Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2013
Lykilorð
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Kærumál
|
|
Þriðjudaginn 8. janúar 2013. |
|
Nr.
7/2013. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli
Ásgeir Hermannsson fulltrúi) gegn X (Bjarni
Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga
nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi,
á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var
staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir
Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar
2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er
úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að
sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 17. janúar 2013 klukkan 16 og einangrun
meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008
um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður
verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri
tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins
kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða
úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. janúar 2013.
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum hefur
krafist þess fyrir dóminum í dag að kærði X, f. [...], verði með úrskurði gert
að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 17. janúar 2013, kl. 16:00, og að
á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum
segir að embættinu hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs
Eiríkssonar 2. janúar 2013 þess efnis að kærði hefði verið stöðvaður á
tollhliði vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin í fórum sínum við komu
til landsins með flugi frá Varsjá í Póllandi. Við leit tollvarða í farangri
kærða hefðu fundist þrjár dósir af barnapúðri og hefði grunur vaknað hjá
tollvörðum um að dósirnar innihéldu fíkniefni. Við skoðun í Itemiser
greiningarvél tollgæslunnar hefði efnið gefið svörun sem amfetamín.
Í
greinargerð lögreglustjóra segir að efnið hafi verið rannsakað hjá tæknideild
lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar sem niðurstaðan hafi verið sú að um
væri að ræða um 2.002 g af meintu amfetamíni. Þá segir að efnið verði sent til
rannsóknar hjá rannsóknarstofnun Háskóla Íslands og að beðið væri niðurstöðu
þeirrar rannsóknar.
Þá segir í
greinargerðinni að kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins. Hafi hann borið
um að hafa verið að koma með barnadót frá Póllandi að beiðni vinar síns, en
dótið hefði hann átt að afhenda öðrum manni búsettum á Íslandi. Kærði hafi tjáð
lögreglu að hann hefði ekki vitað að í dósunum, sem hann kom með til landsins,
væru fíkniefni. Þá hafi kærði tjá lögreglu að hann hefði komið til Íslands í
atvinnuleit.
Í greinargerðinni
segir að rannsókn málsins sé frumstigi. Verið sé að rannsaka aðdraganda að ferð
kærða til landsins og tengsl hans við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða
erlendis. Þá sé verið er að afla upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og
fjármálastofnunum, auk annarra upplýsinga sem lögregla telji að séu mikilvægar
vegna rannsóknar málsins. Telji lögreglan að þau fíkniefni sem kærði hafi komið
með til landsins bendi til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og
dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.
Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa
áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði
verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hann af hálfu
samverkamanna kærða, gangi hann laus á meðan rannsókn málsins fer fram.
Þess
sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í
gæsluvarðhaldinu samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.
Með
vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga
nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940
og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna
rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi
allt til fimmtudagsins 17. janúar 2013 og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.
Eins og rakið hefur er kærði undir
rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Haldi kærði óskertu
frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma
sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Með vísan til a-liðar
1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð
sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og
nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður
Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X,
sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 17. janúar 2013, kl. 16:00.
Kærði
sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.