Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Greiðslustöðvun
- Ábyrgð
|
|
Miðvikudaginn 10. desember 2003. |
|
Nr. 446/2003. |
Ferskar afurðir ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Kaupþingi Búnaðarbanka hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Greiðslustöðvun. Ábyrgð.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa K hf. samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um að bú F ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var talið að einföld ábyrgð væri ekki nægileg trygging samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að koma í veg fyrir að krafa K hf. næði fram að ganga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 18. nóvember 2003 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Kemst krafa hans um málskostnað í héraði því ekki að fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði sóknaraðili 22. september 2003 eftir heimild Héraðsdóms Norðurlands vestra til greiðslustöðvunar. Með úrskurði næsta dag var sóknaraðila veitt sú heimild allt til 14. október 2003. Með úrskurði 21. sama mánaðar var beiðni sóknaraðila um áframhaldandi greiðslustöðvun hafnað. Í kjölfarið lagði varnaraðili fram kröfu í héraðsdómi 28. október 2003 um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Krafan var tekin fyrir á dómþingi 5. nóvember 2003. Vegna mótmæla sóknaraðila við kröfu varnaraðila var mál þetta þá þingfest í samræmi við 168. gr. laga nr. 21/1991. Lýstu báðir aðilar því yfir að ekki væri þörf á munnlegum málflutningi eftir framlagningu greinargerða. Var aðilum veittur frestur til 11. sama mánaðar til skila á greinargerðum og í því þinghaldi var málið tekið til úrskurðar án munnlegs málflutnings. Með hinum kærða úrskurði var krafa varnaraðila tekin til greina.
Í málinu ber sóknaraðili því við að eðlilegt hefði verið að flytja mál aðila munnlega fyrir héraðsdómi þrátt fyrir yfirlýsingu hans á dómþingi um hið gagnstæða. Við þá yfirlýsingu er sóknaraðili bundinn samkvæmt grunnreglu 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
II.
Krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta er byggð á því að sóknaraðili hafi haft heimild til greiðslustöðvunar sem hafi lokið innan mánaðar áður en krafa hans um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómara, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan verður fallist á með varnaraðila að sú aðstaða sem fram komi í lagaákvæðinu sé að þessu leyti fyrir hendi. Fyrir Hæstarétti heldur sóknaraðili meðal annars fram að varnaraðili geti ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi hans samkvæmt þessu ákvæði þar sem krafa varnaraðila vegna afurðarlánasamnings 8. október 2002 hafi verið nægilega tryggð, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Máli sínu til stuðnings vísar hann til yfirlýsingar Byggðastofnunar 9. október 2002 þar sem stofnunin tókst á hendur einfalda ábyrgð á fullum efndum á fyrrnefndum samningi.
Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að fullnægðum skilyrðum sem fram koma í einhverjum þeirra fjögurra töluliða sem ákvæðið hefur að geyma, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Frá þessari reglu laganna eru tvær undantekningar í 1. og 2. tölulið 3. mgr. sömu greinar. Samkvæmt fyrri töluliðnum, sem er sá liður sem sóknaraðili vísar til í máli þessu, getur lánardrottinn ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara ef krafa hans er nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns.
Eins og áður er getið heldur sóknaraðili því fram að einföld ábyrgð sé nægileg trygging samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að koma í veg fyrir að krafa varnaraðila nái fram að ganga. Óháð því hvort þessi málsástæða sóknaraðila sé nægilega snemma fram komin verður í ljósi eðlis þessarar tegundar ábyrgðar og aðstæðna að öðru leyti að hafna því að hún sé nægileg trygging í tilvikum sem þessu. Eins og rakið er í héraðsdómi hefur sóknaraðili, sem fékk heimild til greiðslustöðvunar, ekki sýnt fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Eru skilyrði ákvæðisins því uppfyllt til að taka megi kröfu varnaraðila til greina. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ferskar afurðir ehf., greiði varnaraðila, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 18 . nóvember 2003.
I
Mál þetta var tekið til úrskurðar 11. þessa mánaðar.
Sóknaraðili er Kaupþing Búnaðarbanki hf., Austurstræti 5, Reykjavík.
Varnaraðili er Ferskar afurðir ehf., Brekkugötu 4, Hvammstanga.
Dómkröfur
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
II
Í máli þessu er deilt um kröfu sóknaraðila þess efnis að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta en nokkur aðdragandi hefur verið að þessari kröfu. Með beiðni dagsettri 19. september sl. krafðist sóknaraðili kyrrsetningar á eignum varnaraðila fyrir kröfu að fjárhæð rúmlega 118.000.000 króna. Aðfarargerð þessi náði ekki fram að ganga og var frestað vegna þess að þann 23. september sl. fékk varnaraðili heimild til greiðslustöðvunar til 14. október sl. Þann dag var málefnið tekið fyrir á ný og óskaði varnaraðili eftir framlengingu greiðslustöðvunarinnar en sóknaraðili mótmælti framlengingu. Var þá rekið sérstakt mál um ágreininginn sem lauk með úrskurði dómsins þann 21. október sl. þess efnis að framlengingu greiðslustöðvunar varnaraðila var hafnað. Eftir að varnaraðili fékk ekki frekari greiðslustöðvun var nefndri kyrrsetningargerð fram haldið þann 24. október sl. og að kröfu sóknaraðila voru tilteknar eignir varnaraðila kyrrsettar. Varnaraðili vísaði kyrrsetningunni til dómsins og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi en þeirri kröfu var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 31. október sl. Þann sama dag gaf dómari út stefnu til staðfestingar kyrrsetningunni og stóð til að þingfesta það mál á sama tíma og kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila. Birting stefnunnar tókst hins vegar ekki í tíma og hefur hún því verið gefin út að nýju.
Auk þessara ágreiningsmála hefur varnaraðili krafist þess að árangurslaust fjárnám sem gert var hjá honum 27. október sl. verði fellt úr gildi. Þá hefur hann og gert kröfu um að þrjú tryggingarskjöl undirrituð af framkvæmdastjóra varnaraðila verði afmáð úr þinglýsingarbók sýslumannsins á Blönduósi.
Krafa sóknaraðila, dagsett 27. október sl., um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta barst dóminum 28. október sl. Í þinghaldi 5. þessa mánaðar var gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila þingfest. Þing var sótt af hálfu varnaraðila og skrifleg mótmæli lögð fram gegn kröfunni. Var ágreiningsmál þetta þá þegar þingfest sbr. ákvæði 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Aðilar voru sammála um að óska eftir fresti til að skila greinargerð. Af hálfu beggja aðila var því lýst yfir að þeir teldu ekki þörf á að málið yrði flutt munnlega eftir að greinargerðir þeirra væru fram komnar. Lögmaður varnaraðila lýsti því yfir að hann væri mjög upptekinn næstu daga á eftir vegna málflutnings og ákvað dómari að fresta málinu til 11. þessa mánaðar. Í boðuðu þinghaldi 11. þessa mánaðar lögðu aðilar fram greinargerðir sínar og að því búnu var málið tekið til úrskurðar.
III
Sóknaraðili byggir kröfu sína á 2. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og telur hann að ákvæði þessarar greinar heimili honum að krefjast þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili hafi haft heimild til greiðslustöðvunar sem hafi lokið 21. október sl. og krafa um gjaldþrotaskipti hafi borist héraðsdómara 28. október sl. Sóknaraðili kveðst vera lánadrottinn varnaraðila hvað sem líði hugmyndum varnaraðila um ógildingu afurðalánasamnings og veðsetningu kjötbirgða varnaraðila. Sóknaraðili hafi lánað varnaraðila fé bæði í formi afurðalána og yfirdráttarlána og þessi lán hafi verið gjaldfelld. Varnaraðili hafi dregið tilvist þessara lána í efa þó svo að í árshlutareikningi varnaraðila sjálfs er fylgdi beiðni hans um greiðslustöðvun hafi hann tiltekið bæði þessi lán. Auk þess hafi varnaraðili í mörg önnur tækifæri tjáð sig um það hvernig lánaviðskipti hans og sóknaraðila hafi gengið. Varnaraðili hafi meira að segja lagt fram yfirlit úr eigin bókhaldi um hreyfingar á tékkareikningi nr. 115 í útibúi sóknaraðila í Búðardal þar sem m.a. koma fram margar afborganir af afurðaláni og því augljóst að lánið var veitt. Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa lagt fram yfirlit yfir stöðu afurðarláns varnaraðila hjá sér svo og stöðu yfirdráttar á nefndum reiningi nr. 115. Því sé augljóst að varnaraðili skuldi sóknaraðila fé og þær skuldir hafi verið gjaldfelldar. Þetta leiði til þess að skilyrði 2. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. séu uppfyllt.
Sóknaraðili kveðst eingöngu hafa vísað í hið árangurslausa fjárnám, sem varnaraðili hafi gert ágreining um og skotið til héraðsdóms, kröfu sinni til frekari stuðnings. Þó telur sóknaraðili að hann geti einnig byggt kröfu sína á þessu fjárnámi þó svo ágreiningsmál sé í gangi um það enda kveði lög nr. 90/1989 ekki á um það að réttaráhrif fjárnáms frestist við það að fjárnámið sé borið undir héraðsdóm. Þvert á móti geri lögin ráð fyrir að málsskot úrskurða héraðsdóms fresti ekki fullnustugerðum nema þess sé getið í úrskurðinum sjálfum.
Sóknaraðili telur einnig að forsvarsmönnum varnaraðila hafi lengi verið skylt að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi varnaraðila sbr. ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að óþarft sé að fjalla um þá málsástæðu varnaraðila er varða skuldbindingargildi afurðalánssamnings og tryggingabréfs og þeim vísað á bug. Telur sóknaraðili að skiptastjóri muni taka á þessum ágreiningi ef til hans komi og þá bendir hann á það sem að framan er rakið um þessi bréf.
Sóknaraðili telur augljóst að hann eigi peningakröfur á hendur varnaraðila enda hafi gögn þar um verið lögð fram í málinu bæði er varðar tilvist krafnanna og fjárhæðir þeirra. Augljóst sé að varnaraðili sé kominn í þá stöðu að gjaldþrot sé óumflýjanlegt, rekstrinum hafi verið hætt, skuldir umfram eignir tæplega 147.000.000 króna. Þann 21. október sl. hafi verðmæti kjötbirgða reynst 22.000.000 króna samkvæmt talningu sem sóknaraðili hafi látið fara fram í kjölfar kyrrsetningar á birgðunum. Sóknaraðili kveðst ekki hafa fundið neina eðlilega skýringu á þessari miklu og öru lækkun birgða varnaraðila. Telur sóknaraðili að allt það sem að framan er rakið leiði til þess að taka beri kröfu hans til greina.
IV
Varnaraðili heldur því fram að atvik þessa máls megi rekja til afurðalánasamnings sem gerður var 8. október 2002. Telur varnaraðili að samningurinn sé ekki skuldbindandi fyrir sig af ástæðum sem raktar verða hér á eftir.
Varnaraðili bendir á að í nefndum afurðalánasamningi séu ákvæði þess efnis að gjalddagi samnings sé ákveðinn þannig; ,,Lán sem veitt hefur verið út á birgðir gjaldfellur þann 25. næsta mánaðar eftir að sala á sér stað.” Heldur varnaraðili því fram að allar greiðslur vegna sölu á birgðum sínum hafi farið inn á reikning nr. 115 í útibúi sóknaraðila í Búðardal. Sóknaraðili hafi haft umráð þessa reiknings og skammtað fé af honum til varnaraðila. Því telur varnaraðili óljóst hversu mikið fé hann átti að fá vegna framkvæmdar samningsins samkvæmt því veðhlutfalli en sóknaraðili hafi ekki upplýst hvert veðhlutfallið átti að vera. Hann hafi einungis sagt það vera samkvæmt reglum bankans án þess að þær reglur hafi verið lagðar fram. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að velta á reikningi nr.115 hafi frá ársbyrjun til 15. október sl. verið 244.158.683 krónur. Greiðslur á afurðaláni til sóknaraðila hafi á þessum tíma numið 164.782.630 krónum. Nýtt afurðalán að fjárhæð 59.291.640 krónur sé inni í veltutölum. Varnaraðili hafi einungis fengið 48.125.630 krónur til ráðstöfunar. Varnaraðili kveðst ekki vita hvaða ástæður séu að baki því að sóknaraðili ráði alfarið yfir þessum reikningi og taki fé af honum til greiðslu á afurðaláninu. Slíkt sé algerlaga óviðunandi enda hafi það leitt til þess að honum sé ekki gerlegt að standa skil á virðisaukaskatti af reikningum sem hann hafi sent út. Sóknaraðili hafi haldið virðisaukaskattinum hjá sér og því geti varnaraðili ekki skilað honum og af þeim sökum hafi hann afskrifað reikningana og tilkynnt skattstjóra um það. Auk þessa hafi útibú sóknaraðila í Búðardal til varðveislu ógreidda reikninga í eigu varnaraðila sem í lok september sl. hafi numið 18-20 millljónum króna. Til viðbótar þessu kveðst varnaraðili eiga óinnheimta reikninga sem ekki hafi fengist greiddir vegna yfirlýsinga sóknaraðila um að hann eigi veðrétt í reikningunum.
Varnaraðili vísar til sömu gagna og lögð voru fram þegar beiðni hans um greiðslustöðvun var til umfjöllunar fyrir dóminum. Leggur hann áherslu á að sala afurða hafi verið frekar dræm fram í maí 2003 en eftir að gerðir voru sölusamningar við stórar verslunarkeðjur hafi sala aukist verulega. Sóknaraðili hafi hins vegar strax í júlí byrjað að taka meira til sín af andvirði vörunnar og umfram það veðhlutfall sem varnaraðili taldi að í gildi væri. Vegna þessa hafi rekstur varnaraðila lent í erfiðleikum enda fylgi meiri framleiðslu aukinn kostnaður sem ekki hafi reynst unnt að greiða.
Varnaraðili byggir kröfur sínar á því hann hafi krafist ógildingar á árangurslausu fjárnámi sem gert var hjá honum 27. október sl. Sóknaraðili geti ekki byggt kröfu um gjaldþrotaskipti á fjárnámi sem er umdeilt og til meðferðar hjá dómstólum. Byggir varnaraðili á því að krafa hans um ógildingu fjárnámsins hafi borist dóminum á undan kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti og því beri að leysa úr þeim ágreiningi á undan kröfu sóknaraðila. Einnig bendi hann á að í endurriti fjárnámsins komi fram að það hafi verið gert á Blönduósi kl. 12:45 en á þeim tíma hafi fulltrúi sýslumannsins á Blönduósi sem framkvæmdi fjárnámið verið á Hvammstanga eins og fram komi í kyrrsetningarbók embættisins. Því sé ljóst að fjárnámsendurritið sé falsað að því leyti að fjarnámið hafi farið fram þann 27. október 2003, kl. 12:45 að sýsluskrifstofunni, Blönduósi. Varnaraðili kveður hið rétta vera að sýslufulltrúinn hafi þvingað framkvæmdastjóra varnaraðila til fjárnámsgerðarinnar á Hvammstanga. Engin boðun hafi átt sér stað eða önnur aðvörun. Varnaraðili bendir á að fjárnámið hafi átt að tryggja greiðslu á virðisaukaskatti sem hann hafi aldrei fengið í hendur eins og áður er rakið og þar með hafi hann ekki haft vald á meðferð útgefinna reikninga. Einnig telur hann að honum sé heimilt sbr. 4. mgr. 13. gr laga um virðisaukaskatt að fresta uppgjöri á skattinum þar til uppgjör hafi farið fram á milli aðila máls þessa á grundvelli afurðalánasamningsins. Þá heldur varnaraðili því fram að krafa sóknaraðila sé niður fallin þar sem hann hafi ekki fylgt kyrrsetningu sinni eftir með málssókn og krafa hans samkvæmt afurðarlánasamningnum því ekki staðfest. Afurðalánasamningurinn hafi í raun ekki neitt veðgildi. Verðfelling sóknaraðila á birgðum varnaraðila hafi því verið löglaus með öllu.
Varnaraðili byggir einnig á því að skuldbindingargildi tryggingabréfsins og afurðalánasamningsins frá 8. október 2002 sé vafasamt bæði varðandi kröfufjárhæðir og veðgildi. Veðsamningurinn hafi verið svo viðamikill að hann falli ekki undir hefðbundin störf framkvæmdastjóra sem einn hafi undirritað hann án samráðs við aðra stjórnarmenn og það sama eigi við um tryggingabréfið sem sóknaraðili byggir á. Heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili hafi átt að vita, vegna varúðarskyldu sem á bankamönnum hvílir, að ekki væri heimilt að skuldbinda varnaraðila með undirskrift einungis eins stjórnarmanns. Í samþykktum varnaraðila komi fram að meirihluta stjórnar þurfi til að skuldbinda félagið þegar stjórn þess er fjölskipuð. Í þessu sambandi vísar varnaraðili til ákvæða laga um einkahlutafélög einkum 2. mgr. 44. gr. Þá bendir varnaraðili á að samningi þessum hafi ekki verið þinglýst og því hafi veðsamningurinn sem felist í afurðalánasamningnum ekkert gildi.
Varnaraðili byggir einnig á því að sóknaraðili geti ekki byggt rétt á tryggingarbréfi frá 16. október 2001 með þeim hætti sem gert er. Samkvæmt grundvallarreglum kröfuréttarins um tryggingarbréf verði þau að hafa gilda kröfu eða skuldbindingu á bak við sig til að verða virk.
Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á hvernig afurðalánssamningurinn hafi verið framkvæmdur. Þannig vanti upplýsingar um upphaf samningsins. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á hvernig 164.782.630 krónum sem sannanlega hafi verið greiddar bankanum hafi verið varið upp í skuldir varnaraðila. Telur varnaraðili nauðsynlegt að upplýsingar um þetta liggi fyrir áður en úrskurðað er í málinu. Einnig vanti upplýsingar um það hvaða fjárhæðir sóknaraðili hafi greitt til varnaraðila í formi láns og síðan hvað hafi verið greitt inn á samninginn. Sóknaraðili hafi einungis fullyrt hver skuld varnaraðila hafi verið á hverjum tíma án nokkurs rökstuðnings.
Loks bendir varnaraðili á að samkvæmt 168. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., skuli hlutaðeigandi lánadrottinn vera sóknaraðili og skuldari varnaraðili. Meðferð málsins fari að öðru leyti eftir 3. mgr. 166. gr. sömu laga nema að fresti megi veita í allt að tvær vikur. Á síðasta dómþingi hafi varnaraðili beðið um frest en ekki fengið hann nema til 11. nóvember sem sé vitanlega mjög skammur frestur. Þá tekur varnaraðili fram í sinni greinargerð að hann hafi ekki séð greinargerð sóknaraðila og viti því ekki hvort hann hafi orðið við áskorunum sem til hans var beint í mótmælum við gjaldþrotaskiptum. Telur varnaraðili því að rétt sé að flytja mál þetta munnlega þrátt fyrir bókun um annað í þinghaldi 5. nóvember sl.
V
Varnaraðili gerir í greinargerð ekki nokkra grein fyrir aðalkröfu sinni þess efnis að málinu skuli vísað frá dómi. Vegna þessa og þar sem ekki ber að vísa málinu frá dómi án kröfu er kröfu varnaraðila um frávísun þess hafnað án þess að munnlegur flutningur fari fram.
Að framan er rakið að sóknaraðili byggir kröfu sína á 2. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skilyrði þeirrar greinar eru uppfyllt hvað tíma varðar en varnaraðili hafði heimild til greiðslustöðvunar sem lauk þann 21. október sl. Sóknaraðili krafðist þann sama dag gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila en þeirri kröfu var hafnað vegna formgalla degi síðar. Sóknaraðili setti þá fram kröfu að nýju og barst hún dóminum 28. október sl.
Af hálfu varnaraðila er m.a. á því byggt að framkvæmdastjóri hans, Hjalti Jósefsson, hafi ekki haft heimild til að undirrita afurðalánssamning og tryggingabréf líkt og hann gerði þar sem samningar þessir hafi verið svo viðamiklir að þeir væru utan heimilda framkvæmdastjóra og meirihluti stjórnarmanna hafi þurft að undirrita þá. Verður að skilja þessa málsástæðu þannig að á því sé byggt að samningarnir séu ekki skuldbindandi fyrir varnaraðila. Í 16. gr. samþykkta varnaraðila kemur fram að þegar stjórn félagsins er fjölskipuð skuldbindi undirskriftir meirihluta stjórnar félagið. Í þessari sömu grein segir að afl atkvæða ráði úrslitum við afgreiðslu og ef atkvæði verði jöfn ráði atkvæði formanns úrslitum. Samkvæmt framlögðu vottorði Hlutafélagaskrár er stjórn varnaraðila skipuð tveimur mönnum og einum til vara. Af þessu sama vottorði má ráða að svo háttar til hjá varnaraðila að nefndur Hjalti Jósefsson er ekki einungis framkvæmdastjóri heldur einnig stjórnarformaður í tveggja manna stjórn og ræður atkvæði hans samkvæmt nefndri 16. gr. samþykkta varnaraðila úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Verður að telja að hann hafi þannig haft heimild til að skuldbinda félagið líkt og hann gerði.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á með skýrum hætti hvaða fjárhæð hann telji sig eiga inni hjá varnaraðila. Undir rekstri málsins hafa verið lögð fram nokkur yfirlit um stöðu á kröfum aðila. Þegar varnaraðili óskaði eftir framlengingu greiðslustöðvunar lagði hann fram yfirlit um eignir sínar og skuldir miðað við 23. september sl. og hefur þetta yfirlit verið lagt fram í þessu máli af sóknaraðila. Í yfirlitinu kemur m.a. fram að gjaldfallin afurðalán nemi 113.296.855 krónum og að yfirdráttur á bankareikningi nemi 15.298.923 krónum sem er sama krónutala og kemur fram í útprentun af stöðu reikningsins nr. 151 sem sóknaraðili lagði fram. Varnaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn um það að hann hafi greitt þessar fjárhæðir til sóknaraðila. Hann hefur í raun ekki lagt fram nein gögn sem benda til þess að viðurkenndar skuldir hans við sóknaraðila hafi lækkað frá því sem hann sjálfur sagði þær vera þann 23. september sl. Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að sóknaraðili hefi tekið til sín meira af innheimtum reikningum en honum var heimilt með því að afhenda ekki varnaraðila andvirði virðisaukaskatts Þó svo fallist yrði á þetta með varnaraðila leiddi það eingöngu til þess að skuldir hans við sóknaraðila hækkuðu sem þessu nemur en skuldir hans við innheimtumann ríkissjóðs myndu þá lækka að sama skapi. Af því sem hér er rakið verður ekki annað ráðið en að varnaraðili skuldi sóknaraðila verulegar fjárhæðir.
Varnaraðili byggir einnig á því að árangurslaust fjárnám sem hjá honum var gert og áður er getið geti ekki verið grundvöllur gjaldþrotaskipta. Er varðandi þá málsástæðu á því byggt að varnaraðili hafi aldrei fengið virðisaukaskatt þann sem að er ástæða fjárnámsins í hendur þar sem sóknaraðili hafi ekki skilað honum. Ekki þykir ástæða til að skera úr því hér hvort sóknaraðili hafi ranglega haldið andvirði virðisaukaskatts fyrir varnaraðila. Sóknaraðili byggir kröfu sína ekki á hinu árangurslausa fjárnámi þó svo hann vísi til þess kröfu sinni til stuðnings. Hann byggir kröfu sína á 2. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að dóminum hafi borið að leysa fyrst úr kröfu hans um ógildingu árangurslausa fjárnámsins sem áður er getið og sérstaklega skorað á dómarann að gera gein fyrir ástæðum þess að það var ekki gert. Krafa sú sem hér er til úrlausnar og nefnd krafa varnaraðila bárust dóminum sama dag og gjald vegna þeirra einnig. Gögn þau sem samkvæmt 3. mgr. 93. gr. laga um aðför nr. 90/1989 áttu að fylgja kröfunni bárust dóminum ekki fyrr en 11. þessa mánaðar, frá sýslumanninum á Blönduósi en ekki varnaraðila, og þess vegna var ekki unnt að taka málið fyrir.
Í þinghaldi þann 5. nóvember sl. sem lögmaður varnaraðila sótti sjálfur var bókað að lögmenn aðila teldu ekki þörf á að flytja mál þetta munnlega eftir að greinargerðir þeirra væru lagðar fram. Í greinargerð varnaraðila kemur hins vegar fram að hann telji eðlilegt að málið yrði flutt munnlega. Í boðuðu þinghaldi þann 11. þessa mánaðar var þing sótt af hálfu beggja aðila en því ekki hreyft að rétt væri að flytja málið munnlega og var það því tekið til úrskurðar eins og til stóð. Með hliðsjón af yfirlýsingum aðila í þinghaldinu 5. nóvember sl. og því að málið var athugasemdalaust tekið til úrskurðar 11. þessa mánaðar þykir ekki ástæða til að endurupptaka málið í þeim tilgangi að munnlegur flutningur fari fram.
Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum eða gert sennilegt að hann verði fær um það innan skamms sbr. ákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Með hliðsjón af því og með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður krafa sóknaraðila tekin til greina Sóknaraðili hefur ekki gert kröfu um málskostnað og dæmist hann því ekki.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Bú Ferskra afurða ehf., kt. 5905000-2590, Brekkugötu 4, Hvammstanga er tekið til gjaldþrotaskipta.