Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2015


Lykilorð

  • Víxill


                                     

Fimmtudaginn 17. september 2015.

Nr. 181/2015.

Ari Axel Jónsson og

Hólmfríður G. Þorleifsdóttir

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl.)

Víxill.

Í hf. höfðaði mál til heimtu skuldar samkvæmt víxli sem afhentur var til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningi D ehf., en A og H voru ábekingar á víxlinum. Ekki var fallist á með A og H að Í hf. væri ekki réttur eigandi víxilsins og að bankinn hefði af ásettu ráði bakað þeim tjón eða brotið gegn ákvæðum innheimtulaga nr. 95/2008. Var þeim gert að greiða Í hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. 

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. mars 2015. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjendur hafa engin haldbær rök fært fyrir aðalkröfu sinni um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Ari Axel Jónsson og Hólmfríður G. Þorleifsdóttir, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. desember 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þriðjudaginn 11. nóvember, er í aðalsök höfðað 24. apríl 2012 af Íslandsbanka hf., kt. [...], Kirkjusandi 2, Reykjavík á hendur Ara Axel Jónssyni, kt. [...], Hindarlandi 9, Akureyri, Hólmfríði G. Þorleifsdóttur, kt. [...], Hindarlandi 9, Akureyri, og Dregg ehf., kt. [...], Oddeyrartanga, Akureyri. Málið var þingfest 3. maí 2012. Gagnsök er höfðuð 29. sama mánaðar af Ara Axel og Hólmfríði á hendur Íslandsbanka hf.

Dómkröfur

Í aðalsök krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum in solidum 207.545.067 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. maí 2011 til greiðsludags, allt að frádregnum 36.036.798 krónum sem greiddar hafi verið inn á víxill hinn 21. febrúar 2013. Þá krefst stefnandi málskostnaðar og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Í upphafi krafðist stefnandi einnig staðfestingar veðréttar samkvæmt veðtryggingarbréfi en féll frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.

Í aðalsök krefjast stefndu Ari Axel og Hólmfríður sýknu en málskostnaðar úr hendi stefnanda. Aðalkröfu þeirra um frávísun málsins var hafnað með úrskurði.

Stefnda Dregg ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 7. maí 2012. Af hálfu þess hefur ekki verið tekið til varna í málinu.

Í gagnsök krefjast gagnstefnendur þess aðallega að viðurkennt verði að persónuleg ábyrgð gagnstefnenda samkvæmt tryggingarvíxli nr. 26614, útgefnum 20. maí 2011 að fjárhæð 260 milljónir króna sé niður fallin, en til vara krefjast gagnstefnendur þess að víxillinn verði ógiltur. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar úr hendi gagnstefnda.

Gagnstefndi krefst sýknu í gagnsök og málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi gagnstefnenda in solidum.

Málavextir

Stefnandi höfðar málið til heimtu skuldar samkvæmt víxli að fjárhæð 260 milljónir króna. Útgefandi hans er stefndi Ari Axel en greiðandi stefnda Dregg ehf. Víxillinn er ábektur af stefndu Hólmfríði og er án afsagnar. Á víxilinn er skráður útgáfudagurinn 20. maí 2011 og gjalddaginn 24. maí 2011. Á víxilinn er prentað að hann skuli greiðast í Sparisjóði Norðlendinga, Akureyri.

Með víxlinum er skjal, nefnt „yfirlýsing og umboð til útfyllingar víxileyðublaðs vegna skuldar eða yfirdráttar á tékkareikningi / kreditkorti / ábyrgðar“, dagsett 25. maí 2007, og veita þar öll stefndu Sparisjóði Norðlendinga umboð til að fylla víxilinn út hvað varðar útgáfudag, upphæð og gjalddaga og innheimta hann sem víxilskuld.

Með tilkynningu dagsettri og birtri fyrir stefndu hinn 20. maí 2011, tilkynnti Byr hf. þeim að gjalddagi víxilsins hefði verið ákveðinn 24. maí 2011. Víxillinn yrði sýndur þann dag og næstu tvo virka daga í afgreiðslu Byrjar, Skipagötu 9, Akureyri, á afgreiðslutíma.

Með auglýsingu, birtri í Lögbirtingablaði hinn 28. marz 2008 tilkynnti fjármálaeftirlitið að það hefði veitt samþykki fyrir samruna Sparisjóðs Norðlendinga við Byr sparisjóð. Frá og með 1. júlí 2007 tæki Byr sparisjóður við öllum réttindum og skyldum Sparisjóðs Norðlendinga.

Með auglýsingu, birtri í Lögbirtingablaði hinn 30. apríl 2010, tilkynnti fjármálaeftirlitið að það hefði ákveðið að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrjar sparisjóðs og víkja stjórn hans frá í heild sinni. Jafnframt hefði fjármálaeftirlitið meðal annars ákveðið að öllum eignum Byrjar sparisjóðs yrði þegar í stað ráðstafað til Byrjar hf., og tæki Byr hf. við öllum tryggingaréttindum Byrjar sparisjóðs.

Með auglýsingu, birtri í Lögbirtingablaði 1. desember 2011, tilkynnti fjármálaeftirlitið að það hefði veitt samþykki sitt fyrir samruna Byrjar hf. og stefnanda. Skyldi stefnandi taka við öllum réttindum og skyldum Byrjar hf. frá 30. júní 2011.

Málsástæður og lagarök stefnanda í aðalsök

Stefnandi segist reka málið til innheimtu á víxli að fjárhæð 260 milljónir króna, sem stefndi Ari Axel hafi gefið út hinn 20. maí 2011, samþykktum til greiðslu í „Íslandsbanka hf. (áður BYR)“af stefnda Ara Axel fyrir hönd stefnda Dregg ehf. og ábektur af stefnda Ara Axel og stefndu Hólmfríði án afsagnar. Víxillinn hafi verið afhentur til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningi Dregg ehf. nr. 1145-26-0340 í Byr. Víxilskjalið hafi verið útfyllt hvað varðað hafi fjárhæð, undirritað af öllum stefndu en óútfyllt um útgáfudag og gjalddaga. Viðfest víxlinum hafi verið umboð til handa stefnanda að ljúka útfyllingu skjalsins og gera að formgiltum víxli ef á ábyrgð víxilskuldara reyndi. Aðrar takmarkanir hafi ekki verið gerðar á útfyllingarheimild stefnanda. Stefnandi hafi fært á víxilinn útgáfudaginn 20. maí 2011 og gjalddaga 24. maí 2011. Skuldin sem tryggð hafi verið með víxlinum hafi numið 207.545.067 krónum á gjalddaga víxilsins. Þar sem stefndu hafi ekki greitt kröfuna þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir hafi málshöfðun verið nauðsynleg.

Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á lögum nr. 93/1933, einkum sjöunda kapítula. Vaxtakrafa sé studd við III. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 10. og 12. gr. Krafa um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Vegna réttarfars vísi stefnandi til XVII. kafla laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður og lagarök stefndu Ara Axels og Hólmfríðar í aðalsök

Stefndu segja að stefnda Dregg ehf. hafi um nokkurra ára skeið stundað vöruflutninga á milli Íslands og annarra ríkja með flutningaskipinu Axel. Til kaupa á skipinu og síðar vegna rekstursins hafi félagið þurft á því að halda að hafa heimild til yfirdráttar á tékkareikningi sem félagið hafi átt í Sparisjóði Norðlendinga og síðar í Byr sparisjóði eftir sameiningu nokkura sjóða undir merkjum Byrjar. Til tryggingar heimildinni hafi sparisjóðurinn farið fram á það við eiganda félagsins, stefnda Ara Axel og eiginkonu hans stefndu Hólmfríði, að þau gæfu út svokallaða tryggingavíxla auk þess að gefa umboð til útfyllingar víxileyðublaðanna. Þá hafi sparisjóðurinn tvívegis farið þess á leit við stefnda Dregg ehf. að það gæfi út  tryggingarbréf með veði í lausafé, viðskiptakröfum og fasteign félagsins til tryggingar yfirdrættinum. Alls hafi verið gefnir út víxlar og  tryggingarbréf fyrir samtals 540 milljónir króna.

Í maí 2007 hafi félagið fest kaup á fiskiskipi, kaupin hafi borið brátt að og hafi fjármögnun ekki verið tilbúin er þau hafi verið gerð. Af þeirri ástæðu hafi heimild til útfyllingar víxils að fjárhæð 260 milljónir króna verið undirrituð hinn 25. maí 2007 til tryggingar á yfirdráttarheimild sem veitt hafi verið 29. maí 2007 í kjölfar skipakaupanna. Öllum hafi verið ljóst að um bráðabrigðaráðstöfun hafi verið að ræða með persónulegri ábyrgð stefndu Ara og Hólmfríðar þar til fjármögnun næðist. Hinn 10. september 2007 hafi 250 milljóna króna fjármögnun verið tilbúin frá Landsbanka Íslands og borin undir Byr. Á þessum tíma hafi félagið staðið mjög vel en reikningurinn hafi mest verið yfirdreginn þegar skipakaupin hafi átt sér stað um 254 milljónir króna en yfirdráttur farið stöðugt lækkandi. Félagið hafi ekki talið sig þurfa á jafnmiklu fjármögnunarláni að halda og hafi orðið úr að hætt hafi verið við að ganga að fjármögnunartilboði Landsbankans. Þess í stað hafi verið gefið út  tryggingarbréf vegna vörubirgða og vörureikninga til Byrjar dags. 3. desember 2007. Hafi það verið gert í þeim tilgangi að fella niður trygginguna samkvæmt bráðabrigða tryggingavíxlinum sem gefinn hafi verið út til að brúa bilið þar til þessi fjármögnun hafi verið afstaðin sem þá hafi verið raunin. Kostnaðarverðmæti vörubirgða á lager hafi á þeim tíma sem að  tryggingarbréfið hafi verið gefið út hafi verið 89.610.932 krónur og viðskiptakröfur numið 146.024.582 krónum eða samtals 235.635.514 krónur. Tékkareikningur félagsins hafi verið yfirdregin um 129-165 milljónir króna þegar bréfið hafi verið gefið út. Dregg ehf. hafi þarna sett meira en fullar tryggingar fyrir skuldum sínum í þeim tilgangi að tryggingin samkvæmt heimild til útfyllingar víxils að fjárhæð 260 milljónir frá 25. maí 2007 félli niður. Þess hafi ætíð verið gætt að Byr hefði nægar tryggingar í vörubirgðum og kröfum þegar yfirdráttarheimild félagsins hafi verið endurnýjuð til hækkunar eða lækkunar. Hinn 19. júní 2009 hafi vörubirgðir að kostnaðarverði numið einungis 178.260.071 krónu og kröfur verið óverulegar. Byr hafi því óskað eftir viðbótartryggingu og hafi yfirdráttarheimild verið hækkuð í 204 milljónir króna að ósk félagsins. Þann dag hafi Dregg ehf. gefið út  tryggingarbréf með veði að fasteign sinni Skipatanga 2-4, 2 r, Akureyri að fjárhæð 100 milljónir króna. Hafi Byr þá haft  tryggingarbréf frá Dregg ehf. samtals að fjárhæð 220 milljónir króna í þessum tveimur  tryggingarbréfum. Allir aðilar sem að þessum gerningum hafi komið hafi á þessum tíma verið sammála um að tryggingar samkvæmt tryggingavíxlum hafi átt að falla niður um leið og aðrar tryggingar hafi komið í staðinn. Hins vegar hafi víxlunum aldrei verið skilað til stefndu Ara og Hólmfríðar. Það hafi svo ekki verið fyrr en fjórum árum síðar eða hinn 20. maí 2011 að stefnandi hafi „grafið upp“ víxilinn, fyllt hann út og ákveðið að nota hann til að krefja stefndu persónulega um greiðslu á skuldbeitingum Dregg ehf. þegar það hafi hentað stefnanda.

Stefndu segjast byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að með þessari háttsemi sinni hafi stefnandi brotið gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 þar sem fjallað sé um góða innheimtuhætti. Segi þar að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti, það teljist meðal annars brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni og óþægindum.

Þá segjast stefndu byggja á því að rangur aðili höfði málið sbr. a-lið 1. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991 sem leiði til sýknu sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga. Íslandsbanki hf höfði málið vegna Byrjar útibús 1145 en hins vegar hafi víxilumboð stefndu verið gefið út til Sparisjóðs Norðlendinga og tryggingarbréfið til Byrjar sparisjóðs. Byggi stefndu því aðallega á því að sýkna beri þau vegna aðildarskorts stefnanda. Stefnda segjast byggja á því að meintar heimildar stefnanda til málshöfðunar á grundvelli víxilsins sem lagður sé fram í málinu brjóti hvað sem öðru líði í bága við II. kapítula víxillaga nr. 93, 1933 um framsal víxla. Vegna vanreifunar málatilbúnaðar stefnanda sé stefndu að vísu ókleift að fjalla um þessa málsástæðu sína með nokkuri nákvæmni, þar á meðal um það hvaða ákvæði II. kapítula víxillaganna eigi við um framsal víxilsins, en stefndu segjast í greinargerð sinni leyfa sér að svo stöddu að vísa til II. kapítula víxillaganna hvað þetta varði með áskilnaði um að fjalla um þessar varnir sínar af meiri nákvæmni á síðari stigum málsins. Stefndu segjast í greinargerð vilja leyfa sér að hafa uppi áskilnað um það á síðari stigum málsins að vísa til hvaða ákvæðis víxillaganna sem vera skal, kröfum sínum til stuðnings, enda gefi vanreifaður málatilbúnaður stefnanda tilefni til að hafa uppi slíkan áskilnað þar sem stefndu sé, vegna vanreifunarinnar, í raun ókleift að verjast á grundvelli laganna. Vel geti komið til álita að beita til að mynda VI. og XI. kapítula víxillaganna til varnar gegn meintum kröfum stefnanda ef fyrir liggi hvernig heimildum hans til innheimtunnar sé háttað. Engir aðrir kostir séu af hálfu stefndu en að hafa áskilnaðinn uppi til að verjast í málinu á síðari stigum.

Stefndu segjast byggja sýknukröfu sína á því að þegar Dregg ehf. hafi gefið út  tryggingarbréfið vegna vörubirgða og vörureikninga til Byrjar 3. desember hafi heimild sú, er stefndu hafi gefið til að fylla út tryggingavíxilinn frá 25. maí 2007, fallið niður. Sé byggt á því að þrátt fyrir að farizt hafi fyrir að afhenda stefndu víxilinn þá hafi aðilar verið sammála um að  tryggingarbréfið kæmi í staðinn og heimildin hafi þar með verið niðurfallin. Það sé í sjálfu sér engin önnur rökræn skýring á af hverju gefa hafi átt  tryggingarbréfið út 3. desember 2007 en að tilgangurinn hafi verið sá að það bréf mundi leysa af hólmi trygginguna sem falizt hafi í 260 milljóna króna tryggingavíxlinum. Stefndu segjast telja að horfa beri á atvik að baki samningsgerðinni við túlkun þessara gerninga og líta beri svo á að stefnandi hafi fallizt á að skuldbindingin hafi fallið niður á þessum tímapunkti. Hafi þetta verið sameiginlegur skilningur allra aðila sem að viðskiptunum hafi komið. Stefndu, sem ekki séu sérfróð um fjármálagerninga og viðskipti af þessu tagi, hafi treyst því að skuldbindingin væri niður fallin. Stefnandi sé viðskiptabanki og því sérfróður á þessu svið og hafi því á honum hvílt sú skylda eindregið, að annað hvort afhenda stefndu víxilinn eða upplýsa þau um það, á þeim tímapunkti þar sem  tryggingarbréfið hafi verið gefið út, ef stefnandi hafi jafnframt ætlað að halda heimildinni til að gefa út tryggingavíxilinn. Stefnandi hafi hvorugt gert. Stefndu segjast telja ótækt að stefnandi geti nú fjórum árum síðar fyllt út og byggt rétt á víxlinum með hliðsjón af þeim aðstæðum sem liggja að baki samningsgerðinni. Beri samkvæmt þessu að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Þá segjast stefndu byggja sýknukröfu sína enn fremur á því að persónuleg ábyrgð þeirra sé löngu niður fallin með vísan þess sem fram komi á yfirlýsingunni um umboð til útfyllingar á víxli þar sem að segi orðrétt að ábyrgð á skuldum einstaklinga gildi í fjögur ár frá og með undirritun yfirlýsingarinnar. Undirritun yfirlýsingarinnar hafi farið fram á Akureyri hinn 25. maí 2007 og sé því lengri tími en fjögur ár liðin frá undirritun hennar. Á grundvelli þessa skýra og klára samningsákvæðis beri að sýkna stefndu.

Þá segjast stefndu reisa sýknukröfu sína á því að á sama skjali segi orðrétt „Við undirritaðir, greiðandi, útgefandi og ábekingar, staðfestum einnig að hafa kynnt okkur efni upplýsingabæklings bankans um sjálfskuldarábyrgð og greiðslumat í samræmi við „samkomulag um notkun ábyrgð á skuldum einstaklinga“ sem Sparisjóður Norðlendinga er aðili að.“  Tilgangurinn með þessum texta geti ekki verið annar en að hið tilgreinda samkomulag sé hluti af samningssambandi og Sparisjóðs Norðlendinga.  Í samkomulaginu segi m.a. orðrétt í 2. gr.: „Aðilar að samkomulagi þessu eru sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðenda og eigin tryggingar hans.  Með samkomulaginu yrði settar megin reglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings eru sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.  Samkomulag þetta tekur til allra skuldaábyrgða þ.e. sjálfskuldarábyrgða og einfaldra ábyrgða, af skuldabréfalánum, víxlum og öðrum skuldaskjölum, á yfirdráttarheimildum á tékkareikningum og.....  Samkomulagið gildir óháð því hvort til ábyrgðar er stofnað með áritun á skuldabréf, víxil eða annað skuldaskjal eða við útgáfu sérstakrar ábyrgðaryfirlýsingar.“  Þá segi í 3. gr. samkomulagsins „Sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert... Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en krónum 1.000.000.“  Í 4. gr. segi enn fremur: „Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það.  Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður skal hann staðfesta það skriflega.“  Þá sé kveðið á um eftirfarandi í 5. gr. samkomulagsins: „Fjármálafyrirtæki ber að tilkynna ábyrgðarmanni um vanskil sem verða á fjárhagslegri skuldbindingu sem hann er í ábyrgð fyrir.  Stefnt skal að því að slík tilkynning sé send innan 30 daga frá greiðslufalli skuldara.  Fjármálafyrirtæki breytir ekki skilmálum láns eða annarra fjárhagslegra skuldbindingar sem tryggð er með skuldaábyrgð eða veði nema með samþykki ábyrgðarmanns..... Fjármálafyrirtæki skal um hver áramót tilkynna ábyrgðarmanni skriflega um hvaða kröfum hann er í ábyrgðum fyrir, hverjar eftirstöðvar þeirra eru, hvort að þær eru í vanskilum og hversu mikil vanskil eru ef um þau er að ræða.“  Stefndu segja að samkomulagið gildi þannig ótvírætt um þá skuldbindingu sem stefnandi haldi fram að til staðar sé á hendur stefndu á grundvelli áðurnefndrar yfirlýsingar og umboðs.  Hvorki stefnandi né Sparisjóður Norðlendinga hafi uppfyllt neinar af ofangreindum skyldum gagnvart stefndu.  Þannig hafi aldrei neitt greiðslumat verið framkvæmt að neinu tagi og stefndu hafi aldrei óskað eftir því að greiðslumat yrði ekki framkvæmt.  Hvorki hafi verið framkvæmt greiðslumat á einkahlutafélaginu Dregg ehf., Ara né Hólmfríði.  Þá hafi tilkynningar af því tagi sem getið er í 5. gr. ekki verið sendar stefndu enda hefðu þau kallað á viðbrögð af hálfu stefndu þegar í stað ef þeim hefðu borist slíkar tilkynningar.  Með vísan til þessa beri að sýkna stefndu.  Segja stefndu einnig vísa til þeirra sjónarmiða sem fram komi í dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-913/2011 frá 23. febrúar 2012 en atvik þess máls og þess sem hér sé til meðferðar séu eðlislík um það sem að máli skipti.

Þá segjast stefndu byggja á því að ógilda beri samning aðila á grundvelli ógildingarreglna samningalaganna og byggi þau á eftirfarandi ógildingareglum.

Í fyrsta lagi segja stefndu byggja á því að ógilda beri samninginn á grundvelli 32. gr. samningalaga nr. 7/1936. Í ákvæðinu segi að löggerningur sem vegna misritunar eða annarra mistaka af hálfu þess, er hafi gert hann, hafi orðið annars efnis en til hafi verið ætlazt sé ekki skuldbindandi fyrir þann sem gert hafi hann, ef sá maður, sem löggerningum hafi verið beint til, hafi vitað eða mátt vita að mistök hafi átt sér stað. Hér sé mælt fyrir um ógildingareglu um rangar forsendur en stefndu segjast byggja á því að stefnanda hafi verið ljóst að stefndu hafi staðið í þeirri trú að  tryggingarbréfið frá 3. desember 2007 hafi komið í stað víxilskuldbindingarinnar frá 25. maí 2007. Hafi stefnandi því vitað eða mátt vita að víxilskuldbindingunni hafi ekki verið ætlað að hafa réttaráhrif eftir að önnur trygging hafi komið í staðinn, þrátt fyrir að þau mistök hafi átt sé stað, sem stefnandi beri vissulega meginábyrgð á, að víxlinum hafi aldrei verið skilað. Hafi stefnandi því verið í vondri trú þegar hann hafi ákveðið fjórum árum síðar að fylla út víxilinn og krefja stefndu persónulega um greiðslu á grundvelli hans. Beri því að ógilda víxilinn með vísan til 32. gr. samningalaga.

Þá segjast stefndu byggja á því að víxillinn sé ógildur með vísan til 33. gr. samningalaga en í ákvæðinu segi að löggerning sem ella yrði talinn gildur geti sá maður, er við honum hafi tekið, ekki borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi hafi verið þegar löggerningurinn hafi komið til vitundar hans og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um. Hér sé sem endranær vísað til þeirra atvika sem að framan sé lýst og hafi verið til staðar þegar að víxilheimildin hafi verið undirrituð. Ljóst sé að stefnandi hafi haft vitneskju um það hver raunveruleg ætlun aðila hafi verið með víxilskuldbindingunni og sé því óheiðarlegt af hálfu hans að bera þann gerning fyrir sig fjórum árum síðar og það á allt öðrum forsendum og með öðrum tilgangi en upphaflega hafi verið ætlun aðila. Beri því að ógilda víxilinn með vísan til 33. gr. samningalaga.

Þá segjast stefndu byggja á því að víxilskuldbindingin sé ógildanleg á grundvelli 36. gr. samningalaga. Í ákvæðinu segi að samningi megi víkja til hliðar í heild eða hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til. Hér liggi því beint við að vísa til stöðu samningsaðila en augljóst sé að stefnandi hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefndu hvað varði þekkingu á fjármálagerningum og réttaráhrifum þeirra. Þá beri að líta til atvika við samningsgerðina sem þegar hafi verið lýst og að lokum til atvika sem að síðar hafi komið til en þar beri helzt að nefna þau atvik að stefnandi hafi ákveðið fjórum árum síðar að nota víxilheimildina sem aðilar hafi upphaflega verið sammála um að fallið hafi niður við útgáfu  tryggingarbréfsins. Með vísan til alls þessa beri að ógilda víxilinn með vísan til 36. gr. samningalaga.

Stefndu segjast mótmæla vaxtakröfum og telja ekki heimild til að ákveða vexti frá fyrra tímamarki en dómsuppsögu ef til komi. Stefndu segjast í öllum framangreindum tilvikum byggja á því að heimilt sé að koma að framangreindum vörnum m.a. með vísan til 2. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök gagnstefnenda í gagnsök

Gagnstefnendur byggja kröfu sína í gagnsök á sömu röksemdum og þeir byggja sýknukröfu sína í aðalsök.

Þá byggja gagnstefnendur á því að í yfirlýsingum um umboð á víxli komi ítrekað fram að Sparisjóði Norðlendinga sé veitt umboð til að fylla víxilinn út hvenær sem hann sjái ástæðu til. Stefnandi þessa máls sé ekki Sparisjóður Norðlendinga og geri gagnstefndi enga tilraun til þess í stefnu í aðalsök að gera grein fyrir því hvernig á því standi að hann innheimti kröfur á hendur stefndu í aðalsök á grundvelli skjalsins né á grundvelli hvaða heimildar það sé gert. Þetta eitt og sér nægi til þess að kröfur gagnstefnenda í gagnsök séu teknar til greina en hvað sem því líði þá beri að taka þær til greina á þeim grundvelli að umrætt umboð til útfyllingar víxils feli ekki í sér neina heimild til framsals þeirra mikilsverðu heimilda sem gagnstefnendur hafi veitt Sparisjóði Norðlendinga og engum öðrum. Mótmæli gagnstefnendur því að heimild sú sem þau hafi veitt Sparisjóði Norðlendinga hafi verð framseljanleg. Hafi Sparisjóður Norðlendinga hins vegar á einhverjum tímapunkti mátt eða eftir atvikum ætlað að framselja réttindi sín á grundvelli þessa skjals hafi sparisjóðnum að minnsta kosti borið að fá samþykki gagnstefnenda fyrir slíku framsali eða í minnsta lagi tilkynna gagnstefnendum um að sparisjóðurinn hygðist framselja það til þriðja aðila. Þar sem hvorki hafi mátt framselja þessi réttindi né neitt af þessu hafi verið gert beri að taka kröfur gagnstefnenda til greina. Yfirlýsingin og útfyllingarumboðið feli í sér víðtækar heimildir sem Sparisjóði Norðlendinga og engum öðrum hafi verið veittar. Komi meðal annars fram í skjalinu skýrum orðum að fjárhæð sú sem færð yrði inn á víxilinn megi ekki varða önnur viðskipti í sparisjóðnum en tilgreind séu í umboðinu. Þannig beri skjalið sjálft með sér skýrt og greinilega að fjárhæð sú sem færð yrði inn á víxilinn mætti ekki varða nein önnur viðskipti en viðskipti Sparisjóðs Norðlendinga, nánar tiltekið þau viðskipti sem tilgreind séu í umboðinu. Valdi framangreint ekki að persónuleg ábyrgð gagnstefnenda samkvæmt tryggingavíxlinum sé niður fallin, eins og aðalkrafa í gagnsök lúti að, hljóti það að minnsta kosti að leiða til þess að varakrafa verði tekin til greina um ógildingu víxilsins á grundvelli almennra reglna samningakröfu og víxilréttar. Með vísan til þess sem hér hafi verið rakið haldi gagnstefnendur því fram að gagnstefndi hafi í raun með háttsemi sinni brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og þar með framið umboðssvik. Gagnstefndi geti undir engum kringumstæðum reist neinn rétt á hendur gagnstefnendum með háttsemi sem varði við almenn hegningarlög og því beri að taka dómkröfur gagnstefnenda til greina af þeim ástæðum.

Gagnstefnendur segjast vísa til reglna samninga- og kröfuréttar kröfum sínum til stuðnings. Þá sé vísað til almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og samningalaga nr. 7, 1936, einkum 32., 33. og 36. gr. Vegna heimildar til að krefjast viðurkenningardóms sé vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Um heimild til að gagnstefna sé vísað til 2. mgr. 28. gr. laganna og krafa stefnenda um málskostnað sé studd við ákvæði XXI. kafla laganna, einkum 130. gr. þeirra.

Málsástæður og lagarök gagnstefnda í gagnsök

Gagnstefndi segir að hinn 1. júlí 2007 hafi Byr sparisjóður yfirtekið allar skyldur og réttindi Sparisjóðs Norðlendinga sbr. samrunatilkynningu er birzt hafi í Lögbirtingablaði hinn 28. marz 2008. Með ákvörðun fjármálaeftirlitsins dags. 22. apríl 2010 hafi Byr hf. tekið við öllum eignum Byrjar sparisjóðs sbr. auglýsingu sem birzt hafi í Lögbirtingablaði hinn 30. apríl 2010. Með samruna dags. 29. nóvember 2011 hafi stefnandi yfirtekið allar skyldur og réttindi Byrjar hf. sbr. samrunatilkynningu er birzt hafi í Lögbirtingablaði hinn 5. desember 2011. Sé Íslandsbanki hf. því gagnstefndi enda telji gagnstefnendur sjálfir svo vera þar sem dómkröfum sé beint að gagnstefnda.

Gagnstefndi kveðst mótmæla allri málsatvikalýsingu gagnstefnenda eins og hún sé sett fram í gagnstefnu. Gagnstefndi hafi veitt fyrirtækinu Dregg ehf., sem hafi verið í eigu gagnstefnenda, lán í formi yfirdráttar á tékkareikningi nr. 1145-26-340. Reikningurinn hafi verið yfirdreginn um 207.545.067 krónur hinn 9. maí 2011. Gagnstefndi krefji gagnstefnendur ásamt Dregg ehf. um þá fjárhæð, auk dráttarvaxta frá 24. maí 2011 og kostnaðar, í stefnu í aðalsök. Til tryggingar yfirdrættinum hafi verið settar ábyrgðir í formi víxils að fjárhæð 260 milljónir króna. Gagnstefnda hafi verið veitt heimild til útfyllingar víxilsins sem hann hafi gert. Gagnstefndi segir að tveimur víxlum að fjárhæð 40 milljónir króna hvor hafi verið skilað og gagnstefndi nýti þá ekki. Gagnstefndi hafi veð í vörubirgðum Dregg ehf. að fjárhæð 120 milljónir króna. Dregg ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, engar vörubirgðir séu til staðar í þrotabúinu enda hafi Dregg ehf. selt vörulagerinn til félags í eigu gagnstefnenda, Dregg – lagna ehf., á 12.834.110 krónur. Þetta hafi gagnstefnendur gert án samráðs við gagnstefnda en samkvæmt  tryggingarbréfi sé það óheimilt. Sé ljóst að gagnstefndi hafi ekki gífurlegar tryggingar að baki kröfu sinni eins og gagnstefnendur haldi fram í gagnstefnu. Þá sé þess að geta að svo virðist sem gagnstefnendur hafi selt íbúðarhús sitt, sbr. veðbókarvottorð er liggi frammi í málinu.

Gagnstefndi kveðst mótmæla öllum málsástæðum gagnstefnanda eins og þær séu settar fram í gagnstefnu.  Gagnstefndi kveðst mótmæla sérstaklega að varnir þær sem byggt er á komist að í málinu og að reglur um samkomulag um notkun ábyrgðar á skuldum einstaklinga eigi við í þessu máli.

Gagnstefndi kveðst telja að varnir þær sem gagnstefnendur hafi uppi í gagnstefnu eigi ekki við og komist ekki að í málinu þar hér sé um víxilmál að ræða sem rekið sé eftir XVII. kafla laga nr. 91, 1991. Samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91, 1991 komist takmarkaðar varnir að í málum sem rekin séu eftir kaflanum. Varnir þær sem gagnstefnendur haldi fram í gagnstefnu telji gagnstefndi að komist ekki að.

Gagnstefndi segir að komist málsástæður þær sem gagnstefnendur hafi uppi í gagnstefnu í málinu rökstyðji gagnstefndi sýknukröfu sína í gagnsök með eftirfarandi rökum. Í fyrsta lagi sé víxill í aðalsök fullgildur víxill. Gagnstefnendur hafi veitt heimild til útfyllingar hans og tekist á hendur ábyrgð að fjárhæð allt að 260 milljónir króna. Stefnukrafan sé 207.545.067 krónur en þannig hafi staðan á tékkareikningi nr. 1145-26-0340 í Byr sparisjóði, nú stefnanda, verið hinn 24. maí 2011. Gagnstefndi hafi umboð gagnstefnanda til að fylla víxilinn út. Umboðið sé dagsett 25.maí 2007, útgáfudagur víxilsins sé 20. maí 2011 og gjalddagi 24. maí 2011. Víxillinn sé fylltur út innan fjögurra ára, Víxillinn sé ekki fyrndur. Gagnstefnendum hafi verið send tilkynning um útfyllingu víxilsins og tilkynnt um gjalddaga hans og að hann yrði á greiðslustað á gjalddaga. Víxilinn sé því að formi réttur og fullgildur. Röksemdir gagnstefnenda um annað eigi því ekki við.

Þá kveðst gagnstefndi vísa á bug röksemdum gagnstefnenda sem röngum að skila hafi átt víxli þessum vegna annarra trygginga sem gagnstefndi hafi haft undir höndum. Sönnunarbyrði um slíkt hvíli alfarið á gagnstefnendum. Aðrar tryggingar sem gagnstefndi hafi undir höndum geti á engan hátt haft áhrif á gildi víxilsins, hann sé fullgildur og verði gagnstefnendur að greiða hann. Varðandi aðrar tryggingar þá hafi víxlum verið skilað og ljóst sé að trygging í vörubirgðum upp á 120 milljónir króna sé lítils virði þar sem lagerinn hafi verið seldur á 12 milljónir króna án samráðs við gagnstefnda. Gagnstefndi hafi því litlar sem engar tryggingar í formi  tryggingarbréfa annað en umræddan víxil sem gagnstefnendur hafi gengizt í ábyrgð fyrir.

Gagnstefndi segir að tilvísanir gagnstefnenda til 32. gr. samningalaga, um rangar forsendur, eigi ekki við. Þá byggi gagnstefnendur á því að víxillinn hafi átt að falla niður vegna annarra trygginga. Gagnstefndi segir það ekki rétt. Þá haldi gagnstefnendur því fram að víxillinn sé ógildur sbr. 33. gr. samningalaga. Þetta ákvæði telji gagnstefndi ekki eiga við. Sama sé að segja um tilvísun til 36. gr. samningalaga. Víxillinn hafi verið settur til tryggingar á yfirdrætti á tékkareikningi Dregg ehf. Það hafi ekki verið ætlun gagnstefnda að skila víxlinum enda um fullgilda tryggingu að ræða fyrir yfirdrættinum. Gagnstefnendur hefðu, ef fullyrðingar í gagnstefndu væru réttar, átt að ganga eftir og fá víxilinn afhentan en það hafi þau ekki gert. Gagnstefnendur hafi því alla sönnunarbyrði fyrir því að aðrar tryggingar sem settar hafi verið hafi átt að koma í stað víxilsins. Gagnstefnendur séu alvanir viðskiptum. Að mati gagnstefnda eigi tilvísanir gagnstefnenda til ákvæða samningalaganna því ekki við.

Gagnstefndi segir gagnstefnendur krefjast viðurkenningadóms um að ábyrgð gagnstefnenda á víxlinum verið talin niður fallin með vísan til 25. gr. laga nr. 91/ 1991. Þetta rökstyðji gagnstefnendur ekkert sérstaklega í gagnstefnu. Gagnstefndi segist telja reglur 25. gr. laga nr. 91/1991 ekki eiga við í þessu tilviki og séu reglur og skilyrði 25. gr. ekki vera uppfyllt. Aðalsök sé rekin sem víxilmál og eftir XVII. kafla nr. 91, 1991 og varnir því takmarkaðar. Krafa um viðurkenningu komist ekki að skv. ákvæðum XVII. kafla. Með vísan til þess telji gagnstefndi að sýkna beri hann af þeirri kröfu.

Gagnstefndi segir að gagnstefnendur byggi á því að umboð hafi verið veitt Sparisjóði Norðlendinga. Gagnstefndi segir að gagnstefnendum sé fullkunnugt um, eins og sjáist á aðild í gagnsök, að gagnstefndi sé eigandi víxilsins í dag. Sparisjóður Norðlendinga hafi orðið hluti af Byr sparisjóði með samruna, eignir Byrjar sparisjóðs hafi verið fluttar yfir til Byrjar hf. sbr. ákvörðun fjármálaeftirlitsins og Byr hf. hafi sameinazt stefnanda með samruna. Gagnstefnendur viti að gagnstefndi sé eigandi umrædds víxils. Gagnstefnendur stefni stefnanda til ógildingar víxilsins og lýsi því í gagnstefnu hvernig aðildinni sé háttað. Gagnstefnendur hafi því fulla vitneskju um hver eigandinn er. Því eigi varnir byggðar á þessu ekki við. Í dómkröfum í gagnstefnu sé krafizt viðurkenningar á ógildi víxils í eigu stefnenda en síðan séu varnir gagnstefnanda þær að stefnandi eigi ekki kröfuna. Slíkar varnir segir gagnstefndi að gangi ekki upp. Ekki þurfi framsal á kröfu þegar um samruna sé að ræða þar sem eignasafn leggist til sameiginlegs aðila.

Gagnstefndi segir að þess sé og að geta að víxlar geti gengið manna á milli án þess að framselja þurfi þá sérstaklega í hvert skipti, sbr. 11., sbr. 14., sbr. 16. gr. víxillaga nr. 93/1933. Víxill geti gengið á milli án þess að árita þurfi hann um framsal. Sá sem hafi víxilinn undir höndum sé réttur eigandi hans og beri greiðanda, útgefanda og/eða ábekingum að greiða víxilinn. Gagnstefndi segist því telja mótmæli gagnstefnenda um annað ekki eiga við í málinu.

Gagnstefndi segir að gagnstefnendur byggi kröfur sínar á því að „samkomulag um notkun ábyrgðar á skuldum einstaklinga“ eigi við þar sem í umboði til útfyllingar víxilsins komi fram texti um að aðilar hafi kynnt sér þetta samkomulag. Þetta samkomulag hafi gagnstefnendur ekki lagt fram. Gagnstefndi kveðst telja þessar varnir komast ekki að með vísan til XVII. kafla laga nr. 91/1991. Þá sé hér um víxil að ræða og um hann gildi víxillög. Þá sé eyðublað það sem vísað sé til vegna umboðs, staðlað eyðublað og verði að skoða það sem slíkt. Ljóst sé að greiðandi víxilsins sé fyrirtæki en samkvæmt umræddu samkomulagi þurfi ekki að greiðslumeta einstaklinga sem gangast í ábyrgð fyrir fyrirtæki. Kveðst gagnstefndi því telja að samkomulagið gildi ekki um víxil þennan. Þá kveðst gagnstefndi telja tilvísanir gagnstefnenda til dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli E-913/2011 ekki eiga við í málinu enda hafi málsatvik þar verið allt önnur.

Gagnstefndi kveðst vísa til víxillaga nr. 93/1933, sérstaklega II. kafla laganna og þá sérstaklega 11., 14. og 16. gr. þeirra. Þá sé vísað til laga nr. 91/1991, sérstaklega XVII. kafla þeirra. Vegna málskostnaðarkröfu sé vísað til 130. gr. sömu laga. Þá kveðst gagnstefndi vísa til almennra reglna kröfu- og samningaréttar.

Niðurstaða

Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu skuldar samkvæmt víxli. Víxill sá sem málið varðar er að formi til fullgildur víxill samkvæmt lögum nr. 93/1933. Um málið gilda réttarfarsreglur XVII. kafla laga nr. 91/1991.

Ekki hefur verið mótmælt þeirri staðhæfingu stefnanda að víxillinn hafi verið afhentur til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningi stefnda Dregg ehf. Verður miðað við það.

Eins og rakið var hafa eignir og skuldir Sparisjóðs Norðlendinga færzt til stefnanda, með viðkomu í Byr sparisjóði og Byr hf. Hefur ekkert komið fram sem veldur vafa um að stefnandi sé nú réttur eigandi þeirra krafna sem hann byggir á. Í stefnu er aðild málsins, í ljósi þessara aðilaskipta að kröfunni, ekki reifuð sérstaklega. Úr því var bætt af hálfu stefnanda undir rekstri málsins og verður, meðal annars í ljósi dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 46/2012, talið að það hafi stefnanda verið unnt. Stefndu Ari Axel og Hólmfríður hafa ekki, eftir að stefnandi lagði fram gögn um aðilaskiptin, reifað frekar þá málsástæðu að heimildir stefnanda til málshöfðunar brjóti í bága við ákvæði II. kapítula víxillaga og ekki heldur fært fram rök fyrir því að ákvæði VI. eða XI. kapítula veiti þeim vörn gegn kröfum stefnanda. Voru af hálfu þessara stefndu ekki hafðar uppi neinar nýjar varnir eftir að stefnandi lagði fram gögn um aðilaskiptin.

Stefndu Ari Axel og Hólmfríður vísa í greinargerð sinni til tiltekins héraðsdóms máli sínu til stuðnings, en atvik þar hafi verið eðlislík þeim sem hér séu. Í því máli var einkahlutafélagi og tveimur sjálfskuldarábyrgðarmönnum þess stefnt til greiðslu skuldar, og voru ábyrgðarmennirnir sýknaðir í héraði. Þeim héraðsdómi var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands sem í dómi sínum í máli nr. 161/2012 tók ekki afstöðu til þeirra málsástæðna sem lutu að ætluðum skyldum fjármálastofnunar vegna samkomulags á notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en sýknaði ábyrgðarmennina af öðrum ástæðum. Þykir umræddur dómur ekki hafa fordæmisgildi í þessu máli.

Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu að víxilhafi hafi af ásettu ráði viljað baka stefndu tjón, eða að brotið hafi verið gegn ákvæðum innheimtulaga.

Eins og áður segir er málið rekið samkvæmt réttarfarsreglum XVII. kafla laga nr. 91/1991. Komast ekki aðrar varnir að en greinir í 118. gr. laganna. Málsástæður þess efnis að víxilhafi hafi átt að afhenda víxilinn eftir útgáfu tryggingarbréfs en ella átt að upplýsa stefndu um að það hygðist hann ekki gera, að sú ábyrgð sem víxlinum hafi verið ætlað að tryggja sé niður fallin, að ábyrgðin sé ekki gild þar sem ekki hafi verið fylgt ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, og að ógilda beri samning aðila vegna einstakra ákvæða samningalaga, komast ekki að í víxilmáli gegn andmælum stefnanda.

Andmæli stefndu við vaxtakröfu stefnanda eru engum lagarökum studd.

Með vísan til framanritaðs hafa ekki komið fram neinar varnir í aðalsök sem koma í veg fyrir að stefnukrafa verði tekin til greina og verður það gert svo sem í dómsorði segir.

Kröfur gagnstefnenda í gagnsök eru því marki brenndar að þar er leitazt við að koma að í víxilmáli vörnum sem ekki komast þar að gegn andmælum víxilhafa. Í 4. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991 er getið um þær gagnkröfur sem koma má að til sjálfstæðs dóms í víxilmáli, en kröfur gagnstefnenda í gagnsök eru af öðrum toga. Þegar á þetta er horft þykir efnismeðferð ekki komið við í gagnsök og verður kröfum gagnstefnenda vísað frá dómi.

Þegar á allt er horft verður stefndu Ara Axel og Hólmfríði gert að greiða stefnanda í sameiningu 376.500 krónur í málskostnað en við ákvörðun hans er meðal annars horft til þess að annað víxilmál er rekið milli sömu aðila. Þá hefur verið litið til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Dregg ehf. verður gert að greiða hluta málskostnaðarins in solidum með þeim stefndu Ara Axel og Hólmfríði eins og nánar segir í dómsorði.

Af hálfu stefnanda fór Stefán Bj. Gunnlaugsson hrl. með málið. Stefán Geir Þórisson hrl. fór með málið af hálfu stefndu Ara Axels og Hólmfríðar framan af, en þau gættu sjálf hagsmuna sinna við aðalmeðferð málsins.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Aðalstefndu, Ari Axel Jónsson, Hólmfríður G. Þorleifsdóttir og Dregg ehf., greiði aðalstefnanda, Íslandsbanka hf., in solidum 207.545.067 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. maí 2011 til greiðsludags, allt að frádregnum 36.036.798 krónum sem dragast skulu frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi 21. febrúar 2013.

Gagnsök er vísað frá dómi.

Aðalstefndu Ari Axel og Hólmfríður greiði aðalstefnanda in solidum 376.500 krónur í málskostnað. Þar af greiði Dregg ehf. in solidum með þeim 62.750 krónur.