Hæstiréttur íslands

Mál nr. 353/2000


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Skipstjóri
  • Skiprúmssamningur
  • Haffæri
  • Riftun


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2001.

Nr. 353/2000.

Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson

(Jónas Haraldsson hdl.)

gegn

Básafelli hf.

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

og gagnsök

 

Sjómenn. Skipstjóri. Skiprúmssamningur. Haffæri. Riftun.

 

A, sem var skipstjóri hjá B, rifti ráðningarsamningi sínum við B. Hafði A ásamt öðrum skipverjum verið sagt upp störfum á skipinu G eftir að bilun hafði komið upp í því og því verið siglt til hafnar. Degi síðar var haffærisskírteini G afturkallað og rifti A þá ráðningarsamningi sínum við B. Afturköllunin var síðan felld úr gildi með úrskurði samgönguráðuneytis en það var þó ekki talið leiða til þess að telja bæri skipið hafa verið haffært þegar A rifti ráðningarsamningnum. Byggði A rétt sinn til riftunar á 19. gr. sjómannalaga, sem heimilaði skipverja að krefjast lausnar úr skiprúmi ef skip yrði óhaffært og skipstjóri bætti ekki úr því. Ósannað var talið að A eða aðrir skipverjar hefðu talið skipið óhaffært og andmælt framlengingu haffærisskírteinisins þegar eftir því var leitað nokkrum dögum áður en skipið bilaði. Þá var lagt til grundvallar að ekki hefði verið ætlunin að halda skipinu til veiða eftir að það bilaði. Fallist var á að 19. gr. sjómannalaga næði til skipstjóra eins og annarra skipverja. Á hinn bóginn var ekki fallist á að A hefði sýnt fram á að B hefði vanefnt ráðningarsamning þeirra með þeim hætti að 19. gr. sjómannalaga veitti honum rétt til að rifta honum. Var B því sýknaður af kröfum A.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

            Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.

            Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2000. Krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða sér 1.606.464 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. febrúar 2000 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  Aðaláfrýjandi krefst þess ennfremur að staðfestur verði sjóveðréttur í fiskiskipinu Gylli ÍS 261 til tryggingar dómkröfu hans.

            Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 3. nóvember 2000. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

            Fallist er á með héraðsdómara að leggja beri til grundvallar í málinu að fiskiskipið Gyllir hafi verið haffært fram til þess tímamarks að bilun kom fram í skrúfuhaus þess 28. nóvember 1999. Haffærisskírteini skipsins átti að renna út 26. sama mánaðar. Eins og í héraðsdómi greinir var óskað eftir framlengingu þess 24. nóvember til áramóta og lá ekki annað fyrir en að því yrði haldið til róðra fram til jólaleyfis en færi þá í slipp til viðgerða og endurbóta. Framlenging fékkst 25. nóvember, eins og óskað var.  Ósannað er að aðaláfrýjandi eða nokkur annar skipverji hafi andmælt því að haffærisskírteini yrði framlengt, hvorki gagnvart fulltrúa siglingastofnunar né útgerð skipsins. Eftir að framangreind bilun kom fram var skipinu siglt í land og áhöfn þess sagt upp störfum 29. nóvember með löglegum fyrirvara. Verður lagt til grundvallar að ekki hafi verið ætlunin að halda áfram róðrum eftir að bilun þessi kom fram, einungis hafi átt að sigla skipinu suður, þar sem áformað var að taka það í slipp. Skipið var svipt haffærisskírteini 30. nóvember með þeim hætti að áðurnefnd framlenging þess var afturkölluð og rifti aðaláfrýjandi og fleiri skipverjar ráðningarsamningum sínum í kjölfarið.

II.

            Þótt ákvörðun Siglingastofnunar Íslands um að afturkalla framlengingu á haffærisskírteini Gyllis hafi verið felld úr gildi með úrskurði samgönguráðuneytis 27. júní 2000, leiðir það ekki til þess að telja beri skipið hafa verið haffært 30. nóvember 1999 er aðaláfrýjandi rifti ráðningarsamningi sínum.

            Riftun hans er reist á 19. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt því ákvæði getur skipverji krafist lausnar úr skiprúmi ef skipið verður óhaffært eða íbúðir skipverja eru heilsuspillandi að mati réttra yfirvalda og skipstjóri bætir ekki úr því. Aðaláfrýjandi getur reist rétt á 19. gr. sjómannalaga þótt hann hafi gegnt starfi skipstjóra á skipinu á þeim tíma sem máli skiptir. Samkvæmt 43. gr. sjómannalaga gilda ákvæði þeirra um ráðningarsamning við skipstjóra eftir því sem við getur átt, með þeim breytingum sem leiða af 44. gr. til 48. gr. laganna. Verður því talið að skipstjóri, sem árangurslaust hefur beint kröfum um úrbætur til útgerðar skips, geti að öðrum skilyrðum uppfylltum, rift ráðningarsamningi sínum með vísan til 19. gr. laganna. Ákvæði 19. gr. verður beitt ef skipstjóri eða útgerðarmaður hafa ekki bætt úr vanköntum á búnaði skips þrátt fyrir kröfur skipverja þar um og sigla eigi skipinu svo vanbúnu og þannig stofna velferð skipverja í hættu. Í slíkum tilvikum njóta skipverjar, þar með talið skipsstjóri, þeirrar verndar, sem ákvæðið mælir fyrir um og geta rift ráðningarsamningum sínum og öðlast rétt til bóta samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 19. gr. laganna.

            Í málinu liggur fyrir að aðaláfrýjandi og útgerð skipsins ræddu sín á milli um ýmsar viðgerðir og endurbætur á skipinu þegar að slipptöku þess kæmi. Á hinn bóginn er ósannað að aðaláfrýjandi eða aðrir skipverjar hafi talið skipið óhaffært og krafist úrbóta um atriði sem réðu úrslitum um haffæri þess. Ósannað er að þeir hafi andmælt framlengingu haffærisskírteinis þegar eftir því var óskað. Var það þó brýnt fyrir aðaláfrýjanda að hafa uppi slík andmæli enda bar honum samkvæmt 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 að annast um að skip væri haffært og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi skipverja. Einnig verður lagt til grundvallar að ekki hafi verið ætlunin að halda skipinu til veiða eftir að það bilaði 28. nóvember 1999. Hefur aðaláfrýjandi því ekki sýnt fram á að gagnáfrýjandi hafi vanefnt ráðningarsamninginn með þeim hætti að 19. gr. sjómannalaga hafi veitt honum rétt til riftunar 30. nóvember 1999. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað.

            Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

            Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

            Aðaláfrýjandi, Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, greiði gagnáfrýjanda, Básafelli hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 27. júlí 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 29. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi, hefur Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, kt. 090966-5619, Æsufelli 6, Reykjavík, höfðað hér fyrir dómi þann 1. febrúar 2000, með stefnu á hendur Básafelli hf., kt. 680292-2059, þá til heimilis að Sundstræti 36, Ísafirði en nú til heimilis að Tryggvagötu 11, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum 1.606.464 krónur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá þingfestingu þessa máls til greiðslu­dags.  Krafist er málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.  Gerð er krafa um staðfestingu sjóveðréttar í m.s. Gylli ÍS-261, skipaskrárnr. 1640, til tryggingar dómkröfum.

Stefnda krefst þess aðallega að verða alfarið sýknað af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur hans verði verulega lækkaðar og í báðum tilvikum máls­kostn­­aðar að skaðlausu.  Við aðalmeðferð málsins gerði stefnda kröfu um frávísun þess og var málið flutt um frávísunarkröfuna jafnframt málflutningi um efnishlið þess.

Stefnandi var skipstjóri á m.s. Gylli ÍS-261, skipaskrárnr. 1640, sem stefnda átti og gerði út til línuveiða.  Mun hann hafa ráðið sig í skiprúm árið 1998.  Haffærisskírteini skipsins gilti til 26. nóvember 1999, en sótt var um lengingu gildistímans til Siglingastofnunar Íslands, sem varð við umsókninni og var skírteinið áritað um framlengingu til 31. desember 1999.  Segir í stefnu að fyrirhugað hafi verið að setja skipið í slipp til viðhalds og eftirlits í desember 1999 og að það yrði skoðað að því loknu.

Stefnandi kveður ljósavél skipsins og skrúfuhaus hafa bilað þann 28. nóvember 1999.  Hafi skipinu þá verið lagt við bryggju, enda hafi það verið orðið óhaffært.  Stefnda sagði stefnanda og öðrum skipverjum á Gylli upp störfum þann 29. nóvember 1999.  Var ástæða uppsagnar tilgreind fyrirhuguð slipp­taka.

 Siglingastofnun Íslands svipti Gylli haffæri þann 30. nóvember 1999 og tók haffærisskírteini skipsins í sínar vörslur.  Stefnandi og fleiri skipverjar á Gylli tilkynntu stefnda með bréfi dagsettu sama dag, að þeir riftu ráðningu sinni með vísan til 1. tl. 1. mgr. 19. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr. 19. gr.  Ritaði stefnandi um það yfirlýsingu til stefnda, dagsetta þann 30. nóvember 1999, svohljóðandi:

„Þar sem lekið hefur í gegnum skrúfuhaus línubátsins Gyllis ÍS-261 sl. 2-3 mánuði og þar sem hann gaf sig endanlega í dag 30. nóvember 1999, rifti ég ráðningu minni á bátnum.  Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli mín til fyrirsvarsmanna útgerðarinnar undanfarna mánuði að gera bót á óhaffærni bátsins hefur ekkert verið gert til úrbóta.  Ég fékk loforð sl. sumar um að skrúfuhausinn yrði lagaður þ. 11. október 1999 enda hafði fyrirsvarsmaður útgerðarinnar pantað slipptöku þann dag.  Af því varð þó ekki og bar þáv. útgerðarstjóri útgerðarinnar því fyrir sig að fjárskortur hamlaði möguleikum útgerðarinnar til að aðhafast vegna nefndrar bilunar.  Þá hafði ljósavél bátsins verið biluð síðan í júní 1999 og gerði útgerðin engar úrbætur í þeim efnum þrátt yfir ítrekuð tilmæli mín í þeim efnum.

Riftunina byggi ég á 19. gr. sjómannalaga, sbr. 25. gr. sömu laga, enda var báturinn sviptur haffærnisskírteini í dag 30. nóvember 1999, af starfsmanni Siglingastofnunar Íslands á Ísafirði.  Það er mín sannfæring að ef fyrirsvarsmenn útgerðarinnar hefðu brugðist við í tíma og hlustað á kröfur mínar um viðgerð á skrúfuhaus bátsins hefði sú staða sem nú er uppi aldrei komið til.  Hefði báturinn verið tekinn í slipp af þessum sökum þ. 11. október s.l. eins og ráð var fyrir gert hefði viðgerðin vart tekið meira en 7-10 daga.  Núverandi staða er hins vegar sú að bið er eftir slipp til umræddra viðgerða og framtíð mín sem og áhafnarinnar allrar með öllu óljós.  Tel ég því að brostnar séu forsendur fyrir ráðningar­samn­ingi mínum við útgerðina sem skipstjóri á Gylli ÍS-261.  Að lokum vil ég benda á að trassaskapur útgerðarinnar í viðhaldsmálum bátsins hefði hæglega getað stofnað lífi mínu og áhafnarinnar í hættu og að engin trygging hafi í raun enn verið sett fyrir því af hálfu fyrirsvarsmanna útgerðarinnar að nefndar viðgerðir á bátnum verði framkvæmdar.  Er erfitt að gera sér í hugarlund að um það geti verið að ræða í nánustu framtíð með hliðsjón af því að allri áhöfninni var sagt upp störfum í dag.“

Stefnandi, ásamt fleiri skipverjum sigldi Gylli til Hafnarfjarðar í des­ember 1999, með sérstöku samkomulagi um þá ferð við fyrirsvarsmenn stefnda og með sérstakri heimild Siglingastofnunar.  Ekki liggur fyrir að skipið hafi verið sett í slipp.

Í málinu liggur frammi ljósrit af bréfi Heiðars Kristinssonar, starfsmanns skrif­stofu Siglingastofnunar á Ísafirði til Guðmundar Guðmundssonar, Siglinga­stofn­un Íslands, Kópavogi, varðandi framlengingu, sviptingu og nýtt haf­færis­skír­teini Gyllis ÍS-261.  Skýrir starfsmaðurinn þar svo frá að fallist hafi verið á ósk um að framlengja gildistíma skírteinisins, með vísan til þess að fyrirhugað væri að skipið færi í slipp til viðhalds og eftirlits í desember 1999 og yrði skoðað í framhaldi af því.  Hafi ekki verið vitað annað en að skipið væri í góðu ástandi.  Hafi stefnandi komið á skrifstofuna 25. nóvember 1999 og skírteinið þá verið áritað.  Hafi ekkert komið fram þá sem gæti hafa verið tilefni þess að synja um fram­lengingu þess.   Þann 30. nóvember hafi frést fyrir tilviljun að verið væri að binda Gylli á Flateyri vegna bilunar í skiptingu og leka með skrúfuhaus.  Hafi þá verið hringt um borð í skipið og talað við stefnanda, sem staðfest hafi ofangreind atriði og ennfremur að bilun væri í ljósavél.  Í framhaldi hafi bréfritari afturkallað framlengingu skírteinisins „enda ekkert vitað hvað yrði með framhald á útgerð skipsins.“

Stefnda kærði ákvörðun Siglingastofnunar Íslands um sviptingu haf­færis­skír­teinis Gyllis til samgönguráðherra.  Felldi hann ákvörðunina úr gildi þann 27. júní sl. með úrskurði sem lögmaður stefnda lagði fram við aðalmeðferð málsins.  Í forsendum úrskurðarins segir að ekki verði séð að skipið hafi verið skoðað sérstaklega, hvorki áður en gildistími skírteinisins var framlengdur þann 25. nóvember 1999, né áður en framlenging var afturkölluð þann 30. nóvember s.á., þrátt fyrir að ekki hafi verið vitað annað en að skipið hafi verið í góðu ástandi er gildistíminn var framlengdur fimm dögum áður.  Verði ekki heldur séð að starfs­maður Siglingastofnunar hafi áritað haf­færis­skír­teinið um afturköllun fram­leng­ing­ar­innar eða tilkynnt útgerð sérstaklega um aftur­köll­unina.  Framlenging haf­færisskírteinisins hafi því verið veitt án skilyrða og það ekki áritað um að hún væri veitt til að sigla skipinu í slipp til viðgerðar, sbr. skírteini sem gefið var út þann 13. desember 1999.  Er í úrskurðinum á það fallist með stefnda að við afturköllun haffærisskírteinisins hafi ekki verið gætt ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, aðlútandi rannsóknarreglu 10. gr., andmælarétti 8. gr. og meðal­hófs­reglu 12. gr.   Tekið er fram að ekki sé lagt efnislegt mat á það hvernig haffærni skips­ins hafi verið háttað þann 30. nóvember 1999.

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og vitnin Hinrik Kristjánsson og Steinþór Bjarni Kristjánsson skýrslur fyrir dómi.

Frávísunarkrafa stefnda er á því reist að samgönguráðherra hafi ógilt ákvörð­un Siglingastofnunar Íslands um að afturkalla framlengingu haf­færis­skírteinis Gyllis og sé þar með brostinn grundvöllur fyrir málshöfðun stefnanda.  Stefn­andi byggir málsókn þessa á riftun skiprúmssamnings síns við stefnda.  Þyk­ir verða að leysa efnislega úr ágreiningi aðila um það hvort grundvöllur riftunar hafi verið fyrir hendi.  Verður af þeim sökum ekki á frávísunarkröfu stefnda fall­ist.

Stefnandi kveðst byggja á því að sér beri réttur til launa í þrjá mánuði vegna riftunar sinnar á ráðningarsamningi aðila í samræmi við ákvæði 1. tl. 1. mgr. 19. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þar sem kveðið sé á um það að skipverji geti krafist lausnar úr skiprúmi, verði skip óhaffært.  Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. eigi skipverji þá rétt á bótum samkvæmt 45. gr. sjómannalaga þann tíma sem 44. gr. mæli fyrir um, en uppsagnarfrestur skipstjóra sé þrír mánuðir.  Í stefnu kveðst stefn­andi byggja á því að Gyllir hafi verið sviptur haffærisskírteini þann 30. nóvember 1999 og þar með verið óhaffær.  Við munnlegan flutning málsins var einnig á því byggt af hálfu stefnanda að skipið hafi verið óhaffært, burtséð frá sviptingu haffærisskírteinisins. 

Um útreikning bótafjárhæðar vísar stefnandi til 25. gr. og 1. mgr. 45. gr. sjómannalaga og miðar við meðaltalslaun sín hjá stefnda frá ársbyrjun 1999 til nóvemberloka s.á.

Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið lagaskilyrði til þess að rifta ráðningarsamningi aðila.  Stefnda hafi alfarið staðið við skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningnum og sagt honum upp með lögmætum hætti og með samningsbundnum uppsagnarfresti.  Verði samningi ekki rift, hafi honum áður verið sagt upp með lögmætum hætti.  Þá verði riftun ekki byggð á 19. gr. sjómannalaga, sem fjalli um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi ef skip verður óhaffært og skipstjóri bætir eigi úr því.  Verði þessari grein ekki beitt í tilviki stefnanda.  Virðist sem hún taki ekki til skipstjóra og hann eigi ekki þann rétt sem hún kveði á um, heldur aðeins aðrir áhafnarmenn.  Þá hafi atvik ekki verið með þeim hætti að skipið hafi verið óhaffært og skipstjóri neitað að bæta úr því, þrátt fyrir tilmæli skipverja.  Hafi legið fyrir að skipið ætti að fara í slipp til viðhalds og viðgerða og um það hafi stefnanda verið kunnugt þegar hann fékk haffærisskírteini framlengt þann 25. nóvember 1999, enda hafi hann þá engar athugasemdir gert um ástand þess, hvað þá að hann lýsti það óhaffært.  Í næstu veiðiferð hafi orðið bilun í skipinu og hafi áhöfninni þá verið sagt upp störfum, þar sem skipið hafi átt að fara í slipp til viðgerðar.

Einnig er byggt á því af hálfu stefnda að afturköllun haffærisskírteinis Gyllis hafi verið markleysa og beri að líta framhjá henni.  Verði því að leggja til grundvallar að Gyllir hafi haft gilt haffærisskírteini til 31. desember 1999.

Ekki verður á það fallist með stefnda að riftun skiprúmssamnings stefnanda hafi verið óheimil þegar af þeirri ástæðu að honum hafði áður verið sagt upp af hálfu stefnda.  Verður almennt að líta svo á að aðilum vinnusamings sé riftun hans heimil þótt samningi hafi verið sagt upp af hálfu annars hvors, ef skilyrði riftunar eru á annað borð fyrir hendi.

Ekki verður annað lagt til grundvallar eins og málið liggur fyrir en að Gyllir hafi verið í haffæru standi fram til þess að leka fór með skrúfuhaus og hætta varð veiðum 28. nóvember 1999.  Aðilar eru hins vegar sammála um það að eftir þá bilun hafi ekki verið unnt að halda skipinu til veiða án úrbóta.  Kveður stefnda það ekki hafa verið fyrirhugað, heldur hafi eingöngu verið ætlunin að sigla skipinu til Reykjavíkur til slipptöku.

Við það verður að miða að Gyllir hafi verið sviptur haffærisskírteini þann 30. nóvember 1999 með þeim hætti að Siglingastofnun tók það í sína vörslu.  Ákvörðun um þessa sviptingu var ógilt af ráðherra, eins og rakið er hér að framan.  Þrátt fyrir að hún hafi nú verið ógilt, var skipið óhaffært vegna hennar meðan það ástand varði sem af henni leiddi, þar sem það hafði ekki gilt haffærisskírteini, en samkvæmt 1. tl. 16. gr. laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum skal telja skip óhaffært þegar svo er ástatt.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sjómannalaga getur skipverji krafist lausnar úr skiprúmi ef skipið verður óhaffært eða íbúðir skipverja eru heilsuspillandi að mati réttra yfirvalda og skipstjóri bætir eigi úr því.  Samkvæmt 2. mgr. á skipverji, sem fær lausn úr skiprúmi eftir ákvæðum 1. mgr., rétt á bótum, ferðakostnaði og fæðiskostnaði eftir því sem segir í 25. gr.  Samkvæmt 5. gr. laganna er með skipverja átt við hvern þann sjómann sem á skip er ráðinn til skipsstarfa.  Er skipstjóri þar ekki undanskilinn.  Samkvæmt 42. gr. laganna skal útgerðarmaður sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur við skipstjóra þar sem kveðið sé á um ráðningarkjör hans og samkvæmt 43. gr. skulu ákvæði laganna um skiprúmssamninga gilda eftir því sem við getur átt um ráðn­ingar­samning við skipstjóra með þeim breytingum sem leiðir af 44.- 48. gr.

Samkvæmt ofansögðu verður að miða við það að fyrirhugað hafi verið að gera margnefnt skip út til línuveiða fram í desember 1999, enda hafi haf­færis­skírteini fengist framlengt í því skyni.  Sú ráðagerð fór út um þúfur vegna bilunar, sem girti fyrir áframhaldandi útgerð skipsins án úrbóta.  Var skipverjum þá sagt upp skiprúmi, þ.m.t. stefnanda, með vísan til þess að slipptaka væri fyrir­huguð.

Réttarstaða skipstjóra er á margan hátt, bæði gagnvart útgerðarmanni og þriðja aðila, verulega frábrugðin réttarstöðu annarra skipverja, enda eru mörg sérákvæði um skipstjóra bæði í sjómanna- og siglingalögum.  Er það á ábyrgð  skipstjóra að annast um að skip sé haffært og að það sé vel útbúið, sbr. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985.  Verður að skilja ákvæði 1. mgr. 19. gr. sjómannalaga á þann veg að það sé ætlað skipverjum til verndar og sem úrræði í því tilviki að skipstjóri gegni eigi skyldu sinni í þessu efni, heldur hyggi á að sigla skipi óhaffæru.  Sigling skips er á valdi skipstjóra, sbr. 49. gr. sjómannalaga.  Þegar af þessum ástæðum var stefnanda ekki rétt að krefjast lausnar úr skiprúmi sínu á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 35/1985, þar sem sigling skipsins var á hans valdi, stöðu hans samkvæmt.  Verður stefnda því sýknað af dómkröfum hans í máli þessu, en eftir atvikum þykir þó rétt að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Stefnda, Básafell hf., er sýknað af  kröfum stefnanda, Aðalsteins Rúnars Friðþjófssonar í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.