Hæstiréttur íslands
Mál nr. 368/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Málshöfðunarfrestur
- Málsástæða
- Lagarök
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 13. júní 2012. |
|
Nr. 368/2012.
|
Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Bláhöfða ehf. og Norðlingabraut 8 ehf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Málshöfðunarfrestur. Málsástæður. Lagarök. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu F hf. á hendur B ehf. og N ehf. um að rift yrði tiltekinni ráðstöfun. Deila aðila laut að því hvort málshöfðunarfrestir samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, hefði verið liðinn er málið var höfðað. Hæstiréttur vísaði til dóms réttarins frá 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011. Talið var að í málinu hefði sex mánaða málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 í fyrsta lagi geta lokið 22. apríl 2010 en þar sem hann hefði ekki verið liðinn þegar fresturinn var framlengdur í 24 mánuði með gildistöku laga nr. 125/2009 yrði þeim lögum beitt um frestinn og hefði málið verið höfðað innan þess frests. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2012, þar sem vísað var frá dómi varakröfu sóknaraðila um að rift verði þeirri ráðstöfun sem fólst í skuldskeytingu og skilmálabreytingu á lánssamningi nr. 717191 milli málsaðila 30. janúar 2009. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka áðurgreinda kröfu hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar „úr hendi beggja varnaraðila.“
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, hvor fyrir sitt leyti.
Krafa varnaraðila um að varakröfu sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi er á því reist að málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað 20. október 2011. Var fallist á þetta í hinum kærða úrskurði.
Með lögum nr. 44/2009, sem öðluðust gildi 22. apríl 2009, voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjarmálafyrirtæki. Meðal annars var í lög leitt nýtt ákvæði í 4. mgr. 103. gr. laganna þess efnis að sé ekki sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti.
Þann 23. júní 2009 krafðist stjórn sóknaraðila þess við Héraðsdóm Reykjavíkur að bankinn yrði tekinn til slita í samræmi við 3. tölulið 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Samkvæmt því ákvæði skal fjármálafyrirtæki tekið til slita eftir kröfu stjórnar þess ef það getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar þess muni líða hjá innan skamms tíma. Héraðsdómur varð samdægurs við kröfunni og var frestdagur við skiptin því sá dagur.
Slitastjórn sóknaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna sem birt var í Lögbirtingablaði 22. júlí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 22. október sama ár. Samkvæmt þágildandi ákvæði 148. gr. laga nr. 21/1991 skyldi höfða dómsmál til að koma fram riftun áður en sex mánuðir væru liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Þó skyldi fresturinn aldrei byrja að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Að óbreyttum lögum hefði málshöfðunarfresturinn því í fyrsta lagi runnið út 22. apríl 2010. Á meðan þeim fresti var enn ólokið, eða 30. desember 2009, öðluðust gildi lög nr. 125/2009. Með þeim var áðurnefndri 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2001 breytt á þann veg að frestur til að höfða riftunarmál við slit fjármálafyrirtækis var lengdur úr sex mánuðum í 24 mánuði. Kröfuna mátti því enn hafa uppi þegar málshöfðunarfresturinn var lengdur. Þar sem frestur til að höfða mál samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 var ekki liðinn þegar málshöfðunarfrestur var lengdur með nýjum lögum verður þeim lögum beitt um frestinn, sbr. dóm Hæstaréttar 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011. Gat málshöfðunarfrestinum því í fyrsta lagi lokið 22. október 2011. Eins og að framan er rakið var mál þetta höfðað 20. október 2011 og var það því höfðað innan tilskilins frests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum. Með vísan til þess að úrskurður héraðsdóms 23. júní 2009 um að sóknaraðili yrði tekinn til slita var reistur á 3. tölulið 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 liggur fyrir að skilyrðum 4. mgr. 103. gr. laganna er að öðru leyti fullnægt.
Í héraði var málatilbúnaður sóknaraðila reistur á 141. gr. laga nr. 21/1991 en til vara á 131. gr. sömu laga. Af hinum kærða úrskurði verður ráðið að þar fyrir dómi hafi ekki af hálfu málsaðila verið sérstaklega fjallað um framangreindar breytingar á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 og áhrif þeirra á fresti 148. gr. laga nr. 21/1991 til að höfða mál til riftunar. Þetta eru lagarök að baki málsástæðum sóknaraðila og stendur 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki í vegi að þau komist að fyrir Hæstarétti. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka framangreinda varakröfu sóknaraðila til efnismeðferðar.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Lagt er fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar varakröfu sóknaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankans hf., um að rift verði þeirri ráðstöfun sem fólst í skuldskeytingu og skilmálabreytingu á lánssamningi nr. 717191 milli sóknaraðila og varnaraðila, Bláhöfða ehf. og Norðlingabrautar 8 ehf., 30. janúar 2009.
Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðila 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2012.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu 18. apríl sl., er höfðað með stefnu sem birt var stefndu 20. október 2011.
Stefnandi er Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., Lágmúla 6, Reykjavík, en stefndu eru Bláhöfði ehf. og Norðlingabraut 8 ehf., bæði til heimilis að Mörkinni 4, einnig í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru svohljóðandi:
„Þess er krafist aðallega að skuldskeyting og skilmálabreyting á lánasamningi nr. 717191 á dskj. nr. 20 verði dæmd ógild og að stefnda Bláhöfða ehf. verði gert að greiða stefnanda kr. 171.635.636 með dráttarvöxtum frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að rift verði þeirri ráðstöfun sem fólst í framangreindu skjali sem var að stefndi Norðlingabraut 8 ehf. varð, í stað stefnda Bláhöfða ehf., skuldari láns nr. 717191, upphaflega að fjárhæð kr. 182.320.766, útgefið 1.11.2008 til stefnanda af stefnda Bláhöfða ehf., ásamt síðari skilmálabreytingum, og að stefnda Bláhöfða ehf. verði gert að greiða stefnanda kr. 171.635.636 með dráttarvöxtum frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.
Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar að skaðlausu.“
Stefndu krefjast sýknu af aðalkröfu stefnanda, en aðallega frávísunar á varakröfunni. Þá krefjast þeir málskostnaðar að mati dómsins.
Til úrlausnar er hér krafa stefndu um frávísun á varakröfu stefnanda.
II.
Stjórn Frjálsa fjárfestingarbankans hf. krafðist þess 23. júní 2009 að bankinn yrði tekinn til slita í samræmi við 3. tl. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfuna og skipaði bankanum slitastjórn. Frestdagur var 23. júní 2009.
Í greinargerð stefndu kemur fram að stefnandi hafi átt dótturfélag sem bar heitið Fasteignafélagið Hlíð ehf. Tilgangur þess hafi verið kaup, sala, leiga, bygging og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Með bréfi 1. júní 2006 tilkynnti Reykjavíkurborg að fallist hefði verið á selja félaginu byggingarrétt að lóðinni nr. 10 við Norðlingabraut. Skömmu síðar, 3. júlí sama ár, seldi Fasteignafélagið Hlíð ehf. stefnda Bláhöfða ehf. lóðar- og byggingarrétt sinn að lóðinni. Stærstur hluti kaupverðs var greiddur með láni frá stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 714104, upphaflega að jafnvirði 96.000.000 króna. Í 9. gr. lánssamningsins kemur fram að Bláhöfði ehf. fái ekki afsal fyrir eigninni fyrr en lánið hafi verið greitt upp að fullu.
Með samningum 8. og 11. desember 2006 ákváðu Fasteignafélagið Hlíð ehf., stefnandi og stefndi Bláhöfði ehf. að fara í lóðaskipti með tilheyrandi flutningi á lánum. Í þeim skiptum skilaði stefndi Bláhöfði ehf. lóðinni nr. 10 við Norðlingabraut, en fékk í staðinn lóð nr. 8 við Norðlingabraut frá Fasteignafélaginu Hlíð ehf. Í kaupsamningi kom fram að trygging fyrir lánssamningnum við stefnanda yrði framvegis lóðin nr. 8 við Norðlingabraut. Samkvæmt gögnum málsins er stefnandi enn skráður umráðamaður lóðarréttinda að Norðlingabraut 8 og hefur stefnandi ekki gefið út afsal til stefnda.
Með lánssamningi 1. nóvember 2008, nr. 717191, tók stefndi Bláhöfði ehf. lán hjá stefnanda að fjárhæð 182.320.766 krónur, og var lánsfjárhæðinni ráðstafað til að greiða upp lán samkvæmt lánssamningi nr. 714104. Lánssamningi þessum var skuldskeytt yfir á stefnda Norðlingabraut 8 ehf. 30. janúar 2009, samfara því sem skilmálum lánssamningsins var lítillega breytt. Trygging fyrir láninu var áfram óbreytt, en til viðbótar lagði Norðlingabraut 8 ehf. fram að handveði 20.000.000 króna bankainnstæðu.
Stefnandi heldur því fram að með skuldskeytingu þessari hafi skuldir stefnda Bláhöfða ehf. við bankann verið felldar niður, en skuldin þess í stað færð yfir á eignalaust félag, þ.e. Norðlingabraut 8 ehf. Að auki byggir hann á því að byggingarrétturinn að Norðlingabraut 8 sé orðinn verðlaus. Varakrafa hans, um riftun samnings um skuldskeytingu og skilmálabreytingu á lánssamningi nr. 717191, er annars vegar reist á 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara á 131. gr. sömu laga.
III.
Krafa stefndu um frávísun á varakröfu stefnanda byggist á því að málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sé löngu liðinn. Þegar stefnandi var tekinn til slita hafi málshöfðunarfrestur verið sex mánuðir frá lokum kröfulýsingafrests. Þar sem innköllun hafi verið birt í Lögbirtingablaði 22. júlí 2009 og kröfulýsingafrestur verið þrír mánuðir, hafi sá frestur runnið út 22. október það ár. Þann dag hafi hins vegar tekið við sex mánaða málshöfðunarfrestur, eða til 22. apríl 2010. Þar sem stefnandi hafi ekki þingfest mál þetta innan þess tíma beri að vísa varakröfu hans frá dómi.
Stefndu taka fram að þrátt fyrir að málshöfðunarfrestur hafi verið lengdur í tólf mánuði með lögum nr. 31/2010, sem tóku gildi 27. apríl 2010, eða eftir að málshöfðunarfrestur í máli þessu rann út, breyti það engu um þá niðurstöðu að vísa beri kröfunni frá dómi.
IV.
Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið og honum úrskurðaður málskostnaður að mati dómsins. Kröfunni til stuðnings vísar hann til þess að eðlilegt sé í tilviki sem þessu, þar sem um mjög stórt slitabú sé að ræða, að málshöfðunarfrestur sé lengri en berum orðum sé tekið fram í 148. gr. laga nr. 21/1991. Slitastjórn sé fámenn og þurfi á skömmum tíma að setja sig inn í mikinn fjölda skjala og samninga. Því verði að ætla henni meiri tíma til slíks, enda hafi slitastjórnin fyrir slitameðferð ekki haft neina vitneskju um efni eða atvik að baki þeim samningum sem hér sé tekist á um. Slitastjórn stefnanda hafi því ekki átt þess kost að gera riftunarkröfuna fyrr.
Stefnandi leggur einnig áherslu á að samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, með síðari breytingum, beri öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Ákvæði 148. gr. laga nr. 21/1991 þrengi þá heimild verulega. Verði að túlka ákvæðið með hliðsjón af því, um leið og taka verði tillit aðstæðna í hverju tilviki og möguleika slitastjórnar á að koma fram riftun innan hóflegs tíma eftir að hún átt þess kost.
V.
Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., skal dómsmál höfðað til að koma fram riftun áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Með lögum nr. 31/2010, sem tóku gildi 27. apríl 2010, var nýju bráðabirgðaákvæði bætt við lög nr. 21/1991, og fól það m.a. í sér að málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laganna var tímabundið lengdur í tólf mánuði.
Eins og áður segir var mál þetta höfðað með birtingu stefnu 20. október 2011, eða rétt tæpum tveimur árum eftir lok kröfulýsingarfrests við slitameðferð varnaraðila, sem var 22. október 2009. Þar sem lög nr. 31/2010 öðluðust ekki gildi fyrr en 27. apríl 2010, var þá í gildi sex mánaða málshöfðunarfrestur frá lokum kröfulýsingafrests. Í máli þessu var sá frestur á enda 22. apríl 2010.
Engin gögn styðja þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi ekki átt þess kost að gera riftunarkröfuna fyrr en raun ber vitni. Stoðar í því efni ekki að vísa til þess að slitabú stefnanda sé mikið að vöxtum og slitastjórn fámenn. Minnt er á að samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum hvílir sú skylda á skiptastjóra að taka yfir allar eignir og gögn þrotabús þegar eftir að hann er skipaður, m.a. í því skyni að ganga úr skugga um hvort þrotamaður hafi viðhaft ráðstafanir sem gætu verið riftanlegar. Hið sama gildir um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 44/2009. Ekki stoðar stefnanda heldur að vísa til 70. gr. stjórnarskrár, máli sínu til stuðnings, enda girðir ákvæði 148. gr. laga nr. 21/1991 ekki fyrir að riftunarkrafa verði höfð uppi í dómsmáli. Ákvæðið mælir hins vegar fyrir um að slíka kröfu skuli gera innan ákveðinna tímamarka, enda brýnir hagsmunir því tengdir að ekki sé dregið úr hófi að slík krafa sé gerð. Í ljósi þessa verður fallist á það með stefndu að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn þegar stefnandi höfðaði mál þetta til að koma fram riftun þeirrar ráðstöfunar sem varakrafa hans hljóðar um. Er varakröfunni því vísað frá dómi.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.
Úrskurðinn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varakröfu stefnanda, Frjálsa fjárfestingarbankans hf., um að rift verði þeirri ráðstöfun sem fólst í skuldskeytingu og skilmálabreytingu á lánssamningi nr. 717191 milli stefnanda og stefndu, Bláhöfða ehf. og Norðlingabrautar 8 ehf., 30. janúar 2009, er vísað frá dómi.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisúrlausnar.