Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2008
Lykilorð
- Líkamsárás
- Dómtúlkur
- Dómur
- Sönnunarmat
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2008. |
|
Nr. 13/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari) gegn Jens R. Kane (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Dómtúlkur. Dómar. Sönnunarmat. Ómerking héraðsdóms.
J var ákærður fyrir líkamsárás gagnvart V. Við skýrslugjöf V, sem er spænskumælandi, í héraði var fenginn til starfa túlkur sem ekki hafði hlotið löggildingu til að gegna því starfi. Fyrir Hæstarétti bar ákærði brigður á réttmæti þýðingar á skýrslu V. Af hálfu ákæruvaldsins var því ekki haldið fram að ekki hafi verið kostur á löggiltum dómtúlki, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá var í héraðsdómnum ályktað um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru án þess að afstaða hafi verið tekin til allra atriða sem þar greina. Eftir uppkvaðningu héraðsdómsins mætti vitni, sem gaf skýrslu í héraði, á ný fyrir dóm og greindi frá atriðum sem það var ekki innt eftir hið fyrra sinni, en ekki var talið loku fyrir það skotið að þau atriði sem þar komu fram gætu haft áhrif við mat á sönnunargildi framburðar V. Að öllu þessu gættu var talið óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Þá þótti rétt að héraðsdómarinn neytti heimildar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu með sér í dómi við nýja meðferð málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar á ný, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi eða hún lækkuð.
Eins og í héraðsdómi greinir er ákærða gefin að sök líkamsárás með því hafa aðfaranótt 23. janúar 2007 á heimili sínu ráðist á nánar tiltekinn hátt að Veronicu Virginiu Sarcos Rincon og veitt henni tilgreinda áverka, en ætlað brot ákærða er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Veronica, sem mun vera mælandi á spænsku og ensku en ekki íslensku, gaf munnlega skýrslu á fyrstnefnda tungumálinu við aðalmeðferð málsins í héraði og var fenginn þar til starfa túlkur, sem ekki hafði hlotið löggildingu til að gegna því. Fyrir Hæstarétti hefur ákærði borið brigður á réttmæti þýðingar á skýrslunni, svo sem hún birtist í endurriti úr þinghaldi. Af hálfu ákæruvaldsins er því ekki haldið fram að ekki hafi verið kostur á löggiltum dómtúlki, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Úr annmarka að þessu leyti hefði að nokkru mátt bæta með því að fá slíkan túlk til að hlýða á hljóðritun skýrslunnar til að ganga úr skugga um réttmæti þýðingarinnar, en það var ekki gert. Til þess verður og að líta að í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er tiltekið í nokkrum atriðum hvað sannað teljist um þær sakir, sem ákærði er borinn, en ályktað að því búnu að hann sé sakfelldur samkvæmt ákæru, án þess þó að afstaða hafi verið tekin til allra atriða, sem þar greinir. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur meðal annars eitt vitni, sem gaf skýrslu í héraði, mætt á ný fyrir dóm og greint frá atriðum varðandi málið, sem það var ekki innt eftir hið fyrra sinni, en ekki er loku fyrir það skotið að þau atriði, sem þar komu fram, geti haft áhrif á sönnunargildi framburðar Veronicu. Þegar alls þessa er gætt er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný, en eins og nú er komið er rétt að neytt verði heimildar í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 til að þrír dómarar skipi dóm við nýja aðalmeðferð málsins.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en rétt er að ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar að nýju.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 8. júlí 2007 á hendur Jens R. Kane, [...], Tröllateigi 21, Mosfellsbæ, fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007, að Tröllateig 21 í Mosfellsbæ, ráðist á Veronicu Virginiu Sarcos Rincon, [...], inni á baðherbergi íbúðarinnar, þar sem Veronica dvaldi á heimili hans, og tekið hana þar hálstaki og slegið höfði hennar í vegg, svo slegið hana margsinnis í líkamann á herbergisgangi íbúðarinnar, þannig að hún féll við og þá sparkað í hana liggjandi, allt með þeim afleiðingum að hún tognaði á hálsi og hlaut roða sitt hvoru megin á hálsi, eymsli um brjóstkassa, hrufl og marbletti um ofanverðan brjóstkassa, upp á herðar og út á hægri öxl, eymsli á hægra herðablaði, eymsli um brjósthrygg, sár á hægra hné og eymsli á aftanvert hægra læri.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir nefnd Veronica þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð 500.000 krónur. Gerð er krafa um dráttarvexti á höfuðstól kröfunnar frá 23. janúar til greiðsludags svo og greiðslu frekari kostnaðar vegna gagnaöflunar og rökstuðnings ef þörf krefur.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var lögregla aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007 kl. 04.01 kvödd að Tröllateig 21 í Mosfellsbæ. Í frumskýrslu kemur fram að tilkynnt hafi verið um að eitthvað mikið gengi á í íbúð að Tröllateig. Tekið er fram að Tröllateigur 21 sé fjórbýli, en íbúð sú er um ræddi væri íbúð á jarðhæð til vinstri. Er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi Berglind Hilmarsdóttir, íbúi að Tröllateig 21 veifað lögreglu og gert grein fyrir því að Veronica Virginia Sarcos Rincon væri heima hjá henni, en Berglind byggi í fjórbýlishúsinu við hlið Jens R. Kane, ákærða í máli þessu. Hafi lögreglumenn í upphafi rætt við Veronicu sem sagt hafi frá því að ákærði hafi lamið sig og hent sér út úr íbúðinni. Hafi hún tjáð lögreglu að hún og ákærði ættu heima í íbúðinni við hlið Berglindar. Fram kemur að Veronica hafi verið íklædd gallabuxum og baðslopp. Lögreglumaður hafi verið hjá Veronicu á meðan aðrir lögreglumenn hafi rætt við ákærða. Ákærði hafi lýst því svo að hann hafi deilt við Veronicu og hafi hann viljað að hún færi úr íbúðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa slegið Veronicu og ekkert gert henni. Hún hafi hlaupið út að opnum glugga og öskrað á hjálp eins og verið væri að gera henni eitthvað. Hafi ákærði sagt að hann hafi aðeins sett hendur sínar utan um hana og reynt að ýta henni frá glugganum. Í frumskýrslu kemur fram að ákærði hafi verið með tvær til þrjár húðrispur á hægri handlegg við olnboga. Hann hafi verið með rispur í andliti, eina við hægri augnkrók, eina á nefbroddi og nokkrar á vinstri kinn. Ákærði hafi verið áberandi ölvaður. Veronica hafi tjáð lögreglu að ákærði hafi verið að drekka áfengi í íbúðinni þetta kvöld. Hafi þau farið á veitingastað í Mosfellsbæ. Þau hafi síðan farið til baka í íbúðina og ákærði haldið áfram að drekka á meðan þau hafi horft á sjónvarpið. Um kl. 02.00 hafi hún farið að sofa. Um kl. 03.20 hafi ákærði farið að kasta upp, farið inn í svefnherbergið og vakið Veronicu. Þá hafi hann sagt að hann vildi að hún færi úr íbúðinni. Hafi Veronica tjáð honum að það myndi hún gera strax um morguninn. Hún hafi verið án klæða er þar var komið. Hún hafi náð í slopp. Í kjölfar þessa hafi átök byrjað og borist inn í barnaherbergið. Ákærði hafi byrjað að berja hana og sparka í hana. Hafi hún þá náð að komast inn í baðherbergið. Hafi hann komið á eftir henni og haldið áfram að berja hana. Hafi hann tekið hana föstu kverkataki og haldið því í nokkrar mínútur. Hafi Veronicu fundist sem hún væri að deyja. Eftir þetta hafi ákærði hent henni út úr íbúðinni. Hafi Veronica tjáð lögreglumönnum að hún héldi að hún hafi náð að slá ákærða og sennilega bíta hann í handlegg. Tekið er fram að ekki hafi verið að sjá að Veronica hafi verið ölvuð.
Rætt hafi verið við Berglindi Hilmarsdóttur. Hafi Berglind tjáð lögreglu að hún hafi fengið símtal frá nágranna sínum Bylgju Báru Bragadóttur, en Bylgja byggi á efri hæð til hægri. Hafi Bylgja spurt hvort Berglind heyrði ekki lætin. Hafi Bylgja sagt að hún hafi heyrt konu öskra ,,somebody call police”. Hafi Berglind opnað útihurðina og séð Veronicu sitja á tröppum fyrir utan húsið. Hafi Berglind tjáð lögreglumönnum að hún vissi til þess að eitthvað í líkingu við þetta hafi áður komið fyrir. Jafnframt hafi Berglind tjáð lögreglu að hún sjálf væri mjög hrædd við ákærða er hann væri ölvaður. Hafi Berglind sagt að hún vildi helst ekki að Veronica gisti hjá sér þar sem hún væri hrædd við að ákærði myndi þá brjótast inn til hennar.
Veronicu hafi verið veitt aðstoð við að pakka fatnaði niður í töskur. Í kjölfarið hafi verið farið með Veronicu á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss þar sem hún hafi verið tekin til skoðunar. Eftir það hafi henni verið ekið í Kvennaathvarfið.
Miðvikudaginn 24. janúar 2007 mætti Veronica á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás.
Hlynur Þorsteinsson sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 1. febrúar 2007 ritað læknisvottorð vegna komu Veronicu á slysadeild 23. janúar 2007 kl. 05.15. Hafi hún gert grein fyrir því að sambýlismaður hennar hafi tekið hana kyrkingartaki og henni fundist sem hún hafi misst meðvitund í fáeinar sekúndur. Hann hafi kýlt hana hér og hvar í líkama og þá sér í lagi um ofanvert bak. Þá hafi hún fengið spark í hægra læri og hægri hendi og einnig hafi sambýlismaðurinn hrint henni þannig að hún hafi fallið við og fengið sár á hægra hné. Í vottorðinu kemur fram að við skoðun megi sjá roðasvæði sitt hvoru megin á hálsi sem geti mögulega verið eftir kverkatak. Þá séu svolítil eymsli um brjóstkassa og sjáist töluvert af smáhrufli og nýlegum marblettum hér og þar um brjóstkassa ofanverðan og upp á herðum einkum svo út á hægri öxlina. Þá séu eymsli um hægra herðablað. Loks séu eymsli um brjósthrygg eða langvöðvum þeim sem liggi meðfram hrygg. Á hægri fótlegg sé svolítið sár framan yfir hné. Þá séu nokkur eymsli sem þreifist yfir aftanverðu hægra læri. Greining séu dreifðir yfirborðsáverkar, tognun á brjósthrygg og tognun á hálsvöðvum. Teknar hafi verið ljósmyndir af áverkunum.
Hlynur Þorsteinsson hefur einnig ritað læknisvottorð vegna komu ákærða á slysadeild 28. janúar 2007. Í vottorðinu kemur fram að ákærði hafi tjáð lækni að kona hafi ráðist á hann í heimahúsi 21. janúar 2007. Konan hafi ráðist á ákærða með höggum og spörkum, klóri og biti. Sjá megi mar utanvert við hægri olnboga sem ákærði hafi sagt tilkomið eftir að hann hafi borið fyrir sig hendi til að bera af sér högg. Jafnvel hafi ákærði talið að hann hafi verið bitinn við hægri olnboga. Þar megi sjá allstórt mar sem sigið hafi til. Þá sé ákærði með annað mar við hægri úlnlið innanverðan. Marið við úlnliðinn sé allstórt og væntanlega búið að renna til líkt og blóð geri undir húð. Af þeim sökum gefi það ekki sanna mynd af stærð bletta að mæla þá við komu á deildina. Við skoðun á andliti séu tvær rispur á vinstri kinn sem teygi sig frá efri vör og út á kinn og séu láréttar. Séu þær um 1 til 1 ½ cm hvor að lengd. Rispa sé utanvert við hægri augnkrók. Loks sé alllöng rispa utanvert á vinstri framhandlegg um 5 til 6 cm löng.
Lagt hefur verið fram afrit úr dagbók lögreglu frá 18. október 2006. Þar er fært í dagbók að Veronicu hafi ,,gengið út” með tvær ferðatöskur. Hafi hún ekki átt í nein hús að venda. Hafi lögreglumaður fundið Veronicu í biðskýli fyrir strætisvagna við ,,Kentucky”. Hafi hún tjáð lögreglumanni að hún hafi komið til Íslands til að hefja sambúð. Maðurinn ætti hins vegar við áfengisvandamál að stríða og hafi þeim sinnast af þeim sökum. Væri Veronica ekki reiðubúin að fara aftur heim. Hafi lögreglumaður haft samband við Kvennaathvarfið og væri hún velkomin þangað.
Þá hefur verið lagt verið fram afrit úr dagbók lögreglu frá 17. nóvember 2006. Í færslu kl. 02.25 kemur fram að Unnur biður lögreglu um að koma að heimili sínu þar sem hún hafi talið einhvern vera að snuðra í kringum það. Hafi Unnur hringt stuttu síðar og sagt nágrannakonu sína hafa komið. Sé konan eitthvað lemstruð eftir sambýlismann sinn og óski aðstoðar lögreglu. Lögreglumenn hafi rætt við Unni og nágrannakonuna Veronicu. Hafi Veronica sagt að hún hafi lent í rifrildi og átökum við sambýlismann sinn og að hann væri ölvaður. Minniháttar áverkar hafi verið á Veronicu, aðallega mar og eymsli á höndum. Hafi Veronica óskað eftir að lögregla aðstoðaði hana við að sækja muni sína til ákærða. Farið hafi verð að Tröllateig 21, neðri hæð. Rætt hafi verið við ákærða. Hafi hann þá verið nokkuð ölvaður. Hafi hann tjáð lögreglumönnum að hann hafi lent í rifrildi við Veronicu og átök brotist út. Hafi Veronica bitið ákærða í vinstri þumalfingur. Ákærði hafi verið með sárabindi á vinstri þumalfingri. Hafi ákærði fallist á að Veronica tæki saman helstu muni sína og hafi hún gert það. Hafi Veronicu verið ekið til Unnar að Tröllateig 16 þar sem hún hafi fengið gistingu. Hafi Veronica komið á lögreglustöð 22. nóvember 2006 og velt fyrir sér að leggja fram kæru í málinu. Niðurstaða hennar hafi verið að gera það ekki. Hafi hún sagt að hún hafi rætt við ákærða og þau náð sáttum, ef svo mætti segja. Hafi hún sagt að hún væri flutt út og myndi ekki fara til hans aftur. Þá hafi hún sagt að til væri áverkavottorð ef hún skyldi skipta um skoðun varðandi kæru.
Frammi liggur útskrift frá Flosa Karlssyni lækni á Heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ frá 20. nóvember 2006 vegna Veronicu. Hafi Veronica komið á heilsugæslustöðina í fylgd Unnar Guðjónsdóttur. Fram kemur að Veronica hafi gert grein fyrir því að hún hafi kynnst sambýlismanni sínum 8 mánuðum áður. Hafi hún flúið af heimili sínu eftir að hafa verið barin illa af ákærða 16. nóvember 2006. Hafi hún sagt að hún hafi ekki verið barin áður af sambýlismanni sínum en mánuði fyrir þann tíma hafi hann verið með ofbeldisfulla hegðun og talað til hennar á særandi hátt. Þá hafi hann verið undir áhrifum áfengis. Hafi hún orðið hrædd og farið í Kvennaathvarfið. Hafi hún verið þar í 3 sólarhringa en þar sem sambýlismaðurinn hafi sýnt iðrun hafi hún farið aftur til hans. Þann 16. nóvember hafi hann aftur verið undir áhrifum áfengis. Hafi Flosi skilið Veronicu þannig að sambýlismaðurinn hafi reynt að kæfa hana með því að halda fyrir munn og nef hennar. Í þeim átökum hafi hún bitið hann í fingur eða hendi og hann fengið sár undan. Þá hafi hann haldið í upphandlegg hennar og slegið hana í andlitið með lausu hendinni. Hafi hann gripið í hár hennar og haldið henni þannig. Jafnframt hafi hann reynt að taka utan um brjóstkassa hennar og kremja hana þannig að hún næði varla andanum. Við skoðun sé hún með báða augnabrúnir marðar, sérstaklega þá vinstri. Nef hafi fengið töluvert högg og sé ,,mar bilat.” en í fljótu bragði virðist það óbrotið. Sár sé í munnvikum eftir högg á munn þar sem tennur hafi höggið skarð í slímhúð. Mar sé í hársverði á ,,temporal regio bilat.” og mar á höku vinstra megin. Á upphandleggjum séu fingraför bæði brúnleit merki og grænleit og á upphandleggjum sé jafnframt mar hér og þar, sem og ofanvert á hægra brjósti um 2 x 2 cm. Í viðtalinu sé Veronica lítil í sér. Upplifi hún aðstæður sínar erfiðar þar sem hún eigi engan að hér á landi. Finnist henni sem hún hafi brennt allar brýr að baki sér til að komast hingað og sjái hún ekki hvernig hún eigi að geta spjarað sig hér án ákærða. Kunni hún ekki íslensku. Í viðtalinu bendi ekkert til annars en að hún segi satt og rétt frá. Helst sé að hún hafi verið barin meira en hún geti sagt frá og veiti mismunandi litir á marblettum vísbendingu um það.
Ákærði kvaðst hafa kynnst Veronicu upphaflega í gegnum vinnu sína, en hann hafi verið að vinna við leiguverkefni fyrir Icelandair í Venesúela. Hafi það verið í apríl 2006, en hún verið flugfreyja hjá sama fyrirtæki. Upp úr hafi orðið til vinskapur á milli þeirra. Hafi ákærði boðið henni í heimsókn til Íslands í september 2006. Hafi hún dvalið hjá ákærða í tvo mánuði en á þeim tíma hafi orðið ljóst að þau hafi enga samleið átt. Í byrjun nóvember 2006 hafi sambandi þeirra verið lokið og hún flutt út af heimilinu. Hafi það tengst því að í nóvember 2006 hafi þau farið í helgarferð til útlanda. Hafi þau rifist í bifreið er þau hafi verið í á leið frá Keflavíkurflugvelli. Veronica hafi ekið bifreiðinni og verið orðin mjög æst. Er heim kom hafi hún bitið ákærða í fingur og hann orðið að slá hana í tvígang með flötum lófa til að hún sleppti bitinu. Af því hafi hún fengið glóðarauga. Hafi hún farið til vinkvenna sinna sem hafi verið frá Venesúela og Dóminíska lýðveldinu. Hafi ákærði boðið Veronicu að vera hjá sér um jólin, en eftir jólin hafi hún aftur farið til vinkvenna sinna. Hafi ákærði viljað að Veronica færi aftur til Venesúela fyrir áramótin 2006/2007 þar sem flugmiði hennar hafi átt að renna út 31. desember 2006. Hafi hún viljað dvelja áfram á Íslandi og ákærði haft skilning á því. Hann hafi hins vegar verið þeirrar skoðunar að eftir uppgjörið í nóvember 2006 yrði ekki um varanlega sambúð á milli þeirra að ræða. Veronica hafi hringt í ákærða í janúar 2007 og viljað fá að hitta hann. Ákærði hafi þá verið í vetrarfríi. Hafi ákærði fari að ,,útrétta” í bænum og boðið henni að koma með. Þá hafi ákærði útskýrt fyrir henni að allt væri búið á milli þeirra, en að allt væri í góðu. Hafi ákærði boðið henni í mat það kvöldið og leyft henni að gista í tvo daga og hún verið í barnaherbergi í íbúðinni. Hafi hún fari út af heimilinu að morgni 13. janúar 2007 og kvaðst ákærði hafa talið að hún væri farin. Hún hafi hins vegar birst óboðin um kvöldið og verið með ferðatösku í hendi. Ákærði hafi verið með börnin hjá sér og hann því verið í klemmu. Hafi hann leyft henni að gista í herbergi dóttur ákærða þessa nótt.
Ákærði hafi farið í frí til útlanda dagana 16. til 18. janúar 2007 og leyft Veronicu að dvelja í íbúðinni á meðan. Hafi hún sofið í herbergi dóttur ákærða. Þegar ákærði kom til baka hafi Veronica enn verið á heimilinu. Hafi ákærði verið kominn út í horn þar sem hún hafi ekki viljað fara. Þetta kvöld hafi ákærði farið á veitingastað. Hafi Veronica einnig komið þangað en staldrað stutt við. Eftir að hann hafi komið heim hafi hann horft á handboltaleik í sjónvarpinu. Hafi Veronica gengið til náða og farið upp í rúm ákærða. Engir ,,straumar” hafi verið á milli þeirra lengur. Hafi ákærði tekið af henni sængina og sagt henni að hann vildi að hún færi. Hafi hann með engu móti leitað á hana kynferðislega, svo sem hún héldi fram. Hafi Veronica sagt ákærða að fara að sofa en hann þá endurtekið fyrri orð um að hann vildi að hún færi. Hafi Veronica sjálfsagt misskilið það og haldið að ákærði ætti við að hún færi inn í herbergi dóttur ákærða. Hafi ákærði þá sagt að hann vildi að hún yfirgæfi heimilið en þá hafi þau staðið frammi í gangi. Þegar Veronica hafi áttað sig á hvað ákærði ætti við hafi hún ráðist á ákærða, slegið hann og klórað hann handahófskennt í andlitið. Hafi verið mikill hraði í höggum hennar. Hafi ákærði varið sig með hægri hendi, slegið á móti og reynt að ná yfirhöndinni. Hafi þau því verið í slagsmálum uns ákærði hafi náð taki á henni. Hafi hann þó ekki náð tökum á höndum hennar. Í augnablik hafi hann náð hálstaki á henni. Hafi hún þá bitið ákærða í neðri hægri handlegg, en við það hafi ákærði sleppt henni. Hafi hún þá hlaupið inn í svefnherbergi dóttur ákærða og kallað út um glugga ,,help, call the police”. Ákærði byggi í fjölbýlishúsi og væri honum annt um að uppákomur sem þessar ættu sér ekki stað. Hafi ákærði dregið ,,kojur” frá glugganum, náð að loka honum og ýtt Veronicu frá. Hafi Veronica náð að rífa gleraugun af ákærða og brotið þau. Hafi hún trítlað í gegnum ,,kojurnar” og um leið rekið sig í hurðarstaf á leiðinni. Loks hafi hún læst sig inni á salerni íbúðarinnar. Hafi ákærði sagt henni að koma fram en hún engu svarað. Hafi ákærði þá reynt að opna hurðina með skrúfjárni. Það hafi ekki tekist. Hafi ákærði þá sparkað upp hurðinni og sagt henni að koma sér út. Hafi hún þá staðið upp af klósettinu og tekið farsíma sinn með sér en síminn hafi verið frammi á gangi. Í lögregluyfirheyrslu greindi ákærði frá því að því næst hafi hún hringt á lögregluna og beðið um hjálp og sagt að það væri verið að lemja sig. Hafi hún byrjað að pakka niður og lögregla komið skömmu síðar. Fyrir dómi kvað ákærði Veronicu hafa farið úr baðherberginu, inn í svefnherbergi og þaðan inn í eldhús. Síðan hafi hún yfirgefið húsnæðið og horft ískalt í augu ákærða um leið og hún hafi yfirgefið húsnæðið. Kvaðst ákærði hafa vitað að hún ætlaði til vinkonu sinnar í næsta húsi. Ákærði kvaðst vilja ítreka að engin átök hafi átt sér stað inni á baðherberginu heldur hafi þau öll átt sér stað í svefnherbergi dóttur ákærða og frammi á gangi. Kvaðst ákærði telja að Veronica hafi viljandi rekið sig í hurðarstafinn til að verða sér út um áverka. Ákærði kvað hugsanlegt að Veronica hafi fengið áverka samkvæmt læknisvottorði á gangi íbúðarinnar og þegar hún hafi verið að klöngrast við ,,koju” í svefnherbergi dóttur ákærða. Veronica hafi á engri stundu verið hrædd í íbúðinni þessa nótt. Frásögn hennar af atburðum væri allur uppspuni. Ákærði kvað sér hafa staðið raunveruleg ógn af Veronicu þessa nótt. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi þessa nótt og fundið til áfengisáhrifa.
Ákærði kvaðst vilja geta þess að þegar hann hafi vísað Veronicu út á milli jóla og nýárs hafi hún kvatt ákærða með þeim orðum að hún ætlaði að sjá til þess að hann myndi missa vinnu sína. Hafi ákærði ekki tekið mark á þeim orðum hennar en eftir atvikið 23. janúar 2007 hafi Veronica haft samband við flugfreyjur, fyrrverandi eiginkonu ákærða og æskuvini ákærða í þeim tilgangi að sverta ákærða og rægja. Hafi hún m.a. sagt við fyrrverandi eiginkonu ákærða að ákærði væri alltaf fullur er hann hefði börnin, sem væri rangt. Af þessum ástæðum hafi ákærði ekki fengið að sjá börn sín í tvær vikur. Þetta hafi allt endað með því að hann hafi verið kallaður á fund hjá yfirmönnum sínum og honum stillt upp við vegg. Málið hafi verið leyst með því að ákærði hafi farið í áfengismeðferð. Þá hafi hún komið sögu sinni á framfæri í Morgunblaðinu. Þá kvað ákærði Veronicu hafa misnotað Visa greiðslukort sem ákærði hafi stofnað fyrir hana þegar þau hafi farið í helgarferð til Evrópu í nóvember 2006. Hafi ákærði tekið kortið af henni þegar sambandi þeirra hafi lokið í nóvember 2006. Hafi hann sett kortið inn í tölvuskáp í skrifborði sínu. Í ljós hafi komið að Veronica hafi tekið greiðslukortið ófrjálsri hendi og notað það í viðskiptum eftir að atvikið 23. janúar hafi átt sér stað.
Veronica Virginia Sarcos Rincon kvaðst hafa kynnst ákærða í Venusúela í febrúar 2006 er hann hafi verið þar flugstjóri hjá Icelandair en hún starfað sem flugfreyja. Þau hafi síðan byrjað saman í júní 2006. Haustið 2006 hafi hún selt allar eigur sínar í útlöndum til að standa straum að flutningi til ákærða að Tröllateig 21 í Mosfellsbæ þar sem þau hafi hafið sambúð. Hafi staðið til að þau myndu gifta sig í framhaldinu. Um mánuði eftir að hún hafi flutt heim til hans hafi hún tekið eftir því að ákærði hafi ekki virst hafa stjórn á áfengisdrykkju sinni. Hafi hann sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun með skammaryrðum í hennar garð er hann hafi verið undir áhrifum áfengis. Mánudaginn 22. janúar 2007 hafi hún komið heim til sín um kl. 19.00. Ákærði hafi þá verið heimavið og verið að horfa á sjónvarpið. Hafi hún tekið eftir að hann hafi næstum verið búinn að drekka heila rauðvínsflösku. Hafi ákærði ákveðið að fara á veitingastað. Hafi hann sent henni sms símaskilaboð og beðið hana um að koma að hitta sig. Hafi hún ákveðið að hitta hann og farið á veitingastaðinn. Þá hafi ákærði verið að drekka bjór og koníak. Sjálf kvaðst Veronica hafa fengið sér glas af líkjör. Þau hafi farið heim um kl. 00.30. Þegar heim kom hafi ákærði haldið áfram að drekka áfengi og horft á endursýningu á handboltaleik. Veronica kvaðst sjálf hafa fengið sér lítið vínglas. Hafi hún farið að sofa um kl. 02.00 um nóttina og ákærði komið á eftir henni. Um kl. 03.30 hafi hún vaknað við að ákærði hafi verið að kasta upp frammi í eldhúsi. Hafi hún farið að athuga með hann. Hafi hún snúið til baka inn í svefnherbergið þegar hún hafi séð að allt yrði í lagi með ákærða. Hafi hún lagst fyrir og dregið sæng yfir sig. Ákærði hafi komið á eftir henni. Hafi hann reynt að ögra henni og m.a. spurt hana hvað hún segði ef hann segði hana heimska. Veronica kvaðst undir svipuðum aðstæðum áður hafa farið en í þetta skiptið ákveðið að gera það ekki. Hafi hann kippt sænginni ofan af henni og farið að leita á hana kynferðislega. Hafi hún gert honum ljóst að slíkt vildi hún ekki. Þá hafi hann farið að segja henni að hún væri á Íslandi hans vegna og væri honum á allan hátt háð. Bæri henni að gera það er hann segði henni að gera. Veronica kvaðst þá hafa farið inn í svefnherbergi barnanna til að fá frið fyrir ákærða. Hafi hann elt hana þangað inn og farið að krefjast þess að hún færi út úr húsinu. Hafi hann opnað glugga á herberginu til að hún gæti hrópað á hjálp ef hún vildi, en hann hafi viljað að hún myndi hrópa á hjálp. Hann hafi verið mikið drukkinn. Hafi hann kippt af henni ábreiðu. Hafi hún játað því að hún myndi fara en hún þyrfti stutta stund til að taka saman dótið sitt. Hafi hann þá krafist þess að hún færi samstundis. Hafi ákærði gripið yfirhöfn hennar og síðan tekið í vinstri fót hennar og farið að draga hana til. Hafi hún haldið fast um rúmið. Hafi húsgögnin öll meira og minna kippst til. Kvaðst Veronica hafa reynt að róa ákærða niður með því að segjast ætla að fara. Hafi hún hörfað inn á baðherbergið og læst að sér, en baðherbergið hafi verið eina herbergið sem unnt hafi verið að læsa. Ákærði hafi sparkað upp hurðinni. Hafi hann gripið hana hálstaki og hert að þannig að hún hafi ekki náð andanum. Hafi hún náð að bíta í hendi ákærða, en hann orðið enn reiðari við það. Þá hafi hann slegið höfði hennar í vegg uns hún hafi misst meðvitund. Þegar hún hafi komið til vitundar aftur hafi hún legið í baðkarinu og ákærði staðið yfir henni. Hafi hann tekið í vinstri fót hennar og dregið hana inn í svefnherbergi þar sem hann hafi heimtað að hún tæki saman föggur sínar. Hafi ákærði róast aðeins við það að hún hafi byrjað að taka saman dót sitt. Þegar hún hafi farið að leita að farsíma sínum hafi hann aftur ráðist á hana. Hafi hann kýlt hana mörg högg uns hún hafi fallið í gólfið en þá hafi hann tekið til við að sparka í hana. Spörk hans hafi aðallega komið í bak, hægri mjöðm og hægri fót. Hnefahöggin hafi komið í hægri upphandlegg, brjóstkassa, bak, herðablöð og andlit. Loks hafi hann þrifið hana upp og hent henni út á götu. Kvaðst Veronica hafa hringt í lögreglu en þegar ákærði hafi séð það hafi hann komið á eftir henni og reynt að þrífa af henni símann. Hafi hann slegið hana hnefahögg en hún flúið undan honum. Hafi ákærði þá farið inn til sín og læst að sér. Hafi Veronica ekki náð að taka neinar föggur með sér og verið í slopp. Hafi Veronica falið sig undir stiga að húsinu og loks komist inn til Berglindar nágrannakonu sem opnað hafi fyrir henni. Lögregla hafi verið á leiðinni þar sem nágrannar hafi einnig hringt á lögregluna. Er lögregla hafi verið komin hafi Veronicu verið veitt aðstoð við að taka saman dót. Lögregla hafi síðan ekið Veronicu á slysadeild. Eftir skoðun á slysadeild hafi Veronicu verið ekið í Kvennaathvarfið þar sem hún hafi dvalið í þrjá mánuði eftir atburðinn. Lengur hafi hún ekki mátt búa á þeim stað. Veronica kvað samband þeirra á þeim tíma er árásin hafi átt sér stað hafa verið þannig að þau hafi þá enn verið í sambúð.
Veronica bar að ákærði hafi átt í erfiðleikum með áfengi. Sambúð þeirra hafi gengið vel fyrst eftir að hún hafi flutt til landsins. Hafi hún fljótlega eftir að hún flutti áttað sig á áfengisvandanum. Ákærði hafi breyst mjög mikið er hann hafi verið drukkinn og orðið árásargjarn. Hafi þau rifist vegna þessa og hún m.a. farið í Kvennaathvarfið af þeim sökum. Þar hafi hún þá dvalið í 3 daga. Ákærði hafi ekki lagt hendur á Veronicu fyrr en aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar. Þau hafi farið til Danmerkur í þriggja daga ferð haustið 2006. Hafi þau rifist er heim kom þar sem ákærði hafi sagt að hún hafi ekki lagt bifreið þeirra rétt við húsið. Hafi ákærði m.a. gripið um munn Veronicu sem hafi leitt til þess að hún hafi bitið hann í höndina. Í kjölfarið hafi hún farið til nágrannakonu sinnar. Ákærði hafi séð eftir öllu saman og hún ákveðið að flytja aftur inn til hans. Þessir atburðir hafi sennilega verið í desember 2006. Veronica kvað sér líða mjög illa eftir þessa atburði alla saman. Væri henni enn illt í baki og hún m.a. fengið sprautur hjá lækni vegna þess í apríl 2007. Henni liði hræðilega andlega og ætti hún erfitt með að tengjast fólki. Fyrir tilstilli Rauða kross Íslands hafi hún fengið sálfræðilega hjálp, en þar á bæ hafi verið tekið eftir því að Veronica hafi verið farin að glíma við þunglyndi. Veronica kvaðst ekki hafa átt neitt hér á landi og ekki mátt dvelja í Kvennaathvarfinu lengur en í þrjá mánuði. Hafi hún reynt að útvega sér vinnu til að geta greitt húsaleigu. Hafi hún m.a. tekið að sér ræstingar af þessum sökum. Allt þetta hafi komið mjög illa við Veronicu, en hún hafi haft fyrir fjölskyldu að sjá í Venesúela. Kvaðst Veronica ætla að fara heim til Venesúela eftir að hafa gefið skýrslu í þessu máli. Veronica kvað tilefni blaðaviðtals í Morgunblaðinu hafa verið að henni hafi verið bent á að láta taka viðtal við sig til að vekja athygli á bágri stöðu sinni. Hún hafi áður verið búin að leita á náðir ýmissa opinberra aðila í nauðum sínum en enginn getað liðsinnt henni. Að lokum hafi hún hringt í Rauða kross Íslands en þar hafi henni verið bent á að hún þyrfti að láta taka eftir sér til að fá hjálp til að geta lifað á meðan mál þetta væri í gangi. Eftir blaðaviðtalið hafi Félagsþjónustan ákveðið að aðstoða Veronicu með því að greiða fyrir hana húsaleigu.
Berglind Hilmarsdóttir kvaðst hafa verið vakin aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007 af Bylgju Báru Bragadóttur, nágranna sínum, vegna hávaða frá íbúð ákærða á neðri hæð, en eignin væri fjórbýli. Kvaðst Berglind búa við hlið íbúðar ákærða en Bylgja í íbúðinni fyrir ofan Berglindi. Hafi Bylgja beðið Berglindi um að athuga með Veronicu. Hafi hún spurt Berglindi hvort hún væri ekki að heyra ,,þetta”. Allt hafi gerst mjög hratt. Kvaðst Berglind hafa opnað útidyrahurðina en þar hafi Veronica staðið lítið klædd. Einhver hafi þá verið búinn að hringja í lögreglu. Veronica hafi verið í sjokki og í mikilli geðshræringu. Af þeim sökum hafi Berglind ekki spurt Veronicu út í hvað hafi gerst. Fljótlega eftir það hafi lögregla komið á staðinn. Berglind kvað svipað tilvik hafa komið upp áður. Það hafi verið um miðjan desember 2006. Þá hafi Berglind verið vakin upp og Veronica þá verið á vappi um hverfið klæðalítil. Eitthvað hafi þá verið búið að ganga á. Veronica hafi greint Berglindi frá því að hún og ákærði hafi verið að koma frá Danmörku. Ákærði hafi verið drukkinn. Hafi hann að sögn Veronicu dregið Veronicu á hárinu og reynt að kyrkja hana. Þá hafi hún farið út og gengið um hverfið á náttfötunum og ekki komist inn heima hjá sér. Einhverjir líkamlegir áverkar hafi þá sennilega sést á Veronicu. Fyrir utan þessi tilvik kvaðst Berglind muna eftir þriðja tilviki þar sem eitthvað hafi komið upp. Það hafi verið í nóvember 2006. Í því tilviki hafi Veronica farið heim til Unnar Guðjónsdóttur að Tröllateig 16. Berglind kvað Veronicu hafa verið með hendi í fatla eftir það tilvik.
Bylgja Bára Bragadóttir kvaðst hafa vaknað aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007 við það að dóttir hennar hafi þurft að fara á klósettið. Hafi Bylgja verið að bíða eftir að dóttir hennar væri búin er hún hafi heyrt skaðræðisóhljóð af neðri hæðinni. Hafi verið hrópað ,,pleace call police”. Kvaðst Bylgja hafa hrópað á manninn sinn hvort hann heyrði þetta ekki. Hafi Bylgja hringt á lögreglu vegna atviksins og sagt að eitthvað væri að gerast í íbúð ákærða. Hafi hún hringt í Berglindi á hæðinni fyrir neðan, því í fyrra tilviki er eitthvað hafi komið fyrir Veronicu hafi Veronica leitað til Berglindar. Hafi Bylgja verið í stofunni er lögreglu hafi borið að garði. Allur þessi atburður hafi tekið mjög á fjölskyldulífið hjá Bylgju. Hrópin hafi verið það mikil að dóttir Bylgju hafi orðið mjög hrædd. Dóttirin væri 6 ára. Hafi Bylgja þurft að ræða við kennara á leikskóla dótturinnar því dóttirin hafi grátið stöðugt. Bylgja kvaðst áður hafa orðið vör við svipaða atburði. Einn morguninn hafi Veronica verið fyrir utan hurð á heimili ákærða. Hafi hún þá verið að sópa glerbrotum upp. Bylgja kvað ákærða einhverju sinni hafa boðið Bylgju og manni hennar til New York. Hafi það verið í lok júlí 2006. Þá hafi ákærði sagt þeim frá því að kærasta hans væri að flytja til hans á Íslandi. Kvaðst Bylgja síðan fyrst hafa hitt Veronicu þegar Veronica hafi verið að sópa saman glerbrotunum. Hafi Bylgja spurt hvort ekki væri allt í lagi. Hafi Veronica svarað því til ,,he is mad in his head”. Bylgja kvaðst ekki hafa tekið eftir áverkum á Veronicu. Þá hafi einhver læti orðið um miðja nótt í nóvember 2006. Hafi Bylgja ekki vitað hvað þá hafi gengið á. Síðar hafi Bylgja fregnað frá Berglindi að Veronica hafi komið yfir til Berglindar vegna þess að eitthvað mikið hafi gengið á.
Unnur Guðjónsdóttir kvaðst starfa sem flugfreyja hjá Icelandair. Kvaðst hún hafa kynnst Veronicu er Veronica hafi komið til landsins, en þær hafi rætt saman um borð í flugvél á leið til Íslands. Hafi Unnur við það tilefni gefið Veronicu símanúmer sitt og sagt henni að vera í sambandi við sig. Einhverju eftir að Veronica hafi flutt til landsins hafi Unnur spurt Veronicu hvernig gengi með ákærða. Hafi Veronica tjáð henni að tveim til þremur vikum eftir að Veronica hafi flutt til landsins hafi hún orðið hrædd en henni hafi fundist ákærði ógnvekjandi er hann hefði drukkið áfengi. Hafi Unnur hitt Veronicu síðan tveim til þremur vikum síðar. Þá hafi Veronica sagt meira frá því hvað fyrir hafi komið. Hafi hún þá sagt henni að hún hafi farið í Kvennaathvarfið í þrjá daga. Eitthvað hafi komið upp sem hafi leitt til þess að Veronica hafi hlaupið út af heimilinu. Að hennar sögn hafi ákærði talað illa til hennar og ýtt við henni. Ákærði hafi orðið hræddur um Veronicu eftir að hún hafi yfirgefið heimilið og hringt á lögregluna vegna þess. Lögregla hafi þá fundið Veronicu og spurt hana hvort hún vildi fara heim til sín eða í Kvennaathvarfið. Hafi Veronica kosið að fara í Kvennaathvarfið. Veronica hafi tjáð Unni að hún hafi ákveðið að flytja aftur heim til ákærða. Þá kvaðst Unnur vita til þess að ákærði hafi boðið Veronicu til Danmerkur sennilega í desember 2006. Þau hafi komið til baka á sunnudagskvöldi. Veronica hafi vakið Unni kl. 02.00 um nóttina en Unnur hafi heyrt einhvern gráta fyrir utan hurðina heima hjá sér. Veronica hafi þá verið bæði köld og hrædd. Hafi hún verið blóðug í andliti og í stuttermabol. Hafi Veronica greint frá því að komið hafi til átaka á milli hennar og ákærða og Veronica þurft að bíta í hendi ákærða. Hafi blóðið sem hafi verið á henni verið úr ákærða að hennar sögn. Hafi ákærði þá verið búinn að drekka of mikið áfengi. Hafi hann verið ósáttur og lamið nokkrum sinnum í læri Veronicu. Þá hafi hann kastað henni til þannig að hún hafi lent á vegg. Þá hafi hann rifið í hár hennar og haldið henni hálstaki og lamið hana liggjandi. Hún hafi síðan náð að bíta sig lausa og hlaupið út úr húsinu. Hafi hún ekki komið beint til Unnar og því verið ísköld er hana hafi borið að garði. Skömmu síðar hafi lögregla komið og rætt við Veronicu. Hafi Veronica lýst því er fyrir hafi komið. Í framhaldi hafi lögregla fylgt Veronicu heim til sín þar sem hún hafi náð í einhver föt. Þessa nótt hafi Veronica gist heima hjá Unni. Næsta dag hafi hún farið til einhverrar vinkonu sinnar. Um nóttina hafi Veronica verið í mikilli geðshræringu og mjög hrædd. Um tveim dögum síðar hafi Veronica viljað hitta lækni en talsvert hafi séð á henni. Hafi hún verið bólgin í framan og kvartað undan sársauka í hári. Þá hafi henni verið illt á brjóstsvæðinu. Þær hafi farið á heilsugæslustöð. Hafi Veronica talað um að ákærði ætti við áfengisvandamál að stríða, en verið mjög ósáttur við að ræða það efni. Veronica hafi rætt um að hún og ákærði ætluðu að giftast og eignast börn. Hún hafi hins vegar haft áhyggjur af því hve ofbeldisfullur hann yrði er hann drykki áfengi. Unnur kvað ákærða og Veronicu strax hafa farið að búa saman er Veronica hafi flutt til landsins. Hafi Unnur litið svo á að þau væru í sambúð. Eftir það atvik er komið hafi upp eftir komu þeirra frá Danmörku hafi ákærði boðið Veronicu að vera hjá sér um jól og áramót 2006/2007. Það hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel. Hafi Unni skilist á Veronicu að sambandi hennar og ákærða hafi nánast lokið eftir atvikið er þau hafi komið saman frá Danmörku. Vegna stöðu sinnar hafi Veronica reynt fyrir sér hér á landi við að fá vinnu. Hún hafi hins vegar alls staðar komið að lokuðum dyrum.
Hlynur Þorsteinsson læknir staðfesti læknisvottorð sitt frá 1. febrúar 2007 og skýrði einstök atriði tengd því. Kvaðst Hlynur hafa skoðað Veronicu við komu á slysadeild. Áverkar hafi verið á brjóstkassa, hálsi og hægri ganglim. Ekki hafi verið áverkar á höfði. Áverkar geti samrýmst því að Veronica hafi verið tekin hálstaki. Teknar hafi verið ljósmyndir af áverkum sem hafi verið nokkuð útbreiddir og áberandi. Ekki væru teknar myndir af áverkum ef um algenga áverka væri að ræða. Veronica hafi ekki verið með svokallaða punktblæðingu í augum sem gjarnan komi er einstaklingar missi meðvitund. Allir marblettir hafi verið af sama lit sem hafi veitt vísbendingu um að marblettir hafi verið nýlegir.
Flosi Karlsson læknir staðfesti yfirlit á dskj. nr. 12. Flosi kvað umrætt yfirlit vera vinnupunkta frá skoðun á Veronicu er fram hafi farið á heilsugæslustöð. Ef óskað væri eftir læknisvottorði væri það ritað upp úr þessum vinnupunktum. Við skoðun hafi Flosi lesið áverkana inn á segulband en þaðan hafi upplýsingarnar verið ritaðar niður að skoðun lokinni. Flosi kvað marbletti hafa verið mismunandi að lit. Sumir hafi verið brúnleitir, aðrir grænleitir og sumir gulir. Almenna reglan væri sú að marblettir væru brúnir á öðrum og þriðja degi eftir áverka, grænir á fimmta og sjötta degi og gulir á þeim tíunda. Marblettir þeir er Veronica hafi verið með hafi að miklu leyti verið brúnir á handleggjum eftir að tekið hafi verið fast á handleggjum. Hún hafi hins vegar á öðrum stöðum verið með marbletti sem hafi borið þess merki að vera frá mismunandi tímum. Flosi kvaðst hafa haft tilhneigingu til að leggja trúnað á það sem Veronica hafi sagt um atburði en hún hafi greinilega borið ummerki eftir ofbeldi. Við kæfingu kæmi gjarnan blæðing í húð fyrir ofan þindina. Flosi hafi enga slíka blæðingu séð.
Jóhann Thoroddsen sálfræðingur kvaðst að hluta til starfa hjá Rauða krossi Íslands og að hluta til hafa sjálfstæðan rekstur. Í gegnum Rauða kross Íslands hafi Jóhann verið beðinn um að hitta Veronicu í sálfræðiviðtölum. Hafi hann hitt hana fimm sinnum í slíkum viðtölum, en Veronica hafi sjálf ekki haft efni á því að greiða fyrir viðtölin. Hafi hann fyrst hitt hana 15. ágúst 2007 en síðasta viðtalið hafi farið fram 3. október sl. Jóhann kvaðst hafa metið það svo eftir viðtöl við Veronicu að ástand hennar eins og það hafi birst honum hafi tengst atviki því sem til meðferðar væri í dóminum, en hún hafi greint honum frá atvikinu. Kvaðst Jóhann hafa lagt fyrir Veronicu sálfræðipróf um áfallastreitu eða áfallastreituröskun. Út úr þeim prófum hafi komið einkenni mikillar áfallastreitu. Frekari athuganir hafi þurft til að greina hvort Veronica hafi verið með áfallastreituröskun. Áfallastreita væri sprottin út frá áfalli. Ylli það líkamlegri og andlegri röskun, ringulreið í hugsun, svefnröskun, depurð, tómlæti o.fl. Hafi atvikið sótt mjög á hana. Er hún hafi greint frá því hafi hún sýnt bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar af verknaðinum. Er Jóhann hafi hitt Veronicu í fyrsta skiptið hafi verið eins og atvikið hafi nýlega gerst. Hafi hún grátið mjög mikið og átt við mikla vanlíðan að etja. Þá hafi hún kvartað yfir verk í mjóbaki og átt erfitt með gang. Kvaðst Jóhann geta fullyrt að umrætt atvik aðfaranótt 23. janúar 2007 hafi haft áhrif á líðan Veronicu. Væri ekki útilokað að atvikið gæti háð Veronicu til framtíðar. Jóhann kvað ekki unnt að útiloka að einhver áhrif hefðu á líðan Veronicu að hún hafi á þeim tíma er hún hafi sótt viðtölin verið ,,föst” í landi sem ekki væri heimaland hennar og hún jafnvel í ástarsorg.
Martha Sandholt Haraldsdóttir lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst Martha hafa hitt Veronicu í íbúð nágranna aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007. Hafi Veronica þá skýrt henni frá því sem fyrir hafi komið. Hafi Veronica lýst því að ákærði væri sambýlismaður hennar. Veronica hafi verið í miklu uppnámi er Martha hafi komið til hennar. Hafi Veronica haltrað og Martha þurft að styðja hana til að hún kæmist um. Hafi Veronica verið í baðslopp. Eftir að hafa aðstoðað Veronicu við að ná í föt af heimili ákærða hafi verið farið með hana á slysadeild til skoðunar. Læknir hafi tekið myndir af áverkum Veronicu þar sem þeir hafi verið alvarlegir. Að öðrum kosti væri það almennt ekki gert. Lögreglumenn hafi rætt við ákærða sem hafi sagt að hann hafi ekki lagt hendur á Veronicu. Ákærði hafi verið ölvaður þessa nótt. Nágrannakona ákærða hafi verið í ,,sjokki”. Hafi hún ekki viljað að Veronica dveldi hjá sér þessa nótt, en hún þekkti ákærða og væri hrædd við hann undir áhrifum áfengis.
Niðurstaða:
Verulega ber í milli í frásögn ákærða og Veronicu af atburðum aðfaranætur þriðjudagsins 23. janúar 2007. Ákærði hefur synjað fyrir að hafa veitt Veronicu þá áverka er í ákæru greinir með því að hafa ráðist á Veronicu svo sem ákæra miðar við. Hefur hann helst skýrt áverkana með þeim hætti að þá hafi hún fengið er hann hafi verið að verjast henni, auk þess sem einhverja áverka kunni hún að hafa fengið við að ganga á dyrastaf sennilega viljandi í þeim tilgangi að verða sér úti um áverka. Veronica hefur á hinn bóginn lýst samskiptum þeirra þessa nótt með þeim hætti að ákærði hafi elt hana inn á baðherbergi, brotið upp hurð að baðherberginu og tekið hana þar kverkataki. Er hún hafi bitið í ákærða hafi hann slegið höfði hennar utan í vegg þannig að hún hafi misst meðvitund. Eftir að hafa komist til fullrar meðvitundar hafi hún náð í gsm síma sinn en þá hafi ákærði inni í svefnherbergi á nýjan leik ráðist á hana. Hafi hann kýlt hana mörg högg uns hún hafi fallið í gólf svefnherbergisins en þá hafi hann sparkað í hana. Spörk hans hafi aðallega komið í bak, hægri mjöðm og hægri fót. Hnefahöggin hafi komið í hægri upphandlegg, brjóstkassa, bak, herðablöð og andlit. Loks hafi hann þrifið hana upp og hent henni út á götu.
Svo sem fyrirliggjandi áverkavottorð ber með sér hlaut Veronica alvarlega og dreifða áverka þessa nótt. Er fjarri lagi að þá hafi hún hlotið við það að ákærði hafi verið að verjast yfirvofandi árás Veronicu. Ákærði er stæðilegur og gat hæglega varist aðför af hálfu Veronicu. Þá fær sá framburður ákærða um að Veronica hafi sennilega viljandi gengið utan í dyrastaf í þeim tilgangi að verða sér úti um áverka engan veginn staðist. Ákærði hefur aukin heldur ekki með góði móti getað skýrt af hverju knýjandi þörf var á að brjóta upp hurð að baðherbergi íbúðarinnar til að komast að Veronicu. Rannsóknargögn málsins og framburðir vitna benda eindregið til þess að ákærði hafi í tvígang áður veist þannig að Veronicu að hún hafi haft raunhæfa ástæðu til að óttast hann. Í annað skiptið leitaði Veronica í Kvennaathvarfið og dvaldi þar í þrjá daga. Þangað fer engin kona án raunverulegrar ástæðu. Í seinna skiptið leiddu samskipti ákærða og Veronicu til þess að Veronica leitaði á Heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ þar sem læknir skoðaði hana. Í minnispunktum læknisins, sem hann staðfesti fyrir dómi, koma berlega í ljós umtalsverðir áverkar er ákærði hefur veitt Veronicu, en hann hefur viðurkennt að til átaka á milli þeirra hafi komið það sinnið. Í bæði þessi skipti var ákærði undir áhrifum áfengis. Ákærði var talsvert undir áhrifum áfengis aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007 er lögregla hafði afskipti af honum. Veronica heldur fram að hún og ákærði hafi byrjað sambúð er hún hafi komið til landsins. Fær sá framburður hennar stoð í framburði Unnar Guðjónsdóttur, sem og framburðum Berglindar Hilmarsdóttur og Bylgju Báru Bragadóttur. Unnur ber um samtal hennar við Veronicu er Veronica hafi flutt til landsins. Berglind og Bylgja Bára bera hins vegar báðar um veru Veronicu á heimili ákærða upp frá þeirri stundu er hún flutti til landsins. Þykir ótrúverðugt annað en að Veronica, sem kom hingað til lands alla leið frá Venesúela, hafi tekið sig upp og farið að flytja búferlum um það langan veg án þess að um raunverulegan ásetning af hennar hálfu og ákærða hafi verið að láta á sambúð þeirra reyna.
Þegar litið er til þeirra alvarlegu og dreifðu áverka er Veronica fékk umrædda nótt, miðað er við að ákærði hefur áður í samskiptum við Veronicu orðið ofbeldisfullur þegar hann var undir áhrifum áfengis, tillit er tekið til þess að hann braut upp hurð að baðherbergi til að komast að henni, hliðsjón er höfð af ótrúverðugum framburði ákærða um tilvist áverka Veronicu og miðað er við að Veronica hefur verið trúverðug í framburði sínum og sjálfri sér samkvæm um meginatriði málsins og ber augljóslega ekki á ákærða sakir umfram efni þegar hliðsjón er höfð af fyrri tilvikum, er niðurstaða dómsins að framburður Veronicu um atvik verði lagður til grundvallar niðurstöðu, en áverkar hennar samrýmast í öllum meginatriðum framburðinum. Verður við það miðað að ákærði hafi inni á baðherbergi íbúðarinnar tekið Veronicu hálstaki. Þá hafi hann inni í svefnherbergi slegið hana víðsvegar í líkamann uns hún féll og í kjölfarið sparkað í hana liggjandi á gólfinu. Við þetta hafi hún fengið þá áverka er í ákæru greinir. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í desember 1966. Hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Sú líkamsárás sem ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir var að áliti dómsins talsvert heiftúðleg og hættuleg. Þykir auka á grófleika verknaðarins hve nákominn ákærði var Veronicu, en þau höfðu búið saman fyrir þetta og hafði Veronica flutt til landsins gagngert til þess að hefja hér sambúð með ákærða og honum um aðstæður að öllu leyti háð. Þá var brotið framið inni á heimili ákærða og Veronicu. Á ákærði sér engar málsbætur. Með hliðsjón af þessu sbr. og 1., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing hans ákveðin fangelsi í 8 mánuði.
Veronica hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 500.000 krónur, auk vaxta. Er krafan rökstudd með því að ákærði hafi valdið Veronicu tjóni á saknæman og ólögmætan hátt. Brotið hafi haft í för með sér vanlíðan, auðmýkingu og niðurlægingu. Finni Veronica enn fyrir miklum kvíða og öryggisleysi vegna árásarinnar. Jóhann Thoroddsen sálfræðingur hefur borið um að Veronica hafi greinst með áfallaröskun sem rekja megi til árásarinnar aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007. Geti Veronica borið einkenni árásarinnar um ókomna tíð. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir grófa líkamsárás gegn Veronicu. Á hún rétt á miskabótum úr hendi hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bætur verða ákvarðaðar með hliðsjón af því að framferði ákærða var ófyrirleitið. Þá verður haft í huga að tengsl ákærða við Veronicu eru til þess fallin að auka á miska hennar. Átti hún ekki neina sök sjálf sem áhrif getur haft á ákvörðun bóta. Er fjárhæð miskabóta ákveðin 500.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Ekki hefur verið lagt fram sakarkostnaðaryfirlit. Ákærði greiði málsvarnar- og réttargæslulaun, hvort tveggja að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði er kveðið á um.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Jens R. Kane, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Ákærði greiði Veronicu Virginiu Sarcos Rincon 500.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. janúar 2007 til 25. maí 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 284.856 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 155.376 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþola Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, 129.480 krónur.