Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-203

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Magnúsi Ólafi Garðarssyni (Haukur Örn Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Bifreið
  • Ökuhraði
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Skaðabætur
  • Upptaka
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 22. maí 2019 leitar Magnús Ólafur Garðarsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. apríl sama ár í málinu nr. 230/2018: Ákæruvaldið gegn Magnúsi Ólafi Garðarssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur eins og í héraði fyrir brot gegn nánar tilteknum ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987 og almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ekið bifreið sinni yfir leyfilegum hámarkshraða á Reykjanesbraut og valdið árekstri við aðra bifreið með þeim afleiðingum að ökumaður hennar hafi orðið fyrir líkamstjóni. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var hann sviptur ökurétti í tólf mánuði og gert að greiða ökumanni hinnar bifreiðarinnar skaðabætur. Einnig var bifreið leyfisbeiðanda gerð upptæk á grundvelli 1. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga, en héraðsdómur hafði hafnað kröfu ákæruvaldsins um það.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem sönnunargildi gagna í málinu hafi ekki verið rétt metið. Þá telur hann að skilyrði 1. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga séu ekki uppfyllt í málinu. Leyfisbeiðandi vísar til þess að niðurstaða Landsréttar hafi verið reist á gögnum úr ökurita bifreiðarinnar sem aflað hafi verið frá framleiðanda hennar með ólögmætum hætti, auk þess sem starfsmaður framleiðandans hafi neitað að gefa skýrslu fyrir héraðsdómi. Að þessu leyti hafi meðferð málsins fyrir dómi verið ábótavant. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að það hafi verulegt almennt gildi að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort heimilt sé að byggja á gögnum úr ökurita bifreiðar við sönnun á ökuhraða hennar.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.