Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2012


Lykilorð

  • Kynferðisbrot


                                     

Fimmtudaginn 4. október 2012.

Nr. 259/2012.

 

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Jón Magnússon hrl.)

 

Kynferðisbrot.

X var ákærður fyrir brot gegn 2 mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft við A kynferðismök gegn vilja hennar og notfæra sér að hún gat ekki spornað við þeim sökum ölvunar og svefndrunga. X var sýknaður af ákæru þar sem ákæruvaldinu tókst ekki að færa sönnur á sekt hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. mars 2012 af hálfu ákæruvaldsins og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing, en til vara að að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að refsing verði ákveðin svo væg sem heimilt sé.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 1. mars  2012.

                Mál þetta sem dómtekið var 3. f.m. er höfðað með ákæru útgefinni 30. september 2011 á hendur X, kt. [...], [...],[...], fyrir nauðgun, með því að hafa föstudaginn 24. desember 2010, á skemmtistaðnum [...],[...],[...], strokið kynfæri A, kennitala [...], og sett fingur ítrekað í leggöng hennar, allt gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum ölvunar og svefndrunga.

                Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. 

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

                Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 2.500.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. desember 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.

                Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið eða honum dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Þá hefur hann krafist þess að bótakröfu verði vísað frá dómi.

I.

Ákærði var handtekinn á heimili foreldra sinna að [...] í [...] klukkan 19:21 að kvöldi aðfangadags 2010 vegna gruns um að hann hefði fyrr um daginn gerst sekur um kynferðisbrot gagnvart A á veitingastaðnum [...] í [...] sem hann þá rak. Hafði lögreglu borist um það tilkynning tæpum tveimur klukkustundum áður frá föður A að hún teldi að ákærði hefði brotið gegn henni á veitingastaðnum, en bróðir hennar hafði þá skömmu áður sótt hana þangað. Í skýrslu sem tekin var af brotaþola að morgni jóladags skýrði hún svo frá að hún hafi verið að skemmta sér á veitingastaðnum um nóttina. Hún hafi vaknað um klukkan 17 á aðfangadag og þá legið á dýnu á gólfi veitingastaðarins. Hún hafi verið nakin að neðan. Hún hafi verið aum í aftanverðum mjöðmum og á mjaðmarsvæði og fundið til í leggöngum. Í ljósi þessa hafi hún strax gert sér grein fyrir því að einhver hefði haft við hana samfarir á meðan hún var sofandi. Hún hafi séð ákærða þar sem hann stóð við bar veitingastaðarins. Hann hafi verið alsnakinn og með reistan og harðan getnaðarlim. Aðrir hafi ekki verið þarna staddir. Við skýrslugjöf hjá lögreglu stuttu eftir að ákærði var handtekinn skýrði hann svo frá að hann og brotaþoli hefðu átt kynferðisleg samskipti á veitingastaðnum hinn umrædda dag. Þau hefðu legið á dýnu á gólfinu og látið vel hvort að öðru. Hún hafi strokið getnaðarlim hans og hann nuddað kynfæri hennar. Hann neitaði því á hinn bóginn alfarið að hafa haft samræði við brotaþola og sagði að framangreind atlot þeirra hefðu aðeins staðið yfir í eina til tvær mínútur. Þegar veitingastaðnum var lokað um nóttina hefðu fjórir gestir orðið eftir, brotaþoli, vinkona hennar og tveir strákar. Kvaðst ákærði hafa verið orðinn mjög ölvaður þegar hér var komið sögu. Vinkona brotaþola hafi reynt að fá hana með sér þegar hún yfirgaf veitingastaðinn, en brotaþoli ekki viljað það. Hún hafi þá verið orðin mjög ölvuð, en þó ekki rænulaus. Kvaðst ákærði hafa sótt dýnu og lagt brotaþola á hana. Hún hafi áður legið á sófa þarna rétt hjá og hann stutt hana að dýnunni og lagt hana til á henni. Hann hafi þessu næst farið og sótt sæng og kodda á annan stað í húsinu, en þegar hann kom til baka hafi brotaþoli verið búinn að klæða sig úr buxunum. Hann hafi afklætt sig og lagst nakinn á dýnuna við hlið brotaþola. Þau hefðu síðan vaknað um klukkan 17 á aðfangadag og hefðu þau kynferðislegu samskipti þeirra, sem að framan er lýst, þá átt sér stað. Þegar frásögn ákærða af kynferðislegum samskiptum hans og brotaþola var borin undir hana kannaðist hún ekki við að þetta hafi gerst. Eftir að hún vaknaði hafi ákærði ekkert átt við hana og hún hafi ekki snert hann. Við skýrslutöku hjá lögreglu, sem hófst klukkan 16:20 á jóladag, lýsti ákærði kynferðislegum samskiptum sínum og brotaþola í umrætt sinn á þann veg að hann hafi nuddað kynfæri hennar með einum fingri, löngutöng, og sett „síðan fyrstu kjúku aðeins inn í kynfærin, aðeins upp fyrir nögl“. Hann hafi farið „smá inn og svo gerði smá hreyfingar þar og svo út aftur kannski tvisvar ekki neitt djúpt eða svoleiðis“. Hún hafi fróað honum á meðan og strokið punginn á honum. Ekki hafi farið á milli mála að hún hafi verið „alveg með í þessu“. Þegar hún hafi gert sér grein fyrir því að jólin voru á næsta leiti hafi hún viljað hætta og þá hafi þessu lokið. Vert er að hafa í huga í þessu sambandi að í lögregluskýrslu sem rituð var um framburð ákærða við skýrslutöku af honum á jóladag er haft eftir honum að hann hafi stungið löngutöng inn í leggögnin á brotaþola svo nam við fyrstu kjúku á fingrinum og viðhaft hreyfingar þar, „[tekið] fingurinn út og [gert] þetta svo aftur“. Skýrslan er undirrituð af ákærða.  Þá er þess að geta að fram kom hjá ákærða að hann hafi fundið nærbuxur brotaþola þegar hún var búin að klæða sig í gallabuxur og rétt henni þær en síðan lagt þær á barstól við hlið hennar. 

Af frásögnum vitna hjá lögreglu má ráða að um klukkan 7 að morgni aðfangadags hafi a.m.k. fjórir gestir verið eftir á staðnum ásamt ákærða, í öllu falli brotaþoli, B, C og D, og að þau hafi haldið þar til fram undir hádegi, en brotaþoli þá ein orðið eftir ásamt ákærða. Samkvæmt framburði B við skýrslutöku hjá lögreglu reyndu hann og C að fá brotaþola til að koma með sér þegar þeir yfirgáfu staðinn í kringum hádegið, en gáfust upp á því.  Brotaþoli hafi verið orðin mjög drukkin, verið með vesen og alveg við það að sofna. Kvað hann ákærða hafa reynt við brotaþola inni á staðnum, tekið utan um hana og „þannig“. Þá skýrði B svo frá að hann hafi sjálfur kysst brotaþola fyrr um kvöldið. Brotaþoli hafi verið á brjóstahaldaranum og að hann hafi strokið henni um brjóstin innan og utan yfir brjóstahaldarann, en ekki gengið lengra í þessum samskiptum þeirra. Þá hefðu brotaþoli og D einnig verið að kyssast og verið grófari hvor við aðra. Í vitnisburði C kemur meðal annars fram á þá er hann yfirgaf staðinn hafi brotaþoli verið orðinn mjög drukkinn.  Hún hafi verið við það að sofna, en þó verið með meðvitund allt þar til rétt áður en þau voru að fara heim. Þá var eins og hún gæfist upp og hafi ekki vitað hvar dótið sitt væri. Hún hafi sest í sófa við fatahengið. Þá lýsir vitnið tilraunum sínum og B til að fá brotaþola til að koma með sér, en þær tilraunir hefðu ekki borið árangur. Varðandi atlot B og brotaþola er haft eftir C að B hafa tjáð honum að hann hafi ekki viljað neitt meira þar sem brotaþoli hafi verið svo drukkin. Vitnið D bar hjá lögreglu að ákærði hafi verið búinn reyna við þær allar stelpurnar, en aðallega brotaþola og E. Svo hafi ákærði farið að gráta þar sem hann hafi verið búinn að gefa þeim áfengi en ekkert fengið í staðinn. Kvaðst hún hafa yfirgefið staðinn um hádegi í leigubíl. Hún hafi reynt að fá brotaþola með sér, en brotaþoli hafi eiginlega verið dauð upp í sófa. Því hafi hún farið af staðnum og skilið brotaþola eftir. Ákærði hafi reyndar alltaf verið að toga sig frá brotaþola þannig að hún hafi ekki getað vakið brotaþola. Hann hafi sagt sér að skilja brotaþola bara eftir því hann væri „bara einn á jólunum eða eitthvað“. Hún kvaðst hafa mótmælt, en ákærði hafi haldið áfram að toga í sig. Þannig hafi þetta gengið í smástund þar til hún hafi farið.

Fyrir liggur í gögnum málsins skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun sem A gekkst undir á neyðarmóttöku Landspítala, en hún hafi komið þangað 24. desember 2010 kl. 19. Í þeim kafla skýrslunnar sem ber fyrirsögnina „frásögn sjúklings“ er skráð eftir brotaþola að hún hafi vaknað á dýnu á gólfi veitingastaðarins og að enginn hafi verið þarna inn nema hún og pilturinn sem rekur staðinn. Hún hafi verið ber að neðan, en hann hafi gengið þarna um nakinn. Hún hafi ekkert vitað hvað var að gerast og ekkert vitað af sér frá því klukkan fjögur um nóttina. Þá var skráð eftir henni að hún hefði á tilfinningunni að höfð hefðu verið við hana mök. Um niðurstöður skoðunar á brotaþola, sem framkvæmd var af Arnari Haukssyni lækni, segir meðal annars í skýrslunni að hún hafi verið aum yfir mjöðmum aftur að rasskinn.  

Samkvæmt gögnum málsins var tekið blóðsýni úr brotaþola um kl. 20 að kvöldi aðfangadags og hún lét í té þvagsýni á sama tíma. Samkvæmt matsgerð rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði reyndist magn alkóhóls í blóði hennar vera 1,56 ‰, en 2,38 ‰ í þvagi. Í matsgerðinni segir meðal annars svo um þessar niðurstöður: „Styrkur alkóhóls í blóði er hár og bendir til talsverðrar ölvunar. Hlutfall alkóhóls í blóði og þvagi bendir til þess að styrkur alkóhóls í blóði hafi verið fallandi þegar blóðsýnið var tekið. Styrkur alkóhóls í þvagi bendir til þess að styrkur alkóhóls í blóði hafi verið a.m.k. 1,9 ‰ fáeinum klukkustundum áður en sýnin voru tekin. Í matinu er gengið út frá því að blóð- og þvagsýni hafi verið tekin á svipuðum tíma.“ Þá kemur fram í matsgerðinni að í þvagsýni hafi fundist amfetamín, fluoxetín og kókaín. Í blóði hafi mælst fluoxetín og norfluoxetín. Um þetta segir svo í matsgerðinni: „Amfetamín og kókaín í þvagi en ekki í blóði bendir til þess að hlutaðeigandi hafi neytt efnanna en ekki verið lengur undir áhrifum þeirra þegar blóðsýnin voru tekin. Styrkur fluoxetíns og umbrotsefnisins norfluoxetíns er innan lækningalegra marka.“

Á meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla sem rituð var um vettvangsrannsókn lögreglu. Í henni kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi skýrt frá því að nærbuxur hennar hefðu orðið eftir á veitingastaðnum. Lögregla hafi fundið nærbuxur sem svöruðu til lýsingar hennar í geymsluherbergi við eldhús veitingastaðarins. Hafi nærbuxurnar legið í horni herbergisins við hurðargatið. Er sú ályktun dregin af þessu í skýrslunni að þeim hafi verið kastað inn í herbergið um leið og gengið var framhjá því úr sal veitingastaðarins og inn í eldhúsið.  

                Í málinu hefur verið lagt fram vottorð dr. Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings, dags. 26. júní 2011, þar sem fram kemur að A hafi komið í tíu viðtöl til hennar á tímabilinu 3. janúar til 23. júní 2011, en að auki hafi þær rætt saman 27. desember 2010. Hafi A verið vísað til hennar í sálfræðilegt mat og áfallahjálp hjá sálfræðiþjónustu neyðarmóttöku á Landspítalanum 24. desember 2010 vegna kynferðisbrots sem á að hafa átt sér stað þann sama dag. Í niðurlagskafla vottorðs, sem ber yfirskriftina „samantekt“, kemur fram að A hafi verið veittur sálrænn stuðningur og hugræn atferlismeðferð við einkennum áfallastreituröskunar og öðrum afleiðingum kynferðisbrots. Þessu næst segir svo: „Endurtekið greiningarmat hefur verið gert á afleiðingum meints kynferðisbrots á tímabilinu. Allt viðmót A bendir til þess að hún hafi upplifað mikinn ótta, bjargarleysi og lífshættu í kjölfar meints kynferðisbrots. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýna að A þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots. Auk þess þjáist A af alvarlegu þunglyndi og átröskun. A þjáist af þessum geðvanda fyrir meint kynferðisbrot en einkenni hennar versnuðu í kjölfar meints kynferðisbrots. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þykir ljóst að atburðurinn hefur haft víðtæk og langvarandi áhrif á hana. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.“

II.

                Í framburði ákærða fyrir dóminum kom fram að hann hafi þekkt brotaþola lítillega og einu sinni talað við hana í samkvæmi fyrir einu og hálfu ári og nokkrum sinnum séð hana sem viðskiptavin á veitingastaðnum sem hann rak. Umrætt kvöld hafi hann ætlað að vera viðskiptavinur og drukkið með gestunum sem voru eitthvað á milli 20 og 30. Kvaðst hann ekkert hafa talað við brotaþola svo hann muni vegna þess hve drukkinn hann var. Ákærði kveðst þó muna eftir því að einhvertíma um nóttina hafi brotaþoli verið með stúlku sem hét D og þær verið að kela og þukla hvor aðra auk þess sem brotaþoli var að kela við strák sem hét B í sófa sem þarna var. Eftir að ákærði hafi fylgt D út og læst fann hann ákærðu dauðadrukkna í sófa inni á staðnum en allir aðrir voru farnir. Kvaðst hann hafa farið og sótt dýnu sem hann lagði við hliðina á sófanum og minnir hann að brotaþoli hafi dottið niður á dýnuna eftir að hann hafði stutt hana lítillega. Sagðist ákærði hafa sótt dýnuna til þess að betur færi um brotaþola. Hann sótti síðan sæng sem hann breiddi yfir hana en sjálfur hafi hann lagst til svefns á dýnukantinum eftir að hafa farið úr öllum fötunum. Ekki man ákærði eftir því að þau hafi neitt talað saman áður en hann sofnaði en hann muni þó að brotaþoli var enn í leðurjakka og hafði farið úr gallabuxum sem hún var í en annað muni hann ekki um klæðaburð þegar hann breiddi yfir hana sæng sem hann átti og fullyrðir að hann hafi ekki klætt hana úr neinu. Sagði ákærði að hann hafi verið vanur að sofa í rúmi sem væri í kompu fyrir innan en hann hefði ekki haft sig þangað sökum svima og ölvunar. Lýsti ákærði því að þegar hann vaknaði hafi brotaþoli fitlað við kynfæri hans sem varð til þess að honum fór að rísa hold og hún þá tekið að fróa honum og þau farið að kyssa hvort annað. Í framhaldinu hafi hann farið að strjúka kynfærin á brotaþola og sett fremsta hlutann af löngutöng inn í kynfæri hennar sem hún hafi látið sér vel líka og fróað honum áfram og gefið frá sér ánægjuhljóð. Fyrir dóminum kannast ákærði ekki við að hafa sett fingurinn inn í leggöng brotaþola, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Þá sagði ákærði að hann reki ekki minni til þess að brotaþoli hafi sýnt honum áhuga áður en þetta gerðist. Þegar ákærði áttaði sig á því að klukkan var farin að ganga sex og að það var aðfangadagur og hann átt að mæta í jólaboð til foreldra sinna eftir klukkustund í [...] þá hafi hann staðið á fætur. Sagði ákærði að brotaþola hafi brugðið mjög þegar hún áttaði sig og hann hafi hringt fyrir hana heim til hennar og á meðan hún talaði í símann hafi hann farið að finna jólafötin. Skömmu síðar hafi bróðir hennar komið að sækja hana og þau öll farið út af veitingastaðnum.

III.

                Verður nú rakinn framburður vitna eftir því sem þurfa þykir.

                Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, sagði í vitnisburði sínum að hún, vinkona hennar og vinur komu á veitingastaðinn [...] um kl. tvö til þrjú umrædda nótt og þá hafi ákærði afgreitt hana á barnum með tvö hvítvínsglös o.fl. Kveðst brotaþoli upp úr þessu verið orðin mikið drukkin og skrýtin og ekki muna neitt meir. Kvaðst hún ekki muna eftir því að hafa verið að kyssa D vinkonu sína sem með henni var og B vin sinn en henni var sagt að svo hefði verið. Þegar hún vaknaði fannst henni að haft hafi verið við hana samræði, hún hafi verið ber að neðan liggjandi á dýnu og ákærði á gangi með standpínu. Sagði brotaþoli að hún hefði fundið til í leggöngum eins og eftir kynlíf þegar hún vaknaði hrædd og ringluð. Hún kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hafi strokið henni eða hún honum. Í framhaldinu hafi bróðir hennar sótt hana eftir að hún hafði fengið að hringja og síðan hafi leiðin legið á neyðarmóttökuna eftir að hafa sagt móður sinni og föður sem var. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa verið mikið drukkin þegar hún kom á veitingastaðinn en það breyttist fljótlega til hins verra og endað með óminni. Kvaðst brotaþoli ekki muna eftir neinu eftir það fyrr en hún vaknaði eins og áður segir. Sagði brotaþoli að samskipti hennar við B hafi ekki gengið það langt svo hún muni að það gæti skýrt særindi hennar í leggöngum.

                Vitnið B kannast við að hafa verið á skemmtistaðnum [...] umrætt kvöld ásamt brotaþola og kunningja sínum sem heitir C. Sagðist vitnið muna mjög óljóst eftir þessu samkvæmi en man þó að brotaþoli hefði verið vel drukkin og ekki viljað fara með þeim félögunum og orðið eftir á staðnum þegar þeir fóru þegar komið var undir hádegi. Sagði vitnið að brotaþoli hafi verið á tali og eitthvað að rífast við D í sófa í anddyrinu þegar þeir fóru. Sagði vitnið að þau hafi verið kela og kyssast hann og brotaþoli fyrr um kvöldið en það hafi ekki gengið neitt lengra. Segir vitnið að hann muni eftir D og brotaþola saman í sófa eitthvað að kyssast liggjandi saman í sófa en ekkert nánar man hann um það.
                Vitnið D sagði að hún og brotaþoli væru æskuvinkonur en ákærða þekki hún ekki. Sagði vitnið að ákærði hefði gefið frítt alls konar áfengi um kvöldið og undir lokin hafi ákærði verið skælandi og verið að toga í brotaþola á móti henni þegar hún var að fara um hádegið. Sagði vitnið að ákærði hefði verið utan í þeim vinkonunum báðum en fyrr um nóttina hafi þær vinkonurnar verið að kyssast og fíflast en þegar vitnið var að fara hafi brotaþoli verið hálf sofandi í sófanum en ekki ofurölvi og skilið það sem sagt var við hana og svarað þegar talað var við hana.

                Vitnið C minnist þess að brotaþoli hafi verið mjög drukkin á skemmtistaðnum sem um ræðir um hálf fjögur um nóttina en þegar hann fór af staðnum seinna voru þeir, hann og B vinur hans, hálfpartinn reknir út en D og brotþoli, sem þá var hálf sofandi, urðu eftir þó þeir hafi reynt að fá þær með sér. Ákærði var þá örugglega í glasi en hann hafi ekki vitað nánar um ástand hans. Sagði vitnið að ákærði hafi verið pirraður þegar þeir B voru að reyna að útvega stelpunum far af staðnum.

                Vitnið F sagðist hafa unnið fyrir ákærða á [...] en brotaþola þekki hún ekki. Kvaðst vitnið hafa komið til vinnu á skemmtistaðinn um kl. 22.00 um kvöldið og þá hafi verið mikið fyllerí og ákærði mjög drukkinn. Henni hafi hreinlega ekkert litist á blikuna því að gestirnir voru greinilega að notfæra sér aðstæðurnar sem höfðu skapast vegna þess hvað ákærði var drukkinn og farinn að gefa fólki drykki og deyja áfengisdauða af og til. Sagði vitnið það hafi farið af staðnum klukkan sex um morguninn en þá hafi margir verið enn á staðnum eða eitthvað í kringum tuttugu manns. Sjálf kvaðst vitnið hafa verið allsgáð en allar tegundir af víni hafi verið á boðstólnum. Sagði vitnið að D sem hún kannist við hafi verið mjög drukkin og að hennar mati hljóti hún að hafa verið á spítti miðað við hvað hún gat drukkið lengi og mikið en hún tók ekkert sérstaklega eftir brotaþola. Sagðist vitnið hafa þurft að vekja ákærða nokkrum sinnum á barnum vegna þess hve drukkinn hann var og stóð ekki undir sjálfum sér óstuddur en fólkið sem þarna var almennt ofurölvi. Sagði vitnið að henni hafi komið í hug að kalla á lögreglu en ekki látið verða af því.

Vitnið Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur, sem hafði með málefni brotaþola að gera, fékk hana til sín í viðtöl og var það fyrsta 3. janúar 2011 og þar til nú á um það bil 10 daga fresti, lýsti því að brotaþoli hafi sagt henni að hún muni ekkert hvað gerðist frá því um klukkan fjögur umrædda nótt allt þar til hún vaknaði kl 17.00 daginn eftir. Frá unglingsárum hafi brotaþoli átt vanda til átröskunar sem hún hafi verið búin að ná nokkrum tökum á fyrir þann atburð sem málið fjallar um, en hann hafi haft það í för með sér að hún þjáist af áfallastreituröskun. Annar geðvandi sem brotaþoli hafi þurft að glíma við fyrir verknaðinn, þ.e. alvarlegt þunglyndi og átröskun, fái ekki hnekkt þessari niðurstöðu. Það sé flókið mál að greina þarna á milli orsaka, en unnt engu að síður og það telji hún sig hafa gert.

                Vitnið Jakob L. Kristinsson, prófessor, sagði að alkóhólmagn sem var meira í þvagi en í blóði bendi til þess að nokkru áður en sýnið var tekið um kl. 20.00 eða um kl. 17.00 þá hafi alkóhólmagn í blóði brotaþola verið nálægt 2 ‰ sem bendi til mikillar ölvunar. Sagði vitnið að lyfin flúoxetin og norflúoxetin, sem fundust í blóði brotaþola, væru þunglyndislyf sem gætu aukið á sljóleika við áfengisneyslu en þegar sýni var tekið og á sama sólarhring hafi brotaþoli ekki verið undir neinum marktækum áhrifum af amfetamíni en erfitt sé að segja um kókaínið sem hafi mun skemmri helmingunartíma eða eina klukkustund.

Vitnið Arnar Hauksson, læknir, sagði að brotaþoli hafi verið útgrátin er hún kom til hans á neyðarmóttöku á Landspítala og hafi beygt af og grátið þegar hún ræddi um verknaðinn sem hún hafi ekki getað lýst vegna minnisleysis en sagt að hún hefði fengið á tilfinninguna þegar hún vaknaði að höfð hafi verið við hana mök. Sagði vitnið að engin ummerki hafi verið sem bent gætu til þess hvað hefði átt sér stað eða ekki átt sér stað nóttina áður. Engin merki hafi verið um kynmök eða sæðisfrumur og engir áverkar sem þyrftu að vera tengdir þeim meinta atburði sem nú er til umræðu.

                Vitnið G, móðir brotaþola, sagði að hún hafi tekið á móti brotaþola þegar hún kom heim algerlega niðurbrotin og grátandi í för með bróður sínum sem hafið sótt hana um kl. sex á aðfangadag. Sagði vitnið að brotaþoli hafi sagt sér að eigandi staðarins [...] hafi nauðgað henni.

                Vitnið H, faðir brotaþola, sagði að brotaþoli hafi komið heim eins og áður segir og verð algerlega niðurbrotinn útgrátin og í miklu uppnámi.

                Vitnið I, bróðir brotaþola, sagði að brotaþoli hafi hringt til hans og beðið hann að sækja sig og þegar hann fann hana á skemmtistaðnum var hún grátandi og sagði honum að eigandi skemmtistaðarins hefði nauðgað henni.

                Vitnið Guðmundur Sigurðsson lögreglumaður sagði að brotaþoli hafi hringt til hans grátandi og í miklu uppnámi og ráðvillt vegna þess að hún vissi ekki hvað hafði gerst og spurt hvort hún ætti að leita til neyðarmóttöku.

IV.

                Ákærða er gefin að sök nauðgun samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en samkvæmt ákvæðinu telst það nauðgun ef maður notfærir sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007 er áréttaður sá áskilnaður 18. gr. almennra hegningarlaga að ásetningur sé ótvírætt saknæmisskilyrði nauðgunarbrots og sérstaklega tekið fram að ásetningur verði að taka til allra efnisþátta verknaðar eins og honum er lýst í ákvæðinu, þ.e. bæði til verknaðaraðferðar og kynmakanna. Þá er þess getið í athugasemdum við framangreint frumvarpsákvæði að því sé ætlað að taka til þeirra tilvika þar sem kynmök fara fram án samþykkis þolanda, enda sé það undirliggjandi skilyrði að samþykki skorti til kynmakanna. Einnig segir í athugasemdunum að það sé mat ákærða á aðstæðum sem sé lagt til grundvallar við sakarmat þannig að ekki sé unnt að refsa honum fyrir nauðgun ef hann hefur haft réttmæta ástæðu til að ætla að þolandi væri samþykkur kynmökunum.

Saksókn á hendur ákærða er meðal annars grundvölluð á þeim framburði hans hjá lögreglu að hann hafi síðla dags, föstudaginn 24. desember 2010, á skemmtistaðnum [...] í [...], strokið kynfæri brotaþola, A, og sett fingur inn í kynfæri hennar, en í ákæru er þess þó ekki getið hvenær dagsins þessi verknaður ákærða hafi átt sér stað. Þá er á því byggt að sökum ölvunar og svefndrunga hafi brotaþoli ekki getað spornað gegn kynferðismökunum. Er þar um aðallega stuðst við þann vitnisburð brotaþola að hún muni ekkert frá því hún sofnaði um hádegi á aðfangadag þar til hún vaknaði ber að neðan um kl. 17 sama dag og fékk þá á tilfinninguna að hafðar hefðu verið við hana samfarir og að ákærði væri gerandinn, en hann hafi staðið þarna hjá með reistan getnaðarlim. Ákærði hefur á hinn bóginn alfarið hafnað þessu og jafnan staðhæft að hann hafi litið svo á að brotaþoli hafi verið samþykk þeim kynferðismökum sem hann hafði við hana, hún hafi látið sér vel líka, fróað honum og gefið frá sér ánægjuhljóð meðan á þessu stóð.

Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar þann framburð ákærða að sú háttsemi hans sem saksókn tekur til hafi átt sér stað um klukkan 17 föstudaginn 24. desember 2010, enda ekkert fram komið í málinu hnekkir þeim framburði hans.

Framburður vitna um ölvunarástand brotaþola þegar leið að hádegi hinn umrædda dag og hún varð ein eftir á veitingastaðnum ásamt ákærða er þannig í meginatriðum að vitnin C og D, vinkona brotaþola, sögðu að er þau voru að fara hafi brotaþoli verið hálf sofandi í sófanum en D ekki talið hana ofurölvi og að hún hafi skilið það sem sagt var og svarað þegar talað var við hana. Vitnið B sagði að brotaþoli hafi verið vel drukkin og ekki viljað fara með þeim félögunum og orðið eftir á staðnum þegar þeir fóru þaðan þegar komið var undir hádegi.

                Svo sem áður er getið voru tekin blóð- og þvagsýni úr brotaþola um klukkan 20 að kvöldi aðfangadags. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð, en efni hennar er áður rakið, er það mat rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði að styrkur alkóhóls í blóði brotaþola hafi verið a.m.k. 1,9 ‰ fáeinum klukkustundum áður en sýnin voru tekin. Jakob L. Kristinsson prófessor vann umrædda matsgerð og staðfesti hana fyrir dómi. Kom fram í vitnisburði hans að rannsóknarniðurstöður bendi til þess að um klukkan 17, þ.e. þremur klukkustundum áður en sýnin voru tekin, hafi alkóhólmagn í blóði brotaþola getað verið nálægt 1,9 ‰ sem bendi til mikillar ölvunar. Þá kom fram hjá vitninu að lyfin flúoxetin og norflúoxetin, sem fundist hefðu í sýnum, væru þunglyndislyf sem gætu aukið á sljóleika við áfengisneyslu. Að því er varðar amfetamín og kókaín hafi brotaþoli ekki verið undir neinum marktækum áhrifum af amfetamíni þegar sýni var tekið, en erfitt sé að segja um kókaínið sem hafi mun skemmri helmingunartíma eða eina klukkustund.

Í málinu liggur frammi vottorð dr. Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings, dags. 26. júní 2011, þar sem fram kemur að niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að brotaþoli þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots. Í viðtölum við sálfræðinginn hafi brotaþoli greint frá því að hún hafi upplifað ofsaótta og hjálparleysi þegar hún vaknaði og var ekki viss um hvað hefði gerst. Hún hafi verið ringluð og einnig talið sig vera í lífshættu þegar hún hafi séð meintan geranda og farið að átta sig á því hvað hefði gerst.

Í vitnisburði Arnars Haukssonar, sem skoðaði brotaþola á neyðarmóttöku, kom fram að engin líkamleg ummerki hafi verið á brotaþola sem bent gætu til þess hvað hefði átt sér stað eða ekki átt sér stað í lífi hennar umrædda nótt. Þannig að engar vísbendingar hafi verið til staðar um að átt hafi verið við kynfæri brotaþola gegn vilja hennar og að af lýsingu brotaþola á eymslum í leggöngum varð ekkert ráðið.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag og verður að skýra skynsamlegan vafa ákærða í hag, sbr. 109. gr. sömu laga. Með vísan til alls framanritaðs er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að axla þessa byrði og að sök verði því ekki felld á ákærða. Þykir dómendum þannig ekki unnt að slá því föstu gegn staðfastri neitun ákærða að hann hafi mátt vita að brotaþoli gæti ekki sökum ölvunar og svefndrunga spornað við þeim kynferðismökum sem hann hefur játað að hafa haft við hana. Verður hann samkvæmt þessu sýknaður af refsikröfu ákæruvalds.

                Með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 ber að vísa bótakröfu brotaþola frá dómi.

                Að fenginni þessari niðurstöðu ber að leggja allan sakarkostnað á ríkissjóð þ.m.t. málsvarnarlaun Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, sem þykja hæfilega ákveðin 376.500 krónur. Þóknun Ásbjörns Jónssonar, réttargæslumanns brotaþola, þykir hæfilega ákveðin 276.100 krónur auk ferðakostnaðar 26.640 króna. Málsvarnarlaun og þóknun fela í sér virðisaukaskatt.

                Af hálfu ákæruvalds sótti málið Hulda María Stefánsdóttir saksóknari.

                Dómsformaður er Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari og meðdómsmenn Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Bótakröfu A er vísað frá dómi.

                Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, 376.500 krónur og þóknun Ásbjörns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, réttargæslumanns brotaþola, 276.100 krónur auk 26.640 króna vegna ferðakostnaðar.