Hæstiréttur íslands

Mál nr. 613/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Innsetning


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2006.

Nr. 613/2006.

Hreinn Jakobsson

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Skýrr hf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Aðför. Innsetning.

H var sagt upp starfi forstjóra S hf. og var um leið gert að láta af störfum hjá félaginu. Á uppsagnarfrestinum var hann ráðinn framkvæmdastjóri hjá A hf., sem var í samkeppni við S hf. Síðargreinda félagið krafðist þess þá að bifreið, sem H hafði til umráða í samræmi við ráðningarsamning milli aðila, yrði tekin af honum með beinni aðfarargerð. Talið var að það hefði ekki samrýmst trúnaðarskyldum H við S hf. að taka að sér starf framkvæmdastjóra hjá félagi, sem væri í samkeppni við S hf. Var félaginu því rétt að rifta samningi aðila um framangreinda bifreið og krefjast þess að hún yrði afhent félaginu með beinni aðfarargerð. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. nóvember 2006 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum væri með beinni aðfarargerð heimilt „að fá umráð bifreiðarinnar TR 812 ... úr vörslum“ sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili gegndi starfi forstjóra varnaraðila þegar honum var sagt upp störfum. Þó að honum hafi verið gert að láta strax af störfum hvíldu áfram á honum ákveðnar trúnaðarskyldur gagnvart varnaraðila á uppsagnarfresti. Samrýmdist það ekki þeim skyldum að taka að sér starf framkvæmdastjóra hjá félagi, sem óumdeilt er að starfi í samkeppni við varnaraðila. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hreinn Jakobsson, greiði varnaraðila, Skýrr hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. nóvember 2006.

Umrædd aðfararbeiðni barst héraðsdómi 11. september 2006.  Beiðnin var tekin fyrir þann 27. september 2006 og 11. október s.á. þar sem dómari leitaði sátta með aðilum en án árangurs. Beiðnin var þá tekin fyrir 23. október 2006 og tekin  til úrskurðar þann dag að loknum munnlegum mál­flutningi. Gerðarbeiðandi er Skýrr ehf., [kt.], Ármúla 2, Reykjavík. Gerðarþoli er Hreinn Jakobsson, [kt.], Krókamýri 56, Garðabæ.

Gerðarbeiðandi krefst að honum verði með úrskurði veitt heimild til að fá umráð bifreiðarinnar TR 812, sem er af gerðinni Porsche Cayenne, árgerð 2005, úr vörslum gerðarþola, sem haldi henni í sínum vörslum.

Þá krefst gerðarbeiðandi að innsetning í umráð gerðarþola yfir bifreiðinni fari fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi gerðarþola samkvæmt mati dómsins. 

Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað.  Þá er krafist greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og þess krafist að dæmdur málskostnaður taki mið af því að gerðarþoli sé ekki virðisaukaskattskyldur.

I.

Að sögn gerðarbeiðanda eru málsatvik þau að gerðarþoli hafi til skamms tíma verið forstjóri gerðarbeiðanda.  Samkvæmt ráðningarsamningi sem aðilar hafi gert með sér 15. ágúst 1997 skyldi gerðarþoli, auk umsaminna launa, njóta tiltekinna hlunninda.  Um þau sé svohljóðandi ákvæði í 5. gr. samningsins:

,,Fyrirtækið leggur forstjóra til bifreið (nú að verðmæti fyrir ekki hærri upphæð en k. 3.5. m.kr.) og annast allan rekstur bílsins.  Gert er ráð fyrir eðlilegri endurnýjun bílsins á fjögurra ára fresti.  Fyrirtækið annast rekstur heimasíma og farsíma fyrir forstjóra enda sé um að ræða verulega notkun í þágu fyrirtækisins. 

,Skattalegar afleiðingar, sem forstjóri kann að verða fyrir vegna áðurnefndra hlunninda, eru fyrirtækinu óviðkomandi.”

Kveður gerðarbeiðandi að eftir gerð ráðningarsamningsins hafi nokkrum sinnum verið gerðar á honum breytingar.  Þannig hafi t.d. uppsagnarfrestur ráðningarsamningsins verið lengdur í 12 mánuði með samkomulagi 20. mars 2003, en að aðrar breytingar sam gerðar hafi verið á samningnum snerti ekki þau hlunnindi sem hér verði til skoðunar.

Kveður gerðarbeiðandi að með bréfi stjórnar gerðarbeiðanda til gerðarþola 7. apríl 2006 hafi honum verið sagt upp starfinu hjá gerðarbeiðanda og hafi hann látið af störfum þegar í stað samkvæmt ákvörðun gerðarbeiðanda.  Í uppsagnarbréfinu hafi m.a. sagt:

,,Félagið mun að sjálfsögðu greiða þér umsamin laun á uppsagnarfrestinum í samræmi við almennar reglur og haga launauppgjöri með sama hætti og áður hefur verið. ... Þess er óskað að þú skilir nú til félagsins þeim hlunnindum sem þú ert með í þínum vörslum og tilheyra félaginu, greiðslukorti og öðru, að undanskilinni bifreið þeirri sem þú hefur afnot af á uppsagnarfrestinum. ... Að gefnu tilefni sér stjórn félagsins ástæðu til að minna á, að allar trúnaðarskyldur milli aðila eru í fullu gildi allan uppsagnarfrestinn.”

 

Gerðarbeiðandi kveður gerðarþola hafa tekið við forstjórastarfi hjá Anza hf. 1. september 2006.  Anza hf. sé dótturfyrirtæki Símans hf. og starfi í harðri samkeppni við gerðarbeiðanda, rétt eins og móðurfyrirtækið.  Þegar fréttir hafi borist af þessari breytingu á högum gerðarþola hafi gerðarbeiðandi tilkynnt gerðarþola skriflega þá ákvörðun sína að stöðva frekari launagreiðslur til gerðarþola og hafi jafnframt krafist þess að honum yrði gert að skila félaginu bifreiðinni sem hann hafi haft afnot af á uppsagnarfrestinum.

Kveður gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi ekki tilkynnt sér um launakjör er nýja starfinu fylgi.  Telur gerðarbeiðandi augljóst að ákvæði ráðningarsamnings hans við gerðarþola um að fyrirtækið leggi forstjóra til bifreið geti ekki lengur átt við þegar gerðarþoli hafi tekið við forstjórastarfi hjá öðru fyrirtæki.  Í uppsagnarbréfinu sé tekið skýrt fram að á uppsagnarfrestinum gildi allar trúnaðarskyldur samkvæmt ráðningarsamningnum, en gerðarþoli hafi kosið að hafa það að engu og ráðið sig til forstjórastarfs hjá samkeppnisaðila þótt enn sé meira en helmingur eftir af uppsagnarfresti hans.

Kveður gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi með bréfi 4. september 2006 tilkynnt stjórnarformanni gerðarbeiðanda að hann teldi gerðarbeiðanda óheimilt að stöðva launagreiðslur til sín og að hann áskildi sér rétt til að höfða mál vegna þeirra og ýmissa annarra atriða, þ.á.m. skaðabóta vegna þess að gerðarbeiðandi hafi svert mannorð hans.  Í lok bréfsins segi hann síðan: ,,Verði launagreiðslu stöðvaðar mun undirritaður halda eftir umræddri bifreið sem tryggingu fyrir ógreiddum launum...” Kveður gerðarbeiðandi að samkvæmt þessu hafi gerðarþoli tekið sér það vald að kyrrsetja bifreiðina til tryggingar hugsanlegum kröfum sínum á hendur gerðarbeiðanda.  Kveðst gerðarbeiðandi að sjálfsögðu ekki una þessu og krefjist þess að fá úrskurð um heimild sína til að taka bifreiðina úr vörslum gerðarþola.

Aðfararbeiðni þessi sé sett fram með heimild í 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Kveðst gerðarbeiðandi vera eigandi bifreiðarinnar TR 812.  Umráð gerðarþola yfir bifreiðinni hafi byggst á samningsákvæði sem gerðarþoli geti ekki lengur byggt neinn rétt á vegna atvika sem gerðarþoli hafi einn stýrt, þ.e. með því að ráða sig til starfa annars staðar.  Gerðarbeiðandi telur augljóst að samningsákvæði um að fyrirtækið leggi ,,forstjóra” til bifreið og reki hana geti ekki náð til þess að fyrirtækið eigi að leggja forstjóra annars fyrirtækis en gerðarbeiðanda til bifreið.

Kveður gerðarbeiðandi að framangreindar ástæður gerðarþola fyrir því að neita að skila bifreiðinni vera haldlausar, enda séu engar heimildir til í lögum til þess að menn geti ákveðið að halda eignum annarra til tryggingar hugsanlegum skaðabótakröfum.  Slík háttsemi hafi jafnan verið kölluð að taka lögin í sínar hendur, og að hún njóti vitaskuld ekki réttarverndar.  Jafnframt vísar gerðarbeiðandi til meginreglna eignarréttarins og reglna samninga – og kröfuréttar um brostnar forsendur.

II.

Gerðarþoli lýsir málavöxtum svo að þann 15. ágúst 1997 hafi gerðarþoli og gerðarbeiðandi gert með sér ráðningarsamning.  Gerðarþoli hafi verið ráðinn forstjóri gerðarbeiðanda.  Í 5. gr. ráðningarsamningsins hafi verið ákvæði um að gerðarbeiðandi skyldi leggja gerðarþola til bifreið.  Þann 20. mars 2003 hafi verið gerð breyting á ráðningarsamningi gerðarþola.  Meðal breytinganna hafi verið að uppsagnarfrestur gerðarþola hafi verið lengdur.

Kveður gerðarþoli að þann 7. apríl 2006 hafi honum verið tilkynnt um uppsögn ráðningarsamningsins frá 15. ágúst 1997.  Þar hafi komið fram að gerðarbeiðandi myndi greiða umsamin laun í uppsagnarfresti.  Ennfremur hafi þess verið óskað að gerðarþoli skilaði hlutum, í eigu gerðarbeiðanda og hafi verið í vörslum gerðarþola.  En sérstaklega hafi verið tekið fram að gerðarþoli skyldi halda í vörslum sínum á 12 mánaða uppsagnarfrestinum bifreiðinni, sem hann hafði haft til umráða, skv. 5. gr. ráðningarsamningsins.

Kveður gerðarþoli að þann 1. september 2006 hafi honum verið tilkynnt að stjórn gerðarbeiðanda hefði tekið ákvörðun um að stöðva launagreiðslur, skv. ráðningarsamningnum.  Sú ákvörðun hafi verið sögð byggð á vitneskju stjórnarinnar um að gerðarþoli hafi ráðið sig til annars fyrirtækis.  Jafnframt hafi þess verið krafist að gerðarþoli skilaði bifreið sem hann hafi átt að hafa til umráða á uppsagnarfrestinum.

Kveðst gerðarþoli hafa í bréfi frá 4. september 2006 mótmælt ákvörðun stjórnar gerðarbeiðanda um að stöðva samningsbundnar launagreiðslur til hans.  Kveðst gerðarþoli hafa byggt mótmæli sín á 10. gr. ráðningarsamningsins og uppsagnarbréfi gerðarbeiðanda frá 7. apríl 2006.  Þann 7. september 2006 hafi gerðarbeiðandi krafist innsetningar í umráð gerðarþola yfir bifreiðinni TR 812.

Gerðarþoli kveðst hafna því að gerðarþoli hafi brotið trúnaðarskyldur milli aðila með því að ráða sig í vinnu hjá Anza hf.  Byggir hann á því að ekki séu skilyrði fyrir því að lögum að verða við kröfu gerðarbeiðanda, enda hafi hann ekki brotið ákvæði ráðningarsamnings milli aðila frá 15. ágúst 1997, með síðari breytingum, og hafi ekki brotið gegn trúnaðarskyldum.

Kveður gerðarþoli að í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför felist skilyrði um að þau réttindi sem krafist sé að fullnægt verði með aðför séu ljós.  Við skýringu skilyrðisins verði að horfa til þess, að aðfarargerð samkvæmt 78. gr. aðfararlaga sé bráðabirgðagerð, en slíkar gerðir séu undantekning frá þeirri meginreglu, að aðför fari ekki fram án undangengins dóms.  Af þessu leiði, að skýra beri ákvæði 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga þröngri lögskýringu og gera í því sambandi sérstaklega strangar kröfur til gerðarbeiðanda um að hann sanni rétt sinn.  Kveðst gerðarþoli reisa kröfu sína um að kröfu gerðarbeiðanda um beina aðfarargerð skv. 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga verði hafnað á eftirtöldum sjónarmiðum.

Gerðarþoli kveður fyrirsvarsmann gerðarbeiðanda hafa þann 7. apríl 2006 sent tilkynningu um uppsögn ráðningarsamnings við gerðarþola.  Þessi uppsögn hafi verið fyrirvaralaus og að í henni hafi komið fram eftirfarandi orð: ,, Þú ert hér með leystur undan vinnu- eða viðveruskyldu á uppsagnarfrestinum og þess er óskað að þú yfirgefir vinnustaðinn eins fljótt og við verður komið.”  Tekið sé fram að gerðarþoli haldi fullum launum og afnotum bifreiðar.  Gerðarþoli kveður að í tilkynningunni um uppsögn séu ekki tilgreindar neinar ástæður fyrir því að gerðarþola sé sagt upp störfum hjá gerðarbeiðanda, enda sé uppsögnin tilefnislaus af hálfu gerðarþola.  Í 9. gr. ráðningarsamnings gerðarþola við gerðarbeiðanda frá 15. ágúst 1997 sé ákvæðið sem nefnist ,,Samkeppnishömlur”.  Í því komi fram að gerðarþola sé óheimilt að ráða sig í vinnu hjá samkeppnisaðila gerðarbeiðanda í tvö ár frá því að hann hætti störfum.  Kveður gerðarþoli að gert sé ráð fyrir slíkum samkeppnishamlandi ákvæðum í ráðningarsamningum hér á landi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Slík ákvæði sæti hins vegar takmörkun af 2. mgr. 37. gr. sömu laga.  Kveður gerðarþoli ekkert hafa komið fram í málinu, né hafi gerðarbeiðandi sýnt fram á nokkuð það, sem réttlæti uppsögn gerðarþola úr starfi forstjóra Skýrr hf.  Af þessu leiði að ákvæði 9. gr. ráðningarsamningsins frá 15. ágúst 1997 bindi ekki gerðarþola. Honum hafi verið heimilt að ráða sig til vinnu hjá Anza hf.

Kveður gerðarþoli að þegar honum hafi einhliða og fyrirvaralaust verið gert að víkja úr starfi hjá gerðarbeiðanda hafi sérstaklega verið tekið fram, eins og komi fram í aðfararbeiðni gerðarbeiðanda, að hann skyldi hafa afnot af bifreiðinni TR 812.  Ennfremur sé, í tilkynningu um uppsögn, tekið fram að trúnaðarskyldur milli aðila séu í gildi allan uppsagnarfrestinn, sem sé 12 mánuðir, skv. breytingu við upphaflegan ráðningarsamning frá 15. ágúst 1997. 

Kveðst gerðarþoli hafna því að hafa brotið trúnaðarskyldur sínar gagnvart gerðarbeiðanda, enda hafi gerðarbeiðandi ekki sýnt fram á nein dæmi þess.  Þótt gerðarþoli hafi ráðið sig í vinnu hjá Anza hf. hafi það auðvitað ekki sjálfkrafa í för með sér brot á trúnaðarskyldum.  Meint brot verði að sanna, sbr. H. 2002:419.

Kveður gerðarþoli vörslur hans á bifreiðinni TR 812 sem gerðarbeiðandi krefjist umráða yfir, byggjast á 10. gr. ráðningarsamnings frá 15. ágúst 1997, með síðari breytingum, og tilkynningu fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda um uppsögn frá 7. apríl 2006, en í tilkynningunni sé sérstaklega tekið fram að gerðarþoli skuli hafa vörslur bifreiðarinnar þar til uppsagnarfresturinn sé á enda.

Gerðarþoli telur að öllu framangreindu virtu að ljóst sé að þau skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför séu ekki uppfyllt ,,að krafa gerðarbeiðanda sé skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana”, sbr. athugasemdir um 78. og 79. gr. í greinargerð frumvarps til laga um aðför nr. 90/1989.  Kveður gerðarþoli að ennfremur skuli, skv. 2. ml. 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga, að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem heimilt sé að afla.  Beri því að hafna kröfu gerðarbeiðanda um innsetningu í bifreiðina TR 812.

Í munnlegum málflutningi krafðist gerðarþoli þess með vísan til 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga að nái gerðin fram að ganga skuli kæra til æðri dóms fresta aðfarargerð.  Einnig vísaði gerðarþoli til gerðardómsákvæðis í ráðningarsamningi.  Gerðarbeiðandi mótmælti þeirri málsástæðu sem of seint fram kominni.

Gerðarþoli byggir málskostnaðarkröfu sína á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988.

III.

             Óumdeilt er að aðilar þessa máls gerðu þann 15. ágúst 1997, með sér ráðningarsamning. Gerðarþoli var ráðinn forstjóri gerðarbeiðanda og hlaut samkvæmt ráðningarsamningnum, auk umsaminna launa, ákveðin hlunnindi.  Samkvæmt 5. gr. ráðningarsamningsins skyldi gerðarbeiðandi leggja gerðarþola til bifreið og annast allan rekstur bifreiðarinnar.  Þann 20. mars 2003 var gerð breyting á ráðningarsamningnum þar sem 10. gr. hans um uppsagnarfrest var breytt þannig að uppsögn og starfslok yrðu eftirleiðis miðuð við 12 mánuði. Þannig ætti fyrirtækið að geta sagt upp samningnum með 12 mánaða fyrirvara og með gagnkvæmum hætti hefði forstjóri 12 mánaða uppsagnarfrest.

Þann 7. apríl 2006 var gerðarþola tilkynnt með bréfi stjórnar gerðarbeiðanda að honum væri sagt upp störfum hjá gerðarbeiðanda og á sama tíma var hann leystur undan vinnu- og viðveruskyldu á uppsagnarfrestinum og þess óskað að hann yfirgæfi vinnustaðinn eins fljótt og við yrði komið.  Í uppsagnarbréfinu lofar gerðarbeiðandi að greiða gerðarþola umsamin laun á uppsagnarfrestinum í samræmi við almennar reglur.  Einnig voru gerðarbeiðanda lofuð á uppsagnarfresti afnot af bifreið þeirri sem hann hafði haft samkvæmt ráðningasamningi aðila. Þá áréttaði gerðarbeiðandi einnig í bréfinu  að allar trúnaðarskyldur milli aðila skyldu gilda út uppsagnarfrestinn.

Meðan á uppsagnarfresti stendur ber starfsmaður sömu trúnaðarskyldur við vinnuveitanda og ef hann væri í raun í starfi.  Á uppsagnarfresti þiggur starfsmaður laun og má að sama skapi ekki aðhafast neitt það, er skaðað getur atvinnurekanda.  Breytir þar engu um hvort starfsmanni er vikið úr starfi eða hvort hann segir því lausu sjálfur.  Gerðarbeiðandi hefur haldið því fram að gerðarþoli hafi hafið störf hjá Anza hf. sem sé í harðri samkeppni við gerðarbeiðanda og er því ómótmælt af hálfu gerðarþola.  Vegna þessa lýsti gerðarbeiðandi því yfir í bréfi sínu til gerðarþola þann 1. september 2006 að stjórn gerðarbeiðanda hefði ákveðið að stöðva til hans launagreiðslur frá og með 1. september 2006.  Sú ákvörðun byggðist á því að stjórninni var kunnugt um að gerðarþoli hefði ráðið sig í þjónustu annars fyrirtækis sem er í harðri samkeppni við gerðarbeiðanda.  Dómurinn fellst á það sjónarmið gerðarbeiðanda að gerðarþoli hafi með þessu athæfi, að ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðila, brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við gerðarbeiðanda.   Verður því að líta svo á að samkvæmt efni bréfs gerðarbeiðanda til gerðarþola þann 1. september 2006 þar sem tilkynnt var um stöðvun á launagreiðslum, hafi samningi þeim sem fyrir hendi var milli aðila um afnot bifreiðarinnar TR 812 verið rift.  Gerðarþoli getur því ekki lengur borið fyrir sig umráðarétti bifreiðarinnar með vísan til ráðningarsamnings og uppsagnarbréfs. Eignarréttur gerðarbeiðanda yfir bifreiðinni TR 812 er skýr og hefur eigi verið mótmælt af hálfu gerðarþola.  Verður því að byggja á því að gerðarbeiðanda hafi verið heimilt, eins og málið liggur fyrir dóminum, að binda endi á afnot gerðarþola af bifreiðinni. Hefur gerðarþoli ekki að mati dómsins sýnt fram á að sú aðgerð hafi ekki verið lögmæt af hálfu gerðarbeiðanda. Verður gerðarþoli að bera hallan af því í máli þessu.  Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður ekki talið óvarlegt að hin umbeðna gerð nái fram að ganga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 eru því fyrir hendi skilyrði ákvæðisins og ber að taka til greina kröfu gerðarbeiðanda um aðfarargerð.  Málskot til æðri dóms frestar ekki aðfarargerð þessari.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin umbeðna gerð má fara fram.

Gerðarþoli, Hreinn Jakobsson, kt. 150460-3529, greiði gerðarbeiðanda Skýrr hf. kt. 590269-7199, 100.000 krónur í málskostnað.

Kæra úrskurðar til Hæstaréttar frestar ekki réttaráhrifum hans.