Hæstiréttur íslands
Mál nr. 829/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 17. desember 2014 |
|
Nr. 829/2014. |
Lögreglustjórinn á
höfuðborgarsvæðinu (Jón
H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt
Bogason og Karl Axelsson settur
hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2014, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
15. desember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt
til mánudagsins 12. janúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr.
192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn
kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta
farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði
markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15.
desember 2014.
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta
áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 12. janúar 2015 kl. 16:00.
Í
greinargerð lögreglu kemur fram að, að kvöldi 23. nóvember sl. hafi lögreglu
borist tilkynning um slasaðan mann að [...] í [...]. Þegar lögreglan hafi komið
á vettvang hafi komið í ljós að þar hafði maður, A hafi verið stunginn í
framanvert brjósthol. Hafi hann verið lífshætturlega slasaður og hafi vart
verið hugað líf við komu á slysadeild en brotaþoli hafi misst mikið blóð. Tveir
menn hafi verið á vettvangi með brotaþola, B og C. Skömmu síðar hafi Y og kærði
komið á vettvang og hafi þeir verið handteknir í þágu rannsóknar málsins.
Eftir
að mennirnir höfðu verið yfirheyrðir hafi verið tekin ákvörðun um að farið yrði
fram á gæsluvarðhald yfir Y og X og úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur þá í
gæsluvarðhald til 8 desember sl. Samkvæmt upplýsingum lögreglu höfðu X og Y
komið að [...] ásamt þriðja manninum, Z skömmu áður en lögreglu bar að garði.
Hafi það verið grunur lögreglu að út frá þeim upplýsingum sem hafi legið fyrir
að þeir þrír væru valdir að áverkum brotaþola. Z hafi síðan verið handtekinn
nokkrum dögum síðar og gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins. Y hafi sætt
gæsluvarðhaldi til 8. desember sl. og Z til 12. desember sl. en kærði hafi sætt
gæsluvarðhaldi á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 til dagsins í dag.
Samkvæmt
upplýsingum lögreglu hafi kærði verið í átökum við C á heimili B umrætt sinn og
blandaðist brotaþoli inn í átökin. Í kjölfarið sé brotaþoli stunginn í
brjóstið. Sakborningar neiti allir að hafa stungið brotaþola og segjast ekki
vita hver það hafi verið sem hafi stungið hann en á fatnaði bæði Z og kærða
hafi fundist blóð sem talið er að megi rekja til brotaþola. Beðið sé niðurstöðu lífsýna varðandi það. Brotaþoli
hafi verið yfirheyrður vegna málsins en það hafi gengið erfiðlega í fyrstu
vegna ástands hans. Í skýrslutöku í lok síðustu viku hafi hinsvegar komið fram
hjá brotaþola að hann hefði blandast í átök milli kærða og C umrætt sinn og að
kærði hefði verið sá sem stakk hann. Þá beri vitnið B um að hafa séð kærða
sveifla hníf á heimili hans skömmu fyrir átökin.
Kærði
hafi verið yfirheyrður fimm sinnum vegna málsins en neiti sök. Hann kannist þó
við að hafa verið á vettvangi og að hafa þar lent í átökum en neiti að hafa
stungið brotaþola.
Í
framhaldi af handtöku kærða hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðahald á
grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b- liðar 1. mgr. 99. gr.
sömu laga. Fyrst þann 24. nóvember sl. en síðast þann 8. desember sl. með
úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 323/2014 sem staðfestur hafi verið með dómi
Hæstaréttar.
Rannsókn
málsins sé langt á veg komin en kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum
grun um að hafa ráðist á brotaþola með hníf og stungið hann í brjóstið og með
því veitt honum áverka sem hefðu hæglega geta dregið brotaþola til dauða. Brot
kærða sé sérstaklega alvarlegt og sé talið varða við 211. gr. sbr. 20 gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og kunni að varða 16 ára fangelsi eða allt
að ævilöngu. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði er hættulegur umhverfi
sínu og er það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til
almannahagsmuna.
Með
vísan til framanritaðs, framlagðra gagna 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð
sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Lögreglan
hefur nú til rannsóknar alvarlega hnífstunguárás sem átti sér stað þann 23.
nóvember sl. Atlagan er talin vera brot á 211. sbr. 20. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur allt að ævilöngu fangelsi. Kærði
neitar sök en með vísan til þess sem rakið er í greinargerð lögreglu, og stutt
er gögnum málsins, er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir sterkum grun
um að hafa framið brotið. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli
a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá því 24. nóvember sl. en rannsókn
málsins stendur enn yfir. Með tilliti til almannahagsmuna er fallist á það með
lögreglu að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi
ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar. Eru því skilyrði 2. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 fyrir hendi til að gera kærða að sæta áfram gæsluvarðhaldi.
Verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu því tekin til greina eins og
nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki er tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu
skemmri tíma en krafist er.
Ingibjörg
Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði,
X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 12.
janúar 2015 kl. 16:00.