Hæstiréttur íslands

Mál nr. 396/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Brottrekstur úr starfi
  • Uppsögn
  • Skip
  • Riftun
  • Res Judicata
  • Aðild
  • Sjóveð


Þriðjudaginn 13

 

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001.

Nr. 396/2001.

Olíufélagið hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Guðmundi Vestmann og

(Jónatan Sveinsson hrl.)

Jurijs Semjonovs

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Sjómenn. Ráðningarsamningur. Brottrekstur úr starfi. Uppsögn. Skip. Riftun. Res Judicata. Aðild. Sjóveð.

 

F ehf., útgerðarmaður skipsins V, samdi við G og J um að þeir tækju að sér tiltekin störf um borð í V. Síðar var V selt nauðungarsölu og samdi sýslumaður frumvarp úthlutunar af söluverði þess. Að kröfu G og J breytti sýslumaður frumvarpinu og tilkynnti O hf., sem átti að fá eftirstöðvar söluverðsins, að úthlutun til hans myndi lækka sem þeim breytingum nam. Bar O hf. ágreining um þessar úthlutanir til G og J undir héraðsdóm, sem staðfesti ákvarðanir sýslumanns. Kærði O hf. þann úrskurð. Var ekki fallist á það með G að hann hefði haft réttmætar ástæður til að víkja úr skipsrúmi vegna vanefnda F ehf. á samningi þeirra. Með því að slíta sjálfur ráðningarsambandi sínu við F ehf. hefði G fyrirgert rétti til greiðslu úr hendi félagsins. Ákvörðun sýslumanns um úthlutun tiltekinnar fjárhæðar til G var því felld úr gildi. Líkt og G hafði J lýst kröfu í söluverð V og var krafa hans gagngert reist á því að hann nyti sjóveðréttar í skipinu fyrir kröfu sinni samkvæmt 1. mgr. 197. gr. laga nr. 34/1985. Beindist sú krafa að V ehf., eiganda V. Úr ágreiningi um réttindi J átti samkvæmt þessu að leysa eftir sérreglum VIII. og XIII. kafla laga nr. 90/1991. Þrátt fyrir þetta hafði J síðar höfðað mál á hendur V ehf. til viðurkenningar á fyrrgreindum sjóveðrétti, andstætt ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Í stað þess að vísa málinu frá dómi af þessum sökum hafði héraðsdómur leyst efnislega úr kröfu J og tekið kröfur hans til greina að fullu í útivistardómi. Þar sem ekki hafði verið óskað eftir endurupptöku þessa dóms hafði hann áhrif samkvæmt 116. gr. laga nr. 91/1991 við rekstur kærumáls O hf. gegn J. Hagsmunir O hf. af niðurstöðu um þennan sjóveðrétt voru taldir helgast af þeim óbeina eignarrétti, sem hann naut yfir skipinu sem samningsveðhafi. Sem slíkur gæti hann ekki notið rýmri réttar en V ehf., sem O hf. leiddi réttindi sín frá. Var O hf. því lagður að jöfnu við V ehf. um áhrif fyrrgreinds héraðsdóms um viðurkenningu sjóveðréttar J. Við þeim rétti J gæti O hf. ekki hreyft í þessu máli. Varð því ekki hjá því komist að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að J ætti í skjóli sjóveðréttar rétt til að fá úthlutað af söluverði V til greiðslu þess, sem hann fékk sér dæmt með útivistardóminum í máli sínu gegn V ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. október sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 14. september 2001, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um úthlutun söluverðs fiskiskipsins Vídalín SF 80 við nauðungarsölu, en um þann ágreining tók sýslumaðurinn á Höfn ákvörðun 9. febrúar sama árs. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns um úthlutun til varnaraðilans Guðmundar Vestmann verði breytt á þann veg aðallega að hann fái engu úthlutað af söluverði skipsins í stað 472.501 krónu, svo sem sýslumaður ákvað, en til vara að úthlutunin verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili þess að ákvörðun sýslumanns um að hækka úthlutun til varnaraðilans Jurijs Semjonovs úr 918.728 krónum í 3.386.084 krónur verði breytt þannig aðallega að kröfu varnaraðilans um hækkun á úthlutun verði hafnað, en til vara að hún nemi lægri fjárhæð. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilinn Guðmundur Vestmann krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðilinn Jurijs Semjonovs krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins tók sýslumaðurinn á Höfn fyrir 21. september 2000 beiðni Sparisjóðs Hornarfjarðar og nágrennis um nauðungarsölu á fiskiskipinu Vídalín, þinglýsta eign samnefnds einkahlutafélags, og var þá ákveðið að uppboð á skipinu myndi byrja 9. nóvember sama árs. Þegar nauðungarsalan var tekin fyrir síðastnefndan dag höfðu sýslumanni jafnframt borist beiðnir um nauðungarsölu skipsins frá Sparisjóðabanka Íslands hf. og Ansema S.L., en þeir þrír gerðarbeiðendur, sem hér hafa verið greindir, nutu allir ásamt sóknaraðila veðréttar í skipinu fyrir kröfum samkvæmt skuldabréfum. Skipið var þá boðið upp og kom hæsta boð frá Sparisjóði Hornarfjarðar og nágrennis, að fjárhæð 10.000.000 krónur. Í samræmi við ákvörðun, sem sýslumaður tók við þetta tækifæri, var uppboðinu fram haldið 21. nóvember 2000. Voru þá komnar fram kröfulýsingar í söluverð skipsins frá nokkrum skipverjum, sem töldu til sjóveðréttar fyrir kröfum sínum, þar á meðal frá báðum varnaraðilum. Boða var leitað í skipið og varð hæstbjóðandi Sparisjóðabanki Íslands hf., sem bauð 100.000.000 krónur í það. Boð hans var samþykkt 24. nóvember 2000 og fékk hann afsal fyrir skipinu 7. febrúar 2001.

Sýslumaður gerði frumvarp til úthlutunar á söluverði skipsins 4. desember 2000. Þar var ráðgert að af söluverðinu myndu fyrst greiðast sölulaun í ríkissjóð, 1.000.000 krónur, en því næst skipagjöld og skipaskoðunargjald vegna ársins 2000, samtals 125.474 krónur. Að þessu frágengnu áttu að greiðast kröfur tólf skipverja, sem sjóveðréttur taldist vera fyrir, að fjárhæð alls 14.496.079 krónur. Meðal þessara skipverja var varnaraðilinn Jurijs Semjonovs, sem átti að fá greiddar 918.728 krónur, en í frumvarpinu var varnaraðilanum Guðmundi Vestmann ekki ætluð greiðsla upp í sjóveðréttarkröfu, sem hann lýsti í söluverðið 20. nóvember 2000. Af þeirri fjárhæð, sem stóð eftir af söluverðinu, átti Sparisjóðabanki Íslands hf. að fá samtals 76.459.974 krónur til fullnustu kröfum samkvæmt þremur skuldabréfum, sem tryggð voru með fyrsta veðrétti í skipinu. Eftirstöðvar söluverðsins, 7.918.473 krónur, áttu að koma í hlut sóknaraðila til greiðslu upp í kröfu hans, en hún nam alls 8.097.033 krónum og studdist við skuldabréf, sem hvíldi á öðrum veðrétti. Í frumvarpinu var settur frestur til að koma fram mótmælum gegn því til nánar tiltekins tíma 21. desember 2000.

Innan þess frests, sem síðast var getið, bárust sýslumanni mótmæli frá sjö skipverjum vegna afstöðu hans til krafna þeirra. Voru mótmælin tekin fyrir á fundi 9. febrúar 2001, sem sýslumaður boðaði til af þessum sökum. Í framhaldi af þeim fundi ákvað hann sama dag að hækka úthlutun til þriggja skipverja, þar á meðal til varnaraðilans Jurijs Semjonovs, auk þess sem hann tók þá til greina kröfu varnaraðilans Guðmundar Vestmann. Úthlutunin til fyrrnefnda varnaraðilans hækkaði nánar tiltekið um 2.467.356 krónur, eða í 3.386.084 krónur, en úthlutunin handa þeim síðarnefnda var ákveðin 472.501 króna. Þessar þrjár breytingar urðu til þess að úthlutun til skipverja, sem töldust njóta sjóveðréttar fyrir kröfum sínum, hækkaði um alls 3.475.575 krónur, en úthlutun til sóknaraðila lækkaði sem því nam, eða í 4.442.898 krónur. Sýslumaður tilkynnti þetta sóknaraðila 12. febrúar 2001. Hinn 16. sama mánaðar lýsti sóknaraðili því yfir við sýslumann að hann hygðist bera undir héraðsdóm ágreining um úthlutun til beggja varnaraðila og eins nafngreinds skipverja til viðbótar.

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Austurlands 11. apríl 2001. Í þinghaldi 15. maí sama árs var lögð fram dómsátt milli sóknaraðila og síðastnefnda skipverjans, þar sem leidd var til lykta deila um úthlutun til hans af söluverði skipsins. Með hinum kærða úrskurði var leyst að öðru leyti úr þeim ágreiningi, sem sóknaraðili lagði fyrir héraðsdóm, og staðfestar þar ákvarðanir sýslumanns 9. febrúar 2001 um úthlutun til beggja varnaraðilanna.

II.

Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðilinn Guðmundur Vestmann 11. nóvember 1999 svokallaðan verktakasamning við Fóður ehf., sem um þær mundir mun hafa verið að taka við útgerð fiskiskipsins Vídalín, en það var þá við bryggju í Tromsø í Noregi. Í samningnum var kveðið á um að varnaraðilinn tæki að sér starf stýrimanns á skipinu og skipstjóra í afleysingum. Kom þar fram að tveir nafngreindir menn ættu auk varnaraðilans að skipta með sér störfum skipstjóra og stýrimanns, þannig að hverju sinni yrðu tveir þeirra um borð, en einn í fríi. Átti samningurinn að taka gildi við undirritun hans, en gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera einn mánuður. Fyrir störf sín átti varnaraðilinn að fá föst mánaðarlaun að fjárhæð 245.000 krónur í stöðu stýrimanns auk 2% af skiptaverði afla, en 280.000 krónur í föst mánaðarlaun þegar hann gegndi stöðu skipstjóra ásamt 2,5% aflahlut af skiptaverði. Föstu mánaðarlaunin áttu að greiðast „innan þriðja virka dags eftir hvern mánuð“, en aflahlutur innan 14 daga frá löndun. Fóður ehf. átti að bera kostnað af ferðum varnaraðilans, mat, skjólfatnaði og rúmfatnaði. Fyrir liggur í málinu að sama dag gerði annar maður, Pétur Gissurarson, sambærilegan samning við Fóður ehf., en hann átti þó að ganga varnaraðilanum framar varðandi afleysingastörf sem skipstjóri.

Í málinu liggur fyrir skrifleg samantekt Péturs Gissurarsonar 1. desember 1999 um atvik, sem vörðuðu ráðningu hans og varnaraðilans Guðmundar til starfa hjá Fóðri ehf., svo og störf þeirra í framhaldi af því, en samantekt þessari var beint til lögmanns, sem tók um þær mundir að sér að gæta hagsmuna þeirra gagnvart félaginu. Kom þar meðal annars fram að forsvarsmaður Fóðurs ehf. hafi leitað til Péturs snemma í nóvember um að taka við skipstjórn á Vídalín og fara með skipið á rækjuveiðar í Barentshafi. Hafi Pétri verið tjáð að Fóður ehf. væri að kaupa skipið, en frá því hefði ekki enn verið gengið. Pétur hafi tekið þessari málaleitan vel, en í framhaldi af því hafi varnaraðilinn, sem hann var kunnugur, haft samband við sig og orðið úr að sá síðarnefndi kæmi til starfa með Pétri sem fyrsti stýrimaður. Af hálfu Fóðurs ehf. hafi þeim verið sagt að til stæði að skrá skipið erlendis, en með því hafi verið búist við að heimildir fengjust fyrir það til rækjuveiða í Barentshafi. Hafi ætlunin verið sú að skipstjóri, fyrsti stýrimaður, yfirvélstjóri og vinnslustjóri yrðu Íslendingar, en aðrir skipverjar frá austur Evrópu. Á fyrstu stigum hafi verið reiknað með að það tæki eina til tvær vikur að fá skipið skráð erlendis. Seinna hafi forsvarsmaður Fóðurs ehf. rætt um að skipið færi í stutta ferð í Smuguna undir íslensku flaggi, en Pétur tekið treglega í það. Þegar þetta hafi verið rætt í fyrsta sinn hafi ekki borist í tal hvernig staðið yrði að skráningu skipshafnar, enda hafi Pétri ekki dottið í hug að útgerðarmaðurinn hafi ekki vitað að um hana yrði að fara eftir íslenskum reglum ef skipið væri skráð hér á landi. Daginn eftir undirritun ráðningarsamninga Péturs og varnaraðilans 11. nóvember 1999 hafi þeir farið til Tromsø. Við komuna þangað hafi þeir ekki komist um borð í skipið vegna veðurs, auk þess sem fram hafi komið að maður, sem gætti þar skipsins og taldi til ýmissa krafna á hendur eiganda þess, kvað sér vera óheimilt að veita þeim aðgang að því. Hann hafi þó leyft Pétri og varnaraðilanum að skoða skipið á næstu dögum og þeir komist að raun um að það væri með öllu óhaffært og þarfnaðist verulegra viðgerða. Forsvarsmaður Fóðurs ehf. hafi komið til Tromsø 15. nóvember 1999 og kannað skipið með Pétri og varnaraðilanum. Pétur hafi áður rætt við starfsmann Siglingastofnunar, sem hafi tjáð honum að gefið hafi verið út haffærisskírteini fyrir skipið, sem gilda ætti í einn mánuð. Hafi Pétur greint þeim manni frá ástandi skipsins, svo og að útgerðarmaðurinn hygðist láta það fara á sjó nánast án viðgerða. Forsvarsmaður Fóðurs ehf. hafi sagt þeim Pétri og varnaraðilanum við skoðun skipsins að hann hefði fengið haffærisskírteini fyrir það til eins árs. Hann hafi gert lítið úr annmörkum á skipinu og rætt um að rússneskir skipverjar gætu sinnt viðgerðum á því. Upp úr orðaskiptum um þetta hafi þeir deilt hart og forsvarsmaðurinn að endingu rekið Pétur og varnaraðilann „þarna á staðnum“ og sagt að þeir gætu farið „heim á morgun“. Hafi Pétur og varnaraðilinn farið aftur til Íslands 17. nóvember 1999, en orðið að bera sjálfir allan kostnað af dvöl sinni í Noregi og heimferðinni.

Með bréfi 2. desember 1999 krafði lögmaður í umboði varnaraðilans Guðmundar og Péturs Gissurarsonar Fóður ehf. um bætur vegna slita á samningum þeirra um störf hjá félaginu. Í bréfinu var í meginatriðum greint þannig frá atvikum að Pétur og varnaraðilinn hefðu gert áðurnefnda samninga við félagið 11. nóvember 1999 um störf á fiskiskipinu Vídalín, en staðið hafi til að skrá það erlendis og gera út til rækjuveiða í Barentshafi. Hafi átt að manna skipið íslenskum yfirmönnum, en að öðru leyti rússneskum skipverjum. Pétri og varnaraðilanum hafi verið tjáð að skipið væri í Tromsø og mætti fyrirvaralítið hefja veiðar. Þeir hafi haldið utan til að taka við skipinu og búa það undir veiðar. Í Tromsø hafi þeir komist að raun um að ástand skipsins væri „vægast sagt slæmt og víðsfjarri því, að þeirra sögn, að það væri haffært“, auk þess sem þar hafi komið fram að maður, sem gætti skipsins, annaðist það í umboði eiganda, sem væri ekki Fóður ehf. Forsvarsmaður Fóðurs ehf. hafi komið til Noregs í kjölfarið og sagst hafa undir höndum haffærisskírteini til bráðabirgða frá Siglingastofnun, en Pétur og varnaraðilinn hafi efast um að það gæti staðist eins og ástandi skipsins væri háttað. Þegar þeir síðastnefndu létu í ljós að því færi fjarri að skipið væri í því ástandi, sem þeir hefðu reiknað með, og að auki að allt væri óljóst um eignarhald á skipinu, hafi forsvarsmaður Fóðurs ehf. brugðist þannig við að hann vék þeim báðum fyrirvaralaust úr starfi. Teldu varnaraðilinn og Pétur þessi samningsslit ólögmæt og varða skaðabótaskyldu, en af hálfu þess fyrrnefnda var krafist greiðslu einna mánaðarlauna að fjárhæð 245.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar vegna flugfars, 66.467 krónur, og af gistingu, 4.950 krónur. Var krafan þannig samtals 316.417 krónur auk nánar tilgreindrar fjárhæðar í innheimtulaun.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að gripið hafi verið til frekari aðgerða til innheimtu á framangreindri kröfu varnaraðilans Guðmundar fyrr en beint var bréfi til Vídalíns ehf. 9. nóvember 2000 og það félag krafið um greiðslu á 316.417 krónum, auk nánar tilgreindra fjárhæða í dráttarvexti og innheimtukostnað. Eins og fyrr greinir var kröfu varnaraðilans lýst í söluverð skipsins með bréfi 20. sama mánaðar til sýslumanns og var höfuðstóll hennar sá sem áður er getið. Mun sýslumaður hafa tjáð lögmanni varnaraðilans með bréfi 4. desember 2000 að kröfu hans væri hafnað, þar sem hún væri ekki studd nægum gögnum. Með bréfi 7. sama mánaðar sendi lögmaðurinn sýslumanni frekari gögn um kröfuna, þar á meðal fyrrnefndan samning varnaraðilans við Fóður ehf. 11. nóvember 1999 og reikninga fyrir áðurgreindum útlögðum kostnaði. Munu þessi gögn hafa ráðið þeirri breyttu ákvörðun, sem sýslumaður tók um kröfu varnaraðilans 9. febrúar 2001 og áður er getið.

Varnaraðilinn Guðmundur gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi. Þar var hann meðal annars inntur eftir afstöðu sinni til fyrrgreindrar samantekar Péturs Gissurarsonar frá 1. desember 1999. Verður að skilja svör varnaraðilans svo að hann hafi lýst sig sammála henni að því leyti, sem hann þekkti atvik af eigin raun. Sérstaklega aðspurður kvaðst varnaraðilinn aldrei hafa neitað að starfa á fiskiskipinu Vídalín þegar þeir Pétur áttu í áðurgreindum deilum við forsvarsmann Fóðurs ehf. í Tromsø, en deilurnar hafi snúist um ástand skipsins, svo og þá ráðagerð útgerðarmannsins, sem þeim Pétri hafi þá fyrst orðið kunnugt um, að til stæði að skipið færi til veiða í Smugunni. Í lok samtals þeirra Péturs við forsvarsmanninn hafi sá síðastnefndi sagt að þeir færu þá heim og hafi varnaraðilinn skilið þessi orð sem svo að með þeim hafi honum og Pétri verið hótað brottrekstri. Pétur hafi þá sagst vilja fá skriflega yfirlýsingu um þetta og forsvarsmaðurinn játað því, en slík yfirlýsing hafi aldrei borist.

Pétur Gissurarson gaf einnig skýrslu fyrir héraðsdómi. Að því leyti, sem hér skiptir máli, var framburðurinn í meginatriðum á sama veg og lýsing atvika í áðurgreindri samantekt hans. Pétur lýsti þó nánar aðdragandanum að brotthvarfi sínu og varnaraðilans Guðmundar frá skipinu þannig, að þeir hafi komið saman til fundar við forsvarsmann Fóðurs ehf. þegar þeir höfðu skoðað skipið. Sá síðastnefndi hafi þar sagst ætla að láta laga það, sem þyrfti, og leysa úr fjárhagslegum samskiptum við manninn, sem gætti skipsins í Noregi. Hann hafi einnig sagst mundu senda það í Smuguna undir íslensku flaggi, en þetta hafi ekki komið til tals áður. Sagðist Pétur hafa neitað að fara með skipið þangað, því breyta þyrfti mörgum atriðum áður en af því gæti orðið, auk þess sem ráða yrði annan stýrimann og tvo vélstjóra með íslensk atvinnuréttindi ef sigla ætti undir íslenskum fána. Um orðaskipti þeirra í framhaldi af því sagði Pétur eftirfarandi: „Og þá segir hann: „Ég redda þessu, ég fæ undanþágu eða ég redda þessu.“ Ég segi við hann: „Ég, og Guðmundur er mér sammála um það, við förum ekki upp í Smugu“, segi ég. Ég skal bara játa það og viðurkenna að það var farið að síga ansi mikið í mig. Þá sagði hann: „Þá farið þið bara heim á morgun.“ „Jæja“ segi ég. „Þetta er bara brottrekstur. Þú ert að reka okkur. Ég vil bara fá þetta skriflegt. Sko, ástæðuna fyrir þessum brottrekstri.“ Hann svaraði því engu. Það var nú ekki mikið meir rætt eftir þetta ...“.

Í skýrslu, sem umræddur forsvarsmaður Fóðurs ehf. gaf fyrir héraðsdómi, kom meðal annars fram að hann teldi ástæðu þess að Pétur Gissurarson og varnaraðilinn Guðmundur létu af störfum hjá félaginu hafa verið þá að Pétri hefði vaxið „það eitthvað í augum að skipið ætti að fara til veiða í Smugunni og gerði ágreining um það eftir að hann var kominn þarna út og það gæti vel verið að það hafi verið eitthvað með hliðsjón af ástandi skipsins, en það hefur náttúrulega alla tíð verið ætlunin að skipið færi til veiða í Smugunni.“ Sérstaklega aðspurður kvað hann Pétur hafa ákveðið sjálfur að hætta störfum og varnaraðilinn fylgt honum, en það hafi gerst í framhaldi af því að Pétri var tjáð að þeirri ákvörðun yrði ekki breytt að skipið færi til áðurnefndra veiða. Hann staðfesti jafnframt í skýrslunni að ástand skipsins hafi verið miklu verra en hann hafði sjálfur búist við, en það hafi farið í fyrstu veiðiferðina á vegum Fóðurs ehf. í febrúar 2000.

III.

Af því, sem að framan greinir um ástand fiskiskipsins Vídalín þegar varnaraðilinn Guðmundur Vestmann kom að því í Noregi ásamt Pétri Gissurarsyni 12. nóvember 1999, er ljóst að það var þá miklu verr farið en þeir máttu reikna með, en í því efni verður að leggja meðal annars til grundvallar það, sem segir í áðurnefndri samantekt Péturs frá 1. desember 1999, um að þeim hefði skilist af viðsemjanda sínum að skipið yrði fært til veiða einni eða tveimur vikum síðar. Í því sambandi er einnig til þess að líta, sem forsvarsmaður Fóðurs ehf. bar um ástand skipsins fyrir héraðsdómi og áður er greint frá. Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að af gögnum málsins verður ráðið að Siglingastofnun gaf út haffærisskírteini fyrir skipið 11. nóvember 1999, sem var endurnýjað 11. febrúar 2000 og aftur 26. júlí sama árs. Gegn þessu hefur varnaraðilinn ekki sýnt fram á að skipið hafi í reynd verið óhaffært 12. nóvember 1999. Af þessum ástæðum getur hann ekki borið fyrir sig ákvæði 1. töluliðar 1. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 sem stoð fyrir því að sér hafi verið heimilt að ganga úr skiprúmi og krefjast greiðslu úr hendi útgerðarmanns eftir ákvæðum 25. gr. sömu laga. Því hefur ekki verið borið við í málinu að forsendur fyrir ráðningu varnaraðilans á skipið hafi brostið vegna ástands þess, þannig að komið gæti til ógildingar á samningi um hana og skaðabótaskyldu viðsemjanda hans af þeim sökum. Að þessu virtu geta atriði, sem lúta gagngert að ástandi skipsins á umræddum tíma, ekki komið frekar til álita við úrlausn málsins.

Þegar litið er til þess, sem fram kom um aðdragandann að brotthvarfi varnaraðilans Guðmundar og Péturs Gissurarsonar úr skiprúmi í skýrslum þeirra og forsvarsmanns Fóðurs ehf. fyrir héraðsdómi, svo og í samantekt Péturs 1. desember 1999, verður að leggja til grundvallar að helsta deiluatriðið milli þeirra tveggja fyrstnefndu og útgerðarmannsins hafi snúist um hvort halda ætti með skipið til veiða í Smugunni. Virðist sem þar hafi vegið þyngst annars vegar hvort skipinu yrði komið í það ástand að óhætt yrði að fara þangað til veiða og hins vegar að manna yrði það eftir íslenskum reglum. Um fyrrnefnda atriðið er þess að gæta að af framburði allra þeirra þriggja, sem hér um ræðir, verður ráðið að þeim hafi verið ljóst þegar fundum þeirra bar saman í Tromsø um miðjan nóvember 1999 að skipið þarfnaðist talsverðra viðgerða áður en unnt yrði að halda á því til veiða. Hafði þá ekkert reynt frekar á það hvernig staðið yrði að viðgerðunum og hvort varnaraðilinn og Pétur kynnu að telja skipið að þeim loknum hæft til slíkra veiða, sem útgerðarmaðurinn hafði hug á. Verður í þessu sambandi einnig að taka tillit til þess að þegar til kom tók Fóður ehf. sem áður segir skipið ekki í notkun fyrr en í febrúar 2000. Um síðarnefnda atriðið verður ekki litið fram hjá því að með ummælum, sem áður var vitnað til, staðfesti Pétur í skýrslu sinni fyrir dómi að forsvarsmaður Fóðurs ehf. hefði sagst í samtali þeirra mundu leysa vandkvæði, sem lutu að mönnun skipsins. Kom aldrei til þess að á það reyndi hvort þetta tækist þannig að varnaraðilinn og Pétur gætu fellt sig við það. Þess í stað lýsti Pétur samkvæmt framburði sínum fyrir dómi því þegar yfir við forsvarsmann Fóðurs ehf. að hann og varnaraðilinn myndu ekki fara með skipið til veiða í Smugunni. Eins og atvikum var háttað á þeirri stundu voru ekki vegna framangreindra atriða réttmætar ástæður til að þeir gætu vikið úr skiprúmi vegna vanefnda Fóðurs ehf. eða annarra atvika, sem leitt gátu til greiðsluskyldu félagsins við þá. Er því óhjákvæmilegt að telja varnaraðilann hafa sjálfan slitið ráðningarsambandi sínu við félagið og fyrirgert þannig rétti til greiðslu úr hendi þess.

Af framangreindum ástæðum getur varnaraðilinn Guðmundur ekki átt rétt til neins þess, sem hann krefst af söluverði fiskiskipsins Vídalín. Verður samkvæmt því að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Höfn 9. febrúar 2001 um að úthluta varnaraðilanum 472.501 krónu, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum hluta málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

IV.

Varnaraðilinn Jurijs Semjonovs gerði svokallaðan verktakasamning 30. mars 2000 við Fóður ehf., þar sem hann tók að sér að gegna starfi vélstjóra á fiskiskipinu Vídalín. Samningurinn átti að taka gildi við ferð varnaraðilans til skips og var kveðið þar á um gagnkvæman eins mánaðar uppsagnarfrest. Áttu föst mánaðarlaun varnaraðilans að verða 200.000 krónur og greiðast mánaðarlega „innan þriggja virkra daga eftir hvern mánuð.“ Til viðbótar þeirri fjárhæð bar að greiða honum 350.000 krónur fyrir hvern mánuð við vinnu um borð í skipinu. Hann átti jafnframt rétt til fastra launa í fríi, sem skyldi vera tvær vikur fyrir hvern úthaldsmánuð skipsins. Fóður ehf. átti að bera kostnað af ferðum varnaraðilans, mat, skjólfatnaði og rúmfatnaði.

Í gögnum málsins er af hálfu varnaraðilans Jurijs greint frá því að hann hafi haldið utan til Noregs eftir undirritun þessa samnings til að taka til starfa á skipinu, sem þá hafi verið við bryggju í Honnigsvog. Þangað hafi hann komið 2. apríl 2000 og hafið þegar störf, enda hafi aðalvél skipsins þá verið biluð. Það hafi lagt úr höfn um þremur vikum síðar í fyrstu ferð varnaraðilans til rækjuveiða í Barentshafi. Sú ferð hafi ekki staðið nema í um tvær vikur, því bilanir hafi aftur komið upp. Vegna þeirra hafi skipið verið í höfn þrjá eða fjóra daga. Um miðjan maí hafi aftur verið haldið til veiða í rúman mánuð eða þar til skipið kom til hafnar í Tromsø í Noregi 17. júní 2000. Viku síðar hafi enn verið farið til veiða og skipið komið úr þeirri ferð í Honnigsvog 20. júlí sama árs. Allt þetta tímabil hafi varnaraðilinn verið samfellt við vinnu um borð í skipinu, en frá síðastnefndum degi hafi hann verið í fríi, sem hann hafi nýtt til ferðar til Lettlands. Þaðan hafi hann aftur komið til Íslands 29. september 2000. Hafi skipið þá verið á sjó, en komið til hafnar hér á landi 1. október sama árs. Varnaraðilinn hafi komið til Reykjavíkur 9. þess mánaðar og rætt við forsvarsmann Fóðurs ehf., sem hafi þegar viljað fá hann til starfa. Til þess hafi varnaraðilinn verið reiðubúinn, en þó sett það skilyrði að gerð yrðu upp við sig ógreidd laun eða að minnsta kosti helmingur þeirra greiddur. Útgerðarmaðurinn hafi á hinn bóginn boðist til að greiða varnaraðilanum 100.000 krónur upp í skuldina gegn því að hann kæmi strax til vinnu. Því hafi varnaraðilinn hafnað.

Varnaraðilinn Jurijs leitaði aðstoðar lögmanns, sem ritaði Fóðri ehf. bréf 19. október 2000. Þar voru framangreind atvik rakin og gerð grein fyrir því að varnaraðilinn teldi heildarlaun sín að meðtöldu orlofi, svo og föstum launum, fatapeningum og fæðispeningum samkvæmt kjarasamningi, eiga að nema 2.749.496 krónum fyrir tímabilið frá 30. mars til 10. september 2000, en á tímabilinu frá 21. júlí til síðastgreinds dags hafi hann átt rétt á launum í fríi samkvæmt ákvæðum samnings síns við Fóður ehf. Upp í þau laun hafi hann fengið greiddar 1.166.007 krónur og hafi því skuld félagsins við hann verið 1.583.489 krónur miðað við 10. september 2000. Vegna vanefnda Fóðurs ehf. á greiðslu launa væri lýst yfir riftun samningsins. Með því að varnaraðilinn hafi verið tilbúinn til skipsstarfa allt frá 10. september 2000 og fram til þess dags, sem bréfið var ritað, ætti hann samkvæmt 27. gr. sjómannalaga rétt á launum fyrir það tímabil, eða í 38 daga, eins og hann hefði verið við störf um borð í skipinu. Að meðtöldum sömu liðum og áður er getið væri fjárhæð þeirra launa 808.267 krónur. Vegna riftunar samningsins ætti varnaraðilinn þessu til viðbótar rétt til skaðabóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, sem svari til fullra launa í 30 daga. Enn að meðtöldum sömu liðum og að framan greinir væru þessar skaðabætur vegna riftunar skiprúmssamnings 720.307 krónur. Að öllu samanlögðu væri krafa varnaraðilans á hendur félaginu 3.112.063 krónur að viðbættri nánar tilgreindri fjárhæð vegna innheimtulauna lögmannsins. Fóður ehf. svaraði þessu bréfi 26. október 2000. Kom þar fram að varnaraðilinn hafi að mati félagsins reynst óhæfur til að gegna því starfi, sem hann var ráðinn til, og honum því verið gefinn kostur á að láta annaðhvort af starfinu eða sæta lækkun á launum. Hafi hann valið síðari kostinn, þannig að föst mánaðarlaun hafi lækkað í 150.000 krónur og svokölluð viðbótarlaun í 250.000 krónur. Varnaraðili hafi ekki sinnt því að gera skriflegan samning um þessa breytingu, þrátt fyrir loforð um það. Þegar hann hafi um síðir komið úr fríi í september 2000 hafi hann verið kvaddur til skips. Hann hafi þá sett það skilyrði fyrir áframhaldandi störfum að hann fengi verulega launahækkun. Þegar ekki hafi verið gengið að þeirri kröfu hafi varnaraðilinn gengið úr skiprúmi. Af þessu gættu taldi Fóður ehf. sig aðeins skulda varnaraðilanum um 10.000 krónur, sem stæðu honum til boða.

Með bréfi til sýslumannsins á Höfn 9. nóvember 2000 var lýst sjóveðkröfu varnaraðilans Jurijs að fjárhæð samtals 3.529.370 krónur í söluverð fiskiskipsins Vídalín við nauðungarsölu. Af þeirri fjárhæð var höfuðstóll kröfunnar sagður nema 3.029.863 krónum og áfallnir dráttarvextir frá 19. október sama árs 38.714 krónum, en alls var þar krafist 460.793 króna í innheimtulaun og annan lögmannskostnað. Í bréfinu var um röksemdir fyrir kröfunni vísað til stefnu, sem fylgdi því og var gefin út af hálfu varnaraðilans 9. nóvember 2000 á hendur Fóðri ehf. og Vídalín ehf. Í henni var fyrrnefnda félagið krafið um greiðslu á 3.029.863 krónum með dráttarvöxtum frá 19. október 2000 til greiðsludags og málskostnaði, en þeirri kröfu beint að síðarnefnda félaginu að staðfestur yrði sjóðveðréttur í skipinu fyrir skuldinni. Krafan var sundurliðuð í stefnunni á sama hátt og gert var í áðurnefndu innheimtubréfi til Fóðurs ehf. 19. október 2000 að því frátöldu að krafa um skaðabætur vegna riftunar skiprúmssamnings var í stefnunni talin nema 638.107 krónum í stað 720.307 króna, sem um ræddi í innheimtubréfinu. Stefnan var birt 13. og 14. nóvember 2000. Mál á grundvelli hennar var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. nóvember 2000 og sóttu stefndu ekki þing. Útivistardómur gekk í málinu 15. desember sama árs. Kröfur varnaraðilans voru teknar þar að fullu til greina og honum dæmdar 225.000 krónur í málskostnað.

Sýslumaðurinn á Höfn tilkynnti lögmanni varnaraðilans Jurijs með bréfi 4. desember 2000 að í frumvarpi til úthlutunar á söluverði skipsins yrði krafa hans tekin til greina með samtals 918.728 krónum. Af þeirri fjárhæð væri höfuðstóll kröfunnar 766.011 krónur, dráttarvextir 91.512 krónur og innheimtukostnaður ásamt öðrum kostnaði lögmanns 61.205 krónur. Í bréfinu sagði að krafa varnaraðilans væri lækkuð frá kröfulýsingu hans „vegna þess að Fóður ehf. hefur afhent embættinu útskrift úr tölvubókhaldi fyrirtækisins þar sem fram kemur að árið 2000 fékk Jurijs Semjonovs greidd laun fyrir mánuðina apríl, maí, júní, júlí, ágúst og september kr. 1.619.489. Þá fellst embættið ekki á launakröfur Jurijs eftir 10. sept. 2000.“ Að auki voru skýringar í bréfinu á þeim dráttarvöxtum og innheimtukostnaði, sem fallist væri á í frumvarpinu.

Varnaraðilinn Jurijs mótmælti frumvarpinu innan þess frests, sem sýslumaður hafði sett í því skyni, með bréfi 19. desember 2000. Því fylgdi endurrit dóms frá 15. sama mánaðar í fyrrnefndu máli hans gegn Fóðri ehf. og Vídalín ehf. Á grundvelli hans krafðist varnaraðilinn þess að höfuðstóll kröfu sinnar yrði að fullu tekinn til greina með 3.029.863 krónum, en auk hans yrði úthlutað 120.016 krónum af söluverði skipsins til greiðslu dráttarvaxta fyrir tímabilið frá 19. október til 21. desember 2000, 225.000 krónum vegna tildæmds málskostnaðar og alls 11.205 krónum vegna ritunar kröfulýsingar, móts við nauðungarsölu og bifreiðarkostnaðar, eða 3.735 krónum vegna hvers þessara liða. Var krafa varnaraðilans þannig samtals 3.386.084 krónur. Sýslumaður tók sem áður segir þessi mótmæli varnaraðilans fyrir á fundi 9. febrúar 2001. Þar féllst sýslumaður að öllu leyti á kröfu hans eins og henni var hér lýst.

V.

Samkvæmt 2. tölulið 2. gr. laga nr. 90/1991 var Vídalín ehf. gerðarþoli við nauðungarsölu á samnefndu fiskiskipi, sem sýslumaðurinn á Höfn tók eins og áður segir fyrir í fyrsta sinn 21. september 2000. Verður ekkert ráðið af gögnum málsins um að forsendur hafi verið samkvæmt því lagaákvæði til að telja Fóður ehf. einnig til aðila að nauðungarsölunni eða að félagið hafi leitað eftir því að hafa þar þá stöðu, sbr. 4. tölulið 2. gr. laganna.

Stefna í máli varnaraðilans Jurijs Semjonovs gegn Vídalín ehf. og Fóðri ehf. var sem áður segir gefin út 9. nóvember 2000. Hún var birt fyrirsvarsmanni fyrrnefnda félagsins 13. nóvember 2000 kl. 18.30, en þess síðarnefnda 14. sama mánaðar. Samkvæmt áritun sýslumannsins á Höfn á kröfulýsingu varnaraðilans í söluverð fiskiskipsins Vídalín barst hún honum 13. nóvember 2000, en áritunin ber ekki með sér á hvaða stund þess dags það gerðist. Engin efni eru þó til annars en að líta svo á að þetta hafi gerst á afgreiðslutíma embættis sýslumanns og því sýnilega áður en stefnan var birt og málið þar með höfðað samkvæmt 93. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tilkall varnaraðilans til úthlutunar af söluverði skipsins, sem hann lýsti fyrir sýslumanni, var gagngert reist á því að hann nyti sjóveðréttar í skipinu fyrir kröfu sinni samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Með þessu krafðist því varnaraðilinn viðurkenningar á sjóveðrétti sínum við nauðungarsölu, sem beindist að Vídalín ehf. sem eiganda skipsins. Eins og varnaraðilinn hafði þannig markað málsókn sinni farveg átti úr því, sem komið var, að leysa úr sérhverjum ágreiningi um viðurkenningu á veðréttindum hans eftir sérreglum VIII. kafla og XIII. kafla laga nr. 90/1991. Síðari málshöfðun hans á hendur Vídalín ehf. til viðurkenningar á sjóveðrétti fyrir kröfu sinni var þannig andstæð ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Þrátt fyrir það verður ekki litið fram hjá því að í málinu var leyst að efni til úr kröfu varnaraðilans um staðfestingu sjóveðréttar í skipinu með áðurnefndum útivistardómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2000. Ekki var leitað endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla laga nr. 91/1991, svo sem dómþoli hefði getað gert eða sá annar, sem sýnt hefði nægilega fram á hagsmuni sína af slíku, sbr. 20. gr. sömu laga. Af þeim sökum hefur dómurinn áhrif samkvæmt 116. gr. laga nr. 91/1991 við rekstur þessa máls, þrátt fyrir framangreindan annmarka á því máli varnaraðilans, sem dómurinn gekk í. Gætir þeirra áhrifa einnig þótt þetta mál sé nú fyrir æðra dómi. Verður því niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um staðfestingu sjóveðréttar fyrir kröfu varnaraðilans á hendur Fóðri ehf. ekki virt hér að vettugi.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er dómur í einkamáli bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila þess og þeirra, sem að lögum koma í aðila stað, um þær kröfur, sem þar eru dæmdar að efni til. Sóknaraðili var ekki aðili að því máli, sem leyst var úr með fyrrnefndum dómi 15. desember 2000. Á hinn bóginn var Vídalín ehf. gert með þeim dómi að þola sjóveðrétt fyrir kröfu varnaraðilans í skipi sínu og gæti félagið ekki borið brigður á þann rétt í þessu máli. Hagsmunir sóknaraðila af niðurstöðu um þennan sjóveðrétt helgast af þeim óbeina eignarrétti, sem hann nýtur yfir skipinu sem samningsveðhafi. Þennan óbeina eignarrétt leiðir sóknaraðili frá eiganda skipsins. Gagnvart öðrum veðhafa getur sóknaraðili ekki notið rýmri réttar á grundvelli veðréttinda sinna en sá, sem hann leiðir þau frá. Af þessum sökum verður að leggja sóknaraðila að jöfnu við Vídalín ehf. um þau áhrif, sem umræddur dómur um viðurkenningu sjóðveðréttar varnaraðilans hefur. Samkvæmt því getur sóknaraðili ekki fengið hreyft við þeim rétti varnaraðilans í þessu máli. Verður þannig ekki komist hjá því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að varnaraðilinn eigi rétt í skjóli sjóveðréttar til að fá úthlutað af söluverði fiskiskipsins Vídalín greiðslu samkvæmt niðurstöðu dómsins frá 15. desember 2000.

Samkvæmt framansögðu verður að fallast á að varnaraðilinn Jurijs fái úthlutað af söluverði skipsins 3.029.863 krónum til greiðslu höfuðstóls kröfu sinnar á hendur Fóðri ehf. Svo sem áður greinir voru varnaraðilanum dæmdir dráttarvextir af þeim höfuðstól frá 19. október 2000. Með vísan til 3. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 getur varnaraðilinn ekki fengið úthlutað af söluverði skipsins greiðslu á dráttarvöxtum lengur en til þess tíma, þegar lokið var uppboði á því, eða til 21. nóvember 2000. Nemur fjárhæð þeirra dráttarvaxta 62.718 krónum. Varnaraðilanum voru dæmdar 225.000 krónur í málskostnað, sem einnig ber að greiða af söluverði skipsins. Hann krefst að auki sem fyrr segir að fá greiddar af söluverðinu 3.735 krónur vegna þóknunar lögmanns síns fyrir að rita kröfulýsingu, sömu fjárhæð fyrir mót lögmannsins við nauðungarsölu og enn sömu fjárhæð vegna bifreiðarkostnaðar hans. Í málinu liggur fyrir kröfulýsing frá lögmanninum, sem hann á rétt á að fá þóknun fyrir, og verður krafa varnaraðilans um hana tekin til greina. Af gögnum málsins verður á hinn bóginn hvorki ráðið að lögmaðurinn hafi mætt við uppboð á skipinu né að hann hafi orðið að sinna akstri í tengslum við slíkt. Verður því hafnað kröfuliðum varnaraðilans, sem að þessu tvennu lúta. Samkvæmt þessu á varnaraðilinn rétt á að fá úthlutað samtals 3.321.316 krónum af söluverði skipsins.

Að teknu tilliti til allra atvika í þessum þætti málsins verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af honum í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Ákvörðun sýslumannsins á Höfn 9. febrúar 2001 um að úthluta varnaraðila, Guðmundi Vestmann, 472.501 krónu af söluverði fiskiskipsins Vídalín SF 80 við nauðungarsölu er breytt þannig að ekkert komi í hlut varnaraðila.

Ákvörðun sýslumannsins á Höfn sama dag um að úthluta varnaraðila, Jurijs Semjonovs, 3.386.084 krónum af söluverði sama skips er breytt á þann veg að varnaraðili fái í sinn hlut 3.321.316 krónur.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 14. september 2001.

Mál þetta barst Héraðsdómi Austurlands með málskoti dags. 19. mars 2001 og var að lokinni aðalmeðferð og munnlegum málflutningi tekið til úrskurðar 15. júní s.á. Úrskurður var upp kveðinn í málinu þann 16. ágúst sl. og kærði sóknaraðili hann til Hæstaréttar með kæru dagsettri 29. ágúst sl. Með vísan til niðurlagsákvæðis 1. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991, ákvað dómari að fella úrskurð sinn úr gildi og láta flytja málið að nýju. Fór málflutningur fram að nýju í dag, 14. september og var málið tekið til úrskurðar í dag.  

Sóknaraðili er Olíufélag Íslands hf, kt. 500269-4649,  Suðurlandsbraut 18, Reykjavík. Varnaraðilar eru Guðmundur Vestmann, kt. 251242-2089, Laufrima 2, Reykjavík, og Jurijs Semjonov, kt. 050658-2289, Skíðabraut 6, Dalvík.

Sóknaraðili gerir þessar dómkröfur:

I. Að hnekkt verði ákvörðun sýslumannsins á Höfn dags. 9.2. 2001 um úthlutun kr. 472.501 til varnaraðila Guðmundar Vestmanns og henni breytt þannig að úthlutun til varnaraðilans Guðmundar verði hafnað, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati réttarins.

II. Að hnekkt verði ákvörðun sýslumannsins á Höfn dags. 9. 2. 2001 um hækkun á úthlutun til varnaraðila Jurijs Semjonovs um kr. 2.467.356 og henni breytt þannig að kröfu varnaraðila Jurijs um hækkun á úthlutun af uppboðsandvirði verði hafnað, en til vara að hækkun á úthlutun til varnaraðila Jurijs verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati réttarins.

Af hálfu varnaraðila Guðmundar Vestmann eru gerðar þær dómkröfur, að ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 9. febrúar 2001 um að úthluta varnaraðila Guðmundi Vestmann kr. 472.501 af söluverði togarans Vídalíns SF-80, verði staðfest og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila hæfilegan málskostnað að mati réttarins auk virðisaukaskatts af þeirri fjárhæð.

Af hálfu varnaraðila Jurijs Semjonovs eru gerðar þær dómkröfur, að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Höfn, dagsett þ. 9. febrúar 2001, um hækkun á úthlutun til varnaraðila Jurijs um kr. 2.467.356 skv. breyttu frumvarpi til úthlutunar dags. 12. febrúar 2001, af uppboðsandvirði Vídalíns SF-80, um að varnaraðila skuli úthlutað kr. 3.386.084. Til vara er krafist úthlutunar á lægri fjárhæð að mati dómsins. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu.

Málavextir:

Þann 21. nóvember 2000 var togarinn Vídalín SF-80, skipaskrárnúmer 1347, seldur á nauðungaruppboði, af sýslumanninum á Höfn. Uppboðskaupandi var Sparisjóðabanki Íslands og var honum slegið skipið á kr. 100.000.000.

Þann 4. desember 2001 lagði sýslumaður fram frumvarp að úthlutunargerð. Innan mótmælafrests komu fram nokkur mótmæli við frumvarpið, meðal annars frá varnaraðilum máls þessa, þar sem þeir kröfðust hækkunar á úthlutun sér til handa.

Sóknaraðili, sem er einn af veðhöfum í skipinu, mótmælti þessum kröfum varnaðila. Allt að einu breytti sýslumaður fyrri ákvörðun sinni um úthlutun til varnaraðila með nýju frumvarpi að úthlutunargerð dagsettri 12. febrúar 2001.

Samkvæmt greinargerð varnaraðila Guðmundar Vestmann voru atvik og aðdragandi að kröfugerð hans í málinu þessi:

Þann 11. nóvember 1999 gerði varnaraðili Guðmundur og Eyjólfur Friðgeirsson fyrir hönd Fóðurs ehf. samning, þar sem varnaraðili var ráðinn sem stýrimaður og afleysingarskipstjóri á frystitogarann Vídalín. Af hálfu forsvarsmanna Fóðurs ehf. hafi honum verið tjáð, að félagið hefði keypt skipið, sem lægi í Tromsö í Noregi og stæði til að gera það út til rækjuveiða í Barentshafi og Flæmska hattinum.

Sama dag hafi verið ráðinn á skipið Pétur Gissurarson, sem aðalskipstjóri þess, með sams konar samningi.

Í beinu framhaldi af gerðs samningsins hafi þeir varnaraðili og Pétur farið til Tromsö til að taka við skipinu og undirbúa það til veiða. Þegar þangað var komið, hafi komið í ljós, að skipið hafi ekki haft gilt haffærisskírteini og hafi ástand skipsins að mati þeirra félaga verið langt frá því, að það væri haffært. Kom fram lýsing á ástandi skipsins fram í skýrslu, sem Pétur Gissurarson ritaði 1. desember 2000 og liggur frammi í málinu sem hluti dskj. nr. 15. Þar segir m.a.: „Af ástandi skips er það að segja að það var með öllu óhaffært og þurfti þar margt að laga áður en það gæti farið á sjó.” Í framburði sínum fyrir dómi lýsti Pétur ástandinu í smærri atriðum og taldi ástandið hafa verið þannig, að ekki hefði tekið minna en mánuð að koma skipinu í haffært ástand og flest af því, sem hefði þurft að gera hafi ekki verið nema á færi fagmanna að vinna. Þá hafi Pétur fundið haffærisskírteini, sem runnið hafði út þann 7. nóvember 1999. Þeir félagar hafi gert Eyjólfi Friðgeirssyni grein fyrir því, að ástand skipsins væri annað og lakara en þeim hefði verið tjáð og ekki kæmi til mála, að þeir legðu út með skipið fyrr en það hefði verið skoðað af starfsmönnum Siglingastofnunar og fengið haffærisskírteini, en Eyjólfur hefði sagt þeim, að hann ætlaði að senda skipið í Smuguna undir Íslensku flaggi. Þeir Pétur og varnaraðili Guðmundur hefðu sagt Eyjólfi, að þeir færu ekki með skipið í Smuguna í þessu ástandi og ef það ætti að fara undir Íslensku flaggi, þyrfti að hafa á skipinu löglegan fjölda manna með íslensk skipstjórnar og velstjórnarréttindi. Eyjólfur hafi þá sagt, að þeir gætu þá farið heim  Hefðu þeir sagst halda heim að nýju og bíða átekta þar í einhverja daga og sjá, hverju fram yndi í málinu. Hafi Eyjólfur þá hótað þeim brottrekstri ef þeir héldu heim við svo búið, en þeir hafi þá óskað eftir því, að sú uppsögn væri skrifleg. Héldu þeir síðan heim til Íslands þann 18. nóvember 1999. Eyjólfur Friðgeirsson skýrði frá því fyrir dómi, að skipið hefði verið í verra ástandi, þegar hann skoðaði það um miðjan nóvember 1999, heldur en hann og Pétur höfðu gert ráð fyrir. Hefði hann farið í að láta lagfæra skipið til þess að afla haffærisskírteinis. Eyjólfur sagði, að skipið hefði hafið veiðar í útgerð Fóðurs ehf. í febrúar 2000.

Varnaraðili heyrði ekki frá Eyjólfi Friðgeirssyni, forsvarsmanni útgerðarinnar næstu tvær vikur eftir heimkomuna, hvorki uppsögn né annað, en hann fékk jafnframt þær fregnir frá Siglingastofnun, að allt sæti við sama með skipið. Þann 2. desember 1999 leituðu þeir félagar, varnaraðili Guðmundur og Pétur Gissurarson, til stéttarfélags síns og gerðu þar grein fyrir því, að þeir vildu fá sig lausa frá samningnum. Var Fóðri ehf. skrifað bréf samdægurs, þar sem þeir slitu samningnum vegna grófra vanefnda varðandi ástand skipsins. Jafnframt var gerð krafa að þeim varnaraðila og Pétri yrðu greidd ein mánaðarlaun ásamt útlögðu fé vegna ferða- og gistikostnaðar. Væri þá félagið laust allra mála og þeir lausir undan ráðningarsamningnum. Engin viðbrögð eru sögð hafa verið við þessu bréfi frá Fóðri ehf.

Vídalín SF-80 var selt á nauðungaruppboði 21. nóvember 2000. Var þá lýst kröfum þeirra beggja, varnaraðila Guðmundar Vestmann og Péturs Gissurarsonar. Eru báðar kröfulýsingarnar dagsettar 20. nóvember 2000, en þær eru ekki sérstaklega áritaðar um móttöku sýslumanns, eru áritaðar um framlagningu „hjá sýslumanni 21/11 2000.”

Krafa Péturs Gissurarsonar hafi verið samþykkt óbreytt sem sjóveðskrafa og hafi engin andmæli komið fram við þá ákvörðun sýslumanns, en kröfu varnaraðila Guðmundar hafi hins vegar verið hafnað, enda hafi vantað með kröfunni þau gögn, sem hún var studd við. Úr því hafi verið bætt og leiddi það til þess, að sýslumaður breytti afstöðu sinni og samþykkti kröfuna sem sjóveðskröfu.

Samkvæmt greinargerð varnaraðila, Jurijs Semjonovs, voru atvik og aðdragandi að kröfugerð hans í málinu þessi:

Varnaraðili var ráðinn sem vélstjóri á Vídalín SF-80, þann 30. mars 2000 samkvæmt samningi dagsettum þann dag. Samkvæmt samningnum námu föst laun varnaraðila kr. 200.000 á mánuði og 350.000 kr. greiddust aukalega á mánuði fyrir þá daga, sem hann vann um borð. Þá vann varnaraðili sér inn tveggja vikna frí fyrir hvern úthaldsmánuð á skipinu. Varnaraðili kom um borð í skipið 2. apríl 2000, þar sem það lá í Honnigsvog í Noregi og hóf þegar störf við viðgerð á aðalvél skipsins. Varnaraðili gegndi samfellt störfum á Vídalín tímabilið frá 30. mars 2000 til 20. júlí s.á. eða í 112 daga og hafði því unnið sér inn 50 daga frí á launum samkvæmt ofangreindum samningi. Fljótlega hafi farið að bera á því, að útgerð skipsins, Fóður ehf. stóð ekki í skilum með launagreiðslur.

Eftir að hafa beðið með að koma til skips verulega fram yfir það frí, sem hann átti inni, vegna þess, að skipið var ekki í höfn á þeim tíma, átti varnaraðili viðræður við fyrirsvarsmann Fóðurs ehf., Eyjólf Friðgeirsson, þann 9. október 2000. Vildi Eyjólfur fá varnaraðila til starfa þá þegar, en skipið mun þá hafa legið í Reykjavíkurhöfn. Varnaraðili taldi sig enn ráðinn á skipið og taldi engin vandkvæði á því að koma til starfa, öðrum en þeim, að hann fengi laun sín greidd.

Þegar laun fengust ekki greidd, var Fóðri ehf. ritað bréf, þar sem gerð var krafa um greiðslu launa, jafnframt var skiprúmssamningi riftað vegna stókostlegra vanefnda Fóðurs ehf.

Krafa sú, sem gerð var í bréfi þessu nam kr. 3.112.063 auk kostnaðar. Í bréfinu var skorað á Fóður ehf. að greiða innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins, 19. október 2000, en að öðrum kosti yrði leitað atbeina dómstóla án frekari fyrirvara.

Með stefnu dagsettri 9. nóvember 2000, á hendur Fóðri ehf. og Vídalín ehf., sem birt var fyrir Hannesi Esjari Stefánssyni, fyrirsvarsmanni Vídalín ehf. þann 13. nóvember 2000 og fyrir Eyjólfi Friðgeirssyni, fyrirsvarsmanni Fóðurs ehf. 14. nóvember s.á höfðaði varnaraðili Jurijs Semjonovs mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, og var málið þingfest þann 28. nóvember 2000. Dómkröfur á hendur Fóðri ehf. voru að stefnda yrði gert að greiða stefnanda kr. 3.029.863 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. október 2000 til greiðsludags auk málskostnaðar. Dómkröfur á hendur Vídalín ehf. voru að staðfestur yrði sjóveðréttur í frystitogaranum Vídalín SF-80, skipaskrárnúmer 1347 fyrir þeim kröfum, sem gerðar voru á hendur Fóðri ehf.

Ekki var sótt þing af hálfu stefndu við þingfestingu málsins og var kveðinn upp í því dómur þann 15. desember 2000 og voru allar kröfur stefnanda teknar til greina. Dómi þessum hefur ekki verið áfrýjað, eða óskað endurupptöku málsins.

Sama dag og stefna var gefin út ritaði lögmaður varnaraðila, Jurijs, sýslumanninum á Höfn bréf og lýsti kröfu varnaraðila í söluverð togarans Vídalín SF-80. Í niðurlagi bréfs þessa segir: „Um röksemdir fyrir ofangreindum kröfum vísast til meðfylgjandi stefnu dags. þann 9.11.00. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þ. 28. nóvember 2000.”  

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

1. Varðandi kröfu um breytingu á úthlutun til varnaraðila Guðmundar Vestmanns.

Sóknaraðili byggir á því, að varnaraðili hafi verið samkvæmt framlögðum gögnum, ráðinn á grundvelli verktakasamnings dags. 11.11.1999 til að gegna stöðu stýrimanns og skipstjóra í afleysingum á togaranum Vídalín. Í gögnum málsins liggi frammi bréf Péturs Gissurarsonar, þar sem ástæður fyrir brotthvarfi hans og varnaraðila Guðmundar Vestmann, eru raktar. Komi þar fram, að þeir hafi, eftir skoðun á togaranum í Tromsö þann 15. 11. 1999, hafnað að sigla með skipinu vegna ástands þess og átt um það harða deilu við útgerðarmanninn, sem endað hafi með því, að þeir héldu heim þann 19.11.1999.

Sóknaraðili hafi lagt fram yfirlit um skráningar á haffæri togarans, frá Siglingastofnun, dags. 30.10.2000, sem úr megi lesa að skipið hafi fengið gefið út haffærisskírteini þann 11.11.1999, sem endurnýjað hafi verið þann 11.2.2000 og síðan þann 26. 7. 2000. Megi sjá af gögnum Siglingastofnunar, að skipið hafi líklega haft gilt haffærisskírteini allt fram til þess er skipið var sett í farbann 26.10.2000. Af þessu megi telja ljóst, að skipið hafi verið haffært í nóvember 1999, og að það hafi fengið endurnýjun eða framlengingu á haffærisskírteini fram til október 2000.

Varnaraðili Guðmundur, hafi haldið því fram, að honum hafi verið sagt upp störfum þann 15. 11. 1999 og byggi rétt sinn til launa á því, að um ólögmæta uppsögn á samningi hans hafi verið að ræða. Sóknaraðili telur að málavextir beri með sér, að varnaraðili hafi neitað að vinna við skipið vegna ástands þess og óvissu um eignarhald, eins og fram hafi komið í bréfi lögmanns hans dags. 2.12.1999 og geti því ekki átt rétt til launa í uppsagnarfresti.

Varðandi endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna gistingar og flugs byggir sóknaraðili einnig á því, að endurgreiðslukrafa varnaraðila njóti ekki sjóveðréttar, enda falli þetta tilvik ekki undir 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en þar séu kröfur, sem sjóveðréttar njóti, tæmandi taldar.

Verði talið, að varnaraðili geti átt rétt til launa og endurgreiðslu á kostnaði vegna uppihalds og flugs til Íslands, byggir sóknaraðili á því, að kröfur þessar hafi ekki notið sjóveðréttar á uppboðsdegi þann 21. 11. 2000 vegna fyrningar, en sjóveðréttur fyrnist á einu ári skv. 201. gr. laga nr. 34/1985.

Krafa varnaraðila Guðmundar fyrir ólögmæta uppsögn eða riftun verksamnings hafi gjaldfallið við hina ólögmætu uppsögn þann 15. nóvember 1999, hafi slík krafa stofnast, og krafa um endurgreiðslu á kostnaði hafi stofnast er umræddur kostnaður hafi verið inntur af hendi, eða á tímabilinu 15. 11. til 19. 11. 1999 og séu því þessar kröfur einnig fallnar niður fyrir fyrningu. Engar aðgerðir hafi farið fram af hálfu varnaraðila til að slíta fyrningu sjóveðréttar, fyrr en með kröfulýsingu dags. 20.11.2000, sem lögð hafi verið fyrir sýslumanninn á Höfn þann 21,11,2000, en þá hafi sjóveðréttur varnaraðila verið niður fallinn. 

2. Varðandi kröfu um breytingu á úthlutun til varnaraðila, Jurijs Semjonovs.

Við byrjun uppboðs á togaranum 9. nóvember 2000, hafi varnaraðili lýst kröfu í uppboðsandvirði með kröfulýsingu dagsettri sama dag, sbr. endurrit sýslumannsins á Höfn.

Þann 4. 12. 2000 hafi frumvarp til úthlutunar uppboðsandvirðis gefið út af sýslumanni þar sem kröfur varnaraðila Jurijs hafi verið stórlega lækkaðar.

Þann 14. 11. 2000 birti varnaraðili Jurijs stefnu á hendur uppboðsþola til að þola dóm til staðfestingar á sjóveðrétti. Málið var þingfest 28. 11. 2000 í Héraðsdómi Reykjavíkur og dæmt á grundvelli útivistar stefndu þann 15. 12. 2000. Hafi kröfur stefnanda verið teknar til greina að fullu, en þær hafi verið þær sömu og fram komu í kröfulýsingu frá 9. 11. 2000

Þann 19. 12. 2000 mótmæli lögmaður varnaraðila frumvarpi sýslumanns og krefjist úthlutunar í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavikur. Með ákvörðun þann 9. 2. 2001 fallist sýslumaður á mótmæli varnaraðila og hækki kröfu hans að fullu eftir dóminum. Tilkynnti sýslumaður þessa afstöðu með nýju frumvarpi úthlutunargerðar 12. 2. 2001.

Sóknaraðili byggi á því, að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur hafi enga þýðingu við úrlausn á réttmæti krafna varnaraðila Jurijs á uppboðsdegi þann 21. 11. 2000. Sóknaraðili hafnar því, að komist verði framhjá ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu með þeim hætti sem varnaraðili Jurijs hefur byggt á.

Sóknaraðili byggi á því, að eftir að kröfulýsing í söluandvirði við uppboð hafi verið lögð fram, verði ekki skorið úr um réttmæti veðréttinda eða réttar til úthlutunar af uppboðsandvirði nema eftir ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, enda sé þeim ætlað að tryggja rétt veðhafa og þeirra, sem hagsmuna hafa að gæta af úthlutun, til að hafa áhrif á úthlutun uppboðsandvirðis. Varnaraðili Jurijs hafi því ekki getað, með því að þingfesta almennt einkamál á hendur uppboðsþola eftir nauðungarsöluna, komið í veg  fyrir að kröfulýsing hans fengi rétta meðferð eftir lögum um nauðungarsölu eða með þeim hætti reynt að skuldbinda uppboðskaupa og veðhafa án þess að þeir fengju notið réttarfarsúrræða laga nr. 90/1991. Sú leið, sem varnaraðili Jurijs valdi til að fá staðfestan veðrétt sinn hafi því ekki verið tæk, enda sé réttarfar að þessu leyti ekki komið undir vali kröfulýsanda við uppboð. Vísar sóknaraðili til ákvæða 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt ákvæðum 52. gr. laga nr. 90/1991 skal reka mál um ágreining um úthlutun á uppboðsandvirði eftir ákvæðum XIII. kafla þeirra laga. Samkvæmt þessu hafi héraðsdómara borið að vísa máli varnaraðila um staðfestingu á sjóveðrétti, frá dómi án kröfu, en þar sem varnaraðili virðist ekki hafa upplýst dómara um kröfulýsingu sína í uppboðsandvirði togarans eða stöðu uppboðsmálsins, hafi efnisdómur verið ranglega felldur í málinu. 

Þá telji sóknaraðili, að hann sé óbundinn af dóminum, sem eigandi veðandlagsins, er dómur gekk, sbr. 1. mgr. 23. gr. i.f. laga nr. 91/1991, enda sé sjóveðréttur réttindi, sem falla niður við uppboð, þ.e. óþinglýstur sjóveðréttur fellur niður, skv. 1. mgr. 202. gr. siglningalaga nr. 34/1985. Dómur á hendur uppboðsþola um viðurkenningu sjóveðréttar, sem fellur eftir nauðungarsölu skipsins, bindi því ekki uppboðskaupa eða skapi dómhafa sjálfstæðan rétt til úthlutunar af uppboðsandvirði. Réttur varnaraðila Jurijs til úthlutunar af uppboðsandvirði Vídalíns SF-80 á grundvelli sjóveðréttar, ráðist aðeins af réttarstöðu hans á uppboðsdegi og kröfum skv. ákvæðum nauðungarsölulaga nr. 90/1991.

Þá er kröfum varnaraðila Jurijs mótmælt sem allt of háum, enda séu þær í engu samræmi við samning þann, sem hann gerði þann 30. mars 2000 og hann byggir rétt sinn á.

Í málinu liggi fyrir, að varnaraðili hafi verið ráðinn þann 30. mars 2000 og að hann hafi haldið til veiða með togaranum þann 6. apríl 2000 og verið við veiðar fram til 20. júlí 2000, er hann hafi farið í frí. Einnig liggi fyrir, að samningsbundnu fríi hans hafi lokið þann 10. september 2000 og að hann hafi ekki komið til landsins fyrr en 29. september 2000, en þá hafi skipið verið á veiðum og hafi hann eftir þann tíma ekki unnið frekar við skipið. Sóknaraðili telji, að varnaraðili hafi með því að koma ekki til vinnu eftir samningsbundið frí þann 10. september 2000, fyrirgert rétti til frekari vinnu- og verklauna.

Þá byggir sóknaraðili á því, að það stoði ekki varnaraðila að bera fyrir sig nú, að hann hafi ekki mætt til vinnu þann 10. september 2000 vegna vanefnda á greiðslum, enda hafi honum borið að tilkynna slíkt með skýrum hætti til viðsemjanda síns þann 10. september 2000, hafi hann ætlað að neita að taka upp vinnu fyrr en að fullu hafi verið gert upp við hann samkvæmt verksamningi þeirra. Engin gögn liggi fyrir um þessa afstöðu varnaraðila þann 10. september eða tilkynning af hans hálfu um að hann neiti að mæta til starfa  fyrr en uppgjör hafi farið fram.

Þá byggi sóknaraðili á því, að þar sem um sé að ræða verkasamning á milli aðila, valdi stöðvun á vinnu af hálfu varnaraðila því, að hann fái ekki greidd verklaun samkvæmt verksamningnum

Þá liggi fyrir sú afstaða fyrrum verkkaupa, Fóðurs ehf., að varnaraðili hafi sjálfur hætt vinnu án uppsagnar á verksamningi þeirra.

Samkvæmt þessu og verksamningi aðila hafi varnaraðili átt rétt til fastra verklauna vegna vinnu um borð frá 30. mars 2000 til 10. september 2000 eða í 160 daga og verklauna vegna vinnu um borð frá 6. apríl 2000 til 20 júlí 2000 eða í 104 daga, en sá vinnutími veiti honum rétt til 104 daga frís. Samkvæmt  þessu ætti krafa varnaraðila að sundurliðast svo:

Föst laun í 160 daga frá 30. 3.-10.9. 2000 (160d. x kr. 200.000/30d.)  kr. 1.066.667,-

Vinna um borð frá 6.4.- 20.7. 2000 (104d. x kr. 350.000/30d.)kr. 1.213.333,-

Samtalskr. 2.280.000,-

Varnaraðili Jurijs hafi viðurkennt að hafa fengið greiddarkr. 1.166.007,-

                                                                                    Samtals ógreittkr. 1.113993,-

Samkvæmt þessu telji sóknaraðili að krafa varnaraðila Jurijs geti að hámarki numið kr. 1.113.993 að höfuðstól. Dráttarvaxtakröfu sé sérstaklega mótmælt. Sé fallist á upphafstíma dráttarvaxta skv. kröfulýsingu varnaraðila eða þann 19. október 2000.

Kröfum varnaraðila Jurijs um föst laun fatapeninga, fæðispeninga og orlof er mótmælt enda hafi ekki verið samið um sérstakar greiðslur vegna þessara liða í verksamningi þann 30. mars 2000. Vísun varnaraðila til ákvæða kjarasamnings eða laga nr. 55/1988 geti ekki átt við, þar sem varnaraðili hafi samið um að vinna starf sitt um borð sem verktaki, en ekki síður vegna þess, að umsamin kjör um greiðslu kr. 200.000 á mánuði í föst laun með öllu inniföldu, séu langt um betri og hagkvæmari en ákvæði kjarasamninga um föst laun og aðrar fastar greiðslur auk orlofs.

Málsástæður og lagarök varnaraðila Guðmundar Vestmann:

Varnaraðili Guðmundur Vestmann byggir á því, að hann hafi verið ráðinn sem stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Vídalín SF-80 með ráðningarsamningi dagsettum 11. nóvember 1999. Ráðningarsamningurinn hafi tekið gildi þá þegar, enda hafi varnaraðili Guðmundur farið, ásamt Pétri Gissurarsyni, sem gerður hefði verið við sams konar samningur,  næsta dag til Tromsö, þar sem skipið hafi legið, til að taka við skipinu. Við ráðninguna hafi varnaraðili fengið réttarstöðu skipverja samkvæmt sjómanna- og siglingalögum, þ.á m. rétt til umsaminna launa og tryggingarrétt fyrir greiðslu launanna, sjóveðrétt í skipinu, sem kveðið er á um í 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Þegar varnaraðili hafi komið til skips hafi komið í ljós, að skipið hefði ekki gilt haffærisskírteini og hafi þarfnast verulegra lagfæringa til þess, að það gæti talist haffært. Varnaraðili og Pétur, skipstjóri, hafi gert útgerðarmanninum grein fyrir því, að úr þessu þyrfti að bæta svo fljótt sem kostur væri á, ella væri forsenda ráðningarinnar brostin. Útgerðarmaðurinn hafi þá hótað að reka þá af skipinu ef þeir yfirgæfu það og héldu heim til Íslands. Þeir hefðu svarað því til að hann skyldi gera það skriflega og héldu 18. nóvember 1999 heim til Íslands.

Þegar liðnar hafi verið tvær vikur og ekkert hefði enn heyrst frá útgerðarmanni, hafi honum verið skrifað bréf þann 2. desember 1999,  þar sem hann hafi verið krafinn launa í einn mánuð og útlagðs kostnaðar vegna fararinnar til Noregs og uppihalds þar. Jafnframt að varnaraðili teldi sig ekki lengur bundinn af ráðningarsamningnum af áðurgreindum ástæðum. Bréfi þessu hafi ekki verið svarað né orðið við greiðsluáskoruninni.

Á því sé byggt af hálfu varnaraðila Guðmundar, að réttur til launa samkvæmt ráðningarsamningi hafi tekið að renna við undirskrift samningsins þann 11. nóvember 1999. Samkvæmt ráðningarsamningnum skyldu umsamin laun greidd mánaðarlega, nánar tiltekið á 3. degi næsta mánaðar eftir að launin féllu til. Fyrsti gjalddagi launa varnaraðila skv. ráðningarsamningnum hafi því verið 3. desember 1999 fyrir tímabilið frá 11. nóvember 1999 til 30. nóvember 1999.

Þá sé á því byggt, að sjóveðrétturinn til tryggingar kröfunni stofnist í skilningi 201. gr. siglingalaganna, á gjalddaga kröfunnar, í þessu tilviki 3. desember 1999. Sjóveðrétturinn hafi því verið ófyrndur, er sýslumaðurinn hafi móttekið kröfuna þann 21. nóvember 2000 og hafi því ákvörðun sýslumanns verið rétt, þegar hann hafi samþykkt kröfu varnaraðila sem sjóveðréttarkröfu skv. 1. tl. 1. mgr. 197. siglingalaganna.

Höfuðstóll kröfunnar sé byggður á ráðningarsamningnum. Dráttarvextir, sem lýst hafi verið séu reiknaðir frá 15. desember 1999 í samræmi við greinar 14.1 og 15.1.í þágildandi kjarasamningum yfirmanna á fiskiskipum á milli FFSÍ og LÍÚ, sem er að stofni til frá 1995. Útlagður ferðakostnaður til ráðningarstaðar og upphald í Noregi sé byggt á framlögðum gögnum þar að lútandi og greiðsluskylt með launum, með vísan til 2. mgr. 25. gr. sjómannalaga.

Vísað er til 1.mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi málskostnaðarkröfuna og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi kröfu um virðisaukaskatt af dæmdum málskostnaði.

Málsástæður og lagarök varnaraðila Jurijs Semjonovs:

Varnaraðili, Jurijs Semjonovs, byggir á því, að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. desember 2000, sé bindandi fyrir sóknaraðila. Ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 fjalli um að ekki megi reka mál út af sama sakarefni samtímis fyrir hliðsettum dómstólum. Kröfulýsing fyrir stjórnvaldi teljist ekki málshöfðun fyrir dómi. Skipti þá ekki máli þótt ákvarðanir stjórnvalds megi bera undir dómstóla síðar.

Þá er á það bent, að dómur um lögveð sé ekki dómur um úthlutun uppboðsandvirðis, þrátt fyrir þau réttaráhrif dómsins, að sýslumaður hafi ekki getað annað en úthlutað eins og hann gerði.

Hliðsettur dómur geti ekki endurskoðað gerðir héraðsdóms eða lýst þær markalausar. Sú réttarfarsleið, sem farin skuli sé samkvæmt 5. mgr. 137. gr. EML.

Sóknaraðili telji, að óheimilt hafi verið að höfða mál fyrir héraðsdómi, eins og gert var, þar sem málið hafi borið undir annan dómstól, eftir reglum laga nr. 90/1991, og hafi héraðsdómara borið að vísa málinu frá.  Varnaraðili byggir á því, að málið hafi ekki snúist um neitt það efni, sem skjóta hefði þurft til héraðsdóms eftir þeim lögum. Mál um ágreining um ákvörðun sýslumannsum úthlutun söluverðs verður allt að einu borið undir héraðsdóm, ef slíkur ágreiningur kemur upp, eins og einmitt sé gert í því máli, sem hér er til umfjöllunar.

Varnaraðili bendir á, að sóknaraðili byggi á því, að dómur á hendur uppboðsþola um viðurkenningu sjóveðréttar, sem kveðinn sé upp eftir að sala hafi farið fram, geti ekki bundið uppboðskaupanda. Varnaraðili byggir á því, að mál teljist höfðað við birtingu stefnu, en við birtingu stefnu til Héraðsdóms Reykjavíkur, þann 14. nóvember 2000 hafi framhaldssala ekki farið fram.

Þá telur varnaraðili, að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur muni í öllu falli hafa jákvæð áhrif samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á neitt af framangreindu og talið, að héraðsdómur geti óbundinn af umræddum dómi fjallað um kröfur varnaraðila, byggi varnaraðili á því, að hann eigi rétt til launa samkvæmt skiprúmssamningi vegna vinnuframlags tímabilið 30. mars 2000 til 20. júlí 2000, fyrir áunnið frí samkvæmt sama skiprúmssamningi tímabilið 21. júlí 2000 til 10. september 2000, full laun fyrir tímabilið 11. september 2000 til 19. október 2000, samkvæmt skiprúmssamningi og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, enda hafi hann þetta tímabil beðið eftir efndum Fóðurs ehf. á skiprúmssamningnum og fyrir tímabilið 20. október til 20. nóvember, skaðabætur vegna riftunar á skiprúmssamningi samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. 

Krafa um málskostnað er studd ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991.

Niðurstöður:

Varnaraðili, Guðmundur Vestmann var ráðinn til starfa á Vídalín SF-80 með samningi dagsettum 11. nóvember 1999. Af hálfu varnaraðila var byrjað að efna samninginn með því að fara til skips þar sem það lá í Tromsö. Með vætti Péturs Gissurarsonar og Eyjólfs Friðgeirssonar, auk framburðar varnaraðila Guðmundar Vestmann verður að telja sannað, að skipið hafi, er þeir komu til Tromsö, ekki verið hæft til þess að halda til veiða, en ekki hefur verið sýnt fram á, að skipið hafi haft haffærisskírteini á þessum tíma. Það var þannig af ástæðum, sem alfarið mátti rekja til útgerðrmanns, að ekki gat orðið af frekari efndum samningsins af hálfu varnaraðila Guðmundar. Ekki hefur verið sýnt fram á, að samningnum hafi verið sagt upp af hálf samningsaðila, fyrr en varnaraðili sagði honum upp  með bréfi til Fóðurs ehf. þann 2. desember 1999 og má telja að um sé að ræða sambærilegt tilvik og um ræðir í 1. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 35/1985. Samkvæmt samningnum var uppsagnarfrestur af beggja hálfu einn mánuður.

Krafa varnaraðila Guðmundar Vestmann er þannig byggð upp, að um er að ræða föst laun í einn mánuð samkvæmt samningi, kr. 245.000, útlagður kostnaður vegna flugfars til Íslands kr. 66.467 og gistikostnaður kr. 4.950 eða samtals kr. 316.417, auk vaxta og innheimtukostnaðar.  Er krafa varnaraðila, Guðmundar Vestmann í samræmi við framlögð gögn og verður tekin til að fullu.

Samkvæmt samningi varnaraðila, Guðmundar Vestmann, og Fóðurs ehf. var gjalddagi fastra launa varnaraðila mánaðarlega innan þriðja virka dags eftir hvern mánuð. Ef gengið er út frá því, að miðað sé við almanaksmánuði og gjalddaginn sé eigi síðar en á þriðja degi hins næsta mánaðar á eftir, hefur fyrsti gjalddagi launa varnaraðila verið hinn 3. desember 1999. ef gengið er hins vegar út frá því, að gjalddaginn væri á þriðja degi eftir að varnaraðili hefði verið samningsbundinn í mánaðar tíma, væri gjalddaginn 14. desember 1999. Sóknaraðili hefur haldið því fram, að sjóveðréttur fyrir kröfu varnaraðila Guðmundar Vestmann hefði verið fyrndur, er kröfunni var lýst í söluandvirði Vídalíns SF-80,  þann 21. nóvember 1999, enda fyrnist sjóveðréttur á einu ári frá því að krafa stofnast. Fallist er á það með varnaraðila, að krafan hafi talist stofnast á gjalddaga hennar og að sjóveðréttur varnaraðila Guðmundar Vestmann hafi því verið ófyrndur, og fyrning rofin, þegar kröfunni var lýst, 21. nóvember 2000.

Í samningi Fóðurs ehf. og varnaraðila Guðmundar kemur fram, undir samningsliðnum: „Laun og kjör”, að „Ferðir, matur, skjólfatnaður og rúmfatnaður séu frí.” Verður þetta samningsákvæði ekki skilið með öðrum hætti en að þetta sé hluti af launakjörum varnaraðila. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga falla þessar kröfur undir sjóveðréttinn.

Verður því staðfest sú ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 9. febrúar 2001, að úthluta varnaraðila, Guðmundi Vestmann, kr. 472.501,00 af söluverði togarans Vídalíns SF-80, skipaskrárnúmer 1347.

Samhliða því, að varnaraðili Jurijs Semjonovs, lýsti kröfu sinni í söluandvirði togarans Vídalín SF-80, höfðaði hann mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn útgerðarmanni togarans, Fóðri ehf. til staðfestingar á kröfu sinni til launa, og eiganda togarans, Vídalín ehf., til staðfestingar á sjóveðrétti. Ekki var sótt þing af hálfu stefndu og gekk dómur í málinu, eftir 96. gr. laga nr. 91/1991, þann 15. desember 2000 og voru kröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti auk málskostnaðar.

Dómi þessum hefur ekki verið áfrýjað, enda er áfrýjun hans ekki heimil skv. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki vitað til þess, að málsaðilar hafi beiðst endurupptöku málsins í héraði eftir ákvæðum XXIII. kafla s.l.

Dómur þessi er bindandi fyrir aðila máls þessa og sýslumanninn á Höfn. Vegna þeirrar málsástæðu, sem höfð var uppi í málatilbúnaði sóknaraðila, að sjóveðréttur varnaraðila Jurijs Semjonovs, sem staðfestur var með dómi, eftir að uppboð hafði farið fram, hafi þá fallið niður gagnvart uppboðskaupanda, verður að taka fram, að sjóveðréttur í þessu tilfelli, varð ekki til við staðfestingu hans í dómi, heldur við það, að krafa, sem að lögum fylgir slíkur veðréttur, gjaldféll.

Verður því staðfest sú ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 9. febrúar 2001, að úthluta varnaraðila, Jurijs Semjonovs, kr. 3.386.084,00 af söluverði togarans  Vídalíns SF-80, skipaskrárnúmer 1347, í samræmi við dóminn.

Sóknaraðili Olíufélagið hf. greiði varnarðilum, Guðmundi Vestmann og Jurijs Semjonovs, kr. 200.000 í málskostnað hvorum.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 9. febrúar 2001, að úthluta varnaraðila, Guðmundi Vestmann, kr. 472.501,00 af söluverði togarans  Vídalíns SF-80, skipaskrárnúmer 1347.

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Höfn frá 9. febrúar 2001, að úthluta varnaraðila, Jurijs Semjonovs, kr. 3.386.084,00 af söluverði togarans  Vídalíns SF-80, skipaskrárnúmer 1347.

Sóknaraðili Olíufélagið hf. greiði varnaðilum, Guðmundi Vestmann og Jurijs Semjonovs, kr. 200.000 í málskostnað hvorum.