Hæstiréttur íslands

Mál nr. 526/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


           

Föstudaginn 26. október 2007

Nr. 526/2007.

Elísa Pálsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Samskipum hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

 

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.

 

E kærði úrskurð héraðsdóms sem hafnaði kröfu hennar um að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að svara þeim spurningum er fram komu í matsbeiðni 23. ágúst 2007. S taldi spurningarnar í matsbeiðninni vera tilgangslausar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem þeim hefði þegar verið svarað í öðrum matsgerðum vegna sama atburðar, í öðru dómsmáli gegn S. Í dómi Hæstaréttar sagði að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 ætti sóknaraðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn er hann teldi málstað sínum til framdráttar. Væri að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiddi af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Þó að mál sóknaraðila og mál nr. E-50/2005 ættu upphaf í sama atviki og matsgerðir sem fram hefðu verið lagðar vörðuðu þau bæði, þá væri mál sóknaraðila sjálfstætt dómsmál og yrði sönnunarfærsla í því ekki takmörkuð vegna réttarfarsatriða er varðaði mál nr. E-50/2005. Yrði ekki fullyrt nú að bersýnilegt væri að sú matsgerð sem sóknaraðili óskaði eftir að yrði gerð skipti ekki máli eða væri tilgangslaus til sönnunar í máli E gegn S. Var því lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo matsmenn til að veita svör við spurningum E sem fram komu í matsbeiðni 23. ágúst 2007.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til þess að svara þeim spurningum er fram koma í matsbeiðni 23. ágúst 2007. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, en til vara að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þann veg að tveir menn verði dómkvaddir til að svara þeim spurningum sem fram koma í matsbeiðni sóknaraðila 23. ágúst 2007. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Faðir sóknaraðila og starfsmaður varnaraðila var stýrimaður á flutningaskipinu Dísarfelli. Hann drukknaði þegar skipið sökk 9. mars 1997. Vegna sama sjóslyss hafa verið höfðuð tvö önnur dómsmál á hendur varnaraðila, annars vegar mál nr. E-2585/2005, Valdimar H. Sigþórsson gegn Samskipum hf., og hins vegar mál nr. E-50/2005, Anna Þorsteinsdóttir gegn Samskipum hf. Dómur hefur gengið í síðastnefndu máli og hefur honum verið áfrýjað til Hæstaréttar. Í tengslum við það mál var aflað þriggja matsgerða Ásgeirs Guðnasonar vélfræðings og Daníels Friðrikssonar skipatæknifræðings þar sem lagt er mat á ýmis atriði varðandi búnað Dísarfells. Hafa þær verið lagðar fram í þessu máli.

Í málinu krefst sóknaraðili aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur þar sem héraðsdómari hafi þurft að hafa sérfróða meðdómsmenn við úrlausn málsins. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari ef hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr máli, kvatt til tvo meðdómsmenn sem hafa slíka sérkunnáttu. Fallist er á með héraðsdómara að ekki hafi verið þörf við úrlausn málsins í þessum þætti þess að dómkveðja sérfróða meðdómsmenn, sbr. einnig 3. mgr. 4. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfu sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar, sem reist er á þessari málsástæðu, því hafnað.

Við fyrirtöku málsins 23. ágúst 2007 lagði sóknaraðili fram matsbeiðni og óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu tveir óvilhallir og hæfir matsmenn til að svara nánar tilgreindum spurningum. Varnaraðili mótmælti dómkvaðningu samkvæmt matsbeiðninni. Taldi hann spurningar í henni vera tilgangslausar til sönnunarfærslu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, þar sem þeim hefði þegar verið svarað í öðrum matsgerðum vegna sama atburðar. Vísaði hann um það til fyrrnefndra matsgerða Ásgeirs Guðnasonar og Daníels Friðrikssonar. Þá væru spurningarnar of almennar, óljósar og leiðandi.

Sóknaraðili byggir varakröfu sína á því að mál hennar gegn varnaraðila sé sjálfstætt dómsmál og ekki sambærilegt máli nr. E-50/2005 að öllu leyti. Þá hafnar sóknaraðili því að í matsbeiðni sinni 23. ágúst 2007 sé um að ræða sömu matsspurningar og áður hafa verið lagðar fyrir matsmenn í tengslum við héraðsdómsmál nr. E-50/2005.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 á sóknaraðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu greinar. Þó að mál sóknaraðila og mál nr. E-50/2005 eigi upphaf í sama atviki og matsgerðir þær sem fram hafa verið lagðar varði þau bæði, þá er mál sóknaraðila sjálfstætt dómsmál og verður sönnunarfærsla í því ekki takmörkuð vegna réttarfarsatriða er varða mál nr. E-50/2005. Ekki hefur verið sýnt fram á að þær spurningarnar, sem sóknaraðili óskar eftir að dómkvaddir verði tveir menn til að meta, séu nákvæmlega þær sömu og svarað var í matsgerðum þeim sem lagðar voru fram í máli nr. E-50/2005. Þá verður ekki fullyrt nú að bersýnilegt sé að sú matsgerð sem sóknaraðili óskar eftir að verði gerð skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, en af sönnunargildi hennar yrði sóknaraðili að bera áhættu samhliða kostnaði af öflunar hennar.

Á grundvelli þess sem að framan er rakið verður að fella úr gildi hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo óvilhalla og hæfa matsmenn til að svara þeim spurningum sem fram koma í matsbeiðni sóknaraðila sem lögð var fram 23. ágúst 2007.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo matsmenn til að veita svör við spurningum sóknaraðila, Elísu Pálsdóttur, sem fram koma í matsbeiðni hennar 23. ágúst 2007.

Varnaraðili, Samskip hf., greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

                                Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2007.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 17. september sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristjönu Friðbjörnsdóttur, f.h. ólögráða dóttur hennar, Elísu Pálsdóttur, Frostafold 3, Reykjavík  á hendur Samskipum, Holtavegi við Holtabakka, Reykjavík, með stefnu birtri  14. apríl 2005.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 5.375.000 kr. ásamt 2% ársvöxtum frá 9. mars 1997 til 26. nóvember 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga  nr. 38/2001 frá þeim degi og til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda hljóða aðallega á um sýknu og málskostnað og til vara lækkun á dómkröfu stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Faðir stefnanda var stýrimaður á m/s Dísarfelli. Skipið sökk hinn 9. mars 1997 og drukknaði faðirinn.  Í málinu er farið fram á skaðabætur vegna þess atburðar. Vegna sama sjóslyss hefur sami lögmaður höfðað tvö önnur dómsmál. Annars vegar er það málið nr. 2585/2005, Valdimar H. Sigþórsson gegn Samskipum hf., og hins vegar málið nr. E-50/2005, Anna Þorsteinsdóttir gegn Samskipum hf. Það mál var dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. maí sl. og er nú undir áfrýjun. Dómari málsins ásamt lögmönnum tóku þá ákvörðun að láta málin nr. E-2585/2005 og það mál sem hér er til meðferðar bíða þar til dómur í málinu nr. E-50/2005 liggur fyrir í Hæstaréttar Íslands.

Í fyrirtöku máls þessa hinn 9. september 2005 lagði lögmaður stefnanda fram matsbeiðni í málinu nr. E-50/2005. Hinn 27. apríl 2006 lagði hann síðan fram matsgerð dags. 6. apríl 2006.  Þá hafa í tengslum við ágreining þennan einnig verið lagðar fram tvær matsgerðir sömu matsmanna frá 16. nóvember 2006, annars vegar vegna viðbótarspurninga stefnanda og hins vegar vegna viðbótarspurninga stefnda. Þannig hafa þrjár matsgerðir verið lagðar fram í málinu en allra þeirra var aflað í tengslum við málið nr. E-50/2005.  Ekki hefur verið óskað yfirmats vegna þeirra.

Í fyrirtöku málsins 23. ágúst sl. lagði lögmaður stefnanda, hér eftir nefndur matsbeiðandi, fram dskj. nr. 23, matsbeiðni, með eftirfarandi matsspurningum.

„1. matsspurning.   Þess er beiðst að því verði svarað hvort 80 mm tengilögn (m. renniloka) milli austur- og kjölfestulagna skipsins (Dísarfellsins), eins og henni er lýst í gögnum málsins, hafi verið og sé í samræmi við almennar reglur flokkunarfélaga, sem starfa hér á landi og almennt í vestur Evrópu og að það hafi verið í samræmi við reglurnar að hafa renniloka á þeim  stað þar sem hann var í þessari lögn.

Ef spurningu þessari er svarað játandi, hvaða kröfur eru þá gerðar að öðru leyti til gerðar lagnarinnar og uppfyllti austurdælubúnaður skipsins slíkar kröfur og hvaða athugun þurfti að viðhafa til að ganga úr skugga um slíkt.

Ath.  Sjá kafla 4.5 í skýrslu Emils Ragnarssonar bls. 20 til 21.  Sjá einnig kafla 6.3.2. í skýrslunni bls. 35 og 36.  Sjá svar 1. vélstjóra bls. 36 efst á síðunni:  „Það hafði komið fyrir að rusl settist undir keilulokana, kannski einu sinni eða tvisvar- já og þá er ekki hægt að loka þeim eðlilega.“

2. matsspurning  a) Er skip af þeirri stærð og gerð sem Dísafelli var almennt talið sjófært með kjölfestudælubúnað í lagi og austurdælur óvirkar  b) er skip af þeirri stærð og gerð sem Dísarfelli var almennt talið sjófært ef austurdælubúnaður er óvirkur (virkar ekki).  c)  Ef skip af þeirri stærð og gerð sem Dísarfelli var almennt talið sjófært ef austurdælubúnaður er óvirkur (virkar ekki), þó slíkt skip sé búið ofangreindri 80 mm tengilögn milli austur- og kjölfestulagna skipsins.

Ath. Þess er beiðst að þessari spurningu verði svarað almennt og svar verði ekki bundið við atvik málsins.“

Lögmaður stefnda, hér eftir nefndur matsþoli, mótmælti matsbeiðninni. 

Hinn 17. september sl. var lögmönnum gefinn kostur á að tjá sig um ágreiningsefnið.

Matsþoli krefst þess að dómari hafni þeirri kröfu að dómkvaddir verði tveir matsmenn til þess að svara þeim spurningum sem stefnandi lagði fram í matsbeiðni í þinghaldi þann 23. ágúst sl. sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 23. 

Matsþoli telur spurningarnar tilgangslausar og vísar til 3. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála.  Spurningunum hafi þegar verið svarað í öðrum matsgerðum vegna sama atburðar. Matsþoli telur að fyrri spurningunni sé svarað og vísar til bls. 3 í matsgerð frá 16. nóvember 2006 varðandi viðbótarspurningar stefnda. Spurningu 2 a. telur matsþoli þar vera villandi og þar sé um rangfærslur að ræða. Matsþoli bendir á að ekki hafi skipt máli hvort ein af austurdælunum hafi verið biluð því að tvær aðrar dælur hafi verið í lagi.  Aukadælan hafi ekki haft áhrif á haffærni skipsins. Matsþoli telur að svar við spurningunni komi fram í matsgerðinni frá 6. apríl 2006 á bls. 3-4.  Matsþoli telur að b-hluta spurningar nr. 2 hafi þegar hafi verið svarað og vísar til bls. 3 í matsgerðinni frá 6. apríl 2006.  C-hluta spurningar telur matsþoli óskiljanlega. Þá bendir matsþoli á, að matsbeiðandi hafi ekki farið fram á yfirmat. Þá telur matsþoli að matsgerð sé mjög kostnaðarsöm, eins og hafi sýnt sig, auk þess sem erfitt sé að finna menn til verksins.

Matsbeiðandi gerir þá kröfu að dómari dómkveðji tvo matsmenn eins og kemur fram í matsbeiðninni dags. 23. ágúst 2007. Matsbeiðandi vísar til 1. mgr. 61. gr. laga um meðferð einkamála máli sínu til stuðnings. Matsbeiðandi leggur áherslu á að hér sé um sjálfstætt mál að ræða.  Hann telur matspurningarnar skýrar. Þótt nefnt sé í 2. spurningu að matið eigi að vera almennt varðandi þann lið, þá myndi hann breyta þeirri spurningu þannig að hún tæki til Dísarfellsins.

Forsendur og niðurstaða

Eins að framan greinir hefur lögmaður stefnanda höfðað þrjú einkamál vegna þess tjóns sem umbjóðendur hans urðu fyrir er Dísarfellið sökk.  Lögmenn voru sammála um að tvö málanna biðu þar til einu þeirra yrði lokið í Hæstarétti og yrði það mál prófmál á bótaskyldu. Vegna þess máls sem nú er í Hæstarétti hafa þrjár matsgerðir verið gerðar og hafa þær allar verið lagðar fram í máli því sem hér er til umfjöllunar. 

Eins og að framan greinir eru tvær matsspurningar í hinni umdeildu matsbeiðni.  Dómurinn lítur svo á að matspurningunum hafi þegar verið svarað í framlögðum matsgerðum.  Ekki var farið fram á yfirmat með heimild í 64. gr. laga um meðferð einkamála. Þótt matsgerðirnar tilheyri öðru dómsmáli þá varða þær sömu atriði og atburði. Því lítur dómurinn svo á að tilefnislaust sé að dómkveðja matsmenn þá er matsbeiðandi fer fram á í matsbeiðni sinni og hafnar því kröfu matsbeiðanda.

Af hálfu matsbeiðanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Lilja Jónasdóttir hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

                                           ÚRSKURÐARORÐ

Hafnað er kröfu matsbeiðanda um að dómkvaddir verði tveir matsmenn til þess að svara þeim spurningum er fram koma í matsbeiðni frá 23. ágúst 2007.