrir allt verið heimilt að halda áfram meðferð málsins, telji varnaraðilar að bankinn hefði getað og átt að beita öðrum og vægari aðgerðum til að fá upplýsingar, s.s. að beina fyrirspurnum til X um bæði skilaskyldu og fiskverð. X hafi fram til 27. mars 2012 svarað öllum fyrirspurnum og lagt sig fram um að veita upplýsingar um skilaskyldu. Þá hafi engin rök verið færð fram af hálfu Seðlabankans af hverju bankinn hafi ekki getað beint svipuðum fyrirspurnum til X um fiskverð og tengsl við kaupendur eins og gert hafi verið hjá tugum annarra fyrirtækja, m.a. vegna rannsóknar á samstæðu X. Varnaraðilar telji að með þessu hafi verið brotið gegn 8. gr. sáttmálans og meðalhófsreglum, með því að grípa til þeirra íþyngjandi úrræða sem húsleit og haldlagning væri, í stað þess að neyta annarra og vægari úrræða sem náð hefðu sama markmiði.
Við mat á því hvort um brot á 8. gr. sáttmálans væri að ræða hafi Mannréttindadómstóllinn litið til þess hvort dómari rannsakaði innihald framlagðra gagna og mæti hvort þau væru nægjanleg til að mynda rökstuddan grun. Þetta fæli í sér skyldu dómara til að skoða gaumgæfilega lagagrundvöll og röksemdir á bak við beiðni um þvingunaraðgerðir. Það hafi verulega skort á að vinnubrögð Héraðsdóms hafi verið fullnægjandi, þegar heimild til húsleitar og haldlagningar hafi verið veitt, að ekki fengi staðist að viðhalda haldlagningu á þeim grundvelli. Telji varnaraðilar að þegar veitt væri eins umfangsmikil heimild til þvingunarráðstafana eins og um ræði, væri mikilvægt að Héraðsdómur gætti þess að áskilnaði viðkomandi laga væri fullnægt, sér í lagi um rökstuðning kröfunnar og rökstuddan grun, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008. Fyrst og fremst virðist Héraðsdómur ekki hafa farið yfir áskilnað hvoru tveggja laga nr. 87/1992 og laga nr. 88/2008. Hefði það verið gert hefði þegar komið í ljós að Seðlabankinn hafði hvorki heimild til að ráðast í húsleit á grundvelli laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, né hafi skilyrði laga nr. 88/2008 um refsingu verið fyrir hendi. Í því efni megi benda á að úrskurðir Héraðsdóms hafi fengist til húsleitar og haldlagningar gagna hinn 24. og 27. mars 2012 hjá varnaraðilunum P og M, á grundvelli órökstuddra fullyrðinga og engra gagna. Úrskurðir Héraðsdóms hafi fengist til húsleitar og haldlagningar gagna, 24. og 27. mars 2012, hjá 16 tilgreindum félögum, þrátt fyrir að engin gögn, önnur en útprentanir úr fyrirtækjaskrá, eða rökstuðningur væri fyrir aðgerðunum. Úrskurðir Héraðsdóms hafi fengist til húsleitar og haldlagningar gagna 24. og 27. mars 2012 hjá X og Y á grundvelli rangra útreikninga um fiskverð. Til viðbótar við þau félög sem framangreindir úrskurðir náðu til, hafi fengist úrskurðir Héraðsdóms til húsleitar og haldlagningar gagna 27. mars 2012 hjá 9 tilgreindum félögum þrátt fyrir að engin gögn eða rökstuðningur væri fyrir því. Hluta fylgigagna, með fyrri og seinni beiðnum Seðlabankans varðandi félögin Fjárfestingafélagið Fjörður og Hjalteyrin, útgerðarfélag ehf. hafi vantað. Hinn 27. mars 2012 hafi Héraðsdómur m.a. heimilað haldlagningu gagna fyrirtækjanna Aa, Bb og Cc án nokkurs rökstuðnings né gagna. Umrædd félög væru alls ótengd varnaraðilum. Þann 24. og 27. mars 2012 hafi Héraðsdómur m.a. veitt heimild til haldlagningar gagna varnaraðilanna, B, Ð, E, É, F, I, Í og L. Umrædd félög hafi eingöngu starfað á innlendum vettvangi og hvorki átt í vöruviðskiptum við útlönd né hafi þau átt í viðskiptum með erlendan gjaldeyri. Þann 27. mars 2012 hafi Héraðsdómur veitt heimild til haldlagningar gagna félagsins Dd, en það félag væri ekki lengur til þar sem það hafi verið sameinað K árið 2010. Ýmsar rangfærslur væru í úrskurðum Héraðsdóms, bæði 24. og 27. mars 2012, sem sýndi vel hversu mikil fljótaskrift hafi verið á afgreiðslu málsins hjá Héraðsdómi. Í beiðnum Seðlabankans til Héraðsdóms kæmi fram að þeim fylgdu 26 númeruð fylgiskjöl. Engu að síður hafi Seðlabankinn afhent varnaraðilum 30 númeruð fylgiskjöl 16. apríl 2012 og virðist Héraðsdómur m.a. hafa byggt niðurstöðu sína á skjölum sem ekki hafi verið nefnd sem framlögð skjöl í beiðnum Seðlabankans. Engin sjáanleg rök hafi verið fyrir því að aðgerðir um leit og hald hafi átt að beinast að sumum þeim einstaklingum sem tilgreindir væru í beiðnunum. Sama villa kæmi fram í úrskurðum um W í báðum úrskurðum. Beiðnir Seðlabankans hafi ekki tilgreint einstaklinga, en í rökstuðningi Héraðsdóms í úrskurði væri tilgreint að kröfurnar beindust m.a. að einstaklingum, sem þær hafi ekki gert í reynd. Héraðsdómur, sem veitt hafi heimildina, hafi viðurkennt tilvist framlagðra gagna með því að vísa til þeirra í rökstuðningi sínum, en virðist ekki hafa rannsakað innihald þeirra eða hvort þau væru nægjanleg til að mynda rökstuddan grun. Ef dómari hefði skoðað innihald þeirra hefði hann umsvifalaust séð að gögnin sönnuðu ekkert. Þessi gögn hafi aldrei getað sýnt fram á rökstuddan grun um þau brot sem Seðlabankinn fullyrti að væru framin í starfsemi X og Y. Enn síður hafi þau verið til þess fallin að sýna fram á brot í starfsemi annarra þeirra sem beiðnirnar beindust að, þ.m.t. hluta varnaraðila máls þessa. Telji varnaraðilar meðferð Héraðsdóms 27. mars 2012 vera sérstaklega vítaverða. Væri ljóst að Héraðsdómur hefði ekki á nokkurn hátt getað gengið úr skugga um réttmæti krafnanna. Telji varnaraðilar það ómögulegt að unnt hafi verið, á svo stuttum tíma sem raun bar vitni, að afla gagna og útbúa rökstudda kröfu um nauðsyn þess að haldleggja þau gögn sem til viðbótar væru tilgreind í úrskurðum í málunum nr. R-166/2012 og R-167/2012, auk þess sem í þeim úrskurðum hafi verið bætt við 10 lögaðilum sem ekki hafi verið nefndir í fyrri úrskurðum nr. R-162/2012 og R-163/2012. Enn ólíklegra þætti að nýr dómari hafi haft nægan tíma til að yfirfara og meta hvort krafan og rökstuðningurinn væri fullnægjandi í skilningi 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008. Í því sambandi væri mikilvægt að hafa í huga að kröfurnar og gögnin hafi verið samtals hátt í eitt hundrað blaðsíður þó innihaldið væri rýrt og sönnunargildi ekkert. Allt hafi þetta átt sér stað á um tveimur klukkustundum 27. mars 2012. Í þessu sambandi bendi varnaraðilar sérstaklega á að ekki hafi verið um sama héraðsdómara að ræða og kvað upp hina fyrri úrskurð og því ljóst að sá dómari sem kveðið hafi upp úrskurð í málunum nr. R-166/2012 og R-167/2012 hafi ekki verið að koma að málinu í fyrsta sinn um hádegisbilið þann dag. Að mati varnaraðila væri sérstaklega mikilvægt að dómstólar gættu þess að áskilnaði viðkomandi laga væri fullnægt þegar þeim sem gerðin beindist að væri haldið utan við fyrirtöku málsins hjá Héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Ekki hafi verið fyrir að fara rökstuðningi af neinu tagi fyrir því að halda fulltrúum varnaraðila utan við fyrirtöku beiðnanna þegar þær hafi verið fyrir dómi í annað sinn, 27. mars 2012, eins og þeir hafi átt rétt á, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Í beiðnum Seðlabankans hafi hvergi verið að finna rökstuðning fyrir því af hverju nauðsynlegt væri að taka beiðnirnar fyrir án viðveru eða vitneskju varnaraðila. Að lokum skuli á það bent að einn af alvarlegri brestum í meðförum Héraðsdóms, bæði 24. og 27. mars 2012, verði að teljast að engum þeim gögnum, sem beiðnir Seðlabankans studdust við, hafi verið haldið eftir í Héraðsdómi, þrátt fyrir skýra og ófrávíkjanlega lagaskyldu þar að lútandi, sbr. 15. gr. laga nr. 88/2008. Útilokað sé því að ganga úr skugga um með hvaða hætti málatilbúnaður bankans hafi í raun legið fyrir Héraðsdómi við uppkvaðningu úrskurða um húsleit og haldlagningu á gögnum sóknaraðila.
Mannréttindadómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hús- og haldlagningarheimildir megi ekki vera of víðtækar. Héraðsdómur hafi brugðist þeirri skyldu að gefa viðeigandi og fullnægjandi ástæður fyrir húsleitar- og haldlagningarheimildum. Í heimildirnar hafi vantað upplýsingar um yfirstandandi rannsókn, markmið leitarinnar, og ástæður þess að sönnunargögn um afbrot væri að finna á leitarstað. Heimildin hafi verið of víðtæk og vísaði ekki til sérhvers hlutar eða skjals er varðaði rannsóknina. Þar sem heimildirnar hafi verið of víðtækar hafi þær gefið Seðlabankanum algjört sjálfsvald í mati á því hvaða gögn skiptu máli fyrir rannsóknina. Þá sé það sérstaklega vítavert að heimildirnar hafi ekki einu sinni verið takmarkaðar við gögn sem vörðuðu rannsóknina, og ekki heldur við það sem hafi verið nauðsynlegt fyrir hana, þar sem ekkert slíkt væri tiltekið í úrskurðarorðum. Hafi úrskurðirnir því veitt heimild til almennrar og ótakmarkaðrar leitar og haldlagningar, þar sem tugir þúsunda gagna hafi verið haldlögð, bæði rafræn og áþreifanleg. Búið væri að skila töluverðu magni gagna en þegar þau væru skoðuð og borin saman við gögn sem ekki hafi verið skilað virðist það vera handahófskennt hverju hafi verið skilað og hverju ekki. Ekki hafi á nokkurn hátt verið reynt að afmarka beiðnirnar af hálfu Seðlabankans eða heimildirnar til leitar og haldlagningar í úrskurðum Héraðsdóms við þau gögn sem ætla mætti að haft gætu þýðingu við að upplýsa um hin meintu brot, hvorki að því er varðar tímabil eða eðli gagna.
Mannréttindadómstóllinn hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að húsleit og haldlagning án takmarkana fæli í sér brot á 8. gr. sáttmálans. Hafi dómstóllinn m.a. litið það alvarlegum augum ef yfirvöld legðu hald á mikið magn gagna sem hefði enga þýðingu vegna rannsóknar máls. Haldlagning gagna hafi ekki verið takmörkuð við þau gögn sem rannsóknina varðaði. Væri sérstök athygli vakin á því að heimildir Seðlabankans samkvæmt úrskurðunum hafi, í samræmi við beiðnir bankans, verið víðtækari en heimildir bankans samkvæmt lögum nr. 87/1992, en úrræði bankans til öflunar upplýsinga og gagna byggjast á og væru takmörkuð við þau lög. Þannig hafi haldlagningin náð til gagna varnaraðila sem ekki hafi verið sjáanlegt að neinn grunur um refsiverð brot hafi beinst að eða getað beinst að í reynd. Þúsundum haldlagðra skjala hafi verið skilað, þar með talið að því að virðist, öllum gögnum sem haldlögð hafi verið á einum leitarstaða, þ.e. skjalageymslu X á [...]. Í stað þess að skilgreina að hvaða gögnum verið væri að leita og þýðingu þeirra fyrir rannsókn á þeim meintu brotum sem Seðlabankinn taldi fyrir að fara, t.d. með stikkorðaleit í rafrænum gögnum á leitarstað, eða hliðstæðum aðferðum, þá hafi bankinn haldlagt öll gögn, m.a. með afritun allra tölvutækra gagna, með þeim rökum einum að það væri í samræmi við meðalhófsreglur að trufla ekki um of starfsemi varnaraðila. Framkvæmdin hafi ekkert átt skylt við meðalhóf.
Mannréttindadómstóllinn líti til þess hvort svokallaðir „öryggisventlar“ verji þolendur þvingunaraðgerðar í allri málsmeðferðinni fyrir hvers konar misnotkun og handahófskenndum ákvörðunum stjórnvalda. Íslensk lög veiti afar takmarkaða vernd gegn gerræði og misnotkun stjórnvalda á valdheimildum sínum. Í IX. kafla laga nr. 88/2008 sé ekki fjallað um framkvæmd haldlagningar að öðru leyti en að skrá skuli muni og aflétta haldi þegar þess sé ekki lengur þörf. Um leit sé fjallað í X. kafla laganna. Í 79. gr. komi fram að lögregla stýri húsleit og samkvæmt 3. mgr. skuli „gæta þeirrar varfærni og hlífðar sem samræmist markmiði“ leitar. Að öðru leyti sé ekki fjallað um framkvæmd leitarinnar í kaflanum. Telja verði að öll framangreind ákvæði feli frekar í sér almennt markmið en raunhæfa vernd gegn misnotkun. Þó varnaglar í landslögum séu vart sjáanlegir sé ekki einu sinni hægt að halda því fram að reynt hafi verið að framkvæma haldlagningu og húsleit til samræmis við framangreindar vísireglur laga nr. 88/2008. Ekki hafi verið reynt að takmarka haldlagningu rafrænna gagna að neinu leyti. Jafnvel þótt svokallaðir „öryggisventlar“ væru fyrir hendi í íslenskum lögum sem tryggðu endurmat á ákvörðun Héraðsdóms um að veita húsleitar- og haldlagningarheimildir, væri ljóst að varnaraðilar hefðu aldrei getað nýtt sér þann rétt. Ómögulegt væri að meta hvort rökstuddur grunur hafi í raun verið fyrir hendi á þeim degi sem heimildirnar hafi verið veittar, þar sem Héraðsdómur gæti ekki staðfest hvort og þá hvaða gögn hafi verið lögð fram með beiðnunum af hálfu Seðlabankans. Ekki væru neinir varnaglar í lögum gegn því að öll gögn væru skoðuð eða afrituð meðan þau væru í vörslum opinberra aðila. Sjáist það m.a. af skjali Seðlabankans um aðgengi og afritun gagna. Engar reglur eða varnaglar væru um gögn sem hafi verið haldlögð, hvorki í lögum nr. 88/2008 né reglugerðum hvers konar. Þá væru heldur engar reglur um hverjir hefðu aðgang að gögnum, hverjir og af hvaða ástæðum mættu taka afrit, hvað gert væri með afrit eða hvernig meðferð haldlagðra gagna skyldi að öðru leyti háttað. Í þessu sambandi væri mikilvægt að árétta að þau gögn sem hafi verið haldlögð væru, væru afar viðkvæm mörg hver, s.s. bókhaldsgögn, viðskiptagögn, samningar o.s.frv. Af framangreindu yrði skýrlega ráðið að áskilnaði 8. gr. sáttmálans um virka varnagla að landslögum gegn misnotkun eða gerræði þess sem fari með valdheimildir til að æskja úrskurðar um leit og haldlagningu, hefði engan veginn verið mætt. Þannig hafi heimildin verið gefin út af Héraðsdómi á grundvelli rangra staðhæfinga Seðlabankans, án þess að viðhlítandi rökstuðningur eða gögn væru fyrir hendi. Engin eiginleg skoðun hafi farið fram af hálfu dómsins, sem ljóst væri þegar litið væri til þess skamma tíma sem dómurinn hefði, sér í lagi við úrskurðina sem upp hafi verið kveðnir 27. mars 2012, skorts á samræmi á milli umfangsins og fjölda aðila í beiðnunum annars vegar og þeirra raka og gagna sem lögð voru fram hins vegar, ósamræmi í tilgreiningu gagna í beiðnum og við afhendingu til varnaraðila og tilgreiningu aðila sem ekki tengdust á neinn hátt þeim sem til rannsóknar voru.
Við mat á því hvort þvingunaraðgerð brytu gegn 8. gr. sáttmálans hefði Mannréttindadómstóllinn m.a. litið til þess hvaða áhrif þvingunaraðgerðin hefði á orðspor og vinnu þolanda aðgerðarinnar. Afleiðingar leitarinnar hafi orðið gríðarlega miklar. [...] væri rétt um [...] manna bæjarfélag og Íslendingar í það heila ríflega 320.000 talsins. Væri það eitt og sér til þess fallið að hafa slæm áhrif á orðspor varnaraðila sem ekki hafi getað verið grunaður um glæp þar sem ekki hafi verið heimilt að refsa fyrir brot gegn þeim reglum. Seðlabankinn hafi ekki með neinu móti reynt að draga úr áhrifum húsleitarinnar og haldlagningarinnar, heldur þvert á móti hafi fyrstu fréttir um aðgerðirnar birst um svipað leyti og þær hafi hafist af hálfu bankans, og sýnilega ekki fyrir tilstilli annarra en bankans sjálfs. Innan við tveimur klukkustundum síðar hafi bankinn séð ástæðu til að senda frétt til á sjötta hundrað viðtakenda, hér á landi sem í útlöndum, auk þess að dreifa fréttum um RSS-fréttaveitu sína. Telja verði þessa opinberun Seðlabankans á málinu allt í senn hafa verið ótímabæra, óeðlilega, ekki samrýmast eðlilegri upplýsingagjöf bankans og í reynd eingöngu til þess fallna að vera íþyngjandi þeim sem aðgerðirnar beindust að, starfsfólki þeirra fyrirtækja og viðskiptavinum.
Mannréttindadómstóllinn hefði litið svo á að dómstólar gætu ekki vísað máli um lögmæti og framkvæmd þvingunaraðgerðar frá á þeim grunni að aðgerðin væri yfirstaðin. Ennfremur hefði dómstóllinn gert alvarlegar athugasemdir þegar yfirvöld réttlættu húsleit og haldlagningu með gögnum sem finndust við umrædda leit. Dómstóllinn hefði einnig komist að þeirri niðurstöðu að tilvist rökstudds gruns skyldi metin samkvæmt fyrirliggjandi gögnum á þeim tímapunkti þegar heimild fyrir þvingunaraðgerð væri veitt, en ekki síðar. Hefði dómstóllinn fjallað um meðferð dómstóla eftir að þvingunaraðgerð hefði farið fram. Hefði hann fundið að því að dómstólar gæfu einungis frekar stutta og almenna skýringu þegar þeir heimiluðu skoðun á öllum haldlögðum gögnum kæranda. Hafi dómstóllinn getið þess sérstaklega að dómstóll tæki ekki á því álitaefni hvort nægjanlegt væri að skoða einungis afmörkuð gögn sem tengdust meintri refsiverðri háttsemi. Varnaraðilar teldu ljóst að dómstólar á Íslandi hafi vanrækt eftirlitshlutverk sitt. Dómstólum hafi borið að gefa ítarlegan og vel ígrundaðan rökstuðning fyrir niðurstöðu sinni. Svo hafi ekki verið gert heldur hafi rökstuðningur dómstóla verið í skötulíki og byggst á röksemdum sem Mannréttindadómstóllinn hefði talið að ekki fengju staðist. Í dómum Hæstaréttar nr. 356/2012 og 357/2012 hafi Hæstiréttur vísað til þess að athöfnin og það ástand sem leiddi af henni væri um garð gengið og bæri því að vísa málinu frá sbr. 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Þessi afstaða brjóti í bága við 13. gr. Mannréttindasáttmálans. Hafi Hæstiréttur jafnframt getið þess í framangreindum málum að sóknaraðilar þeirra mála gætu eftir atvikum látið reyna á lögmæti rannsóknaraðgerðanna í sakamáli sem síðar kynni að verða höfðað eða í skaðabótamáli. Í nýjum dómi Mannréttindadómstólsins hafi dómstóllinn tekið fram að skaðabótamál gæti ekki varðað neitt nema bætur og ekki undir neinum kringumstæðum leiðrétt viðvarandi brot á réttindum viðkomandi. Að lokum hafi Hæstiréttur í framangreindum málum vísað til þess að játa yrði Seðlabankanum svigrúm til að skoða haldlögð gögn vegna hins mikla umfangs þeirra og væri því ótímabært að taka á kröfu um afhendingu. Með þessari afstöðu hafi Hæstiréttur verið að leggja blessun sína yfir veiðiferð þrátt fyrir að Mannréttindadómstóllinn legði blátt bann við slíkum aðgerðum. Af þessu yrði að telja ljóst að réttur til málskots til Hæstaréttar hafi ekki verið raunhæft úrræði til að ná fram rétti í skilningi 13. gr. sáttmálans, sbr. 8. gr. hans. Framganga Seðlabankans eftir að lokið var við haldlagningu gagna sóknaraðila hafi verið sama marki brennd og hafi einkennst af ólögmætum vinnubrögðum. Þannig hafi fyrirsvarsmönnum varnaraðila verið haldið í fullkominni óvissu um réttarstöðuna af hálfu bankans. Þá hafi Seðlabankanum verið ljóst, í það minnsta frá maí 2012, að hin meintu brot væru af þeirri stærðargráðu að bankanum bæri að kæra þau til lögreglu. Eins hafi bankinn krafist frekari afhendingu gagna að viðlögðum dagsektum, yrði ekki við þeim kröfum orðið, í stað þess að leita samvinnu og samstarfs við varnaraðila og þá aðra sem rannsóknaraðgerðir Seðlabankans hafi beinst að. Þá sé til þess að líta að fyrir liggi gögn sem bendi mjög eindregið til þess að Seðlabankinn hafi freistað þess að afvegaleiða dómstóla þegar varnaraðilar hafi leitað réttar síns í kjölfar húsleita og haldlagningaraðgerða bankans. Eins sé til þess að líta að eini rökstuðningur Seðlabankans í fyrrgreindum dómsmálum hafi verið studdur við staðhæfingar um að við umræddar húsleitir og haldlagningaraðgerðir hafi fengist gögn sem staðfesti ætlaðan grun bankans, en en styðjist ekki við þau gögn eða staðhæfingar sem legið hefðu til grundvallar upphaflegum aðgerðum. Að lokum sé til þess að líta að gögn málsins sýni að Seðlabankinn hafi haldið áfram rannsókn sinni, m.a. með því að kalla eftir gögnum og upplýsingum frá þriðja aðila, á sama tíma og í kjölfar þess að hafa vísað málinu til sóknaraðila.
Samkvæmt öllu framansögðu telji varnaraðilar að fjölþættir og alvarlegir ágallar hafi verið á grundvelli og framkvæmd haldlagningarinnar, þar sem brotið hafi verið með grófum hætti gegn grundvallarréttindum varnaraðila, sbr. t.d. 6., 8. og 13. gr. Mannréttindasáttmála, og 70. og 71. gr. stjórnarskrár.
Þeir varnaraðilar, sem tilgreindir séu undir B lið í upphafi kröfugerðar, byggi til vara á því að engin kæra sé eða hafi verið til meðferðar hjá sóknaraðila á hendur varnaraðilum eða vegna ætlaðra brota í starfsemi varnaraðila. Þrátt fyrir það haldi sóknaraðili gögnum þeirra sem Seðlabankinn hafi haldlagt dagana 27. til 31. mars 2012. Engar vísbendingar séu heldur um að málefni þeirra varnaraðila sæti neins konar skoðun eða meðferð af hálfu Seðlabankans, en hartnær tvö ár séu síðan hin umþrætta húsleit og haldlagning hafi farið fram. Samkvæmt því sem fram komi í bréfi sérstaks saksóknara frá 28. ágúst 2013 og þeirri lagatúlkun sem fram komi í ákvörðun Ríkissaksóknara frá 25. nóvember 2013, geta varnaraðilar þess utan ekki orðið aðilar að sakamálarannsókn hjá embætti sóknaraðila á grundvelli laga nr. 87/1992, eða reglum settum með stoð í þeim lögum. Þegar af þeirri ástæðu beri sóknaraðila að láta af haldi gagnanna. Líkt og fram komi í dómum Hæstaréttar 30. maí 2012, í málum nr. 356/2012 og 357/2012, eigi varnaraðilar rétt á að krefjast þess á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 að hin haldlögðu gögn verði afhent þeim og afritum af gögnunum eytt, sbr. og 3. mgr. 69. gr. þeirra laga. Í samræmi við meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. sömu laga og með hliðsjón af 2. mgr. 68. gr. laganna hvíli sú skylda á rannsóknaraðilum að hraða eftir því sem kostur er rannsókn á haldlögðum gögnum. Til þess hafi Seðlabankinn og sóknaraðili nú haft rétt um 24 mánuði og verði ekki séð að á þeim tíma hafi neitt komið fram af hálfu þessara rannsóknaraðila um að einstök gögn þessara varnaraðila hafi þýðingu fyrir þá rannsókn sem nú er yfirstandandi hjá sóknaraðila. Þá verði ekki ráðið af kærum Seðlabankans til sóknaraðila, sem fyrir liggi, að gögn þeirra varnaraðila sem tilgreindir séu undir B lið hafi neitt sönnunargildi í sakamáli, þannig að réttlætt geti áframhaldandi hald þeirra. Þrátt fyrir það hafi hvorki Seðlabankinn né sóknaraðili hlutast til um að skila gögnunum, svo sem þeim beri skylda til að lögum.
II
Sóknaraðili kveðst hafa haft til rannsóknar mál nr. 090-2013-99 á grundvelli kæru Seðlabanka Íslands frá 9. september 2013. Málið varði ætluð brot fjögurra einstaklinga, í störfum þeirra fyrir X og tengd félög, gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Málið varði sömu sakarefni og fyrra mál embættisins nr. 090-2013-56 nema þá hafi X og tengd félög verið kærð fyrir sömu brot. Um hafi verið að ræða að hluta til sömu félög og standi að þessari kröfu, þ.e. félögin undir A lið í upptalningu varnaraðila. Þetta fyrra mál varnaraðila hafi verið vegna kæru Seðlabankans 10. apríl 2013. Með þessari kæru hafi m.a. fylgt þau haldlögðu gögn sem krafa þessi varði. Fyrri kæra Seðlabankans hafi verið endursend bankanum 28. ágúst 2013 með vísan til 6. mgr. 16. gr. b. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, eftir að athugun á kærunni leiddi í ljós að lögaðilar gátu ekki borið refsiábyrgð, og þar með ekki orðið andlag sakamálarannsóknar, vegna ætlaðra brota gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Þessu næst hafi embættinu borist fyrrnefnd kæra Seðlabankans, 9. september 2013. Hin nýja kæra hafi að öllu leyti, sem máli skiptir, tekið til sömu ætluðu brota og fyrri kæran og stuðst við sömu gögn en beinst að einstaklingum, sem fyrr segi. Gögn máls nr. 090-2013-99 hafi því verið og séu hin sömu og máls nr. 090-20013-56, þar á meðal sá takmarkaði hluti þeirra sem enn sæti haldi hjá embættinu. Enginn varnaraðila sé meðal sakborninga í máli nr. 090-2013-99.
Upphaflegt umfang haldlagðra gagna í málinu megi sjá af skýrslum Seðlabankans um haldlagningar vegna rannsóknar bankans á málinu. Seðlabankinn muni síðar hafa aflétt haldi af umtalsverðu magni gagna og skilað þeim aftur til varnaraðila. Þegar fyrra málið hafi verið kært til sóknaraðila 10. apríl 2013 hafi komið fram í kærunni að haldlagt hefði verið „töluvert magn af áþreifanlegum gögnum og [væru] þau afhent samhliða [kærunni]“. Í lista yfir fylgiskjöl með kærunni hafi hin haldlögðu gögn verið tilgreind sem „önnur afhent gögn“ og lýst svo: „Haldlögð gögn X og tengdra félaga, sbr. skýrslu um meðferð halds.“ Tilvísuð skýrsla hafi m.a. haft að geyma haldlagningarskýrslur þær sem áður var getið um auk áðurnefndra gagna um afhendingar Seðlabankans á gögnum úr því safni til varnaraðila. Með kærunni hafi hins vegar ekki fylgt sérstakt yfirlit yfir þau haldlögðu gögn sem afhent voru með kærunni, þ.e. eftirstandandi haldlögð gögn að frátöldum þeim gögnum sem Seðlabankinn hafði þegar afhent varnaraðilum. Til að gefa mynd af því gagnamagni sem um ræði, þá mun hafa verið um að ræða hátt í 70 stóra pappakassa af gögnum eða 69 samkvæmt talningu sóknaraðila nýverið.
Sem fyrr segi hafi þessi fyrri kæra verið endursend Seðlabankanum á lagalegum grundvelli, þ.e. án þess að til þess kæmi að eiginleg rannsókn á sakarefnum málsins hæfist. Bréf sóknaraðila til Seðlabankans, frá 28. ágúst 2013, hafi haft að geyma tilkynningu til bankans um þessar málalyktir. Í niðurlagi þess hafi komið fram að kærugögn yrðu boðsend bankanum á næstu dögum. Til þess hafi þó ekki komið þar sem ný kæra hafi borist frá bankanum 9. september 2013.
Sóknaraðili hafi haft mál nr. 090-2013-99 til rannsóknar frá 9. september sl. eða í um sjö mánuði. Rannsóknin hafi verið viðvarandi og virk frá upphafi. Málið sé afar umfangsmikið. Tímabil ætlaðra brota samkvæmt kæru sé allt frá árinu 2008 til ársins 2012. Um sé að ræða þrjú sjálfstæð sakarefni, þ.e. ætluð brot gegn reglum um skilaskyldu erlends gjaldeyris, gegn banni við erlendum fjárfestingum og svonefnda milliverðlagningu í viðskiptum tengdra félaga. Sú háttsemi sem í kæru sé talin fela í sér ætluð brot og átt hafi sér stað í rekstri X og tengdra félaga sé margbrotin og viðvarandi eða margítrekuð á þessu tímabili. Hún snúist um háar fjárhæðir í mörgum gjaldmiðlum og feli í sér fremur tæknileg málefni sem rannsaka þurfi eða taka afstöðu til, s.s. fjármagnsflutninga milli landa, ýmis félagaréttarleg álitaefni, reikningshald og sérhæfð atriði varðandi fiskútflutning svo nokkuð sé nefnt. Á þessu stigi rannsóknar hafa þrír réttarstöðu sakbornings, þ.e. hluti þeirra sem kæra hafi beinst að. Þeir hafi allir verið yfirheyrðir tvisvar vegna málsins. Síðasta yfirheyrsla í málinu hafi átt sér stað í byrjun febrúar sl. Rannsókn málsins hafi þar fyrir utan falið í sér greiningu á sakarefnum og athugun og úrvinnslu starfsmanna sóknaraðila á hinum umfangsmiklu sakargögnum.
Rannsókn málsins hafi miðað vel og sé hún nú á lokastigum. Út frá stöðu rannsóknarinnar hafi sóknaraðili talið unnt í mars síðastliðnum að aflétta haldi af langstærstum hluta hinna haldlögðu gagna. Hinn 2. apríl sl. hafi sóknaraðili afhent varnaraðila 64 pappakassa með gögnum sem haldi hafi verið aflétt af ásamt listum með yfirliti yfir þau. Eins og fram komi á fyrrnefnda skjalinu hafi starfsmaður sóknaraðila bent fulltrúa varnaraðila á að innihald pappakassanna hefði breyst frá merkingum sem á þeim voru þegar sóknaraðili fékk þá í hendur. Því þyrfti að bera saman framangreinda lista sóknaraðila yfir afhent gögn, annars vegar og hins vegar áðurnefnd gögn frá Seðlabankanum yfir haldlögð og afhent gögn ef varnaraðilar teldu ástæðu til þess að athuga sérstaklega hvað stæði eftir haldlagt hjá sóknaraðila.
Sóknaraðili hafi tekið saman sérstakt yfirlit yfir haldlögð gögn í máli nr. 090-2013-99 sem enn séu í vörslu hans Eins og ráða megi af framangreindu fylli þau gögn nú um 5 pappakassa. Þessi athugun hafi farið fram handvirkt, þ.e. starfsmenn embættisins hafi sérstaklega farið yfir gögn í þessum kössum og skráð þau. Við skráningu númera og tilvísana hafi bæði verið fylgt skýringum sem Seðlabankinn hefði skráð á gögnin sem og tilgreindum fundarstöðum samkvæmt haldlagningarskýrslu. Varnaraðilar hafi á móti lagt fram yfirlit þar sem varpað sé fram spurningum og efasemdum um nákvæmni yfirlits sóknaraðila. Sóknaraðili vinni nú að því að bera saman þessi yfirlit og athuga hvort og þá hvernig misræmi sé á milli þeirra. Þeirri vinnu sé hraðað og verði niðurstaða hennar kynnt dóminum við fyrsta tækifæri. Fjórar ástæður fyrir misræmi, virðast einkum koma til greina, eða að afstemming skjala hafi reynst flóknari en við hafi verið að búast. Í fyrsta lagi hafi kerfið sem skráning og númerun gagnanna við haldlagningu verið þannig að ekki hafi verið skráð og númerað hvert einstakt skjal eða munur heldur ýmist stök skjöl eða munir, bunkar lausra skjala af ýmsum og óvissum stærðum, plastvasar eða möppur með skjölum o.s.frv. Þetta megi nánar sjá af áðurnefndum haldlagningarskýrslum Seðlabankans. Í öðru lagi virðist tilflutningur eða umröðun einstakra skjala að einhverju leyti hafa orðið við rannsókn Seðlabankans eða sóknaraðila þannig að einstök skjöl hafi færst undan upphaflegu gagna- eða munanúmeri og runnið saman við annað. Í þriðja lagi sé, við áðurnefndar afhendingar að hluta til úr safninu á fyrri stigum, ekki útilokað að skýrslur um afhendingarnar orki tvímælis um afhent gögn, af sömu ástæðum og áður séu nefndar. Í fjórða lagi kunni villur að vera í yfirlitum sóknaraðila og/eða varnaraðila.
Sóknaraðili hafi boðið varnaraðilum að taka þátt í að vinna úr þessum álitamálum varðandi skráningu og númerun gagnanna, t.d. með því að fulltrúar sóknaraðila og varnaraðila skoði gögnin í sameiningu út frá listum hvors fyrir sig og reyni að leiða fram hvar þeim beri í milli og ná fram sem nákvæmustu yfirliti að dómi beggja aðila. Sóknaraðili hafi komið þessu á framfæri við varnaraðila í símtali 23. maí sl. og skilist að þetta boð yrði tekið til skoðunar. Sóknaraðili hafi ekki fengið frekari viðbrögð frá varnaraðilum við þessu en leyfi sér að búast við að þetta megi framkvæma, kjósi varnaraðili svo á annað borð. Óháð þessu sé loks undirstrikað að yfirlit sóknaraðila sé bein skráning á hinum áþreifanlegu gögnum sem sóknaraðili hafi enn í haldi. Ef skráning eða númerun gagnanna kunni að vera misvísandi eða ónákvæm, sé það einkum vegna aðferðarinnar sem beitt var við skráningu og númerun þeirra, þ.e. atriða sem sóknaraðila verði ekki kennt um og sem sóknaraðili og varnaraðilar ættu að geta leyst úr í sameiningu. Slíkt varði hins vegar ekki úrlausnarefni málsins um það hvort aflétta beri haldinu eða ekki. Sóknaraðili undirstriki í því samhengi að vitaskuld hafi ákvörðun hans um hverju skyldi halda eftir af gögnum byggst á því hvaða rannsóknarefni í málinu þyrftu frekari eða nánari skoðunar við.
Varnaraðilar byggi kröfur sínar á 2. mgr. 102. gr. og 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 1. ml. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 megi leggja fyrir Héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Í ljósi atvika málsins sé það þetta ákvæði 2. mgr. 102. gr. laganna sem hér kunni að reyna á. Ákvæði 2. ml. sömu málsgreinar eigi ekki við samkvæmt efni sínu. Af kröfu varnaraðila sjáist að þær rannsóknarathafnir sem þeir vilji bera undir dóminn séu í reynd eingöngu rannsóknarathafnir Seðlabankans meðan sú stofnun hafi farið með rannsókn málsins á stjórnsýslustigi. Á þeim tíma hafi varnaraðilar, eða tengdir aðilar, gert ítrekaðar tilraunir á sama lagagrundvelli til að fá rannsóknina í heild eða einstaka þætti hennar dæmda ólögmæta. Í öllum tilvikum hafi slíkum kröfum annað hvort verið hafnað eða þeim vísað frá dómi vegna þess að lögvarða hagsmuni hafi þótt skorta. Síðasti dómur Hæstaréttar í kærumáli vegna úrskurðar Héraðsdóms um slíka kröfugerð varnaraðila eða tengdra aðila sé frá 22. apríl 2013, í máli nr. 206/2013. Áður, eða 10. apríl s.á., hafi Seðlabankinn kært málið til sóknaraðila. Efnislega hafi Hæstiréttur þá byggt niðurstöðu sína um frávísun eins kröfuliðar varnaraðila í því máli frá Hæstarétti á því að rannsókn Seðlabankans á málinu væri lokið. Því skorti varnaraðila í því máli lögvarða hagsmuni af úrlausn dómstóla um atriði varðandi rannsókn Seðlabankans. Af sömu ástæðu skorti varnaraðila í þessu máli lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum um lögmæti rannsóknarathafna Seðlabankans í málinu. Sóknaraðili telji þannig að ákvæði 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki þýðingu í málinu heldur eingöngu sjálfstæð heimild 3. mgr. 69. gr. sömu laga til að bera ágreining varðandi haldlagningu undir dómara. Á það sé einnig bent að málsástæður varnaraðila um ólögmæti rannsóknaraðgerða Seðlabankans í heild eða að hluta hafi, að því er varði haldlögð gögn við rannsókn sóknaraðila, enga þýðingu fyrir sönnunargildi þeirra í hugsanlegu sakamáli út af ætluðum brotum í málinu. Um þá almennu reglu íslensks sakamálaréttarfars megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 3. mars 2006 í máli nr. 97/2006.
Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 geti þolandi halds fengið úrskurð héraðsdómara um hvort haldi skuli aflétt eða ekki. Í slíku máli skipti atvik á undan eða við haldlagninguna almennt ekki máli. Ekki hafi heldur þýðingu hugsanlegar umkvartanir varðandi rannsókn málsins, nema þá eftir atvikum varðandi málshraða. Slíkt mál snúist að réttu lagi aðeins um það hvort ástæður séu til að gögn eða munir sæti áfram haldi eða ekki. Við það mat beri í meginatriðum að horfa til stöðu rannsóknar málsins á þeim tíma sem leyst sé úr kröfu um afléttingu halds.
Í meginatriðum skipti tvenns konar röksemdir þar máli. Í fyrsta lagi hvort skilyrði halds séu enn fyrir hendi. Almennt séu það sömu skilyrði og legið hafi til grundvallar haldi í upphafi, þ.e. skilyrði 1. mgr. 68. gr. laga laga nr. 88/2008, að breyttum breytanda, vegna þess að rannsókn standi þá yfir. Ástæður fyrir haldlagningu séu hins vegar jafnan óbreyttar frá upphafi. Í tilvísaðri lagagrein séu þrjú skilyrði nefnd. Sönnunargildi í sakamáli, að gagns eða munar hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða hugsanleg upptaka með dómi. Í ljósi atvika þessa máls og andlags haldlagningarinnar, þ.e. hér sé um gögn að ræða, eigi aðeins eitt þessara skilyrða við hér, sem sé hugsanlegt sönnunargildi í sakamáli.
Í öðru lagi þurfi að líta til þess hvort rannsókn hafi dregist úr hófi. Lögregla þurfi óhjákvæmilega tíma til að komast yfir fullnægjandi rannsókn sakargagna í máli, þar með haldlagðra gagna. Þetta falli undir það sem almennt sé kallað rannsóknarhagsmunir. Í dómaframkvæmd hafi dómstólar viðurkennt lögreglu hæfilegt svigrúm til þessa. Svigrúm fari þó vitaskuld eftir eðli og umfangi hvers máls. Dómstólar hafi á síðustu árum horft til málsmeðferðarhraða hjá lögreglu við mat á því hvort þvingunarráðstöfun verði aflétt eða ekki. Þurfi þá að meta hvort lögregla hafi farið fram úr eðlilegu svigrúmi við að ljúka rannsókn viðkomandi máls á hæfilegum tíma. Ekki síst hafi þá verið horft til þess hvort rannsókn hafi verið viðvarandi eða hvort óútskýrð og/eða óréttlætanleg hlé hafi orðið á rannsókn, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 682 til 684 frá árinu 2011.
Sóknaraðili byggi á því að ekki sé unnt að útiloka á þessu stigi rannsóknar að sá hluti gagna varnaraðila sem enn sæti haldi geti haft sönnunargildi í hugsanlegu sakamáli út af ætluðum brotum. Eins og áður hafi komið fram sé rannsókn á lokastigum en þó enn ekki lokið. Sóknaraðilar hafi nú þegar skilað varnaraðilum langflestum þeim gögnum sem upphaflega hafi verið haldlögð eða 64 af 69 kössum. Beri það vitni um markvissa rannsókn sóknaraðila á málinu hingað til. Einnig sýni það að sóknaraðili hafi hagað meðferð haldlagðra gagna í samræmi við kröfur laga nr. 88/2008 um málshraða og meðalhóf, sbr. 2. ml. 2. mgr. og 1. ml. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, og bein lagaskilyrði um hvenær beri að aflétta haldi, sbr. 1. ml. 1. mgr. 72. gr. laganna. Gögnin sem standi eftir haldlögð þurfi enn nokkurrar rannsóknar við. Eðli málsins samkvæmt sé því enn þörf á haldi þeirra vegna rannsóknarhagsmuna og ekki unnt að afhenda þau fyrr en sóknaraðili hafi endanlega tekið afstöðu til fyrirliggjandi sakarefna í málinu nú á lokastigum rannsóknarinnar. Fram að því sé hvorki unnt að fullyrða að frekari eða nánari rannsókn lögreglu á grundvelli gagnanna sé þýðingarlaus út frá rannsóknarhagsmunum né útiloka að gögnin geti haft sönnunargildi í hugsanlegu sakamáli út af ætluðum brotum í málinu.
Sóknaraðili byggi einnig á því að engin efni séu til þess að telja rannsókn málsins hafa dregist úr hófi að því marki að það sæti eitt og sér afléttingu á haldi þeirra gagna sem enn standa haldlögð. Aftur sé bent á að sóknaraðili hafi skilað varnaraðilum langstærstum hluta þeirra gagna sem áður hafi verið haldlögð. Rannsókn málsins hjá sóknaraðila hafi aðeins tekið um sjö mánuði, sem sé ekki langur tími sé tekið mið af sakarefnum málsins og umfangi sakargagna eins og óhjákvæmilegt sé að gera. Rannsókn hafi verið viðvarandi frá upphafi og engin hlé orðið á henni. Rannsóknartíminn hingað til hafi að mati sóknaraðila engan veginn farið umfram eðlilegt svigrúm sem ætla beri lögreglu til að ljúka rannsókn málsins. Loks sé ítrekað að rannsókn málsins sé á lokastigum og skammur tími til þess að lögregla og ákæruvald geti lokið meðferð þess. Sóknaraðili telji því engin efni til að fullyrða að rannsókn lögreglu á málinu hingað til fari gegn meginreglu laga nr. 88/2008 um að hraða skuli rannsókn máls eins og kostur sé.
Niðurstaða:
Varnaraðilar hafa beint kröfu til héraðsdóms um afléttingu halds og afhendingu og eyðingu gagna varnaraðila, sem eru í haldi sóknaraðila. Um lagagrundvöll fyrir kröfunni vísa varnaraðilar til 2. mgr. 102. gr., sbr. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 má leggja fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu. Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laganna getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem ekki vill hlíta þeirri ákvörðun að hald hefur verið lagt á mun, borið ágreining um það atriði undir dómara.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 97/2006 sagði að ekki væri fyrir að fara í íslenskum lögum reglu sem útilokar að lögregla styðjist við gögn, sem hún hefur undir höndum, þó þeirra kunni að hafa verið aflað án þess að fylgt hafi verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í opinberum málum. Skýra verður ákvæði 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 með hliðsjón af þessu á þann veg að fyrir dómi sé unnt að leita úrskurðar um hvort skilyrði halds séu fyrir hendi, þegar mál er borið undir dómstóla, þó svo hald kunni að hafa verið lagt á gögn án þess að skilyrði laga nr. 88/2008, eða eftir atvikum annarra laga er varða málsmeðferð í sakamáli, hafi verið fullnægt. Styður dómur Hæstaréttar í máli nr. 372/2014 þá skýringu, en dómurinn varðaði kröfu um vitnaleiðslu í þessu máli. Í rökstuðningi varnaraðila fyrir því að aflétta skuli haldi á þeim gögnum sem enn eru í haldi sóknaraðila hefur að mestu verið vísað til þess að meðferð málsins á fyrri stigum hafi brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, eins og ákvæðin hafi verið skýrð af mannréttindadómstól Evrópu og tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 88/2008. Með hliðsjón af því er að framan greinir verður við úrlausn málsins ekki nema að takmörkuðu leyti litið til þeirra sjónarmiða er þar greinir. Af tilliti til hagsmuna varnaraðila er þó í úrskurðinum greint frá röksemdum varnaraðila sem að þessu snúa.
Sóknaraðili kveðst hafa til rannsóknar mál nr. 090-2013-99 á grundvelli kæru Seðlabanka Íslands frá 9. september 2013. Málið varði ætluð brot fjögurra einstaklinga, í störfum þeirra fyrir Samherja hf. og tengd félög, gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Á þeim grundvelli haldi hann enn tilgreindum gögnum í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 skal leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli. Leggja verður til grundvallar niðurstöðu að sé skilyrði um að hlutir hafi að geyma sönnunargildi í sakamáli á annað borð enn uppfyllt, girði það fyrir að haldi verði aflétt á grundvelli 3. mgr. 69. gr. laganna. Í ljósi þess að sóknaraðila barst kæra sú sem nú er til meðferðar 9. september 2013, sem grundvallar hald á gögnum, verður ekki við þessu mati sóknaraðila hróflað, en svo sem áður segir verður í þessum úrskurði að miða við stöðu rannsóknarinnar er krafa um úrskurð var sett fram fyrir dóminum. Verður kröfum varnaraðila því hafnað.
Ekki er lagaheimild til að dæma varnaraðilum málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu varnaraðila, X, Y, Ý, Z, Þ, Æ, Ö, A, Á, B, C, D, Ð, E, É, F, G, H, I, Í, J, K, L, M, N, O, Ó, P, Q, R, S, T, U, Ú, V, Xx, Yy, Ýý, Zz, Þþ, Ææ og Öö, um að haldlagningu sóknaraðila, á gögnum í eigu varnaraðila, sem fram fóru að kröfu Seðlabanka Íslands á starfsstöðvum X að [...], [...], [...] í [...] og skjalageymslu að [...], [...], [...] og á starfsstöðvum W að [...], [...] og [...], [...], 27. mars 2012 á grundvelli úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum nr. R-166/2012 og R-167/2012 frá 27. mars 2012, verði aflétt, gögnin afhent varnaraðilum og afritum af gögnum eytt, er hafnað.
Kröfu varnaraðila um greiðslu málskostnaðar er hafnað.