Hæstiréttur íslands
Mál nr. 833/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. desember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. desember nk. kl 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan rannsaki nú meinta nauðgun og frelsissviptingu í húsnæði við [...] í [...] laugardaginn 10. desember sl. Brotaþoli málsins lýsi atvikum á þann hátt að hún hefði farið með X á dvalarstað hans við [...] í [...] að morgni 10. desember sl. Hafi vinur X skutlað þeim á dvalarstað X þar sem þau hefðu stundað kynlíf með samþykki beggja. Hafi X síðan orðið pirraður af því hann hafi ekki fengið sáðlát við samfarirnar. Brotaþoli hafi þá viljað fara heim til sín en X hafi þá orðið viðskotaillur og ekki leyft henni að fara. Brotaþoli hafi þá farið í bað. Þar sem hún var í baði hafi X gefið henni tvo kosti, annað hvort að "totta á honum tittlinginn" eða leyfa honum að "ríða sér í endaþarm". Brotaþoli segist hafa harðneitað kærða en hann brugðist illur við og rekið henni bylmings högg á vangann, farið ofan í baðið til hennar, skellt brotaþola á fjórar fætur og haft við hana endaþarmsmök. Brotaþoli kvaðst hafa öskrað á kærða að hætta og gert honum grein fyrir að hún fyndi mikið til en hann hefði ekki hætt heldur hafi hann rifið fast í hár hennar. Brotaþoli hafi öskrað og grátið og kærði sagt henni að hætta að gráta og haldið áfram. Hann hafi síðan hætt án þess að fá fullnægingu. Brotaþoli hafi sagst vilja fara heim en kærði neitað henni um það og sagt að hún fengi ekki að fara fyrr en hann hefði fengið fullnægingu. Brotaþoli segi að kærði hafi þá tekið í hana og lyft henni á axlirnar á sér og farið með hana inn í svefnherbergi hans og lagt hana á rúmið þar sem hann hafi þvingað hana til kynmaka gegn hennar vilja. Brotaþoli kvaðst hafa öskrað og grátið og beðið hann um að hætta en kærði hafi brugðist við með því að glotta, horft á hana gráta og beðið hana um að gráta hærra. Kærði hafi að lokum hætt og brotaþoli upplifað að kærði hafi áttað sig á því hvað hann væri að gera og hafi hann þá haft munnmök við brotaþola. Hann hafi ítrekað spurt brotaþola hvort henni fyndist sem hegðun hans væri nauðgun og hann síðan farið að gráta. Kærði hafi síðan fallist á að leyfa henni að fara heim klukkan 21 í gærkvöldi og hann þá fengið vin sinn til að skutla henni. Eftir að heim var komið hafi brotaþoli hringt í systur sína sem hafi komið til hennar og þær farið saman á neyðarmóttöku landspítalans og í kjölfarið gefið skýrslu hjá lögreglu.
Í samtali við rannsóknarlögreglumann á Neyðarmóttöku hafi brotaþoli lýst því að eftirlitsmyndavélakerfi væri inni í húsnæðinu.
Í vottorði frá neyðarmóttöku Landspítalans komi fram að við skoðun hafi brotaþoli verið með áverka á endaþarmi og hún hafi einnig verið blá og marin á báðum hnjám.
Snemma að morgni 12. desember hafi lögregla handtekið kærða á dvalarstað hans og framkvæmt húsleit í kjölfarið. Við húsleitina hafi fundist brjóstahaldari og hár á baði sem telja megi líklegt að sé af brotaþola. Þá hafi verið lagt hald á upptökuvél sem beint sé að svefnherbergi kærða, tölvur og nokkra síma en tækin séu talin geta varpað ljósi á málsatvik. Við húsleitina hafi einnig fundist rúmar 5.000.000 kr. í reiðufé, talsvert magn af ætluðum fíkniefnum og mikið magn stera.
Tekin hafi verið skýrsla af kærða þar sem hann neiti sök að því er varðar nauðgunina og frelsissviptinguna og segi hann að það sem honum og brotaþola fór á milli hafi verið gert með samþykki þeirra beggja. Þá hafi kærði gefið skýringar á þeim peningum sem fundust á heimili hans sem gefi tilefni til frekari rannsóknar, en taka þurfi skýrslur af einstaklingum og þá vitnum sem hann segist tengjast þessum peningum, en kærði hafi sagt að 3.000.000 kr. hefði hann fengið að láni hjá nafngreindum manni en ekki hafi náðst í þann mann og því eigi enn eftir að taka skýrslu af honum. Þá hafi kærði lýst því að hann hafi fengið 2.500.000 kr. fyrir sölu á bifreið móður sinnar til vinar síns. Ekki hafi náðst í þann vin hans og enn eigi eftir að taka skýrslu af móður hans og vini hans vegna þessa. Þegar lögregla hafi óskaði eftir því við kærða að fá að skoða innihald þeirra tækja sem haldlögð voru á heimili hans hafi kærði sagt að hann veitti ekki heimild fyrir því og neitað því jafnframt við aðra skýrslutöku 14. desember s.l.
Hvað varðar tölvur sem fundust á heimili kærða hafi hann sagt að hann gæti ekki látið lögreglu hafa lykilorðin að þeim þar sem hann væri með þær í láni frá vinum sínum, sem hann nafngreindi ekki og þyrfti að fá að ræða við þá til að fá lykilorðin.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-[...]/2016 frá 12. desember s.l. hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms komi fram að eftir eigi að yfirheyra vitni, rannsaka muni og tæki sem haldlögð hafi verið á heimili kærða sem og bera upplýsingar sem í þeim kunni að felast undir kærða. Ljóst sé að sömu rannsóknarhagsmunir séu enn til staðar.
Kærði hafi ítrekað neitað því því að veita lögreglu aðgang að efni úr eftirlitsmyndavélakerfi sem sé í húsnæðinu sem hið ætlaða brot átti sér stað að [...]. Tölvurannsóknardeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vinni nú að því að ná myndefni úr kerfinu, en þar sem þeir hafi ekki lykilorð að kerfinu taki það langan tíma og sé talið að það taki einhverja daga. Erfiðlega hafi gengið að hafa upp á systur brotaþola og því hafi skýrsla ekki verið tekin af henni þegar krafan er gerð. Við skýrslutöku undir rannsókn málsins hafi kærði minnst á einstaklinga sem eiga að tengjast þeim peningaseðlum sem fundust á heimili kærða. Lögreglan hafi unnið sleitulaust að því að hafa uppi á vitnum. Það hafi ekki tekist og því hafi vitni ekki verið boðuð til skýrslutöku.
Kærði liggi undir rökstuddum grun um nauðgun, frelsissviptingu, fíkniefnalagabrot og peningaþvætti en framangreind brot geti varðað fangelsi allt að 16 árum. Rannsókn málsins sé ekki langt á veg komin. Kærði neiti sök. Ljóst sé að brotaþoli skýri frá grófu kynferðisofbeldi kærða í hennar garð og lýsi því að hafa verið haldið á heimili kærða gegn hennar vilja. Af gögnum frá neyðarmóttöku megi sjá að brotaþoli hafi reynst með umtalsverða áverka sem samræmist lýsingum brotaþola af því ofbeldi sem kærði á að hafa beitt hana. Ljóst sé að ef kærði gengur laus þá geti hann haft mikil áhrif á rannsókn málsins m.a. með því að setja sig í samband við vitni sem tengjast málinu og komið undan sönnunargögnum sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar. Þá þyki nauðsynlegt að bera undir kærða sjálfstætt þau gögn sem lagt hafi verið hald bæði að því er varðar meinta nauðgun og fíkniefnabrotið. Samkvæmt framansögðu sé brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins á þessu stigi og sé það mat lögreglu að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot sem varða fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er ekki langt komin. Upplýst hefur verið að brotaþoli hafi viljað draga til baka framburð sinn um að kærði hafi nauðgað henni. Með hliðsjón af áverkum brotaþola og öðru í rannsóknargögnum málsins er kærði samt sem áður enn undir rökstuddum grun um meint brot. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. desember 2016 klukkan 16.
Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.