Hæstiréttur íslands

Mál nr. 172/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fyrirsvar
  • Málsástæða
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 2010.

Nr. 172/2010.

Stjórn SevenMiles ehf.

samkvæmt tilkynningu

til fyrirtækjaskrár 2. júlí 2009

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

stjórn SevenMiles ehf.

samkvæmt tilkynningu

til fyrirtækjaskrár 9. október 2009

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Kærumál. Fyrirsvar. Málsástæða. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem  bú S ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Greindi málsaðila á um hvor þeirra væri rétt stjórn S ehf. Fram kom í dómi Hæstaréttar að málatilbúnaður sóknaraðila væri einkum reistur á því að skuldir félagsins hafi verið að fullu uppgerðar og bankinn S því enga heimild haft til að leysa til sín hlutabréf félagsins í skjóli handveðréttar í þeim. Í engu væri vikið að þessu í hinum kærða úrskurði, en nauðsynlegt væri að leysa úr því hvort bankinn hafi haft heimild til að ganga að veðinu til að fá skorið úr um hver færi með stjórn félagsins og um leið hvort beiðni um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta hafi verið sett fram af þar til bærum fyrirsvarsmanni fyrir hönd félagsins. Samkvæmt þessu væri úrlausn héraðsdómara svo áfátt að óhjákvæmilegt væri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2010, þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem bú SevenMiles ehf. var með úrskurði héraðsdóms 16. nóvember 2009 tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila fyrir hans hönd. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til q. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að endurupptaka framangreint mál. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að „Pétri Þór Halldórssyni ... verði gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað“.

Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort bú félagsins SevenMiles ehf. skuli tekið til gjaldþrotaskipta og hefur úrskurðum héraðsdóms um það tvívegis áður verið skotið til Hæstaréttar. Fyrri dómur réttarins féll 10. desember 2009 í máli nr. 680/2009, og var því vísað frá Hæstarétti. Í annað sinn felldi rétturinn dóm á ágreining aðilanna 11. febrúar 2010 í máli nr. 49/2010, sem laut að því hvort endurupptaka skyldi mál, þar sem bú félagsins hafði með úrskurði héraðsdóms 16. nóvember 2009 verið tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurður héraðsdóms var í það sinn ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný. Deiluefni málsins er nánar lýst í áðurnefndum dómum réttarins og greint frá hverjir telja sig vera eigendur hlutafjár í nefndu félagi og vera í forsvari fyrir það.

Í forsendum dóms Hæstaréttar í síðarnefnda málinu segir að ekki verði leyst úr kröfu sóknaraðila um endurupptöku nema fyrst sé tekin afstaða til þess hvor málsaðila fari með stjórn umrædds félags, en í þeim úrskurði héraðsdóms, sem þá var til endurskoðunar, hafi ekki verið tekin afstaða til þess lykilatriðis í málinu. Héraðsdómari kvað upp úrskurð á ný 25. febrúar 2010, svo sem áður var getið. Forsendur fyrir niðurstöðu í þeim úrskurði, sem nú er til úrlausnar, eru að öllu leyti eins og í fyrri úrskurði að því frátöldu að í niðurlagi hans er bætt við einni línu um að hluthafafundur 8. október 2009 hafi verið lögmætur og ákvarðanir, sem þar voru teknar. Málatilbúnaður sóknaraðila fyrir gagnstæðri niðurstöðu er einkum reistur á því að hann hafi fært að því gild rök, studd gögnum, að skuldir félagsins hafi verið að fullu uppgerðar og Sparisjóðabankinn hf. því enga heimild haft til þess að leysa til sín hlutabréfin í skjóli handveðréttar í þeim. Að þessu er í engu vikið í hinum kærða úrskurði, en í dómi Hæstaréttar í máli nr. 49/2010 felst að nauðsynlegt var að leysa úr því hvort bankinn hafi haft heimild til að ganga að veðinu til að fá skorið úr um hver færi með stjórn félagsins og um leið hvort beiðni 12. nóvember 2009 um að bú  þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta hafi verið sett fram af þar til bærum fyrirsvarsmanni fyrir hönd félagsins. Samkvæmt því er úrlausn héraðsdómara svo áfátt að óhjákvæmilegt er að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.

Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af máli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2010.

Með úrskurði dómsins þann 16. nóvember 2009 var bú SevenMiles ehf., kt. 670504-3360, Guðríðarstíg 6-8, Reykjavík, tekið til gjaldþrotaskipta.  Var það gert að beiðni stjórnar félagsins, en beiðnin barst héraðsdómi 12. nóvember 2009. 

Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar þann 27. nóvember.  Með dómi Hæstaréttar 10. desember 2009 var málinu vísað frá réttinum. 

Með bréfi og greinargerð, dags. 15. desember 2009, var leitað endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi.  Krafa um endurupptöku var gerð í nafni stjórnar Sevenmiles ehf.  Andmæli voru höfð uppi af stjórn Sevenmiles ehf.  Var leyst úr málinu með úrskurði 12. janúar 2010.  Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar.  Með dómi Hæstaréttar 11. febrúar sl. var úrskurðurinn ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.  Málið var tekið fyrir 19. febrúar sl.  Reifuðu aðilar sjónarmið sín og lögðu málið í úrskurð. 

Anna Brynja Ísaksdóttir og Tómas Ottó Hansson voru eigendur alls hlutafjár í SevenMiles ehf.  Hlutabréf þeirra beggja voru öll veðsett Sparisjóðabanka Íslands hf. með handveðsyfirlýsingum, dags. 11. febrúar 2005. 

Hinn 7. október 2009 tilkynnti Sparisjóðabanki Íslands hf. þeim Önnu og Tómasi, svo og stjórn SevenMiles ehf., að bankinn hefði þann dag tekið til sín alla hluti í félaginu með heimild í handveðsamningnum frá 11. febrúar 2005.  Daginn eftir var haldinn hluthafafundur og fyrri stjórnarmönnum vikið úr stjórn félagsins og nýir kosnir í þeirra stað.  Var Hjördís Edda Harðardóttir kosin í stjórn og Jón Ármann Guðjónsson kosinn varamaður.  Hann var jafnframt skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi.  Var fundargerðin send fyrirtækjaskrá og er árituð um móttöku 9. október 2009. 

Báðir aðilar þessa máls telja sig rétta stjórn einkahlutafélagsins.  Sá þeirra sem krefst endurupptöku málsins verður hér eftir nefndur sóknaraðili.  Hefur hann í áðurnefndum dómum Hæstaréttar verið kallaður Stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 2. júlí 2009.  Sá sem mótmælir endurupptöku verður nefndur varnaraðili.  Hefur hann í áðurnefndum dómum Hæstaréttar verið kallaður Stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 9. október 2009.  Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. 

Varnaraðili krafðist gjaldþrotaskipta á búi félagsins með bréfi dags. 12. nóvember 2009.  Þá lá frammi vottorð fyrirtækjaskrár, dags. 12. október 2009, þar sem sagði að í stjórn félagsins sæti Hjördís Edda Harðardóttir og að Jón Ármann Guðjónsson væri varamaður í stjórn, framkvæmdastjóri og prókúruhafi.  Hjördís Edda ritaði undir beiðnina og Jón Ármann mætti í dómi fyrir fyrirtöku hennar. 

Samkvæmt lýsingu í gjaldþrotabeiðni stóð félagið í miklum skuldum við Sparisjóðabankann.  Átti bankinn handveð í hlutabréfum í félaginu.  Segir að hann hafi tekið yfir allt hlutafé í félaginu í skjóli heimilda sinna. 

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki verið bær til að setja fram kröfu um gjaldþrotaskipti. Allar kröfur Sparisjóðabankans á hendur félaginu hafi verið að fullu greiddar þegar gengið hafi verið að hlutunum í félaginu sjálfu.  Hafi bankinn því ekki haft heimild til að halda hluthafafund og kjósa nýja stjórn. 

Ennfremur telur sóknaraðili að hluthafafund hafi ekki verið hægt að boða án aðkomu stjórnar félagsins.  Hafi hluthafafundurinn því verið ólögmætur.

Loks bendir sóknaraðili á að forkaupsréttur hluthafa hafi ekki verið virtur.  Samkvæmt samþykktum félagsins eigi hluthafar forkaupsrétt og hafi tveggja mánaða frest til að beita þeim rétti, eftir að þeir fá tilkynningu um tilboð. 

Varnaraðili bendir á að yfirtaka Sparisjóðabankans á hlutum í Sevenmiles hafi byggst á handveðsyfirlýsingum eigenda hlutabréfanna.  Í yfirlýsingum þessum sé einnig að finna heimild til að taka yfir hina veðsettu hluti og umboð til að undirrita framsal á hlutunum.  Veðhafinn hafi gert hvort tveggja. 

Varnaraðili segir að hvorki hann né sóknaraðili eigi aðild að ágreiningnum.  Ekki verði séð hvaðan fyrri stjórn félagsins fái heimild til að hafa uppi málsástæður sem varði hluthafana, eða hvernig leysa megi úr ágreiningnum án þess að deiluaðilar komi nærri.  Varnaraðili segir að deila hluthafa um viðskipti með hlutabréf geti ekki valdið því að að stjórn félags teljist umboðslaus.  Fyrst yrði að hnekkja niðurstöðu hluthafafundar.  Varnaraðili vísar til 71. gr. laga nr. 138/1994 og 25. gr. laga nr. 91/1991. 

Varnaraðili segir að í dómi Hæstaréttar í málinr nr. 680/2009 felist ekki að sóknaraðili eigi rétt á að málið verði tekið upp að nýju. 

Loks vísar varnaraðili til þess að Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi neitað beiðni fyrri hluthafa um breytingu á skráningu stjórnenda félagsins, með bréfi dags. 3. desember 2009. 

Forsendur og niðurstaða

Beiðni um endurupptöku er sett fram í nafni stjórnar SevenMiles ehf.  Í yfir­lýsingu um fyrirsvar segir að lögmaður sóknaraðila fari með mál þetta „fyrir skuldara, í umboði réttmætrar stjórnar SevenMiles ehf.“  Sýnist því skýrt að sóknaraðili telur sig vera stjórn félagsins og að hinir nýju stjórnendur hafi ekki gilda heimild til að fara með málefni félagsins.  Beiðnin er því réttilega sett fram í nafni félagsins. 

Sóknaraðili telur að Sparisjóðabankinn hafi fengið allar kröfur sínar greiddar að fullu, áður en hann gekk að veðum í hlutabréfum í sóknaraðila.  Þessa málsástæðu verða þeir hluthafar sem telja sig hlunnfarna að hafa uppi.  Gögn málsins bera ekki annað með sér en að Sparisjóðabankinn hafi haft formlega rétta heimild til að ganga að veðunum og getur félagið ekki átt aðild að frekari ágreiningi um þetta efni. 

Sparisjóðabankinn var eftir framsal hlutabréfa í félaginu orðinn eini hluthafinn.  Því var ekki nauðsynlegt að gæta formsatriða við boðun hluthafafundar, sbr. til hlið­sjónar 2. mgr. 55. gr. laga nr. 138/1994.  Enginn hafði lýst því yfir að hann beitti forkaupsrétti að hlutabréfunum og því var Sparisjóðabankinn eigandi þeirra.  Frestur til að beita forkaupsrétti hindrar ekki að eigendaskipti verði að hlutum.  Var hluthafa­fundurinn 8. október 2009 lögmætur og þær ákvarðanir sem þar voru teknar.  Var Hjördís Edda Harðardóttir þar kosin í stjórn félagsins eins og áður segir.  Sat hún eftir fundinn í stjórn félagsins og Jón Ármann Guðjónsson var framkvæmdastjóri. 

Að framangreindu virtu verður að fallast á að fyrri stjórn Sevenmiles ehf., sóknaraðili þessa máls, eigi ekki aðild að því að gera kröfur varðandi gjaldþrotaskipti á félaginu.  Verður kröfu um endurupptöku málsins því hafnað.  Fella verður máls­kostnað niður. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð

Kröfu um endurupptöku máls nr. G-1128/2009 er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.